Category: Uncategorized

Flóttamenn og félagsmálaráðherra

Karl Benediktsson, ágúst 28, 2015

Ég horfði á sjónvarpsfréttir í gær, þar sem fjallað var um flóttamenn og hræðilega atburði sem gerast nú upp á hvern dag í álfunni okkar. Fram kom meðal annars að Ísland ku hafa samþykkt að taka við hvorki fleiri né færri en 25 flóttamönnum á ári næstu tvö árin!

Félagsmálaráðherra fékk í fréttatímanum þá eðlilegu spurningu hvort ekki mætti hugsa sér að Ísland tæki á móti fleirum. Eins og plagsiður er hjá stjórnmálamönnum setti hún á allnokkra tölu án þess að svara á nokkurn hátt spurningunni. Hún talaði um hvers konar flóttamenn það væru sem valdir væru til að koma hingað - mest fólk úr hópum sem eiga víða mjög undir högg að sækja. Gott og vel - ber að skilja orð ráðherrans þannig að það séu bara ekki mikið fleiri sem tilheyra þessum hópum á meðal þeirra hundruða þúsunda sem flýja nú til Evrópu? Svona undansláttur fer ósegjanlega í taugarnar á mér.

Ísland hefur lengi komist upp með að komast afskaplega billega frá ábyrgð sinni sem ein af ríkustu þjóðum heims. Dyflinnarreglugerðin alræmda tryggir t.d. að langflestum sem sækja um hæli hér er snarlega vísað úr landi aftur til annarra Evrópulanda. Þessu verður að breyta.

Elskum köngulærnar

Karl Benediktsson, júlí 1, 2015

Araneus_diadematusÞær eru mættar utan á húsið mitt. Köngulærnar. Þessi stórmerkilegu dýr birtast þegar sumarið er komið í algleyming og vefa listaverk sín undir þakskegg og stundum jafnvel utan á glugga, mér til ómældrar ánægju. Það er ákaflega gaman að fylgjast með snjallri og einbeittri krosskönguló (Araneus diadematus) spinna vef sinn utan við rúðu. Að ég tali nú ekki um að fylgjast með pínulitlum ungum í tugatali stíga sín fyrstu áttfætluskref á húsveggnum. Náttúran er undursamleg, og það þarf ekki að fara langt til að njóta hennar.

Eitt sinn bjó ég í Ástralíu. Í því góða landi er mikið köngulóaval. Ég játa að þær voru mis-skemmtilegar í viðkynningu. Rauðbökurnar (Latrodectus hasseltii) héldu til í garðskúrnum mínum. Það var eins gott að halda sér í hæfilegri fjarlægð frá þeim, því stunga þessara áttfættu andfætlinga er eitruð þótt smáar séu þær. Hins vegar eru þær gullfallegar. Á stofuveggnum birtust hins vegar stundum stórar hlussur af allt annarri tegund, huntsman (Holconia immanis). Þótt þær hefðu kannski ekki útlitið með sér voru þær ágætar þegar maður kynntist þeim betur. Voru duglegar í að halda heimilinu lausu við ýmis skordýr, sem líka var nóg af þarna í landinu undir niðri.

En aftur til Íslands. Óskiljanlegur finnst mér annar fylgifiskur hins reykvíska sumars: Auglýsingar frá mönnum sem vilja ólmir fá að eitra fyrir blessuðum köngulónum! Þær birtast um sama leyti og köngulærnar. Greinilega er markaður fyrir svona lagað. En þarna er margs að gæta. Á sama tíma og landsmenn kvarta hástöfum yfir ýmsum pöddum, svo sem geitungum og nú síðast lúsmýi, er eitrað fyrir köngulóm, sem gera engum nema flugum mein! Kannski hefur það fólk sem heldur eiturbrösurunum uppi með viðskiptum við þá ekki hugsað þetta alveg til enda?

