Smásaga
"Launsátur minningar"
Nóvember dag einn árið 2017 fékk ég tölvupóst frá ritstjóra Iceview. Tímariti um íslenska menningu og listir (sjá t.d.: https://ktbrowne.com/iceviewmagazine ). Erindið var að spyrja hvort ég ætti efni, prósa í ritið sem birtast átti á árinu 2018. Ég útbjó sem smásögu texta sem ég átti í handraðanum af því að ég hafði ekki tök á þessum tímapunkti til að búa til eitthvað alveg nýtt til að ná að senda þeim tímanlega, enda á kafi í vinnu á þessum tíma í krefjandi fræðistörfum. Ég sendi þeim smásöguna og það er skemmst frá því að segja að hún fékk góðar viðtökur hjá þeim sem unnu að þessu skemmtilega tvímála tímariti, þar sem efni er birt bæði á íslensku og ensku. Í þessari sögu vinn ég með þema sem mér er hugleikið, þ.e. minningar og hvernig þær geta sprottið upp ef eitthvað eða einhver í umhverfinu vekur þær upp úr óminnishafinu sem við notum og beitum meðvitað og ómeðvitað til að komast af og í gegnum lífið, ekki síst þegar málið snýst um erfiða lífsreynslu, og kallast gleymska. En sumt gleymist ekki heldur geymist, og þegar við mætum því getur lífið orðið smá snúið í dagstund eða svo og jafnvel lengur, og þá er listin að kunna eða að minnsta kosti að reyna að bregðast við með þeim hætti að skaðinn sé sem minnstur af sársauka þeim sem lífsreynslan sem munstruð er í minninguna getur valdið, ef við veitum ekki viðnám.
Skáldsaga
Ævintýri um dauðann og saga af venjulegu fólki
Bók mánaðarins í Eymundsson ágúst 2016
Ég sé hana þó aðrir geri það ekki. Þannig byrjaði þessi skáldsaga í huga mér. Ég sá fyrir mér karlmann sem elskar konu sem er honum glötuð og hann henni. Og síðan spannst söguþráður uns til varð sagan sem kom út 3. ágúst 2016 hjá bókaforlaginu Bjarti. Bókin var bók mánaðarins í ágúst 2016 í Eymundsson.
Skáldsaga
Það kemur alltaf nýr dagur
Bók mánaðarins í Eymundsson í júní 2012: Bokmanadarins_FBL
“Hafið þið heyrti hvininn sem myndast þegar stálvír slitnar?” Svo hljóðar fyrsta setninginn í bókinni minni. Og svo hefst sagan. Það var þannig þessi mynd af því þegar níðsterkt efni slitnar svo það myndast þetta sérkennilega hljóð sem hljómar eins og stálið kveinki sér sem var kveikjan að sögunni minni. Þannig getur skáldsaga kviknað af leifturhugmynd sem enn er án sögupersóna og sögusviðs. Það er að vísu ofsagt að ekki hafi verið kviknuð hugmynd að aðalsögupersónunni. Óljós mynd af henni var komin og sömuleiðis löngum mín til að segja sögu hennar, því mér fannst sú saga, þótt skálduð sé, eiga sér svo margar skírskotanir í lífinu sjálfu í samtíma okkar, eins og fólk þarf að glíma við það, í margbreytileika þess, gleði og sorgum og ófyrirsjáanleika. Lífið er gjöfult en það getur líka verið meinhrekkjótt. Þannig reyndist það aðalsögupersónunni minni. Hún var með plan, búin að skipuleggja lífið. Allt átti að ganga fyrirsjáanlega. En við erum aldrei allsráðandi, annað fólk hefur áhrif á hvaða stefnu líf okkar tekur og stundum með mjög róttækum hætti. Því var þannig farið hjá konunni sem sagan mín fjallar um. Hún var með sitt plan á hreinu, eins og áður sagði, hún taldi sig vera komna í höfn og lifa í því tilfinningalega skjóli sem hún taldi sig ekki geta lifað án, en svo var fjandinn laus.
Skáldsagan mín er saga um tilfinningar. Mér hefur alltaf þótt sá þáttur í manninum áhugaverður og litríkur. Tilfinningar eru sterkasta aflið og þær eru margskonar. Þær móta okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þær kasta okkur klettanna á milli ef þær eru sterkar og þær leiða okkur í gegnum lífið með einum og öðrum hætti, hvort sem það er til gæfu eða ógæfu, og spila þar saman tilfinningar og einhvers konar vilji og jafnvel óvilji. Við gerum stundum hluti sem við viljum í raun ekki gera eða að gerist en gerum samt sem viðbrögð við einhverri líðan og eins oft er sú líðan með forskeyti. Þannig eru þær systur vellíðanin og vanlíðanin örlagavaldar í lífi okkar og það virðist ekki alltaf vera á okkar valdi að stjórna því hvora þeirra við fáum í okkar hlut og í hve stórum skömmtum. Við fáum aldrei við allt ráðið. Lífsdraumurinn er alltaf sá að sigla á lygnum sjó, hamingjusamlega og í sátt við lífið og samferðafólk og viðleitni okkar miðast mikið að því að ná því markmiði. Það gengur misvel enda er lífið stundum töluverð brekka og stundum koma tímabil þar sem við erum fremur eins og leiksoppar örlganna en völd að þeim.
Sagan mín fjallar líka um sterkasta aflið, en jafnframt eitt af því duttlungafyllsta sem við glímum við, aflið með þriggja stafa heitið og hér á ég auðvitað við ást eins og það heitir upp á íslensku. Ástinni getur fylgt það bjartasta sem við upplifum en líka það svartasta. Ástin getur leitt okkur út í torfærur.