Eins og sagt var frá í II. kafla, var það ekki fyrr en eftir fund nifteindarinnar árið 1932 og framköllun fyrstu kjarnahvarfanna með hraðli sama ár, sem Niels Bohr hóf sjálfur að stunda kennilegar rannsóknir í kjarneðlisfræði. Árið 1936 setti hann fram tiltölulega einfalt en gagnlegt líkan fyrir árekstra atómkjarna, hið svokallaða svipkjarnalíkan. Eftir uppgötvun kjarnaklofnunar í árslok 1938, hóf Bohr svo samvinnu við Bandaríkjamanninn J.A. Wheeler, sem leiddi til frægrar greinar um þetta nýja fyrirbæri haustið 1939. Um svipað leyti braust seinni heimsstyrjöldin út. Fjórum árum síðar þurfti Bohr að flýja heimaland sitt vegna gyðingaofsókna nazista í Danmörku.
- Wikipedia: Nuclear Physics.
- Wikipedia: Discovery of Nuclear Fission.
- Reader, J. & C.W. Clark, 2013: 1932, a watershed year in nuclear physics.
- Wheeler, J.A., 1963: Niels Bohr and Nuclear Physics.
- Wheeler, J.A., 1989: Fission in 1939: The Puzzle and the Promise.
- Mottelson, B.R., 1985: Niels Bohr and the Development of Concepts in Nuclear Physics.
- Dahl, P.F., 2002: From Nuclear Transmutation to Nuclear Fission, 1932-1939.
- Pais, A., 1986: Inward Bound: Of Matter and Forces in the Physical World.
- Mladjenović, M., 1992: History Of Early Nuclear Physics, Vol I (1896-1931): Radioactivity And Its Radiations.
- Mladjenović, M., 1998: The Defining Years in Nuclear Physics, 1932-1960s.
.
Christian Møller og J.C. Jacobsen
Á þessu stigi er full ástæða til að kynna til sögunnar tvo merka danska eðlisfræðinga, þá J.C. Jacobsen og Christian Møller, þó ekki væri nema vegna þess, að þeir voru aðalkennarar Þorbjörns Sigurgeirssonar í seinnihlutanámi hans við Kaupmannahafnar-háskóla. Báðir áttu þeir síðar eftir að hafa töluverð áhrif á ýmsa aðra íslenskra eðlisfræðinga.
- Pihl, M., 1983: „Fysik.“ Í Det matematisk-naturvidenskabelige Fakultet, 1. del: Fakultetets almindelige historie, Matematik, Datalogi, Statistik, Forsikringsmatematik, Geodæsi, Astronomi, Fysik, Kemi (bls. 365-426). Verkið er 12ta bindið í sögu Kaupmannahafnarháskóla, Københavns Universitet 1479-1979, bind I-XIV, udgivet af Københavns Universitet ved 500-års-jubilæet, sem kom út á árunum 1979-2005 í aðalritstjórn S. Ellehøj, L. Grane & fl.
J.C. Jacobsen („hinn þögli“) var í hópi fyrstu samstarfsmanna Níelsar Bohr, eftir að Eðlisfræðistofnunin tók til starfa á árunum 1920-21. Hann var framúrskarandi tilraunaeðlisfræðingur og stjórnaði frá upphafi tilraunastarfseminni, sem fram fór við Blegdamsvej. Hann starfaði samhliða við Geislameðferðarstofnunina (sem síðar varð hluti af Finsen-stofnuninni) í Kaupmannahöfn og vann síðar ötullega að undirbúningi verkefna við CERN og Risö. Árið 1941 varð hann prófessor í tilraunaeðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla.
Jacobsen stjórnaði hönnun og smíði fyrsta hringhraðalsins í Danmörku, sem settur var upp á Eðlisfræðistofnun Bohrs árið 1938, aðeins örfáum árum eftir að E.O. Lawrence lauk við sinn fyrsta hringhraðal í Berkeley 1931.
- Lassen, N.O., 1965(?): J.C. Jacobsen
- Jacobsen, J.C., 1941: Construction of a Cyclotron.
- Lassen, N.O., 1963: „Lidt af historien om cyklotronen på Niels Bohr institutet.“ Í ritinu Niels Bohr: Et Mindeskrift. (Sjá einnig hér.) Ritstj. K.G. Hansen & fl. (bls. 90-119).
- Kvikmynd, 1938: Jubilæum på Niels Bohr Institutet (3:17)
Christian Møller var einn af fyrstu dönsku stúdentunum, sem lögðu sérstaklega fyrir sig kennilega eðlisfræði undir alhliða leiðsögn Níelsar Bohr. Í seinnihlutanáminu við Eðlisfræðistofnunina sótti hann meðal annars kennileg námskeið hjá W. Heisenberg og O. Klein og tilraunanámskeið hjá H.M. Hansen. Hann lauk prófi (mag. scient.) 1929, hlaut doktorsnafnbót (dr. phil.) 1932 og hóf störf sem kennari við Kaupmannahafnarháskóla 1933. Á árunum 1943 til 1975 var hann þar í sérstakri prófessorsstöðu í stærðfræðilegri eðlisfræði. Auk rannsókna og kennslu, sinnti hann ýmsum stjórnunarstörfum við Háskólann, CERN, NORDITA og víðar.
- Pihl, M., (19??): Christian Møller.
- Bengt Strömgren, 1981: Christian Møller.
