Frá höfuðskepnum til frumeinda og öreinda: Íslendingar og kenningar um innstu gerð og eðli efnisins I

Inngangur ásamt yfirliti um tímabilið frá síðmiðöldum til lærdómsaldar

Í byrjun júlí árið 2012 fylgdist öll heimsbyggðin með af athygli, þegar tilkynnt var, að hin svokallaða Higgs-eind hefði loksins fundist í flóknum tilraunum með LHC, sterkeinda-hraðlinum mikla í CERN. Niðurstaðan var lokahnykkurinn í viðamiklu átaki eðlisfræðinga til að sannreyna staðallíkan öreindafræðinnar, kenningu sem gefur nær fullkomna lýsingu á öllum þekktum öreindum og víxlverkunum þeirra (sjá stutta myndræna umfjöllun hér).

Segja má að fundur Higgs-eindarinnar hafi verið hápunkturinn í langri sögu, sem teygir sig aftur í gráa fornesku. Sagan sú fjallar um leit mannsins að sífellt dýpri skilningi á innsta eðli efnisins og hún lýsir því, hvernig hugmyndir um gerð þess hafa breyst í gegnum aldirnar. Þessari löngu og flóknu atburðarás hafa verið gerð ítarleg skil í fleiri bókum og tímaritsgreinum en tölu verður á komið og meðal annars af þeim sökum verður ekki fjallað um hana í neinum smáatriðum hér, heldur vísað til ítarlegri heimilda í sérstöku fylgiskjali (sjá skrá A).

Staðan á Íslandi

Þessi færsla er sú fyrsta af fimm, sem fjalla um kynni Íslendinga af helstu kenningum um innstu gerð efnisins. Fram undir 1780 voru það nær eingöngu lærðir Íslendingar, sem höfðu aðgang að þekkingu á þessu sviði og þá einkum í gegnum erlendar kennslubækur og alfræðirit af ýmsu tagi (sjá t.d. skrá B). Það var ekki fyrr en á síðustu áratugum átjándu aldar, eftir að fyrstu fræðsluritin komu út á móðurmálinu, sem íslenskum almenningi gafst tækifæri til að kynnast fyrir alvöru hugmyndum erlendra manna um innsta eðli efnisins (sjá skrá C). Skömmu fyrir miðja nítjándu öld kom út Njóla Björns Gunnlaugssonar, merkt heimspekilegt ljóð um raunvísindi og náttúruguðfræði. Verkið hafði veruleg áhrif á bændur og búalið, og þar er meðal annars fjallað um athyglisverða frumagnakenningu höfundarins.

Forsíðan á þriðju útgáfu Njólu. Í þessu stórmerka ljóði Björns er sett fram fyrsta, og sennilega eina, séríslenska kenningin um innsta eðli efnisins (í IV kafla). Um er að ræða heimspekilega kenningu byggða á svokallaðri kraftahyggju (dynamism). Sjá nánari umfjöllun hér og hér.

Í kjölfar alþjóðlegra menningarstrauma, sem og þróunar í menntamálum í Danaveldi á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, jókst áhugi á vísindum og tækni smám saman hér á landi. Sífellt fleiri Íslendingar öfluðu sér þekkingar á þessum sviðum, einkum í Kaupmannahöfn.  Meðal annars af þeim sökum og eins vegna vaxandi tungumálakunnáttu og aukinnar útgáfu fræðsluefnis hér heima og erlendis má segja, að við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar hafi hinn dæmigerði Íslendingur verið búinn að fá nokkuð ítarlegar fréttir af breytingunum miklu, sem urðu í eðlisfræði um og upp úr aldamótunum 1900. Hér er átt við tilkomu afstæðiskenningar og skammtafræði og meðfylgjandi kenningar um atóm, atómkjarna og öreindir (um komu afstæðiskenningarinnar til Íslands má lesa hér, hér og hér). Fullveldið 1918 og stofnun stærðfræðideildar við Menntaskólann í Reykjavík árið 1919 með tilheyrandi eflingu eðlisfræðikennslu hafði einnig veruleg áhrif hvað þetta varðar.