Almennt finnst mér afar ógeðfelld tilhugsun að úða eitri yfir hús og garða, af hvaða tilefni sem það kann að vera, en þetta lítur út eins og hrein heimska þegar köngulær eru annars vegar. Hættum þessu eiturbixi og njótum sumarsins með köngulónum.

Tollheimta við þjóðveginn

Karl Benediktsson, apríl 8, 2014

Þegar ég sá myndir í fjölmiðlum nýlega af kuldagallaklæddum hliðvörðum við Geysi í Haukadal reikaði hugurinn til baka um tuttugu ár. Þá dvaldi ég um níu mánaða skeið við rannsóknir í því fallega (en fátæka) landi, Papúu Nýju-Gíneu. Frá PNG 1994

Ég bjó í þorpi ofarlega í Asarodal, í hálöndunum svokölluðu og hafði lítinn pallbíl til umráða. Vegir eru lélegir á þessum slóðum. Flestir höfðu þeir verið lagðir á nýlendutímanum, en landið hlaut sjálfstæði fyrir réttum fjörutíu árum. Síðan hafði regnið unnið sitt starf óslitið, en viðhald hafði verið af skornum skammti. Vegirnir voru því illir yfirferðar og oft nánast ófærir. Brýr voru margar hrörlegar orðnar og vantaði jafnvel hluta brúargólfsins. Að sjálfsögðu hafði þetta ástand lamandi áhrif á samgöngur og þar með á efnahags- og mannlífið í þessum annars gjöfula dal.

Af og til dró til tíðinda við sumar af hinum götóttu brúm. Ungir menn úr nærliggjandi þorpi tóku sig þá til, hjuggu nokkur tré og lögðu trjábolina yfir götin. Svo stóðu þeir vörð við veginn og innheimtu tveggja kína brúartoll af hverju ökutæki sem vildi komast yfir. Þetta voru kraftalegir strákar, gjarnan í götóttum gallabuxum og svörtum bolum með AC/DC merki framan á og sveðju í hönd.

Ég átti erfitt með að sætta mig við þetta einkaframtak. Ekki vegna þess að ég hefði ekki efni á því að borga tollinn, heldur vegna þess að þetta braut í bága við mín eigin grundvallarsjónarmið. Samkvæmt minni sýn á heiminn tilheyra vegir og brýr þeim innviðum sem samfélagið hefur komið sér upp í sameiningu og eiga að vera til afnota fyrir alla, enda kostaðir úr sameiginlegum sjóðum. Ég reyndi því að forðast þessa staði þegar ég vissi að eitthvað svona væri í gangi, en þegar það var ekki hægt lenti ég oft í heilmiklu þrasi við hina sjálfskipuðu brúarverði. Talsverður æsingur fylgdi oft samkomunni. Ósjaldan lagði megna áfengislykt af brúarvörðunum, í bland við ilminn af Cannabis sativa.

Einnig í Haukadal hafa „heimamenn“ tekið lögin í sínar hendur, með þeirri réttlætingu (í orði kveðnu) að ríkisvaldið hafi ekki staðið sig í stykkinu við að byggja upp innviði svæðisins til að búa það undir þann herskara sem þangað kemur á hverjum einasta degi.

En þarna við Geysi er þetta ekki spurning um að innheimta einhverja túkalla yfir daginn, svona rétt til að geta keypt nokkrar bjórkippur til viðbótar. Nei, við erum að tala um verulega fjármuni. Því er haldið fram að þetta sé allt í göfugum náttúruverndartilgangi gert. Kannski er það rétt – ef til stendur að leggja gangstígana ítölskum marmara og setja upp keðjur úr skíra gulli til að fólk detti ekki í hverina. Hveragufa er auðvitað tærandi, svo það er eins gott að nota almennilega eðalmálma.

