Íslendingar sem birt hafa rit um sögu raunvísinda - Drög

Athugið að skráin er ekki tæmandi - Færsluhöfundur þiggur með þökkum allar athugasemdir sem og ábendingar um viðbætur.

Með tíð og tíma er skránni ætlað að ná yfir sem flesta Íslendinga, sem birt hafa ritsmíðar um sögu raunvísinda (þar á meðal stærðfræði), án tillits til þess hvort þær eru frumsamdar, þýddar eða endursagðar. Ekki verður heldur gerður greinarmunur á því, hvort ritin fjalla sérstaklega um sögu raunvísinda á Íslandi eða um vísindasögu almennt.

Mér er fullljóst, að talsverð slagsíða er á skránni. Hallinn er í átt að áhugasviðum mínum, sem eru einkum stjörnufræði, eðlisfræði og stærðfræði. Eflaust vantar því í skrána ýmsa höfunda, sem fjallað hafa um sögu annarra eðlisvísinda sem og lífvísinda. Ég vona, að lesendur hjálpi mér að fylla í eyðurnar með því að senda mér gagnlegar upplýsingar.

Í samantekt sem þessari er útilokað að birta fullnægjandi ritaskrá fyrir allan hópinn, enda eru slíkar skrár yfirleitt ekki auðfundnar (í skránni er þó í sumum tilvikum hægt að nálgast ritaskrár með því að smella á viðeigandi nöfn eða aðra tengla). Hér hef ég því tekið þann kost að nefna aðeins nokkrar helstu vísindasöguritsmíðar viðkomandi höfunda, stundum þó aðeins eina, og í vissum tilvikum enga.

Athugið að skráin er í tveimur hlutum:

      1. Látnir höfundar í aldursröð.
      2. Lifandi höfundar í stafrófsröð.

I


17. og 18. öld

Gísli Einarsson skólameistari í Skálholti og síðar prestur á Helgafelli (1621-1688).

Hann reiknaði árlegt almanak fyrir Kaupmannahöfn árið 1650 og undirbjó prentun þess: Almanach Paa det Aar [...] M.DC.L. Síðasti kaflinn, Continuatio historia om Astromomiæ Begyndelse oc Fremgang, fjallar á frekar einfaldan hátt um sögu stjörnufræðinnar frá tímum Ptólemaíosar fram á daga Týchós Brahe. Kaflinn var sá síðasti af þremur um söguna. Hinir tveir höfðu áður birst í almanökunum 1648 og 1649, sem aðrir en Gísli gáfu út. Mér er því ekki ljóst, hvort kaflinn er skrifaður af Gísla sjálfum, eða einhverjum öðrum. Ekki veit ég heldur við hvaða heimild(ir) höfundurinn studdist, en nefna má, að á 16. og 17. öld var fyrst og fremst fjallað um sögu stjörnufræðinnar í inngangi rita um stjörnufræði og í prentuðum fyrirlestrum lærdómsmanna.


Þorleifur Halldórsson skólameistari á Hólum (1683-1713).

Í latneskri dispútatíu hans frá 1706, De inventione astronomiæ apud Chaldæos (Um uppruna stjörnufræðinnar meðal Kaldea) er tekin fyrir deilan um það, hvort stjörnufræðin sé upprunin meðal Kaldea (Babylóníumanna), Hebrea eða Egifta. Hinn forni spekingur Jósephus (1. öld e.Kr.) hélt því fram, að Seth sonur Adams hefði uppgötvað stjörnufræðina og  þekking hans á stjörnuhimninum hefði verðið skráð á tvær súlur, sem stóðust syndaflóðið.  Samkvæmt Jósepheusi voru það Nói og synir hans, einkum Sem, sem varðveittu þessa þekkingu og hún barst áfram til Kaldea, niðja Sems. Að lokum var það svo Abraham, sem færði Egiftum stjörnufræðina og þaðan barst hún til Forn-Grikkja.

Hugmyndir Jósephusar lifðu enn góðu lífi á endurreisnartímanum. Sem dæmi má nefna, að Týchó Brahe fjallaði um þær í opinberum fyrirlestri, sem hann hélt við Hafnarháskóla árið 1574 (sjá Translation of Tycho Brahe's De disciplinis mathematicis, bls. 315-16).

Umfjöllunin í dispútatíu Þorleifs byggir fyrst og fremst á tilvitnunum í átorítet eins og  Jósephus sjálfan, Lúkretíus (1. öld f.Kr.), Diodoros (1. öld f.Kr.), Ciceró (106-43 f.Kr), Polydore Vergil (1470-1555), Golíus (1596-1667), Horníus (1620-1670) og A. Le Grand (1629-1699), sem og Biblíuna. Niðurstaða hans er sú, að Kaldear hafi fyrstir mótað stjörnufræðina, en hvorki Hebrear né Egiftar. Sjá í þessu sambandi:


Stefán Björnsson reiknimeistari (1721-1798).