Eftir seinni heimsstyrjöldina og búbótina, sem henni fylgdi fyrir Íslendinga, hófst þróun sem á endanum leiddi til þeirrar blómlegu starfsemi, sem nú blasir við í vísindum og tækni hér á landi. Stofnun lýðveldisins 1944 og áhrifin frá fyrstu kjarnorkusprengjunum árið 1945, kalda stríðinu og upphafi geimaldar í kringum 1960 skiptu og verulegu máli á þeirri vegferð. Með tilkomu Raunvísindastofnunar Háskólans árið 1966 og raunvísindanámi við Háskóla Íslands, sem fylgdi í kjölfarið, myndaðist hér öflugur vettvangur fyrir rannsóknir og kennslu í raunvísindum. Nú er svo komið að íslenskir raunvísindamenn eru orðnir fullgildir þátttakendur í alþjóðlegri leit vísindasamfélagsins að heildarskilningi á eðli efnis og orku.

Færslurnar fjalla um það, hvernig erlendar hugmyndir um gerð og eðli efnisins bárust til Íslands á tímabilinu frá síðmiðöldum til loka tuttugustu aldar. Fyrst er gluggað í ritaðar heimildir um heimsmyndina frá kaþólskum tíma. Næst er rætt um þekkinguna, sem íslenskir stúdentar sóttu í náttúruspekikennsluna við Háskólann í Kaupmannahöfn á tímabilinu frá siðaskiptum til miðrar nítjándu aldar.  Þá kemur umfjöllun um kynni Íslendinga af atómvísindum  á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu.  Að lokum er farið örfáum orðum um þróunina hér heima á seinni hluta tuttugustu aldar.

Höfuðskepnurnar – Hin fornu frumefni

Rétt er að minna á, að þótt rekja megi hugmyndir Vesturlandabúa um ódeilanleg atóm (þ.e. frumeindir) og tómið milli þeirra til Forn-Grikkjanna Levkipposar og Demókrítosar, sem uppi voru á fimmtu öld fyrir okkar tímatal (f.o.t.), þá hlaut atómhyggja lítið fylgi meðal náttúruspekinga fyrr en vel var liðið á sautjándu öldina.

Sú mynd af innsta eðli efnisins, sem langflestir aðhylltust fram að þeim tíma, var byggð á kenningu Aristótelesar (384–322 f.o.t) um hin svokölluðu sígildu frumefni, jörð, vatn, loft og eld, sem lengi voru kölluð höfuðskepnur á íslensku. Hugmyndina má reyndar rekja til Empedóklesar (um 450 f.o.t.; sjá einnig hér) og forvera hans, en það var Aristóteles sem fullmótaði kenninguna og kynnti í verkum sínum og kennslu, auk þess sem hann bætti við fimmta frumefninu, hinum himneska vaka (eter). Í kenningu Aristótelesar er gert ráð fyrir samfeldum efnisveruleika, að efnið sé óendanlega deilanlegt og að tóm sé ekki til („horror vacui“).

Samkvæmt kenningu Aristótelesar voru öll efnisleg fyrirbæri í hinum síbreytilega og forgengilega hluta heimsins, sem náði frá jarðarmiðju út að tunglhvelinu, gerð úr blöndu fjögurra frumefna í mismunndi hlutföllum. Þau voru kölluð jörð, vatn, loft og eldur. Ekki má þó taka nöfnin of bókstaflega. Með jörð var t.d. átt við öll föst efni og vatn náði yfir öll fljótandi efni, þar á meðal kvikasilfur. Frumefninin höfðu jafnframt ákveðna einkennandi eiginleika: jörðin var þurr og köld, vatnið kalt og vott, loftið vott og heitt og eldurinn heitur og þurr. Aristóteles bætti einnig við fimmta frumefninu, vaka, sem var bæði fullkomið og óbreytanlegt. Úr því var allur hinn himneski hluti heimsins, föruhnettirnir, fastastjörnurnar og himinhvelin. Myndin er fengin að láni úr bókinni Efnið eftir R.E. Lapp og fl. frá 1968 (bls. 12).

