Guðrún Eva Mínervudóttir – Útsýni (Bjartur 2022)

 

Reynsluheimur minn er sá að mér hentar skást að skrifa bóklega þanka um fræðirit, aðallega sagnfræði og lögfræði, en einnig að nokkru það sem kalla má heimildasögur, sögulegar skáldsögur eða sögur sem hafa skýra sögulega tilvísun til raunverulegs fólks og raunverulegra atburða. Ekki spillir fyrir ef í þeim er dass af heimspeki, pólitík og hagfræði. Ég hef þó lesið talsvert af skáldskap gegnum áratugina. Þannig les ég til dæmis allt eftir Gyrði Elíasson nema handritin sem hann er enn með í skúffunni hjá sér, enda kemst ég ekki í þau þar sem ég þekki manninn ekki neitt og veit ekki hvar hann á heima. Sagnaheimur hans höfðar sérlega mikið til mín. Ekki veit ég af hverju það er og hef ekki yfir að búa bókmenntafræðilegum orðaforða sem gerir mér kleift að skýra það á sannfærandi hátt. Kannski er það vegna þess að allir þessir introvertar og einfarar, sem Gyrðir töfrar fram í bókum sínum, höfða svona mikið til mín. Þrátt fyrir þessar takmarkanir mínar, og kannski vegna þeirra, ákvað ég, eftir að hafa ráfað einsamall langa stund milli drekkhlaðinna bókaborðanna í Pennanum í Kringlunni, að fara út fyrir þægindarammann, og spreyta mig aðeins á Guðrúnu Evu Mínervudóttur og bók hennar Útsýni.

Á kápu bókarinnar er saga Guðrúnar Evu Aðferðir til að lifa af ausin lofi af viðurkenndum og þekktum bókmenntadómendum, en svo vill til að þetta er eina bókin sem ég hef áður lesið eftir þennan höfund. Lofgjörðir af þessu tagi á bókarkápum hafa markaðsáhrif á mig og auka kauplöngun mína. Ég fell gjarnan fyrir svona auglýsingabrellum í bókamenntageiranum og hef oft setið uppi með bækur sem mér þóttu ekki rísa undir lofinu. Ég hef því oft verið gabbaður til að kaupa vondar bækur, svo það sé nú sagt. Í þessu tilfelli, vil ég trúa, að meira máli hafi skipt að mér fannst Aðferðir til að lifa af áhugaverð og mér lék forvitni á að kynnast höfundinum betur. Þori varla að segja það, en hún minnti mig á Gyrði.

Sagan er um unga konu Sigurlilju de Waal, sem er svo hávaxin og mjó að hún gæti málað „skipsmöstur að innan“. Sigurlilja er svolítið á skjön í lífinu, að áliti móður hennar. Höfundur áréttar þessa sérstöðu sögupersónu sinnar með ýmsum hætti. Hún á hollenskan föður sem hefur lítið af henni að segja. Hún passar ekki í bílsæti og flugvélar og ekki inn í læknavísindin, já eiginlega ekki inn í heiminn.  Á dimmu vetrarkvöldi í Hafnarfirði sér hún ljósboga á himni, eins konar geimskip, líður út af og er vakin upp og fylgt heim af ókunnugum manni, sem kemur ekki frekar við sögu. Ef ég skil rétt er hún eftir þetta þeim hæfileika búin að sjá veruleikann með augum annarra í bókstaflegri merkingu. Þetta gengur eiginlega svolítið lengra því hún nánast klæðir sig húð annarra og er um tíma það fólk hvers augum hún sér heiminn með, að öðru leyti en því að hún getur ekki tekið líf þeirra yfir og stýrt því hvað það tekur sér fyrir hendur.  Reynsla, hugsanir og kenndir þessa fólks verða hennar eigin á þennan passífa hátt. En hún er sérlega hávaxin og þannig er útsýni hennar meira en okkar hinna sem eru svona rétt í meðallagi og svo ég tali nú ekki um þá sem lágvaxnari eru. Nú veit ég að margir sem ég þekki lesa ekki undir nokkrum kringumstæðum bækur sem fjalla um geimverur, handanveruleika og önnur slík hindurvitni. Verð því að taka fram strax og þessi bók Guðrúnar Evu hefur, eftir mínum skilningi, ekkert sem slíkt að gera.

