Þessi ritsmíð inniheldur lítið annað en fátæklega heimildaskrá, ásamt mislöngum minnispunktum. Viðfangsefnið er saga efnafræðinnar á Íslandi á tímabilinu frá síðmiðöldum til loka sjöunda áratugs tuttugustu aldar. Árið 1970 er hér valið sem endapunkur, því segja má, að þá hafi runnið upp nýir tímar í rannsóknum og kennslu í efnafræði við Háskóla Íslands. Aðrir munu væntanlega gera þeirri sögu skil, þótt síðar verði.
Efnið er tekið saman í nokkrum flýti og er fyrst og fremst ætlað mér sjálfum til minnis. Öðrum er þó heimilt að nota skrána eftir þörfum. Í staðinn þigg ég með þökkum allar ábendingar um villur og æskilegar viðbætur, auk upplýsinga um frekari heimildir og annað efni, er tengist sögu efnafræði hér á landi, einkum fyrir 1970.
I. Frá síðmiðöldum til upphafs átjándu aldar
Fjallað er stuttlega um þetta tímabil í færslunni
- Einar H. Guðmundsson, 2022: Frá höfuðskepnum til frumeinda og öreinda: Íslendingar og kenningar um innstu gerð og eðli efnisins: Inngangur ásamt yfirliti um tímabilið frá síðmiðöldum til lærdómsaldar
þar sem jafnframt má finna ýmsar heimildir.
Myndin að ofan sýnir O. Borch (1626-1690), fyrsta prófessorinn í efnafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hann var jafnframt prófessor í læknisfræði, grasafræði og textafræði og líflæknir konungs. Vitað er um að minnsta kosti þrjá Íslendinga, sem námu í Kaupmanna-höfn og áttu samskipti við Borch með einum eða öðrum hætti. Fyrst skal nefna þá Þorkel Arngrímsson Vídalín (1629-1677) og Vísa-Gísla Magnússon (1621-1696), sem báðir voru vel að sér í efnafræði þess tíma. Eftir Kaupmannahafnardvölina stunduðu þeir báðir frekara nám í efnafræði/efnaspeki sem og námufræði, Þorkell í Hollandi og Noregi, Gísli í Hollandi og á Englandi. Þá mun Gísli Vigfússon skólameistari og bóndi (1637-1673) einnig hafa átt talsverð samskipti við Borch.
II. Frá upplýsingartímanum til ársins 1900
Eins og tíðkast hafði frá siðaskiptum, sóttu lærðir Íslendingar á átjándu og nítjándu öld menntun sína fyrst og fremst til Háskólans í Kaupmannahöfn.
Náttúruspeki (eðlisfræði og efnafræði) upplýsingartímans barst fyrst til skólans með hinum fjölhæfa þýska náttúruspekingi og lækni, C.G. Kratzenstein, sem varð prófessor við Hafnarháskóla árið 1753. Hann innleiddi sýnitilraunir í náttúruspekikennsluna og gaf fljótlega út áhrifamikla kennsluók á latínu. Upp úr henni skrifaði hann síðar einfaldara yfirlitsrit á þýsku, Vorlesungen über die experimental Physik, sem kom í mörgum útgáfum á seinni hluta átjándu aldar og að lokum í danskri þýðingu, árið 1791. Með „experimental Physik“ var bæði átt við eðlisfræði og efnafræði. Frekari efnafræðikennsla á þessum tíma tengdist einkum læknisfræði og lyfjagerð og var hún ætluð læknanemum og verðandi apótekurum.
Kratzenstein kenndi nemendum, að efnið væri samsett úr atómum (sjá t.d. bls. 14 í Vorlesungen), en notaði þá hugmynd lítið sem ekkert í verkum sínum eða kennslu. Hann aðhylltist hina gömlu efnafræði G.E. Stahls (1659-1734), þar sem eldefnið (flogiston) kemur víða við sögu. Kratzenstein var þess vegna fullur efasemda um byltingakenndar hugmyndir hins franska A.L- Lavoisiers (1743-1794), þegar fréttir af þeim bárust til Kaupmannahafnar á níunda áratug átjándu aldar. Ekki leið þó á löngu þar til hin nýja efnafræði hafði rutt sér til rúms í Danmörku.