 

Höfuðskepnurnar í íslenskum fornritum

Í fornum íslenskum ritum mun hvergi vera minnst á atóm. Hins vegar er þar víða vikið að höfuðskepnunum fjórum, jörð, vatni, lofti og eldi. Í handritinu AM 685d, 4to, (31r) stendur til dæmis þessi texti (sá Alfræði íslenzka III, bls. 75):

Svo segir Imago mundi, að heimurinn sé vaxinn sem egg, og svo sem skurn er utan um eggið, svo er eldur umhverfis heiminn, og svo sem skjall er næst skurni, svo er og loft næst eldi, og svo sem hið hvíta úr eggi það er næst skjalli, svo eru vötn næst lofti, og svo sem hið rauða er í eggi, svo er jörðin lukt i þessum höfuðskepnum.

Höfundur Imago Mundi var guðfræðinginn Honorius Augustodunensis, sem samdi verkið í kringum 1120. Það var eitt af mörgum þekktum alfræðiritum í Vestur-Evrópu á síðmiðöldum, þar á meðal hér á landi. Einnig má nefna Etymologiae og De natura rerum eftir Ísidór frá Sevilla, frá fyrri hluta sjöundu aldar. Höfuðskepnurnar eru til umræðu í báðum verkunum, en í Etymologiae fjallar Ísidór einnig um atómtilgátuna. Í einföldum kennsluritum síðmiðalda, þar sem efniskenningar eru á annað borð á dagskrá, eru höfuðskepnurnar nær undantekningalaust einar til umræðu. Sem dæmi má nefna frægustu stjarnfræðikennslubók allra tíma, De sphaera mundi, eftir Sacrobosco. Þar er rætt um höfuðskepnurnar strax í upphafi fyrsta kafla.

Á síðmiðöldum hefur raunvísindaleg þekking borist hingað til lands með lærðum mönnum, bæði íslenskum og erlendum, sem numið höfðu við evrópska skóla. Bókleg þekking var meðal annars varðveitt í íslenskum klaustrum og í dómskólunum í Skálholti og á Hólum. Þar hefur henni væntanlega verið miðlað til skólapilta, að minnsta kosti að hluta.

Mynd af jarðmiðjuheimi Aristótelesar í íslenska handritinu AM 732b 4to frá miðri fjórtándu öld. Í innsta hring, sem táknar jarðkúluna, eru taldir upp eiginleikar höfuðskepnanna fjögurra. Utar taka við hvel vatns, lofts og elds. Þar fyrir utan eru hvel föruhnattanna sjö: tungls, Merkúríusar, Venusar, sólar, Mars, Júpíters og Satúrnusar. Í hornum myndarinnar er frekari lýsing á eiginleikum höfuðskepnanna. Myndin sýnir ekki ysta hvelið, hvel fastastjarnanna, sem umlykur hinn endanlega og eilífa heim Aristótelesar. Sjá nánari lýsingu í Alfræði íslenzkri III, bls. 63.

Höfuðskepnurnar koma víðar við sögu en í stjörnulist fornaldar. Þær birtast meðal annars í hinum fornu vessakenningum, sem lengi var beitt í læknislist, hér sem annars staðar, og fjalla um mikilvægi líkamsvessanna fjögurra: blóðs, guls galls, svarts galls og slíms. Þá er og vel þekkt, að í verkinu Tímaíosi, frá um 360 f.o.t., tengir Platon höfuðskepnurnar við rúmfræði, bæði við reglulega margflötunga og rúmfræðileg hlutföll. Eins og fram kemur í grein Kristínar Bjarnadóttur og Bjarna Halldórssonar um Algorismus frá 2021 (bls. 180-185), er svipaða umræðu að finna um hlutföll og höfuðskepnur í íslenska handritinu GKS 1812 4to (16r–16v) og hjá Platoni í Tímaíosi (31b-32c).

