Category: Uncategorized

Nýtt hefti af Landabréfinu – tímariti Félags landfræðinga

Karl Benediktsson, janúar 12, 2012

Nýlega skreið úr prentvélunum nýtt hefti af Landabréfinu – tímariti Félags landfræðinga. Að þessu sinni var gefið út sérhefti um náttúrutengda ferðamennsku, með Gunnþóru Ólafsdóttur sem sérstakan ritstjóra. Efnið kemur frá ráðstefnu og listsýningu sem haldin var í Reykjavík snemma árs 2011. Allt er tímaritið á ensku að þessu sinni og hópur höfunda er afar alþjóðlegur. Til dæmis á hinn þekkti bandaríski rithöfundur Lucy Lippard umhugsunarverða grein um áhrif ferðamennsku á staði. Við erum rígmontin, enda ástæða til. Og svo snöruðum við upp heimasíðu fyrir tímaritið, þannig að framtíðin verður vefræn. Vonandi getum við samt enn gefið það út á pappír líka...

Klemma kóríanderætunnar

Karl Benediktsson, nóvember 27, 2011

Mér þykir ferskt kóríander (Coriandrum sativum) sérstaklega gott og nota það mikið í matseld. En í stórmarkaðnum þar sem ég kaupi mestmegnis í matinn (Bónus) fæst einungis ferskt kóríander (og annað ferskt krydd) frá Ísrael. Ég hef hreint ekki lyst á að kaupa það. Kannski var það ræktað á landi sem tekið var með ísraelsku hervaldi af Palestínumönnum? Ég verð að reyna annars staðar. Það er erfitt að vera neytandi á þessum síðustu og verstu.

Hjólað á vegum Vegagerðarinnar

Karl Benediktsson, nóvember 7, 2011

Á föstudaginn  var ég ásamt Davíð Arnari Stefánssyni, meistaranema og hjólabloggara, með erindi á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar. Við sögðum frá verkefni okkar um gæði hjólaleiða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var eina erindið um hjólreiðar á ráðstefnunni, sem er til vitnis um þá staðreynd að hjólreiðar hafa ekki verið teknar sérlega alvarlega sem samgöngumáti hérlendis fram til þessa. Og sannarlega ekki utan borgarmarkanna. Maður finnur næstum til með því hjólreiðafólki sem hættir sér út á mjóa þjóðvegi landsins á sumrin. Engar hjólabrautir þar, ekki einu sinni malbikaðar axlir til að hjóla eftir. Hins vegar verður æ algengara að reiðvegir séu lagðir meðfram þjóðvegum. Endurspeglar þetta mismun á slagkrafti þessara tveggja hagsmunahópa – hestamanna og hjólreiðafólks – eða er skorturinn á innviðum fyrir hjólreiðar bara afleiðing af viðhorfum veghönnuða?

Af Skagaströnd

Karl Benediktsson, október 17, 2011

Í síðustu viku fórum við Guðrún Gísladóttir, kollegi minn, ásamt fríðum flokki stúdenta í landfræði og ferðamálafræði í fimm daga námsferð. Slík ferð er farin ár hvert með nemendur sem eru komnir á þriðja ár í grunnnámi og var hópurinn óvenju stór að þessu sinni, eða 58 manns. Stúdentarnir afla gagna fyrir margvísleg verkefni, sem þeir velja sjálfir með tilliti til áhuga síns innan þess fags sem þeir eru að læra. Að þessu sinni var Austur-Húnavatnssýsla könnuð frá mörgum hliðum. Svo dæmi séu tekin spönnuðu verkefni landfræðinema allt frá gróðurfari á Skaga til umhverfisstjórnunar í fyrirtækjum á svæðinu, og verkefni ferðamálafræðinema fjölluðu um allt frá möguleikum til fuglaskoðunar á Norðurlandi vestra til ímyndar þéttbýlisstaðanna Skagastrandar og Blönduóss.

