Úlfhams saga
. ÚLFHAMS SAGAAðalheiður Guðmundsdóttir Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. |
.
Úlfhams saga segir frá Hálfdani vargstakki Gautakonungi og Úlfhami syni hans og átökum þeirra feðga við menn og vættir. Sagan byggir á hugmyndaheimi fornra, norrænna arfsagna og líkt og skyldar bókmenntir sækir hún efnivið sinn í ríkulega sagnahefð miðalda, sem fól í sér sagnaefni af ýmsum toga og úr ýmsum áttum. Úlfhams saga er nú varðveitt í þremur mismunandi prósagerðum frá 17., 18. og 19. öld. Tvær þeirra eru skrifaðar upp eftir eldri rímum (m.a.), og þá eflaust handriti, en sú þriðja væntanlega eftir munnmælum sem einnig má rekja til rímnanna. Sögurnar eru afar ólíkar, bæði að stíl og umfangi. Þær verða hér eftir nefndar A-, B- og C-gerð. A-gerð er varðveitt í þremur uppskriftum, en B- og C-gerð í einni uppskrift hvor. Rímur þær sem sögurnar verða raktar til eru ýmist nefndar Úlfhams rímur eða Vargstökur - og eru varðveittar í handriti frá 16. öld.
Þar sem söguþráður rímnanna er víða gloppóttur má telja líklegt að rímnaskáldið hafi ort þær eftir fyllri sögu, þ.e.a.s. fornaldarsögu sem nú er glötuð. Í inngangi að útgáfu textanna er leitast er við að renna stoðum undir tilgátu þessa, en viðfangsefni inngangs er m.a. að varpa ljósi á hina fornu sögu og birtingarmyndir hennar í gegnum aldirnar.
Eins og aðrar fornaldarsögur á Úlfhams saga rætur að rekja til aldagamalla munnmæla, jafnt sem samtímalegra bókmenntaminna. Sá sem setti Úlfhams sögu saman hefur kunnað vel að segja sögu. Varðar þar mestu að saga hans býður upp á sífellda endurtúlkun og felur í sér tákn og líkingar sem höfða til nýrra kynslóða með nýjum hætti. Hinar ólíku prósagerðir sögunnar sýna á hvern hátt viðtakendur (þ.e. þeir sem endursömdu, jafnt sem áheyrendur) tóku að jafnaði virkan þátt í mótun sagna fyrr á öldum. Hver kynslóð þiggur í arf sögur sem endurspegla túlkanir og viðhorf fyrri kynslóða, og bætir við þær og ummyndar samkvæmt eigin viðhorfum. Sá sem endursegir sögu eða skapar af henni nýja gerð (munnlega eða skriflega), leggur því sögunni til skilning sinn, jafnframt því að byggja á hugmyndum fyrri kynslóða.
Varðveisluferlið, þ.e.a.s. hin sífellda endursköpun, krefst þess að litið sé á Úlfhams sögu sem lifandi sagnaefni fremur en ákveðinn texta og þar af leiðandi er lögð rík áhersla á að skoða formbreytingar sögunnar og samband einstakra gerða. Stíl- og áherslubreytingar eru kannaðar í þessum tilgangi, ásamt ólíkri úrvinnslu hinna ýmsu sagnaminna. Þær breytingar sem orðið hafa á formi sögunnar vekja upp margvíslegar spurningar. Hvaða ástæða skyldi liggja að baki þeim? Hverju er breytt og hvað helst óbreytt? Hvers konar sögur verða til og að hvaða leyti greinast þær frá hinni "upphaflegu" sögu? Vegna þeirra ólíku vinnubragða sem einkenna prósagerðir Úlfhams sögu, hentar hún vel til samanburðar af þessu tagi.
Í útgáfunni gefur að líta allar varðveittar gerðir Úlfhams sögu og Vargstakna. Ítarlegur samanburður allra varðveittra handrita leiddi til þeirrar niðurstöðu að eftirfarandi textar voru prentaðir:
- Rímur: AM 604 h 4to. Lesbrigði neðanmáls eru prentuð eftir AM 561 4to og AM Acc. 22.
