Tugthúsið – Haukur Már Helgason (Mál og menning – 2022)

 

I

Lestur bókarinnar tengist áhuga mínum á íslenskri réttarsögu. Raunar skrifaði ég fyrir margt löngu ritgerð til embættisprófs í lögfræði um áhrif Upplýsingarinnar á íslenska refsilöggjöf og sakamálaréttarfar. Upp úr henni vann ég síðar samnefndan kafla í ritið Upplýsingin á Íslandi (1990) í ritstjórn Inga Sigurðssonar prófessors emeritus í sagnfræði, hvers ég naut leiðsagnar um lendur upplýsingarinnar á Íslandi undir lok BA náms í sagnfræði. Sögutími bókar Hauks Más er einmitt þegar hugmyndir upplýsingamanna um þessi efni eru festast í sessi Evrópu, eða frá því um 1750 til 1840. Efni bókarinnar er mér því skylt.

Afbrot og refsingar á Íslandi á 18. öld er endurtekið stef í íslenskum bókmenntum. Fyrst er nefnd Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness. Sú saga er að sönnu stórbrotin og marglaga, en för Jóns Hreggviðssonar um svipugöng íslensks og dansks réttarkerfis, sem hófst á fyrsta áratug aldarinnar, liggur í gegnum hana alla. Hér má og nefna Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson en bakgrunnur hennar eru morðin á Sjöundá á Rauðasandi 1802. Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson kemur mér einnig hug þótt sú saga gerist síðar. Þá eru mörgum kunnar bækur Björns Th. Björnssonar Haustskip (1975), sem er saga um örlög Íslendinga sem fluttir voru í þrælakistur Kaupmannahafnar á árunum 1745-1763 og Falsarinn um Þorvald Þorvaldsson frá Skógum í Þelamörk, sem falsaði peningaseðil og var dæmdur til dauða. Fleira mætti telja þótt ekki verði gert hér. Má því segja að Haukur Már ráðist ekki á garðinn þar sem lægstur þar sem bók hans skapar hugrenningartengsl við stórvirki í íslenskri bókmenntasögu.

II

Hugmyndir upplýsingamanna eiga rætur í heimspekikenningum um náttúrurétt og náttúruleg réttindi manna sem ríkisvaldið geti ekki af þeim tekið. Rökrétt var að menn veltu fyrir sér hvaðan ríkisvaldinu kæmu heimildir til að beita fólk refsingum og hvort því valdi væru settar skorður. Þetta væri unnt að gera með ýmsum hætti. Ein leiðin væri að þrengja hugtakið afbrot og fækka þannig heimildum til að refsa fólki, svo sem fyrir ætluð brot sem varða trúarviðhorf þess, samvisku, skoðanir og tjáningu þeirra, sem og siðferðilegri breytni. Þannig mætti fella ýmis konar háttsemi sem áður var talið til afbrota utan þess hugtaks. Þá voru mótaðar ýmsar grundvallarreglur refsiréttar, svo sem að heimildir ríkisvaldsins til að refsa fólki styddust við lagaheimild sem mætti ekki vera afturvirk og sjálfstæðir dómstólar gerðu mönnum refsingu. Loks mótuðust hugmyndir um að refsing skyldi hæfa glæpnum og refsivist skyldi beitt í auknum mæli. Loks skyldu lagðar af ýmsar líkamlegar refsingar, svo sem hýðingar, aflimanir og aðrar limlestingar á fólki fyrir litlar eða engar sakir, svo ekki sé nú talað um dauðarefsingar. Þess í stað var talað fyrir refsivist og vinnu fanga í bland við betrun þeirra til gera þá að gildum samfélagsþegnum. Þetta hefur í framkvæmd gengið upp og niður, svo sem menn þekkja. Upplýstar hugmyndir um glæpi og refsingar náðu skjótri útbreiðslu. Raunar eru þær margar nú á dögum svo fastar í sessi að segja má að þær séu hluti af réttarvitund þorra manna, a.m.k. í Evrópu.

