Stjarneðlisfræði og heimsfræði á Íslandi 2: Tímabilið 1780-1870 (a) Skólahald - alþýðufræðsla - tíðarandi

Yfirlit um greinaflokkinn

Eins og getið er um í inngangsorðum, hófst  alþýðufræðsla í raunvísindum og tækni hér á landi með útgáfu íslenskra upplýsingarmanna á Ritum þess (konunglega) íslenska Lærdómslistafélags í Kaupmannahöfn á árunum upp úr 1780. Þegar félagsritin gáfu upp laupana, hóf Magnús Stephensen útgáfu fræðslurita að Leirárgörðum og lengi vel var hann eini maðurinn hér á landi, sem reyndi að uppfræða alþýðuna um raunvísindaleg efni.

Sólmiðjukenningin náði fótfestu við Kaupmannahafnarháskóla fljótlega upp úr miðri sautjándu öld, einkum fyrir áhrif frá Descartes og lærisveinum hans. Sumir (sennilega flestir) íslenskir hafnarstúdentar kynntust kenningunni því í náminu eftir það, eins og til dæmis má sjá á latneskum dispútatíum þeirra Magnúsar Arasonar og Þorleifs Halldórssonar frá fyrsta áratug átjándu aldar. Lítið sem ekkert er þó vitað, hvort og þá hvernig vitneskja um sólmiðjukenninguna og aðrar nýjungar í stjörnufræði  barst til íslensks almennings fyrir 1780, en líklega hefur það gerst með dönskum alþýðuritum, eins og nefnt var í inngangi.

Franskur lærdómsmaður útskýrir gerð alheimsins fyrir ungri aðals-konu. Myndin er úr Entretiens sur la pluralité des mondes eftir B. de Fontenelle, vinsælasta alþýðuriti allra tíma um sólmiðjukenninguna. Bókin kom fyrst út 1686 og var fljótlega þýdd á öll helstu tungumál Evrópu (sjá einnig hér og hér). Hún kom á dönsku 1748 (og aftur 1764) í þýðingu F. C. Eilschov undir heitinu Samtaler Om Meer end een Verden, Imellem et Fruentimmer og en lærd Mand. Ekki er ólíklegt að einhverjir dönskulesandi Íslendingar hafi orðið fyrir áhrifum af þessari skemmtilegu og vel skrifuðu bók. Auk sólmiðjuheimsins fjallar hún um hvirflakenningu Descartes og hugmyndir um líf á öðrum hnöttum.

Íslensk umfjöllun um stjörnufræði og sólmiðjukenningu á síðustu ártatugum átjándu aldar var blönduð misjafnlega ítarlegum slitrum úr náttúruspeki Newtons, enda voru fræðsluritin yfirleitt þýdd úr dönsku eða byggð á dönskum fyrirmyndum. Sjálf voru dönsku ritin að mestu þýðingar úr öðrum tungumálum. Hugmyndafræði Newtons var þegar farin að smeygja sér inn í danska menningu skömmu eftir miðja átjándu öld og því var eðlilegt, að hún bærist smám saman til Íslands. Eins og bent verður á síðar í þessum færslum, voru fyrstu kynni íslenskrar alþýðu af kenningum Newtons talsvert lituð af hugmyndum Descartes, sem væntanlega hefur ekki auðveldað skilning á fræðunum. Þetta breyttist þegar líða tók á nítjándu öldina.

 

Skólar á Íslandi

Aðstæður á Íslandi á þessu tímabili voru ákaflega ólíkar því, sem við nú eigum að venjast. Íbúafjöldinn árið 1780 var um 50 þúsund og aðeins lítill hluti landsmanna bjó í þéttbýli. Harðindin, sem í garð gengu á níunda áratugnum, urðu til þess að íbúum fækkaði talsvert í bili, en á þriðja  áratug nítjándu aldar tók þeim aftir að fjölga. Árið 1870 var fjöldinn orðinn um 70 þúsund.

Í upphafi tímabilsins voru aðeins tveir skólar á landinu, Hólaskóli og Skálholtsskóli. Suðurlandsskjálftinn mikli árið 1784 og önnur óáran varð til þess að Skálholtsskóli var lagður niður og fluttur til Reykjavíkur, þar sem hann tók aftur til starfa 1786, nú undir nafninu Hólavallaskóli. Sextán árum síðar, árið 1802, var Hólaskóli einnig lagður niður og  sameinaður Hólavallaskóla. Af ýmsum ástæðum var aðstaðan til náms og kennslu í þessum alræmda skóla algjörlega óviðunandi og 1805 var ákveðið að leggja hann niður og stofna nýjan skóla á Bessastöðum. Á tímabilinu 1805 til 1846 var Bessastaðaskóli svo æðsta og jafnframt eina menntastofnunin á landinu.