Við Geysi snúast upphæðirnar nefnilega ekki um milljónir, og ekki um tugi milljóna, heldur hundruð milljóna króna á ársgrundvelli. Hver heilvita maður sér að þeir sem fara fyrir innheimtu við Geysi ætla sér einfaldlega að græða – heilan helling – á því að selja aðgang að náttúruskoðun, á stað sem er í þokkabót í ríkiseigu að hluta. Þetta er ömurleg þróun í landi þar sem frjáls aðgangur að náttúrunni hefur verið álitinn sjálfsögð samfélagsleg gæði til þessa. Almannarétturinn á sér djúpar rætur í íslenskri sögu og var ákvæði um hann að finna í Jónsbók. Síðan sérstök lög voru fyrst sett um náttúruvernd árið 1956 hafa þar verið ákvæði um þessi efni.

Vissulega hefur íslenska ríkið staðið sig afspyrnu illa við hlúa að vinsælum ferðamannastöðum, hvort heldur þeir eru í eigu ríkisins eða annarra aðila. Ríkið hefur enn fremur vanrækt að búa vaxandi ferðamennsku viðunandi umgjörð, þannig að fjármagn renni til náttúruverndar og endurbóta á áfangastöðum í takt við fjölgun ferðafólks. Þessu verður að breyta, en það verður að gera á máta sem ekki gengur í berhögg við almannaréttinn og við sómatilfinningu landsmanna sjálfra.

Frá mínum bæjardyrum séð er unnt að gera þetta með nokkrum ólíkum leiðum. Í fyrsta lagi þarf einfaldlega að veita hluta þess drjúga fjár sem ferðaþjónustan sjálf skilar nú þegar til sameiginlegra sjóða til bráðnauðsynlegra verkefna á ferðamannastöðum. Reyndar mætti minna á það í leiðinni að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu er af einhverjum undarlegum orsökum einungis 7%. Engar skynsamlegar ástæður liggja að baki því að ferðaþjónustan fái slíkan skattaafslátt. Í öðru lagi þurfa ferðaþjónustufyrirtæki sem selja náttúru og landslag að greiða fyrir aðgang að þessari sameign okkar – nokkurs konar auðlindagjald. Einkum er þetta borðleggjandi á þeim svæðum sem ríkið sjálft hefur verndað. Dugi þetta ekki til má vel hugsa sér komugjald sem lagt væri ofan á farmiða til landsins.

Þegar ég ber þessi tvö dæmi saman hallast ég að því að strákarnir í Asarodal hafi átt sér mun betri málstað en tollheimtumennirnir í Haukadal. Á Papúu Nýju-Gíneu er ríkisvaldið sannarlega vanmáttugt og pólitísk umræða veikburða. Tækifæri almennra íbúa til að hafa áhrif á gang mála eru takmörkuð. Á Íslandi höfum við hins vegar alla burði til að skipa málum á geðfelldari hátt en með því að reisa tollheimtuskúra út um allar koppagrundir. Stöndum á rétti okkar til aðgangs að náttúru landsins, gerum þá kröfu á stjórnvöld að þau stöðvi ólöglega gjaldtöku þegar í stað, en sinni náttúrunni og verndun hennar af þeim myndarskap sem hún á skilið.

Sjúkrahús og flugvöllur: Tvö landfræðileg deilumál

Karl Benediktsson, september 22, 2013

Spitali

Enn er deilt um hvort flugvöllurinn í Vatnsmýri skuli vera eða fara. Í nýafstaðinni undirskriftasöfnun var mikið gert úr nálægð vallarins við Landspítalann – annað fyrirbæri hvers staðsetning hefur ekki verið óumdeild. Ég hef átt dálítið erfitt með að mynda mér sterkar skoðanir í þessum tveimur málum, en nú held ég að niðurstaðan sé komin.

