Víða um lönd er skammtafræðiárinu nú fagnað með greinaskrifum, fyrirlestrum, sýningum og öðrum skemmtilegheitum (sjá t.d. hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér). Stór hluti þessara viðburða snýst um hina svokölluðu „aðra skammtabyltingu“, atburðarás sem að mestu er byggð á grunni hinnar „fyrstu“ og er sögð standa yfir um þessar mundir, eftir að hafa fengið byr undir báða vængi í kringum síðustu aldamót. Um er að ræða þróun þar sem fyrirbæri eins og skammtatengsl eru notuð við rannsóknir og hagnýtingu á skammtareikningum, skammtasamskiptum og skammtakönnun. Ég reikna fastlega með að íslenskir eðlisvísindamenn, og þá einkum sérfræðingar á áðurnefndum sviðum, haldi veglega upp á þessi tímamót hér heima, kannski með viðburðum í líkingu við þá sem áttu sér stað á eðlisfræðiárinu 2005, stjörnufræðiárinu 2009 og ljósárinu 2015.
Svo skemmtilega vill til að einmitt fyrir hundrað árum birtist fyrsta íslenska greinin um skammtalíkan Nielsar Bohr af atóminu. Höfundurinn var Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur (1891-1961), þá forstöðumaður Efnarannsóknastofu ríkisins og efnafræðikennari, bæði við Læknadeild Háskóla Íslands og Menntaskólann í Reykjavík. Grein Trausta var byggð á erindi, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands hinn 29. apríl 1925 og bar titilinn Um atomkenningu Bohr’s.
Ég vil einnig geta þess, að í tilefni skammtafræðiársins er ég þessa stundina að taka saman færslu undir heitinu Hvernig nútímaeðlisfræðin barst upphaflega til Íslands. Ég er þegar búinn að setja gróft yfirlit á bloggsíðuna þar sem hægt er að nálgast tvær gagnlegar skrár (II og III). Þegar þetta er ritað er megintextinn (I) hins vegar enn í vinnslu, en ég vonast til að geta birt hann fljótlega.
Að lokum má nefna að drög að ritaskrá fyrsta „löggilta“ íslenska eðlisfræðingsins, Nikulásar Runólfssonar (1851-1898), eru einnig komin á bloggsíðuna.