- Møller, C., 1963: „Nogle Erindringer fra Livet på Bohrs Institut i sidste Halvdel af Tyverne.“ Í ritinu Niels Bohr: Et Mindeskrift. (Sjá einnig hér.) Ritstj. K.G. Hansen & fl. (bls. 54-64).
- Møller, C., 1977: Omvæltninger i fysikernes tankesæt i vort århundrede.
- AIP: Viðtöl við Christian Møller.
Í kjarna- og öreindafræði er Møller sennilega þekktastur fyrir svokallaða Møllersdreifingu, sem gefur dágóða lýsingu á árekstrum rafeinda á afstæðilegum hraða. Þá kemur Møller-Plesset aðferðin svonefnda að góðum notum við ýmsa flókna reikninga í efnafræði.
- Roqué, X., 1992: Møller scattering: a neglected application of early quantum electrodynamics.
- Kragh, H., 1992: Relativistic Collisions: The work of Christian Møller in the 1930s.
- Kragh, H., 2022: Chemists Without Knowing It? : Computational Chemistry and the Møller-Plesset Perturbation Theory.
- Kragh, H., 2022: Et glemt dansk bidrag til kvantekemien.
- Kragh, H., 2022: Brecht, Galileo, and Møller: A View from Copenhagen, 1938–1939.
Áður en Møller hóf nám við Eðlisfræðistofnun Bohrs haustið 1926, heimsótti hann Hamborg og sótti þar hina rómuðu fyrirlestra W. Paulis um afstæðiskenninguna. Við það fékk hann mikinn áhuga á kenningum Einsteins og síðar á lífsleiðinni áttu þær eftir að verða hans aðal rannsóknarsvið.
- Møller, C., 1952: The Theory of Relativity.
- Brevik, I.H., 2011: Christian Møller The Concepts of Mass and Energy in the General Theory of Relativity I-II.
- Blum, A. & T. Hartz, 2017: The 1957 quantum gravity meeting in Copenhagen: An analysis of Bryce S. DeWitt’s report.
Þorbjörn Sigurgeirsson – rannsóknir í kjarna- og öreindafræði 1940-47
Eins og fram kom í II. kafla hóf Þorbjörn seinnihlutanám á Eðlisfræðistofnun Bohrs árið 1940. Þá var kjarneðlisfræðin, ásamt tilheyrandi öreindafræði, þegar orðin helsta rannsóknarsvið stofnunarinnar. Aðstæður voru þó þröngar vegna seinni heimsstyrjaldarinnar og hernáms Þjóðverja.
Meðan á náminu stóð vann Þorbjörn meðal annars að verkefnum fyrir Jacobsen og sótti tíma hjá Møller. Lýsingin á magisterprófi hans í Árbók Kaupmannahafnarháskóla 1942-43 endurspeglar án efa áherslurnar í námi hans hans fyrir útskrift:
Fyrsta vísindagrein Þorbjörns var rituð í samvinnu við Jacobsen og kom út 1943. Þar kynna þeir til sögunnar nýja aðferð, stillanlega seinkun (delayed coincidence), til að finna helmingunartíma ört hrörnandi geislavirkra efna. Þessi aðferð mun vera mikið notuð enn í dag. Efnið, sem höfundarnir voru að glíma við, var RaC' (nú kallað 214Po; sjá hér) með helmingunartímann 164 μs:
- Jacobsen, J.C. & T. Sigurgeirsson, 1943 : The decay constant of RaC’.
Eftir flóttann frá Danmörku, í árslok 1943, dvaldi Þorbjörn í rúmt ár við Nóbelsstofnunina í Stokkhólmi og stundaði rannsóknir. Þar mun hann, í samvinnu við vin sinn Erik Bohr og sænska eðlisfræðinginn Hugo Atterling, hafa uppgötvað geislavirku samsætuna 175Yb með hringhraðli stofnunarinnar (sjá hér og hér):
- Atterling, H., E. Bohr & T. Sigurgeirsson, 1945: „Neutron induced radioactivity in lutetium and ytterbium.“ Arkiv f. Matem. Astron. Fysik, 32A(2), 12 p.
Eftirfarandi grein með J.K. Bøggild og H.O. Arrøe, sem ekki kom á prenti fyrr en 1947, fjallar um hemlunarvegalengd dótturagna kjarnaklofnunar í mismunandi gösum.
- Bøggild, J.K., H.O. Arrøe & T. Sigurgeirsson, 1947: Cloud chamber studies of electronic and nuclear stopping of fission fragments in different gases.
Þorbjörn kom heim frá Svíþjóð í mars 1945, en strax í júlímánuði sama ár fór hann til Bandaríkjana og ætlaði að leggja stund á lífeðlisfræði (biophysics), í þeirri von að fá sérfræðingsstarf að Keldum í kjölfarið. Á þeim stutta tíma, sem hann dvaldi hér heima, tókst honum þó að senda frá sér tvær fróðlegar greinar á íslensku:
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1945: Gullgerðarlist nútímans. Lesbók Morgunblaðsins.
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1945: Kísilefni (Sílikon). Náttúrufræðingurinn.
Í Bandaríkjunum vann hann stuttlega að rannsóknum með bandaríska Nóbelsverðlaunahafanum W.M. Stanley og saman skrifuðu þeir eina grein um lífeðlisfræði:
- Sigurgeirsson, T. & W.M. Stanley, 1947: Electron microscope studies on tobacco mosaic virus.
Kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945 breyttu hins vegar snarlega öllum áætlunum Þorbjörns og í janúar 1946 hóf hann aftur rannsóknir í kjarneðlisfræði við eðlisfræðideild Princetonháskóla, nú undir verndarvæng J.A. Wheelers. Úr þeim rannsóknum komu meðal annars merkar niðurstöður um eiginleika mýeinda í geimgeislum.
- Sigurgeirsson, T. & K.A. Yamakawa, 1947: Decay of mesons stopped in light materials.
- Sigurgeirsson, T. & K.A. Yamakawa, 1949: Electron emitting power of stopped mesons.
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1949: Geimgeislar. (Sjá einkum kaflann „Mesónan og kjarnakraftarnir“, bls. 82-83).
Þorbjörn kom alkominn heim frá Bandaríkjunum í september 1947 og hóf smám saman sitt merka uppbyggingarstarf, einkum eftir að hann varð forstöðumaður Rannsóknaráðs ríkinsins árið 1949.
Sjá nánari umfjöllun í eftirfarandi grein og heimildunum, sem þar er bent á:
- Einar H. Guðmundsson, 2021: Thorbjörn Sigurgeirsson (1917-1988): a brief overview of his life and scientific work.
Þegar áherslur Þorbjörns í framhaldsnámi eru hafðar í huga og greinar hans frá árunum 1943-49 skoðaðar, er ljóst, að nokkur verkefna hans á þessum tíma byggðust, beint eða óbeint, á niðurstöðum rannsóknarsviðs, sem Niels Bohr hafði lagt grunninn að löngu áður með greininni „On the theory of the decrease of velocity of moving electrified particles on passing through matter“ (1913). Bohr fylgdi vandamálinu eftir með ýmsum hætti næstu áratugina, eins og sjá má í ritinu Niels Bohr Collected Works, Vol. 8, 1987: The Penetration of Charged Particles Through Matter (1912 - 1954). Mikilvægi þessa viðfangsefnis í kjarna- og öreindafræði er ótvírætt og fjölmargir merkir eðlisfræðingar áttu því einnig eftir að glíma við ýmsa þætti þess og þróa enn frekar. Meðal þeirra má nefna H.A. Bethe, W. Heitler, N.F. Mott, F. Bloch, C. Møller, E. Fermi, J. Lindhard og fleiri.
- Sigmund, P., 2013: Bohrs første hit i 1913.
- Sigmund, P., 2006: Particle Penetration and Radiation Effects: General Aspects and Stopping of Swift Point Charges.
- Turner, J.E., 2005: Interaction of Ionizing Radiation with Matter.
- Kragh, H., 1992: Relativistic Collisions: The work of Christian Møller in the 1930s.
Jafnframt má geta þess hér, að fræðin um hemlun hraðfleygra rafhlaðinna agna í efni tengjast rannsóknum Ara Brynjólfssonar eðlisfræðings á varðveislu matvæta með geislun, sem hann vann fyrst að á Risö á árunum 1957 til 1965 og eftir það í Bandaríkjunum. Hann varði einnig doktorsritgerð um þetta vandamál við Kaupmannahafnarháskóla árið 1973.
- Ari Brynjólfsson, 1973: Some Aspects of the Interactions of Fast Charged Particles with Matter.
- Morgunblaðið, 11. nóv. 1973: Bætti aðferð Niels Bohr.
Nokkrum árum síðar setti Ari fram kenningu þessu tengda, sem gerir ráð fyrir sérstöku orkutapi ljóseinda í rafgasi. Hann taldi hana gefa betri skýringu á rauðviki fjarlægra vetrarbrauta en Miklahvellskenningin, sem úskýrir rauðvikið með útþenslu alheimsins. Ari skrifaði margar greinar um þessa tilgátu, en hún hefur ekki enn hlotið náð fyrir augum annarra sérfræðinga. Lesendum til fróðleiks er hér gefin slóð á aðalgrein (handrit) hans um þetta efni:
- Ari Brynjólfsson, 2005: Redshift of photons penetrating a hot plasma.
Bohr og kjarnorkuvopnin
Eins og þegar hefur komið fram tóku Niels Bohr, ýmsir ættingjar hans og margir samstarfsmenn, þar á meðal Þorbjörn Sigurgeirsson, þátt í flóttanum mikla frá Danmörku til Svíþjóðar, haustið og veturinn 1943.
- Schwarz, S., 2020: The occupation of Niels Bohr’s Institute 6 December 1943 – 3 February 1944.
- Ulff-Møller, J., 2019: Betydningsfulde videnskabsmænd – Niels og Harald Bohr, forfølgelsen af jødiske videnskabsmænd og udviklingen af atombomben i USA.
- Guðmundur Arnlaugsson, 1987: „Liðnar stundir: Nokkrar minningar frá árunum 1936-45.“ Í bókinni Í hlutarins eðli: Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor, bls. 9-22.
