Þetta stutta yfirlit var upphaflega birt í september 2018 sem hluti af færslunni Halastjörnur fyrr og nú - 3. Tuttugasta öld. Sérstök færsla um Sturlu og störf hans er í vinnslu og því verður aðeins minnst á örfá atriði hér.
Sturla Einarsson
Sturla fæddist í Skagfirði árið 1879, sonur hjónanna Jóhanns Einarssonar og Elínar Benónýsdóttur. Fjögra ára gamall fluttist hann alfarinn til Bandaríkjanna með foreldrum sínum og flokkast því samkvæmt hefð sem Vestur-Íslendingur.
Sturla lauk doktorsprófi í stjörnufræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1913 með ritgerð um brautir Trójusmástirna. Hann starfaði síðan við skólann allan sinn starfsaldur og varð prófessor í stjörnufræði 1918.
Í akademískum störfum sínum lagði Sturla mesta áherslu á kennslu og stjórnunarstörf, en á námsárunum stundaði hann öflugar rannsóknir við útreikninga á brautum nýuppgötvaðra halastjarna. Alls munu hafa birst eftir hann niðurstöður um brautir 16 slíkra stjarna (ekki þó halastjörnu Halleys):
- Sturla Einarsson: Greinar 1906-1935.
Frekari upplýsingar um störf og persónu Sturlu eru að finna í eftirfarandi minningargrein eftir þrjá fyrrum stúdenta hans og samstarfsmenn:
- H. F. Weaver, L. E. Cunningham og C. D. Shane, 1980: Sturla Einarsson.