Árin 2001 til 2008 vann ég að rannsókn á náttúrusýn Íslendinga og ritun doktorsritgerðar í sagnfræði við Háskóla Íslands um það efni undir vinnuheitinu Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi. Rannsóknin er byggð á ítarlegri rannsókn á umræðu um náttúru og vatnsorku á Íslandi og setur íslenska náttúrusýn jafnframt í samhengi við þær stefnur og strauma í vestrænni náttúrusýn sem skipta máli til að skilja þessa sögu. Tvær meginspurningar eru hafðar að leiðarljósi. Annars vegar spurningin um hvernig íslensk náttúrusýn þróaðist frá því um 1900-2008. Hins vegar spurningin um hvaða þættir búa í náttúrusýn Íslendinga sem leiða til þess að djúpstæður ágreiningur hefur verið um vatnsaflsvirkjanir á síðustu árum.
Rannsóknin varpar ljósi á náttúrusýn Íslendinga, á 20. öld og fyrstu árum þeirrar 21., eins og hún birtist í umræðu um nýtingu vatnsaflsins. Grein er gerð fyrir hugmyndum um sambúð lands og þjóðar, og um náttúru- og umhverfisvernd. Fjallað er um umræðu um virkjanir allt frá því um 1900 fram til ársins 2008, og dregið fram hvaða sjónarmið stýra rökum manna með og á móti nýtingu fallvatna. Íslensk náttúrusýn er sett í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hvernig erlendar hugmyndastefnur sem snerta sögu viðhorfa til náttúru og umhverfismála hafa haft áhrif á íslenska náttúrusýn síðastliðin 100 ár. Sérstakur gaumur er gefinn að því hvernig nýtingarstefna, rómantíska stefnan, þjóðernishyggja og tilteknir þættir í náttúruverndar- og umhverfisverndarhyggju komu við sögu og mótuðu náttúrusýn Íslendinga á rannsóknartímabilinu.
Ég valdi tiltekna kafla í virkjanaumræðunni frá því í kringum 1900 til 2008 til að greina þau viðhorf til náttúru Íslands sem þar komu fram. Verkið var viðamikið, enda ræð ég engum að leggja hundrað ár undir í doktorsrannsókn, en það varð í þessu tilviki ekki hjá því komist, sagan kallaði eftir því, Upphaflegt markmið mitt hafði aðeins verið að skoða deiluna um virkjun á Austurlandi um og eftir aldamótin 2000 en ég fann fljótlega eftir að ég byrjaði á því að til að skilja þá deilu þurfti ég að fara alla leið í ræturnar, alla leið að upphafi umræðu um vatnsaflsvirkjanir hér á landi í kringum aldamótin 1900 og síðan áfram 20. öldina. Tímaásinn er því langur en ég leysti það með því að sleppa mörgu að sjálfsögðu, og velja ákveðna kafla í sögu virkjanaumræðunnar, eins og áður sagði, þ.e. umræðu um fossaflið á fyrsta fjórðungi 20. aldar, viðhorf til Gullfoss, Laxárdeiluna, Þjórsárveradeiluna, og baráttuna gegn Fljótsdalsvirkjun og síðan gegn Kárahnjúkavirkjun.