Brynjólfskirkja í Skálholti og nálæg hús séð frá norðri árið 1772. Skálholtsskóli var sunnan kirkjunnar og sést því ekki á myndinni. Málverk eftir John Clevely Jr.

Allir þessir skólar stefndu fyrst og fremst að því að mennta menn til prests, en námið gagnaðist einnig sem undirbúningur fyrir frekara nám við Háskólann í Kaupmannahöfn. Engar raungreinar voru þó kenndar þar formlega og brýnustu undirstöðuatriði talnareiknings aðeins með höppum og glöppum. Það var ekki fyrr  en Björn Gunnlaugsson varð kennari við Bessastaðaskóla, árið 1822, sem stærðfræði (talnareikningur og rúmfræði) var formlega gerð að námsgrein í íslenskum skóla.

Þegar Bessastaðaskóli var fluttur til Reykjavíkur haustið 1846, var Björn Gunnlaugsson enn í fullu fjöri og það var hann, sem tók að sér kennsluna í eðlisfræði og stjörnufræði, auk stærðfræðinnar. Hann varð þannig fyrsti eiginlegi kennarinn í þessum fræðum á Íslandi. Um þau tímamót er nánar fjallað í eftirfarandi heimildum

Málverk Jóns Helgasonar af  Dómkirkjunni, Reykjavíkurskóla og umhverfi um 1850. Skólinn tók til starfa haustið 1846 og þar hófst í fyrsta sinn á Íslandi formleg kennsla í eðlisfræði (1846) og stjörnufræði (1853?). Sjá nánar hér. Sérstök áhersla var þó ekki lögð á þessar greinar fyrr en með stofnun stærðfræðideildarinnar haustið 1919.

Þess má geta hér, að fyrsti vísir að háskólanámi hérlendis hófst með stofnun Prestaskólans árið 1847. Læknaskólinn var svo stofnaður 1876 og Lagaskólinn 1908. Þessir embættismannaskólar voru að lokum sameinaðir undir hatti Háskóla Íslands árið 1911. Eins og minnst var á í inngangi hófst fyrrihlutanám í verkfræði þó ekki við skólann fyrr en 1940 og eiginlegt BS-nám í raunvísindum ekki fyrr en 1970. Allt frá siðaskiptum og vel fram eftir tuttugustu öldinni sóttu Íslendingar því þekkingu sína í raunvísindum til Kaupmannahafnar. Hafnarháskóli var þar í aðalhlutverki frá upphafi, en árið 1829 kom Fjöllistaskólinn einnig til sögunnar.

 

Hafnarháskóli

Raunvísindi upplýsingartímans tóku  að berast til Danmerkur fyrir alvöru um miðja 18. öld, nánar tiltekið 1753, þegar C. G. Kratzenstein var ráðinn prófessor í náttúruspeki (eðlisfræði og efnafræði) við Hafnarháskóla. Rúmum áratug fyrr hafði Hið konunglega danska vísindafélag reyndar verið stofnað fyrir áhrif frá upplýsingunni, en það var fyrst og fremst með Kratzenstein, sem nýir vindar tóku að blása í raunvísindum.

Fljótlega eftir komuna til Kaupmannhafnar gaf Kratzenstein út áhrifamikla kennsluók á latínu, Systema physicae experimentalis. Upp úr henni skrifaði hann síðar einfaldara yfirlitsrit á þýsku, Vorlesungen über die experimental Physik, sem kom í mörgum útgáfum á seinni hluta átjándu aldar og að lokum í danskri þýðingu árið 1791.

Kratzenstein fjallaði stuttlega um aflfræði Newtons í seinni útgáfum bókarinnar, en hann var jafnframt undir talsverðum áhrifum frá Descartes og hinni gömlu efnafræði (eldefniskenningunni). Það var fyrst og fremst stjörnufræðiprófessorinn T. Bugge, sem innleiddi hugmyndafræði Newtons í kennsluna, fyrst í stjörnufræðina 1777 og síðar í eðlisfræðina, sem hann kenndi að Kratzenstein látnum til 1806.

Eins og ítarlega er fjallað um í sérstakri færslu, sá H. C. Örsted um eðlisfræðikennsluna við Hafnarháskóla frá 1806 og við Fjöllistaskólann frá 1829. Þar innleiddi hann hugmyndafræði rómantísku náttúruspekinnar og Newton og hans fræðum var á vissan hátt ýtt til hliðar. Lærisveinn Örsteds,  C. V. Holten, sem tók við af honum árið 1851, hélt sig við svipaða stefnu í kennslunni og það var ekki fyrr en þeir C. Christiansen og P. K. Prytz tóku við eðlisfræðinni á áttunda  og níunda áratugnum, sem kennsla og rannsóknir í greininni færðust í nútímalegra horf í Danmörku.

