Um mig

Velkomin á heimasíðuna mína

Ég er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í deild kennslu og menntunarfræða. Ég hef kennt bæði í grunn- og framhaldsdeild Menntavísindasviðs og lagt áherslu á kennslufræði,  kennsluaðferðir, sérkennslu, skóla án aðgreiningar, fjölmenningu, námskrárfræði, starfskenningu, valdeflingu kennara og starfendarannsóknir. Fagmennska kennara og þróun á eigin starfskenningu eru mikilvægir þættir í starfi kennara og legg ég áherslu á það á þeim námskeiðum sem ég kenni. Ég hef unnið með starfskenningu kennara og skoðað hvernig þeir geta þróað hana á meðvitaðan hátt og nýtt til valdeflingar.

Mér finnst samstarf mikilvægt og legg áherslu á það bæði í kennslu og rannsóknum. Ein þeirra kennsluaðferða sem ég fjalla um í kennslu er  samvirkt nám/ samvinnu nám. Í öllum námskeiðum sem ég hef umsjón með er lögð áhersla á teymiskennslu og að þróa sameiginleg námssamfélög nemenda og kennara. Það sama má segja um rannsóknir þær eru unnar í samstarfi við aðra rannsakendur en einnig þátttakendur rannsóknanna.

Ég er kennararannsakandi, eigindlegur aðferðafræðingur og hef sérhæft mig í rannsóknum á eigin starfi. Aðferðafræði starfendarannsókna og starfstengdri sjálfsrýni (self-study of educational practices) hefur verið leiðandi í rannsóknum mínum. Áherslan hefur einnig verið á kennararannsóknir með þátttöku kennara. Rannsóknir mínar hafa beinst að námi og kennslu fjölbreyttra nemendahópa út frá stefnu skóla án aðgreiningar. Ég hef lagt áherslu á að rannsaka starf kennara sem hafa náð að bregðast við fjölbreyttum nemendahópum í kennslu sinni með skapandi og árangursríkum aðferðum.

Ég hef verið annar af tveimur aðalritstjórum TUM, Tímarits um uppeldi og menntun síðan 2017, og frá áramótum 2019 annar af tveimur aðalritstjórum TATE, Teacher and Teacher Education sem er gefið út af Elsevier. Ég er umsjónarmaður tveggja námsleiða í deild kennslu og menntunarfræða; Kennslufræði og skólastarf og Menntun án aðgreiningar.