Stjarnvísindafélag Íslands 30 ára

Stjarnvísindafélag Íslands var stofnað föstudaginn 2. desember 1988 og er því þrjátíu ára á þessu ári.  Hér verður fjallað um forsöguna og helstu ástæður fyrir stofnun félagsins og jafnframt sagt frá hápunktunum í sögu þess. Sögumaður var virkur þátttakandi í atburðarásinni frá upphafi og því er frásögnin mjög á persónulegum nótum. Viðhorf og skoðanir höfundar skína óhjákvæmilega í gegn og eins verður að taka gloppótt minni hans með í reikninginn. Ég vona því að félagsmenn og aðrir velunnarar sendi mér línu, ef þeir telja að einhvers staðar sé hallað réttu máli, eða ef gleymst hefur að geta um mikilvæg atriði.

Eins og allir vita, taka opinberir aðilar ekkert mark á erindum, sem rituð eru á bréfsefni án veglegs bréfshauss. Það var því fyrsta verk nýkjörins formanns Stjarnvísindafélagsins í desember 1988 að hanna slíkan haus fyrir félagið. Árangurinn má sjá á myndinni og ber þess merki, að hið ágæta forrit MacWrite hafi komið við sögu. Þessi haus var í stöðugri notkun í nokkur ár.

 

Drög að forsögu

Ég held ég hafi fyrst kynnst Þóri Sigurðssyni skólaárið 1971-72, þegar við kenndum báðir við Menntaskólann í Reykjavík. Fljótlega kom í ljós, að við áttum ýmislegt sameiginlegt, þar á meðal brennandi áhuga á raunvísindum, sér í lagi eðlisfræði og stjörnufræði. Samræður okkar snerust í fyrstu um fræðileg efni innan þessara fræðigreina, en tóku svo smám saman að beinast að stöðu greinanna sjálfra hér á landi. Þetta var upphafið að löngum samræðum okkar um stöðu stjarnvísinda á Íslandi, sem fleiri tóku síðar þátt í og leiddu á endanum til þess að Stjarnvísindafélag íslands var stofnað.

Á þessum árum, í upphafi áttunda áratugarins, var mikill hugur í íslenskum raunvísinda-mönnum. Raunvísindastofnun Háskólans hafði verið sett á laggirnar 1966 (sjá einnig hér og hér) og BS-nám í raunvísindum  hófst við Verkfræði- og raunvísindadeild árið 1970 (sjá einnig hér). Fyrstu BS-eðlisfræðingarnir útskrifuðust 1973, en áður (frá 1951) hafði verið hægt að nema styttri útgáfu af greininni til BA-prófs í heimspekideild. (Einnig höfðu verkfræðinemar hlotið undirstöðumenntun í raunvísindum allt frá því að fyrrihlutanámið var flutt heim haustið 1940.) -  Nánari umfjöllun um þessa merku sögu má finna hér.

Þrátt fyrir hina mikilvægu uppbyggingu raunvísinda við Háskóla Íslands, var stjörnufræði ekki kennd þar á þessum tíma. Upplýsingar um nýjungar á sviði nútíma stjarnvísinda voru einnig mjög af skornum skammti hér á landi. Þó man ég eftir áhugaverðum erlendum fyrirlesurum, sem hingað komu í byrjun áttunda áratugarins. Til dæmis flutti Christian Möller erindi á vegum Nordita um þyngdarhrun og almennu afstæðiskenninguna í september 1972 og Stirling Colgate gaf sér tíma frá vangaveltum um afleiðingar gossins í Heimaey til að halda erindi um dulstirni í febrúar 1973. Þá má nefna, að árið 1970 var Afstæðiskenningin, hið fræga alþýðurit Einsteins frá 1916,  gefið út í íslenskri þýðingu Þorsteins Halldórssonar. Tveimur árum síðar birtist svo Stjörnufræði-Rímfræði eftir Þorstein Sæmundsson. Sú bók kom sér ákaflega vel fyrir menn eins og mig, sem voru að kenna stjörnufræði í fyrsta sinn við menntaskóla, einkum hvað varðar íslenskan orðaforða í greininni.

Frá haustinu 1973 til ársloka 1974 var ég við meistaranám í eðlisfræði í Bandaríkjunum, þar sem ég komst meðal annars í snertingu við rannsóknir í afstæðilegri stjarneðlisfræði. Að því námi loknu sneri ég aftur heim og tók upp fyrri iðju, kennslu við MR og samræður við Þóri Sigurðsson, sem þá kenndi við MT. Í þetta sinn ræddum við fyrst og fremst um bága stöðu nútíma stjarnvísinda í íslensku skólakerfi, einkum þó í menntaskólum og við Háskóla Íslands.

Á þessum tíma vissi hvorugur okkar, að helstu raunvísindaforkólfar Háskólans höfðu þegar áttað sig á því, að gleymst hafði að taka stjörnufræðina með í uppbyggingarátakinu mikla á sjöunda áratugnum. Þetta má lesa á milli línanna í merku bréfi, sem þeir Leifur Ásgeirsson, Sigurður Þórarinsson og Þorbjörn Sigurgeirsson sendu ráðamönnum í júlí 1973. Í bréfinu kemur fram einlægur vilji þeirra til að styrkja stöðu stjörnufræðinnar á Íslandi. Hins vegar verður að segjast eins og er, að jafnvel á þeim tíma voru hugmyndir þeirra um fræðigreinina skemmtilega gamaldags. Til dæmis er ekki að sjá af bréfinu, að þeir hafi verið búnir að gera sér grein fyrir þeim byltingarkenndu breytingum í alþjóðlegum stjarnvísindum, sem orðið höfðu á sjöunda áratugnum, í kjölfar stórkostlegra uppgötvana á stjarnfræðilegum fyrirbærum eins og dulstirnum, nifteindastjörnum, örbylgjuklið og fjarlægum röntgenuppsprettum. - Engar fréttir hef ég haft af því, hvernig erindi þremenninganna var tekið, eða hvort frekari umræður spunnust um stöðu stjörnufræðinnar við Háskólann af þessu tilefni.

Hvað okkur Þóri varðar, vorum við svo heppnir, að á þessum árum var í gangi sérstakt átak hjá Nordita, þar sem unnið var að uppbyggingu rannsókna í kennilegri stjarneðlisfræði undir stjórn þeirra Christophers Pethick og Bengts Strömgren (sjá t.d. hér, bls. 22-23). Í því sambandi var meðal annars haldinn tveggja vikna skóli í Kaupmannahöfn haustið 1975 undir nafninu Astrophysics Novemberfest, sem fyrst og fremst var ætlaður ungum norrænum eðlisfræðingum. Magnús Magnússon prófessor lét okkur Þóri vita af skólanum með góðum fyrirvara og við gripum tækifærið, fengum hálfsmánaðar frí frá kennslustörfum og héldum til Hafnar. Þetta merka kynningarátak Nordita átti eftir að hafa umtalsverð áhrif á þróun stjarnvísinda á öllum Norðurlöndunum. Meðal annars hafði það veruleg áhrif á framtíðaráform mín, eins og ég hef þegar sagt frá í fyrri færslu.

Við Þórir áttum síðar eftir að sækja ýmsar aðrar ráðstefnur á vegum Nordita og komu þær allar að góðum notum í því uppbyggingarstarfi sem í hönd fór hér heima.

Félagarnir Einar H. Guðmundsson (til vinstri) og Þórir Sigurðsson (til hægri) í Danmörku sumarið 1979. Á milli þeirra situr gyðja stjörnufræðinnar (Úranía) í gervi stúlkubarns (Höllu Kristínar Einarsdóttur).

Segja má að árin 1976 og 1977 hafi skipt sköpum fyrir þá félagslegu þróun og þann bakgrunn, sem með tímanum reyndist svo mikilvægur fyrir stjarnvísindi á Íslandi. Hér verða því nefndir nokkrir atburðir frá þessum árum, sem undirritaður telur mestu skipta fyrir framhaldið.

Vorið 1976 var Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stofnað og með því fengu íslenskir áhugamenn um stjörnufræði loksins vettvang til þess að koma saman og ræða hugðarefni sín. Frumkvæðið að þessu átaki átti þúsundþjalasmiðurinn Sigurður Kr. Árnason og naut hann þar mikilvægrar aðstoðar Þorsteins Sæmundssonar stjarnfræðings (sjá meira um fyrstu ár félagsins hér og hér).

Fyrsta stjórn Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness á fjörutíu ára afmæli félagsins árið 2016. Frá vinstri: Sigfús Thorarensen, Sigurður Kr. Árnason og Þorsteinn Sæmundsson. Sjá nánar hér.

Á þessum árum voru í eðlisfræðiskor (eins og námsbraut í eðlisfræði hét þá) framsýnir og áhugasamir fræðimenn, sem unnu sameiginlega að frekari uppbyggingu kennslu og rannsókna í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Að þeirra frumkvæði var eðlisfræðinemum í fyrsta sinn boðið upp á námskeið í stjörnufræði vorið 1976 og Þórir Sigurðsson var fenginn til að sjá um kennsluna (Þórir kenndi námskeiðið aftur haustið 1977, en Einar Júlíusson sá um það haustið 1979). Þannig hófst kennsla í elstu vísindagrein sögunnar við Háskóla Íslands, sextíu og fimm árum eftir stofnun hans.

Árið 1977 var stofnað í Reykjavík nýtt félag, Eðlisfræðifélag Íslands, sem lengi var mikilvægur vettvangur fyrir félagsleg og fagleg samskipti íslenskra eðlisfræðinga, þar á meðal stjarneðlisfræðinga. Fyrstu almennu fyrirlestrarnir á vegum félagsins voru boðnir almenningi vorið 1978. Heldur hefur dregið úr slíkum kynningarherferðum á seinni árum, en faglegar ráðstefnur félagsins hafa verið haldnar á tveggja ára fresti, allt frá 1982 og fram á þennan dag. (Hér má einnig geta þess, að stærðfræðingar hafa með sér sitt eigið og mun eldra félag, Íslenska stærðfræðafélagið (sjá nánar hér). Efnafræðingar ráku hins vegar lestina í félagslegum samskiptum. Þeirra félag var ekki stofnað fyrr en í árslok 1999.)

