Eins og fram kom í fyrri færslu eru nú liðin tuttugu ár frá því Íslendingar gerðust aðilar að norrænu samstarfi um stjörnusjónauka á Strákakletti (Roque de los Muchachos) á La Palma, einni af Kanaríeyjum.
Aðdragandinn að formlegri aðild var bæði langur og strangur og enn eru mörg atriði í þeirri sögu óskráð. Í pistli, sem Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur skrifaði á sínum tíma í Fréttabréf Háskólans með góðri aðstoð Þorsteins Sæmundssonar stjarnfræðings, má þó finna gamansama lýsingu á atburðarásinni. Á ári stjörnufræðinnar 2009 birtist svo í ritinu Undur alheimsins stutt og hnitmiðuð grein Gunnlaugs Björnssonar stjarneðlisfræðings um sjónaukann, sögu hans og notkun (sjá bls. 18-21). Þar er einnig minnst á íslensku aðildina. Ýmsar aðrar greinar í sama riti fjalla um efni sem tengjast að hluta notkun íslenskra stjarnvísindamanna á Norræna sjónaukanum. Í þessari færslu er ekki ætlunin að fjalla um öll íslensku rannsóknarverkefnin, heldur aðeins gefa stutta lýsingu á fyrstu skrefum Íslendinga á nýjum vettvangi.
Fyrstu verkefnin: Þyngdarlinsur, hulduefni og vetrarbrautaþyrpingar
Íslendingar hófu rannsóknir með Norræna sjónaukanum strax haustið 1997. Í fyrsta verkefninu, sem unnið var að í nokkur ár í samvinnu við erlenda vísindamenn, var gerð tilraun til að ákvarða magn og dreifingu hulduefnis í þyrpingum vetrarbrauta með því að mæla þyngdarlinsuhrif þess. Örnólfur E. Rögnvaldsson stjarneðlisfræðingur fór fyrstur Íslendinga til La Palma til slíkra mælinga, en skömmu síðar bættust svo Vilhelm S. Sigmundsson stjarneðlisfræðingur og fleiri í hópinn. Niðurstöður mælinganna og túlkun þeirra birtist í nokkrum vísindagreinum á næstu árum, en einfaldari lýsingu á verkefninu og mælingunum er að finna í Morgunblaðsgreinum frá þessum tíma, sjá hér og hér.
Vilhelm, sem á þessum tíma var kennari við MR, hjálpaði fjórum nemendum sínum að móta verkefni byggt á mæligögnum þyngdarlinsuhópsins. Verkefnið sigraði í Hugvískeppninni 1999 og lenti síðar sama ár í fyrsta sæti í samkeppni ungra evrópskra vísindamanna. Um það afrek má lesa hér og hér.
Niðurstöður MR-inganna voru áhugaverðar og að frumkvæði Vilhelms voru í kjölfarið lögð drög að nýju rannsóknarvekefni með Norræna sjónaukanum. Það fjallaði um litgreiningu vetrarbrauta í þyrpingum með það fyrir augum að öðlast vitneskju um myndun og þróun þyrpinganna. Nánari lýsingu á verkefninu og niðurstöðum þess má finna hér.
Gammablossar
Árið 1997 urðu þáttaskil í alþjóðlegum rannsóknum á gammablossum, þegar glæður fundust á sýnilega sviðinu eftir einn slíkan atburð. Rófmælingar á glæðunum gáfu rauðvik blossans sem sýndi að hann hafði orðið í fjarlægri vetrarbraut. Af þessu varð ljóst að venjulegir sjónaukar, þar á meðal Norræni stjörnusjónaukinn, gátu komið að góðum notum við rannóknir á gammablossum og upptökum þeirra. Íslenskir stjarneðlisfræðingar voru tiltölulega fljótir að taka við sér og eftir að hafa ráðfært sig við danska samstarfsmenn varð það úr, að Gunnlaugur Björnsson hóf rannsóknir á gammablossum árið 1998 í samvinnu við hóp norrænna vísindamanna. Átakið bar fljótt árangur eins og lesa má um í viðtali við Gunnlaug frá því í mars 1999.
Eftir þessa ánægjulegu niðurstöðu jókst áhugi á gammablossum mjög hér á landi. Það varð meðal annars til þess að á næstu árum urðu rannsóknir á þessum mögnuðu fyrirbærum meginviðfangsefni íslenskra starnvísindamanna (sjá einnig greinar í ritinu Undur alheimsins). Mælitími Íslendinga á Norræna sjónaukanum hefur og í seinni tíð að mestu verið helgaður athugunum á glæðum gammablossa undir markvissri stjórn Páls Jakobssonar stjarneðlisfræðings.
Aðild Íslendinga að Norræna stjörnusjónaukanum hefur svo sannarlega reynst „lyftistöng fyrir stjarnvísindi á Íslandi“ eins og komist var að orði í Morgunblaðinu í júlí 1997. Íslendingar fengu ekki aðeins aðgang að Norræna sjónaukanum sem slíkum, heldur einnig alþjóðlegu samfélagi stjarnvísindamanna sem auðveldaði mjög samstarf við öfluga erlenda rannsóknarhópa. Slík samvinna hefur svo aftur opnað dyr að öðrum sjónaukum, svo sem Hubble-sjónaukanum og VLT.
Í dag standa stjarnvísindi föstum fótum í íslensku fræðasamfélagi. Það er meðal annars aðildinni að Norræna stjörnusjónaukanum að þakka.