Fyrsta prentaða ritgerðin um stjörnufræði eftir íslenskan höfund

Um fastastjörnur og föruhnetti. Forsíðan á dispútatíu Gísla Þorlákssonar frá 1651. Tengill hér

Höfundur þessa verks var Hafnarstúdentinn Gísli Þorláksson (1631-1684),  sem síðar varð eftirmaður föðurs síns, Þorláks Súlasonar, í biskupsembætti á  Hólum. Ritgerðin er svokölluð dispútatía, stúdentafyrirlestur sem haldinn var við Háskólann í Kaupmannahöfn í ársbyrjun 1651.

Gísli Þorláksson Hólabiskup ásamt eiginkonu sinni Ragnheiði Jónsdóttur (til vinstri). Tvær fyrri eiginkonur hans, Gróa Þorleifsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir eru einnig með á þessu málverki frá 1684.

 

Gísli Þorláksson í Kaupmannahöfn 1649-1652

Að loknu námi í Hólaskóla sigldi Gísli til Kaupmannahafnar haustið 1649. Með skipinu var einnig kennari hans frá Hólum, Runólfur Jónsson (1619-1654), sem var vel að sér í stærðfræðilegum lærdómslistum og hélt um skeið einskonar skóla í náttúruspeki (physica) fyrir háskólastúdenta í Kaupmannahöfn.

Gísli var skráður nemandi við Hafnarháskóla í desember 1649. Einkakennari hans  (praeceptor privatus) var Jörgen From (1605-1651), prófessor í stjörnufræði. Þar sem engin mynd mun vera til af From birti ég í staðinn mynd af forsíðu kennslubókar hans í reiknislist, sem annar nemandi hans,  Gísli Einarsson (1621-1688), fyrsti konungsskipaði kennarinn í stærðfræði og stjörnufræði á Íslandi, hefur líklega notað við kennslu í Skálholti (sjá meira hér).

Kennslubók Jörgens Froms í reikningslist frá 1649. Hér er  tengill á bókina.

Aðalnámsgrein Gísla Þorlákssonar við Háskólann var guðfræði, en hann virðist einnig hafa haft áhuga á stjörnufræði og náttúruspeki. Sennilega var þar um að ræða áhrif frá þeim Runólfi og From. Árið 1650 sótti Gísli, ásamt vini sínum Willum Worm  (1633-1704), skóla í náttúruspeki hjá Jens Jensen Bircherod (1623-1686). Það bendir væntanlega til þess að Runólfur hafi ekki haldið sinn skóla það árið.

Jens Jensen Bircherod, prófessor við Hafnarháskóla frá 1661.

Við skólalok dispúteruðu ýmsir nemendur Bircherods, þar á meðal þeir Worm og Gísli.  Eins og áður hefur komið fram hélt Gísli sinn fyrirlestur, De stellis fixis et errantibus,  í byrjun árs 1651 og gaf hann út á prenti. Hér verður að lokum fjallað um nokkur valin atriði í þessari  ágætu ritgerð, en mun ítarlegri umfjöllun höfundar þessarar færslu má finna í grein frá 2006 (bls. 11-14; þar er einnig sagt frá Runólfi Jónssyni (bls. 10-11).

De stellis fixis et errantibus

Dispútatía Gísla er elsta prentaða verkið um stjörnufræði og náttúruspeki eftir íslenskan höfund. Það eitt gefur verkinu mikilvægt menningarsögulegt gildi. Að auki veitir það fróðlegar upplýsingar um háskólanámsefnið í stjörnufræði og náttúruspeki í Kaupmannahöfn um miðja sautjándu öld.

Samkvæmt venju þessa tímabils var titill dispútatíunnar æði langur. Íslensk þýðing gæti hljóðað svo:

Áttundi fyrirlestur Náttúruspekiskólans um fastastjörnur og föruhnetti, sem höfundur og verjandi, Íslendingurinn Gísli Þorláksson, með hjálp Guðs hins þrisvar besta og mesta og samþykki hins virðulega Háskólaráðs, lagði fram hyggnum heimspekingum til friðsamlegrar umræðu undir forsæti Jens Jensens Bircherod, 29. janúar árið 1651 frá kl. eitt eftir hádegi í neðri fyrirlestrarsalnum.      Kaupmannahöfn í prentsmiðju Melchiors Martzan, háskólaprentara.

Ritgerðin er níu síður í fjórðungsbroti, skipt í 32 smákafla eða staðhæfingar (thesis). Í köflum 2 til 24 er rætt all ítarlega um stjörnufræði og heimsmyndina og virðist framsetningin taka talsvert mið af bók  Caspars Bartholin (1585-1629), Systema physicum. Áherslur eru þó víða aðrar og sennilegt er, að Gísli hafi einnig haft til hliðsjónar höfuðrit Longomontanusar (1562-1647), Astronomia Danica, þótt hvergi fari hann í tæknileg smáatriði.

Umfjöllun Gísla um stjörnufræði í þessum hluta ritgerðarinnar er óvenju skýr og hnitmiðuð og að mestu laus við stjörnuspeki. Hið sama er ekki hægt að segja um síðustu átta kaflana (25-32), sem fjalla um föruhnettina sjö og mátt þeirra. Frásögnin þar er fyrst og fremst af stjörnuspekilegum toga með sterku ívafi frá stjörnutengdri læknislist samtímans. Í þessum hluta styðst Gísli mjög við ritið Ars magna lucis et umbræ (Um hina miklu list ljóss og skugga) eftir fjölfræðinginn Athanasius Kircher (1602-1680) og virðist umfjöllunin að mestu tekin beint úr bók hans.