Kynningarstarf á vegum Nordita var einnig mikilvægt á þessum árum. Fyrir atbeina Magnúsar Magnússonar sá stofnunin um að senda hingað þekkta erlendra eðlisfræðinga og stjörnufræðinga til að ræða við íslenska vísindamenn og halda fyrirlestra. Ég man í svipinn eftir mönnum eins og Gordon Baym, sem hélt hér tvö erindi haustið 1976, annað um ofurþétt efni í iðrum nifteindastjarna, hitt um Hawking-geislun. Haustið 1977 hélt Donald Q. Lamb fyrirlestur um hvíta dverga og annan um röntgenuppsprettur. Um svipað leyti sagði Christopher Pethick frá nifteindastjörnum og sumarið 1978 fjallaði Bengt Strömgren um  þróun vetrarbrauta í heimi í útþenslu og síðar um stjörnur í Vetrarbrautinni. Allir þessir fyrirlestrar voru vel sóttir og vöktu talsverða athygli.

Síðast en ekki síst skal nefna hér Félag raungreinakennara, sem við Þórir áttum talsverðan þátt í að stofna í ágúst 1977.  Í sama mánuði stóð hið nýja félag fyrir svokölluðum endurmenntunar-námskeiðunum fyrir menntaskólakennara, hinum fyrstu, sem haldin voru hér á landi. Við Þórir sáum um annað þeirra, stjörnufræðina, þar sem bæði var rætt um stjarnvísindaleg efni og stöðu greinarinnar í skólum landsins.   -  Næsta námskeið í stjörnufræði fyrir kennara var haldið haustið 1987 og þar vorum við Þórir enn með umsjón.  Síðar hafa aðrir tekið við keflinu og eftir því sem ég veit best eru svipuð námskeið enn haldin með reglubundnu millibili.

Í lok námskeiðsins í stjörnufræði haustið 1977 var gerð eftirfarandi samþykkt:

Samþykkt stjörnufræðikennara í menntaskólum frá því í ágúst 1977. Sjá nánar hér.

Þessi yfirlýsing var birt í FM-tíðindum, fréttabréfi Félags menntaskólakennara, í árslok 1977. Þar sem þetta mun hafa verið í fyrsta sinn, sem listi af þessu tagi var tekinn saman, var samþykktin jafnframt send ýmsum skólum og ráðamönnum menntamála. Hvort hún hefur haft einhver áhrif, skal ósagt látið, en hún vakti að minnsta kosti athygli kennara á stöðu stjörnufræðinnar í skólakerfinu.

Eins og eðlilegt er, hafa mál á margan hátt þróast á annan veg en menn sáu fyrir árið 1977 og fróðlegt væri að bera stöðuna í dag saman við ástandið fyrir rúmum fjörutíu árum. Það verður þó ekki gert hér, enda krefst slíkur samanburður umfangsmikillar rannsóknar. Í  staðinn verður látið nægja að birta stuttan lista með tenglum í nokkrar nýlegar vefsíður, sem vonandi bregða örlitlu ljósi á nútímalega kynningu á stjörnufræði hér á landi:

Sumt af því, sem talið er upp á listanum, varð til í beinu framhaldi af átakinu mikla á Ári stjörnufræðinnar 2009, en þá hljóp verulegur kippur í kennslu og alþýðufræðslu í stjarnvísindum hér á landi. Nánar verður fjallað um stjörnufræðiárið síðar í færslunni.

Haustið 1978 fór ég til rannsóknarstarfa við Nordita og dvaldi þar samfellt í þrjú ár. Um svipað leyti og ég kom aftur til Íslands haustð 1981, varði ég doktorsritgerð í kennilegri stjarneðlisfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn, eins og nánar er sagt frá í fyrri færslu. Ári síðar var ég lausráðinn sem sérfræðingur við eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar. Það mikilvægasta, sem ég gerði fyrst eftir heimkomuna, var að taka við stjörnufræði-kennslunni í Háskóla Íslands haustið 1981, en hún var þá var enn bundin við eitt valnámskeið. Svo skemmtilega vildi til, að í fyrsta nemendahópnum var Gunnlaugur Björnsson, sem einnig hafði verið nemandi minn í MR áður en ég fór til Hafnar. Að loknu framhaldsnámi erlendis tíu árum síðar, hóf Gunnlaugur svo störf sem lausráðinn sérfræðingur við Raunvísindastofnun.  Eftir það varð hann einn helsti samstarfsmaður minn við áframhaldandi uppbyggingu stjarnvísinda við Háskólann.

Við Þórir Sigurðsson höfðum hist nokkrum sinnum á meðan ég var í Kaupmannahöfn 1978-81 og samræður okkar héldu áfram eftir að heim var komið. Á Raunvísindastofnun hitti ég einnig fyrir hóp úrvalsmanna. Suma þekkti ég frá fyrri tíð, en aðra lítið sem ekkert, nema þá af afspurn. Í hópnum voru meðal annars nokkrir ungir og frískir eðlisfræðingar og fyrir utan fræðilegar umræður var mikið spjallað um stöðu eðlisfræðinnar hér heima og æskilega framtíðarþróun hennar á landinu. Fyrsta ráðstefna Eðlisfræðifélags Íslands, sem haldin var í Munaðarnesi haustið 1982, fjallaði einmitt um það efni.

Hluti þátttakenda á fyrstu ráðstefnu Eðlisfræðifélags Íslands í Munaðarnesi í september 1982. Í hópnum má sjá marga þekkta raunvísindamenn, þar á meðal sjálfan föður nútímarannsókna í eðlisfræði við Háskóla Íslands, Þorbjörn Sigurgeirsson (ofarlega til vinstri).  -  Áhugasamir geta stytt sér stundir við að leita á myndinni að stjarnvísindamönnunum Gunnlaugi Björnssyni (ábending: hann stendur ekki langt frá Þorbirni, ungur og skeggjaður), Þóri Sigurðssyni og Einari H. Guðmundssyni.  Nafnalista má finna hér.

Ég var einn af stofnfélögum Eðlisfræðifélagsins árið 1977 og tók virkan þátt í starfi þess fyrstu áratugina, meðal annars með fyrirlestrum, bæði á ráðstefnum félagsins og víðar. Eftir að orðanefnd félagsins var stofnuð 1981, var fljótlega ákveðið að hafa stjörnufræðina með. Af þeim sökum settist ég í nefndina árið 1982, tók fullan þátt í starfi hennar næstu árin og kom að fyrstu útgáfunni af Orðaskrá um eðlisfræði, stjörnufræði og skyldar greinar í árslok 1985. Skráin kom svo í endurskoðaðri útgáfu árið 1996.

Orðanefnd Eðlisfræðifélags Íslands í desember árið 1985. Frá vinstri: Einar H. Guðmundsson, Leó Kristjánsson, Þorsteinn Vilhjálmsson, Sveinbjörn Björnsson, Jakob Yngvason og Páll Theodórsson. Sjá nánar hér.

 

Aðdragandinn

Eins og þegar hefur komið fram, var það samfélag eðlisfræðinga við Háskóla Íslands, sem sá til þess, að stjarnvísindi næðu fótfestu við skólann. Sem dæmi má nefna, að Þorsteinn Sæmundsson hóf starfsferil sinn hér heima á Eðlisfræðistofnun Háskólans árið 1963. Frá og með 1976 bauð eðlisfræðiskor nemendum upp á kynningarnámskeið í stjarnfræði og fékk Þóri Sigurðsson til að sinna kennslunni í fyrstu tvö skiptin. Um svipað leyti hóf Einar Júlíusson tímabundið starf við eðlisfræðistofu. Nokkrum árum síðar fékk svo kennilegur stjarneðlisfræðingur (þ.e. undirritaður) stöðu við stofuna. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga, að á þeim tíma var það meginhlutverk eðlisfræðistofu að hýsa rannsóknir í tilraunaeðlisfræði og kennilegir eðlisfræðingar voru yfirleitt vistaðir á stærðfræðistofu.

Þrátt fyrir mikið álag við rannsóknir og stífa kennslu á níunda áratugnum, gaf ég mér tíma til að segja hverjum sem hlusta vildi frá nýjungum í stjarnvísindum. Ég hélt fyrirlestra fyrir lærða sem leika, fór í útvarpsviðtöl, heimsótti skóla og félagasamtök og skrifaði fræðslugreinar á íslensku. Jafnframt tókst mér að finna tíma til að velta því fyrir mér, hvernig best væri að hlúa að framtíð stjarnvísinda á Íslandi.

Á þessum árum var mikil gerjun í gangi í íslenskum eðlisfræðirannsóknum. Fjöldi ungra og hæfileikaríkra eðlisfræðinga fór vaxandi, og eftir langt og strangt rannsóknarnám erlendis, stefndu margir þeirra eðlilega að því að sinna fræðum sínum hér heima við Háskóla Íslands. Þetta olli talsverðri spennu, enda fór það ekki framhjá neinum, að framboð á aðstöðu til grunnrannsókna í eðlisfræði við Háskólann gat hvergi nærri annað eftirspurn. Mér varð fljótt ljóst, að í slíku andrúmslofti væri það mikilvægt fyrir framgang stjarnvísinda á Íslandi, að áhersla væri lögð á sérstöðu greinarinnar, nefnilega þá, að stjörnufræði væri ekki aðeins elsta vísindagreinin, heldur eitt helsta svið nútíma raunvísinda. Það væri því misskilningur að flokka hana sem eina af undirgreinum eðlisfræðinnar.

