Kall 613 4to

.

.

Kall 613 4to

.

Kall 613 4to er safnmark handrits sem er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Þessi merkilega bók er, eftir því sem best verður séð, elst varðveittra sagnabóka, sem skrifaðar voru sérstaklega fyrir börn eða unglinga á Íslandi.

.

Undir lok Íslandsdvalar sinnar, veturinn 1750–51, dvaldi Jón Ólafsson Grunnvíkingur hjá Einari Nikulássyni, frænda sínum, bónda á Söndum við Miðfjörð. Einar var sonur Nikulásar Einarssonar sýslumanns á Reynistað í Skagafirði. Dóttir Einars var Ragnheiður, sem síðar bjó á Reynistað og var móðir þeirra Bjarna og Einars, eða "Reynistaðabræðra", sem urðu úti á Kjalvegi, svo sem sagt er frá í árbókum og þjóðsögnum.

Í minnisblöðum sínum (nú AM 993 4to) getur Jón þess að þennan tiltekna vetur hafi hann kennt Ragnheiði frænku sinni að lesa og draga til stafs og hafi þá í þeim tilgangi skrifað handa henni sagnakver. Jafnframt segist hann hafa þýtt ótilteknar sögur úr dönsku og skrifað inntak rímna þennan vetur á Söndum. Þegar Jón segist hafa skrifað inntak rímna má gera ráð fyrir að hann eigi við að hann setji sjálfur saman prósatexta eftir rímum, ekki að hann skrifi eftir tilbúinni prósagerð, þar sem hann fékkst með vissu við nokkur slík verk, m.a. samdi hann prósagerðir af Sveins rímum Múkssonar og rímum af Drauma Jóni.

Fornaldarsagan Úlfhams saga er varðveitt í rímum sem ýmist eru nefndar Úlfhams rímur eða Vargstökur og þremur sagnagerðum. Tvær þeirra eru skrifaðar upp eftir rímunum, en sú þriðja væntanlega eftir munnmælum, sem einnig má rekja til rímnanna. Sú prósagerð sem ég hef nefnt B-gerð er varðveitt í handritinu Kall 613 4to. Í handritaskrá sinni getur Kristian Kålund sér þess til að líklegur ritari þessa handrits sé áðurnefndur Einar Nikulásson. Þó svo að Einar muni eitthvað hafa fengist við skriftir sjálfur, leikur ekki vafi á því að ritari handritsins er Jón Ólafsson – og er þá komið í leitirnar sagnakver það sem hann skrifaði handa Ragnheiði frænku sinni veturinn 1750–51.

Kall 613 4to er pappírshandrit sem samanstendur af 201 blaði. Handritið er vandlega unnið og nokkuð er lagt upp úr skreytingum. Framan eða aftan við sumar sögurnar er getið um ritunartíma þeirra. Kaflaskil Úlfhams sögu eru greinileg. Þau eru einkennd með skreyttum upphafsstöfum og vandaðri brotaskrift. Í þessum fyrstu línum hvers kafla, auk mannanafna, fyrnir Jón bæði stafagerð og orðmyndir.

Úlfhams saga er rituð með fljótaskrift, en nokkrar línur þó af öðrum en Jóni. Bæði hafa þær annað og heldur viðvaningslegra ritlag og afbrigði í stafsetningu. Það er vel hugsanlegt að þessar línur séu skrifaðar af Ragnheiði Einarsdóttur, sem, eins og fyrr segir, lærði að skrifa hjá Jóni þennan vetur. Hún hefur verið u.þ.b. 8–9 ára um það leyti.

Af handritinu má draga þær ályktanir að:

(1) Ragnheiður hafi lært að lesa mismunandi skrifletur, og þ.á m. fornt.
(2) Að e.t.v hafi hún í og með lært að skrifa mismunandi letur.
Og síðast en ekki síst er, eins og áður segir, hugsanlegt að handritið varðveiti sýnishorn af framvindu námsins.

En Kall 613 er annað og meira en kennslukver í lestri og skrift. Svo virðist sem efnið sé beinlínis valið á þann hátt að það hæfi Ragnheiði sem best, a.m.k. virðist unnið þannig úr því, að það henti vel uppfræðslu hennar.

Flestar þeirra tólf sagnauppskrifta sem handritið varðveitir líta út fyrir að vera eftirrit annarra handrita. Nokkrar þessara sagna eru efnisinntök, þ.e.a.s. sögur sem gerðar hafa verið eftir efni rímna, sbr. Úlfhams saga. Aðra og þriðju söguna þýddi Jón úr dönsku bókinni Tobacks-Discurser og síðasta sagan, „Laurins Könngs Chronika“, er skv. handriti prentuð á dönsku 1714 og þýdd yfir á íslensku 1743 (sjá tilv. í AM 421 fol, bls. 27). Þetta tiltekna sumar dvaldi Jón einnig á Söndum, og mun hann hafa þýtt söguna þar, skv. upplýsingum á titilblaði. Hann hefur því m.ö.o. hafist handa við gerð sagnasafnsins frá Söndum við upphaf Íslandsdvalar sinnar (1743), en ekki lokið því fyrr en skömmu áður en hann fór utan aftur (1751).

.

Titilblað sögunnar um Laurin dvergakóng, og þar með talin sú mynd sem það prýðir, er nákvæm eftirlíking titilblaðs dönsku útgáfunnar.

Aftan við formála sögunnar hefur Jón gert athugasemdir varðandi efni hennar, þar sem fram kemur að sagan er þýdd til dægrastyttingar, auk þess sem hann útleggur boðskap hennar í stórum dráttum (sjá Kall 613 4to, kver nr. 18). Í þessu tilviki a.m.k. hefur hann valið frænku sinni sögu með viðeigandi siðaboðskap, sem bendir enn frekar til þess að þýðingin hafi frá upphafi verið ætluð til kennslu.

xxxxTitilblað sögunnar um Laurin dvergadóng, frumútgáfa
xxxxfrá 1701

Um þær breytingar sem Jón gerði á Úfhams sögu og hugsanlegan uppeldisfræðilegan boðskap hans þar, má nánar sjá í Úlfhams sögu , útg. af Stofnun Árna Magnússonar 2001, k. 2.5 og 4.2. Frekari rannsóknir voru kynntar í erindinu Barnshugur við bók – um uppeldishugmyndir Jóns Ólafssonar, sem haldið var á málþinginu „Lærður maður er til allra hluta þénanlegur“: Menntun og uppeldi á 18. öld, þann 27. apríl 2002 (birt í veftímaritinu Vefni, 2003). Með nákvæmri rannsókn á handritinu sem heild mætti varpa fram þeirri spurningu hvort Úlfhams saga í Kall 613 4to sé hugsanlega hluti af stærra verki, þ.e. sagnasafni, þar sem textar hafa verið lagaðir að hlutverki bókarinnar.

.