Breyta þarf 62. gr. stjórnarskrárinnar!
eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason
Í 62. gr. Stjórnarskrárinnar er að finna grunn að kirkjuskipan landsins. Greinin er barn síns tíma en hún á uppruna sinni í 45. gr. Sjórnarskrár um hin sjerstaklegu málefni Íslands frá 1874. Þá hljómaði greinin svo:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal hið opinbera að því leyti styðja hana og vernda.
Orðalagið mótaðist af því að Ísland var ekki sjálfstætt ríki á þessum tíma. Af þeim sökum er rætt um hið opinbera en ekki ríkisvaldið.
Ákvæðið um að lútherska kirkjan „skuli vera“ þjóðkirkja á Íslandi er afleiðing af hinu sama. Í dönsku stjórnarskránni frá 1849 sagði í 3. gr. (og segir enn í 4. gr.): „ Den evangelisk-lutherske Kirke er den danske Folkekirke og understøttes som saadan af Staten.“ Eins og fram kemur í textanum er hér aðeins um lýsingu á aðstæðum að ræða. Fram að stjórnarskránni hafði ekki ríkt trúfrelsi í Danmörku. Þjóðin var því lúthersk og lútherska kirkjan kirkja þjóðarinnar. Af þeim sökum þótti rétt og skylt að ríkið styrkti hana, þ.e. styddi við trúarlega menningu þjóðarinnar. Þar sem Ísland var hluti af danska ríkinu varð sama ástand að ríkja hér. Af þeim sökum var „lýsandi“ ákvæði dönsku stjónarskrárinnar gert að „fyrirskipandi“ ákvæði í stjórnarskránni um sérmál Íslands. Til þessa þarf að taka tillit við alla umræðu um 62. gr.
Einnig er nauðsynlegt að 62. gr. segi alla söguna um kirkjuskipanina hvað stjórnarskrána áhrærir. Svo er ekki nú. Í 62. gr. segir eins og flestir vita:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
Síða er haldið áfram í 79. grein (síðari hluta):
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu, til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
Lágmarksbreyting á 62. gr. er því að hún verði þannig:
Hin evangeliska lúterska kirkja er þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum. Samþykki Alþingi breytingu á kirkjuskipuninni skal bera það mál undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
Málfarið ber 19. öldinni óneitanlega vitni og það þarf að samræma stíl væntanlegrar stjórnarskrár.
Síðan verður auðvitað að ræða hvort evangelísk-lútherska kirkjan sé enn þjóðkirkja á Íslandi eða ekki. Það er í raun ekki atriði sem slegið verður föstu með stjórnarskrárákvæði heldur hvílir það á gagnkvæmum tengslum þjóðarinnar og kirkjunnar á fjölmörgum sviðum lífsins hvort sem þjóðin í heild eða einstaklingar eiga hlut að máli.