Öld liðin frá sólmyrkvanum mikla 1919

Víða um lönd er nú haldið upp á hundrað ára afmæli almyrkvans 29. maí 1919. Breskir vísindamenn fylgdust náið með myrkvanum og tókst að ná mælingum, sem sýndu fram á, að ljós frá fjarlægum stjörnum sveigði af leið við það að fara nálægt sólkringlunni. Sveigjan reyndist í samræmi við spá Einsteins, sem byggð var á almennu afstæðiskenningunni.

Samkvæmt útreikningum Einsteins átti ljóssveigjuhornið að vera 1,75 bogasekúndur. Það er álíka stórt horn og breidd venjulegs mannshárs sést undir úr 30 metra fjarlægð.

Þessi fræga mynd birtist fyrst í tímaritinu Illustrated London News, hinn 22. nóvember 1919. Hún gefur dágóða lýsingu á því helsta, sem tengist sólmyrkvamælingunum 29. maí sama ár. Grunnmyndin sýnir mælitækin í Sobral (neðst til vinstri) og hvernig þyngd sólar sveigir ljósgeisla frá fjarlægri stjörnu. Til hægri er sýnt efst, hvernig sveigjuhornið er mælt. Fyrir miðju sést braut almyrkvans. Þar fyrir neðan er ljósmynd af kórónu sólar.

Niðurstöður mælinganna voru kynntar vísindamönnum á merkum fundi í London 6. nóvember 1919. Ekki liðu nema nokkrir dagar þar til fréttir af fundinum og hugmyndum Einsteins höfðu borist vítt og breitt um heimsbyggðina. Við það öðlaðist Einstein heimsfrægð.

Fyrsta íslenska fréttin um  sólmyrkvamælingarnar birtist í Vísi, 19. nóv, 1919, bls. 2. Önnur  íslensk dagblöð fylgdu í kjölfarið.

Í eftirfarandi greinum má finna frekari umfjöllun um þennan merka atburð og viðtökurnar sem afstæðiskenningin fékk víða um heim, þar á meðal á Íslandi:


Viðbót (27. október 2020): Eftirfarandi grein fjallar um mælingarnar 1919 og nákvæmni þeirra: G. Gilmore & G. Tausch-Pebody, 2020: The 1919 eclipse results which verified General Relativity and their later detractors: a story re-told.

 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.