Þetta var helsta ástæða þess, að í janúar 1986 smalaði ég saman öllum tiltækum stjarnvísindamönnum landsins til að ræða framtíð rannsókna og kennslu í stjörnufræði á Íslandi. Á fundinn mættu, auk mín og Þóris Sigurðssonar, þeir Þorsteinn Sæmundsson og Einar Júlíusson. Hópurinn hittist nokkrum sinnum og eftir talsverðar umræður varð niðurstaðan sú, að fyrsta skrefið í sjálfstæðisbaráttunni skyldi vera stofnun nýs fagfélags. Það myndi skapa mikilvæga samstöðu meðal félagsmanna og með tímanum leiða til fullrar þátttöku stjörnufræðinnar í íslensku vísindasamfélagi. Í nóvember 1987 skipaði umræðuhópurinn svo sérstaka nefnd til að undirbúa stofnfund. Í henni sátu auk mín þeir Einar Júlíusson og Karl H. Jósafatsson, sem þá var nýkominn heim frá námi.

Það var hugur í mönnum á þessum tíma, reyndar svo mikill, að við Þorsteinn Sæmundsson ákváðum að stefna að aðild Íslands að IAU, Alþjóðasambandi stjarnvísindamanna (sjá einnig hér), jafnvel þótt fjöldi stjarnvísindamanna væri ekki mikill á landinu. Aðildarumsóknin var og samþykkt á allsherjarþingi IAU í Baltimore sumarið 1988, sem við Þorsteinn sóttum báðir.  -  Sjá einnig Viðbætur 1 og 2, aftast í færslunni.

Stofnfundarnefndin fundaði fyrst vorið 1988 og starfaði síðan óreglulega fram eftir árinu. Það var komið vel fram í nóvember, þegar lokið var við að semja lagadrög, undirbúa dagskrá og ákveða hverjum yrði boðið að gerast stofnfélagar. Eftir samráð við þá tvo úr umræðuhópnum, sem ekki voru í nefndinni, var ákveðið að bjóða þeim Þorsteini Vilhjálmssyni og Gunnlaugi Björnssyni einnig á fundinn. Vitað var, að Gunnlaugur gæti ekki mætt, þar sem hann var þá enn í framhaldsnámi  erlendis.

 

Stofnun félagsins og upphaf starfseminnar

 Stofnfundur Stjarnvísindafélags Íslands var haldinn föstudaginn 2. desember 1988 í gamla fundarherberginu á jarðhæðinni í Tæknigarði. Fundurinn gekk eðlilega fyrir sig, lög voru sett og fyrsta sjórn félagsins kosin. Í henni voru Einar H. Guðmundsson formaður, Karl H. Jósafatsson gjaldkeri og Einar Júlíusson ritari.

Stofnfélagar voru sjö og mættu sex þeirra á fundinn: Einar H. Guðmundsson, Einar Júlíusson, Gunnlaugur Björnsson (in absentia), Karl H. Jósafatsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þorsteinn Vilhjálmsson og Þórir Sigurðsson.

Til samanburðar má geta þess að nú, þrjátíu árum síðar, eru félagar 44 (þrír fyrrum félagar eru látnir, þeir Guðmundur Arnlaugsson, Guðmundur G. Bjarnason og Þorvaldur Ólafsson). Einnig má benda á viðauka A, sem sýnir lista yfir alla stjórnarmenn félagsins frá upphafi til dagsins í dag.

Skömmu eftir fundinn var fjölmiðlum send fréttatilkynning um stofnun hins nýja félags. Þeir brugðust flestir vel við, þar á meðal víðlesnasta dagblað landsins, sem birti fréttina á besta stað í blaðinu, fyrir neðan bíóauglýsingarnar á síðu 73.

Nokkrum mánuðum síðar sendi stjórnin svo bréf til systurfélaganna á Norðurlöndum til að láta norræna stjarnvísindamenn vita af tilvist hins nýja félags. Engin formleg viðbrögð bárust, en á norrænum fundum á næstu árum var mér oft óskað til hamingju með hvítvoðunginn.

Félagið fór talsvert bratt af stað, og segja má, að áframhaldandi starfsemi þess og hefðir hafi að mestu mótast á fyrstu tveimur til þremur árunum. Á þessu tímabili bættust meðal annars við 10 nýir félagar og  alls voru haldnir 11 stjórnarfundir og 14 félagsfundir.

Á tveimur félagsfundanna á árunum 1989-91 héldu samtals fjórir félagsmenn fræðileg erindi fyrir kollegana. Auk þess stóð félagið fyrir átta almennum fyrirlestrum á þessum fyrstu árum (sjá viðauka B.1). Nokkrir þeirra voru haldnir í samvinnu við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Eðlisfræðifélag Íslands, upphaf hefðar sem enn ríkir. Til viðbótar má svo nefna Stjarnvísindi nútímans, fyrirlestraröð fyrir almenning, sem félagið stóð fyrir veturinn 1991-92 (sjá viðauka B.2).

Því miður á ég lítið til af myndum, sem lýsa stemmingunni á dæmigerðum fundi í Stjarnvísindafélaginu. Þessar fann ég þó eftir talsverða leit:

Aðalfundur Stjarnvísindafélagsins í Norræna húsinu í desember árið 1998. Í gluggaröðinni á efri myndinni sitja frá vinstri: Vilhelm S. Sigmundsson, Þórir Sigurðsson, ósýnilegi maðurinn, Þorsteinn Vilhjálmsson og Gunnlaugur Björnsson.  -  Á neðri myndinni eru frá vinstri talið: Þorvaldur Ólafsson, Karl H. Jósafatsson, Lárus Thorlacius, Þorsteinn Sæmundsson og Margrét Ó. Björnsdóttir. Fyrir framan þau, yfir kollinum á Vilhelm, má sjá leifarnar af einkennistákni aðalfunda félagsins, hinni gómsætu rjómatertu. Ljósmyndari: Einar H. Guðmundsson.

Hér er hvorki ætlunin að gefa frekari lýsingar á fundum félagsins né fara í saumana á öllum þeim málum, sem þar hafa verið til umfjöllunar. Í staðinn verður lögð áhersla á að segja frá hápunktunum í starfi félagsins, þeim málum og málaflokkum, sem skipt hafa félagsmenn mestu og snúa að þróun stjarnvísinda á Íslandi. Þar er um að ræða mál er varða uppbyggingu rannsókna og kennslu í greininni og þætti er tengjast almennri kynningu á stjarnvísindum meðal landsmanna.

 

Hápunktar:

Kennarastaða í stjarnvísindum við Háskóla Íslands

Á níunda áratugnum fór áhugi háskólanema á stjarnvísindum mjög vaxandi. Þetta gerði það meðal annars að verkum, að frá og með árinu 1987 bauð eðlisfræðiskor eigin nemendum upp á tvö námskeið, Stjarneðlisfræði I (sem í raun var gamla Stjarnfræði-námskeiðið undir nýju nafni) og framhaldsnámskeiðið Stjarneðlisfræði II. Að auki bauð skorin öðrum áhugasömum nemendum að taka námskeiðið Almenn stjarnvísindi, sem fljótlega náði talsverðum vinsældum.  Það var sennilega af þessum ástæðum, sem umræður hófust í eðlisfræðiskor árið 1987 um nauðsyn þess að stofna nýja kennarastöðu í stjarnvísindum við skorina. Að auki hafði meirihluti skorarmanna greinilega áhuga á því að styðja við bakið á frekari uppbyggingu rannsókna í stjarneðlisfræði við Háskólann.

Á þessum árum var hver og ein af skorum Raunvísindadeildar með sinn eigin forgangsraðaða óskalista um nýjar stöður. Við gerð fjárlagatillagna á hverju ári, lögðu skorirnar fram rökstudda beiðni um eina til tvær nýjar stöður og sendu til deildar, sem vann úr tillögunum og setti fram sinn eiginn forgangsraðaða lista í fjárhagsáætlun. Sú áætlun var send háskólaráði, sem fjallaði um hana ásamt tilsvarandi áætlunum annarra deilda, áður en fjárhagsáætlun Háskólans í heild var send ríkisstjórn og Alþingi. Á Alþingi var svo tekin ákvörðun um það, hvaða nýjar stöður væru settar á fjárlög komandi árs. Þetta var langur og flókinn ferill, sem margir komu að, og það var reglan fremur en undantekningin, að það tæki nokkur ár að koma nýrri kennarastöðu inn í fjárlögin.

Í fjárlagatillögum fyrir árið 1990 var dósentsstaða í stjarnvísindum efst á óskalista eðlisfræðiskorar. Eftir eðlilega umfjöllun í Raunvísindadeild lenti hún í fimmta sæti á óskalista deildarinnar, á eftir dósentsstöðum í eðlisefnafræði, líffræði, jarðfræði og hagnýttri stærðfræði. Þegar háskólaráð skilaði sínum tillögum til stjórnvalda, hafði stjarnvísindastaðan hins vegar verið skorin aftan af óskalista deildarinnar.

Þetta kom mörgum raunvísindamönnum og ekki síst stjarnvísindamönnum Háskólans verulega á óvart. En nú kom sér vel, að til var félag í landinu, sem stóð vörð um hagsmuni elstu vísindagreinarinnar. Að beiðni stjórnar Stjarnvísindafélagsins, tók hópur valinkunnra heiðursmanna að sér að kanna málið nánar og fylgja eftir tillögu eðlisfræðiskorar og Raunvísindadeildar. Hópurinn, sem í voru þeir Þórir Sigurðsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þorsteinn Vilhjámsson, höfðu samband við ráðherra og ýmsa alþingismenn og gengu auk þess á fund fjárveitinganefndar. Jafnframt barst hópnum stuðningur frá útlöndum. Þessi viðleitni bar árangur; stjarnvísindastaðan var samþykkt og sett á fjárlög ársins 1990.