Gaf m.a. út Rímbeglu á íslensku og latínu ásamt skýringum árið 1780.


19. öld

Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld (1807-1845).

Í greininni Um eðli og uppruna jarðarinnar (1835) kemur hann inná sögu hugmynda um uppruna og þróun jarðarinnar og sólkerfisins. Hann kynnti einnig sögu stjörnufræðinnar fyrir Íslendingum, því síðasti kaflinn í Stjörnufræði Ursins (bls. 204-218) fjallar um hana.


Benedikt Gröndal fornfræðingur, náttúrufræðingur og skáld (1826-1907).

Síðasti kaflinn í Efnafræði hans (1886) fjallar um sögu greinarinnar (bls. 67-76).


Janus Jónsson prestur (1851-1922).

Skrifaði m.a. greinar um Brúnó (1913) og Kóperníkus (1915).


Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur (1855-1921).

Stórvirki hans Landsfræðissaga Íslands: Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og siðar IIIIII og IV kom út á árunum 1892 til 1904. Ritið er ein mikilvægasta prentaða heimildin um sögu raunvísinda á Íslandi.

Landfræðissagan var gefin út aftur á árunum 2003-2009, nú fallega myndskreytt. Jafnframt fylgdi sérstök lykilbók  (5. bindi) með fróðlegum söguritgerðum eftir Freystein Sigurðsson jarðfræðing, Pál Imsland jarðfræðing, Guðrúnu Ólafsdóttur landfræðing, Leif Á. Símonarson steingervingafræðing, Karl Skírnisson líffræðing, Gunnar Jónsson dýrafræðing og Eyþór Einarsson grasafræðing.


20. og 21. öld

Á fyrri hluta 20. aldar jókst mjög áhugi manna á sögu raunvísinda á Íslandi á miðöldum. Skrár yfir ýmis rit um það efni má finna, ásamt tenglum, á vefsíðunni Stjörnufræði á Íslandi á miðöldum. Sjá einnig í þessu sambandi ritin A World in Fragments: Studies on the Encyclopedic Manuscript GKS 1812 4to (aðalritstj. Gunnar Harðarson; 2021) og Íslensk þjóððmenning VII: Alþýðuvísindi (ritstj. Frosti F. Jóhannsson; 1990).


Ágúst H. Bjarnason heimspekingur (1875-1952).

Skrifaði talsvert um raunvísindi og sögu þeirra, m.a. í ritunum Yfirlit yfir sögu mannsandans I-V (1905 - 1915), Saga mannsandans I-V (1949-1954), Himingeimurinn (1926) og Heimsmynd vísindanna (1931). Meðal þýðinga hans er bókin Kjarnorka á komandi tímum (1947) eftir D. Dietz, þar sem m.a. er fjallað um sögu atómkenningarinnar.


Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur (1876-1961).

Skrifaði m.a. um raunvísindi á miðöldum, þ.á.m. greinarnar Stjörnu-Oddi (1926), Misseristalið og tildrög þess (1928) og Ari fróði og sumaraukareglan (1932). Sjá einnig greinina Frumefnin og frumpartar þeirra (1922).


Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur (1891-1961).

Skrifaði m.a. greinina Frumeindakenning nútímans (1924).


Jón Eyþórsson veðurfræðingur (1895-1968).

Fjallaði talsvert um sögu vísindanna í ýmsum verkum sínum. Þar á meðal eru tvær merkar greinar um Rasmus Lievog stjörnumeistara.


Niels Dungal læknir (1897-1965).

Hann gaf út umdeilda bók, Blekking og þekking, árið 1948. Umfjöllunarefnið var barátta vísinda og kirkju og efnið að hluta byggt á hugmyndafræði sagnfræðingsins A. D. Whites í verkinu A History of the Warfare of Science with Theology in Christendom frá 1896.


Kristín Ólafsdóttir læknir (1889-1971).

Þýddi bókina Frú Curie (1939) eftir Ève Curie.


Steindór Steindórsson náttúrufræðingur (1902-1997).

Skrifaði ýmislegt um sögu náttúruvísinda, m.a. bókina Íslenskir náttúrufræðingar 1600-1900 (1981).


Björn Franzson kennari og blaðamaður (1906-1974).

Meginrit hans er Efnisheimurinn frá 1938. Þar er fjallað um eðlisvísindi og sögu þeirra.


Trausti Einarsson stjörnufræðingur og jarðeðlisfræðingur (1907-1984).