Meðal Íslendinga, sem lærðu hjá Kratzenstein, voru þeir Bjarni Pálsson (1719-1779), sem árið 1760 varð fyrsti landlæknir á Íslandi, og Jón Sveinsson (1753-1803), sem tók við af Bjarna 1780. Sennilega hefur fyrsti íslenski apótekarinn, Björn Jónsson (1738-1798) einnig sótt tíma hjá Kratzenstein. Eins og áðurnefndir læknar, notaðist hann við verkið Pharmacopoea Danica, sem þeir Kratzenstein og apótekarinn J.D. Cappel (1717-1784) áttu mestan heiðurinn af og kom út 1772. Enn einn nemandi Kratzensteins var dansk-íslenski læknirinn Pétur Thorstensen (1752-1792), síðar fyrsti prófessorin í náttúruspeki við námuskólann á Kóngsbergi í Noregi.
Magnús Stephensen og Sveinn Pálsson
Meðal annarra þekktra íslenskra nemenda Kratzensteins voru þeir Magnús Stephensen (1762-1833) og Sveinn Pálsson (1762-1840). Sá síðarnefndi á heiðurinn af fyrstu prentuðu greininni um efnafræði á íslensku, Um kalkverkun af jörðu og steinum, sem birtist árið 1788 í 9. bindinu af ársriti, sem Hið (konunglega) íslenska lærdómslistafélag gaf út á árunum 1781-1798. Sem kunnugt er markaði þessi mikilvæga útgáfustarfsemi tímamót í íslenskri menningarsögu, ekki síst á sviði alþýðufræðslu.
Grein Sveins byggir meðal annars á gömlu eldefniskenningunni, enda vitnar hann oft í verk Kratzensteins. Einnig notast hann víða í greininni við yfirlitsrit Danans N. Tychsens (1751-1804) frá 1784, Chemisk Haandbog I, II & III, sem mun hafa verið til í mörgum eintökum hér á landi og talsvert notuð. Þá vitnar hann í ýmsa aðra höfunda, svo sem danska steindafræðinginn M.T. Brünnich (1737-1827) og hina þekktu sænsku efnafræðinga A.F. Cronstedt (1722-1765) og T. Bergman (1735-1784). Þess má geta hér, að Danir stóðu Svíum talsvert að baki í efnafræði á átjándu öld, enda var Svíþjóð þá stórveldi á því sviði, meðal annars vegna mikillar námuvinnslu í landinu.
Sveinn skrifaði fleiri greinar í Rit lærdómslistafélagsins, þar á meðal Um husblas eða sundmagalím (9. bindi, 1788) og Um sápusuðu (10. bindi, 1789).
Magnús Stephensen lærði náttúrspeki hjá Kratzenstein á undan Sveini, en síðar átti hann einnig eftir að sækja fyrirlestra hjá H.C. Örsted (1777-1851) í heimsóknum sínum til Kaupmannahafnar.
Í greinum sínum um náttúruspeki kýs Magnús að nota heitið samblandsfræði (í stað bræðslufræði) yfir það, sem við nú köllum efnafræði. Hann rökstyður valið í greininni Um járn og stál frá 1818, þannig (bls. 105):
Chemie [...], þess[i] dýrðleg[a] grein náttúrufræðinnar, án hverrar enginn má náttúrufróður nefnast. Hún kennir að þekkja allra hluta undirstöðuefni, að rannsaka þeirra sambland, og að aðskilja þeirra parta í einföld upprunaefni (element). Líka að blanda mörgum þeirra saman aftur til líkrar veru, og ummynda þá í aðrar með þeirri samblöndun. Þar þetta skeður oft án hita eða bræðslu, með samblandi ýmislegra hluta, jafnvel kaldra, eða svo, að ekki megi bræðsla nefnast, finnst mér orðið samblandsfræði næst koma að lýsa eðli þessarar lærdómsgreinar.
Ári síðar skrifaði Magnús aðra ágætis grein, Helztu lopt-tegundir I, II & III í hið þekkta mánaðarrit sitt, Klausturpóstinn.
