Á aldarafmæli Þorbjörns Sigurgeirssonar

Hinn 19. júní síðastliðinn voru liðin 100 ár frá fæðingu Þorbjörns Sigurgeirssonar prófessors (1917-1988). Þessi örlítið síðbúna færsla er helguð minningu þessa merka eðlisfræðings og brautryðjanda í raunvísindum á Íslandi.

Stutt kynni mín af Þorbirni hófust haustið 1967, þegar ég sótt byrjendanámskeið hans í eðlisfræði  við Háskóla Íslands. Kennslubókin var hið þekkta verk Physics eftir Resnick og Halliday. Mér er sérstaklega minnisstætt vingjarnlegt viðmót kennarans og gífurleg þekking hans á efninu.

Svona man ég eftir Þorbirni þegar hann kenndi mér eðlisfræði við HÍ haustð 1967.

Þegar líða tók á misserið sótti ég í mig kjark til að falast eftir vinnu hjá Þorbirni. Hann tók erindinu af ljúfmennsku og í ársbyrjun 1968 var ég sem aðstoðarmaður Þorbjörns farinn að mæla segulsvið í bergsýnum  í lokuðu herbergi á Raunvísindastofnun. Hér verður verkefninu ekki lýst nánar, en lesa má um bakgrunn þess í grein eftir Leó Kristjánsson í bókinni Í hlutarins eðli (meira um þá bók síðar).

Helmholtz-spólur eru burðarásinn í þessu tæki við Háskólann í Bergen. Tækið er notað sem afsegulmögnunar- og segulmælibúnaður fyrir bergsýni.  Það líkist í meginatriðum tækinu sem ég notaði til mælinga fyrir Þorbjörn á Raunvísindastofnun fyrstu átta mánuði ársins 1968.

Eftir að ég hafði verið innilokaður við bergsýnismælingar um skeið, bauð Þorbörn mér að aðstoða sig við flugsegulmælingar, sem þá áttu hug hans allan. Hlutverk mitt var fyrst og fremst að sitja við hlið hans í vélinni með kort yfir fluglínur í fanginu og gæta þess að vélin villtist ekki af réttri leið. Segulmælingatækið Flugmóði hékk neðan úr vélinni og mælingarnar voru skráðar á margra rása segulband í aftursætinu. Þar réði oftast ríkjum Þorvaldur Búason eðlisfræðingur. Þó kom það fyrir að hann var fjarverandi og í eitt slíkt skipti bilaði segulbandið í miðjum mælingum. Skipti þá engum togum að Þorbjörn sneri sér við í sætinu til að gera við tækið og sagði mér að taka við stjórn flugvélarinnar. Næstu mínúturnar líða mér seint úr minni, enda var þetta í fyrsta og eina sinn sem ég hef stjórnað flugvél. Allt fór þó vel að lokum.     -     (Leó Kristjánsson hefur gert flugsegulmælingum Þorbjörns og niðurstöðum góð skil í bókinni Í hlutarins eðli. Sjá einnig hér.)

Þorbjörn að undirbúa segulmælingaflug árið 1969 um svipað leyti og og ég flaug með honum sem aðstoðarmaður og navigator. Fyrir aftan Þorbjörn liggur segulsviðsmælirinn Flugmóði.  Hann var látinn hanga neðan úr vélinni í löngum kapli meðan á mælingum stóð.  Mynd: Leó Kristjánsson.

Haustið 1968 fór ég til útlanda til frekara háskólanáms. Árin 1969 og 70 vann ég sem sumarstúdent á Raunvísindastofnun, meðal annars hjá Þorbirni. Leiðir okkar lágu svo ekki aftur saman fyrr en ég hóf störf sem sérfræðingur í stjarneðlisfræði við Raunvísinda- stofnun haustið 1982. Mér hlýnar enn um hjartarætur, þegar ég hugsa til þess hversu vel hann tók á móti mér á þeim þáttaskilum í lífi mínu. Við áttum mjög góð samskipti næstu árin, en þeim lauk þó allt of snemma, því Þorbjörn lést af völdum hjartabilunar 24. mars 1988.

Þorbjörn í júlí 1983, um það bil ári eftir að ég hóf störf sem stjarneðlisfræðingur við Raunvísindastofnun. Mynd: Richard S. Williams, Jr.


