Category: Rannsóknir

Rannsóknir á sviði stærðfræðimenntunar

Fyrirlestar um rannsóknir á sviði stærðfræðimenntunar

Rannsóknarstofa um stærðfræðimenntun efnir til fyrirlestra um stærðfræðimenntun sem verða haldnir alla miðvikudag í mars og einn miðvikudag í apríl.

Staðsetning: Stofa H 201, Háskóla Íslands, Menntavísindasviði v/ Stakkahlíð

3. mars:  Kristín Bjarnadóttir dósent: Björn Gunnlaugsson og Tölvísi – Upplýsing og einlæg trú í stærðfræðimenntun 19. aldar

Björn Gunnlaugsson (1788–1876) var sá Íslendingur sem mest kvað að í stærðfræðimenntun 19 aldar. Áhrif upplýsingastefnunnar koma fram í bók hans, Tölvísi, m.a. í áherslu hans á hagnýta útreikninga og dæmum úr hefðbundnum búskap. Jafnframt koma fram sterk trúarleg viðhorf til stærðfræðilögmála í bókinni. Fyrirlesturinn mun fjalla um líf Björns, bókina Tölvísi og mikilvægi starfa hans fyrir stærðfræðimenntun 19. aldar.

10. mars: Jónína Vala Kristinsdóttir lektor: Stærðfræðinám og kennsla í skóla fyrir alla

Stærðfræðikennarar bera ábyrgð á því að skapa námsumhverfi þar sem allir nemendur fá tækifæri til að læra á eigin forsendum í samvinnu við aðra. Til að geta skipulagt umhverfi sem hvetur til náms þurfa kennarar að læra að greina það nám sem á sér stað í skólanum.  Í erindinu verður fjallað um hvernig kennarar geta bætt stærðfræðikennslu sína með markvissri ígrundun og samstarfi.

17. mars: Guðný Helga Gunnarsdóttir lektor: Áhrif námsefnis á kennsluhætti og námsumhverfi nemenda

Greint verður frá rannsókn sem gerð var á kennslu í einum 8. bekk vorið 2009.  Fylgst var með 10 kennslustundum og þær teknar upp á myndbönd og var sjónum beint bæði að vinnu kennarans og nemendanna. Einnig voru tekin viðtöl við kennarann um kennsluna og skipulagningu hennar og við nemendur um viðhorf þeirra til stærðfræðinámsins. Greint verður frá helstu niðurstöðum og verður einkum fjallað um áhrif námsefnis á skipulag kennslunnar og þætti sem einkenna námsumhverfi nemenda og viðhorf þeirra til námsins.

24. mars: Freyja Hreinsdóttir dósent: Rannsókn á hugbúnaðarnotkun – Forritið Geogebra

Nú stendur yfir rannsókn á því hvernig best verði staðið að notkun hugbúnaðarins GeoGebra við stærðfræðikennslu í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Í rannsókninni  felst að kanna skoðanir þriggja lykilhópa á þessu. Lykilhóparnir eru þeir sem vinna að menntun stærðfræðikennara, starfandi stærðfræðikennarar og verðandi stærðfræðikennarar. Í fyrirlestrinum verða niðurstöður úr þessari rannsókn kynntar.

14. apríl: Guðbjörg Pálsdóttir lektor: Að styðja stærðfræðikennara í starfi

Í fyrirlestrinum verður greint frá rannsókn á samskiptum sérfræðings í stærðfræðimenntun við þrjá stærðfræðikennara í grunnskóla. Sjónum verður beint að reynslu kennaranna að því að eiga velviljaðan en jafnframt gagnrýninn viðmælanda, á hvaða sviðum kennarar hafa leitað stuðnings og hvernig sérfræðingurinn hefur brugðist við. Áhersla er lögð á að greina hvaða áhrif kennararnir sjálfir og sérfræðingurinn telja að það hafi haft á starfsþróun kennaranna að geta leitað beint að faglegum stuðningi á Menntavísindasviði.

71 5 101
89 59 29
17 113 47