Hugmyndir þessar náðu til Danmerkur eins og annarra ríkja í Evrópu, þótt þær bærust til Íslands seint og illa og eiginlega ekki að marki fyrr en Magnús Stephensen dómstjóri kom með þær í farteski sínu frá námsvist í Kaupmannahöfn og tók sæti í hinum nýja Landsyfirrétti sem stofnaður var árið 1800. Fremstur í flokki þeirra sem höfðu kynnt sér þessar hugmyndir var einmitt Henrik Stampe en hann var helsti ráðunautur stjórnarinnar í Kaupmannahöfn til ársins 1784, en hann kemur við sögu í bók Hauks Más. Á eftir honum kom svo Christian Colbiørnsen. Hlutverk þeirra var meðal annars að vera stjórninni til ráðuneytis um refsirétt og meðferð sakamála. Ekki þarf að rýna lengi í verk þeirra til að átta sig á að þeir þekktu til hugmynda upplýsingarmanna um glæpi og refsingar. Lögðu þeir sig nokkuð fram við að innræta íslenskum lagamönnum þessar hugmyndir með óljósum árangri

III

Fyrir meðal annars áhrif Upplýsingarinnar urðu þær breytingar á refsirétti í Danmörku og þar með á Íslandi, að heimildum til að dæma menn í refsivist (þrælkun) fjölgaði. Föngum á Íslandi sem þurfti að senda utan til afplánunar fjölgaði þar með því ekkert tugthús var á Íslandi til að hýsa allt þetta fólk. Meðfram þessu varð talsverður straumur Íslendinga í þrælakistur Kaupmannahafnar og lýsir Björn Th. Björnsson þessu í heimildasögu sinni Haustskip, sem fyrr er nefnd. Kostnaður við upphald fanga meðan ferðar var beðið, því þær voru strjálar, lagðist á sýslumenn þeim til örgustu mæðu.

Þótt umræður um mögulegt tugthús á Íslandi hefðu hafist nokkru fyrr var það vissulega fyrir bænaskrá íslenskra sýslumanna frá 1757 að skriður komst á málið eins og fram kemur í bók Hauks Más. Í bænaskránni, sem send var konungi á hátindi Upplýsingarinnar í Evrópu, er meðal annars biðlað til konungs um að rýmka heimildir til að taka sakamenn af lífi. Þá þyrftu sýslumenn ekki að halda þeim uppi þar til þeir yrðu sendir þrælkunar hjá kónginum. Ódýrara og skilvirkara væri fyrir alla sem ættu hagsmuna að gæta, annarra en sakamannanna sjálfra, að lífláta þá strax. Ekki bætti úr skák, frá sjónarhóli stjórnarinnar í Kaupmannhöfn, að kaupmenn fóru um þessar mundir að heimta gjald fyrir flutning fanga til Danmerkur.

Í bók Hauks Más kemur fram að áðurnefndur Henrik Stampe fékk bænaskrána til umsagnar. Samdi hann ítarlega skýrslu um þessa illræmdu bænskrá og er að sjá að honum hafi verið nokkuð brugðið. Eitt af því sem hann mælti með sem lausn var að reisa hegningarhús á Íslandi. Með því skyldu í einu höggi slegnar þrjár flugur, spara sýslumönnum uppihald dæmdra manna og stjórninni kostnað af flutningi þeirra í þrælakistur sínar. Enn mætti nýta vinnuaflið við þrælakjör á Íslandi svo sem Skúli Magnússon innréttingamaður og fleiri höfðu hug á. Þannig má segja að upplýsing og peningar hafi ráðið mestu um að húsið var reist, þótt í ljós komi, þegar saga þessi er rannsökuð, að hugsjónirnar virðast hafa vikið undra skjótt fyrir sjónarmiðum um kostnaðarhagkvæmni og þrefi um hvernig reksturinn skyldi fjármagnaður. Er þess þá að geta að afrakstur af vinnu fanga innan og utan Múrsins, sem húsið var kallað, hrökk lengst af skammt þótt ekkert væri kaupið (utan brauð- eða brennivínskammta um tíma) og annar kostur oftast rýr, nema þegar mikið lá við að þeir fengu þá næringu sem dygði til að þeir nýttust til vinnu. Þá er líka ljóst að margir sem störfuðu í húsinu og höfðu þar öll ráð í hendi sér hirtu lítt um upplýstar refsikenningar og óvíst hvort þeir höfðu yfirhöfuð frétt af þeim. Þessa ber merki doktorsritgerð Björn Þórðarsonar um Refsivist á Íslandi 1761-1925, en saga hússins er þar kortlögð af mikilli natni og fjármálin áberandi leiðarstef.

