Af framsetningu sumra íslenskra fjölmiðla mætti ætla að búið sé að reka Rússland úr Evrópuráðinu (t.d.: https://www.frettabladid.is/frettir/russlandi-vikid-ur-evropuradinu/). Þetta er ekki alveg rétt. Rússar eru ennþá í Evrópuráðinu. Hið rétta er að fulltrúar Rússlands fá tímabundið ekki að sitja fundi ráðherranefndarinnar eða ráðgjafaþingsins. Þetta er gert samkvæmt 8. gr. stofnsamnings Evrópuráðsins, en þar segir:
Any member of the Council of Europe which has seriously violated Article 3 may be suspended from its rights of representation and requested by the Committee of Ministers to withdraw under Article 7. If such member does not comply with this request, the Committee may decide that it has ceased to be a member of the Council as from such date as the Committee may determine.
Aðgerðin er þannig frekar takmörkuð að sinni þótt hún kunni að vera undanfari þess að farið verði fram á að Rússar fari úr ráðinu sjálfviljugir en ella verði þeir reknir. Rússland, sem er lang fjölmennasta aðildarríkið, er sem sagt eftir sem áður í Evrópuráðinu og fjölmargir rússneskir starfsmenn Evrópuráðsins munu halda áfram störfum sínum. Rússar taka sem fyrr t.d. þátt í störfum Mannréttindadómstóls Evrópu. Rússneski dómarinn situr þar enn og mál sem þar eru til meðferðar gegn Rússlandi verða að óbreyttu rekin þar áfram. Þá geta rússneskir borgarar áfram borið mál sín undir dómstólinn.
Með þessari takmörkuðu aðgerð er þess freistað að halda opnum leiðum til samskipta við Rússland um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið í samræmi við grunngildi Evrópuráðsins. Þetta eru aftur á móti ekki málefni sem hafa verið á forgangslistanum hjá Pútín og þess tæplega að vænta að hann missi svefn vegna þessarar aðgerðar Evrópuráðsins nema síður sé. Hún gæti aftur á móti leitt til þess að Rússar svari fyrir sig með því að yfirgefa Evrópuráðið fyrir fullt og allt eins og þeir hafa endurtekið daðrað við í gegnum árin. Talskona utanríkisráðuneytisins í Rússlandi Maria Zakharova fór ekki í grafgötur um að viðbragða Rússa væri að vænta þegar hún sagði að ákvörðunin markaði upphafið að endalokum Evrópuráðsins, því án Rússlands ætti það sér engan tilvistargrundvöll! (hér: https://tass.com/russia/1411999). Þótt hér sé ef til vill tekið nokkuð djúpt í árina er ljóst að brotthvarf Rússlands úr Evrópuráðinu myndi hafa ýmsar afleiðingar í för með sér.
Fyrir utan pólitískar og fjárhagslegar afleiðingar fyrir Evrópuráðið (sem lengi hefur verið fjársvelt) gætu afleiðingar brotthvarfs Rússa orðið margvíslegar aðrar og alvarlegar, meðal annars fyrir rússneska borgara, en um það bil fjórðungur allra mála sem rekin eru fyrir dómstólnum eru gegn Rússlandi. Ef Rússar hverfa á brott fyrir fullt og fast lokast þessi leið fyrir rússneska borgara. Þá lokast þessi leið einnig fyrir borgara Úkraínu til að láta reyna á mannréttindi sín vegna framferðis rússneskra yfirvalda þar í landi.
Því miður er það svo að aðgerðir af þessu tagi, þótt skiljanlegar séu frá pólitísku sjónarhorni, gætu að lokum bitnað helst á þeim sem síst skyldi. Alþjóðastjórnmál eru snúin og hugsa þarf marga leiki fram í tímann.
Höfundur er fyrrverandi dómari við MDE