C. Horrebow varð forstöðumaður stjörnuathugunarstöðvarinnar í Sívalaturni og prófessor í stjörnufræði við Háskólann árið 1753. Hann var dyggur fylgismaður Descartes og aðhylltist því sólmiðjukenninguna. Fyrirlestrar hans byggðust á eigin kennslubók frá 1762, Elementa astronomiae sphaericae in usum praelectionum conscripta (2. útgáfa, 1783).  Það vekur athygli, að í bókinni er aðeins minnst á Newton á einum stað og þá í tengslum við lögun jarðar.

Þeir Kratzenstein og Horrebow höfðu veruleg áhrif á ýmsa námsmenn, sem komu við sögu raunvísinda á Íslandi á upplýsingartímanum: Kratzenstein á þá Eggert Ólafsson, Bjarna Pálsson, Hannes Finnsson, Magnús Stephensen og Svein Pálsson - Horrebow á  Hannes Finnsson, Eyjólf Jónsson, Rasmus Lievog og að einhverju leyti á Stefán Björnsson (skv. rithöfundatali Ehrencron-Müllers (IV, bls. 150) var Stefán til dæmis andmælandi við eina af dispútatíum Horrebows um stjörnufræði).

Bugge tók við stjörnufræðinni af Horrebow árið 1777.  Eins og áður sagði, innleiddi hann eðlisfræði Newtons í kennsluna við Hafnarháskóla strax í upphafi ferilsins, en bók hans um stjörnufræði, sem byggð var á fyrirlestrum hans við skólann, De første Grunde til den sphæriske og theoretiske Astronomie, samt den mathematiske Geographie, kom ekki út fyrr en 1796. Þeir voru þó nokkrir, íslensku upplýsingarmennirnir, sem lærðu sína stjörnufræði hjá Bugge og  notuðu bók hans síðar til uppflettinga.

Það var svo aðalkennari Björns Gunnlaugssonar, H. C. Schumacher, sem tók við af Bugge árið 1815. Hann dvaldist þó löngum í Altona og í hans stað sáu þeir E. G. F. Thune og C. F. R. Olufsen að mestu um kennsluna í stjörnufræði.

Á þessari mynd frá 1845-50 gnæfir Sívaliturn yfir stúdentagarðinn Regensen. Á 19. öld bjuggu að meðaltali 4 til 5 íslenskir stúdentar á garðinum árlega. Linditréð til hægri var gróðursett 1785, um það leyti sem sagan, sem rakin er í þessum greinaflokki, hefst. Hin fræga stjörnuathuganastöð á þaki Sívalaturns, sem tók til starfa 1642, var lögð  niður 1861 og starfsemin flutt í þá nýbyggðan stjörnuturn við Östervold.

Olufsen var starfandi (extraordinær) prófessor í stjörnufræði við Hafnarháskóla frá 1832 og jafnframt forstöðumaður stjörnuathugunarstöðvarinnar í Sívalaturni. Þegar Schumacher lést 1850, var Olufsen fastráðinn, en dó sjálfur fimm árum síðar. Hans þektasta verk eru töflur, byggðar á nákvæmum útreikningum á göngu sólar. Íslendingar  þekkja hann þó fyrst og fremst fyrir það, að hann reiknaði íslenska almanakið frá upphafi, 1837, til dauðadags.

Að Olufsen látnum, tók Þjóverjinn H. L. d'Arrest við sem prófessor í stjörnufræði í Kaupmannahöfn. Hann var framúrskarandi stjörnufræðingur og er nú einna þekktastur fyrir að finna reikistjörnuna Neptúnus árið 1846. Það afrek vann hann í Berlín ásamt samstarfsmanni sínum, J. G. Galle, eftir ábendingar frá hinum fræga U. Le Verrier.

Þau tímamót urðu á starfsárum d'Arrest í Kaupmannahöfn, að 1861 var tekin í notkun ný stjörnuathugunarstöð við Östervold, sem þá var í útjaðri borgarinnar.  Þar var fyrsti forstöðumaðurinn H. C. F. C. Schjellerup, en hann tók meðal annars við af Olufsen sem reiknimeistari íslenska almanaksins frá 1858 til 1888.

Stjörnuathunarstöðin á Östervold, sem tekin var í notkun árið 1861. Þarna fékk Steinþór Sigurðsson stjörnufræðingur þjálfun hjá kennara sínum, prófessor Elis Strömgren, á þriðja áratug tuttugustu aldar.  Teikning: Illustreret Tidende.

 

Alþýðurit á íslensku

Þá er loksins komið að því að líta nánar á fyrstu íslensku fræðsluritin um þau fræði, sem eru viðfangsefni þessara pistla. Hér fyrir neðan er skrá yfir flest, ef ekki öll slík rit, sem komu á prenti á árunum 1780 til 1870 (skrána má einnig finna hér.). Verkin  fjalla annaðhvort um hina vísindalegu heimsmynd, eða taka fyrir þætti, sem líta má á sem hluta af hefðbundinni stjarneðlisfræði. Þar er því hvorki að finna almanök né rímbækur. Ekki heldur skýrslur um mælingar af því tagi, sem Rasmus Lievog stundaði í Lambhúsum í upphafi tímabilsins, eða rit um staðarákvarðanir, strandmælingar og landmælingar.

