Mannkynbætur. Hugmyndir um bætta kynstofna hérlendis og erlendis á 19. og 20. öld
Á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. blómstraði hugmyndafræði sem gekk út á þá meginkenningu að rétt væri að ríkisvaldið stuðlaði að kynbótum manna í þeim tilgangi að þjóðfélög samanstæðu af betra fólki. Málið var að skilja hismið frá kjarnanum að mati mannkynbótasinna og stýra makavali fólks og barneignum til að fjölga þeim kyngóðu og losa mannkynið við þá úrkynjuðu eins og það hét í mannkynbótafræðunum. Mannkynbótastefna var dreifð um allan heim og studd af stjórnmálahreyfingum bæði til hægri og vinstri. Stefnan var mjög lituð af kynþáttahyggju en þó meir í sumum löndum en öðrum. Lengst var gengið í Þýskalandi í þeim efnum eins og þekkt er úr sögu síðari heimstyrjaldarinnar. Hér á Íslandi voru uppi menntamenn sem hrifust mjög af hugmyndum um mannkynbætur og töldu rétt að Íslendingar færu að ráðum kynbótafræðanna til að rækta upp enn betri stofn hjá íslensku þjóðinni og losna við þá sem ekki væru hæfir til undaneldis. Ég fjalla um þessar hugmyndir í bókinni Mannkynbætur, sem Sagnfræðistofnun gaf út árið 1998 undir ritstjórn Gunnar Karlssonar prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Saga mannkynbótastefnunnar hér á landi og tengsl hennar við hinar erlendu rætur og samanburður á milli landa í því sambandi var masterritgerð mín í sagnfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðina bjó ég til útgáfu veturinn og sumarið 1998 og hún kom út um haustið það ár.