Í fyrstu köflunum er það hin viðtekna heimsmynd í Danmörku á þessum tíma, jarðmiðjukenning  Tychos Brahe (1546-1601), sem liggur til grundvallar umræðunni.

Hugmynd Brahes um byggingu heimsins, sem birt var á prenti 1588: Jörðin er í miðju heimsins. Um hana snúast tunglið, sólin og fastastjörnuhvelið. Föruhnettirnir Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus snúast hins vegar um sólina og fylgja henni á braut hennar um jörðina.

Í fimmta kafla minnist Gísli þó á Principia philosophiae, bók Descartes (1596-1650) frá 1644 og ræðir stuttlega um hvirflakenningu hans. Sú umfjöllun er sérlega athyglisverð í ljósi þess að þetta mun hafa verið í fyrsta skipti, sem hvirflar Descartes voru ræddir á prenti í Danaveldi.

Á þessum tíma voru flestir, ef ekki allir, lærdómsmenn í Danaveldi komnir á þá skoðun að jörðin snerist um möndul sinn, eins og Kóperníkus (1473-1543) hafði haldið fram. (Hins vegar töldu þeir, gagnstætt honum, að það væri sólin sem gengi í kringum jörðina en ekki öfugt.) Gísli tekur skemmtilega á þessu í ritgerðinni og sýnir fram á, að ef fastastjörnuhvelið snýst eina umferð á sólarhring um grafkyrra jörð, hlýtur hraði fastastjarnanna að vera um 23,4 milljónir km á sekúndu. Þetta finnst Gísla afar ólíklegt og segir: „En það virðist ekki samræmast náttúrunni, að nokkur hlutur geti á andartaki farið [slíka vegalengd], því það er næstum óendanlegt í endanlegu.“

Gísli gerir röð föruhnattanna séð frá jörðinni að umtalsefni og getur þess, að ýmsir hafi orðið til að stinga upp á annarri röð en þeirri, sem fólgin er í hinni hefðbundnu jarðmiðjukenningu fornaldar. Enginn hafi þó „snúið kerfi Ptólemaíosar (100-170) eins rækilega við og hinn nafntogaði Kóperníkus [sem] fylgdi í öllu þeirri röð sem Aristarkos frá Samos (310-230 f.Kr.) hélt fram 400 árum fyrir daga Ptólemaíosar og setti sólina hreyfingarlausa í miðju heimsins“ með reikistjörnurnar í þessari röð: Merkúríus, Venus, jörðin með tungli sínu, Mars, Júpíter og Satúrnus. „Með þessari kenningu gerði Kóperníkus snilldarlega grein fyrir fyrirbærum himinsins. Það olli því, að á sinni samtíð og næstu mannsöldrum fékk hann, og á sér enn, fjölmarga og málsmetandi fylgismenn.“

Sólmiðjukenning Kóperníkusar

Gísli lýsir jafnframt jarðmiðjukerfi Tychos Brahe og tekur sérstaklega fram að hann hafi haft „miðpunktana fyrir hreyfingar himintungla tvo, sólina fyrir reikistjörnur, en jörðina fyrir sól, tungl og fastastjörnur.“ Hann getur um þá gagnrýni talsmanna sólmiðjukenningarinnar að hvorki Ptólemaíos né Brahe „hafi stutt það traustum rökum að jörðin sé í miðju alheimsins. En óbilgirni þeirra dylst engum, því sjálfir hafa þeir enn ekki sýnt óyggjandi fram á, að velja eigi sólinni stað í miðju heimsins. Hvers vegna heimta þeir svo af öðrum það sem þeir geta ekki sjálfir afrekað.“ Þá getur Gísli um þá fullyrðingu sólmiðjumanna að það sé í misræmi við náttúruna, að heimurinn hafi tvær miðjur eins og í kenningu Brahes. Þar telur hann þá „vega sig með eigin sverði“ vegna þess að heimur sólmiðjukenningarinnar hafi að minnsta kosti tvær miðjur: Reikistjörnurnar gangi um sólina og tunglið um jörðina. Og hvað með fylgihnetti Júpíters sem virðast ganga um hann?

Lengra hættir Gísli sér ekki í umræðunni um heimskerfin. Þó má segja að hann lýsi óbeinum stuðningi við jarðmiðjukenningu Brahes. Til dæmis telur hann niðurstöður stjörnumeistarans fyrir fjarlægðir í himingeimnum styðjast við nákvæmustu athuganirnar.

Dispútatía Gísla Þorlákssonar er vandað yfirlit yfir þá stjörnufræði, sem virðist hafa verið kennd byrjendum við Hafnarháskóla á miðri sautjándu öld. Að auki er þar að finna stutta kynningu á hinni þá nýju hvirflakenningu Descartes. Heimsmynd Gísla er að verulegu leyti byggð á hugmyndum Tychos Brahe og lærisveina hans í Danmörku og ljóst er af framsetningunni, að sólmiðjukenningin hefur ekki enn náð að festa rætur þar í landi. Tónninn í garð Kóperníkusar er þó mun mildari en í mörgum eldri verkum danskra höfunda um svipað efni, til dæmis í Systema physicum eftir Caspar Bartholin.

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Sautjánda öldin, Stjörnufræði. Bókamerkja beinan tengil.