Efnafræðikennsla í Reykjavíkurskóla
Björn Gunnlaugsson (1788-1876) hóf kennslu í eðlisfræði við Reykjavíkurskóla, strax við stofnun hans, árið 1846, og Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907) mun hafa kennt einhverja efnafræði þar í náttúrufræðitímum á árunum 1876-1893. Eftir því sem ég veit best, var þetta í fyrsta sinn, sem þessar greinar voru kenndar við latínuskóla á Íslandi. Formleg kennsla í efnafræði mun þó ekki hafa hafist í Reykjavíkurskóla fyrr en 1907 og var þá notast við bókina Kemi for Mellemskolen eftir Danann Th. Sundorph (1863-1926). Efnafræðikennsla jókst svo til muna í stærðfræðideild skólans, fljótlega eftir að hún var stofnuð, árið 1919.
- Heimi Þorleifsson (ritstj.), 1975: Saga Reykjavíkurskóla I: Nám og nemendur, bls. 208-220.
- Einar H. Guðmundsson, 2019: H.C. Örsted, bein og óbein áhrif hans á Íslendinga og upphaf kennslu í eðlisfræði og stjörnufræði við Reykjavíkurskóla.
- Einar H. Guðmundsson, 2019: Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur, aðkoma hans að stofnun stærðfræðideildar og greinin um afstæðiskenninguna.
Árið 1842 gaf Björn Gunnlaugsson, þá við Bessastaðaskóla, út hið fræga ljóð Njólu, þar sem hann setur meðal annars fram kenningu sína um frumagnir. Kenningin var byggð á hugmyndafræði hinnar svokölluðu kraftahyggju, sem kennari Björns í náttúruspeki við Háskólann í Kaupmannahöfn, H.C. Örsted, aðhylltist. Björn mun og hafa haldið þessum hugmyndum að nemendum sínum við Reykjavíkurskóla.
Læknaskólinn í Reykjavík 1876-1911
Efnafræði var kennd við Læknaskólann frá upphafi, 1876, og munu læknar hafa séð um kennsluna, þar til efnaverkfræðingurinn Ásgeir Torfason kom að skólanum, árið 1905. Meira um það hér á eftir.
- Þórarinn Guðnason, 1993: Jón Hjaltalín: Fyrsti forstöðumaður Læknaskólans.
- Árni Árnason, 1973: Læknaskólinn í Reykjavík.
Íslenskar kennslubækur og alþýðurit um efnafræði
Náttúrufræðingurinn og skáldið, Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, varð fyrstur til að semja og þýða bækur um efnafræði á íslensku. Þar skal fyrst telja Steinafræði og jarðarfræði frá 1878, sem inniheldur meðal annars ágæta umfjöllun um litrófsgreiningu (bls. 36-37). Árið eftir þýddi hann alþýðuritið Efnafræði, eftir hinn þekkta breska efnafræðing, H. E. Roscoe (1833-1915). Þá samdi hann sjálfur læsilegt rit, Efnafræði, og gaf út árið 1886. Aftast í þeirri bók er skemmtilegt yfirlit yfir sögu greinarinnar (bls. 67-76).
Mikið vatn hefur til sjávar runnið, frá því Benedikt skrifaði um efnafræði fyrir landa sína og fjöldi annarra bóka um þau fræði hafa síðan komið út á íslensku. Skrá yfir nokkrar slíkar má finna hér:
- Leó Kistjánsson, handrit 2017: Ýmsar efnafræðibækur á íslensku til 1982, í aldursröð.
III. Tuttugasta öldin til 1970
Í stað inngangsorða sjá:
- Einar H. Guðmundsson, 2018: Nútíma raunvísindi á Íslandi: Fyrstu skrefin.
Talsvert var fjallað um geislavirk efni hér á landi í byrjun tuttugustu aldarinnar, bæði af læknum og Þorkatli Þorkelssyni eðlisfræðingi. Um er að ræða ritsmíðar, sem ég hef lítið kannað, og verða þær því ekki ræddar frekar hér.
- Guðmundur Hannesson, 1903: Nýir geislar. Um „Becquerelsgeisla“.
- Anon, 1903: Radium og önnur geisliefni I, II, III, & IV. Þýtt efni.
- Steingrímur Matthíasson, 1913: Undramálmurinn Radíum og geislamagn I & II.
- Gunnlaugur Claessen, 1915: Frú Curie.
- Gunnlaugur Claessen, 1918: Radíum-lækningar.