Hugmyndin að rannsókninni kviknaði árið 1998 en þá voru komnir fram árekstrar milli verndarsjónarmiða og virkjanaframkvæmda á hálendinu þótt enn væri deilan ekki komin á það háa stig og varð nokkrum árum síðar. Mig langaði að skilja málið betur, sjá hvað byggi að baki. Skilja hvers vegna við deildum um að land færi undir vatn t.d. Af hverju okkur væri ekki bara sama. Gott ef þessar hugrenndingar kviknuðu ekki ljóst og óljóst þegar Guðmundur Páll setti íslensku fánana í lónsstæði Hágöngulóns þegar farið var að fylla í það og sýslumaður fór og sótti þá, minnir mig eða eitthvað í þá áttina. Af hverju er fáninn heilagur en ekki land? Og því er land okkur heilagt og hvað hefur það með fánann að gera? Þannig hlóðust spurningarnar auðveldlega upp, enda varð af nógu að taka. Ég var varla búin að móta umsóknina um doktorsnám og senda hana til HÍ til samþykkis þegar deilan um lón á Eyjabökkum vegna Fljótsdalsvirkjunar var komin á fulla ferð. En enda þótt nútíminn væri svo sannarlega áhugaverður fyrir rannsókn mína fann ég fljótlega að fortíðin var það ekki síður. Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fór að sökkva mér í ofan í rannsókn á fortíðinni hversu margslungin og margskonar viðhorf voru uppi til nýtingar vatnsaflsins allt frá því um 1900. Virkjanir voru nefnilega ekki bara tæknileg úrlausnarefni heldur þáttur í því hvernig samfélag menn vildu sjá verða til á Íslandi og þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar, en þó ekki öll á sama veg, hvorki á einum og sama tíma, eða þegar fram liðu tímar. Virkjanaumræðan endurspeglar þannig þróun og breytingar á náttúrusýn Íslendinga ásamt því að hún sýnir hvaða hugmyndir lifðu eins og rauður þráður allt frá því um 1900 og fram til þessa dags.
Það er með doktorsritgerð eins og annað: Henni miðar áfram þegar að henni er unnið en dregst meðan öðru er sinnt. Og það var mörgu sinnt, stórum verkefnum og smáum samtímis því sem ég vann að doktorsrannsókninni, sem skýrir þessi tíu ár sem liðu frá því ég byrjaði að safna efni í þessa ritgerð og þar til ritun hennar lauk, í árslok 2009.
En á vissan hátt má segja að það vinni með verkinu hversu það dróst að klára. Á meðan komst ákveðin niðurstaða í ýmsa þá þræði sem fylgt er í rannsókninni og ég gat lokið ákveðnum köflum í stað þess að nokkrum árum fyrr hefðu þeir kannski endað í spurningu einni saman. Þetta dregur fram sérstöðuna við að vinna að rannsókn á atburðarrás í eigin samtíma, atburðarás sem vindur áfram dag frá degi. Hve oft ég þurfti ekki að breyta sagnorðum úr nútíð í þátíð í ritgerðinni því málið var yfirstaðið og orðið fortíð, og oft þurfti ég að breyta ályktunum og ákveðnum efnistökum eftir því hvaða stefnu virkjunardeilur tóku. Rannsóknarefnið var þannig iðandi í sköpun frá degi til dags, frá einni viku til annarrar, mánuði til mánuðar og síðan frá ári til árs. Þannig þurfti ég að keppast við sem skoðandinn og greinandinn á atburðum og viðhorfum sem birtust á hverjum einasta degi, vikum og árum saman, en eins og kannski sumir muna þá fór fram hér á landi heit umræða og deila um virkjanir og stóð í nokkur ár. Hún fyllti bróðurpart af blaðsíðum dagblaða, tíma ljósvakamiðla og stundum flæddi hún um göturnar og safnaðist saman á torgum í formi allra handa viðburða og mótmæla.
Sitt sýndist hverjum, eins og við munum, með og á móti, fyrir sumum var það land sem fór undir Hálslón fagurt og einstætt, aðrir ypptu bara öxlum, fannst fínt að það væri virkjað og sögðu þessa umtöluðu náttúrufegurð stórlega orðum aukna og í besta falli fótosjoppaða ef eitthvað væri, svo ég vísi í orð sem féllu í mín eyru. Og það féllu mörg orð í mín eyru, allir höfðu einhverja skoðun og margir vildu að ég kæmi henni á framfæri í ritgerðinni, líkt og það væri á mínu færi að fá viðbjargað skilningsleysi andstæðingsins, sem ýmist var þá virkjanasinninn eða virkjanaandstæðingurinn, eftir því hvaða fylkingu viðmælandinn tilheyrði.
