Millibilsmaður - Skáldsaga eftir Hermann Stefánsson (Sæmundur 2022)

Millibilsmaður - Skáldsaga eftir Hermann Stefánsson (Sæmundur 2022)

Jólabókavertíðin 2022 er hafin. Skemmtilegur tími og eitt það besta við jólin á Íslandi ef út í það er farið. Nú ætla ég að taka upp á því að setja inn á vefinn hjá mér, í sérstaka möppu, þanka um þær bækur sem ég kemst yfir að lesa á þessari vertíð. Þar sem starf mitt felst í lestri dómskjala lungann úr deginum, er því þreki sem eftir er til bóklesturs takmörk sett, svo ég á ekki von á að pistlarnir verði margir eða tíðir.

Fyrsta „jólabókin“ sem ég las þetta árið er skáldsaga Hermanns Stefánssonar - „Millibilsmaður“ sem Bókaútgáfan Sæmundur gefur út.

Fremst í bókinni tekur höfundur fram að texti hennar sé skáldskapur, en líkindi við veruleikann, raunverulegt fólk og viðburði séu þó ekki tilviljun. Þá segir höfundur að hið ótrúverðugasta í bókinni sé einmitt það sem byggt sé á heimildum, prentuðum sem óprentuðum. Þetta er einkenni höfundar þar sem hið líklega er einmitt ólíklegast og hið ólíklega líklegast. Sagan er tileinkuð minningu hjónanna Guðmundar Hannessonar læknis og skipulagsfrömuðar (1866-1946) og Karólínu Margrétar Sigríðar Ísleifsdóttur Breiðfjörð (1871-1927), langafa og langömmu höfundar. Þau hjónin eru meðal höfuðpersóna sögunnar, og heita þar Jannes Guðmundur Jannesson og Mekkín Karolína Sigríður Ísólfsdóttir Breiðfjörð. Líkindi eru með nöfnum þeirra persóna sem bera uppi söguna og þess raunverulega fólks sem þær eru sóttar í. Tekur höfundur fram að hann hafi sérstaklega lagt sig fram við að gæta ósamræmis í nafngiftum og rithætti, í takti við tíðarandann.

Sögusviðið er fyrst og fremst Reykjavík á fyrsta áratug síðustu aldar. Doktor Jannes og Mekkín eru flutt til Reykjavíkur frá Akureyri. Í Reykjavík breiðist spíritisminn út eins og faraldur og um þetta leyti er Tilraunafélagið stofnað, sem beitti sér meðal annars fyrir því að sanna með vísindalegum aðferðum að framhaldslíf væri staðreynd og vel mætti halda uppi samræðum við framliðna með aðstoð millibilsmanna, þótt ýmsir efuðust mjög, meðal annarra doktor Jannes. Um leið var félagið starfsvettvangur fyrir þekktasta miðil þessa tíma Indriða Indriðason sem í sögunni heitir Tindri Jónsson ættaður úr Saurbæjarsveit í Dalasýslu. Þótti hann búa yfir meiri dulrænum hæfileikum en títt var um aðra menn.

Að starfi Tilraunafélagsins komu margir af betri borgurunum í höfuðstaðnum (heiti þeirra í sögunni í sviga fyrir aftan). Þannig var helsti forkólfur þess Einar Hjörleifsson Kvaran, rithöfundur og ritstjóri (Einar J. Kvaran), Björn Jónsson ristjóri Íslafoldar og síðar ráðherra Íslands 1909-1911 (Björn Hrafndal Jónsson), séra Haraldur Nielsson prófessor (Húnbogi Nielsson). Ýmsum fleiri andans mönnum bregður fyrir í sögunni sem ekki verða nefndir. Svo dúkkuðu nokkrir framliðnir upp á fundum félagsins eins og vænta mátti og tóku virkan þátt í fundarstörfum, svo sem fundargerð félagsins, sem rakin er í sögunni vitnar um, þar sem fært er til bókar að fram hafi komið á fundinum meðal annarra fjölnismaðurinn Konráð Gíslason sem hvarf annars á vit ferða sinn um 15 árum áður og stjórnaði nú fundum að handan. Þar flutti og Hallgrímur Pétursson sálm. Svo var það einn framliðinn sem hafði ekki tíma til að staldra lengi við á fundi félagsins þar sem hann þyrfti að ræða við Sókrates. Margt annað framliðið fólk kemur fyrir í sögunni sem ekki er fært að gera hér frekari skil. Á æðstu stöðum í stjórnkerfinu ræða menn möguleika á því að Ísland geti verið í framlínu á heimsvísu í spíritisma og liður í því gæti verið mannkynbótastefna til rækta miðilshæfileika með þjóðinni, svo sem með því að leiða helstu kvenkosti landsins undir Tindra Jónsson millibilsmann, sem víðkunnur var fyrir dulræna hæfileika sína.

Í hinu stærra samhengi hlutanna er í sögunni af gáska og húmor tekist á við stórar tilvistarspurningar um tengsl trúar, dulspeki og vísinda, þar sem doktor Jannes rannsakar rannsóknir Tilraunafélagsins á framhaldslífinu og leitast til þrautar við að finna svar við þeirri spurningu hvort Tindri Jónsson sé í raun og veru sá millibilsmaður sem hann segist vera og þau skilaboð sem hann flutti frá framliðnum ekta eða fals. Ekki verður sagt frá því hér hvernig til tókst um þessar rannsóknir Jannesar, en leyfi mér þó að upplýsa, ef rétt er skilið, að undir lokin er Jannes farinn að daðra við þá hugmynd að kannski geti hann verið viðstaddur sína eigin jarðarför og jafnvel flutt þar líkræðu sjálfur með aðstoð millibilsmanns.

Skáldsaga Hermanns Stefánssonar - "Millibilsmaður" - er stórskemmileg og margt er þar kostulegt að finna og drepfyndið, þótt hinar stærri tilvistarspurningar séu ekki langt undan. Sagan er skrifuð af miklu stílfengi og unnendur íslenskunnar verða ekki sviknir, en slíkar skáldsögur hafa verið of fáar hin síðustu ár. Ég mæli með þessari bók.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.