Fjallaði m.a. um sögu heimsmyndarinnar í formála að bókinni Uppruni og eðli alheimsins eftir Fred Hoyle (1951; þýð.: Hjörtur Halldórsson) og í greininni Hugmyndir manna um alheiminn fyrr og nú (1958). Fjallaði einnig um raunvísindi á miðöldum í greinunum Nokkur orð um sumaraukagreinina í Íslendingabók (1961) og Hvernig fann Þorsteinn surtur lengd ársins? (1968) og Nokkur atriði varðandi fund Íslands, siglingar og landnám (1970).


Hjörtur Halldórsson kennari, rithöfundur og áhugamaður um raunvísindi (1908-1977).

Þýddi eða endursagði ýmis rit um raunvísindi, sem mörg hver voru með sögulegu ívafi, t.d. Þættir úr ævisögu jarðar (1954) og Vísindamaðurinn (1966).


Haraldur Sigurðsson bókavörður (1908-1995).

Þekktasta verk hans er Kortasaga Íslands (tvö  bindi, 1971 og 1978).


Guðmundur Arnlaugsson stærðfræðingur (1913-1996).

Eftir hann liggur ýmislegt sagnfræðilegs eðlis um stærðfræði og stærðfræðimenntun. Einnig söguleg grein um þyngdina. Bókin Stærðfræðingurinn Ólafur Dan Daníelsson: Saga brautryðjanda (1996) er eftir hann og Sigurð Helgason stærðfræðing.


Ólafur Björnsson læknir (1915-1968).

Þýddi bókina Á morgni atómaldar (1947) eftir sænska eðlisfræðinginn Helge Tyrén og skrifaði inngang.


Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur (1917-1988).

Skrifaði nokkrar greinar um sögu eðlisfræðinnar.

Í ritinu Í hlutarins eðli - Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor (ritstj. Þorsteinn I. Sigfússon, 1987) eru margar fróðlegar greinar um sögu rannsókna í nútíma eðlisvísindum, m.a. eftir Pál Theodórsson, Magnús Magnússon, Þorstein Vilhjálmsson,  Örn Helgason, Leó Kristjánsson, Braga Árnason, Guðmund Pálmason, Pál Einarsson, Sveinbjörn Björnsson, Helga Björnsson, Guðmund E. Sigvaldason, Einar Júlíusson, Guðna Sigurðsson og Jakob Yngvason.


Jón Jónsson fiskifræðingur (1919-2010)

Meðal rita hans er Hafrannsóknir við Ísland I og II (1988, 1990).


Unnsteinn Stefánsson haffræðingur (1922-2004)

Skrifaði m.a. um sögu hafrannsókna. Sjá t.d. bókina Hafið (1999; bls. 368-372).


Páll Theodórsson eðlisfræðingur (1928-2018).

Skrifaði heilmikið um sögu vísinda, ekki síst um sögu rannsókna við Eðlisfræðistofnun Háskólans og eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar (sjá ritaskrá Páls).


Þorleifur Einarsson jarðfræðingur (1931-1999).

Sjá m.a. ingang um sögu jarðfræðirannsókna í bók hans, Jarðfræði, frá 1968.


Ottó J. Björnsson stærðfræðingur (1934-2016).

Skrifaði ýmislegt um sögu stærðfræðinnar og gaf m.a. út tvo bæklinga um spekinginn Björn Gunnlaugsson og verk hans (1990 og 1997). Einnig bæklingana Úr sögu stærðfræðinnar (1983) og Um reglu Herons (1991).


Svend-Aage Malmberg haffræðingur (1935-2014)

Skrifaði m.a. greinina Haffræði og upphaf hafrannsókna við Ísland (2003).


Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur (1943-2020).

Skrifaði heilmikið um sögu raunvísinda, einkum jarðvísinda og eðlisfræði. Sjá heimasíðu á Vefsafn.is. Bókin Silfurberg kom út að honum látnum, árið 2020.


II


Andri S. Björnsson sálfræðingur.

Höfundur bókarinnar Vísindabyltingin (2004).


Einar H. Guðmundsson stjarneðlisfræðingur.

Hefur m.a. fengist við sögu raunvísinda á Íslandi. Sjá skrána Saga stjörnufræði og eðlisfræði á Íslandi frá miðöldum fram á tuttugustu og fyrstu öld - Nokkur rit eftir Einar H. Guðmundsson.


Guðmundur Eggertsson líffræðingur.

Höfundur bókanna Rök lífsins (2018), Ráðgáta lífsins (2014), Leitin að uppruna lífs: Líf á jörð, líf í alheimi (2008) og Líf af lífi: gen, erfðir og erfðatækni (2005).


Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur.

Meðal verka hans eru Melting the Earth: The History of Ideas on Volcanic Eruptions (1999) og The Encyclopedia of Volcanoes (ritstj., 2. útg. 2015).


Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur.