Ég setti mér ekki það markmið að skila andrúmslofti virkjanadeilunnar í kringum 2000 inn í rannsóknina, heldur var markmiðið að reyna að koma skipulagi á þær meginhugmyndir sem þar réðu ferðinni, greina þær og fella undir þær hugmyndastefnur sem hafa mótað vestræna náttúrusýn á undanförnum árum og áratugum, allt aftur til 1900. Vissulega gerir það rannsóknina mun flatari og kaldari en sú stemmning í eðli sínu var sem hér ríkti á meðan deilt var um Norðlingaölduveitu, lón á Eyjabökkum og um Kárahnjúkavirkjun. Hins vegar verður rannsakandi að velja, hverju sinni, hvað skal gert að rannsóknarefni, enda kannski hálfógerlegt að koma til skila í doktorsritgerð með þeim kröfum sem gerðar eru til slíks verks, þeirri sorg, gremju og reiði sem var hluti virkjunardeilunnar, ásamt líka gífurlegum krafti, þrætulist og allra handa sköpun og aktivisma. Til að koma öllu því til skila þarf annan miðil en doktorsritgerð eins og þetta verkefni var hugsað. Þar hefði verið dýrmætt að gerð hefði verið heimildamynd, unnin samkvæmt fræðilegum kröfum um slíkt efni. Kannski á einhver eftir að gera slíka mynd. Það er nefnilega svo margt sem greinandi fræðitexti nær ekki að grípa með sanni og það voru svo sannarlega mörg slík augnablik í virkjanadeilunni á árunum 1999 til 2006. Eins og er geyma margir þau enn bara í minninu en minnið er hverfult og eftir ákveðinn tíma munum við hlutina eins og okkur minnir að þeir hafi verið. Núið er nefnilega alltaf einhvern veginn svo horfið um leið og því lýkur. Ritgerðin mín geymir þannig ekki minningar þeirra sem tóku þátt í deilunni um virkjanir með og á móti, en hún geymir engu að síður vitnisburð um þetta tímabil í sögu okkar Íslendinga og kannski víðara sjónarhorn á þessa sögu en þátttakendur gátu gefið sér tíma til að hafa í hita og þunga deilunnar. Ég valdi þess vegna meðvitað að standa utan við allan tímann, reyna að halda hlutleysi, eða alla vega að vera sanngjörn gagnvart öllum viðhorfum og koma þeim á framfæri, horfa til allra átta og reyna að koma skipulagi á ringulreiðina, í þessu mikla innbyrðisrifrildi þjóðarinnar, og greina hana með fræðilegum hætti. Það voru hugmyndirnar sem voru aðalatriðið í mínum huga og mitt áhugaefni. Verkefninu er ekki ætlað að reisa neinum bautasteina. Það eru engar hetjur og skúrkar í þessu verki, bara fólk með hugmyndir og það oft á tíðum mjög öndverðar. Þessar hugmyndir hafa síðan mótað það sem ég kalla íslenska náttúrusýn og eins og rannsókn mín leiðir í ljós, þá er hún ekki nein ein einsleit hugmynd um náttúruna og hún svo sannarlega sameinar ekki íslensku þjóðina heldur sundrar henni. Við erum einfaldlega mjög ósammála í afstöðu okkar til íslenskrar náttúru og þannig má segja að það sé mýta að halda því fram að afstaða Íslendinga til náttúrunnar sameini þá sem þjóð, þvert á móti. Hún klýfur þjóðina og þar tekst á grundvallarlífssýn. Það reynir því t.d. á lýðræðið hér á landi, eða ætti að gera það, bæði á sveitarstjórnarsviði og á Alþingi, ef taka á mið af ólíkum skoðunum meðal Íslendinga um hvernig sambúð þjóðarinnar við landið skuli háttað í nútíð og framtíð.