Ég hef sannfærst um að það væri ekki rétt að byggja nýjan spítala á lóð þess gamla við Hringbraut. Betri staður væri vestanverður Ártúnshöfðinn, nánar tiltekið svæðið þar sem nú eru aðallega steypustöðvar og bílasölur. Kostur þessarar staðsetningar er ótvírætt sá hversu vel þetta liggur við samgöngum og byggð (sjá kort). Þarna er Vesturlandsvegurinn við hliðina og Suðurlandsvegur kemur inn á hann ögn austar. Fyrir þann stóra hluta landsins sem reiðir sig á landsamgöngur við höfuðborgina (þar með talið sjúkraflutninga með bílum) er þetta mun betri staðsetning en við Hringbraut. Fyrir höfuðborgarsvæðið sjálft þýðir þetta líka betra aðgengi fleira fólks að spítalanum. Þungamiðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu liggur í Fossvogi. Það kemur ekki til með að breytast verulega þótt skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi nú góðu heilli snúið frá úthverfavæðingu og unnið sé að því að þétta byggðina vestan Elliðaáa. Og þarna á Höfðanum er (ennþá) nægt landrými. Landfrek starfsemi eins og steypustöðvar og bílasölur er þeirrar náttúru að hún flyst gjarnan út í jaðar þéttbýlisins. Það er því einungis spurning um tíma hvenær landnotkun á þessu svæði tekur að breytast, svipað og gerst hefur á mörgum fyrri iðnaðarsvæðum innar í borginni.

Þessi hugmynd er ekki gallalaus samt sem áður. Húsakynnin sem fyrir eru við Hringbraut myndu til dæmis að sjálfsögðu ekki nýtast spítalanum. Þeim þyrfti að finna ný hlutverk. Talsvert hefur einnig verið gert úr nálægð Hringbrautarsvæðisins við aðallóð Háskóla Íslands og þeim möguleikum sem þetta skapar á frjóu samstarfi. Þetta held ég að sé ekki sérlega mikilvægt atriði á okkar rafrænu samskiptatímum. Og helstu strætóleiðir tengja vel saman háskólasvæðið og Ártúnshöfðann.

Og þá er það flugvöllurinn. Öllum held ég að sé ljóst að flugið verður ekki í Vatnsmýri um óendanlega framtíð. Þarna er prýðilegt borgarland fyrir framtíðina. Ég er nú samt satt að segja afskaplega feginn að svæðið lenti ekki í höndunum á óðum peningamönnum á forhrunsárunum – við hefðum endað með afskaplega ljóta og óvandaða byggð er ég hræddur um. Og fyrir mér má alveg dragast í nokkur ár enn að flytja flugið. Á meðan gefst tími til að læra betur að fóta sig í borgarskipulagi og borgarhönnun. En að lokum mun flugið flytja til Keflavíkur. Þaðan er beinn og breiður vegur á spítalann sem yfirvöld munu byggja á Ártúnshöfða þegar þau fatta þessi landfræðilegu rök mín.

Frá Mahidol-háskóla, Bangkok

Karl Benediktsson, júní 1, 2013

Í maí átti ég þess kost að heimsækja Mahidol-háskóla, sem er í vesturhverfum thailensku höfuðborgarinnar Bangkok. Gestgjafi minn þar, dr. Sittipong Dilokwanich, starfar við Umhverfis- og auðlindadeild skólans og var til skamms tíma deildarforseti. Athygli mína vakti hversu framsækinn og frumlegur þessi skóli, og sérstaklega þessi tiltekna deild, hefur verið í umhverfismálum. Meðal annars gefst nemendum og starfsfólki kostur á að fá reiðhjól til ókeypis afnota á háskólalóðinni. Hvenær gerist það við Háskóla Íslands?

Bikes available for free use by students and staff at Mahidol University

Reiðhjól til afnota fyrir nemendur og starfsfólk Mahidol-háskóla

Ekki var síður skemmtilegt að sjá að í einu horni háskólalóðarinnar hafði verið tekið frá svæði til grænmetisræktunar. Það er leigt út til smábænda sem skuldbinda sig til að hafa á boðstólum úrvals grænmeti á sanngjörnu verði fyrir starfsfólk og nemendur, ræktað samkvæmt kúnstarinnar reglum um lífræna ræktun. Þetta væri kannski dálítið erfiðara að framkvæma við HÍ, en þó má til dæmis hugsa um skeifuna fyrir framan Aðalbyggingu í þessu sambandi...?