Viðbót, 14. maí 2021: Ég gleymdi að geta þess, að Þorbjörn var prófdómari hjá mér við stúdentspróf í eðlisfræði við MR vorið 1972. Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég rakst nýlega á eftirfarandi mynd á fésbókinni. Hún sýnir nemendur í 6. bekk X ásamt helstu kennurum sínum vorið 1949.

6. bekkur X vorið 1949. Kennararnir sitja í fremstu röð. Frá vinstri: Björn Bjarnason stærðfræðingur, Sigurkarl Stefánsson stærðfræðingur, Pálmi Hannesson náttúrufræðingur, Guðmundur Arnlaugsson stærðfræðingur og Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur. Meðal stúdenta standa efst frá vinstri Guðmundur Pálmason (síðar jarðeðlisfræðingur), Steingrímur Baldursson (síðar efnafræðingur og prófessor) og Leifur Hannersson (síðar verkfræðingur og prófessor). Margrét Guðnadóttir (síðar læknir, veirufræðingur og prófessor) stendur að baki Þorbjörns.


Ýmis verk um Þorbjörn Sigurgeirsson, persónu hans og  vísindastörf

Gott yfirlit yfir fyrstu árin á vísindaferli Þorbjörns er að finna í grein eftir Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðing sem birtist fyrir ári síðan:

Veirur, kjarnorka og eðlisvísindi á Íslandi

Um þessar mundir vinnur Steindór að frekari rannsóknum á ævi Þorbjörns og þróun raunvísinda á Íslandi á tuttugustu öld.

Þorstein Vilhjálmsson eðlisfræðingur ritaði nýlega ágæta yfirlitsgrein um Þorbjörn fyrir Vísindavefinn.

Góðar upplýsingar um störf Þorbjörns í þágu vísindanna og háskólans  er að finna í bókinni Í hlutarins eðli: Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor. Ritstjóri Þorsteinn I. Sigfússon. Reykjavík 1987.

Þessari færslu lýkur með tilvitnunum í greinar fjögurra samstarfsmanna Þorbjörns um líf hans og störf. (Greinarnar sjálfar eru mun ítarlegri og þær birtast, ef  smellt er á tenglana):


(1)  Árið 1989 komst Páll  Theodórsson eðlisfræðingur  svo að orði um Þorbjörn í grein í Andvara (bls. 58-61):