Annað atriði af mörgum sem ég þurfti að hafa í huga við rannsóknina, var að reyna að viðhalda hlutleysi mínu gagnvart þeim pólitísku línum sem réðu í virkjanadeilunni en þær fylgdu, eins og eflaust flestir muna frá síðustu árum, mjög flokkslínum, og þannig hefur það verið allt frá því að flokkakerfið fór að festa sig í sessi á fyrri hluta 20. aldar. Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa tekið ákveðna stefnu varðandi virkjanir og haldið henni í gegnum þykkt og þunnt, með og á móti. Flestir með, þar til Kvennalistinn kom frá á níunda áratugnum og síðan Vinstri hreyfingin grænt framboð undir lok tíunda áratugarins. Þessir flokkar hafa einir, sett andstöðu við stórvirkjana- og stóriðjustefnu í stefnuskrá sína. Andstaða í öðrum flokkum gegn virkjunum, og þá í merkingunni virkjunum til stóriðju, hefur þó fyrirfundist og þá aðeins meðal einstakra þingmanna, sem fylgdu þá ekki flokkslínunni í þeim málum. Hinn ráðandi pólitíski stuðningur við virkjanir veldur því að segja má að stjórnmálamaðurinn hafi verið stórtækasti mótandi landslags og vistgerðar á hálendi Íslandi á undanförnum áratugum eða svo ég orði það á annan veg; pólitískar ákvarðanir liggja að baki þeim stóru virkjunum sem hér hafa verið reistar, enda ekki hægt að reisa þær án samþykkis á Alþingi, samkvæmt lögum um raforkuver.
Það er á vissan hátt forréttindi fyrir þann sem vill skoða söguna með gleraugum fræðimannsins að sagan sem skoðast skrifast í atburðunum dag frá degi, en það gat líka verið mjög truflandi og mikið áreiti, enda kannski hentar fræðimannshuganum betur oft á tíðum að fá að vera hálfutanvið sig og djúpt sokkin ofan í skjöl og heimildir í hljóðlátum heimi skjala- og bókasafna. Mitt verkefni bauð hins vegar ekki upp á slík rólegheit. Ég fór kannski af stað að morgni með það að markmiði að eyða deginum í hlýjunni á Þjóðdeild Landsbókasafnsins með Hannesi Hafstein eða Bjarna frá Vogi og fossamálinu, en endaði þess í stað á baráttutónleikum, eða í næðingi á Austurvelli á mótmælafundum gegn Kárahnjúkavirkjun.
Verkefnið fól þannig í sér mikið flakk eftir tímaásnum, fram og til baka, eins oft um hundrað ár eða svo. Maður gat byrjað daginn með Einar Benediktssyn og endað hann með Finni Ingólfssyni, og allt þar á milli.
En áreiti sögunnar í núinu gat líka verið truflandi meðan unnið var að þeim köflum sem gerðust fyrir um öld eða áratugum síðan. Það gat verið erfitt að komast í samband við heimildirnar gömlu og vinna úr sögu fortíðarinnar því svo margt var að gerast dag frá degi á meðan sem líka þurfti að fylgjast með og lesa í.
Og annað sem fylgdi verkefninu lengi vel dag frá degi var að því linnti aldrei, það var ekkert hægt að hvíla sig yfir fréttunum, að loknum vinndegi eða dagskrá Rúv yfirleitt, þar var allt stútfullt af virkjanaþrætu og heimildum sem ég þurfti að taka mið af. Oft þurfti ég þess vegna að innbyrða meira í einu á hverjum degi en mundi teljast heilsusamlegt fyrir fræðimann, en það varð ekki undan því komist lengi vel því atburðarásin var með þeim hætti að það varð ekki hjá því komist að fylgjast með. Svo, blessunarlega fyrir mig og minn vinnutíma og geðheilsu, þá var mikið um endurtekningu. Ég gat stundum bara lokað skilningarvitunum og snúið mér að uppvaskinu í friði án þess að vaska upp fixeruð í fræðilegri greiningu á virkjanapistlum í Víðsjá, eða í kvöldfréttum útvarps og sjónvarps. Sömu hlutirnir voru endurteknir í umræðunni, fóru hring eftir hring, og málið fyrir mig var að reyna að skilja hismið frá kjarnanum, ná utan um ringulreiðina og setja hana fram eins og kröfur um fræðilega rannsókn kalla eftir.