Dr. Sittipong Dilokwanich at the organic university garden

Dr. Sittipong Dilokwanich við lífræna háskólagarðinn

ISS – skiptir ræstingafólk nokkru máli?

Karl Benediktsson, janúar 27, 2013

Nú um síðustu áramót var skipt um fólk í ræstingateyminu hér í Öskju. Þetta hefur gerst með vissu millibili á undanförnum árum. Maður heyrir ótrúlega fjölbreytt tungumál töluð af ræstingafólkinu, sem án undantekninga hefur reynst ljúft fólk og skemmtilegt þegar maður fer að þekkja það aðeins. Fyrst voru ‚innfæddir‘ Íslendingar í þessum störfum, ásamt fólki frá Víetnam sem sest hafði að hér á landi til frambúðar. Svo kom pólskt teymi til starfa. Síðan tók við starfsfólk frá Litháen. Ég hef ekki enn fundið út hvert upprunaland þeirra er sem tilheyra núverandi ræstingateymi. En það er brosmilt og þægilegt í umgengni eins og fyrirrennarar þeirra.

Þetta er auðvitað ein birtingarmynd hnattvæðingarinnar margumræddu. Frjálst flæði vinnuafls um heiminn og allt það. En það er eitthvað í þessu sem nagar mig ofurlítið. Áður var ræstingafólkið ráðið til stofnunarinnar sjálfrar. Síðan var þessu verkefni útvistað í nafni hagræðingar og sparnaðar. Og við vitum ekki hvað verktakarnir eru að hugsa. Getur það verið að fólki sé einfaldlega sagt upp reglulega, áður en það fer að gera of miklar kröfur um kjör sín, til þess að geta sett til verka nýja og meðfærilega starfsmenn? Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað það hefur í laun – vil nú helst trúa því að kjarasamningum sé fylgt, en kæmi þá svo sem ekki á óvart að taxtinn væri allsber lágmarkstaxti. Og lágmarkslaun á Íslandi standa undir nafni – þau eru í algeru lágmarki.

Hugtakið „samfélagsleg ábyrgð“ er nokkuð sem fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir skreyta sig með. Held meira að segja að ég hafi heyrt stjórnendur Háskóla Íslands taka sér þau í munn. Skyldi þessi breyting á tilhögun ræstinga á sínum tíma hafa verið liður í að auka samfélagslega ábyrgð háskólans? Ég veit það ekki.

Upplýsingarstefnan í 101

Karl Benediktsson, september 25, 2012

Í Þingholtunum er mælikvarði byggðarinnar er mannlegur, ólíkt því sem gerist í sumum öðrum hverfum borgarinnar. Götur eru gamlar og þröngar, bílaumferð er ekki hröð og margir fara leiðar sinnar gangandi eða hjólandi. Það er hins vegar undarlegt að við vissar götur, t.d. mína eigin götu Þingholtsstrætið, hafa fyrir margt löngu verið reistir ljósastaurar sem hver hraðbraut gæti verið fullsæmd af. Háir drjólar sem teygja ljósker sín langt út yfir götuna sjálfa, hátt yfir höfðum fólks. Utan við mitt hús stendur einn slíkur, meira að segja með heljarinnar biðskyldumerki um sig miðjan svona til að maður taki örugglega eftir honum. Þarna mætti með einföldum hætti gera borgarumhverfið hlýlegra og notalegra fyrir bæði íbúa og gesti með því að hanna öðruvísi ljós. Gjarnan mætti hönnunin vísa í fortíð þessa söguríka hverfis með einhverjum hætti, en umfram allt skipta út hraðbrautarljósastaurunum. Það þarf nýja upplýsingarstefnu í 101 Reykjavík.

