Hvernig fer nám fram?

Hvernig fer nám fram?

Flestir nútíma kennslufræðingar og stuðningsmenn hugrænu sálarfræðinnar (cognitive psychology) nota ýmsar útgáfur af hugsmíðahyggju (constructivism) til að útskýra hvernig nám fer fram. Þær kenningar byggja á þeirri hugsun að við bætum við þekkingu okkar með því að byggja á eldri þekkingu og reynslu okkar, eins og við séum að breyta og bæta við í innri byggingu hugans (schemata). Nýr skilningur, reynsla og upplýsingar sem við söfnum mótar, breytir eða bætir við í þessa byggingu (structure). Þannig reisum við okkar eigin hugsmíð, okkar eigin þekkingar- og reynsluhús, hvort sem er á vitsmunalega, tilfinningalega, samskiptalega, eða skynhreyfi sviðinu (psychomotor domain). Í kennslu er þá oft lögð minni áhersla á utanbókarlærdóm á staðreyndum en þess í stað unnið að því að efla skilning og gagnrýna hugsun. Enginn nemandi kemur inn í kennslustund án einhverrar þekkingar, reynslu, eða skoðana, þannig að hlutverk kennarans er að kanna hvað nemendur vita nú þegar og aðstoða þá síðan við að afla sér viðbótarþekkingar, auk þess að leiðrétta hugmyndir sem er byggðar á misskilningi. Þannig myndast ný þekking og reynsla við tengingu við undirliggjandi þekkingu og reynslu í gegnum vitsmunalega þátttöku í náminu, en hún dýpkar skilning og gagnrýna hugsun. Piaget (1950) og Bruner (1960, 1966) eru helstu upphafsmenn hugsmíðahyggjunnar (meira)

Hvað með minnið?

Í hugrænu sálarfræðinni (cognitive psychology) er notað ákveðið módel, gagnaúrvinnslumódelið (information processing theory)  til að útskýra hvernig nám fer fram. Litið er á mannshugann sem gagnaúrvinnslukerfi eða þekkingarvinnslukerfi. Hugurinn tekur á móti upplýsingum (acquisition), vinnur eða velur úr þeim, geymir/skráir í minni (geymd/retention) eða hendir út, og endurheimtir úr minni (retrieval). Minnið (memory) er þrískipt. Það dynja á okkur alls kyns upplýsingar úr umhverfi okkar. Þær berast inn í skynminni eitt augnablik en þar fer fram skjótt val um hvort taka á við þessum upplýsingum. Ef svo er, þá færast þær strax yfir í stundarminnið eða skammtímaminnið (short term memory). Það hefur þó mjög takmarkað geymslupláss (yfirleitt miðað við sjö atriði í einu) og varðveislutíminn er líka takmarkaður. Þetta fer þó eftir einstaklingum og þeirri tækni sem þeir nota við að muna. Það er til dæmis hægt að búta eða flokka upplýsingarnar (chunking), eða æfa þær til að halda þeim við (maintenance rehearsal). Þá fara þær yfir í langtímaminni. Til dæmis leggjum við á minnið símanúmer með því að skipta 7 tölustöfum í 3 og 4, 864 1659. Við tökum eftir að fyrri hlutinn eru jafnar tölur niður á við 864. Þetta hjálpar okkur að muna. Ef við gerum ekkert við upplýsingarnar, þá hverfa þær fljótt. Talið er að upplýsingar geymist í langtímaminni í merkingareiningum sem eru tengdar innbyrðis og/eða tengdar eldri þekkingu í langtímaminninu. Langtímaminni skiptist í aðferðaminni (procedural memory) sem geymir ýmsa færni til athafna og lýsandi minni (declarative memory) sem geymir minningar um atburði sem hafa gerst og staðreyndir.

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir kennslu?

Þegar kennari spyr nemendur spurninga varðandi reynslu þeirra og þekkingu á einhverju efni, þá endurheimta þeir úr langtímaminni mikilvægar upplýsingar sem þeir tengja síðan við nýja þekkingu og reynslu. Minningarnar geta haft áhrif á hvernig við skynjum og bregðumst við umræðuefnum eða nýrri þekkingu. Umræðan verður til þess að athygli nemandans vaknar, en athygli er forsenda fyrir því að við tökum þátt og lærum.

Hvað hefur þetta með háskólakennslu að gera?

Stundum er spurt hvort einhver ástæða sé til að breyta eða endurmóta kennsluhætti í háskólum, nemendur séu jú fullorðnir og komi þangað af fúsum og frjálsum vilja. Rannsóknir hafa sýnt að nemendamiðaðar kennsluaðferðir, þ.e. kennsluaðferðir sem virkja nemendur í námi sínu, hafa sömu áhrif á eldri og yngri nemendur. Nemendur muna betur það sem þeir lærðu því athyglin var vakandi og áhugi oftast meiri. Auk þess skapaðist gott andrúmslegt sem annars vegar tengdi saman nemendur í hópnum, og hins vegar nemendur og kennara.

Hvað eru nemendamiðaðar kennsluaðferðir?