Eftir smávægilega töf í stjórnsýslu ríkisins, birtist loks eftirfarandi auglýsing í fjölmiðlum landsins:

Auglýsingin um fyrstu kennarastöðuna í stjarnvísindum við Háskóla Íslands.

Umsækjendur um stöðuna voru þrír, og eftir venjulega meðferð í fræðasamfélagi Háskólans og stjórnkerfi ríkisins, var undirritaður skipaður  dósent í stjarnvísindum við Háskóla Íslands frá og með 1. janúar 1991. Með þeirri fastráðningu var stjarnvísindum tryggður ákveðinn stöðugleiki í íslensku vísindasamfélagi næstu árin og hægt var að snúa sér að enn frekari uppbyggingu þeirra hér á landi.

 

Tillögur félagsins til ráðamanna og skýrslan Stjarnvísindi á Íslandi

Það var ekki fyrr en sumarið 1989, nokkru eftir að ég varð formaður Stjarnvísinda-félagsins, sem ég fór fyrir alvöru að hugsa um það, hvernig best væri að koma sjónarmiðum stjarnvísindamanna á framfæri við ráðamenn og skapa þannig grundvöll fyrir almenna umræðu um sviðið í íslensku vísindasamfélagi.

Til að koma málinu af stað, efndi félagið til „hugarflugsfundar“ í ágúst, þar sem rætt var um framtíð stjarnvísinda á Íslandi. Í kjölfarið ákvað ég að kanna, hvernig staðið væri að tilsvarandi málum erlendis. Ég varð mér því úti um tiltölulega nýlegar skýrslur nefnda, sem norrænu rannsóknaráðin höfðu skipað til að gera úttekt á stjarnvísindum, hvert í sínu landi: Svíþjóð 1980, Noregi 1983 og Danmörku 1988. Í öllum tilvikum settu nefndirnar fram tillögur um breytingar og forgangsröðun, og í lok áratugarins mátti þegar sjá jákvæð áhrif þeirra á starfsemina í Svíþjóð og Noregi. Einnig kynnti ég mér, hvernig bandarískir stjarnvísindamenn höfðu með góðum árangri fengið Vísindaakademíuna til að skipa sérstakar nefndir, eina á tíu ára fresti, til þess að forgangsraða kostnaðarsömum langtímaverkefnum næstu tíu árin. Sem fulltrúi Íslands í stjarneðlisfræðinefnd Nordita hafði ég líka haft tækifæri til að fylgjast með úttekt, sem Norræna ráðherranefndin lét gera á stofnuninni árið 1988.

Með allar þessar erlendu skýrslur á náttborðinu, tókst mér að sannfæra sjálfan mig um það, að besta leiðin til að skapa fastan grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu stjarnvísinda á Íslandi væri að gera almenna úttekt á greininni hér á landi og koma með  fáar en vel grundaðar tillögur um skref til úrbóta.  Jafnvel þótt ekki tækist að ná fram fullnægjandi niðurstöðu í öllum tilfellum, myndi skýrslan og tillögurnar að minnsta kosti móta skýra stefnu og koma þannig að góðu gagni í umræðum og ákvarðanatökum næstu ára.

Á aðalfundi Stjarnvísindafélagsins í október 1989 tókst mér að selja öðrum félögum þessa hugmynd. Þar var sú ákvörðun tekin að gera úttekt á stöðu stjarnvísindi á Íslandi, semja um það skýrslu og leggja fram stefnumótandi tillögur. Stjórnin var sett í verkið og skyldi hún skila niðurstöðum til félagsmanna í síðasta lagi í lok maí 1990. Jafnframt var ákveðið að senda ráðamönnum tillögurnar ásamt endanlegri skýrslu síðar á árinu.

Stjórnin reyndi eftir megni að standa fagmannlega að verkinu.  Til að ná fram sem flestum sjónarmiðum var gerð könnun meðal félagsmanna í janúar, áður en skýrslugerðin hófst. Formaðurinn tók að sér að semja fyrsu drög skýrslunnar og voru nokkrir nálægir félagar beðnir um að fara yfir afraksturinn í byrjun maí. Endurskoðuð drög voru síðan send öllum félagsmönnum og rædd á félagsfundi í lok sama mánuðar.  Tillögur stjórnarinnar voru svo samþykktar einróma á aðalfundi í október 1990 og ákveðið að senda þær ásamt skýrslunni til ráðamanna við hentugt tækifæri.

Stjórn Stjarnvísindafélagsins gekk á fund menntamálaráðherra hinn 19. desember 1990 og afhenti honum bréf með tillögum félagsins ásamt skýrslunni og fylgiskjölum.

Forsíðan á skýrslunni góðu um stöðu stjarnvísinda á Íslandi árið 1990 og framtíðaruppbyggingu rannsókna á því sviði.

Daginn eftir fundinn með ráðherra voru bréf um málið send formanni raunvísindadeildar Vísindaráðs, háskólarektor, stjórnarformanni Raunvísindastofnunar og samstarfsráðherra Norðurlanda. Hér er bréfið til rektors; hin eru því sem næst samhljóða.

Tillögur félagsins voru sem hér segir:

Tillögur Stjarnvísindafélagsins um uppbyggingu stjarnvísinda á íslandi frá 19. desember 1990.

Ítarlegan rökstuðning með tillögunum er að finna í skýrslunni, en í örstuttu máli má segja, að með þeim hafi verið bent á tiltölulega einfalda leið til að gera íslenskar rannsóknir í stjarnvísindum samkeppnishæfar á alþjóðavettvangi.

Það er almennt viðurkennt, að til þess að viðvarandi stöðugleiki ríki á einhverju sviði raunvísinda án stöðnunar, þarf mannaflinn að hafa náð „krítískum massa“, þ.e. fjöldi vísindamanna þarf að vera yfir ákveðnu marki. Í fyrri tillögunni var miðað við töluna fimm. Á þessum tíma störfuðu tveir fastráðnir stjarnvísindamenn við Háskólann, Þorsteinn Sæmundsson og undirritaður. Að okkar mati þurfti því að minnsta kosti þrjá til viðbótar til að ná „krítískum massa“. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga, að árið 1990 voru skilyrði til mannaráðninga allt önnur en nú og umhverfið annað. Sem dæmi má nefna, að lausar sérfræðingsstöður við Raunvísindastofnun voru einu „nýdoktors-stöðurnar“, sem í boði voru, og enn var talsvert í það, að doktorsnám yrði tekið upp í Raunvísindadeild. Fyrri tillagan ber þess því nokkur merki á hvaða tíma hún var samin.

Lokaorð skýrslunnar segja kannski allt það, sem segja þurfti, um stöðu stjarnvísinda á Íslandi í upphafi tíunda áratugs tuttugustu aldar:

Stjórn Stjarnvísindafélags Íslands [telur] löngu tímabært að elsta vísindagreinin sláist í hóp annarra fræðigreina hér á landi sem fullgildur og sjálfstæður meðlimur í vísindasamfélaginu. Til þess að svo megi verða þurfa æðstu ráðamenn vísinda og mennta að veita íslenskum stjarnvísindamönnum nauðsynlegt öryggi og sjálfstæði til rannsókna með því að skapa þeim traustan starfsvettvang. Stjórnin vill undirstrika það sérstaklega að sú lausn sem hér hefur verið bent á [þ.e. tillögurnar tvær] er tiltölulega ódýr, og hún verður að teljast fullkomlega raunhæf bæði frá fjárhagslegu og félagslegu sjónarmiði. Með nýrri kennarastöðu við eðlisfræðiskor, stjarnvísindastofu með þremur nýjum sérfræðingum við Raunvísindastofnun og norrænu samstarfi, meðal annars í NOT og NORDITA, má telja fullvíst að stjarnvísindi nái að blómgast hér á landi á næstu áratugum.

Fyrsta svarið við erindi Stjarnvísindafélagsins barst frá stjórn Raunvísindastofnunar í ágúst 1991 og var þar brugðist við fyrri tillögu félagsins. Umfjöllun stjórnarinnar um seinni tillöguna kom hins vegar ekki fyrr en í janúar 1992. Bæði bréfin má sjá hér. Í millitíðinni, þ.e. í október 1991, fékk félagið afrit af bréfi frá Vísindaráði, sem menntamálaráðuneytið hafði leitað til sem umsagnaraðila.

Umsagnirnar um seinni tillöguna voru jafnvel betri en stjórn Stjarnvísindafélagsins hafði þorað að vona. Bæði Vísindaráð og stjórn Raunvísindastofnunar mæltu með því „að ráðuneytið [leitaði] leiða til þess að Íslendingar [gætu] gerst aðilar að norræna sjónaukanum á allra næstu árum“.  Þessi yfirlýsing skipti miklu í þeirri baráttu, sem fram undan var, sérstaklega á lokasprettinum árin 1996-97, þegar aðildin varð að veruleika. Nánar verður um hana fjallað í næsta kafla.

Hvað fyrri tillöguna varðar, þá treysti stjórn Raunvísindastofnunar sér hvorki til að fallist á, að strax yrði farið í það að undirbúa ráðningu þriggja nýrra starnvísindamanna, né að sett yrði á fót ný stofa helguð stjarnvísindum. Ég verð að játa, að fyrirfram átti ég alls ekki von á öðrum viðbrögðum. Í mínum huga var tilgangurinn með tillögunni fyrst og fremst sá að minna menn hressilega á þá staðreynd, að nútíma stjarnvísindi væru alveg jafn mikilvæg og aðrar þær vísindagreinar sem stofnunin hýsti.  Persónulega skipti það mig meira máli, að í bréfi stjórnarinnar var því lýst yfir, að hún væri sammála því að efla [bæri] stjarnvísindi hér á landi“ og jafnframt „að [hún teldi] sjálfsagt að fullt tillit [yrði] tekið til sjónarmiða stjarnvísindamanna“, þegar óskir um nýjar stöður væru metnar. Ekki var látið sitja við orðin tóm, því strax haustið 1991 hóf Gunnlaugur Björnsson störf við eðlisfræðistofu sem lausráðinn sérfræðingur.