- Morgunblaðið, 31. ágúst 1919: Radiumstofnun Íslands.
- Gunnlaugur Claessen, 1919: Radium.
- Prytz, K. & Th. Thorkelsson, 1905: Undersøgelse af nogle islandske varme Kilders Radioaktivitet og af Kildeluftarternes Indhold af Argon og Helium.
- Þorkell Þorkelsson, 1910: The Hot Springs of Iceland.
Fyrstu háskólamenntuðu efnafræðingarnir
Til skamms tíma hefur ekki verið gerður mikill greinarmunur á efnafræðingum og efnaverkfræðingum hér á landi. Fyrstu íslensku efnafræðingarnir voru nær allir efnaverkfræðingar og lengi vel lærðu flestir þeirra við Fjöllistaskólann (Den Polytekniske Læreanstalt) í Kaupmannahöfn. Hann var settur á laggirnar árið 1829 og hélt nafninu til 1933, þegar því var breytt í Danmarks Tekniske Højskole (DTH). Frá 1994 hefur stofnunin svo borið heitið Danmarks Tekniske Universitet (DTU). Helstu efnafræðikennarar Fjöllistaskólans kenndu einnig flestir, ef ekki allir, við Háskólann í Kaupmannahöfn.
- Jensen, K.A., 1983. „Kemi“. Í Københavns Universitet 1479-1979, bind XII: Det matematisk-naturvidenskabelige Fakultet, 1. del: Fakultetets almindelige historie, Matematik, Datalogi, Statistik, Forsikringsmatematik, Geodæsi, Astronomi, Fysik, Kemi. M. Pihl, bls. 427-580.
- Lundbye, J.T., 1929: „Kemi“. Í Den polytekniske Læreanstalt 1829-1929, bls. 369-395.
Sjá einnig:
- Finnbogi R. Þorvaldsson, 1955: Den polytekniske Læreanstalt, Danmarks tekniske Höjskole: 1829-1954.
- Einar H. Guðmundsson, 2019: H.C. Örsted, bein og óbein áhrif hans á Íslendinga og upphaf kennslu í eðlisfræði og stjörnufræði við Reykjavíkurskóla.
Fyrstu íslensku efnaverkfræðingarnir voru þeir Ásgeir Torfason (1871-1916), sem lauk námi 1903, og Trausti Ólafsson (1891-1961), sem útskrifaðist 1921.
- Sveinn Þórðarson, 2002: Frumherjar í verkfræði á Íslandi. Bók nr. I í Ritröð Verkfræðingafélags Íslands. Með köflum um efnaverkfræðingana Ásgeir Torfason, Trausta Ólafsson, Bjarna Jósefsson (1892-1957) og Ásgeir Þorsteinsson (1898-1971).
Efnarannsóknastofa ríkisins
Fyrsta opinbera efnarannsóknarstofa Íslendinga tók til starfa árið 1906. Frumkvæðið áttu Björn Jensson kennari (1852-1904), læknarnir Guðmundur Björnsson (1864-1937) og Guðmundur Magnússon (1863-1924) og Michael Lund lyfsali (1873-1949).
- Fjallkonan, 21. sept 1906: Efnarannsóknastofan.
- Mbl, 25. mars 1917: Efnarannsóknarstofan.
- Gísli Guðmundsson, 1919: Efnarannsóknastofan.
- Bjarni Jósefsson, 1927: „Í rúst“.
Ásgeir Torfason var fyrsti forstöðumaður stofunnar. Hann dó árið 1916 og við stjórninni tók Gísli Guðmundsson gerlafræðingur (1884-1928). Hann var forstöðumaður, þar til Trausti Ólafsson tók við árið 1921. Efnarannsóknastofa ríkisins varð á endanum hluti af Iðnaðardeild Atvinnudeildar Háskólans, þegar hún var sett á laggirnar árið 1937.
- Trausti Ólafsson, 1960: Efnarannsóknastofan – Iðnaðardeild (1906-1956). Í ritinu Atvinnudeild Háskólans: Skýrsla Iðnaðardeildar árin 1947-1956, bls. 7-29.
- Bæklingur, 1962: Atvinnudeild Háskólans 25 ára 1937-1962.