Eftir skamma dvöl í Svíþjóð, hélt Bohr áfram til Englands og þaðan til Bandaríkjanna. Meðal annars heimsótti hann Los Alamos nokkrum sinnum og gaf eðlisfræðingum þar föðurleg ráð af ýmsu tagi. Honum varð fljótt ljóst, að hina nýju þekkingu, sem þar var í sköpun, mætti nota bæði til góðs og ills. Jafnframt áttaði hann sig á því, að nauðsynlegt væri að hafa Sovétmenn með í ráðum við þróun og smíði kjarnorkusprengjunnar; öll leynd um þau mál myndi aðeins enda með geigvænlegu kjarnorkuvopnakapphlaupi. Strax árið 1944 gerði hann sitt ítrasta til að sannfæra ráðamenn, þar á meðal Roosevelt Bandaríkjaforseta og Churchill forsætisráðherra Breta, um mikilvægi opinna samskipta á þessu sviði og nauðsyn þess, að eftirlit með allri hagnýtingu kjarnorkunnar yrði í höndum alþjóðlegrar stofnunar. Sem kunnugt er, talaði Bohr þar fyrir daufum eyrum, enda var þá þegar farið að glitta í fyrstu anga kalda stríðsins.
- US Department of Energy: The Manhattan Project: An Interactive History.
- Rhodes, R., 1986: The making of the atomic bomb.
- Rhodes, R., 1989: The Complementarity of the Bomb.
- Wellerstein, A., 2015: What did Bohr do at Los Alamos?
- McCleanahan, H., 2018: Nobel Laureate Niels Bohr Brought Winter Cheer To Los Alamos.
- Niels Bohr, 1944: Letter to Churchill.
- Þjóðviljinn, 2. okt. 1964: Churchill ætlaði að loka Niels Bohr inni árið 1942.
- Sherwin, M.J., 2003: A World Destroyed: Hiroshima and Its Legacies (3ja útg.) Kafli II.4, „The Two Policemen“, fjallar um fundi Bohrs með þeim Roosevelt og Churchill.
- Long, D., 2001: Niels Bohr: the Atomic Bomb and Beyond.
- Christmas-Møller, W., 1985: Niels Bohr og atomvåbnet.
- Gowing, M., 1986: Niels Bohr and Nuclear Weapons.
- Jacobsen, S., 2017: Da blev jeg Døden. Skáldsaga.
- Aaserud, F., 1999: The Scientist and the Statesmen: Niels Bohr's Political Crusade during World War II.
- Aaserud, F., 2020: Niels Bohr's Diplomatic Mission during and after World War Two.
Hiroshima og Nagasaki
Segja má, að algjör þáttaskil hafi orðið í sögu mannkynsins hinn 6. ágúst 1945, þegar Bandaríkjamenn vörpuðu, án viðvörunar, kjarnorkusprengju á borgina Hiroshima í Japan og endurtóku svo leikinn í Nagasaki þremur dögum síðar.
Líkt og fjölmiðlar í öðrum löndum, brugðust íslensku blöðin við fréttunum af árásinni á Hiroshima með blöndu af undrun, aðdáun og hryllingi. Sennilega hafa landsmenn fljótlega heyrt um árásina í gegnum útvarpið, en það var hins vegar síðdegisblaðið Vísir sem varð fyrst íslenskra blaða til að birta féttina, 7. ágúst, undir titlinum Kjarnasprengja bandamanna er á við 2000 ellefu smálesta sprengjur. Daginn eftir fylgdu svo öll morgunblöðin í kjölfarið, nema Tíminn, sem þá kom aðeins tvisvar í viku:
- Morgunblaðið, 8. ágúst 1945: Stórkostlegasta uppfynding vísindanna: Atomorkan beisluð – Sprengjur sem þurka út heilar borgir.
- Alþýðublaðið, 8. ágúst 1945: Bandaríkjamenn beita sprengjum af nýrri gerð gegn Japönum – Hrikalegasta loftárás styrjaldarinnar gerð á Hiroshima.
- Þjóðviljinn, 8. ágúst 1945: Líkur taldar á, að atómsprengjan knýi Japana til uppgjafar innan skamms.
- Vísir, 8. ágúst 1945: Óskaplegt tjón af fyrstu árásinni með kjarnsprengju á Japan.
- Tíminn, 10. ágúst 1945: Mesta uppgötvun vísindanna: Tekizt hefir að beizla frumeindaorkuna.
Blöðin fylgdust af athygli með þróun mála næstu daga, vikur og mánuði og ekki leið á löngu þar til greinar tóku að birtast um eðli kjarnorkunnar og notkun hennar, bæði til góðs og ills. Hér eru nokkur dæmi:
- Morgunblaðið, 21. ágúst 1945: Þegar atomorkan var leyst: Frásögn um rannsóknir og árangur (þýtt).
- Vísir, 29. ágúst 1945: Umsögn Niels Bohr prófessors: Misnotkun kjarnorkunnar stórhættuleg mannkyninu. Alþjóðalög nauðsynleg.
- Lesbók Mbl, 2. og 9. september, 1945: Atomorkuöldin I & II (þýtt úr Time).
- Þjóðviljinn, 31. otóber 1945 : Niels Bohr skýrir frá leyndardómum atómsprengjunnar - Atomorkan mun valda gerbreytingu í framleiðsluháttum.
- Morgunblaðið, 8. nóv. 1945: Atómsprengjur og stjórnmál (þýtt úr The Spectator).
- Ingi R. Helgason, 1945: Hin mikla kjarnorkusprengja.
- Jón Emilsson, 1945: Atomorkan og hagnýting hennar.
- Björn Franzson, 1945: Hagnýting kjarnorkunnar.
Samhliða stöðugum fréttaflutningi af þróun mála næstu árin, tóku að birtast ýmsar ritsmíðar, þar sem farið var heldur ítarlegar í atóm- og kjarneðlisfræði, sögu þeirra og hagnýtingu:
- Urey, H.C., 1946: Ég er hræddur (þýtt).
