Hvað er hatursorðræða?

Í pistlinum er fjallað um hugtakið hatursorðræðu. Þess er freistað að lýsa megineinkennum og mismunandi þrepum hatursorðræðu út frá alvarleika hennar. Þegar hugmyndir fóru að mótast á alþjóðavettvangi á fimmta áratug síðustu aldar um að stemma stigu við hatursorðræðu  höfðu menn einkum í huga alvarlegustu afbrigði hennar og einkum þá hatursfulla tjáningu vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða. Rakið er að síðan þá hafi orðið sú þróun að hugtakið "hatursorðræða" hefur víkkað út á tvenna vegu. Í fyrsta lagi með því kröfur um alvarleika hafa færst niður og í öðru lagi hefur þeim hópum fjölgað sem njóta verndar. Er hugtakið ekki  lengur bundið við fyrst og fremst þjóðerni, kynþætti og trúarbrögð með því að tilvísun til kynhneigðar og kynvitundar hefur bæst við, m.a. hér á landi. Kenna má vilja til þess í  hinni almennu umræðu að hugtakið verði víkkað enn frekar út með því að gera minni kröfur um alvarleika  og að fjölga eigi hópum sem hún taki til. Hvort tveggja þrýstir á mörk tjáningarfrelsis.  

I

Ákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 leggur refsingu við því að rógbera, smána eða ógna manni eða hópi vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Er brotinu gjarnan lýst sem „hatursáróðri“ eða „hatursorðræðu“. Nokkur dæmi er í dómaframkvæmd á hér á landi um að einstaklingar hafi verið sakfellir á grundvelli þess ákvæðis og dæmdir til refsingar.

Í almennri umræðu kemur þetta orð oft fyrir án þess að leitast sé við að skilgreina eða afmarka nánar hvað átt er við. Kallað er eftir viðbrögðum með því að beita refsivendi ríkisvaldsins eða öðrum aðferðum til að stemma stigu við hatursorðræðu, en oft skortir þó á að sú umræða sé byggð á skýrum hugmyndum um hvað nákvæmlega átt er við.

Í þessum pistli set ég fram sjónarmið um hvernig afmarka megi þetta hugtak, án þess þó að þreyta lesandann með lagaflækjum. Fremur er þess freistað að ná til hins almenna þátttakanda í opinberri umræðu og leggja honum til verkfæri til að móta sér rökstudda skoðun á málinu. Ég held því fram að hugtakið hafi fengið víðtækari merkingu en upphaflega var ætlað þegar það tók að þróast á fimmta áratug síðustu aldar. Vekur það ýmsar spurningar út frá meginreglum um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttamálum.

II

Samkvæmt málskilningi mínum er um „áróður“ (propaganda) að ræða þegar vísvitandi, ítrekað og kerfisbundið er reynt að breyta eða festa í sessi skoðanir eða hegðun hjá þeim sem áróðrinum er ætlað að ná til.  Ef óbeit eða hatur á tilteknum einstaklingi eða hópi er kerfiðsbundið breitt út er má segja að  um „hatursáróður“ að ræða. Á hinn bóginn nægja stök ummæli til að ákvæði 233. gr. a hgl. verði talið eiga við, eins og dómar vitna um. Þykir því m.a. af þeirri ástæðu hæfa betur að nota orðið „hatursorðræða“ í þessum pistli um það brot sem lýst er í 233. gr. a í almennum hegningarlögum.

Ekki liggur fyrir skilgreining á hugtakinu „hatursorðræða“ að þjóðarétti eða landsrétti ríkja, sem sammæli eru um. Hugtakið er nokkuð hlaðið tilfinningum, matskennt og hefur ekki að geyma skýr hlutlæg viðmið, eins og æskilegt er að lagaleg hugtök geri, ekki síst á sviði refsiréttar.