- Frjáls verzlun, 1962: Atvinnudeild Háskólans í aldarfjórðung.
- Óskar B. Bjarnason, 1964: Iðnaðardeild Atvinnudeildar Háskólans og íslenzkar efnarannsóknir.
Nokkrar aðrar stofnanir með áherslu á efnafræði
Sjá eftirfarandi heimildir:
- Páll Ólafsson, 1984: Hálfrar aldar starf: Rannsóknastofa Fiskifélags Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
- Hjörtur Gíslason & Hákon Ólafsson (ritstj.), 2005: Í ljósi vísindanna: Saga hagnýtra rannsókna á Íslandi. Bók nr. III í Ritröð Verkfræðingafélags Íslands.
- Sigmundur Guðbjarnason, maí 2011: Efnafræði á Íslandi í hundrað ár – Fyrri hluti.
- Sigmundur Guðbjarnason, maí 2011: Efnafræði á Íslandi í hundrað ár – Seinni hluti.
Efnafræðikennsla í Læknadeild Háskólans
Við stofnun Háskóla Íslands, árið 1911, varð Læknaskólinn í Reykjavík að Læknadeild, einni af fjórum deildum Háskólans. Kennararnir fylgdu með, þar á meðal Ásgeir Torfason, sem hélt áfram að sjá um efnafræðina. Eins og tíðkast hafði frá 1906, fóru verklegu æfingarnar fram í húsakynnum Efnarannsóknastofu ríkisins og í kennslunni notaði Ásgeir sömu kennslubækurnar og áður, Grundtræk Af Den Uorganiske Kemi og Grundtræk Af Den Organiske Kemi eftir danska efnafræðinginn O.T. Christensen (1851-1914). Þessar bækur þóttu greinilega svo góðar, að þær voru notaðar áfram eftir að Ásgeir lést, haustið 1916. Ekki var breytt um kennslubækur fyrr en Trausti Ólafsson tók við efnafræðikennslunni í Læknadeild, árið 1921.
Vert er að hafa í huga í þessu sambandi, að Christensen var á margan hátt merkur efnafræðingur. Hann var til dæmis fyrsti danski kennslubókahöfundurinn, sem kynnti dönskulesandi háskólanemum lotukerfi Mendelejevs (1834-1907) og útskýrði mikilvægi þess í efnafræði.
- Kragh, H., 2010: Det periodiske systems indførelse i Danmark.
- Kragh, H., 2011: The Periodic Table in a National Context: Denmark, 1880-1923. Innheldur m.a. fróðlega umfjöllun um danskar kennslubækur í efnafræði og samfélag danskra efnafræðinga á árunum 1870-1923.
Frekari heimildir um efnafræðikennsluna í Læknadeild er að finna í Árbókum Háskóla Íslands. Sjá einnig: Elín Ólafsdóttir og Baldur Símonarson, 1987: Biochemistry in Iceland.
Efnafræðikennsla á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskólans
Helstu heimildir, sem ég þekki, um upphaf og sögu formlegs náms í verkfræði og náttúruvísindum við Háskóla Íslands, eru eftirfarandi greinar:
- Þorbjörn Karlsson,1987: Verkfræðikennsla í Háskóla Íslands.
- Þorsteinn Vilhjálmsson, 1987: Verkfræði og raunvísindi við Háskóla Íslands: Fyrstu skrefin.
Heimildir um efnafræðikennslu í verkfræði- og náttúruvísindanámi við HÍ er að finna í Árbókum Háskóla Íslands. Sjá einnig: Elín Ólafsdóttir og Baldur Símonarson, 1987: Biochemistry in Iceland.
Svipmyndir frá árunum 1930 til 1970
- Baldur Líndal (viðtal), 1949: Miklir möguleikar í efnaiðnaði hér á landi.
- Unnsteinn Stefánsson (viðtal), 1954: Um sjórannsóknir.
- Ásgeir Þorsteinsson, 1954: Íslenzk rannsóknarverkefni.
- Geir Arnesen (viðtal), 1960: Hvert stefnir með hagnýtingu á fiskolíum.
- Hannes Kristinsson (viðtal), 1960: Akureyringur býr sig undir doktorsnám í efnaverkfræði.
- Vísir, 8. mars 1962: Milljónatjón vegna nokkurra gr. kopars.