Af óhjákvæmilegum praktískum ástæðum og vegna ýmissa innri og ytri aðstæðna, héldu stjarnvísindamenn Háskólans áfram að stunda sín fræði í samfloti við aðra eðlisfræðinga. Skoðanaskipti á fundum (og utan þeirra) voru að sönnu ansi skörp á stundum, en sagan sýnir, að ávallt þegar á reyndi, stóð meirihluti starfsmanna eðlisfræðistofu og eðlisfræðiskorar með stjarnvísindamönnum. Ég tel að stjarnvísindamenn hafi og endurgoldið slíkan stuðning að fullu, þegar á þurfti að halda.

Allt frá árinu 1991 hafa stjarnvísindi við Háskólann náð að þróast nokkurn veginn með eðlilegum hætti, og ekki þarf annað en líta á myndirnar í lokakafla þessarar færslu til að sjá, að stjarnvísindahópur skólans hefur fyrir löngu náð „krítískum massa“. Í seinni tíð hafa nýjar áherslur stjórnvalda í málefnum vísindarannsókna og gjörbreytt fyrirkomulag styrkveitinga haft þar nokkur áhrif. Hins vegar er óhætt að fullyrða, að gróskan í stjarnvísindarannsóknum hérlendis sé ekki síst að þakka aðildinni að Norræna sjónaukanum og þeim samböndum við erlenda rannsóknarhópa, sem henni fylgdu.

Þegar litið er til baka, má glögglega sjá, að stefnumörkunin í skýrslunni góðu frá 1990 hafði afgerandi og jákvæð áhrif á þróun stjarnvísinda hér á landi næstu tvo áratugina. Í framhaldi af því, vaknar eðlilega sú spurning, hvort stjórn Stjarnvísindafélagsins þurfi ekki fljótlega að fara að huga að nýrri umræðu um framtíðina og frekari stefnumótun.

 

Norræni stjörnusjónaukinn

Skömmu eftir að jákvæð umsögn Vísindaráðs um Norræna sjónaukann barst félaginu í október 1991, hófst nýr áfangi í baráttunni fyrir fullri aðild Íslands að þessu mikilvæga rannsóknartæki. En þrátt fyrir margvíslegar viðræður og umtalsverð bréfaskipti við ráðamenn og aðra, dróst málið stöðugt á langinn. Stjarnvísindamenn voru orðnir ansi langeygir eftir viðunandi niðurstöðu, þegar sérstök tilviljun réði því, að málið fékk farsælan endi árið 1997. Þar lék lánið sannarlega við stjarnvísindamenn, eins og nánar er sagt frá í einu lýsingunni á atburðarásinni, sem enn hefur verð birt. Hana er að finna í gamansömum fréttapistli eftir Sigurð Steinþórsson jarðfræðing í Fréttabréfi Háskólans haustið 1997.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Johannes Andersen stjórnarformaður NOTSA takast í hendur að lokinni undirskrift samningsins um aðild Íslands að samstarfinu um Norræna sjónaukann í júlí 1997. Á milli þeirra brosir Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands. Að baki ráðamönnunum standa  þeir Gunnlaugur Björnsson, Einar H. Guðmundsson og Þorsteinn Sæmundsson kampakátir.

Íslenskir stjarnvísindamenn brugðust skjótt við haustið 1996, þegar ljóst var að þeir myndu öðlast aðgang að hinum frábæra rannsóknarsjónauka á La Palma. Til að tryggja sem besta aðkomu, leitaði ég strax ráða á Norðurlöndum, í fyrstu aðallega hjá kollegum mínum á Nordita í Kaupmannahöfn, eins og nánar er sagt frá í fyrri færslu.  Á öðrum stað má svo lesa meira um það, hvernig til tókst fyrstu árin og hvaða áhrif aðildin hafði á þróun stjarnvísinda hér á landi.

Sjónaukaröðin mikla á Strákafjalli á La Palma. Norræni sjónaukin (NOT) er lengst til vinstri á myndinni. Nánari umfjöllun um NOT og staðsetningu sjónaukans má finna hér.  Hér má svo sjá stutt en fróðlegt myndband um sjónaukann.

Þegar það spurðist út hér heima, að Íslendingar hefðu eignast hlut í stórum stónauka á Kanaríeyjum, tóku fjölmiðlamenn eðlilega við sér, króuðu stjarnvísindamenn af og báðu um frekari upplýsingar. Menn fóru því í viðtöl í útvarpi og sjónvarpi og fengu heimsóknir blaðamanna. Hér er dæmi um blaðagrein frá þeim tíma, þegar vísindamennirnir voru búnir að ná áttum og komnir á kaf í mælingar með sjónaukanum og úrvinnslu mæligagna.

Vorið 1999, skömmu áður en fyrrnefnd grein birtist, var sýndur hálftíma þáttur á RÚV um stjarnvísindi á Íslandi. Undirbúningur og tökur höfðu að mestu farið fram árið áður og ástæðan fyrir þáttagerðinni var að sjálfsögðu aðildin að Norræna sjónaukanum. Þátturinn er enn til, en í dag hefur hann fyrst og fremst gildi sem söguleg heimild. Þó verð ég að viðurkenna, að það er viss skemmtun í því fólgin, að geta aftur fylgst með áhrifamiklum leikrænum tilburðum vina og fyrrum samstarfsmanna í þættinum. Ef menn hafa áhuga á því að skoða þetta tuttugu ára gamla myndband, þá er slóðin hér: Vísindi í verki: Undur alheimsins.

 

Orðaskráin

Strax á stofnfundi Stjarnvísindafélagsins í desember 1988 kom til tals, að eitt af verkefnum félagsins gæti verði að standa að útgáfu orðasafns í stjörnufræði. Eins og áður var nefnt, hafði stjörnufræðin reyndar verið höfð með í orðaskrá Eðlisfræðifélagsins árið 1985, en margir töldu, að jafn viðamikið svið og stjarnvísindin þyrfti að eignast sína eigin sérhæfðu orðaskrá.

Eftir að málið hafði borið nokkrum sinnum á góma í hópi félagsmanna, var það það tekið formlega fyrir á sérstökum félagsfundi í desember 1990 og orðanefnd stofnuð. Í mínum huga var þessi ákvörðun mikilvægur þáttur í sjálfstæðisbaráttu greinarinnar í íslensku vísindasamfélagi. Ég hygg, að þar hafi flestir aðrir félagar verið mér sammála.

Það var og mikilvægt atriði í þessu sambandi, að meðal félagsmanna var Þorsteinn Sæmundsson, einn snjallasti nýyrðasmiður þjóðarinnar. Hann var því einróma kjörinn formaður nefndarinnar.

Eftir markvissa og vel skipulagða vinnu, gaf orðanefndin út Orðaskrá úr stjörnufræði árið 1996. Óhætt mun að fullyrða, að vel hafi til tekist, enda ber ritið natni og nákvæmni ritstjórans fagurt vitni. Nánari upplýsingar um ritstjórnarstarfið er að finna í formála bókarinnar.

Forsíðan á orðaskrá Stjarnvísindafélagsins, sem kom í bókarformi árið 1996. Skrána má nú finna á vefnum, þar sem hún er uppfærð reglulega. Sjá: Ensk-íslensk orðaskrá.  -  Íslensk-ensk orðaskrá.

Orðaskrá Stjarnvísindafélagsins er hluti af mikilvægu safni íslenskra orða yfir fræðihugtök á sviði raunvísinda. Í safninu eru einnig orðaskrár Eðlisfræðifélagsins (sjá hér og útgáfuna frá 1996) og Stærðfræðafélagsins (sjá hér og hér; skráin er á vefnum). Ef þörf krefur, geta áhugasamir lesendur fundið ýmsar gagnlegar upplýsingar um þessi og önnur orðasöfn á sérstakri vefsíðu Árnastofnunar.

 

Barátta gegn ljósmengun

Af augljósum ástæðum er ljósmengun stjarnvísindamönnum mikill þyrnir í augum og þeir berjast gegn henni, hvar sem við verður komið. Eins og fram kom í blaðagrein eftir þá Gunnlaug Björnsson og Þorstein Sæmundsson árið 2003 er vandinn mikill, ekki síst í Reykjavík:

Reykjavík er nú þegar meira upplýst um nætur en flestar borgir af svipaðri stærð og ljósadýrðin sést langt út fyrir borgarmörkin. Frá sjónarmiði þeirra sem vilja njóta fegurðar stjörnuhimins og norðurljósa eru það bein umhverfisspjöll ef lýsingin í borginni verður aukin án þess að nokkra nauðsyn beri til. Margir myndu telja það brýnna að lagfæra fyrri mistök við lýsingu mannvirkja. Sem dæmi um slæma lýsingu má nefna ljósin við Perluna á Öskjuhlíð og flóðlýsinguna við Hallgrímskirkju og Háskólabíó, þar sem ljósin beinast að verulegu leyti í augu manna eða upp í himininn, engum til gagns.
.
Árið 1999 sendi stjórn Stjarnvísindafélagsins erindi til rektors Háskóla Íslands þar sem kurteisislega var farið fram á, að dregið yrði úr lýsingunni á háskólasvæðinu. Eftir smá bið barst eftirfarandi svar frá rektor:
.
Ég hef kynnt mér málið og hefur það m.a. verið rætt í háskólaráði. Af öryggisástæðum er talið mjög vafasamt að draga úr lýsingu við Aðalbyggingu Háskólans og Háskólabíó.