Þorbjörn Sigurgeirsson var grannur maður en sterkbyggður, meðalmaður á hæð. Hann var rammur að afli, seigur og þolinmóður. Andlit hans og allt hans fas var sem í fullu samræmi við skapgerð hans, þar mátti sjá festu og einkenni þess manns sem fer sér hægt en nær settu marki.
     Ætla mætti að maður sem fékk svo miklu framgengt hafi verið mælskur, fylginn sér og hafi notað hvert tækifæri sem gafst til að tala fyrir málum sínum. Því fór þó f jarri. Hann var hlédrægur, talaði hægt og rólega og íhugaði nærri hvert orð. [...]
     Óvenjuleg breidd einkenndi starfsferil Þorbjörns Sigurgeirssonar. Starf hans var þríþætt, hann var forvígismaður, vísindamaður og kennari. Hann ruddi brautina með því að hrinda af stað ýmsum verkefnum, en lét síðan flest þeirra í hendur yngri manna. Hann var afburða vísindamaður, sem var fundvís á einfaldar lausnir en hikaði þó ekki við að byggja upp margbrotin mælikerfi. Loks var hann kennari og rétt er að muna að um helmingur af venjulegum starfstíma fór í kennslu. En daglegur starfstími Þorbjörns var reyndar langt  frá því að vera venjulegur. [...]
      Þegar litið er á þann f jölda verkefna sem [Þorbjörn] vann við og hve sum þeirra voru mikilvæg í alþjóðlegum vísindum, vaknar stundum sú spurning, hver framvinda mála hefði orðið, ef hann hefði ekki dreift svo kröftum sínum heldur einbeitt sér að verkefni, sem líklegt var að gæti leitt til stórsigra fyrir hann, eins og stundum er komist að orði [...] Þegar hann vann að rannsóknum sínum í Bandaríkjunum voru geimgeislar einn gjöfulasti vettvangur eðlisfræðinnar og voru það enn um langt árabil. Þar var Þorbjörn kominn framarlega í hópi þeirra vísindamanna, sem rannsökuðu geimgeisla og frami hefði vafalítið beðið hans, ef hann hefði haldið þar áfram rannsóknum. [...]
      Bergsegulrannsóknir á Íslandi áttu drjúgan þátt í að renna stoðum undir þá kenningu sem á síðustu tveimur áratugum hefur bylt hugmyndum vísindamanna um jarðskorpuna og leitt af sér hina nýju landrekskenningu. Þarna var Þorbjörn í fararbroddi og rannsóknavettvangurinn lá við túnfótinn. Hefði ekki frami beðið hans ef hann hefði helgað sig bergsegulrannsóknum í stað þess að snúa sér að öðrum verkefnum? Eða ef hann nokkrum árum síðar hefði einbeitt sér að því að þróa hina nýju aðferð með argoni sem olli byltingu í aldursgreiningu á ungu bergi og var lykillinn að mikilvægum rökum fyrir landrekskenninguna?  Auðvelt hefði verið að ná samstarfi við erlendar rannsóknastofur til að fylgja verkefninu eftir og hefði þá vafalítið mátt koma upp aðstöðu hér á landi til aldursgreininga með aðferð hans. [...]
      Þegar hugsanir manns leita í þennan farveg er stutt í að farið sé að álasa Þorbirni fyrir að dreifa svo mjög kröftum sínum. En þá verður að svara spurningunni, hvað hefði þá orðið um öll hin verkefnin,sem hann átti svo mikinn þátt í að hrinda af stað, hvað hefði orðið um segulmælingastöðina, ef hann hefði fylgt geimgeislarannsóknum sínum vel eftir? Hvenær hefði Eðlisfræðistofnun Háskólans komið, hvenær Raunvísindastofnun, hvenær ísótópamælingarnar, hvenær segulkortlagningin, hvenær þetta, hvenær hitt? Með þessu er ég ekki að leika mér að ef-spurningum heldur vil ég reyna að beina athyglinni að forustuhlutverki Þorbjörns. Aðrir urðu „að taka við svo eitthvað gengi.". Nauðsynlegt er að gera sér þetta ljóst þegar starf [hans] er metið. [...]
      [Þorbjörn] var umfram allt brautryðjandi [og þau íslensku] rannsókna- og þróunarverkefni, í grunn- jafnt sem nytjarannsóknum, eru mörg sem beint eða óbeint má rekja til starfa [hans]. Sá hópur vísindamanna er fjölmennur, sem beint og óbeint á starf sitt að þakka lífsverki hans. Íslenska þjóðin nýtur árangurs þessa margþætta starfs, þess að Þorbjörn beitti sér á svo breiðu sviði og varði kröftum og tíma í að hrinda af stað nýjum verkefnum, en leyfði sér aldrei þann munað sem felst í því að kafa djúpt í það verkefni sem áhugaverðast var og hefði vafalítið getað fært honum alþjóðlegan frama.

(2)  Magnús Magnússon segir þetta um Þorbjörn í minningargrein í Morgunblaðinu 6. apríl 1988:
 .

Þorbjörn Sigurgeirsson var brautryðjandi í rannsóknum í eðlisfræði og á sumum sviðum jarðeðlisfræði hér á landi. Orðið brautryðjandi á hér vel við, því að Þorbjörn var ekki bara frumkvöðull sem benti á leiðina, heldur ruddi hann brautina, svo að aðrir ættu greiða götu. Hann ætlaðist ekki til að aðrir sköpuðu aðstöðu fyrir hann, en vann að því sjálfur að skapa aðstöðuna, fyrir sig og aðra. Í hverju verkefni sem hann fékkst við, vann hann öll þau verk sem vinna þurfti, án tillits til þess hvers eðlis þau voru. Þetta einkenndi öll hans störf, ekki bara rannsóknarstörf. Þetta, samfara miklum hæfileikum, þekkingu, hugmyndaauðgi, útsjónarsemi, dugnaði og þrautseigju gerði það að verkum, að ævistarf Þorbjörns varð svo ár angursríkt, sem raun ber vitni. [...]