Mynd úr íslenska handritinu AM 736 III, 4to, fol. (1r) frá miðri sextándu öld. Hún sýnir nöfn höfuðskepnanna fjögurra í hringjunum til vinstri. Neðst er jörð, næst vatn, þá loft og efst eldur. Ofan við hvern hring, hægra megin, standa í orðum og að rómverskum hætti þær tölur, sem höfuðskepnunum fjórum eru eignaðar: 27 (eldur), 18 (loft), 12 (vatn). Töluna 8 (jörð) vantar þó á myndina. Þarna er ákveðin samsvörun við hugmyndir í Tímaíosi Platons (sjá nánari umfjöllun hér (bls. 183-185). Það er athyglisvert, að í dómkirkjunni í Anagni á Ítalíu er að finna veggmynd, sem líkist mjög þessari.

Gagnlegar heimildir (sjá einnig hér)

 

Siðskipta- og lærdómsöld

Allt frá siðaskiptunum um miðja sextándu öld fram til upphafs tuttugustu aldar, skipaði Háskólinn í Kaupmannahöfn stóran sess í íslenskri menningarsögu. Hann var í raun þjóðarháskóli Íslendinga í rúmar þrjár aldir, því þangað sóttu íslenskir námsmenn þekkingu sína og akademíska reynslu. Að loknu námi gerðu margir þeirra heiðarlega tilraun að nýta menntunina hér heima, en með misjöfnum árangri vegna aðstöðuleysis.

Íslensk menningarsaga, og ekki síst vísindasagan eftir siðaskiptin, væri nær óskiljanleg án hins danska bakgrunns. Til þess að ná heilum þræði í söguna, er því nauðsynleg að kynna sér viðeigandi sagnfræðirit um þróunina í Danaveldi. Hvað vísindasögu varðar má benda lesendum á eftirfarandi yfirlitsrit:

Þótt áhrif Aristótelesar á hugmyndir náttúruspekinga hafi smám saman farið dvínandi, voru efniskenningar hans ríkjandi í hinum lærða heimi fram á fyrri hluta sautjándu aldar, þar á meðal í stjörnuspeki. Þær gengdu og lengi mikilvægu hlutverki í efnaspeki og læknislist, ekki síst vegna áhrifa læknisins Galenosar (129-216). Á sextándu og sautjándu öld fór einnig talsvert fyrir hugmyndum byltingarmannsins Paracelsusar (1493-1541) og efnalæknislistar hans með frumþáttunum þremur, „brennisteini“, „kvikasilfri“ og „salti“.

Táknræn mynd af tengslum líkamsvessa, líkamsparta og höfuðskepna í galenískri læknislist. Sjá nánari umfjöllun í grein Jóns Steffensens (1990), þaðan sem myndin er fengin að láni (bls. 166).

Æðamaðurinn: Táknræn mynd tengd blóðtökum fyrri tíma. Hún endurspeglar hugmyndina um hin mikilvægu tengsl líkamsparta (og líkamsvessa) við stjörnumerki dýrahringsins. Mynd úr Þórðarrími (1692, bls. 130).

Á sextándu öld barst efnalæknislist Paracelsusar ásamt svokallaðri hermesarspeki til Danmerkur fyrir tilstilli manna eins og læknisins P. Severinusar og stjörnufræðingsins Týchós Brahe. Sá síðarnefndi lét til dæmis setja upp sérstaka efnaspekistofu í kjallaranum á Úraníuborg, þar sem hann gerði margskonar tilraunir í efnalæknislist og útbjó einnig ýmis náttúrulyf.