.

Málið var þar með afgreitt af hálfu Háskólans. En almennt má segja um þessa hvimleiðu mengun, að víða á landinu er hún beinlínis yfirþyrmandi. Frá sjónarhóli áhugasamra stjörnuskoðara er það því forgangsmál, að verulega verði dregið úr allri óþarfa lýsingu, Þá fyrst geta þeir, jafnt sem almenningur, notið næturhiminsins að fullu á heiðskírum nóttum.

Framhliðin á aðalbyggingu Háskóla Íslands er flóðlýst „af öryggisástæðum“ þegar myrkur ríkir. Af myndinni má m.a. ráða, að gluggaþvottamenn þurfi ekki að óttast um öryggi sitt við næturþvotta á þriðju hæð. Ljósmyndin er fengin að láni úr skýrslunni Myrkurgæði á Íslandi frá 2013. Meðal þeirra, sem þar koma við sögu, eru nokkrir félagsmenn Stjarnvísindafélagsins (sjá t.d. höfundaskrána sem og heimildaskrá á bls. 101-103 og grein á bls. 105-108).

 

Kennsla, kynning og almenningsfræðsla

Eins og lesa má í lögum Stjarnvísindafélagsins er helsta markmið félagsins að efla stjarnvísindi á Íslandi. Það skal meðal annars gert með því að stuðla að vexti og viðgangi rannsókna í greininni og kennslu í skólum landsins. Að auki er félaginu og félagsmönnum ætlað að beita sér fyrir aukinni alþýðufræðslu um stjarnvísindi og sögu þeirra.

Í þessum kafla verður einkum fjallað um síðastnefndu atriðin, kennslu og fræðslu. Til að lengja færsluna ekki um of, verður mjög stiklað á stóru.

1. Fyrirlestrar og ráðstefnur

Félagsmenn hafa frá upphafi lagt áherslu á það að hvetja erlenda gesti til að halda almenna fyrirlestra á vegum félagsins. Því hefur yfirleitt verið vel tekið og í gegnum tíðina hafa mörg slík erindi verið haldin, oft í samvinnu við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, Eðlisfræðifélag Íslands og Nordita.  Eins og sjá má á listanum í viðauka B.1, hafa allmargir Íslendingar einnig haldið stök alþýðleg erindi á vegum félagsins.

Í þessu sambandi skal einnig nefna, að veturinn 1991-92 stóð félagið fyrir sértakri fyrirlestraröð, Stjarnvísindi nútímans, sem ætluð var almenningi. Skrá yfir erindin er í viðauka B.2.

 Tveir erlendir gestir, sem fluttu opinber erindi á vegum Stjarnvísindafélagsins. Í mars 1994 fræddi Igor D. Novikov (til vinstri) áheyrendur fyrst um hugsanlega tilvist tímavéla og síðar um hulduefni.  Í júní 2016 sagði Alex Nielsen (til hægri) frá fyrstu mælingunum á þyngdarbylgjum frá samruna svarthola í fjarlægum vetrarbrautum. Sjá nánari upplýsingar í viðauka B.1.

Sumarið 2004 var haldin í Reykjavík fjölmenn alþjóðleg ráðstefna, Bioastronomy 2004 - HabitableWorlds. Að undirbúningi hennar komu meðal annars nokkrir meðlimir Stjarnvísindafélagsins og að þeirra frumkvæði var íslenskum almenningi boðið upp á mjög áhugaverða fyrirlestraröð í Öskju og Háskólabíói (sjá viðauka B.3).

Þegar erlendir stjarnvísindamenn koma til  Íslands, er erindið oftast að sitja ráðstefnur eða heimsækja kollega við Háskólann. Þar halda þeir venjulega fræðileg erindi um eigin rannsóknarverkefni á fundum, sem ekki eru opnir almenningi. Því miður gerist það æ oftar, að gestirnir hafa hreinlega ekki tíma til að halda alþýðleg erindi fyrir stærri hóp áheyrenda.

Í seinni tíð hafa stjarnvísindamenn Háskólans sjálfir lent í svipaðri stöðu. Hér heima messa þeir hver yfir öðrum, en sjaldan fyrir almenning. Skýringin á þessu er líklega meira vinnuálag en áður, og sú staðreynd, að vönduð alþýðleg kynning á raunvísindum er lítils metin í háskólasamfélagi samtímans. Til allrar hamingju hafa almennir fyrirlestrar þó ekki horfið með öllu af dagskrá félagsins. Það má til dæmis sjá af listanum í viðauka B.1.

Á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009, sem nánar verður fjallað um síðar í færslunni, var boðið upp á heila sex fyrirlestra, sem allir voru vel sóttir (sjá viðauka B.4).

Á næsta ári, 2019, stendur svo til að halda hér mikla alþjóðlega ráðstefnu um fjarreikistjörnur. Ég vona, að þar beiti Stjarnvísindafélagið sér fyrir almennri kynningu á þessu áhugaverða sviði nútíma stjarnvísinda.

2. Tímarit um raunvísindi og stærðfræði

Allt frá dögum Björns Gunnlaugssonar hafa íslenskir stjarnvísindamenn verið tiltölulega duglegir að skrifa um fræði sín á íslensku. Það var því tilhlökkunarefni, þegar fjögur fagfélög íslenskra raunvísindamanna, þar á meðal Stjarnvísindafélagið, tóku þá ákvörðun árið 2003 að gefa sameiginlega út tímarit, sem væri

ætlað áhugamönnum og sérfræðingum á þessum fræðasviðum, ekki síst kennurum og nemendum í þessum greinum. Tímaritinu er jafnframt ætlað að örva umræðu um stöðu þessara greina í skólakerfinu og auka áhuga á þeim hér á landi.

Fyrsta ritstjórn Tímarits um raunvísindi og stærðfræði. Frá vinstri: Sigmundur Guðbjarnason frá Efnafræðifélagi Íslands, Ragnar Sigurðsson. frá Íslenska stærðfræðafélaginu, Ari Ólafsson frá Eðlisfræðifélagi Íslands og  Gunnlaugur Björnsson frá Stjarnvísindafélagi Íslands. Ljósmyndari: Sverrir Vilhelmssom. Sjá nánar hér.

Um ritstjórnarstefnuna segir á vefsíðu tímaritsins:

Stefna ritstjórnar er að birta fjölbreytilegt efni á öllum fræðasviðum félaganna. Má þar nefna almennar greinar um vísindi og samfélag, sögu vísindanna, fréttir af rannsóknum, nýleg verðlaun, óleyst vandamál, frægar tilgátur, kennslumál, áhugavert efni sem kennarar hafa hnotið um í starfi sínu, kynningar á nýlegum meistara- og doktorsverkefnum, yfirlitsgreinar um einstök fræðasvið, rannsóknaniðurstöður o.s.frv.

Fyrsta hefti Tímarits um raunvísindi og stærðfræði barst áskrifendum árið 2003 og næstu sjö árin eða svo, kom tímaritið út með nokkuð reglubundnum hætti. Þar birtust ýmsar forvitnilegar greinar, meðal annars eftir meðlimi Stjarnvísindafélagsins og nemendur þeirra.

Það urðu því mörgum vonbrigði, þegar þetta ágæta tímarit dó árið 2011, að því er virðist þegjandi og hljóðalaust. Enn þann dag í dag, sjö árum síðar, hef ég ekki fengið neina skiljanlega skýringu á því hvað gerðist, og mér vitanlega hefur útförin ekki heldur farið fram. Ég rígheld því enn í vonina um lífgun úr dauðadái.

3. Stjörnufræðikennsla í skólum

Í fyrsta kafla færslunnar var rætt um tilraunir áhugasamra kennara til að bæta stjörnu-fræðikennslu í framhaldsskólum á síðasta fjórðungi síðustu aldar. Það var gert með námskeiðum, fyrst árið 1977 (sjá einnig hér) og aftur 1987. Til þess að öðlast smá innsýn í hugmyndafræðina, sem lá að baki þessum og öðrum álíka tilraunum, má til dæmis kynna sér stutta greinargerð undirritaðs frá árinu 1986. Hún fylgdi tillögu eðlisfræðiskorar um nýtt valnámskeið, Almenn stjarnvísindi, sem í upphafi var ætlað öllum stúdentum Háskóla Íslands. Námskeiðið varð strax vinsælt meðal nemenda og ég veit ekki betur en að það sé enn kennt í boði námsbrautar í eðlisfræði.

Eftir stofnun Stjarnvísindafélagsins voru kennslumál oft til umræðu, bæði innan stjórnar og á félagsfundum. Að beiðni stjórnarinnar tók Karl Jósafatsson að sér, árið 1989, að gera  könnun meðal framhaldsskóla um stöðu stjörnufræðinnar í námsefni skólanna. Niðurstöðurnar má sjá hér. Til stóð að fylgja könnuninni eftir með tillögum til úrbóta, en af einhverjum ástæðum varð lítið úr framkvæmdum í það skiptið.

Meðan á könnuninni stóð, kom hins vegar í ljós, að stjörnufræði var ekki nefnd á nafn í Námsskrá handa framhaldsskólum frá 1987. Stjórn félagsins fann sig knúna til að gera athugasemdir við þetta, en sendi Menntamálaráðuneytinu í leiðinni tillögur um námskeiðslýsingar, sem setja mætti í næstu útgáfu námsskrárinnar. Þótt ekkert svar hafi borist frá ráðuneytinu, geri ég ráð fyrir að athugasemdirnar hafi verið teknar til greina.

