Hópvinnuaðferðir

Rannsóknir sýna að við lærum mest um ákveðin viðfangsefni með því að vinna með upplýsingarnar og prófa sjálf. Það er erfitt að læra um eitthvað til hlítar með því að eingöngu hlusta á fræðslu um efnið eða horfa á einhvern annan framkvæma. Við lærðum ekki að hjóla með því að horfa á einhvern annan hjóla eða hlusta á lýsingu á því hvernig á að hjóla, heldur með því að prófa sjálf og æfa okkur.

Auk þess er oft gott að ræða við aðra um viðfangsefnið, heyra þeirra sjónarmið og komast að sameiginlegri niðurstöðu t.d. í lausnaleitarnámi (problem based learning). Athygli nemenda helst vakandi og áhugi vaknar oft þegar ýmsar hliðar verkefnisins eru skoðaðar.

Markmið með hópvinnu geta verið ýmis konar:

Nemendur

 • eru virkari og halda þar af leiðandi frekar athyglinni
 • öðlast dýpri skilning á viðfangsefninu
 • læra að vinna í teymi
 • sjá ýmis sjónarhorn er þeir hlusta á aðra
 • vinna áfram með hugmyndir frá öðrum
 • fá tækifæri til að tjá sig
 • kynnast (mikilvægt, ekki síst fyrir grunnnema)
 • mynda hópvitund (passa í hópinn eða finna sig heima í hópnum)

Hópvinnuaðferðir eru margar og mikilvægt er að velja þá sem hentar hverju sinni:

 1. Rökræður byggjast á því að nemendur velja sér afstöðu(þarf ekki endilega að vera þeirra afstaða). Þeir setjast í upphafi í hóp með þeim sem valið hafa sömu afstöðu og týna til öll möguleg rök til að styðja það sjónarmið. Síðan hefjast rökræður úr púlti, þar sem hver sem vill (eða einn talsmaður hópsins) bera fram rök. Í framhaldi af því fara fram umræður og í lokin eru greidd atkvæði um málið. Í því tilfelli þar sem rannsóknarniðurstöður liggja fyrir til að styðja aðra hlið málsins fram yfir aðra, gæti kennari/leiðbeinandi kynnt þær í lokin.
 2. Umræður geta farið fram með ýmsum hætti. Oft er gott að fá nemendur til að stýra umræðum um eitthvað ákveðið efni, en þá er best að þeir hafi haft tækifæri til að undirbúa sig fyrir tímann.
 3. Þriggja mínútna samræður eru notaðar til að slíta í sundur t.d. fyrirlestur og virkja nemendur. Þá standa nemendur upp, ganga um og velja sér einn eða tvo til að spjalla við mjög stuttlega um viðfangsefni sem kennari hefur lagt til.
 4. Hugstormun er fólgin í því að nemendur koma með tillögur eða hugmyndir án þess að þær séu gagnrýndar af öðrum. Oft er þetta gert í smærri hópum, þar sem einn skráir niður hugmyndir hópsins, og einn (ekki endilega sá sami) deilir síðan hugmyndum hópsins meðal allra. Kennarinn skráir hugmyndirnar og stýrir umræðum.
 5. Lausnaleit (Problem Based Learning) er þekkt aðferð til dæmis í heilbrigðisvísindum, enda upprunnin þaðan. Hópar fá ákveðna lýsingu, t.d. á vandamálum sjúklings, og leita saman upplýsinga til að komast að því hvað sé að hjá sjúklingi.
 6. Snjóboltaaðferðin felst í því að nemendur setjast tveir og tveir  saman og vinna með ákveðið viðfangsefni. Síðan sameinast þeir næsta pari og þessir fjórir bera þá saman bækur sínar. Þeir skrá niðurstöður sínar og semja skýrslu sem þeir eru ábyrgir fyrir að greina frá í næsta tíma á eftir.
 7. Púslaðferðin virkar þannig að að nemendur skiptast í nokkra hópa, t.d. gulan, rauðan, grænan, og bláan. Hver hópur hefur það verkefni að verða sérfræðingur um eitthvað ákveðið viðfangsefni eða hugtak. Hver hópur undirbýr sig í 40-50 mínútur og síðan tvístrast meðlimir hópsins þannig að þeir sitja með meðlimum úr öðrum litahópum. Nú sitja saman "gulir, rauðir, grænir og bláir" sérfræðingar  og hver fræðir hina og stýrir umræðum á borðinu um sitt efni. Þetta getur tekið aðrar 40-50 mínútur. Kennari fer milli hópa, dokar við í hverjum hópi, hlustar á umræður, kemur með athugsemdir, passar upp á að allir séu að fylgjast með.

 

Námsmat vegna hópvinnuaðferða.