Þar sem fossarnir falla

Hlaut viðurkenningu úr Gjöf Jóns Sigurðssonar

Tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis

Tilnefnd til Menningarverðlauna DV

Átök um náttúru Íslands einkenna þjóðfélagsumræðuna í byrjun 21. aldar. Rætur ágreinings um sambúð lands og þjóðar liggja í ýmsum hugmyndastefnum sem mótað hafa náttúrusýn Íslendinga síðustu hundrað árin, eins og rakið er í bókinni Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna 1900-2008.

Bókin er byggð á ítarlegri rannsókn á umræðu um náttúru og vatnsorku á Íslandi og setur íslenska náttúrusýn jafnframt í samhengi við þær stefnur og strauma í vestrænni náttúrusýn sem skipta máli til að skilja þessa sögu. Tvær meginspurningar eru hafðar að leiðarljósi. Annars vegar spurningin um hvernig íslensk náttúrusýn þróaðist frá því um 1900-2008. Hins vegar spurningin um hvaða þættir búa í náttúrusýn Íslendinga sem leiða til þess að djúpstæður ágreiningur hefur verið um vatnsaflsvirkjanir á síðustu árum.

Bókin varpar ljósi á náttúrusýn Íslendinga, á 20. öld og fyrstu árum þeirrar 21., eins og hún birtist í umræðu um nýtingu vatnsaflsins. Grein er gerð fyrir hugmyndum um sambúð lands og þjóðar, og um náttúru- og umhverfisvernd. Fjallað er um umræðu um virkjanir allt frá því um 1900 fram til ársins 2008, og dregið fram hvaða sjónarmið stýra rökum manna með og á móti nýtingu fallvatna.  Fjallað er um viðhorf til fossanna og nýtingar þeirrar á fyrsta fjórðungi 20. aldar, fyrstu hugmyndir um verndun þeirra, sögu umræðu og viðhorfa til Gullfoss allt frá því um 1900 til fyrstu ára 21. aldar og hvern sess hann skipar nú í íslenskri náttúrusýn. Einnig eru dregin fram þau viðhorf til náttúrunnar sem fram komu í Laxárdeilunni í kringum 1970 og í deilunni um Þjórsárver, sem stóð í rúma þrjá áratugi. Síðasti hluti bókarinnar greinir þau viðhorf sem réðu ferðinni í deilunni um Fljótsdalsvirkjun í kringum aldamótin 2000 og síðan um Kárahnjúkavirkjun. Að lokum er þeirri spurningu varpað fram hvort einhver teikn hafi verið uppi, að lokinni hinni hörðu deilu um virkjanir á fyrstu árum þessarar aldar, um að hún hafi breytt einhverju í íslenskri náttúrusýn, þ.e. í afstöðu þjóðarinnar til  nýtingar og verndunar náttúru.

Í bókinni er íslensk náttúrusýn sett í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hvernig erlendar hugmyndastefnur sem snerta sögu viðhorfa til náttúru og umhverfismála hafa haft áhrif á íslenska náttúrusýn síðastliðin 100 ár. Sérstakur gaumur er gefinn að því hvernig nýtingarstefna, rómantíska stefnan, þjóðernishyggja og tilteknir þættir í náttúruverndar- og umhverfisverndarhyggju komu við sögu og mótuðu náttúrusýn Íslendinga á rannsóknartímabilinu.

Rannsóknina byggi ég á nálgun umhverfissögunnar, en þar eru maður og náttúra í brennidepli. Markmið bókarinnar er að draga fram í dagsljósið hvaða viðhorf til náttúrunnar kristallast í virkjanaumræðunni, þ.e. hvers konar mynd af íslenskri náttúrusýn birtist í deilum Íslendinga um virkjanir allt frá því um aldamótin 1900 og fram til þessa.

Rannsóknin er doktorsritgerð við Háskóla Íslands og aðalleiðbeinandi var dr. Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur, og meðleiðbeinendur dr. Gunnar Karlsson sagnfræðingur og dr. Elfar Loftsson stjórnmálafræðingur.

Trausti Jónsson, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofu Íslands og ritstjóri umhverfisritraðar Bókmenntafélagsins, ritstýrði bókinni og Hið íslenska bókmenntafélag gaf hana út árið 2010 í ritröðinni Umhverfisrit Bókmenntafélagsins.

Styrkir:

* Ritið hlaut styrki úr Bókmenntasjóði, Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, Rannís og Gjöf Jóns Sigurðssonar.

Kynning útgefanda:

* „Hér er viðhorfum til íslenskrar náttúru lýst eins og þau birtast í umræðu um vatnsaflsvirkjanir frá því um 1900 til 2008. Fylgt er slóð hugmyndafræðilegra átaka milli þeirra sem lögðu áherslu á virkjun vatnsorkunnar og þeirra sem héldu sjónarmiðum náttúruverndar á lofti. Stundum er nefnt að menn hafi þjóðernissinnaða afstöðu til þessara mála og virðist það sundra þjóðinni í fylkingar. Rætur ágreinings um sambúð lands og þjóðar liggja auk þess í fleiri stefnum sem mótað hafa náttúrusýn Íslendinga síðustu hundrað árin. Fátt virðist hafa breyst á þessum árum. Enn takast á nánast ósamrýmanleg sjónarmið nýtingar og verndunar, byggð á gerólíkri náttúrusýn. Þessi mál er rakin í bókinni. Skemmst er að minnast deilna um Laxá í Aðaldal, virkjun neðri hluta Þjórsár, Fljótsdals- og Kárahnjúkavirkjunar og verndun Þjórsárvera. Ef Draumalandið varð til umhugsunar, er þessi bók ekki síðri.