Það næsta, sem gerðist í þessum málaflokki, var að beiðni barst frá kennslumálanefnd IAU um upplýsingar varðandi stjörnufræðikennslu á Íslandi. Ég tók að mér að svara og sendi nefndinni skýrslu sumarið 1996. Stjórn Stjarnvísindafélagsins kom afriti af plagginu til íslenskra fjölmiðla og ýmissa annarra aðila. Það varð að lokum til þess, að Morgunblaðið birti stutt viðtal við undirritaðan um stöðu raungreinakennslu hér á landi. Mér vitandi urðu engar frekari umræður um málið í það skiptið.

Árið 1998 sendi Menntamálaráðuneytið félaginu til umsagnar drög að nýrri Námsskrá fyrir framhaldsskóla. Hér má sjá svar félagsins.

Þótt næsti kafli fjalli allur um alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009, er við hæfi að minnast einnig á það hér. Fullyrða má, að á því ári hafi orðið bylting í stjörnufræðikennslu hér á landi, einkum á yngri skólastigum, þökk sé sameiginlegu átaki Stjarnvísindafélagsins og  Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Svo heppilega vildi til, að meðal félagsmanna voru þá nokkrir forfallnir áhugamenn um stjörnufræði, sem á árunum þar á undan höfðu verið duglegir við að kynna greinina í skólum og meðal almennings. Ár stjörnufræðinnar  gaf þeim gullið tækifæri til að gera enn betur.

Frumkvöðlar í stjarnvísindafræðslu á Íslandi á tuttugustu og fyrstu öld. Frá vinstri: Snævarr Guðmundsson, Sævar Helgi Bragason og Sverrir Guðmundsson. Þeir hafa unnið mikið og óeigingjarnt srarf við að fræða skólabörn og allan almenning um undur alheimsins. Allir eru þeir jafnframt félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjarnvísindafélagi Íslands.

 

Ár stjörnufræðinnar 2009

Á allsherjarþingi IAU í Sydney sumarið 2003 ákvað þingheimur að senda UNESCO tillögu þess efnis, að árið 2009 yrði útnefnt sem alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar. Tveimur árum síðar ákvað UNESCO að styðja tillöguna formlega og sendi hana áfram til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þar var hún samþykkt í desember 20o7.

Haustið 2006 var að beiðni IAU sett á fót sérstök íslensk landsnefnd til að skipuleggja og hafa umsjón með stjörnufræðiárinu hér á landi. Undirritaður tók að sér formennskuna og nefndin hóf formlega störf vorið 2007. Fljótlega varð ljóst, að samfélag stjarnvísinda-manna stóð frammi fyrir risastóru verkefni á íslenskan mælikvarða. Það var því ákveðið, að sameina krafta Stjarnvísindafélagsins og Stjörnuskoðunarfélagsins í undirbúnings-vinnunni og snemma árs 2008 var nefndin fullskipuð. Í henni voru Einar H. Guðmundsson formaður, Gunnlaugur Björnsson, Snævarr Guðmundsson, Sverrir Guðmundsson, Sævar Helgi Bragason og Vilhelm S. Sigmundsson.

Fyrsta verk nefndarinnar var að senda út fréttatilkynningu um ákörðun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í desember 2007 og birtist hluti hennar meðal annars hér.

Landsnefndin starfaði síðan af fullum krafti allt árið 2008 og í árslok voru menn tilbúnir í slaginn. Í nóvember var birt stutt kynningarmyndband á veraldarvefnum og rétt fyrir áramót var fjölmiðlum send ný fréttatilkynning. RÚV fjallaði um stjörnufræðiárið nær samstundis og Fréttablaðið strax í byrjun janúar. Aðrir fjölmiðlar voru aðeins seinni til.

Einkennismynd stjörnufræðiársins.

Í árslok 2008 var opnuð sérstök vefsíða helguð stjörnufræðiárinu og í febrúar 2009 kom út glæsilegur bæklingur, Undur alheimsins, í ritstjórn Sævars Helga Bragasonar. Þar var stjörnufræðiárið kynnt og birtar fallega myndskreyttar greinar eftir nokkra unga (og örfáa miðaldra) íslenska stjarnvísindamenn. Um mitt sumar komu svo út tvö íslensk frímerki í tilefni ársins.

Meðal efnis á dagskrá stjörnufræðiársins var röð sex fyrirlestra, sem dreift var á tímabilið frá febrúar til apríl. Í mars voru haldin stjörnufræðinámskeið fyrir börn og sérstakt vísindamiðlunarverkefni, 100 stundir af stjörnufræði, var svo í boði fyrir börn og fullorðna í mars og apríl.

Í lok júní var haldið sérstakt kynningarkvöld fyrir almenning í Háskólabíói um stjörnulíffræði (sjá einnig viðauka B.4) í tengslum við alþjóðlegan sumarskóla á vegum NASA og ýmissa norrænna stofnanna.

Haustið hófst með glæsilegri ljósmyndasýningu á Skólavörðuholti, sem vakti talsverða athygli, eins og sjá má af þessum myndum af sýningarsvæðinu.

Ljósmyndasýningin From Earth to the Universe á Skólavörðuholti, 22. ágúst - 10. september 2009. Ljósmynd: Morgunblaðið.

Í byrjun október 2009 voru birt úrslit í ritgerðarsamkeppni, sem efnt hafði verið til þá um vorið. Verðlaunin voru ekki af lakari endanum. Næstsíðasta stórverkefni ársins var svo hið víðfeðma stjörnuskoðunarverkefni, Galíleó-nætur, sem stóð yfir dagana 22.-24. október og naut mikilla vinsælda.

Af óviðráðanlegum ástæðum þurfti síðasta og kannski mikilvægasta verkefni stjörnufræði-ársins að bíða langt fram á næsta ár. Það var dreifing á hinum svokallaða Galíleó-sjónauka í alla grunn- og framhaldsskóla landsins. Með fádæma dugnaði og ósérplægni tókst umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins þó að ljúka verkinu í kringum áramótin 2010-11.

Það er mitt persónulega mat, að skipulag og framkvæmdir á hinu alþjóðlega ári stjörnufræðinnar 2009 hafi heppnast með  ágætum hér á landi. Allir meðlimir landsnefndarinnar gerðu sitt besta og margir lögðu á sig ómælda vinnu. Það er samt á engan hallað, þegar ég fullyrði, að framlag Sævars Helga Bragasonar hafi ráðið enna mestu um það, hversu vel tókst til. Án hans hefði ýmislegt farið öðruvísi en ætlað var.

Sem betur fer, hefur Sævar sjálfur notið góðs af þeirri reynslu, sem hann öðlaðist á stjörnufræðiárinu og af samskiptum við stjarnvísindamenn Háskólans. Hann opnaði, ásamt öðrum, hinn mjög svo gagnlega Stjörnufræðivef árið 2010 og er nú orðinn landsfrægur undir gælunafninu Stjörnu-Sævar fyrir alþýðufræðslu á sviði stjarnvísinda og önnur uppátæki.

Ýmislegt annað en Stjörnufræðivefurinn fylgdi í kjölfar stjörnufræðiársins. Kennsla í greininni hefur batnað í grunnskólum landsins og aukinn almennur áhugi á stjörnufræði hefur leitt til þess, að nú hafa bæst við þrjú ný áhugamannafélög: Stjörnu-Odda félagið (2010), Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja (2012) og Stjörnuskoðunarfélagið á Varmalandi (2012). Er þá ekki allt talið.

Að lokum er hér stutt en hnitmiðað yfirlit yfir stjörnufræðiárið 2009 í alþjóðlegu samhengi

 

Að endingu

Á þeim þrjátíu árum, sem liðin eru frá stofnun Stjarnvísindafélagsins, hefur staða stjarnvísinda á Íslandi gjörbreyst. Greinin er löngu orðin fullgildur meðlimur í íslensku vísindasamfélagi og meðal almennings ríkir nú meiri áhugi á stjörnufræði en nokkru sinni fyrr. Ástæður þessara breytinga eru að sjálfsögðu margvíslegar, en nokkrar þær mikilvægustu má rekja beint eða óbeint til Stjarnvísindafélagsins.

Sem dæmi má nefna, að vettvangur rannsókna og kennslu í stjarnvísindum hefur tekið ótrúlegum breytingum á síðustu áratugum. Þar vega þyngst tveir samtvinnaðir þættir. Annars vegar er það uppbygging grunnrannsókna við Háskóla Íslands. Hins vegar er það aðildin að Norræna stjörnusjónaukanum, sem skipti sköpum fyrir rannsóknir og kennslu í stjarnvísindum á sínum tíma, og gerir það að vissu leyti enn. Grunnurinn að þessari jákvæðu þróun var lagður með tillögum og skýrslu Stjarnvísindafélagsins í desember 1990.

Rannsóknir í stjarnvísindum við Háskólann hafa aukist jafn og þétt á síðustu þremur áratugum. Þegar þetta er ritað (í nóvember 2018), starfa við skólann tveir kennarar í greininni (Páll Jakobsson og Jesús Zavala Franco), þrír sérfræðingar (Gunnlaugur Björnsson, Guðlaugur Jóhannesson og Kári Helgason), tveir nýdoktorar (Mark Lovell og Chaichalit Srisawat) og þrír doktorsnemar (Sebastian Bohr, Jan Burger og Kasper Heintz). Að auki hafa tveir emerítusar (Einar H. Guðmundsson og Þorsteinn Sæmundsson) aðstöðu hjá hópnum.

