Menn láta eitt og annað flakka á internetinu og iðrast þess síðar og vilja hylja spor sín. Aðrir rata þangað vegna annarra mistaka í lífinu sem þeir vilja síður að séu rædd þar á bæ. Í það minnsta vilja þeir að Google gleymi þeim eða geri leitina að feilsporum þeirra erfiðari. Þrautin þyngri er að verða við þessu, en internetið hefur fílsminni. Af þessu hafa risið dómsmál sem fræg hafa orðið eins og nú skal rakið.
Maður er nefndur Max Mosley og var forseti stjórnar fyrir „formúlu 1“. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þetta íþrótt þar sem menn etja kappi í akstursleikni. Ekið er hring eftir hring á sérútbúnum bifreiðum þar sem ökumenn taka í sífellu fram úr hvor öðrum. Svo hratt er ekið að næsta örðugt er fyrir aðra en sérfróða að átta sig á hver er fyrstur. Bifvélavirkjar standa í vegkantinum og þjónusta bifreiðarnar þegar þess er þörf. Ræður þá nokkru hversu röskir þeir eru í viðgerðum. Öðrum þræði er þetta því keppni í bifvélavirkjun. Keppnin er vinsæl og Mosley frægur og ríkur.
Kvöld eitt árið 2008 fór Mosley til samfunda við fimm ónafngreindar konur í Chelsea hverfinu í London. Tóku konur þessar á móti honum með kaskeiti á höfði, íkælddar leðri og stígvélum sem tóku þeim í kné. Keyrðu þær svipur í skrokk honum svo roði kom í húðina. Hrakyrtu þær og manninn og fóru með blautskap. Önnur skemmtan var og höfð í frammi sem ekki er rakin frekar. Reiddi Mosley fram ríflega þókun fyrir þjónustuna. Ekkert af því sem fram fór í þessum gleðskap var ólöglegt samkvæmt breskum lögum. Mosley sást aftur á móti yfir að ein konan hafði með sér myndbandstökuvél, smáa í sniðum. Og fjandinn varð laus eins og nærri má geta.
Getum við annars ekki bara gleymt þessu og talað um eitthvað annað? Nei, öðru nær. Myndir og frásaganir birtust í blöðum og myndbandið rataði á netið.
Mosley var að vonum brugðið þegar hann las fréttir af samfundum þessum í blöðum (News the World) og á internetinu. Þar var og myndbandsupptaka af því sem fram fór. Hann stefndi útgefandanum fyrir rétt í Bretlandi fyrir brot á rétti til friðhelgi einkalífs og hafði sigur. Voru honum dæmdar bætur að fjárhæð 60 þús. pund úr hendi útgefandans. Dómararnir komust að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða málefni sem varðaði einkalíf Mosleys sem ekki ætti erindi í fjölmiðla í hans óþökk og skipti þá engu þótt hann væri ríkur og frægur (sjá dóminn hér.). En Mosley var ekki sáttur enda ekki fyrst og fremst að slægjast eftir peningum. Allt þetta útgefna efni var ennþá aðgengilegt. Þar lá hundurinn grafinn frá hans sjónarhorni.
Af þessum sökum kærði hann málið til mannréttindadómstóls Evrópu. Hann hélt því fram að breska ríkið hefði brotið gegn jákvæðum skyldum sínum samkvæmt 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs. Með því að efnið var birt og öllum aðgengilegt væri skaðinn skeður og gætu bætur úr hendi útgefanda ekki bætt honum þann skaða. Til að vernda rétt hans til einkalífs með fullnægjandi hætti væri breska ríkinu skylt að hafa ákvæði í lögum sem skylduðu blaðamenn til að hafa samband við þann einstakling sem þeir hygðust birta viðkvæmar upplýsingar um og upplýsa um fyrirhugaða birtingu. Með því gæfist viðkomandi svigrúm til að koma mögulega í veg fyrir birtingu, t.d. með því að krefjast lögbanns við því. Mosley hafði ekki erindi sem erfiði fyrir mannréttindadómstólnum (dómur MDE hér). Var því hafnað að ríki væri skylt að hafa slíka reglu í lögum til verndar einkalífi.
Víkur þá sögunni að réttinum til að gleymast. Árið 2010 lagði spænksur ríkisborgari fram kvörtun til spænsku persónuverndarstofnunarinnar og Google Spain og Google Inc. Hann hélt því fram að auglýsing um uppboð á húseign hans, sem kom alltaf fram sem leitarniðurstaða þegar nafni hans var slegið inn á Google, bryti gegn friðhelgi einkalífs hans þar sem uppboðsmálinu væri lokið fyrir löngu síðan og hann hefði greitt allar sínar skuldir. Tengill á þessa auglýsingu skipti því engu máli og þjónaði ekki tilgangi (irrelevant). Hann krafðist þess m.a. að Google Spain or Google Inc. yrði gert skylt að fjarlægja þessar persónuupplýsingar um sig, þannig að auglýsingin kæmi ekki fram sem ein af leitarniðurstöðunum þegar leitað væri að honum með Google. Rataði málið fyrir dómstóla. Spænski dómstóllinn vísaði málinu til forúrskurðar Evrópudómstólsins í Lúxemborg þar sem m.a. þeirri spurning var beint til dómstólsins hvort einstaklingur ætti rétt á að lokað yrði fyrir aðgang að persónuupplýsingum þannig að auglýsingin kæmi ekki fram í leitarniðurstöðum leitarvélar eins og Google. M.ö.o. hvort stefnandi ætti rétt til að gleymast (the ‘right to be forgotten’) eins og þetta hefur verið orðað.