Þorbjörn hafði verið við nám og störf í Danmörku og unnið að rannsóknum í tilraunaeðlisfræði í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. [...] Hann hafði alla tíð náin tengsl við danska eðlisfræðinga og Eðlisfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla (Niels Bohr-stofnunina, eins og hún var nefnd eftir lát Niels Bohrs). Þessi tengsl hófust með námi hans í Kaupmannahöfn, þar sem hann var bekkjarbróðir Eriks Bohrs, sonar Niels Bohr. Á námsárunum fékk Þorbjörn styrk úr minningarsjóði um Christian Bohr, bróður Eriks. Við þetta sköpuðust sérstök persónuleg tengsl við Bohrfjölskylduna. Á seinni árum, þegar ferðum Þorbjörns til Kaupmannahafnar fór fækkandi, en mínum fór fjölgandi, var ég oft spurður: "Hvordan har Sigurgeirsson det?", nafnið borið fram á sérstakan danskan máta. Sérstaklega man ég eftir því að frú Margrethe Bohr, kona Niels Bohrs, spurði alltaf um "Sigurgeirsson" þegar ég hitti hana.

Á námsárunum og við störf í Kaupmannahöfn, þar sem Þorbjörn vann m.a. með J.C. Jacobsen, prófessor í tilraunaeðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla, sem síðar var einn af stofnendum atómtilraunastöðvarinnar í Risö, kynntist Þorbjörn flestum af eðlisfræðingum Dana, sem störfuðu í Kaupmannahöfn á fimmta áratugnum og síðar. Þegar Danir hófu undirbúning að því að koma á fót tilraunastöðinni í Risö, fóru þeir að leita að eðlisfræðingum til starfa þar. Einn þeirra, sem þeir leituðu til, var Þorbjörn. [...] Í ágúst 1955 buðu nokkrir úr sendinefnd Dana Þorbirni út að borða. Tilgangurinn var að fá hann til starfa á hinni nýju rannsóknastöð en hann var ófáanlegur til þess. Hann vildi starfa áfram á Íslandi, þó að að staða til eðlisfræðistarfa væri auðvitað miklu verri þar en í Danmörku og reyndar nánast engin. Honum var auðvitað ljóst, að hann gæti gert meira í eðlisfræði í Danmörku en á Íslandi, en aldrei var efi í hans huga um að helga Íslandi starfskrafta sína.


(3)  Í minningargrein Leós Kristjánssonar  um Þorbjörn í Náttúrufræðingnum 1989 segir m.a. svo á bls. 7:
 .

Þorbjörn var einstaklega heilsteyptur og traustur maður, sem mjög gott var að vinna með, og var jafnan mjög jákvæður og nærfærinn í umræðu um menn og málefni. Sjálfur var hann jafnvígur á margar greinar fræðilegrar eðlisfræði, tilraunaeðlisfræði, stærðfræði og rafeindatækni, en vissi vel að ekki voru allir svo fjölhæfir. Honum tókst fljótlega að sjá út þá eiginleika hvers og eins samstarfsmanns, sem best gátu nýst í verkefnum stofnunarinnar, og studdi þá til dáða á því sviði, en reyndi ekki að krefjast af þeim afreka umfram getu. Hans eigin aðferðir við lausn fræðilegra verkefna, hvort heldur var í kennsluefni eða rannsóknum, voru nokkuð minnisstæðar að því leyti að hann hafði yfirleitt ekki mikinn áhuga á því hvort viðkomandi verkefni eða eitthvað áþekkt því hefði verið leyst áður. Hann settist bara niður með blýant og blað, byrjaði á þeim grundvallarlögmálum eðlisfræði og stærðfræði sem við áttu, og linnti ekki fyrr en lausn var fundin. Oftast var hún rétt.

Þorbjörn var afar greiðvikinn og örlátur við samstarfsmenn og þá sem tilhans leituðu af einhverju tilefni, svo sem stúdenta, uppfinningamenn, og erlenda vísindaleiðangra. [...]

