Slaufun og tjáningarfrelsi

Við getum aldrei verið viss um að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng. Og jafnvel þótt við værum viss, væri bannsetning mesta böl.  - John Stuart Mill, Frelsið, bls. 55 

I

Nokkuð er rætt um slaufunarmenningu (cancel culture) þessi dægrin. Í pistli sem ég birti á vefnum hjá mér í janúar síðastliðnum var sett fram sú skoðun að ágreiningur um réttmæti slaufunar sé siðferðilegur ekki lagalegur [Saklaus uns sekt er sönnuð]. Slaufun (útskúfun, útilokun), sem félagslegt viðbragð eða taumhald, fari ekki gegn lögum, þótt deila megi um siðferðilegt réttmæti hennar í einstökum tilfellum. Hér ætla ég að ræða aðeins um slaufun og tjáningarfrelsið.

Ein birtingarmynd slaufurnar er að unna einstaklingum, og þá helst einstaklingum sem fyrir eru kunnir eða frægir, ekki vettvangs til að tjá sig. Fyrir þessu eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri að maður hafi gert eitthvað það af sér að margir telja hann ekki þess verðan að hlustað sé á hann undir nokkrum kringumstæðum og hann eigi ekki að fá vettvang til að tjá sig, a.m.k. ekki opinberlega. Og ef hann er horfinn á vit feðra sinna, að bækur hans séu brenndar, tekin niður minnismerki sem honum hafa verið reist o.fl. Gildir þá einu hversu lærður hann er eða var eða hvort ætlaðar skoðanir hans eru réttar eða rangar. Ekki skal hlustað á það sem hann hefur fram að færa og helst hindra, ef unnt er, að hann tjái sig opinberlega. Líklega er þetta að einhverju marki réttmætt, einkum þegar gjörðir manna eru stórlega siðferðilega ámælisverðar eða viðkomandi hefur orðið uppvís af glæp sem svívirðilegur telst á almennan mælikvarða, og þá alveg sérstaklega þegar slíkar ávirðingar hafa verið sannaðar á viðkomandi eftir reglum réttarríkisins.

Hin ástæðan er að viðkomandi hafi einfaldlega orð á sér fyrir, hjá háværum og fyrirferðamiklum hópum, að hafa ranga og jafnvel hættulega skoðun, þótt hann hafi annars ekkert af sér gert eða sé líklegur til þess, annað en að tjá þessa röngu og válegu  skoðun sína. Skoðun hans er álitin svo vitlaus að betra sé fyrir heilbrigt og gott samfélag að hún heyrist hvergi og spilli ekki huga og hönd þeirra sem hafa hin réttu gildi og réttu skoðun. Skiptir þá engu máli hvort viðkomandi hafi mögulega verið gerð upp þessi skoðun eða hafi kannski, ef á hann er vandlega hlustað, aðra skoðun en gert var ráð fyrir að hann hefði. Einstaklingur með ætlaða ranga skoðun er kveðinn í kútinn með því að gera að honum hróp og köll og að lokum er honum slaufað fremur en að rökræða við hann. Þegar svo er komið fyrir þeim er fyrir verður þá stoðar almennt ekkert fyrir hann að freista þess að rökstyðja sína skoðun betur, útskýra hana eða jafnvel útskýra að hann hafi ekki alveg þá skoðun sem honum er ætluð eða hann hafi jafnvel skipt um skoðun og sé nú í raun með rétta skoðun.

Ég þykist merkja í almennri umræðu vaxandi áhuga margra á að kveða í kútinn fólk með ætlaðar rangar skoðanir. Þetta er réttlætt meðal annars með því að skoðunin sé ekki bara röng heldur líka hættuleg og til þess eins fallin að rugla fólk í ríminu og leiða það af braut réttrar skoðunar og breytni. Stundum er það gert með því að kalla hina röngu skoðun hatursorðræðu, jafnvel þegar það hugtak á ekki við. Um þetta skrifaði ég pistil í apríl sl. (Hvað er hatursorðræða?) Þótt það sé ekki lögbrot að leggja ekki við hlustir þegar maður með ætlaða ranga skoðun tjáir sig og hrópa að honum ókvæðisorð fremur en að rökræða við hann og slaufa honum síðan fyrir fullt og fast, má spyrja hvort það sé gott fyrir tjáningarfrelsið og heilbrigð skoðanaskipti í lýðræðislegu samfélagi? Hið augljósa svar er að svo er ekki.

II.

Ágætt er að minna á Frelsið eftir John Stuart Mill þegar rætt er um tjáningarfrelsið og mikilvægi þess (ísl. þýðing Þorsteins Gylfasonar 1970). Í öðrum kafla bókarinnar er fjallað um hugsunar- og málfrelsi. Mill segir meðal annars að eina leiðin til að nálgast að marki alhliða skilning á einhverju efni sé að leggja eyrun við því, sem fólk með ýmsar skoðanir hefur um það að segja, og kynna sér öll viðhorf hinna ólíkustu manngerða. Enn segir, að enginn vitur maður hafi nokkru sinni aflað sér þekkingar með öðru móti en þessu, og það sé heldur ekki eðli mannlegrar skynsemi að afla sér þekkingar með neinum öðrum hætti.