Í dómi dómstólsins frá 13. maí 2014 var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að viðeigandi ESB reglur ættu við um “vinnslu” upplýsinga í leitarvél Google, sbr. tilskipun 95/46/EB. (tilskipun). Rekstrarðilar leitarvéla sem ynnu með persónuupplýsingar gætu því ekki komið sér undan ábyrgð samkvæmt ESB reglum varðandi meðferð persónuupplýsinga þótt “aðeins” væri um leitarvél að ræða, og bæri þar með ábyrgð á því að virtur væri réttur manna til að “til að gleymast” að því einkahagi þeirra varðar. Um þann rétt segir í dóminum að einstaklingar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, eigi rétt til að beina til þeirra sem reka slíkar leitarvélar kröfu um að afmáðar séu leitarniðurstöður sem vísa á viðkvæmar persónuupplýsingar um þá. Þetta ætti við þegar um væri að ræða upplýsingar sem væru ónákvæmar, ófullnægjandi, þýðingarlausar (irrelevant) eða umfram það sem þörf væri á fyrir vinnslu þeirra. (sjá 93, málsgrein). Í þessu titekna máli væri ekki hægt að réttalæta skerðingu á friðhelgi einkalífs með vísan til fjárhagslegra hagsmuna þess er ræki leitarvélina. Þó kemur fram að rétturinn til að gleymast sé ekki algildur og og verði að vega og meta með vísan til annarra grundvallarréttinda, m.a. tjáningarfrelsisins, í hverju tilfelli, út frá því um hvers konar upplýsingar sé að ræða, hversu viðkvæmar þær væru fyrir viðkomandi einstakling og einkalíf hans o.s.frv. Þá þyrfti m.a. að líta til þess hvaða stöðu viðkomandi hefði í opinberu lífi. Á grundvelli þessara sjónarmiða var komist að þeirri niðurstöðu að Google Spain ætti að fjarlægja tengilinn á umrædda uppboðsauglýsingu úr leitarniðurstöðum sínum. (sjá dóm Evrópudómstólsins hér).
Víkur þá sögunni aftur að Mosley. Áður en þessi dómur var kveðinn upp hafði hann unnið í mál í Frakklandi þar sem Google var gert skylt að koma í veg fyrir að leitarniðurstöður sem vísuðu á tengla á vefsíður sem hefðu að geyma upphaflega efnið um fyrrgreind ævintýri hans. Þá hafði hann sigur í slíku máli í Þýskalandi eftir að dómur Evrópudómstólsins var kveðinn upp. Þá rekur hann nú mál af þessu tagi í Bretlandi og ef til vill fleiri löndum Af þessum dómum má ráða að Mosley hafi náð nokkrum árangri. Og hefur undirritaður sjálfur sannreynt að mun erfiðara er að finna efnið sem upphaflega var birt um ævintýri Mosleys en áður var.
Áþekk dómsmál hafa og verið rekin víðar af öðrum einstaklingum og tilefnum. Afleiðingar þessa alls eru næsta ófyrirsjánlegar þegar til lengri tíma er litið. Google berast nú þúsundir beiðna á ári hverju um breytingar á leitarniðustöðum frá einstaklingum alls staðar að og hefur a.m.k. í Evrópu tekið um 43% þeirra til greina. Tvö hundruð sjötíu og fimm Íslendingar höfðu í apríl sl. óskað eftir því við Google að fá að gleymast og hefur Google orðið við beiðni um að fjarlægja leitarniðurstöður í 36% tilfella og er það nokkuð minna en meðaltal Evrópu. (sjá hér). Mál af þessu tagi hafa einnig komið á borð Persónuverndar þótt niðurstöður þeirra liggi ekki fyrir enn sem komið er.
Markaðshlutdeild Google á heimsvísu á markaði fyrir leitarvélar er tæp 75% (hér). Þegar þetta er haft í huga og sú staðreynd að fjöldi manna og kvenna reiðir sig því sem næst eingöngu á Google við leit á netinu, er ljóst að mögulegar stórfelldar beytingar á leitarniðustöðum fyrirtækisins, til að fullnægja kröfum um friðhelgi einkalífs, eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á aðgengi almennings að upplýsingum. Ef að líkum lætur gæti þetta haft neikvæðar afleiðingar fyrir tjáningarfrelsið enda aðgengi að upplýsingum ein af grunnforsendum þess. Þetta verður því mun ljósara sem rétturinn til að gleymast á með sama hætti við um aðrar leitarvélar. Ákveðin hætta er á að þeir sem reka leitarvélar freistist til að eyða fleiri tenglum en færri úr leitarniðurstöðum til að forðast óþarfa áhættu á sektar eða bótagreiðslum, eða eftir atvikum til að gæta eigin hagsmuna að öðru leyti eða hagsmuna annarra sem tengjast þessum fyrirtækjum, hvort heldur þeir hagsmunir eru fjárhagslegir, pólitískir eða annars konar. Afleiðingarnar gætu orðið óheppilegir tilburðir til ritskoðunar á leitarniðurstöðum á internetinu frjálsri umræðu í lýðræðislegu samfélagi til tjóns.
Á hinn bóginn má einnig velta fyrir sér hver þýðing þessa er í raun því þessir dómar gegn þeim er reka leitarvélar, sem hér hefur verið getið, fela ekki í sér að skylt sé að eyða upplýsingunum sjálfum á vefsíðunum þar sem þær er að finna. Afleiðingar fyrir notendur netsins virðist því til lengri tíma fremur geta orðið þær að gera þeim erfiðara að finna þessar upplýsingar ef tengill á þær kemur ekki fram við notkun leitarvélar. Ef til vill er þetta því barátta við vindmyllur þegar upp er staðið.