Að gjalda líku líkt – dómur um tjáningarfrelsi.

 

Þann 17. apríl 2014 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm í máli Mladina v. Slovenia. Í dóminum, sem varðar skýringu á 10. gr. sáttmálans um tjáningarfrelsi, þróar dómstóllinn frekar dómaframkvæmd sína  varðandi það sem kalla má “gagnrýnsiverðar eða umdeilanlegar opinberar staðhæfingar”. Fyrri dómar eru reistir á því að þeir sem setja fram slíkar staðhæfingar þurfi sjálfir búa sig undir að slíkum staðhæfingum verði svarað í sömu mynt og sýna umburðarlyndi gagnvart þeim og una þeim ef svo ber undir. Sem sagt, þegar kemur að tjáningarfrelsinu, er svigrúm til að gjalda líku líkt.

Í málinu lá fyrir tímaritsgrein þar sem sett var fram óvægin gagnrýni á þingmann í Sloveníu. Þingmaður þessi var m.a. þekktur fyrir andstöðu við viðurkenningu á réttindum samkynhneigðra til að skrá sambúð sína (eða ganga í hjónaband) undir sömu skilyrðum og gagnkynhneigð pör. Við umræður í þinginu um lagafrumvarp þessa efnis lýsti hann skoðun sinni m.a. með þessum orðum: “Ekkert okkar myndi vilja eiga son eða dóttur sem veldi þetta sambúðarform. Ef þetta “heimilslausa” fólk vill fylgja slóðinni til  Finnlands eða eitthvað ennþá lengra, leyfum þeim þá bara að fara þangað til að giftast. En stærstu fórnarlömb slíks hjónabands eru börnin. Í ræðunni reyndi að að líkja eftir því látbargði og talandi sem hann taldi dæmigerðan fyrir samkynhneigða karlmenn.

Af þessu tilefni birti vikutímaritið Mladina grein þar sem framlagi þingmannsins til umræðunnar var m.a. lýst sem “Kaffihúsaeftirlíkingu sem greinilega var ætlað sýna dæmigerða mynd rétttrúaðra af kvenlegu fasi samkynhneigðra manna, en sýndi í raun og veru bara dæmigerða afstöðu heiladauðs einstaklings sem er svo heppinn að búa í landi með svo takmarkaðan mannauð að hann getur jafnvel endað sem þingmaður, þegar hann í eðlilegu landi gæti ekki einu sinni orðið hreinsitæknir í meðalgóðum barnaskóla í þéttbýli.“

Þingmanninum var stórlega misboðið og höfðaði einkamál til greiðslu bóta fyrir meiðyrði fyrir dómstólum í Sloveníu. Fallist var að gert hefði verið að æru þingmannsins með þessum orðum og honum voru dæmdar bætur.

Blaðið skaut málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og hélt því fram að brotið hefði verið gegn frelsi blaðsins til tjáningar samkvæmt 10. gr. sáttmálans. Dómstóllinn féllst á að ákvörðun dómstóla í Slóveníu hefði falið í sér takmörkun á rétti blaðsins til tjáningar og að takmörkuni ætti sér lagastoð og þjónaði lögmætum tilgangi. Á hinn bóginn, þegar metið væri hvort takmörkunin væri hófleg í lýðræðislegu samfélagi, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Dómurinn vegna framgöngu þingmannsins hefði að sönnu gengið nokkuð langt miðað við tilefnið. Engu að síður taldi dómstólinn að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi blaðsins. Í því efni lagði dómstóllinn áherslu á að lýsing blaðsins hefði verið settar fram í tengslum við pólitíkst deilumál af fjölmiðli, en þátttaka fjölmiðla í pólitískum skoðanaskiptum væri grundvallaratriði í lýðræðislegu þjóðfélagi. Var bent á að um væri að ræða stjórnmálamann og honum bæri að sýna meiri umburðarlyndi gaganvert ummælum í sinn garð en einstaklingum sem ekki geta talist opinberar persónur. Sérstaklega var lögð áhersla á að hann hefði sjálfur með upphaflegum yfirlýsingum sínum í þinginu mótað stíl og áferð umræðunnar. Að auki hefði umfjöllun blaðsins ekki falið í sér staðhæfingar um staðreyndir, heldur gildisdóma, sem væru ekki alls kostar án stoðar í yfirlýsingum þingmannsins sjálfs. Ennfremur taldi dómurinn að frelsi blaðamanna fæli einnig í sér rétt til að ýkja að vissu marki.

Dómur þessi fellur að þekktri dómaframkvæmd sem gerir ráð fyrir að stjórnmálamenn eigi að hafa hærri þolmörk en aðrir að því er varðar umfjöllun um þá. Um þetta vitna t.d. Lingens v. Austria; Oberschlick v. Austria; Oberschlick v. Austria (No. 2); Lopes Gomes da Silva v. Portugal. Reglunni sem dómstóllinn hefur mótað hefur verið lýst þannig: „Ekki að kveikja upp í ofninum ef þú þolir ekki hitann“. Í þessu felst að þeir sem taka þátt í opinberri umræðu um opinber málefni með orðabragði og framsetningu sem orkar tvímælis eða eru gagnrýnisverðar á annan hátt verða að þola að þeim sé svarað í sömu mynt  og þurfa að búa sig undir og sætta sig við hörð andsvör og umbera þau. Dómurinn hefur áður komist að sambærilegri niðurstöðu í málum sem varða hatur á útlendingum eða útlendingaótta (xenophobiu, t.d. Oberschlick v. Austria, sem fyrr er nefndur). Í þessu máli hafði blaðamaður, sem var kærandi í málinu, kallað Jörg Haider fífl (þýska: Trottle) í staðinn fyrir nasista m.a.  vegna ýmissa umdeildra ummæla hins síðarnefnda. Þetta er á hinn bóginn fyrsta málið þar sem slíkt svigrúm til svo harðra viðbragða er gefið í tilefni af yfirlýsingum sem túlka má sem hommahatur (homophobiu). Þó má geta þess að í málinu  Vejdeland v. Sweden komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að bann við dreifingu bæklings sem hafði að geyma  móðgandi fullyrðingar um LGBT fólk (lesbian, gay, bisexual, og transgender) fólk fæli ekki í sér brot á tjáningarfrelsi samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmálans.

Dómurinn sem hér um ræðir og eldri sambærilegir dómar geta mögulega verið innlegg í víðtækari umræðu. Niðurstaðan þarf ekki endilega að vera bundin við stjórnmálamenn og getur einnig varðað aðrar opinberar persónur, svo sem fjölmiðlafólk, rithöfunda o. fl. sem leggja til opinberrar umræðu. Skilaboðin er þau að þessar “opinberu persónur” þurfa að huga að sínum upphafstóni í umræðu sem þeir hefja máls á enda geti þeir þurft að una því að líku sé líkt gjaldað.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.