Brosandi andlit í félagsmiðstöð stjarnvísindahóps Háskóla Íslands. Myndin til vinstri er tekin í júlí 2013 og sýnir Sævar Helga Bragason, Zach Cano nýdoktor, Stefanie Courty fyrrverandi nýdoktor, Pál Jakobsson prófessor, Gunnlaug Björnsson forstöðumann Háloftadeildar, Andreas Johansson doktorsnema, Mette Friis doktorsnema og Þorstein Sæmundsson fyrrverandi forstöðumann Háloftadeildar. Hin myndin er frá því í nóvember 2015. Frá vinstri: Gunnlaugur Björnsson, Magnus F. Ivarsen BS-nemi, Zach Cano, Einar H. Guðmundsson prófessor, Mette Friis, Páll Jakobsson, Guðlaugur Jóhannesson sérfræðingur, Andreas Johansson og Guðjón H. Hilmarsson meistaranemi.

Þegar ég horfi á öll þessi glöðu andlit á myndunum hér fyrir ofan og hugleiði þann mikla árangur á sviði stjarnvísinda, sem náðst hefur hérlendis á undanförnum árum og áratugum, get ég ekki annað en verið fullur bjartsýni um framtíðina.


VIÐAUKAR

A. Stjórnarmeðlimir Stjarnvísindafélagsins á tímabilinu 1988 til 2018

     Ár                  Formenn                           Gjaldkerar                      Ritarar

1988-89:   Einar H. Guðmundsson        Karl H. Jósafatsson           Einar Júlíusson
1989-90:   -                                                  -                                             -
1990-91:    -                                                  -                                             -
1991-92:    -                                                  -                                             Guðmundur G. Bjarnason
1992-93:   Gunnlaugur Björnsson          -                                              -
1993-94:   -                                                 Vilhelm S. Sigmundsson    -
1994-95:   -                                                   -                                             -
1995-96:   -                                                   -                                              -
1996-97:   -                                                   -                                              -
1997-98:   -                                                   -                                            Einar Júlíusson
1998-99:  Einar H. Guðmundsson          -                                              -
1999-00:   -                                                  -                                              -
2000-01:  Þorsteinn Sæmundsson         -                                              -
2001-02:   -                                                  -                                              -
2002-03:  -                                                   -                                              -
2003-04:  -                                                   -                                              -
2004-05:  Gunnlaugur Björnsson           -                                              -
2005-06:   -                                                  -                                             Snævarr Guðmundsson
2006-07:  Einar H. Guðmundsson         -                                              -
2007-08:   -                                                  -                                              -
2008-09:  -                                                   -                                              -
2009-10:   -                                                  -                                              -
2010-11:   Páll Jakobsson                          -                                              -
2011-12:    -                                                 Sævar Helgi Bragason         -
2012-13:   -                                                   -                                              -
2013-14:   -                                                   -                                              -
2014-15:   -                                                   -                                              -
2015-16:   -                                                   -                                              -
2016-17:   -                                                   -                                              -
2017-18:   -                                                   -                                              -


B.  Opinberir fyrirlestrar á vegum félagsins

  1. Stakir fyrirlestrar 1988-2018 (drög):

03.08.89.  Katsuhiko Sato: The Physics of Supernovae and the Neutrino Burst from SN1987A.
04.08.89.  Katsuhiko Sato: Quark-Hadron Phase Transition and Primordial Nucleosynthesis.
12.09.89.   Örnólfur E. Rögnvaldsson: Voyager 2 við Júpíter.
31.10.89.   Christopher J. Pethick: Superfluidity in the Laboratory and the Cosmos.
01.02.90.   Þorsteinn Vilhjálmsson: Af surti og sól.
22.05.90.   Geoffrey E. Perry: Gervitungl.
12.03.91.    Claes Fransson: Supernovae.
12.06.91.    Bernard E. J. Pagel: The Age of the Universe.
29.04.92.   Marek Abramowicz: Inertial Forces in General Relativity.
16.05.92.    Arne Ardeberg The Nordic Optical Telescope.
29.12.92.    Vésteinn Þórsson: Þétting káeinda í nifteindastjörnum.
29.11.93.    Jean-Paul Villain: SuperDARN.
17.03.94.   Igor D. Novikov: Can We Change the Past? (Modern Physics and Time Machines.)
21.03.94.   Igor D. Novikov: The Nature of Dark Matter in the Universe.
10.05.94.   Wesley M. Stevens Alternatives to Ptolemy: Astronomy in Carolingian Schools.
06.10.94.   Marek Abramowicz Gamma-Ray Bursts from Neutron Stars Mergers.
30.03.95.   Einar H. Guðmundsson: Fortíðarkeilan og þróun alheims.
04.05.95.   Gunnlaugur Björnsson: Sérkenni svarthola.
14.03.98.   Johannes Andersen: The New Giant Telescopes.

17.04.99.   Kaare Aksnes: The Dynamics of the Galilean Moons.
03.03.03.   C. Frankel og B. Maxwell: Euro-MARS: rehearsing the Exploration of Mars in Iceland.
07.03.07.   Michael Segre: Physics vs. Astronomy: the Background to the Galileo Affair.
24.01.08.   Þórir Sigurdsson: Spútnik: 50 ár frá upphafi geimaldar.
20.05.08.  Haraldur Páll Gunnlaugsson: Mars Phoenix geimfarið.

18.12.09.   Anna S. Árnadóttir: A closer look at the Galactic disks with Strömgren photometry.
19.02.10.   Ingólfur Ágústsson: Probing Dark Matter Halos Using Satellite Galaxies
19.10.10.   Guðlaugur Jóhannesson: Háorkurannsóknir með Fermi-tunglinu.
31.05.11.   Jay Pasachoff: Sólin og sólmyrkvar.
21.06.11.   Shadia Habbal: Sólin.
21.06.11.   Karen Meech: Halastjörnur.
09.02.13.  Sævar Helgi Bragason: Örnefni í sólkerfinu.
13.09.13.   James B. Garvin: Marsjeppinn Curiosity.
30.09.13.  Pedro Russo: Astronomy Education and Public Outreach for Development.
20.09.14.  Nir J. Shaviv: Cosmic Rays, Solar Forcing and 20th Century Climate Change.                   13.06.16:   Alex Nielsen: Gravitational Waves with Advanced LIGO.                                      21.09.17.   Guðmundur K. Stefánsson: Fjarreikistjörnur og líf í alheimi.                                         07.11.17:    Volker Springel: Supercomputer Simulations of the Dark and Luminous Universe.           

2. Fyrirlestraröðin Stjarnvísindi nútímanns 1991-92:

16.11.91.  Einar H. Guðmundsson: Hvers vegna er myrkur á nóttinni?
30.11.91.  Gunnlaugur Björnsson: Á sveimi um sólkerfið.
25.01.92. Karl H. Jósafatsson: Lífið og stjörnurnar.
22.02.92. Þorsteinn Sæmundsson: Sól og jörð í fortíð og nútíð.

3. Fyrirlestrar um stjörnulíffræði 2004:

09.07.04.  Karen Meech: NASA Astrobiology Institute.
13.07.04.   Eric Gaidos: Life under Ice: From Iceland to the Outer Solar System.
13.07.04.   Alan Boss: Looking for Earths in Nearby Solar Systems.

4. Fyrirlestrar í tilefni Alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar 2009:

21.02.09.  Páll Jakobsson: Gammabossar og sprengistjörnur: Leiftur úr fjarlægri fortíð.
07.03.09.  Einar H. Guðmundsson: Uppruni frumefnanna.
31.03.09.   Johannes Andersen: The Future of European and Nordic Astronomy.
04.04.09.  Lárus Thorlacius: Hugleiðingar um heimsfræði.
06.04.09.  David Des Marais: Leit að vísbendingum um líf og lífvænlegar aðstæður á Mars.
18.04.09.   Árdís Elíasdóttir: Hulduefni og þyngdarlinsur.

29.06.09.  David Fisher: Ice on Mars: New highlights from the Phoenix mission.
29.06.09.  Paul Helfenstein: Icy moons in the outer solar system.
29.06.09.  Karen Meech: Comets: Icy remnants of the early solar system.



Viðbót 1 (3. des. 2018): Á aðalfundi Stjarnvísindafélagsins, 1. desember 2018, flutti Þorsteinn Sæmundsson stutt erindi um IAU og trúnaðarstörf sem hann hefur sinnt á þeim vettvangi undanfarin 30 ár fyrir hönd íslenskra stjarnvísindamanna. Hlaut hann hinar bestu þakkir fyrir og jafnframt var eftirmanni hans, Gunnlaugi Björnssyni, óskað velfarnaðar í hlutverki nýs landsfulltrúa hjá sambandinu.

Viðbót 2 (27. júní 2020): Nýleg þróun mála í tengslum við aðild Íslands að IAU varð til þess að kalla fram hjá mér skondið minningarbrot um aðdragandann að aðildinni:  Í hinni ágætu skýrslu Þorsteins Sæmundssonar frá 1. desember 2018 (sjá viðbót 1) segir frá samskiptum hans við Derek McNally um hugsanlega aðild Íslands að IAU á sínum tíma. Ég man ekki til að hafa haft veður af þeim samskiptum fyrr en síðar. Hitt man ég, að um það leyti, sem ég var hvað mest að hugsa um framtíð stjarnvísinda á Íslandi, datt mér í hug að skrifa IAU um hugsanlega aðild Íslands, sem ég og gerði. Þrátt fyrir nokkra leit finn ég því miður ekki afrit, hvorki af þessu bréfi mínu né svarbréfinu frá IAU, sem barst skömmu síðar. Ekki man ég heldur, hvort svarbréfið var stílað á okkur báða, Þorstein og mig, eða hvort við fengum sitt hvort bréfið. Í bréfi IAU var okkur Þorsteini kurteisislega bent á að hafa samband hvor við annan og vinna sameiginlega að undirbúningi umsóknar, ef okkur hugnaðist svo. Þeir voru því hálf kindarlegir stjarnvísindamennirnir tveir sem hittust í kjölfarið og tóku ákvörðun um að sækja um aðild. Þorsteinn tók að sér að sjá um málið, eins og nánar er greint frá í fyrrnefndri skýrslu hans.

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.