- Baldur Líndal (viðtal), 1962: Saltsuða úr sjó við jarðhita.
- Jón E. Vestdal, 1963: Sementsframleiðsla og sementsverksmiðja.
- Alþbl, 10. sept 1966: Efnaiðnaður á Íslandi.
- Baldur Líndal, 1966: Kísilgúrverksniðjan við Mývatn í ljósi rannsókna og tæknilegrar þróunar.
Þrír brautryðjendur í efnafræði við Háskóla Íslands
Steingrímur Baldursson
Steingrímur Baldursson (1930-2020) lauk BS-prófi í efnafræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley, árið 1952, og MS-prófi í sömu grein við Chicagoháskóla 1953. Hann var við nám og störf í kennilegri lághita-safneðlisfræði við Enrico Fermi Institute for Nuclear Studies við Chicago-háskóla á árunum 1953-1958. Þaðan lauk hann doktorsprófi í efnaeðlisfræði árið 1958 með ritgerðinni The Lambda-transition in Liquid Helium. Leiðbeinandi hans var prófessor J.E. Mayer. Ári síðar birtist eftir Steingrím greinin Theory of Bose‐Einstein Fluids, Statistical Mechanical Treatment of the Thermodynamic Properties of Liquid Helium.
Steingrímur kenndi efnafræði við Læknadeild Háskólans frá 1960, þar sem hann var prófessor. Árið 1974 var embætti hans fært til Verkfræði- og raunvísindadeildar, þar sem hann innleiddi meðal annars kennslu í eðlisefnafræði við efnafræðiskor.
Bragi Árnason
Bragi Árnason efnaverkfræðingur (1935-2017) lauk Dipl. Chem.-prófi frá Technische Hochschule í München í Þýskalandi árið 1961. Hann var sérfræðingur við Eðlisfræðistofnun Háskólans 1962-66 og við Raunvísindastofnun 1966-70. Dósent í efnafræði við HÍ 1970-76 og prófessor 1976-2005. Dr. scient frá HÍ 1976.
- Bragi Árnason, 2005: Erindi við starfslok.
- Bragi Árnason (viðtal): Professor Hydrogen.
- The Reykjavik Grapevine, 8. júl 2005: Professor Hydrogen, Dr. Bragi Árnason.
- Mbl, 10. sept 2017: Andlátsfrétt.
- Leó Kristjánsson, handrit 2017: Ritaskrá Braga Árnasonar.
Sigmundur Guðbjarnason
Sigmundur Guðbjarnason lífefnafræðingur (f. 1931) varð prófessor í lífrænni efnafræði og lífefnafræði við Háskóla Íslands árið 1970. Sem kunnugt er, var það upphafið að þróttmiklu uppbyggingarstarfi á sviði kennslu og rannsókna í efnafræði við skólann.
- Sigmundur Guðbjarnason, janúar 2011: „Er þetta hægt“?
- Sigmundur Guðbjarnason (viðtal), 1982: Hægt að draga rangar ályktanir af réttum niðurstöðum.
- Guðmundur G. Haraldsson (ritstj.), 2006: Vísindin heilla: Afmælisrit til heiðurs Sigmundi Guðbjarnasyni 75 ára. Með æviágripi Sigmundar og ritaskrá.
Viðauki: Nokkur gagnleg rit um sögu efnafræðinnar
- Einar H. Guðmundsson, 2022: Saga efniskenninga – Ritaskrár.
- Wikipedia: Saga efnafræðinnar.
- Bensaude-Vincent, B. & I. Stengers, 1996: A History of Chemistry.
- Beretta, M., 2011: The Changing role of the Historiography of Chemistry in Continental Europe Since 1800.
- Brock, W.H, 2000: The Chemical Tree: A History of Chemistry.
- Brock, W.H., 2016: The History of Chemistry: A Very Short Introduction.
- Eddy, M.D., S.H. Mauskopf & W.R. Newman, 2014: Inngangur að bókinni
Chemical Knowledge in the Early Modern World. - Morris, P.J.T. & A. Rocke (aðalritstj.), 2021: A Cultural History of Chemistry 1-6.
- Nye, M.J., 1996: Before Big Science: The Pursuit of Modern Chemistry and Physics, 1800-1940.