Gjarnan afhenti Þorbjörn öðrum árangur vinnu sinnar að vísindaverkefnum án þess að ætlast til að þess væri getið við skýrslugerð. Þótt starfið væri honum jafnan efst í huga og hann teldi þar ekki eftir sér að leggja nótt við dag þegar því var að skipta, átti hann einnig ýmis áhugamál sem hann vann að í frístundum ásamt fjölskyldu sinni, og bar skógrækt þar að líkindum hæst.

Eðlisfræðistarfsemi á íslandi stendur í ævarandi þakkarskuld við Þorbjörn Sigurgeirsson. Fyrir tíð hans var því varla trúað að rannsóknir á þessu sviði ættu hér neinn vettvang sökum fámennis þjóðarinnar og annarra aðstæðna, en hann sýndi fram á að þær væru ekki aðeins mögulegar, heldur gætu þær bæði gert þjóðinni verulegt gagn og lagt markverðan skerf til alþjóðlegra vísinda. [...]

Framlag [Þorbjörns] styrkti einnig stöðu skyldra greina eins og jarðeðlisfræði, stjarnfræði, stærðfræði og efnafræði, þótt þar hafi fleiri brautryðjendur komið við sögu.

(4)  Úr minningargrein Þorsteins Sæmundssonar í Morgunblaðinu 6. apríl 1988:

Þorbjörn Sigurgeirsson var án efa einn fremsti vísindamaður sem Ísland hefur átt. Það er mikil eftirsjá að slíkum manni, ekki aðeins fyrir þá sem þekktu hann persónulega og störfuðu við hlið hans. [...]

Segulmælingastöðin [í Leirvogi í Mosfellssveit] var ein framkvæmd af mörgum, sem Þorbjörn átti frumkvæði að. Hann var sannur brautryðjandi, fullur af hugmyndum og áhuga á fjölmörgum sviðum, röskur til athafna og sístarfandi. Hann var óvenjulega fær sem vísindamaður, bæði á fræðilegu sviði og verklegu, en þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Lengi vel taldi ég að þessi fjölhæfni Þorbjörns og dugnaðurinn væri skýringin á því hversu langt hann hefði náð í starfi sínu. Seinna varð mér þó ljóst, að það var annað sem skipti fullt eins miklu máli; alþýðleiki mannsins og létt lund sem gerði honum fært að starfa með nánast hverjum sem var og hrífa aðra með sér. Ég hef sjaldan kynnst manni sem var jafn laus við allt yfirlæti. Hið vingjarnlega og föðurlega viðmót varð til þess að menn leituðu til Þorbjarnar með hverskyns vandamál sem upp koma í sambandi við starfið; hann tók öllum vel og var jafnan úrræðagóður og fús til að veita aðstoð sína.

Þegar Raunvísindastofnun Háskólans leysti Eðlisfræðistofnunina af hólmi árið 1966 gerðist Þorbjörn forstöðumaður einnar af fjórum rannsóknarstofum stofnunarinnar og gegndi því starfi næstu tíu árin. Allan þann tíma fannst mér sem hann væri yfirmaður stofnunarinnar allrar í vísindalegum efnum þótt hvergi væri sú staða formlega skráð og hann myndi aldrei hafa viðurkennt það sjálfur. [...]

 [Ég minnist sérstaklega] mælingaferða sem við fórum saman til ýmissa staða á landinu, þar á meðal til Surtseyjar, en Þorbjörn gekk ötullega fram við rannsóknir þar meðan á gosinu stóð. Þá verður mér hugsað til flugferða með Þorbirni, því að við áttum sameiginlegt áhugamál þar sem flugið var. Þorbjörn var áræðinn og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Sannaðist þetta oft á ferðalögum, hvort sem var í lofti, á láði eða legi. Skal ég játa að mér þótti dirfska Þorbjarnar stundum jaðra við glannaskap og óttaðist að illa færi. En Þorbjörn slapp heill úr hverri raun.

Ég veit að ég á eftir að sakna þess mjög að geta ekki framar rætt við Þorbjörn um ný og gömul viðfangsefni, geta ekki leitað hjá honum ráða eða notið reynslu hans og þekkingar. Hér eftir verður minningin að nægja mér og öðrum sem eru svo lánsamir að hafa átt hann að samferðamanni.

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.