Samfélagslegar hliðar fiskveiðistjórnunar

Karl Benediktsson, júní 14, 2012

Einu sinni enn er sjávarútvegurinn í brennidepli hinnar pólitísku umræðu í landinu. Og enn eina ferðina er oft meiri hávaði en upplýsing í umræðunni. Fyrir nokkrum dögum sendi hópur félagsvísindafólks - þar á meðal ég sjálfur - bréf til forsætisráðherra, með áskorun um að gerð verði vönduð fræðileg heildarúttekt á samfélagslegum hliðum fiskveiðistjórnunar. Okkur finnst að þessum mikilvæga þætti hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Umræðan um fiskveiðistjórnun fer fram á þröngum forsendum hagfræði og lagatæknilegra sjónarmiða. Þetta er því óheppilegra sem hinar samfélagslegu spurningar eru alltaf í bakgrunni þegar þessi mál eru rædd. Mikið er rifist en litlar rannsóknir liggja að baki. Hvaða áhrif hefur kvótakerfið t.d. í raun haft á byggðaþróun? Þetta er mikilvæg landfræðileg spurning, sem þó hefur ekki verið svarað til hlítar með rannsóknum. Né hafa þær félagsvísindalegu rannsóknir á sjávarútvegi, sem þó hafa verið gerðar, fundið sér leið inn í umræðuna. Þessu viljum við breyta.

National Purist Routes

Karl Benediktsson, mars 5, 2012

Á síðasta ári tóku hús á mér tveir arkitektanemar frá Noregi, þau Mathias Kempton og Gislunn Halfdanardottir. Þau voru að undirbúa lokaverkefni sitt í meistaranámi við Arkitekta- og hönnunarskólann í Osló, sem snerist um landslag, ferðamennsku og orkumál á Íslandi, ekki síst í ljósi (eða skugga) deilnanna um Kárahnjúkavirkjun. Við áttum gott spjall og mér fundust pælingar þeirra mjög athyglisverðar. Og nú er verkefnið þeirra komið út: National Purist Routes: Industrial Expansion and Moving Icelandic Landscapes. Þar setja þau meðal annars fram hugmyndir um framsæknari og fjölbreyttari nýtingu íslenskrar orku en birtist í Kárahnjúkaverkefninu. Orkueyðibýli, kræklingar í netsambandi, upphitaðir sólbaðsvellir á Þeistareykjum og endurreist Eden („drive-in Paradise“) í Hveragerði eru meðal þeirra hugmynda sem þau viðra. Þau setja meðal annars spurningar við hugmyndafræði nýlokinnar Rammaáætlunar um vernd of nýtingu náttúrusvæða og vilja meina að það sé ekki sérlega snjallt að hugsa um heiminn í niðurnjörvuðum hugtökum eins og „manngert“ og „náttúrlegt“. Virkilega flott og ögrandi verkefni.

Selfoss, skipulag, græðgi

Karl Benediktsson, febrúar 23, 2012

Reykjavík forhrunsáranna var ein allsherjar sorgarsaga skipulagsslysa. Því grátlegra er að á þessum síðustu og bestu tímum er ein skipulagsvitleysan enn komin á framkvæmdastig á Selfossi. Þetta er frekar stórvaxin verslunarmiðstöð, sem kátir kaupahéðnar hyggjast reisa vestan Ölfusár, á gatnamótum Biskupstungnabrautar og Suðurlandsvegar.

Hvers vegna eru þetta mistök frá sjónarhóli skipulags? Vegna þess að þetta gerir Selfoss að verri bæ en hann þyrfti að vera fyrir íbúana sjálfa. Öll fræði mæla með því að þétta byggð og gera hana þannig úr garði að fólk geti sótt verslun og þjónustu án þess endilega að setjast upp í bílinn. Nýlega var fjallað um Selfoss og skipulag þar í vandaðri meistararitgerð Hrafnhildar Brynjólfsdóttur við Háskólann í Reykjavík. Þar er margt athyglisvert dregið fram.

Mér stendur ekki á sama. Ég bjó í tvö ár á Selfossi.