Við höfðum einmitt bækistöð á Skagaströnd. Og ég held ég verði að ljóstra því upp að ímynd þess ágæta staðar var frekar óljós í mínum huga fyrir ferðina. Jú, ég mundi eftir staðnum frá upphafi frystitogaravæðingarinnar, og svo tengdi maður Skagaströnd auðvitað við Hallbjörn Hjartarson og kántrýtónlist, eins og sennilega flestir landsmenn.

En ímyndin breyttist. Á Skagaströnd fundum við mjög áhugavert og að mörgu leyti framsækið lítið pláss, þar sem fólk hefur fitjað upp á ótrúlega frjóum og frumlegum hlutum til að treysta tilveru sína. Sjávarlíftæknisetrið BioPol er eitt af þessu. Ekki síður frumlegt er listamiðstöðin Nes, þar sem listamenn úr öllum heimshornum dvelja og vinna að list sinni. Við lögðum einmitt ítalska listamanninum Dario Lazzaretto lið í hljóðlistaverki sem hann er að gera um Ísland sem land hins stöðuga neyðarástands... Og í þessu 500 manna þorpi hefur líka Háskóli Íslands sett upp eitt af rannsóknasetrum sínum, sem starfar raunar á öllu Norðurlandi vestra. Setrið sinnir einkum rannsóknum í sagnfræði og öðrum hugvísindum. Afar áhugaverður staður þegar öllu er á botninn hvolft, Skagaströnd.

 

 

Takk fyrir sjávarafurðirnar?

Karl Benediktsson, júní 21, 2011

Mikið er rætt um fiskveiðistjórnunarkerfi þessa dagana - og þau geta sannarlega haft mikil áhrif! Íslendingar eru ekki þeir einu sem hafa áhuga á þessu málefni. Í dag tók ég þátt í vef-fyrirlestri til Nýfundnalands ásamt Önnu Karlsdóttur, kollega mínum við HÍ. Efnið var nýlega útkomin grein okkar Önnu, um íslensku bankabóluna og hrunið, sem og þátt framseljanlegs kvóta í fiskveiðum í að ýta bólunnni illræmdu af stað. Greinina má skoða hér.

Ágengar (framandi) lífverur

Karl Benediktsson, janúar 23, 2011
Dálítið stormviðri hefur geisað undanfarið hér á landi vegna endurskoðunar á náttúruverndarlögum, sem stendur yfir. Skógræktarfólk andmælir ákvæðum um "ágengar framandi tegundir" sem lagt er til að setja inn í lögin. Vistfræðingar andmæla andmælum þeirra og færa fram sannleik sinna vísinda.
Ég hef lengst af verið heldur smeykur við "ágengar (framandi) tegundir" í "íslenskri" náttúru. Kannski skrifast það að hluta á fræðilegt uppeldi mitt á Nýja Sjálandi og í Ástralíu. Þar eru ummerki vistfræðilegrar heimsvaldastefnu auðsæ. En... ég get samt ekki varist þeirri hugsun að hér á Íslandi séu fulltrúar beggja sjónarmiða fastir í einhvers konar skotgröfum. Annað hvort ELSKAR þú eða HATAR alaskalúpínuna, sitkagrenið, spánarkerfilinn og stafafuruna. Ákveddu þig! NÚNA!
Var að enda við að lesa mjög fína grein eftir breskan landfræðing um þessi efni. Hann sýnir fram á að hugtakið "framandi" er harla vandmeðfarið og raunar ónothæft í þessu samhengi. Í staðinn vill hann að við einbeitum okkur að þeim skaða sem aðkomnar plöntu- eða dýrategundir kunna að valda lífríkinu sem fyrir er.
Það sem er áhugaverðast í þessu sambandi er hvernig umræðurnar leiða í ljós að náttúran er - alltaf - félagslega smíðaður raunveruleiki. Samfélagsleg gildi eru hluti af allri umræðu um náttúruna. Gildir þá einu hvort við tilheyrum kampi skógræktarfólks eða vistfræðinga.