IV

Í bók sinni tekur höfundurinn Haukur Már sér fyrir hendur að segja sögu hegningarhússins frá nýju sjónarhorni samanborið við aðra á undan honum sem hafa nálgast efnið frá víðara fræðilegu sjónarhorni. Þetta gerir hann með því að beina athyglinni að lífinu í húsinu og lífi og örlögum þeirra er þar voru vistaðir eða störfuðu þar hverju sinni. Ég tel að framlag Hauks Más til þessarar sögu sé mikilsvert og mikil viðbót við það sem áður hefur verið skrifað um þessi efni. Kafar hann býsna djúpt í þessa sögu og dregur á afar sannfærandi hátt upp mynd af lífi fanganna í húsinu sem er nöturlegri en mig hafði órað fyrir. Taldi ég mig þó fyrir lestur bókarinnar hafa vitað ýmislegt misjafnt um þessa stofnun. Verður til að mynda ekki betur séð en að vinnu fanga innan og  utan Múrsins sé að sönnu best lýst sem þrælahaldi, meðal annars við að bera grjót í nýja dómkirkju í Reykjavík. Þá var meðferð fanga, líkamlegar refsingar og agaviðurlög sem þeir voru beittir, sem og aðstæður og sá kostur sem þeim bauðst mótaður af fullkomnu skeytingarleysi um hag þeirra, harðneskju og grimmd sem leiddi fjölda þeirra til örkumlunar og dauða eins og skýrt er af bók Hauks Más. Í bókinni birtist þessi saga sem ljótur blettur á íslenskri réttarsögu og voru þar þó fyrir margir stórir blettir og ljótir.

VI

Höfundur hefur unnið mikla heimildavinnu, með því að skoða frumheimildir, svo sem löggjöf, bréfaskriftir ýmis konar milli embættismanna, opinberar skýrslur, dómsskjöl o.fl. og næsta líklega einnig fræðileg skrif um efnið. Bók Hauks Más er þó ekki fræðirit því þótt mikið sé um almennar frásagnir af heimildunum eða efni úr þeim í bókinni eru vísanir til þeirra með þeim hætti að ekki er unnt, eða að minnst kosti mjög fyrirhafnarsamt, að staðreyna hvort rétt sé eftir haft. Skáldaleyfi höfundar auðvelda það ekki heldur. Ég tek fram að ég efast þó ekkert um að rétt sé eftir haft þar sem það á við.

