Ófrjósemisaðgerðir 1938-75

Rannsókn á áhrifum mannkynbótastefnu á Íslandi og framkvæmd laga nr. 16/1938 um ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar:

Árin 1999-2003 vann ég að rannsókn á framkvæmd laga nr. 16 frá 1938 sem heimiluðu ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar í vissum tilfellum. Í tengslum við það verkefni tók ég þátt í hálfsdagsmálstofu á þingi norrænna sagnfræðinga í Árósum sumarið 2001 undir yfirskriftinni: Ófrjósemisaðgerðir og velferðarkerfið, og skrifaði grein í rit ráðstefnunnar, um hugmyndafræði að baki löggjöf um ófrjósemisaðgerðir á Íslandi. Þátttakendur í fyrrgreindri málstofu ásamt mér voru sagnfræðingar frá öllum hinum Norðurlöndunum sem höfðu rannsakað framkvæmd laga um ófrjósemisaðgerðir hver í sínu landi. Hluti rannsóknar minnar á framkvæmd laga nr. 16/1938 birtist í skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi vorið 2002 vegna fyrirspurnar til heilbrigðisráðherra um framkvæmd fyrrnefndra laga. Ítarlegri umfjöllun og niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar fyrirlestrum árið 2004 og í grein í tímaritinu Sögu árið 2005. (Rannsóknin á lögum nr. 16/1938 var unninn með styrk frá Hagþenki, Heilbrigðisráðuneyti, Nýsköpunarsjóði námsmanna, Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar og styrk dr. Jóns Steffensen.)