Kenningar Mill um mikilvægi málfrelsis eru hornsteinn hugmynda um tjáningarfrelsið eins þær birtast í alþjóðlegum mannréttindasamningum og stjórnarskrám ríkja. Raunar eru þær grundvöllur lýðræðislegra og frjálslyndra stjórnarhátta nú á dögum, ef út í það er farið. Þessi hugsun birtist í vel þekktum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Handyside gegn Bretlandi frá 1976. Þar segir í málgrein 57 (hér):

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags og eitt af skilyrðum fyrir framþróun þess, sem og þess að hver og einn einstaklingur geti þroskast. Að teknu tilliti til 2. mgr. 10. gr. sáttmálans [sem mælir fyrir um heimilar takmarkanir], á tjáningarfrelsið ekki eingöngu við um upplýsingar og hugmyndir sem mönnum falla í geð eða þær sem telja má meinlausar eða þýðingarlitlar heldur einnig um þær sem móðga, hneyksla eða fara fyrir brjóstið á handhöfum ríkisvalds eða einhverjum hluta borgaranna. Þetta leiðir af kröfum fjölhyggju, umburðarlyndis og víðsýni sem einkennir lýðræðislegt samfélag.

Þessi orð MDE hafa verið endurtekin í tugum dóma um tjáningarfrelsið síðan þau féllu fyrst.

III

Ákall um slaufun eða útilokun einstaklinga tengist oftar en ekki skoðunum þeirra á umræðu um kynferðisofbeldi eða áreiti, ætluðum fordómum þeirra gagnvart hinsegin fólki og fólki af öðrum kynþáttum eða þjóðerni, og eftir atvikum ætlaðri karlrembu viðkomandi eða kvenfyrirlitningar. Er sá hinn sami þá gjarnan sakaður um hatursorðræðu, sem er hugtak sem tilhneiging er til að ofnota, eins og fyrr er getið. Þá er sótt að fólki sem leyfir sér að viðra efasemdir um hamfarahlýnun og þörf fyrir víðtækar frelsisskerðingar í sóttvarnarskyni, svo eitthvað fleira sé nefnt.

Stundum er ákall um slaufun einstaklings reist á langsóttum og djörfum ályktunum af einstökum ummælum viðkomandi og ógætilegu eða ónákvæmu orðalagi í hita augnabliksins, sem of oft er gróflega slitið úr samhengi við málflutning hans að öðru leyti. Svo er stundum bara um misheppnaðan brandara ræða. Mönnum er síðan á grundvelli slíkra ályktana gerðar upp skoðanir, hugsanir og tilfinningar sem þeir sjálfir kannast ekkert við að bera í brjósti. Og ef þessar ætluðu skoðanir, hugsanir og tilfinningar manns eru ekki réttar er kallað eftir að viðkomandi verði slaufað.

Slaufun einstaklings við aðstæður sem hér um ræðir er ekki brot á rétti hans samkvæmt stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálum til að tjá sig. Þannig er ekkert ólögmætt við að einstaklingar í sínum félagslegu samskiptum slaufi hver öðrum í þeim skilningi sem hér er fjallað um. Þeir eru ekki skyldir til að hlusta hver á annan, þótt hugmyndir um almenna kurteisi, háttvísi og umburðarlyndi, kunni að mæla með því að við séum duglegri við að hlusta hvort á annað, svona almennt séð.

IV

Þá um hlutverk fjölmiðla í þessu sambandi, einkum ríkisrekinna og þeirra sem þiggja styrki af opinberu fé til starfsemi sinnar. Tilvist ríkisrekinna fjölmiðla, sem og rök fyrir stuðningi við einkarekna miðla, er reist á þörf fyrir öfluga og fjölbreytta fjölmiðla í lýðræðislegu samfélagi, enda er rökræða um hugmyndir og stefnumið kjarni lýðræðisins. Þetta er einmitt hugsunin að baki ákvæðum fjölmiðlalaga  nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, sem mæla fyrir um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Þar kemur fram að styðja skuli við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknum fjölmiðlum rekstrarstuðning, sbr. 62. gr. d. Í greinargerð segir ennfremur að tilgangurinn með stuðningi við einkarekna fjölmiðla sé beinlínis að efla lýðræðið í landinu með fréttaflutningi og upplýstri umræðu. Í anda Mill verður að halda því til haga að engin umræða getur með góðu móti talist upplýst án þess að fólk með ólíkar skoðanir fá að kveða sér hljóðs í henni þegar það á við.

Í lokin er vert að hafa í huga að ein afleiðing slaufunarmenningar er að ýmsir veigra sér við að tjá skoðanir sínar opinberlega af ótta við að kalla yfir sig fúkyrði og slaufun. Má þó alveg gera ráð fyrir að margt í þessum skoðunum, og þá einkum í rökunum fyrir þeim, væri gagnlegt að heyra í umræðu sem gerir kröfu til þess að teljast upplýst. Svo eru sumir (kannski ekki margir!) sem eru opnir fyrir því að skipta um skoðun ef rökin fyrir nýrri skoðun eru betri en rökin fyrir þeirri gömlu. Þá eru hinir sem geta með upplýstri umræðu sótt sér efnivið til að styrkja rökin fyrir þeim skoðunum sem þeir höfðu fyrir. Það má lengi bæta rök fyrir skoðun sinni með því að taka afstöðu til mögulegra röksemda gegn henni. En þá er líka nauðsynlegt að hlusta á gagnrökin ef þau eiga að gagnast manni enda aldrei að vita nema sá er tjáir sig viti eitthvað sem maður veit ekki sjálfur. Þetta er galdurinn við upplýsta umræðu þar sem tjáning ólíkra skoðana fær rými, líka þær sem móðga, hneyksla eða fara fyrir brjóstið á handhöfum ríkisvalds eða einhverjum hluta samborgaranna. Í þessu felst fjölhyggjan, umburðarlyndið og víðsýnin sem lýðræðislegt samfélag þrífst illa án.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.