Lesendum til þæginda eru settir tenglar í öll verkin í skránni og áhugasamir eru eindregið hvattir til að kynna sér að minnsta kosti einhver þeirra. Þau eru flest mun áhugaverðari en margir kynnu að halda.

Í þessum pistlum verður hvorki  rætt um efni ritanna, né almennt um  þau þekkingaratriði, sem þar koma við sögu. Í staðinn verður lögð sérstök áhersla á að fjalla um þætti, sem að mati færsluhöfundar  skipta mestu máli hverju sinni. Á tímabilinu 1780 til 1870 er það einkum tvennt, sem stendur upp úr: Annars vegar umfjöllunin um þyngdarlögmálið og notkun þess til að útskýra ýmis fyrirbæri  á jörðu sem á himni. Hins vegar nýjar hugmyndir um gerð og þróun alheimsins og athuganir þeim tengdar.  Fyrra atriðið verður tekið nánar fyrir í færslum 2b og 2c og hið síðara í færslu 2d.  -  En hér kemur skráin:

Alþýðurit um stjarneðlisfræði og heimsfræði 1780-1870:

  1. A. F. Büsching, 1782: Um himininn og Um jørdina. Fyrstu tveir kaflarnir í Undirvisan í Náttúruhistoriunni fyrir þá, sem annathvert alz eckert edr lítit vita af henni. Guðmundur Þorgrímsson þýddi. Rit þess Islenzka Lærdóms-Lista Felags, Annat Bindini, bls. 232-244.
  2. Magnús Stephensen, 1783: Um meteora, edr Vedráttufar, Loptsjónir og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi. Rit þess Islenzka Lærdóms-Lista Felags, Þridja Bindini, bls. 122-192.
  3. Hannes Finnsson, 1797: Um hala-stjørnur. Qvøld-vøkurnar 1794 -  Sidari Parturinn, bls. 45-58.
  4. Magnús Stephensen, 1797: Alstyrndi Himininn og  Vorir Sólheimar. Skémtileg Vina-Gledi í fróðlegum Samrædum og Liódmælum, I. Bindinni, bls. 28-69.
  5. P. F. Suhm, 1798: Heimsins Bygging. Fyrri hluti ritsins Sá gudlega þenkjandi Náttúru-skoðari, þad er Hugleiding yfir Byggíngu Heimsins, edur Handaverk Guds á Himni og Jørðu. Asamt annari Hugleidingu um Dygdina, Bls. 1-140  (stjörnufræðin  er á bls. 95-123). Þýðandi Jón Jónsson, sem jafnframt samdi neðanmálsgreinar.
  6. Gunnlaugur Oddsson, Grímur Jónsson og Þórður Sveinbjörnsson, 1821:  Almenn landaskipunarfrædi. Fyrri partrinn, bls. 3 - 77.
  7. Björn Gunnlaugsson, 1828: Nockrar einfaldar Reglur til að útreikna Túnglsins Gáng. Solemnia scholastica ad celebrandum diem XXVIII Januarii MDCCCXXVIII regi norstro augustissimo Frederico Sexto natalem habenda die III Februarii MDCCCXXVIII hocce libello indicunt Scholæ Bessastadensis magistri.
  8. Jónas Hallgrímsson, 1835: Um eðli og uppruna jarðarinnar. Fjölnir, 1, bls. 99-136.
  9. Björn Gunnlaugsson, 1836: Tøblur yfir Sólaruppkomu, Sólarlag, Dögun og Dagsetur fyrir þrjá Islands jafnfarabauga: vid  64o  65o  66o  og Sjóndeildarhringsins Geislabrot 32'50". Skóla-hátíd í Minníngu Fædíngardags vors allranádugasta Konúngs Fridriks Sjøtta, þann 28. Janúaríí 1836, er haldin verdur þann 31ta Janúaríí 1836, bodud af Kénnurum Bessastada Skóla.
  10. Björn Gunnlaugsson, 1842: Njóla, edur audveld skodun himinsins, med þar af fljótandi hugleidíngum um hátign Guds og alheims áformid, eda hans tilgáng med heiminn. Bodsrit til ad hlusta á Þá opinberu yfirheyrslu í Bessastada Skóla þann 23-28 Maji 1842, bls. 5-105. Ljóðið kom út aftur 1853 örlítið breytt og í þriðja sinn 1884.
  11. G. F. Ursin, 1842: Stjörnufrædi, ljett og handa alþídu. Þýðing Jónasar Hallgrímssonar á bókinni Populært Foredrag over Astronomien frá 1838. Sjá einnig grein Bjarna Vilhjálmssonar, 1944: Nýyrði í Stjörnufræði Ursins.
  12. C. A. Schumacher, 1843: Um flóð og fjöru. Fjölnir, 6, bls. 44-54. Þýðandi Jónas Hallgrímsson, sem jafnframt samdi síðasta hluta greinarinnar.
  13. Björn Gunnlaugsson, 1845-46:  Leiðarvísir til að þekkja stjörnur. Fyrri parturinn. Sidari parturinn. Bodsrit [...] Bessastadaskóla [...] 1845 (bls. 1-68) og 1846 (bls. 1-99).
  14. Björn Gunnlaugsson, 1849: Um þýngd reikistjarnanna (pláneta). Reykjavíkurpósturinn, 3, Nr. 4, bls. 62-65.
  15. J. G. Fischer, 1852: Eðlisfræði. Þýðandi Magnús Grímsson. Sjá nánari umfjöllun í þessari færslu.
  16. Jón Thorlacíus, 1855: Stundatal eptir stjörnum og tungli. Sjá umsögn Björns Gunnlaugssonar um verkið í Þjóðólfi 1858.
  17. Björn Gunnlaugsson, 1858: Halastjarnan 1858. Sjá einnig hér.
  18. Páll Sveinsson, 1860: Alheimurinn. Ný sumargjöf, 2, bls. 90-100.