Nefna má ýmsar þjóðréttargerðir þar sem finna má eins konar skilgreiningar eða lýsingar á því sem nefnt er hatursorðaræða. Gefa þær ágætar vísbendingar um það sem ætla má að séu taldir meginþættir í inntaki þess á alþjóðlegum vettvangi, sem og í íslenskum rétti.

Nefna má fyrst 2. mgr. 20. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 16. desember 1966 (SBR) sem vísar til haturs vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða, sem og tjáningar sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap, eða ofbeldi.

Þá ber að nefna Samning SÞ um afnám alls kynþáttamisréttis frá 21. desember 1965.  Í 4. gr. er vísað til áróðurs sem byggir á hugmyndum eða kenningum um yfirburði tiltekinna kynþátta, eða hóps manna af ákveðnum litarhætti eða þjóðlegum uppruna, eða sem reynir að réttlæta eða hvetja til kynþáttahaturs og misréttis í hvers konar mynd.

Hér skal og nefnd samþykkt ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1997, sem vísar til tjáningar sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, sem birtist m.a. í óvæginni þjóðernishyggju, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.

Þá má hér vísa til samnings Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001 og viðbótarbókun við samninginn frá 28. janúar 2003. Viðbótarbókunin vísar til framsetningar hugmynda eða kenninga sem mæla með, stuðla að eða kynda undir hatri, mismunun eða ofbeldi sem er beint gegn hvaða einstaklingi eða hópi einstaklinga sem á rót sína að rekja til kynþáttar, litarháttar, ætternis eða þjóðlegs eða þjóðernislegs uppruna og til trúarbragða.

Enn er hér vísað til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 31. mars 2010 og  tilmæla þings Evrópuráðsins 29. apríl 2010 um hatursorðræðu á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar og aðildarríki hvött meðal annars til að að tryggja einstaklingum vernd gegn hatursorðræðu án þess þó að skerða tjáningarfrelsi.

Að lokum þykir mega nefna hér 27. gr.  laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Í skýringum í greinargerð við ákvæðið er hugtakið skilgreint sem tal, texti, tjáning, hegðun og/eða framkomu sem birtist í texta, hljóði og/eða mynd þar sem hvatt er til ofbeldis, fordóma og/eða fordómafullrar hegðunar gegn einstaklingi eða hópi af fólki og/eða með því að vanvirða, smána, hræða og/eða ógna viðkomandi einstaklingi eða hópi.

III

Framangreindar gerðir falla ágætlega að því sem ætla má að sé, samkvæmt almennum málskilningi, megineinkenni tjáningar sem kölluð er „hatursorðræða“ . Nánar má gera ráð fyrir að slík tjáning hafi eftirtalin einkenni:

- Tjáningin er fordómafull, þ.e. hún er byggð á fáfræði eða skeytingarleysi um staðreyndir og er órökstudd þar sem ekkert tillit tekið til andstæðra sjónarmiða.

– Tjáningin lýsir hatri þess er ummæli viðhefur á þeim eða því sem þau beinast að, þ.e. illvilja, óvinskap, fyrirlitningu, óbeit, andúð eða öðrum viðlíka mannlegum tilfinningum, sem líta má á sem birtingarmyndir haturs.

- Tjáningin beinist að nánar tilgreindum einstaklingum eða hópum vegna tiltekinna sérkenna þeirra eða stöðu.

- Tjáningin er opinber þannig að fordóma- og hatursfull ummæli sem kunna falla í einkasamtölum eða lokuðum vefsvæðum í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra yrðu almennt ekki talin hatursorðræða. Það skal játað að þetta er ekki skýr viðmiðun og skoðanir ólíkar um hvenær birting er opinber, einkum á netöld þeirri sem við nú lifum

Framangreind lýsing á einkennum hatursorðærðu tekur þannig til hvers konar opinberrar og fordómafullrar tjáningar um illan vilja, óbeit o.s.frv., óháð því, á þessu stigi, hvort  tjáningin nýtur verndar tjáningarfrelsisákvæða í stjórnarskrá eða mannréttindasamningum, þar með talið Mannréttindasáttmála Evrópu eða hvort hún nær því stigi (alvarleika) að teljast refsiverð samkvæmt 233. gr. a hgl. eða sambærilegum refsiákvæðum í rétti annarra ríkja.

