Eðlisfræði Fischers, fyrsta eðlisfræðibókin sem kom út á íslensku

Viðbót, 5. maí 2021: Eðlisfræði Fischers er nú komin á vefinn:

Þetta stutta yfirlit var upphaflega birt í september 2019 sem hluti af færslunni H. C. Örsted, bein og óbein áhrif hans á Íslendinga og upphaf kennslu í eðlisfræði og stjörnufræði við Reykjavíkurskóla.

Forsíðan á kennslubókinni og alþýðuritinu Eðlisfræði eftir J. G. Fischer.

Þegar hin merka þýðing Magnúsar Grímssonar á Eðlisfræði Fischers kom út árið 1852, greip Björn Gunnlaugsson tækifærið og valdi hana strax sem kennslubók í eðlisfræði við Reykjavíkurskóla veturinn 1852-53. Lesnir voru kaflarnir um hljóð, segulmagn, rafmagn og loftsjónir, en í aflfræðinni var áfram stuðst við bók Örsteds, Naturlærens mechaniske Deel. Þessar tvær bækur voru notaðar saman í nokkur ár.

Magnús Grímsson, þýðandi Eðlisfræði Fischers.

Í fyrstu útgáfu Dægradvalar frá 1923 minnist Benedikt Gröndal á Magnús og segir af sinni alkunnu meinfýsi (bls. 194):

Magnús þýddi Fischers eðlisfræði með aðstoð Bjarnar Gunnlaugssonar, því sjálfur vissi hann lítið eða ekkert í þeirri grein.

Í handritum Magnúsar er að finna ýmsa kafla um eðlisfræði og af þeim má sjá, að ummæli Benedikts eru langt frá því að vera sanngjörn. Magnús hefur þó að öllum líkindum leitað til Björns um ýmis vafaatriði sem og yfirlestur. Í bókinni eru einnig nokkrar neðanmáls-greinar eftir Björn, sérstaklega merktar honum.

Kaflinn um seguláhrif rafstraums í Eðlisfræði Fischers.

Eðlisfræði eptir J. G. Fischer er þýðing og að nokkru leyti endursögn á dönsku bókinni J. G. Fischers populære Naturlære til Brug i Skoler og ved Selvunderviisning frá 1844. Skólafrömuðurinn og stjórnmálamaðurinn Frederik Frölund þýddi þá bók úr þýsku og aðlagaði lítillega að dönskum aðstæðum.

Þýska útgáfan var frá 1843 og bar nafnið J. H. Hellmuth's Volks-Naturlehre. Zehnte Auflage. Nach dem Tode des Verfassers zum dritten Male bearbeitet von J. G. Fischer. Bókin var vinsælt alþýðurit og jafnframt kennslubók í Þýskalandi og hafði áður komið þar í níu útgáfum. Upphaflegur höfundur var þýski alþýðufræðarinn og presturinn Johann Heinrich Helmuth og bókin kom fyrst út árið 1786 undir heitinu Volksnaturlehre zur Dämpfung des Aberglaubens.

Johann Heinrich Helmuth (1732-1813).

Eftir lát Helmuths tók kennslubókahöfundurinn J. G. Fischer við útgáfunni, en hann kenndi lengi við kennaraskólann í Neuzelle (því miður veit ég ekki mikið meira um Fischer). Vinsældir bókar Helmuths hafa eflaust valdið því, að hluta upphaflega nafnsins var haldið, þegar að Fischer tók við, en jafnframt var annað nafn sett á bókina á sérstöku titilblaði: Elementar-Naturlehre für Lehrer an Seminarien und gehobenen Volksschulen wie auch zum Schul- und Selbstunterrichte methodisch bearbeitet von J. G. Fischer. Fimmtánda og síðasta úgáfa bókarinnar er frá 1855.

Áður en útgáfan frá 1843 kom út, las þýski eðlisfræðingurinn J. H. J. Müller yfir handritið og veitti Fischer jafnframt leyfi til að nota myndir úr bókinni Pouillet's Lehrbuch der Physik Und Meteorologie, für deutsche Verhältnisse frei bearbeitet von Dr. Joh. Müller. (Erster Band; Zweiter Band.), sem kom á prenti þetta sama ár. Þetta fræga eðlisfræðirit Müllers er að hluta byggt á verki franska eðlisfræðingsins  C. S. M. Pouillets.

Ekki er alveg ljóst, hvenær hætt var að að nota Eðlisfræði Fischers við kennsluna í Reykjavíkurskóla, en það kann að hafa verið um það leyti, sem Björn Gunnlaugsson lét af störfum árið 1862. Í staðin var tekin upp bókin Naturlærens chemiske Deel, sem C. L. Petersen, fyrrverandi lærsisvein Örsteds við Fjöllistaskólann, hafði þýtt úr þýsku. Mikilvægt er að hafa í huga, að ekki er um kennslubók í efnafræði að ræða, heldur endurspeglar nafnið hugtakakerfi Örsteds, sem áður hefur verið minnst á. Bókin fjallar um allar helstu greinar eðlisfræði þess tíma, en skólapiltar voru eingöngu látnir lesa kaflana um varmafræði,  rafmagnsfræði og segulfræði. Í aflfræðinni var stuðst við bók Örsteds eins og áður.

 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Nítjánda öldin. Bókamerkja beinan tengil.