Íslenskt baðstofulíf á nítjándu öld. Teikningin er sennilega eftir danska listamanninn A. Schiøtt og frá árinu 1861. Ég get vel ímyndað mér, að ungi maðurinn á myndinni sé annaðhvort að glugga í Stjörnufræði Ursins eða Njólu Björns Gunnlaugssonar.

Áður en lengra er haldið og farið að ræða um áhrif Newtons og lærisveina hans á þróun stjarnvísinda, er við hæfi að fara nokkrum orðum um sólmiðjukenninginguna og hvernig fjallað var um hana í fyrstu íslensku fræðsluritunum. Jafnframt verður minnst á nokkur önnur atriði, sem lítil áhersla verður lögð á í síðari færslum.

Eftir því, sem ég veit best, var fyrst minnst á  sólmiðjuheiminn á prenti í upphafi  bókar Büschings um Náttúruhistoríuna frá 1782 (sjá ritaskrána). Þar segir meðal annars á bls. 238-39:

Bæði jörðin og túnglit eru medal [...] Pláneta; þiggja allar þessar siö ad tölu hita og birtu af sólunni. Þess er eigi getit í heilagri ritningu hvört jörd gángi um kríng sólu, edr sól um kríng jördu, hún er eigi helldr ritut til ad fræda menn á þessháttar vísindum; og þótt hún á ymsum stödum greini nockut þarum, er þat ætid eptir mannligu áliti med almennum talsháttum framsett.

Á því er einginn efi, at Pláneturnar Saturnus, Jupiter, Mars, Venus og Mercurius hlaupa í stórum hríng umhverfis sólina. Þat er og trúligt at jördin og túnglit gángi um kríng hana, og at hún sé í midju þeirra allra.

Síðar (á bls. 240) kemur jafnframt fram, að „jarðarhnötturinn snýst um kríng sjálfan sig, sem hann léki á ási, á 24 kluckustundum.“ Sem kunnugt er, var þetta mikilvægt atriði í kenningu Kóperníkusar.

Íslenska þýðingin á bók Büschings er byggð á danskri þýðingu frá 1778, sem aftur er byggð á þýsku frumútgáfunni frá 1776. Það vekur nokkra athygli nútímannsins, hversu varlega höfundurinn talar um sólmiðjuhugmyndina. En eins og  nánar er fjallað um hér að neðan, gefur þessi framsetning fyrst og fremst hugmynd um tíðarandann í lok átjándu aldar.  -  Á textanum má einnig sjá, að ekki  hefur gefist tími til að koma upplýsingum um  fund Úranusar (árið 1781) inn í íslensku þýðinguna.

Í ritgerðum Magnúsar Stephensen frá 1797 er sólmiðjukenningin einnig til umræðu. Eftir fjörugar rökræður um jarðmiðjuhugmyndina í Alstirnda himninum segir á bls. 40:

Hin meiningin um jardarinnar gáng og kyrrd sólar er nú ekki einúngis af lærdum mönnum vídast um heiminn vidtekin, eins af mestu gudfrædismönnum, heldur og stadfesta hana árlega allra stjörnuvísra athugasemdir og reikníngar [...] svo ecki hallar drycklángri stundu, hvad annars mundi torsótt edur ómögulegt.

og í Vorum sólheimum segir Magnús á bls. 56-57:

Sólin uppljómar auk túngls og halastjarna 7 heima edur himinhnetti, er kallast plánetur og gánga allar kríngum hana í aflaungum hríngum, hvör fyrir utan adra. [...] Vor jörd [gengur í] kríngum sólina í 365¼ dags, sem giörir vort ár."

og á bls. 59:

Þó ecki séu nú fleiri plánetur vorra Sólheima enn fundnar, hafa þó stjörnufróðir mikla trú um að þær muni enn fleiri vera, þar á mót hafa þeir fundid ýmisleg túngl.