- Óskar B. Bjarnason, 1946: Kjarnorkan.
- Sveinn Þórðarson, 1946: Atóman og orka hennar I & II.
- Lindhard, J. & U. Ekman, 1946: Kjarnorkan í stríði og friði (þýtt).
- Steinþór Sigurðsson, 1946: Kjarnorka.
- Trausti Einarsson, 1947: Kjarnorkan og vald mannsins yfir efninu.
- Dietz, D., 1947: Kjarnorka á komandi tímum. Ágúst H. Bjarnason (prófessor) íslenskaði. Sjá einnig greinina Árdagar kjarneðlisfræðinnar – Hver var hugsunin? (2020) eftir Ágúst H. Bjarnason (verkfræðing).
- Tyrén, H., 1947: Á morgni atómaldar. Ólafur Björnsson (læknir) þýddi.
- Calder, R., 1948: Leyndardómar kjarnorkunnar.
Hér má til viðbótar finna tvær gagnlegar yfirlitsgreinar með tilvísunum í frekari heimildir:
- Wikipedia: Atomic bombings of Hiroshima and Nagasaki.
- Wikipedia: Nuclear weapon.
Oppenheimer og Bohr
Niels Bohr var sá maður, sem „faðir kjarnorkusprengjunnar“, Róbert Oppenheimer, mun hafa dáð mest allra manna. Þeir hittust fyrst árið 1926 og allar götur síðan leit Oppenheimer á hinn 19 ára eldri Bohr sem skínandi fyrirmynd, ekki aðeins sem manneskju og í öllu því, sem snerti iðkun vísinda, heldur einnig vegna jákvæðra viðhorfa hans til annarra einstaklinga og mannkynsins í heild. Eflaust hefur það haft sín áhrif, að báðir voru þeir eðlisfræðingar með djúpan áhuga á heimspeki. Hin fleygu orð „Bohr er Guð og Oppie er spámaður hans“ eru höfð eftir J. Weinberg, einum af doktorsnemum Oppenheimers (Oppies) í Berkeley á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina.
Í áðurnefndum heimsóknum Bohrs til Los Alamos, áttu þeir Oppenheimer í löngum samræðum. Bohr hefur án efa predikað skoðanir sínar á mikilvægi opinna samskipta í kjarnorkurannsóknum og alþjóðlegu eftirlit með hgnýtingu kjarnorkunnar. Margir telja, að með framgöngu sinni á þessum vettvangi á næstu árum, hafi Oppenheimer verið undir verulegum áhrifum frá Bohr.
Vinátta þeirra Bohrs og Oppenheimers var ekki mikið til umræðu í fjölmiðlum, en íslenska dagblaðið Tíminn sá þó ástæðu til þess að fjalla um heimsókn Bandaríkjamannsins til Kaupmannahafnar sumarið 1958. Lesa má nánar um samband þeirra félaga í eftirfarandi heimild:
- Bird, K. & M.J. Sherwin, 2005: American Prometheus: The Triumph and Tragedy of J. Robert Oppenheimer (20. kafli, bls. 268-289).
Oppenheimer hafði sjálfur þetta að segja um Bohr:
- Oppenheimer, R., 1964: Niels Bohr and Atomic Weapons.
- YouTube: Robert Oppenheimer Discusses the Life of Nobel Laureate Niels Bohr (1964).
Kalt stríð og kjarnorkuvopnakapphlaup
Eins og þeir Bohr, Oppenheimer og ýmsir aðrir höfðu spáð, hleypti leyndarhyggja og heimsvaldastefna stórveldanna tveggja, Bandríkjanna og Sovétríkjanna, af stað köldu stríði milli þessara fyrrum bandamanna eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Því fylgdi ógnvekjandi kjarnorkuvopnakapphlaup, sem ekki sér enn fyrir endann á. Nánar verður komið inn á vissa þætti þessa máls í kafla IVb, en hér er hins vegar ætlunin, að minnast lauslega á viðbrögð íslenskra dagblaða við tilraunum Sovétmanna með kjarnorkuvopn og tilkomu vetnissprengjunnar. Fróðleiksfúsir lesendur geta fundið frekari umræðu og heimildir um kalda stríðið á Íslandi í eftirfarandi ritsmíðum:
- Wikipedia: Kalda stríðið.
- Wikipedia: Kalda stríðið á Íslandi.
- Níels P. Sigurðsson, 1994: Úr köldu stríði í kaldan frið.
- Valur Ingimundarson, 1996: Í eldlínu kalda stríðsins: Samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945-1960.
- Guðni Th. Jóhannesson: 2011: Kalda stríðið (vefsíða).
Fréttir af fyrstu sovétsku kjarnorkusprengingunni bárust hingað til lands tæpum mánuði eftir, að hún átti sér stað:
- Þjóðviljinn, 24. sept. 1949: Rússar ráða yfir atomsprengjunni.
- Morgunblaðið, 24. sept. 1949: Þykir víst, að Rússar hafi gert atómsprengju.
- Alþýðublaðið, 24. sept. 1949: Rússar byrjaðir að framleiða kjarnorkuvopn.
- Tíminn, 24. sept. 1949: Rússar hafa kjarnorkusprengju.