Hið íslenska bókmenntafélag,  (http://www.hib.is/index.php?s=bokaflokkar&bok=70).

Umsagnir og bókardómar:

* „Átökin um nýtingu náttúrunnar hafa klofið íslenskt samfélag í fylkingar á síðustu árum og munu gera það um ókomna tíð. Þessi bók skýrir sögu eins þáttar þessara átaka, þ.e. baráttunnar um virkjun vatnsaflsins. Hún er skyldulesning fyrir hvern þann sem vill setja sig inn í íslensk þjóðmál á 21. öldinni.“

Dr. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

* „Höfundur varpar skíru ljósi á nokkur helstu ágreiningsmál sem tengst hafa virkjun vatnsfalla hér á landi. Umhugsunarvert er hversu fátt virðist hafa breyst á þeirri öld sem frásögnin spannar. Enn takast á nánast ósamrýmanleg sjónarmið nýtingar og verndunar, byggð á gerólíkri náttúrusýn. Að þessari bók er verulegur fengur fyrir alla sem hafa áhuga á tvíbentu sambandi Íslendinga við náttúru landsins.“

Dr. Karl Benediktsson, prófessor í landfræði við Háskóla Íslands.

* „Kraftmikið fræðirit um djúpstætt ágreiningsmál sem lengi hefur skipt þjóðinni í fylkingar og setur náttúrusýn og orkunýtingu í sögulegt samhengi.

Viðurkenningarráð Hagþenkis,(http://hagthenkir.is/frett/tilnefnd_til_vidurkenningar_hagthenkis_2010).

* „Á áhugaverðan og fróðlegan hátt rekur höfundur breytingar sem urðu á náttúrusýn Íslendinga á rétt rúmri öld, frá hugmyndum landsmanna um þá möguleika og umbætur sem fylgja myndu rafvæðingunni til hugmynda nútímans um friðun náttúru gegn stórfelldri mannvirkjagerð og auðlindanýtingu.“

Dómnefnd í flokki fræða fyrir tilnefningar til Menningarverlauna DV (http://www.dv.is/frettir/2011/2/24/allar-45-tilnefningarnar-til-menningarverdlauna-dv/).

* „Í þessari bók rekur höfundur á mjög áhugaverðan og fróðlegan hátt breytingar sem urðu á náttúrusýn Íslendinga á rétt rúmri öld, frá hugmyndunum um að virkja mætti nánast hvaða fallvatn sem væri til að rafvæða landið, og til nútímans þegar takast á hugmyndir um náttúru- og umvernd annars vegar, og hins vegar nauðsyn á nýtingu og atvinnuuppbyggingu sem fylgja myndi stórfelld mannvirkjagerð. Þetta er mjög þörf og tímabær bók.

Illugi Jökulsson, rithöfundur og blaðamaður, DV 10.3.2011 (http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2011/3/10/vid-thurfum-fleiri-skyrslur/).

* „Í bókinni “Þar sem fossarnir falla” fjallar [Unnur] um hugmyndir landans um fossa  og nýtingu þeirra. Þetta er mjög lærdómsrík lesning, sama hvaða skoðanir sem fólk hefur á nýtingu vatnsafls, jarðvarma og náttúruvernd. Þetta er einmitt dæmi um grandvara og yfirvegaða vinnu fræðimanns, sem í fullkomnum heimi myndi færa umræðuna um nýtingu og náttúruvernd upp á æðra plan. En eins og því miður eru of mörg dæmi um, þá einkennast íslenskar umræður um deilumál af upphrópunum, sleggjudómum og rangfærslum.“

Arnar Pálsson, erfðafræðingur, 22.10.2010 (http://apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/1109042/).

* „Bók Unnar Birnu Karlsdóttur segir mikla og mikilvæga sögu um umgengi okkar við náttúruauðlindir og uppbyggingu atvinnustarfsemi á tuttugustu öld og fram á þá öld sem nú er nýlega hafin. Þetta er áhugaverð og fróðleg samantekt á því hvernig viðhorf manna til náttúru sinnar og virkjanaframkvæmda hafa mótast á þeim tíma frá því Ísland var eitt fátækasta land Evrópu þar til landsmenn töldu sig einhverja auðugustu þjóð heims áður en heldur sljákkaði í fólki eftir eitt stykki bankahrun.

Brynjólfur Þór Guðmundsson, Miðjan.is 21.12.2010 (http://midjan.is/2010/12/21/nattura-a-valdi-virkjana/).