Þarna kemur meðal annars fram, að Magnús veit að brautir reikistjarnanna eru aflangir hringir og að halastjörnur eru hluti af sólkerfinu. Sem kunnugt er má  rekja fyrri niðurstöðuna til Keplers og hina síðari til Newtons. Svipaðar, en heldur nákvæmari, upplýsingar er að finna í hugvekju Hannesar Finnssonar, Um halastjörnur, frá 1797.

Það vekur athygli, að hvorki Hannes né Magnús, hvað þá Büsching, nefna þá Kepler og Newton á nafn, né heldur geta höfundarnir heimilda. Þó má sjá af  blöðum, sem varðveist hafa frá Kaupmannahafnarárum Íslendinganna, að fjallað var þessa merku náttúruspekinga og verk þeirra í kennslunni, bæði hjá Horrebow (sjá Lbs. 99, 8vo, frá um 1760) og Bugge (sjá Lbs. 592, 4to, frá 1783).

Höfundarnir hafa væntanlega stuðst við eina eða fleiri kennslubækur, sem og önnur fræðslurit, við skriftirnar, eins og almennt tíðkast við samningu alþýðurita um raunvísindi. Ítarlegra heimilda er sjaldan getið í slíkum ritum, enda fjalla þau yfirleitt um hugmyndir og athuganir, sem eru þegar vel þekktar meðal fræðimanna.  Skemmtileg undantekning frá reglunni, eru hinar merku neðanmálsgreinar  Jóns Jónssonar við þýðinguna á ritgerðum Suhms. Þar gætir Jón þess vandlega að geta ávallt heimilda, máli sínu til stuðnings.

En áfram með umfjöllunina um sólmiðjukenninguna. Í Náttúruskoðara frá 1798 (danska frumgerðin er frá 1763), segir á bls. 95-98:

Sólin er midt í vorum Sólveraldakransi, og hefur allt um kríng sig þessar 6 plánetur edur reikandi stjörnur, er svo heita: Mercúríus, Venus, Mars, Jördin vor med sinni einu fylgistjörnu Tunglinu, Júpíter med sínum fjórum fylgistjörnum og Satúrnus með sínum fimm.* Sjálf stendur hún kyrr í miðju þeirra, ad fráteknu því, ad hún veltist um kríng sjálfa sig, sem á ási léki, og dregur hinar adrar med sér í hríng í kríngum sig, hvörjar og þar ad auki veltast um á leidinni, og sú hin fyrri hræring þeirra gjörir árid hjá þeim, en sú sídari dag og nótt; og á sama hátt draga þær aptur sínar fylgistjörnur med sér og kríngum sig. Rafkrapturinn virdist ad vera nærsta hæfilegur ad útmála þetta.

[*Neðanmálsgrein Jóns: Fyrir utan hér taldar 6 höfuðplánetur, sem gánga kríngum vora sólu, fann Herschel árið 1781 þá sjöundu plánetu, sem Stjörnumeistarar nefna Uran, hvör ed hefir einúngis tvær fylgistjörnur edur túngl, sem enn er vart vid ordid.]

Þetta er hin sæmilegasta lýsing á sólkerfinu og sólmiðjukenningunni, auk þess sem þarna kemur fram hugmynd um rafkraftinn sem hreyfiafl í sólkerfinu. Mér er ekki kunnugt um, að áður hafi verið ýjað að því á prenti á íslensku, að útskýra megi hreyfingu reikistjarnanna um sólina með því, að möndulsnúningur sólar dragi þær með sér. Þessa hugmynd, sem rekja má allar götur til Descartes (og Keplers á undan honum) tekur Jón ítarlega fyrir í fróðlegri neðanmálsgrein á bls. 96-98. Nánari umfjöllun um hana verður þó að bíða færslna  2b og 2c, en þar verður rætt um áhrif þyngdarinnar í sólkerfinu.

 

Náttúruguðfræði og byggð á himintunglum

Ekki þarf að lesa lengi í fyrrnefndum alþýðuritunum til að átta sig á stöðugri nærveru hins almáttuga Guðs í heimi höfundanna.  Á þessum tíma var Guð kristinna manna mikilvægur hluti af daglegu lífi Vesturlandabúa - þar var hann yfir og allt um kring og því órjúfanlegur hluti af heimsmyndinni.