Tvær myndir á veggjum Úraníuborgar með einkunnarorðum Týchós Brahe: Suspiciendo despicio (með því að líta upp, sé ég niður) og Despiciendo suspicio (með því að líta niður, sé ég upp). Verkin tengjast greinilega hermetískri hugmyndafræði um náið samband hins smáa og hins stóra. Sjá nánar hér.

Ég hef ekki rekist á neinar heimildir um það að kunningjar Brahes, biskuparnir Guðbrandur Þorláksson og Oddur Einarsson, hafi lagt stund á efnaspeki, hvað þá gullgerðarlist með tilheyrandi leit að viskusteininum. Þeir hafa þó eflaust, einkum Oddur, vitað af hermesarspeki stjörnumeistarans mikla á Hveðn.

Eftir dauða Brahes lagðist hermetísk hugmyndafræði að mestu af í Danaveldi um skeið, þótt sums staðar sé á hana minnst í víðlesnum ritum C. Bartholins hins eldra. Bartholin lagði jafnframt stund á efnalæknislist, eins og ýmsir aðrir samtímamenn hans í Danmörku og víðar í Evrópu. Í þessu sambandi er einnig vert að nefna, að í hinu fræga bókasafni Brynjólfs biskups Sveinssonar var að finna ýmis rit með hermetískum áherslum.

Árið 1646 kom út heimslýsing Íslandskaupmannsins H. Nansen, sem mun hafa verið talsvert lesin hér á landi, enda rituð á dönsku. Þar er meðal annars fjallað ítarlega um höfuðskepnurnar fjórar, en athygli vekur, að lítil sem engin áhersla er lögð á efnaspeki. Ekki er hægt að segja hið sama um latneska dispútatíu Gísli Þorlákssonar frá 1651, De stellis fixes et errantibus (Um fastastjörnur og föruhnetti), sem reyndar er elsta varðveitta prentaða ritið um stjörnufræði eftir íslenskan höfund. Í síðari hluta ritgerðarinnar fjallar Gísli um eðli föruhnattanna sjö og notast þar bæði við efnaspeki og stjörnuspeki. Þar fylgir hann að verulegu leyti bók A. Kirchers frá 1646, Ars Magna Lucis et Umbrae (Hin mikla list ljóss og skugga).

Eftir að Gísli var orðinn biskup á Hólum gaf hann út rím yngri bróður síns, Þórðar Þorlákssonar, Enchiridion - það er handbókarkorn (oft kallað „Gíslarím“). Það kom aftur út árið 1692, lítilega breytt, undir heitinu : Calendarium Perpetuum -  Ævarande Tijmatal  (venjulega kallað „Þórðarrím“). Verkið inniheldur annars vegar eilífðarrím og veraldlegan fróðleik og hins vegar guðfræðilegt efni. Í viðaukum er meðal annars fjallað um rímfræði, kvartil tunglsins, föruhnetti og dýrahringinn auk læknislistar, þar á meðal blóðtökur og vessakenningar með efnaspekilegu og stjörnuspekilegu ívafi (sjá nánar hér).

Á sautjándu öld var náttúruspeki kennd öllum nemendum við Háskólann í Kaupmannahöfn, en eiginleg efnafræðikennsla var að mestu takmörkuð við læknanámið og tengdist einkum lyfjagerð þess tíma. Að minnsta kosti tveir íslenskir hafnarstúdentar öfluðu sér nokkurrar þekkingar á því sviði, þeir Þorkell Arngrímsson Vídalín og Vísi-Gísli Magnússon. Eftir Kaupmannahafnarárin stunduðu þeir báðir frekara nám í efnafræði/efnaspeki sem og námufræði, Þorkell í Hollandi og Noregi, Gísli í Hollandi og á Englandi.

