Strengleikar
.
.
STRENGLEIKARAðalheiður Guðmundsdóttir sá um útgáfuna og ritar inngang |
.
Hinar heillandi riddarasögur STRENGLEIKA hafa notið sívaxandi vinsælda síðastliðin ár, sem og hinn eini þekkti höfundur þeirra, Marie de France. Til vitnis um þetta mætti t.d. nefna nýlegar erlendar útgáfur (sbr. helstu gagnagrunna erlendra háskólabókasafna), rannsóknir fræðimanna og stúdenta, heimasíður og umræðuhópa á Internetinu, þar sem fram fara líflegar umræður lærðra sem leikra. STRENGLEIKAR eru hins vegar lítt kunnir Íslendingum sökum skorts á aðgengilegri útgáfu. Stúdentar við Háskóla Íslands sýna sögunum þó að jafnaði mikinn áhuga og þeir allra hörðustu hafa valið að gera einstakar sögur að rannsóknarefni sínu og notast við fræðilega og stafrétta útgáfu Roberts Cooks og Mattiasar Tveitane frá 1979.
Hin nýja útgáfa (október 2006) er ætluð almennum lesendahópi og með henni gefst fólki kostur á að lesa þessar stórskemmtilegu og heillandi bókmenntir, sem þýddar voru úr frönsku yfir á norrænu á 13. öld - og eru varðveittar í handriti frá þeim tíma. Textinn er m.ö.o. sams konar þeim sem Norðmenn – og jafnvel Íslendingar – lásu á 13. öld, en stafsetning hefur nú verið færð til nútímahorfs.
.
NÁNARI LÝSING Á VERKINU
Um er að ræða 21 sögu, auk „forræðu", sem varðveittar eru í norska handritinu DG: 4–7 (í bókasafni Uppsalaháskóla) og AM 666 b 4to. Norræn þýðing ljóðsagnanna (lais) var gerð á dögum Hákonar gamla Hákonarsonar Noregskonungs, sem ríkti 1217-1263. Textarnir eru sem hér segir:
.
Forræða |
.
8. Chetovel |
. 16. Janual . |
Sögurnar eru nú gefnar út með nútímastafsetningu, en þó hefur fornum orðmyndum verið haldið, þar sem slíkt undirstrikar sérstæðan stíl þýðingarinnar og fornlegt málstig textans. Útgáfan er ætluð almenningi og miðast orðskýringar neðanmáls við almenna, íslenska lesendur. Útgáfunni fylgir inngangur, þar sem gerð er grein fyrir sögunum, uppruna þeirra, þýðingu og helstu rannsóknum.
Strengleikar hafa ekki áður verið gefnir út fyrir almenna lesendur, ef frá er talið að einstakar ljóðsögur hafa verið prentaðar í sýnisbókum íslenskra bókmennta. Þrátt fyrir að Strengleikar séu nú best varðveittir í ofangreindu norsku handriti, eru þeir engu að síður hluti af menningararfi Íslendinga. Ýmislegt, bæði handritabrot og efnisnotkun í íslenskum miðaldabókmenntum og munnmælum, bendir ótvírætt til þess að Strengleikar hafi verið til í uppskriftum hér á landi og þ.a.l. lesnir af Íslendingum, sem aftur notuðu minni/efniseiningar úr þeim í eigin sagnasköpun.
Útgáfan gefur fólki kost á að lesa einstakar bókmenntir, sem upphaflega voru skrifaðar fyrir hirðfólk á 12. öld, en fjalla þó um sams konar vandamál og fólk glímir við nú til dags, s.s. varðandi ást og hatur, hjónaband, framhjáhald, ófrjósemi, ofríki og ofbeldi.
Strengleikar eru gefnir út af Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.
.