Í þessum greinaflokki verður að mestu horft fram hjá þeirri samtvinnun trúar og vísinda, sem var svo mikilvæg í menningu Vesturlanda allt fram á seinni hluta nítjándu aldar og í sumum tilvikum langt fram á þá tuttugustu. Það er ekki vegna áhugaleysis, heldur fyrst og fremst af þeim sökum, að litlar rannsóknir hafa enn farið fram hér á landi á þessu umfangsmikla og flókna viðfangsefni. Eftir því sem best verður séð, er þarna kjörinn vettvangur fyrir fleiri en eina meistararitgerð, ef ekki doktorsritgerðir við íslenska háskóla.

Hér verður því látið nægja að birta nokkrar tilvitnanir í ritin á listanum að framan. Umfjöllunin um veröldina, sérstaklega í elstu ritunum, fellur þar víðast hvar undir svokallaða náttúruguðfræði. Jón Jónsson lýsir þessu viðhorfi ágætlega í inngangsorðum að þýðingu sinni á Náttúruskoðara Suhms á bls. vii-viii:

Því hvört er efni og adalaugnamid sannkalladrar Heimsspeki annad enn med sannfærandi röksemdum, byggdum first og fremst á ótáldrægri ransókn náttúrunnar, og því nærst á skynseminar egin, þar út af dregnum ályktunum, ad sýna, hvörsu þad hlýtur að vera, ein almáttug, alvitur og algód Vera, sem skapad, nidurradad og áquardad hafi öllum hlutum, smáum og stórum í því ofur vídlenda ríki náttúrunnar?

Í megintexta bókarinnar segir Suhm á bls. 3:

Þad er þess vegna óraskanlegur sannleikur, ad þess meiri þeckingu, sem hvörr einn hefir á náttúrufrædinni, því stærri faung hefir hann á ad þeckja Guds dírdlegu eginlegleika.

Líta má á svokallaða tilgangsspeki eða markhyggju, sem stundum er einnig kennd við skipulagsrök, sem hluta af náttúruguðfræði. Dæmi um slíka speki er að finna í inngangi að Eðlisfræði Fischers. Þar segir á bls. 5:

Enginn getur skoðað hina dásamlegu smíð á auga mannsins, né athugað þau allsherjarlög, sem allt hið skapaða er bundið, og sem allir hnettir hlýða og renna eptir um alla eilífð, og reglu þá og skipulag, sem þar birtist hvervetna í, án þess að hrífast af lotningu fyrir honum, sem er upphaf og stjórnari alls þessa, sem var, er og verður, sem hið mikla sálmaskáld fer þessum orðum um: himnarnir segja frá dýrð hans, og hin útþanda festíng sýnir hans handaverk.

Og í skýringum Björns Gunnlaugssonar við Njólu má finna þessi fleygu orð:

Sú mikla himinsins byggíng bodar einhvörja stóra fyrirætlan. En í öllu, sem vér sjáum á himni og jördu, er lífid það ædsta, og allt er þessvegna gjört, og þad er adaltilgangur alls hins sýnilega heims [...] Þannig væri þá heimurinn einskisvirdi, ef ekki væri lífid, þá flýtur þar af, að þad er Guds adalverk, og þetta hans adalverk verdur eilíft að vera.

Björn Gunnlaugsson, sjötíu og eins árs 1859. Hann var ekki aðeins fremsti stærðfræðingur, stjörnu-fræðingur og eðlisfræðingur Íslendinga um sína daga, heldur áhrifamikill náttúruguðfræðingur. Teikningin er eftir Sigurð Guðmundsson.

Næst á eftir Biblíunni, var Njóla sennilega eitt víðlesnasta rit á Íslandi um og upp úr miðri 19. öld. Hér má sjá forsíðu 3. útgáfunnar frá 1884. Verkið kom fyrst á prenti 1842 og aftur örlítið breytt 1853. Sjá nánar hér.

Vangaveltur um líf á öðrum hnöttum, og þá sér í lagi vitsmunalíf, virðist hafa fylgt mannkyninu í árþúsundir. Menn hafa þó yfirleitt skiptst í tvær fylkingar, með og á móti. Til dæmis voru  atómhyggjumenn eins og Levkippos (5. öld f.o.t.),  Demókrítos (4. öld f.o.t.) og Lukretíus (1. öld f.o.t.) fylgjandi hugmyndinni, en frumkristnir söfnuðir henni andsnúnir, einkum vegna áhrifa frá Platóni (5.-4. öld f.o.t.) og Aristótelesi (4. öld f.o.t.).

Á síðmiðöldum var efnið talsvert til umræðu meðal kristinna lærdómsmanna, en það var þó ekki fyrr en sólmiðjukenningin tók að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum á sautjándu öld, sem hugmyndin um byggð á himinhnöttum fékk byr undir báða vængi meðal lærðra sem  leikra. Sú bók, sem sennilega hafði þar mest áhrif, var bók Fontenelles,  Entretiens sur la pluralité des mondes, sem kom fyrst úr 1686 og rætt var um í myndatexta í inngangi.