Einn af samtímamönnum þeirra félaga var O. Borch, fyrsti prófessorinn í efnafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn (hann var jafnframt prófessor í læknisfræði, grasafræði og textafræði og líflæknir konungs). Hann endurvakti áherslur á hermesarspeki í ritum sínum og kennslu og öðlaðist nokkra frægð fyrir verkið De Ortu et Progressu Chemiae Dissertatio (Um uppruna og þróun efnafræðinnar) frá 1668. Sumir telja, að þar sé um að ræða fyrstu tilraunina til að skrá sögu efnafræðinnar/efnaspekinnar.

Þorkell Arngrímsson átti í bréfaskiptum við Borch og sendi honum ýmsar upplýsingar um náttúru Íslands. Eitthvað svipað virðist eiga við um Vísa-Gísla, því í löngu bréfi hans til Björns sonar síns, 12. september 1670, segir meðal annars: „Skrifadu doctor Olao Borricho til ad eg admirere og venerere storliga hanz doctissimum scriptum de ortu et progressu chymiæ. Og mælltstu miög til hannz favourem til þijn og mijn og eg vilie honum þiena þar eg kynne.“

Gísli Vigfússon skólameistari og bóndi mun einnig hafa haft einhver samskipti við Borch og svo kann að vera um fleiri Íslendinga. Um það skortir mig þó heimildir.

Gagnlegar heimildir (sjá einnig hér)

 

Atómhyggjan snýr aftur

Þrátt fyrir að kenningin um höfuðskepnurnar fjórar hafi mótað hugmyndir flestra náttúruspekinga um efnið allt frá dögum Aristótelesar fram á sautjándu öld, voru þeir nokkrir, sem héldu atómhugmyndinni lifandi. Þekktastur þeirra er gríski heimspekingurinn Epikúros (341-270 f.o.t.), sem líkt og Demókrítos hélt því fram, að efnisveruleikinn væri byggður á ódeilanlegum atómum og tóminu milli þeirra. Rúmum tveimur öldum síðar kynnti rómverska skáldið Lúkretíus (96-55 f.o.t.) atómhugmyndir Epikúrosar í ljóðinu De rerum natura (Um eðli hlutanna), sem mun hafa átt talsverðan þátt í endurreisn atómhyggjunnar á sautjándu öld. Þá fjallaði læknirinn Galenos (129-216) um atómhugmyndina í ritum sínum og hið sama gerði Ísidór frá Sevilla á sjöundu öld, eins og áður var nefnt.

Skólaspekingar miðalda fjölluðu einnig um atómhyggju í verkum sínum, en mikill meirihluti þeirra tók þar neikvæða afstöðu, byggða á harðri gagnrýni Aristótelesar á hugmyndir Demókrítosar. Hins vegar er athyglisvert, að skólaspekingarnir ræddu ítarlega og með velþóknun um hugmyndir Aristótelesar um svokallaðar minnstu náttúrulegu efniseiningar. Þar er átt við, að þótt hægt væri, að mati Aristótelesar, að deila einsleitum hlutum (t.d. járnbút eða spýtu) í hið óendanlega í smærri og smærri einingar, taldi hann að fyrr eða síðar kæmi að því, að einingarnar misstu einkennandi efniseiginleika sína. Minnsta arðan, sem enn hefði þessa eiginleika (þ.e. að vera járn eða viður) væri hin minnsta náttúrulega eining (minima naturalia). Þetta minnir einna helst á sameindir nútíma efnisvísinda og vera kann, að þetta gamla hugtak og umræðan um það hafi í einhverjum skilningi brúað bilið milli atómkenninga Forn-Grikkja og agnakenninga (corpuscularianism) sautjándu aldar.