Ramminn sem höfundur mótar kringum þessa sérstæðu og margslungnu sögu er þó frekar einfaldur. Sagan hefst á að Sigurlilja (Lilja) tekur sér fyrir hendur, að ósk móður sinnar, ferðalag til Bakkafjarðar um sumarsólstöður til að ganga frá dánarbúi eftir aldraða frænku þeirra mæðgna, Teresu. Á þessu ferðalagi hittir hún fjölda fólks. Þessi einfaldi söguþráður heldur sögunni saman og skapar henni ramma, en innan hans er heill heimur og miklu stærri tímarammi en þarf til að leysa þetta tiltekna verkefni af hendi. Ég ætla ekki að spilla lestrinum fyrir mögulegum lesendum með því að rekja söguþráðinn hér nánar.

Á ferðalaginu kynnist lesandinn fjölda fólks; sögupersónunni sjálfri, Teresu frænku, nágrönnum og kunningjum hennar á Bakkafirði, öllu því fólki sem hún tekur sér bólfestu í til að sjá heiminn í gegnum og ýmsu öðru fólki sem staldrað hefur við í lífi hennar, svo sem skólafélögum, vinnufélögum og „vinum“, því óljóst er hvort hún getur átt vini yfirhöfuð.  Þannig eru innan þessa ramma margar smásögur þar sem þessar persónur birtast, segja sína sögu og hverfa svo. Þarna er meira að segja glæpasaga. Þannig stendur aðalpersónan í miðju þessu persónugalleríi og setur sig í spor alls þessa fólks og hlustar á sögur þeirra. Þar stendur Sigurlilja utan við sjálfa sig, ef svo má segja og upplýsir lítið um sig, áform sín, langanir og þrár ef einhverjar eru. Lestur bókarinnar er afar sérstakt ferðalag sem höfundurinn býður lesandanum með sér í. Endir sögunnar er einnig sérstæður, svona í samhengi sögunnar‚ ef svo má segja, því skýringar á þessum hæfileikum Sigurlilju eru jarðbundnari en maður kynni að ætla. Segi ekki meira um það. Þetta skýrist síðari hluta bókarinnar.

Hver er lærdómurinn? Nú verður líklega hver og einn lesandi að ráða í það eftir sínum skilningi, eins og á við um allar góðar skáldsögur. Mér virðist ýmislegt koma til greina þótt ekki sé tryggt að höfundurinn myndi fallast á neitt af því, enda hef ég ekki þann hæfileika að sjá söguna með augum höfundarins sjálfs. Ég les bara textann eins og hann liggur fyrir út frá mínu afgirta sjónarhorni. Í öllu falli minnir sagan á að við erum í raun alltaf lokuð af við eigið sjónarhorn. Allir eiga sér sína sögu og allar eru þessar sögur áhugaverðar og verðugar. Sumar þeirra kunna að þykja hversdagslegar á ytra borði, en aðrar eru dramatískar og tilfinningaþrungnar. Góður er sá eiginleiki að geta sett sig í spor annarra og freista þess að horfa á heiminn frá annarra sjónarhóli og leggja sig fram um að skilja þannig afstöðu þeirra og sérstöðu betur. Hvert og eitt líf er þess verðugt að því sé lifað og það er sérstakt og frásagnarvert.  En þessi eiginleiki að sjá heiminn sífellt með augum annarra er þó ekki heppilegur að öllu leyti því hann kann að leiði til þess að maður setji eigið sjálf til hliðar. Með því að lifa lífi annarra setur maður sitt eigið til hliðar. Það er einmitt það sem aðalpersónan gerir lengst af, hún dregur sig í hlé, hefur engin plön fyrir sig eða metnað sér til handa og er fjarlæg og einræn. Hún lifir í fjölskrúðugu lífi annarra. Eins og Guðrún Eva segir, Sigurlilja vistar sínar „sjálfur“ í símann sinn, en þær hverfa síðan þegar líftíma hans lýkur, svona eins og hann er gerður til. Sigurlilja skilur sjálfa sig eftir á ferð sinni um líf, huga, afstöðu og sjónarhorn annarra. Svo taka hlutirnir á sig aðra mynd þegar maður hefur ekki lengur þá sérstöðu að vera hlutlaus og velviljaður áhorfandi og verða þess í stað ábyrgur fyrir sjálfum sér og öðrum. Sagan er vissulega margræð og unnt að leggja út frá henni á mismunandi vegu. Líklegt er að einstaka lesendur geri einmitt það, hver og einn út frá sínu afmarkaða  sjónarhorni.

Mér hugnast stílinn á bókinni sérleg vel. Um leið og hann er einfaldur, tær og blátt áfram er hann fullur af næmni og skáldlegri andagift og léttri kímni þegar það á við. Og svo er hann alveg laus við þreytandi orðskrúð, óðamæli og tilgerðarlega upphafningu sem einkennir suma höfunda.

Vel gerð og áhugaverð skáldsaga sem skrifuð er af ríku innsæi og næmni.

 

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.