Tilraunasprenging Sovétmanna hleypti nýju lífi í vopnakapphlaup stórveldanna. Hún varð meðal annars til þess, að báðir aðilar lögðu nú aukna vinnu í að þróa nýtt gjöreyðingarvopn, vetnissprengjuna, þrátt fyrir viðvaranir þekktra vísindamanna um heim allan. Í janúarlok 1950 gaf Truman forseti út formlega yfirlýsingu um þær fyrirætlanir Bandaríkjamanna að smíða slíkt vopn. Viðbrögðin hér heima voru fróðleg:
- Þjóðviljinn, 5. febrúar 1950: Vetnissprengjan er ekki hermennskuvopn heldur múgmorðatól.
- Alþýðublaðið, 5. febrúar 1950: Ekki sama, hver sprengjuna hefur.
- Þjóðviljinn, 8. febrúar 1859: Boðskapur Trumans um vetnissprengjuna skelfir hans eigin menn.
- Alþýðublaðið, 8. febrúar 1950: Vetnissprengjan og vígbúnaðurinn.
- Þjóðviljinn, 14. feb 1950: Einstein lýsir yfir: Vetnissprengjan, sem Truman vill framleiða, ógnar tilveru mannskynsins.
Bandaríkjamenn sprengdu svo sína fyrstu vetnissprengju, hinn 1. nóvember 1952:
- Dagur, 5. nóv. 1952: Mesta sprenging sem orðið hefur í sögunni stendur fyrir dyrum.
- Þjóðviljinn, 18. nóv 1952: Bandarísk vetnissprengja reynd.
- Alþýðublaðið, 23. nóv 1952: Þegar vetnissprengjan var reynd á Eniwetok 1. nóv.
Sovétríkin svöruðu tæpu ári síðar, hinn 12. ágúst, 1953:
- Vísir, 20. ág 1953: Rússar reyna vetnissprengju.
- Þjóðviljinn, 21. ágúst 1953: Fyrsta vetnissprengja heims sprengd í Sovétríkjunum.
Sjá einnig þessar fróðlegu heimildir:
- Wikipedia: Soviet atomic bomb project.
- Holloway, D., 1994: Stalin and the Bomb: The Soviet Union and Atomic Energy 1939–1956.
- Wikipedia: Thermonuclear weapon.
- York, H.F., 1989: The Advisors: Oppenheimer, Teller, and the Superbomb.
- Rhodes, R., 1995: Dark Sun: The Making of the Hydrogen Bomb.
Eins og margir þeirra eðlisfræðinga, sem starfað höfðu í Los Alamos á stríðsárunum, hafði Róbert Oppenheimer frá upphafi miklar efasemdir um nauðsyn þess að smíða vetnisprengjuna. Hann var óhræddur við að láta þær skoðanir sínar í ljós og við það öðlast hann áhrifamikla óvini, menn eins og J.E. Hoover, J. McCarthy, J.L. Borden og ekki síst L. Strauss. Þeir Hoover, McCarthy og Borden töldu Oppenheimer afar hliðhollan Sovétmönnum, ef ekki beinlínis njósnara þeirra, en þótt Strauss hafi tekið undir með þeim, mun hann einnig hafa haft aðrar og persónulegri ástæður til að ofsækja Oppenheimer.
Þegar Strauss varð formaður Kjarnorkumálanefndar Bandaríkjanna fyrir tilstilli Eisenhowers, árið 1953, lét hann til skarar skríða gegn Oppenheimer. „Föður kjarnorkusprengjunnar“ var stefnt fyrir nefndina og að loknum furðulegum „réttarhöldum“ vorið 1954 var hann sviptur öllum aðgangi að leynilegum upplýsingum Bandaríkjastjórnar. Þessi niðurstaða mun hafa verið mikið áfall fyrir Oppenheimer, en það sem eftir var ævinnar sinnti hann starfi sínu við Institute for Advanced Study í Princeton með miklum sóma og tók fullan þátt í starfi eðlisfræðinga, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.
- Wikipedia: Robert Oppenheimer.
- Wikipedia: Oppenheimer security hearing.
- Bethe, H.A., 1968: Robert Oppenheimer, 1904-1967.
- Stern, P.M., 1969: The Oppenheimer Case: Security on Trial.
- York, H.F., 1975: The Debate over the Hydrogen Bomb.
- Galison, P. & B. Bernstein, 1989: In Any Light: Scientists and the Decision to Build the Superbomb, 1952-1954.
- Bernstein, B.J., 1990: The Oppenheimer Loyalty-Security Case Reconsidered.
- Valiunas, A., 2006: The Agony of Atomic Genius.
- Hargittai , J., 2010: Judging Edward Teller: A Closer Look at One of the Most Influential Scientists of the Twentieth Century.
- Jogalekar, A., 2014: The Many Tragedies of Edward Teller.
- Borghi , M., 2019: Political Authority or Atomic Celebrity? The Influence of J. Robert Oppenheimer on American Nuclear Policy after the Second World War.
- Linder, D.O., 2020: The Security Hearing of Robert Oppenheimer: An Account.
- Jaeggli, M., 2022: The Petition That Sought to Clear Oppenheimer's Name.
„Dómnum“ yfir Oppenheimer snúið við árið 2022
Í árslok 2022 bárust þær óvæntu fréttir, að Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, hefði snúið við ákvörðun Kjarnorkumálanefndarinnar í máli Oppenheimers frá 1954. Samkvæmt hinum nýja úrskurði fékk Oppenheimer nú aftur „óskertan aðgang að leynilegum upplýsingum Bandaríkjastjórnar“.