Spurningin er hvenær orðaræðan komin á það stig að réttlætanlegt sé að handhafar opinbers valds grípi til aðgerða gegn henni, með refsingum ef því er að skipta, vegna meginreglna um tjáningarfrelsi?

IV

Í því skyni að freista þess að afmarka hugtakið frekar má gróflega greina a.m.k. fjögur mismunandi þrep hatursorðræðu. Hér er stuðst við það sem nefnt hefur verið „The Hate Speech Pyramid“ á enskri tungu. Umfjöllun um þetta má finna víða á netinu og er framsetningin ekki alltaf nákvæmlega eins, en aðalatriðin eru eftirfarandi að því er mér virðist.

1. Efsta stig hatursorðræðu felur samkvæmt þessari flokkun í sér hvatningu til þjóðarmorðs eða annarra viðlíka alvarlegra brota á grunngildum réttarins (jus cogens) gagnvart einstaklingum eða hópum, eða stuðning við slík brot eða samkennd með þeim. Hér mætti m.a. fella undir tjáningu sem felur í sér stuðning við, samkennd með eða afneitun glæpa gegn mannkyni og mannúð, svo sem stuðning við, samkennd með eða afneitun helfarar nasista gegn gyðingum í síðari heimstyrjöldinni, en víða í Evrópu er í gildi löggjöf sem leggur refsingu við slíkri tjáningu. Einnig kæmi til greina að fella hér undir tjáningu sem felur í sér stuðning eða samkennd með hryðjuverkum, sem einnig er refsiverður verknaður í sumum löndum og raunar hér á landi, sbr. 100. gr. c almennra hegningarlaga.

2. Í næsta þrepi fyrir neðan er orðræða sem felur í sér fordómafulla og hatursfulla tjáningu sem er í senn er ógnandi og lýsir samkennd með eða stuðningi við og markvisst hvetur (incites) til aðgerða sem fela í sér ólögmæta og skaðlega mismun, eða jafnvel ofbeldis, í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra (t.d. kynþáttar eða litarháttar). Hér er meginatriðið að tjáningin felur í sér hvatningu til illra verka gagnvart tilteknum hópum.

3. Næst kemur orðræða sem á fordómafullan hátt lýsir hatri, andúð, óbeit í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra, sem réttlætanlegt er talið að takmarka vegna verndar mannorðs eða réttinda þeirra sem fyrir verða eða vegna þjóðaröryggis og almannareglu eða almenns siðgæðis, eða eftir atvikum út frá jafnréttissjónarmiðum. Munurinn á þessari hatursorðræðu og þeirri sem fellur undir lið 2 að framan er þá sá, að ummæli verða ekki talin fela í sér stuðning, samkennd eða hvatningu til að beita skaðlegum og ólögmætum aðgerðum, þ.m.t. mismunun, gegn viðkomandi einstaklingi eða hópi, þótt tjáningin sé annars stuðandi, móðgandi, niðrandi eða særandi fyrir þá.

4. Í neðsta þrepi er samkvæmt þessari flokkun orðræða sem ekki telst „ólögmæt“ í lagaskilningi, sem þó eru all góð sammæli um að teljist siðferðilega eða pólitíkst ámælisverð vegna þess að hún, þrátt fyrir allt, vitnar um fordómafullan skort á umburðarlyndi og virðingu fyrir réttindum annarra og gildum, auk þess sem hún kann að vera móðgandi, særandi eða niðrandi fyrir einstaklinga eða þá hópa sem tjáningin beinist að. Hugsunin er þá sú að tjáningin sé ekki nægilega gróf eða alvarleg, miðað við tilefni hennar, til að réttlætanlegt sé vegna meginreglunnar um tjáningarfrelsi að setja henni skorður með beitingu refsinga. Munurinn á þeirri tjáningu sem þannig telst „lögmæt“ og þeirri sem fellur undir 3 hér á undan er fyrst og fremst stigsmunur, en ekki eðlismunur og hann er auðvitað ekki alltaf skýr.