Á bakhlið kápu bókarinnar segir að um skáldsögu sé að ræða. Frásögnin og framvinda sögunnar er þannig að fangar og starfsmenn líða fyrir sjónir lesanda eins og skuggamyndir fremur en ljóslifandi persónur og skil aðal- eða aukapersóna eru óglögg. Fangarnir birtast þar hver á fætur öðrum flestir hoknir af fátækt, striti, vesöld, harðræði og bugaðir af ofbeldi og óréttlæti þessa heims. Þar birtast og ráðsmenn, tugtmeistarar og aðrir sem störfuðu í þessu húsi, sem og embættismenn, háir sem lágir, sem flestir létu sér þessa illu meðferð og þetta mikla óréttlæti sig í fáu varða. Erindi þeirra sem tóku málstað fanganna og óskuðu úrbóta voru afgreidd af æðstu embættismönnum sem stagl og leiðindi. Svo er þar sagt frá fálkaföngurum, landmælingamönnum, stjörnuskoðunarmönnum sem sem koma við sögu hússins. Persónugalleríið í bókinni er afar stórt og fjölbreytt. Í bókinni eru þannig í raun margar smærri sögur sem þó gætu margar hver um sig verið uppistaða í sjálfstæðar sögur. Vegna aðferðar höfundar við að koma allri þessari sögu á framfæri er verður stundum illa fest hönd á einstökum persónum og vafalaust væri áhugavert að kynnast mörgum þeim betur og fá að vita meira um lífshlaup þeirra og örlög. Í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni stakk höfundurinn sjálfur upp á að um sögulega skáldsögu eða heimildasögu kynni að vera að ræða, en var þó, ef ég skil rétt, ekki alveg viss hvernig flokka bæri. Skiptir slík flokkun reyndar litlu máli, því bókin er að sönnu snjöll og mikilsverð eins og hún er og best að lesendur nálgist hana þeirri forsendu og velji henni sjálfir stað í bókahillunni að lestri loknum.

Þá aðeins um málfar og stíl. Í því efni verð ég að játa að mér fannst textinn á stundum seigur undir tönn, einkum við upphaf lestursins. Helgast þetta af því að víða eru setningar langar og bútaðar niður með aukasetningum og innskotssetningum sem hver um sig inniheldur sjálfstæð efnisatriði þótt þau séu um leið tengd. Þess er og að geta að í bókinni er fjallað um tímabil Íslandssögunnar sem orðað hefur verið við „íslenskunnar trufl og rammskældan böguskap, sem af dönskunni stendur“. Ætla verður að stíllinn mótist af hendi höfundar á köflum, næsta örugglega meðvitað, af grúski hans í heimildunum og þannig hinum málfarslega tíðaranda, sem og einnig þeim stíl sem vænta mætti í skýrslu sögumannsins Páls Holt. Oftast er höfundur á léttari spretti og textinn líður fram heiður, tær og bráðsnjall.

VI

Undir lokin varpar skýrsluhöfundurinn og sögumaðurinn Páll Holt því fram að forvitnilegt sé, hafandi í huga þessa ömurlegu fortíð hússins „að ríkisstjórnir velji sér þetta samhengi og störfum sínum og hitt hvaða áhrif það hefur á þéttbýli að verða til í kringum tugthús í þeirri nálægð við óslitnar refsingar og með þann aðgang að vinnuafli fanga sem á dönsku hétu þrælar.“ Nú get ég ekki svarað þessari spurningu Páls Holts (höfundar), að öðru leyti en að rifja upp að Hæstiréttur Íslands var beinlínis í tughúsinu við Skólavörðustíg á sínum fyrstu starfsárum. Í því fólst ákveðin tegund af íslenskri skilvirkni með því leiða mátti sakamenn, þegar eftir upplestur dómsorðs, niður á næstu hæð til að hefja þar afplánun. Vil einnig benda á að stjórnskipunardómstóll Suður-Afríku í Jóhannesarborg, sem settur var á fót eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er í endurgerðu húsi á rústum eins illræmdasta fangelsis landsins. Þar dvöldu þúsundir fanga um lengri eða skemmri tíma og týndu lífinu vegna hörmulegra aðstæðna og illrar meðferðar. Þar í landi hefur þessi staðreynd þá táknrænu merkingu, að bygging þar sem réttindi manna voru áður fótum troðin skuli eftirleiðis vera varðstöð um þau. Á Íslandi hafa menn líklega lítið velt fyrir sér slíkum táknmerkingum og eins líklega valið þetta hús til að hýsa æðstu stjórn landsins vegna kostnaðarhagræðis, rétt eins og þegar tekin var ákvörðun um byggingu þess á sínum tíma. Auðvitað er við hæfi að fyrir utan þetta fyrrum illræmda tugthús standi minnismerki um allt það skuggsækna fátæka almúgafólk sem týndi þar lífi sínu.

Afar áhugaverður lestur sem ég mæli óhikað með.

 

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.