- Prósi: A-gerð er prentuð eftir AM 601 a 4to, en lesbrigði neðanmáls eru tekin eftir Lbs. 1940 4to. B- og C-gerð eru prentaðar eftir einu varðveittu handritunum, Kall 613 4to og Lbs. 4485 4to.
Allir textar eru prentaðir stafrétt eftir handritum, með orðamun annarra handrita neðanmáls. Stafsetning aðalhandrits rímnanna, AM 604 4to, ber vott um aldur þeirra og því er ástæða til að prenta texta þess stafrétt. Sömu aðferð er beitt við útgáfu prósatextanna þriggja, enda hefur sáralítið af handritum síðari alda verið gefið út stafrétt. Útgáfuaðferðum er nánar lýst í 6. kafla inngangs.
Í inngangi er leitast við að svara ýmsum spurningum um einstök handrit sögunnar og tengsl þeirra, uppruna sögunnar, tengsl hennar við aðrar sögur og merkingu. Inngangur skiptist í sex kafla: Í upphafi er gerð grein fyrir hinum mismunandi gerðum sögunnar og helstu einkennum þeirra. Að því búnu tekur við umfjöllun um handrit sögunnar með nákvæmri lýsingu á stafsetningu, máleinkennum og skrift aðalhandrita. Hér er leitast við að draga fram rök sem gefa vísbendingar um aldur rímnanna. Stafsetning þeirra í AM 604 4to, bragarháttur, mansöngur og orðanotkun benda til þess að þær séu ortar á 14. öld og talið er líklegt að þær séu settar saman á norð-vestanverðu Íslandi. Að lokinni umfjöllun um handrit tekur við ítarlegur textafræðilegur samanburður sem leiðir til ættlartrés varðveittra handrita (stemma codicum). Á þessum kafla byggir ennfremur sá efnislegi samanburður sem á eftir fylgir, en með honum er lögð áhersla á áhrif formbreytinga sögunnar, en þær gefa til kynna hvernig viðtökur hún fékk þegar hinar ungu prósagerðir urðu til. Samanburður rímna og prósagerða leiðir í ljós að saga sem skiptir um form (er samin eftir rímum) getur tekið svo miklum breytingum í meðförum prósahöfunda, að forsendur til túlkunar eða skilnings breytast. Þetta getur haft áhrif á merkingu sögunnar.
Úlfhams saga er ekki einungis áhugaverð sem efniviður í viðtökurannsóknir heldur einnig sem bókmenntaverk. Sagan er því skoðuð í ljósi ríkjandi bókmenntahefðar og leitast er við að gera grein fyrir stöðu hennar meðal íslenskra miðaldabókmennta, auk þess sem fjallað er um helstu sagnaminni hennar. Hvað gerir söguna einstaka meðal annarra íslenskra miðaldasagna? Hver er merking hennar og hvernig er hægt að afhjúpa þá merkingu? Bent er á hvernig túlka megi tákn sögunnar og hvernig ólíkar forsendur túlkunaraðferða geta leitt til mismunandi merkinga, - og þó heildrænnar, þegar öllu er á botninn hvolft.
Úlfhams saga kom út á vegum Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi árið 2001. Í júni árið 2002 var útgáfan með inngangi varin sem doktorsrit við heimspekideild Háskóla Íslands.
. | .
Árið 2004 setti leikfélagið Annað svið upp leikgerð af sögunni, í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhúsið. Sýningin tókst mjög vel, og geta allir sem að henni komu verið stoltir, enda var hún tilnefnd til sjö Grímu-verðlauna, og hlaut tvenn. Undirrituð fjallaði um sýninguna á ráðstefnunni Fornaldarsagaerne: Myter og virkelighed, sem haldin var 26.–28. ágúst 2005 í Kaupmannahöfn. Fyrirlesturinn var prentaður í samnefndu ráðstefnuriti (2009), undir titlinum „A Fornaldarsaga on Stage: From a Mythic Past to a Modern Icelandic Audience”. . |
. | .
Í tengslum við leiksýninguna voru rímurnar kveðnar í fullri lengd á tvo geisladiska. Steindór Andersen kvað, en Aðalheiður Guðmundsdóttir gaf rímurnar út með nútímastafsetningu í bæklingi, sem fylgir rímunum. Flutningurinn tekur um 90 mínútur. Útgefandi rímnanna eru 12 tónar. . |