Ég tel að íslensk dómaframkvæmd verði í aðalatriðum skilin svo, að aðeins orðræða sem fellur undir lið 1, 2 og 3 sé nægilega alvarleg til að falla undir 233. gr. a hegningarlaga til að teljast eiginleg hatursorðræða í skilningi þess ákvæðis. Þetta virðist einnig vera tilfellið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, þótt það sé raunar ekki skýrt, án þess að nánar verði farið út í það í þessum stutta pistli.

V

Almennt má segja að þegar hugmyndir fóru að mótast á alþjóðavettvangi á fimmta áratug síðustu aldar um að stemma þyrfti stigu við hatursorðræðu  hafi menn einkum haft í huga tvö efstu þrepin. Enn fremur má ráða að menn hafi  fyrst og fremst haft í huga hatursfulla tjáningu vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða.

Síðan þá hefur orðið sú þróun að hugtakið "hatursorðræða" hefur víkkað út á tvenna vegu. Í fyrsta lagi með því að það hefur færst niður á 3. þrep að því er alvarleika tjáningar snertir og jafnvel það 4.  Þá er hugtakið ekki lengur bundið við  þjóðerni, kynþætti og trúarbrögð, með því að tilvísun til kynhneigðar og kynvitundar hefur bæst við. Mér virðist vera að viss þrýstingur sé á að enn sé hugtakið víkkað út þannig að tjáning á 4. þrepi skuli talin með og að fjölga eigi hópum sem hún taki til. Hvort tveggja þrýstir á mörk tjáningarfrelsis.

Helsta ágreiningsefnið varðandi hatursorðræðu er hvort heimilt eigi að vera í lýðræðislegu samfélagi, þar sem tjáningarfrelsi er í hávegum haft, að refsa einstaklingum fyrir hana. Að sínu leyti má segja að alþjóðasamfélagið hafi svarað þeirri spurningu játandi þegar hatursorðræða á í hlut. Talið hefur verið réttlætanlegt, til varnar réttindum annarra, lýðræðislegum grundvallargildum og í þágu jafnréttis, að setja henni skorður. Spurningin um hvernig þetta samræmist meginreglum um tjáningarfrelsi verður áleitnari eftir því sem hugtakið víkkar út eins og lýst er að framan. Álitamálið er þá hvenær tjáning er orðin nægilega alvarleg til að teljast hatursorðræða og hvaða hópar eiga að njóta verndar fyrir slíkri orðræðu?

Enn má spyrja hvort staða þeirra einstaklinga sem tjá sig á hatursfullan hátt skipti einhverju máli við mat á alvarleika tjáningarinnar?

Að því er síðasta atriðið varðar má hafa í huga að oft er það svo (en ekki alltaf) að hatursfull tjáning í kommenntakerfum samfélagsmiðla stafar frá einstaklingum sem lítið eiga undir sér og hafa enga getu eða burði til að fylgja eftir hatursfullum tilfinningum sínum með skaðlegum aðgerðum gagnvart þeim sem hatur þeirra og óbeit beinist að. Höfum einnig í huga, að oft á óbeit og hatur gagnvart því sem öðruvísi er og ókunnugt, sem og þörfin til að tjá slíkar tilfinningar, einmitt rætur í jaðarsetningu, menntunarskorti, fáfræði, vanmætti og reiði þeirra sem þannig tjá sig. Hatursorðræðan er oftar en ekki birtingarmynd óánægju og örvætningar þeirra vegna eigin hlutskiptis í lífinu.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.