Á dögunum átti ég leið um Jakarta, höfuðborg fjórða fjölmennasta ríkis heims – Indónesíu. Ég var staddur síðdegis í gamla bænum, Kota Tua, þegar fór að rigna. Og það engin mild íslensk rigning, heldur hressilegt hitabeltisúrfelli. Ég leitaði skjóls undir tjaldi hjá götusölum sem höfðu sett upp matarvagna sína þarna. Á skammri stundu breyttust göturnar í fljót. En matarvagnaeigendurnir létu þetta ekkert á sig fá og héldu áfram að afgreiða sate kambing og nasi goreng ofan í viðskiptavinina. Ég fékk mér að borða og spjallaði við fólkið á meðan ég beið af mér dembuna. Og ég fór að leiða hugann að því umhverfi sem íbúar ört vaxandi stórborga, og Jakarta sér í lagi, þurfa að glíma við daglega.
Borgabyggð á sér ævalanga sögu. Hins vegar eru ekki nema fáein ár síðan borgir urðu heimkynni meirihluta mannkynsins. Fólksflutningar úr sveit í borg, sem hófust í Evrópu með iðnbyltingu á 18. öld, hafa haldið áfram. Í fátækari hlutum heimsins er þetta sérstaklega áberandi. Fólk hefur haldið áfram að leita betra lífs í borgum, sem margar hverjar hafa þegar orðið ógnarstórar – og stækka enn. Því er spáð að fram til ársins 2050 muni borgarbúum fjölga um hvorki meira né minna en 2,5 milljarða.
Frá Jakarta.
Margar af stærstu borgum heimsins má finna í Asíu. Þar á meðal er Jakarta ásamt samvöxnum útborgum. Borgarflæmi það sem myndar stór-Jakarta (eða „Jabodetabek“, eins og svæðið er kallað opinberlega – Jakarta, Bogor, Depok, Tangerang og Bekasi) telur nú rúmlega þrjátíu milljónir íbúa og þekur hvorki meira né minna en tæpa 6.400 km2. Í sjálfri Jakarta er byggðin þéttust. Þar búa um tíu milljónir manna á 660 km2, sem þýðir að minnsta kosti 15.000 manns á hvern ferkílómetra að jafnaði.
Borgin er byggð á framburðarsléttu vestast á norðurströnd Jövu, en meginhluti sléttunnar er aðeins rétt yfir sjávarmáli. Það voru Hollendingar sem byggðu þarna hafnarborgina Batavíu á nýlendutimanum, en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, í bókstaflegri merkingu, og miðborgin er nú nokkrum kílómetrum sunnar. Handan sléttunnar taka við hæðir og fjöll, þar á meðal hin tæplega 3000 m háa eldkeila Gunung Gede.
Af sjálfu leiðir að umhverfismálin eru fyrirferðarmikið úrlausnarefni í risaborg eins og þessari. Íbúar Jakarta þurfa að glíma við svipuð slík mál og íbúar annarra borga, en lega hennar og náttúrufarslegar aðstæður skapa þó sérstök skilyrði, auk þess sem skipulag borgarinnar – eða skortur á því – hefur ekki orðið til að minnka vandann.
Flóð eru árviss viðburður í borginni. Þarna er monsúnloftslag, með löngum regntíma sem nær hámarki í byrjun árs – í janúar og febrúar rignir að jafnaði um 300 mm í hvorum mánuði, oft með miklu steypiregni. Um borgarlandið renna þrettán ár, sem eiga upptök sín í hæðunum umhverfis. Þar hefur verið gengið hart að skógi og geta landsins til að tempra vatnsrennsli hefur verið verulega skert af þeim sökum. Borgarbyggðin hefur síðan eins og gefur að skilja þrengt að afrennsliskerfinu. Í stað vatna og votlendissvæða, sem tóku við umframvatni áður, eru komin verksmiðjuhverfi, íbúabyggð og götur – ógegndræpt yfirborð. Byggðin nær víðast alveg niður á árbakkana og í farvegina hefur einnig smám saman safnast ýmis konar rusl, sem tálmar rennsli. Þegar niður í borgina kemur er afleiðingin sú að vatnið flæðir upp úr farvegum og setur jafnvel drjúgan hluta borgarinnar á kaf á regntímanum.
