Skapandi og krefjandi vinna eða stagl?

Fyrr á þessu ári birtist ritrýnd rannsóknargrein í menntavísindatímaritinu Tímarit um uppeldi og menntun eftir mig og Jónínu Völu Kristinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem bar heitið „Upprifjunaráfangar framhaldsskóla í stærðfræði: Skapandi og krefjandi vinna eða stagl?“. Í september síðastliðnum hélt ég erindi á ráðstefnunni Læsi í skapandi skólastarfi sem haldin var í samstarfi Menntamálastofnunar og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Nú má nálgast glærur af erindinu á vef Miðstöðvar skólaþróunar en ég hef ákveðið að láta ágrip af erindinu fylgja þessari færslu:

Í þessari nýju íslensku rannsókn eru könnuð viðhorf framhaldsskólakennara til viðfangsefna er lúta að gagnrýninni og skapandi hugsun í upprifjunaráföngum í stærðfræði. Slík hugsun er mikilvægur hluti þess læsis sem þróa þarf til að geta tekist á við áskoranir 21. aldar þar sem störf munu krefjast útsjónarsemi og sköpunargáfu frekar en hæfni í að fylgja leiðbeiningum á vélrænan hátt. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á viðhorf framhaldsskólakennara til þess hvort viðfangsefni sem beita þarf gagnrýninni og skapandi hugsun við að leysa henti nemendum í upprifjunaráföngum. Einnig er kannað hvort kennarar telji nemendur í þessum áföngum hafa forsendur til að öðlast stærðfræðilega hæfni með því að glíma við slík verkefni. Byggt er á viðtalsrannsókn þar sem fimm kennarar úr þremur framhaldsskólum tóku þátt. Tekin voru viðtöl bæði áður en og eftir að kennararnir lögðu verkefni fyrir nemendur í upprifjunaráföngum, þar sem beita þurfti gagnrýninni og skapandi hugsun við lausnaleit. Í slíkum verkefnum reynir oft á munnlega tjáningu nemenda um stærðfræðileg hugtök og fjölbreytta framsetningu og miðlun upplýsinga. Kennsluáætlanir áfanga voru einnig greindar. Niðurstöðurnar benda til þess að viðhorf kennaranna til slíkra viðfangsefna séu almennt jákvæð. Tillögur komu fram um það hvernig slíkt efni mætti tvinna við annars konar verkefni en skiptar skoðanir voru um sýnidæmi og lausnir í stærðfræðinámi. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er lögð áhersla á að nemendur öðlist hæfni í stærðfræðilegri hugsun og röksemdafærslu. Vísbendingar eru um að skortur sé á viðfangsefnum í stærðfræðinámsefni fyrir nemendur í upprifjunaráfanga framhaldsskóla sem reyna á þá hæfni. Hvetja má til aukinnar þróunar námsefnis á íslensku sem byggir á þörfum nemenda og kennara, er í takt við þá tíma sem við lifum á og veitir komandi kynslóðum aukin tækifæri til að öðlast nauðsynlegt stærðfræðilæsi fyrir þátttöku í samfélagi framtíðarinnar.

Áhugasamir lesendur geta nálgast rannsóknargreinina á heild sinni á vef Tímarits um uppeldi og menntun.

Um Jóhann Örn Sigurjónsson

Kennari, tölvunarfræðingur og doktorsnemi í stærðfræðimenntun.
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.