Eins og flest annað á þessum tíma, bárust hugmyndir um stjörnubúa hingað til lands í gegnum Kaupmannahöfn. Strax í fyrsta prentaða alþýðuritinu um raunvísindi, Náttúruhistoríu Büschings, segir eftir stutta umfjöllun um tunglsljósið á bls. 243:

Jördin endrgeldr ríkuliga túnglinu sína þjónkan, er hún sýniz mánabúum fiórtán sinnum stærri en tunglit sýniz oss, og kastar á þat þeim mun meira liósi.

En það er fyrst og fremst Magnús Stephensen, sem upphaflega tekur að sér að prédika þennan boðskap:

Allir hnettir og eins siálf sólin og halastiörnur eru því fullar af ýmislegum lifandi sképnum, en líklega miög svo ólíkum oss og vorrar jardar sképnum, eptir þeirra bústada ólíku edli. […] Hvad [Gud] lætur í náttúrunni lióma fyrir augum þeirra skynsömu sképna sinna, á ad minna þær á ad prísa án afláts þessa hátign, ad audmýkia sig fyrir henni, ad hlýdnast henni, ad elska hana fram yfir allt.  (Alstirndi himininn, bls. 50.)

Líf á tunglinu

Þessi mynd birtist í bandaríska dagblaðinu The Sun árið 1835. Hún á að sýna lífið á tunglinu.

Fullvissan um vitsmunalíf á öðrum himintunglum er á þessum tíma óhjákvæmilega tengd náttúruguðfræði. Eða eins og Suhm segir í Náttúruskoðara, bls. 116-117:

Guds eiginleikar eru öldungis fullkomnir, og án alls enda: þeir, sem þá neita því ad þar séu til sképnur, já skynjandi sképnur í öllum reykandi stjörnum þeckia annadhvört ecki Guds eiginnlegleika, og syndga því af fávitsku edur, ef þeir þeckja þá, eru þeir í hærsta máta sekir um spott Guds hátignar.

Og á bls. 122:

Allar þessar föstu stjörnur hljóta án mótmæla sólir ad vera, sem hafa ljós sitt af sjálfum sér, því annars kynnu þær í þvílíkri fjarlægd ei af oss sjenar ad verda; og af því þær geta ei til ónýtis skapadar verid, hljóta þær efunarlaust, ein og sérhvör, ad hafa plánetur um kríng sig.

Björn Gunnlaugsson er sama sinnis og Suhm í þessu efni og í einum af síðustu köflum Njólu, sem kallast  „Byggð í stjörnum“ (bls. 94-96), eru þessi erindi:

Hvad oss stoda stjörnur þær,
er standa svo lángt burtu,
ad augna sjónin ei þeim nær,
og þó lýsa þurftu?

...

Víst á þessi fagri fans
fyrir sképnum lýsa,
skæra' er mildi Skaparans
skulu med oss prísa.

Lýsa mun því sérhvör sól
sínum plánetunum,
hvar líf-skarar breitin ból
byggja' á upphverfunum.

...

Stjörnubúar þessir þar
þannig sig til reidi
undir kjörin eilífdar,
á lífs tíma skeiði.

Í lokin er rétt að vitna í einn af stjörnufræðingum þessa tíma, sem ekki er jafn sannfærður og framangreindir höfundar um tilvist vitsmunalífs utan jarðarinnar. Ekki er ólíklegt, að flestir nútíma stjarnvísindamenn gætu tekið undir með Georg Frederik Ursin, þegar hann segir í Stjörnufræði sinni á bls. 13-14:

Þegar vjer loksins rædum  um þad, hvurt  himintúnglin munu biggd vera, þá höfum vjer ekkjert þad sjed, er vjer  fáum rádid þad af. En vjer trúum því og trú vor um þetta efni er risin med öllu af ödrum ástædum, enn þeim, er leida oss  til sanninda stjörnufrædinnar. Og nú gjetid þjer sjálfir metid gildi þess, er  vjer  höfum heirt rædt um himintúnglabúa, til ad minda mánamenn, og störf þeirra og allar athafnir. Ekkjert af slíku hefir nokkur madur sjed í túngli voru, og er þad þó láng næst oss allra himintúngla.  [...]  Jeg lasta á aungvan hátt vidburdi annara manna, ad komast ad raun um  allt slíkt  [...] enn illt  er til hins ad  vita, ad margur sá er gjekk ad því starfi, var um of bundinn vid ímindanir þær og eptirvæntingar, er hann var búinn ad skapa sjer sjálfur firirfram og er þá hætt vid, ad margt þat er þeir sáu hafi hvurgi átt sjer stad nema í huga þeirra.


* Stjarneðlisfræði og heimsfræði á Íslandi: Efnisyfirlit *


 

 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://einar.hi.is/
Þessi færsla var birt undir Átjánda öldin, Eðlisfræði, Nítjánda öld, Stjörnufræði. Bókamerkja beinan tengil.