Tími til kominn!

Karl Benediktsson, desember 15, 2010

Tillaga er komin fram á Alþingi um að seinka klukkunni um einn tíma til að færa landið nær því tímabelti sem það er í. Hádegi yrði þannig á... hádegi, eða því sem næst. Fólk eins og ég ætti auðveldara með að þreyja skammdegið með sínum annars myrku morgnum. Þetta er góð tillaga. Við erum þrátt fyrir allt líkamlegar og jarðneskar verur og andleg og líkamleg líðan okkar er háð umhverfinu. Ef við eigum kost á því að stilla samfélagið allt betur í takt við sólarganginn eigum við að sjálfsögðu að gera það.

Stundum er teflt fram gagnstæðum rökum, sér í lagi af fólki sem tengist viðskiptalífinu, sem vill stilla betur saman íslenskan tíma við helstu viðskiptalönd á meginlandi Evrópu. Þau rök eru stundum færð fram að það gangi alveg í Galisíu á NV-Spáni að vera í "röngu" tímabelti (Mið-Evróputíma) og enginn munur sé á líðan Galisíumanna og Portúgala þótt þeir síðarnefndu séu klukkutíma á eftir. En þá má spyrja: Hví velja Portúgalar ekki að fylgja Mið-Evróputíma? Það hlýtur að baka þeim ærin óþægindi í viðskiptum við nágrannana á Spáni að vera á öðrum tíma. En - Portúgalar kjósa samt að stilla klukkuna nokkurn veginn "rétt".

Segiði svo að landfræði skipti ekki máli!

Samræður við landslag

Karl Benediktsson, desember 6, 2010

Þetta er titillinn á bók sem var að koma út hjá Ashgate-forlaginu breska og ritstýrt af þeim sem hér hamrar hnappa, ásamt Katrínu Önnu Lund. Fjallar um landslag og landslagsfræði út frá því sjónarmiði að tengsl fólks og landslags séu gagnvirkari en oft er ætlað - landslagið (og í víðara skilningi hið 'ómennska' umhverfi) talar til þess sem dvelur í því. Þetta er dálítið önnur nálgun en sú sem algeng er, nefnilega að líta á landslag og náttúru sem hlutlægan og mælanlegan veruleika utan þess sem á horfir (eða flokkar, mælir etc.). Við erum með einvala lið innlends og erlends fræðifólks í bókinni, sem er – þótt ég segi sjálfur frá – déskoti fín... 😉 Sjá nánar hér.

Ferðafólk og gos

Karl Benediktsson, nóvember 2, 2010

Á föstudaginn var haldin ráðstefna við Háskóla Íslands, þar sem ég kynnti vangaveltur um samband ferðamennsku og áhættu, sem og um áhrif eldsumbrotanna fyrr á árinu á erlent ferðafólk sem hingað kom í sumar. Erindið var byggt á litlu verkefni sem ég vann í sumar ásamt Katrínu Lund og Tainu Mustonen. Við lögðum spurningalista fyrir allmarga ferðamenn og komumst að því að  þessir atburðir hafa sennilega frekar aukið við aðdráttarafl landsins sem áfangastaðar fyrir náttúruferðamennsku heldur en að þeir hafi dregið úr því, þrátt fyrir myndir af ösku í byggðum sunnanlands og tafir á flugumferð í Evrópu. Grein sem við skrifuðum fyrir ráðstefnuna er nú aðgengileg á Skemmunni: The impact of the Eyjafjallajökull eruption on international tourists in Iceland.

Fjöll í Evrópu

Karl Benediktsson, október 7, 2010

Nýútkomin skýrsla evrópsku umhverfisstofnunarinnar, Europe's ecological backbone: recognising the true value of our mountains, hefur að geyma margvíslegan fróðleik um fjallasvæði Evrópu og þær breytingar í náttúru og samfélagi sem hafa áhrif á þau. Ég á þar stuttan pistil um þróun landnýtingar á miðhálendi Íslands.