Doktorsritgerð um Morkinskinnu, GKS 1009 fol.

Haraldur Bernharðsson, 2. júní 2011

Föstudaginn 4. mars var ég andmælandi við doktorsvörn Alex Speed Kjeldsens við Kaupmannahafnarháskóla ásamt Oddi Einari Haugen frá Björgvinjarháskóla og Bent Jørgensen frá Kaupmannahafnarháskóla. Ritgerðin ber titilinn „Et mørt håndskrift og dets skrivere. Filologiske studier i kongesagahåndskriftet Morkinskinna“ og fjallar um íslenskt skinnhandrit frá síðari hluta 13. aldar sem á síðari tímum hefur verið nefnt Morkinskinna en ber safnmarkið GKS 1009 fol. Ritgerðin er glæsilegt framlag til rannsókna á íslenskri skriftar- og málsögu.