Þekktustu agnahyggjumenn sautjándu aldar voru þeir P. Gassendi, R. Descartes, R. Boyle og I. Newton. Ásamt ýmsum öðrum blésu þessir merku náttúruspekingar nýju og fersku lífi í umræðuna um innsta eðli efnisins. Ekki voru þó allar kenningarnar eins. Til dæmis hélt Descartes því fram, að efni (eða frekar útbreiðsla þess) og rúm væru í raun sama fyrirbærið og því væri tóm ekki til. Samkvæmt hvirflakenningu hans fylltu óendanlega deilanlegar, en misjafnlega stórar efnisagnir, hvern krók og kima veraldarinnar. Þær gátu og aðeins haft áhrif hver á aðra með snertingu. Newton taldi hins vegar, að efnið væri samsett úr ódeilanlegum atómum, sem hreyfðust í tómi, þ.e. algildu rúmi. Þau hefðu stærð, lögun og massa og á milli þeirra verkuðu skammdrægir fráhrindi- og aðdráttarkraftar. Sem kunnugt er, setti hann einnig fram kenningu um það, að ljósið væri straumur agna.

Vel fram yfir miðja átjándu öld hafði agnakenning Descartes víða mun meiri áhrif en atómkenningin, einkum í Frakklandi, en einnig annars staðar, til dæmis við Háskólann í Kaupmannahöfn. Þetta má til dæmis sjá á kennslubókum þeirra C.T. Bartholins, G. Dethardings og P.N. Horrebows í náttúruspeki fyrir byjendur (sjá skrá Ba). Allir minnast þessir höfundar þó jafnframt á höfuðskepnur og atóm.

Þetta er líklega rétti staðurinn til að minnast lauslega á G.W. Leibniz og hugmynd hans frá 1714 um hinar eilífu, óefnislegu og víddarlausu mónöður, sem hver og ein var einstök afleining með eiginleika sálar. Leibniz taldi heiminn samsettan úr mónöðum og að stakir hlutir efnisheimsins væru einfaldlega birtingarmynd samstillts mónöðusafns. Þetta getur vart talist efniskenning í venjulegum skilningi, en hafði þó talsverð áhrif á náttúruspekinga á átjándu öld. Meðal þeirra, sem reyndu að tengja mónöðukenninguna við agnakenningar var heimspekingurinn og kennslubókahöfundurinn C. Wolff, sem hafði veruleg áhrif á kennsluna við Kaupmannahafnarháskóla á tímum þýsk-dönsk-íslensku upplýsingarinnar. Til gamans má geta þess, að eini Íslendingurinn, sem mun hafa blandað sér í mónöðu-umræðuna á opinberum vettvangi, var heimspekineminn Þorleifur Þorleifsson, síðar bóksali. Greinar hans, Monaderne I, II, III & IV, birtust í Kiöbenhavnske nye Tidender om lærde og curieuse Sager á árunum 1755 til 1756.

Mikilvægt er að hafa í huga, að það var ekki fyrr en nokkuð var liðið á nítjándu öldina, sem náttúruspekingar fóru almennt að taka atómhugmyndina alvarlega sem vísindalega kenningu. Var það einkum að þakka mikilvægum mæliniðurstöðum Englendingsins J. Daltons, meðal annars þeirri, að atóm mismunandi frumefna sameinast í efnasamböndum í föstum heiltöluhlutföllum. Enn áttu þó eftir að líða nær hundrað ár, þar til meirihluti eðlis- og efnafræðinga var orðin sannfærður um tilvist atóma. Meira um það síðar.

Mynd úr bókinni Hydrodynamica eftir D. Bernoulli frá 1738. Hún á að sýna, hvernig gasið í ílátinu er samsett úr ögnum á ferð og flugi. Tíðir árekstrar agnanna við lausa flötinn E‘F‘ valda þrýstingi, sem vinnur gegn þyngd lóðsins P, þannig að flöturinn er í stöðugu jafnvægi. Þetta er venjulega talin ein fyrsta tilgátan í fræðum, sem nú ganga undir nafninu kvikfræði gasa.

Gagnlegar heimildir (sjá einnig hér)

Til baka í efnisyfirlit

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Átjánda öldin, Eðlisfræði, Efnafræði, Miðaldir, Nítjánda öldin, Sautjánda öldin, Sextánda öldin. Bókamerkja beinan tengil.