Önnur ógn sem steðjar að Jakarta, og sem einnig er af manna völdum, er landsig. Mikið af borgarlandinu hefur sigið smátt og smátt á síðustu áratugum. Orsökin er að stórum hluta einfaldlega þungi borgarbyggðarinnar, ekki síst fjölmargra og níðþungra skýjakljúfa, sem sprottið hafa upp. En einnig er ástæðan ótæpileg dæling grunnvatns úr jarðlögum undir borginni, þaðan sem megnið af neysluvatni hennar er fengið. Sigið er ekkert smáræði. Sums staðar er það komið vel yfir metra nú þegar og er hraði þess frá þremur til tíu sentimetrum á ári um þessar mundir, jafnvel meiri sums staðar. Ekki þarf
Strandhverfi í Jakarta.
mikið ímyndunarafl til að skilja að þetta hefur gert strandhverfin í norðurhluta borgarinnar afar berskjölduð fyrir ágangi sjávar – drjúgur hluti borgarlandsins er raunar þegar kominn undir sjávarmál. En einnig veldur landsigið skaða á ýmsum innviðum, svo sem vatns- og skólplögnum. Skaðinn er skeður og ómögulegt er að snúa þessari þróun við. Unnt væri að hægja á landsiginu með því að hætta að dæla ferskvatni úr jörðu, en til þess þyrfti mikil vatnsveitumannvirki, sem ekki eru í augsýn.
Það sama gildir í Jakarta og svo víða annars staðar í veröldinni þegar umhverfisvandi lætur á sér kræla: Hann bitnar mest á þeim sem síst skyldi. Þeir sem meiri fjárráð hafa flytja annað hvort í úthverfin, þar sem þéttleikinn er minni, eða í háa íbúðaturna þar sem þeir geta litið niður á vatnselginn og þá sem við hann þurfa að búa. Það eru hinir fátæku sem sitja í súpunni. Þeir hafa fundið sér samastað í stórborginni á stöðum sem þeir efnameiri forðast, oft á einskismannslandi. Fátækrahverfi Jakarta eru risavaxin. Lágvaxnar skúraþyrpingarnar má sjá á árbökkum, undir hraðbrautum, við járnbrautarteinana og niðri við höfnina. Því miður hafa margar aðgerðir borgaryfirvalda til að forða frekara tjóni af völdum flóða falið í sér að senda jarðýtur á vettvang til að jafna slík hverfi við jörðu svo byggja mætti enn meiri varnarvirki. Fátækt fólk hefur unnvörpum verið flutt hreppaflutningum á milli hverfa gegn vilja sínum.
Borgir eru dásamleg fyrirbæri – en þegar þær taka að vaxa of hratt getur ýmislegt farið úrskeiðis. Umhverfisvandamál ört stækkandi „ofurborga“ á borð við Jakarta eru meðal stærstu úrlausnarefna okkar daga. Miðað við spár um fjölgun borgarbúa fram til 2050 mun ekki verða verkefnalaust á þessu sviði. Mikið af vanda þessarar tilteknu borgar hefði mátt leysa með góðu skipulagi – í tíma. Því hefur því miður ekki verið að heilsa þarna. Umhverfis- og skipulagsmál krefjast enn fremur auðmýktar af hálfu yfirvalda og samráðs við íbúa, sem líka virðist nokkuð hafa skort á í þessu dæmi. Ég vona samt að einhverjir úr borgarskipulagsapparatinu í Jakarta geri sér ferð af og til út í fátækrahverfin til að heyra sjónarmið þeirra sem þar hafa gert sér heimili. Og fá sér bita í leiðinni.
(Birtist fyrst 9. apríl 2017 á vefnum Umhverfisfréttir)