Um merkisafmæli Stefáns Björnssonar og Gísla Einarssonar á árinu 2021. Ásamt inngangi um yfirborðsbylgjur

Í nóvemberhefti tímaritsins Physics Today er mjög fróðleg grein um yfirborðsbylgjur, sem ég hafði loks tíma til að lesa í gær:

Strax og ég sá titilinn, rifjaðist það upp fyrir mér, að fyrir rúmum 225 árum sendi Stefán Björnsson inn ritgerð(ir) um nákvæmlega þessa spurningu í verðlaunasamkeppni danska Vísindafélagsins. Sú saga er rakin í lok færslu minnar frá 2017: Aflfræði í verkum Stefáns Björnssonar.

Myndir úr handskrifaðri ritgerð Stefáns, sem hann sendi Hinu konunglega danska vísindafélagi á latínu sumarið 1795. Á íslensku hljóðar titillinn svo: Ritgerð, þar sem útskýrt er og sýnt, hvernig ölduhæð og öldubreidd veltur á víddum vatna, sem vindur hrærir.

Þeim sem vilja sökkva sér dýpra í þetta krefjandi viðfangsefni og sögu þess, má benda á eftirfarandi heimildir:

 

Stefán Björnsson (1721-1798)

Þótt eðlisfræðin, sem kemur við sögu hér að framan, sé bæði skemmtileg og mikilvæg, er tilgangur þessarar færslu ekki sá að fjalla frekar um hana sem slíka, heldur að minna menn á, að á þessu ári eru liðnar þrjár aldir frá fæðingu Stefáns Björnssonar reiknimeistara.

Stefán var sá maður íslenskur sem best var að sér í stærðfræðilegum lærdómslistum á átjándu öld. Um hann og verk hans má m.a. lesa hér:

 

Gísli Einarsson (1621-1688)

En það eru fleiri en Stefán, sem eiga merkisafmæli. Það á til dæmis við um Gísla Einarsson skólameistara í Skálholti og síðar prest á Helgafelli, en á þessu ári eru liðnar fjórar aldir frá fæðingu hans. Gísli mun hafa verið eini Íslendingurinn, sem lagði sérstaka stund á stærðfræðilegar lærdómslistir á sautjándu öld, og í framhaldi af því varð hann fyrsti konungsskipaði kennarinn í reikningi, rúmfræði og stjörnufræði  hér á landi.

Frekari upplýsingar um Gísla Einarsson má finna hér:

 


 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.