Meðal verka hans er bókin Jöklar á Íslandi (2009). Þar er að finna áhugavert yfirlit um sögu rannsókna á jöklum á Íslandi.


Helgi Hallgrímsson líffræðingur.
Ritaði m.a. greinina Johan Gerhard König og upphaf íslenskrar grasafræði (2018).


Helgi Sigvaldason vélaverkfræðingur og tölfræðingur.

Hefur skrifað talsvert um þróun tölvunarfræðinnar.


Hilmar Garðarsson sagnfræðingur.

Höfundur bókarinnar Saga Veðurstofu Íslands (1999).


Jón Ragnar Stefánsson stærðfræðingur.

Skrifaði m.a. um Leif Ásgreirsson stærðfræðing í bókinni Leifur Ásgeirsson – Minningarrit (1998).


Jón Þorvarðarson kennari.

Höfundur bókarinnar Og ég skal hreyfa jörðina (2. útg., 2012).


Júlíus Sólnes verkfræðingur.

Var m.a. aðalritstjóri verksins Náttúruvá á Íslandi og skrifaði í það kaflana Úr sögu jarðvísindanna (bls. 21-43) og Úr sögu jarðskjálfafræðinnar (bls. 471-491).


Karl Emil Gunnarsson.

Þýddi m.a. bækurnar Alheimurinn (2010) og  Vísindin (2011), sem báðar fjalla um fræðin og sögu þeirra.


Kristín Bjarnadóttir stærðfræðingur.

Hefur skrifað heilmikið um sögu stærðfræði og stærðfræðimenntunar á Íslandi.


Kristín Halla Jónsdóttir stærðfræðingur.

Þýddi bókina Síðasta setning Fermats eftir S. Singh með inngangi eftir Sigurð Helgason stærðfræðing.


Kristján Guðmundur Arngrímsson heimspekingur.

Þýddi verkið Vísindabyltingar eftir T.S. Kuhn með inngangi eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.


Magnús Magnússon eðlisfræðingur.

Hefur m.a. skrifað um Einstein og kenningar hans, sögu Kjarnfræðanefndar Íslands, aðdragandinn að stofnun Raunvísindastofnunar Háskólans og Reiknistofnun HÍ.


Sigrún Helgadóttir líf- og umhverfisfræðingur.

Skrifaði ævisöguna Sigurður Þórarinsson – Mynd af manni I-II (2021).


Sigurður Helgason stærðfræðingur.

Hefur skrifað ýmislegt sagnfræðilegs eðlis um stærðfræði og stærðfræðinga, m.a. greinina Ólafur Dan Daníelsson og bókina Stærðfræðingurinn Ólafur Dan Daníelsson: Saga brautryðjanda (1996; í samvinnu við Guðmund Arnlaugsson stærðfræðing).


Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur.

Sjá Researchgate.net. Hefur m.a. skrifað talsvert um sögu raunvísinda, einkum jarðvísinda. Þýddi, ásamt Jóhönnu Jóhannesdóttur, bókina Vísindafyrirlestar handa almenningi (2021) eftir H. Helmholtz og skrifaði inngang.


Skúli Sigurðsson vísindasagnfræðingur.

Fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í vísindasagnfræði (Harvard 1991). Einnig með BA-próf í eðlisfræði og stjörnufræði frá Brandeis háskóla í Bandaríkjunum.


Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur.

Annar Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í vísindasagnfræði (Manchester 2005). Einnig með BS-próf í líffræði frá Háskóla Íslands.


Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Hefur skrifað talsvert um sögu veðurfræðinnar. Sjá bloggsíðu og Researchgate.net.


Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur.

Hefur m.a. skrifað um Kóperníkus (1973) og Lavoisier (1968). Einnig greinina Drög að heimsmynd nútímans (1966).


Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur.

Sumar greinar hans eru aðgengilegar á Academia.net. Hefur skrifað mikið um sögu og heimspeki vísindanna, þ.á.m. um raunvísindi á miðöldum. Hann var og stofnandi Vísindavefsins, þar sem finna má marga vísindasögupistla eftir ýmsa höfunda. Þekktasta verk hans er Heimsmynd á hverfanda hveli (tvö bindi, 1986-87). Þorsteinn var ritstjóri og aðalhöfundur bókarinnar Einstein. Eindir og afstæði (2015), en þar má jafnframt finna fróðlegar greinar eftir eðlisfræðingana Jakob Yngvason og Þorstein J. Halldórsson.


Þór Jakobsson veðurfræðingur
Hefur m.a. skrifað um Jóhannes Kepler og Gíordanó Brúnó.


Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur.

Meðal verka henar er Flóra Íslands (2018; meðhöfundar: Hörður Kristinsson grasafræðingur og Jón Baldur Hlíðberg myndlistamaður; söguyfirlit er á bls. 55-58).

 

Tengdar færslur

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.