Víða um lönd er nú haldið upp á hundrað ára afmæli almyrkvans 29. maí 1919. Breskir vísindamenn fylgdust náið með myrkvanum og tókst að ná mælingum, sem sýndu fram á, að ljós frá fjarlægum stjörnum sveigði af leið við það að fara nálægt sólkringlunni. Sveigjan reyndist í samræmi við spá Einsteins, sem byggð var á almennu afstæðiskenningunni.
Samkvæmt útreikningum Einsteins átti ljóssveigjuhornið að vera 1,75 bogasekúndur. Það er álíka stórt horn og breidd venjulegs mannshárs sést undir úr 30 metra fjarlægð.
Niðurstöður mælinganna voru kynntar vísindamönnum á merkum fundi í London 6. nóvember 1919. Ekki liðu nema nokkrir dagar þar til fréttir af fundinum og hugmyndum Einsteins höfðu borist vítt og breitt um heimsbyggðina. Við það öðlaðist Einstein heimsfrægð.
Í eftirfarandi greinum má finna frekari umfjöllun um þennan merka atburð og viðtökurnar sem afstæðiskenningin fékk víða um heim, þar á meðal á Íslandi:
- Einar H. Guðmundsson, 2015: Sólmyrkvinn sem skaut Einstein upp á stjörnuhimininn.
- Einar H. Guðmundsson og Skúli Sigurðsson, 2005: Eðli rúms og tíma: Ólafur Dan Daníelsson og greinar hans um afstæðiskenninguna.
Viðbót (27. október 2020): Eftirfarandi grein fjallar um mælingarnar 1919 og nákvæmni þeirra: G. Gilmore & G. Tausch-Pebody, 2020: The 1919 eclipse results which verified General Relativity and their later detractors: a story re-told.