Þar sem Oppenheimer lést árið 1967 er ljóst, að þarna var um táknrænan gjörning að ræða og tilgangurinn var fyrst og fremst sá að heiðra Oppenheimer fyrir störf hans í þágu Bandaríkjanna og lýsa jafnframt vanþóknun Bandaríkjastjórnar á ofsóknum Kjarnorkumálanefndarinnar á hendur honum á sínum tíma. Yfirlýsing ráðherrans hljóðar svo:
Dr. J. Robert Oppenheimer occupies a central role in our history for leading the nation’s atomic efforts during World War II and planting the seeds for the Department of Energy’s national laboratories—the crown jewels of the American research and innovation ecosystem.
In 1954, the Atomic Energy Commission revoked Dr. Oppenheimer’s security clearance through a flawed process that violated the Commission’s own regulations. As time has passed, more evidence has come to light of the bias and unfairness of the process that Dr. Oppenheimer was subjected to while the evidence of his loyalty and love of country have only been further affirmed. The Atomic Energy Commission even selected Dr. Oppenheimer in 1963 for its prestigious Enrico Fermi Award citing his “scientific and administrative leadership not only in the development of the atomic bomb, but also in establishing the groundwork for the many peaceful applications of atomic energy.”
The Department of Energy has previously recognized J. Robert Oppenheimer in other ways including the creation of the Oppenheimer Science and Energy Leadership Program in 2017 to support early and mid-career scientists and engineers to “carry on [Dr. Oppenheimer’s] legacy of science serving society.”
As a successor agency to the Atomic Energy Commission, the Department of Energy has been entrusted with the responsibility to correct the historical record and honor Dr. Oppenheimer’s profound contributions to our national defense and the scientific enterprise at large. Today, I am pleased to announce the Department of Energy has vacated the Atomic Energy Commission’s 1954 decision In the Matter of J. Robert Oppenheimer.
- Department of Energy (USA), 16. des. 2022: Secretary Granholm Statement on DOE Order Vacating 1954 Atomic Energy Commission Decision In the Matter of J. Robert Oppenheimer.
- Osborne, 20. des. 2022: U.S. Restores J. Robert Oppenheimer’s Security Clearance After 68 Years.
- Wellerstein, A., 21. Des. 2022: Oppenheimer: Vacated but not Vindicated.
- Nuclear Newswire, 22. des. 2022: After 70 years, J. Robert Oppenheimer’s legacy is being rewritten.
- Quellette, J., 25. des. 2022: Robert Oppenheimer cleared of “black mark” against his name after 68 years.
- Bronson, R., 11. jan. 2023: Bulletin statement on the Department of Energy’s Oppenheimer decision.
Þegar þetta er skrifað (í mars 2023) er í vinnslu stórmynd um Oppenheimer og kjarnorkusprengjuna í leikstjórn C. Nolans. Áætlað er að frumsýna myndina í júlí 2023. Hún er sögð byggð á áðurnefndri ævisögu Oppenheimers eftir Bird & Sherwin.
Eftir fall Sovétríkjanna: Bohr og Oppenheimer ásakaðir um njósnir
Vorið 1994 komu út á Vesturlöndum æviminningar fyrrverandi meðlims sovétsku leyniþjónustunnar (KGB), P.A. Sudoplatov. Í þeim er að finna fullyrðingar þess efnis, að þekktir eðlisfræðingar eins og Oppenheimer, Bohr, E. Fermi og L. Szilard hefðu veitt Sovétmönnum upplýsingar um ýmis kjarnorkuleyndarmál Manhattanverkefnisins á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð.
Fréttir af „uppljóstrunum“ Sudoplatovs bárust fljótt um heimsbyggðina og vöktu nokkra athygli. Hér heima birti Tíminn til dæmis greinina Var Oppenheimer KGB-njósnari?, en önnur íslensk dagblöð virðast ekki hafa haft neinn áhuga, enda langt um liðið og nöfn þeirra Bohrs og Oppenheimers sennilega við það að falla í gleymskunar dá á skrifstofum blaðanna. Öðru máli gilti um Bandaríkin, þar sem bók Sudoplatovs olli talsverðu fjaðrafoki. Ýmsir urðu til andsvara, þar á meðal þeir eðlisfræðingar Manhattan-verkefnisins, sem enn voru á lífi, og eins sagnfræðingar, sem sérstaklega höfðu kannað sögu kjarnorkuvopnakapphlaupsins á dögum kalda strtríðsins. Í stuttu máli má segja, að öll umæli KGB-mannsins fyrrverandi um fjórmenningana hafi verið dæmd dauð og ómerk.
- Sudoplatov, P., 1994: Special Tasks: The Memoirs of an Unwanted Witness – a Soviet Spymaster. Sjá einkum kaflann „Atomic Spies“ (bls. 172-220).
- McMillan, P.J., 1994: They Weren't Spies.
- McMillan, P.J., 1994: Flimsy Memories. Sjá einnig næstu grein í sama blaði eftir S. Leskov: „An Unreliable Witness“.
- Goodwin, I., 1994: Physicists Refute Charges that Icons Helped Soviets Build Nuclear Bomb.
- Bethe, H.A., 1994: Atomic Slurs.
- Church, G.J., 1994: Did Oppenheimer Really Help Moscow?
- Risen, J., 1995: FBI Clears Top Physicists of Passing A-Bomb Secrets – Weapons: Allegations in ex-KGB officer’s book that Oppenheimer, Bohr, Fermi and Szilard had given postwar aid to Soviets provoked outrage.
- Bethe, H.A., Gottfried & R.Z. Sagdeev, 1995: Did Bohr Share Nuclear Secrets?
- Holloway, D., 1996: Beria, Bohr, and the Question of Atomic Intelligence. Kafli í bókinni Reexamining the Soviet experience: Essays in honor of Alexander Dallin (ritstj. D. Holloway & N.. Naimark).
- Wellerstein, A., 2012: What Bohr told Beria.
- Cora, Z., 2014: Soviet Nuclear Espionage in the USA During World War II: The Case of Oppenheimer and Bohr.
Opið bréf Bohrs til Sameinuðu þjóðanna árið 1950
Bohr kom aftur heim til Danmerkur frá Bandaríkjunum 24. ágúst 1945, rúmri viku eftir að Japanir gáfust endanlega upp. Danir tóku honum fagnandi og 7. október 1945 var haldið veglega upp á 60 ára afmæli hans. Hér eru tvær stuttar kvikmyndir af hátíðarhöldunum:
- Niels Bohrs 60 års fødselsdag (3 min).
- Niels Bohr 60 år (0:34 min).
Næstu árin hélt Bohr fjölmörg erindi og skrifaði ýmsar greinar um eðlisfræði og heimspeki. Þekktastar þeirra eru sennilega:
- Bohr, N., 1948: The Penetration of Atomic Particles through Matter.
- Bohr, N., 1949: Discussion with Einstein on Epistemological Problems in Atomic Physics. Í bókinni Albert Einstein: Philosopher-Scientist. Ritstj.: P.A. Schilpp, 1949, bls.199--241.
Friðarmálin og opin alþjóðleg samskipti voru Bohr einnig ofarlega í huga. Í heimsóknum sínum til annarra landa, notaði hann hvert tækifæri til að ræða hugmyndir sínar um opin samskipti í kjarnorkumálum. Þar ber sennilega hæst fundir, sem hann átti með hinum þekkta G. Marshall, þá utanríkisráðherra, í heimsókn til Bandaríkjanna árið 1948. Í kjölfarið áttu þeir í nokkrum bréfaskiptum [sjá bls. 203-204 í grein Aa. Bohrs, „Krigens år og atomvåpens perspektiver“ í Rozental, S. et al. (ritstj.), 1964: Niels Bohr: hans liv og virke fortalt af en kreds af venner og medarbejdere (bls. 184-206)]. Án efa hefur Bohr einnig komið inn á þessi mál í samtölum sínum við íslenska ráðamenn í ágúst 1951.
Í ársbyrjun 1950 ákvað Bohr að taka af skarið og skrifa opið bréf til Sameinuðu þjóðanna um hugmyndir sínar um opin samskipti. Bréfið birti hann svo 9. júní sama ár, bæði á ensku og dönsku: Open Letter to the United Nations.
Þessu frábæra bréfi var víðast hvar tekið með þegjandi þögninni. Það var helst í Danmörku og nágrannalöndunum, Noregi og Svíþjóð, sem það vakti lítisháttar umræður; hér heima voru fréttir af því bæði stuttar og fáar:
- Þjóðviljinn, 13. júní: Bohr hvetur til einingar um kjarnorkumálin.
- Tíminn, 13. júní: Opið bréf um kjarnorkumál og 1. júlí: Mynd af Bohr.
- Alþýðublaðið, 14. júní: Niels Bohr skrifar Sameinuðu þjóðunum bréf.
- Þjóðviljinn, 8. júlí: Bandaríkjamenn hafa að engu aðvörun Níelsar Bohr.
Ástæðurnar fyrir áhugaleysinu voru eflaust margar: Öryggisleysi vegna kalda stríðsins og öflugra fylkinga ofstækismanna í báðum herbúðum, fréttir af fyrstu kjarnorkusprengju Sovétmanna haustið 1949, fréttir af handtökum njósnara eins og K. Fuchs og Rosenberg hjónanna, upphafi Kóreustríðsins og opinberri ákvörðun Bandaríkjastjórnar um smíði vetnisspengjunnar. Einnig var Bohr í fréttum fyrir að skrifa ekki undir hið svokallaða Stokkhólmsávarp um algjört bann við kjarnorkuvopnum. Rök hans voru þau, að ávarpið þegði þunnu hljóði um opin samskipti um kjarnorkumál, en það hafði verið megniefni bréfs hans til Sameinuðu þjóðanna.
- Alþýðublaðið, 15. júní: Bohr neitar að undirrita friðarávarp kommúnista.
- Alþýðublaðið, 16. júní: Friðarvinur svarar friðarávarpi.
- Alþýðublaðið, 1. júlí: Hann skrifaði ekki undir.
Bohr hélt áfram báráttu sinni fyrir opnum samskiptum austurs og vesturs allt til æviloka 1962, en án mikils árangurs (sjá þó kafla IVb).
En Bohr gerði einnig ýmislegt annað á árunum eftir seinni heimstyrjöldina. Árið 1950 sneri hann sér að frekari uppbyggingu eðlisfræðirannsókna og alþjóðlegri samvinnu eðlisfræðinga, bæði heima í Danmörku (Risö) og á vettvangi Evrópu (CERN, NORDITA). Kaflar IVb og IVc fjalla um þá vinnu og hvernig við Íslendingar höfum notð góðs af henni.