Ég man ekki til þess að hafa heyrt minnst á Þorstein Sæmundsson fyrr en á fögrum vordegi árið 1967. Þann dag gengum við bekkjarfélagarnir í 6S undir munnlegt stúdentspróf í stjörnufræði í MR. Kennari okkar í þeirri grein var Skarphéðinn Pálmason stærðfræðingur og prófdómarinn var Þorsteinn. Snemma um morguninn hafði það kvisast út meðal nemenda, að prófdómarinn væri ekki aðeins hámenntaður stjörnufræðingur við Háskóla Íslands, heldur jafnframt einstaklega nákvæmur og strangur í öllum sínum dómum. Ég var því með örlítinn hnút í maganum, þegar ég gekk að grændúkuðu prófborðinu og hef sjálfsagt ekki verið einn um það í nemendahópnum.
Prófið gekk þó ágætlega, þangað til ég var beðinn um að reikna út, hvað það tæki jörðina langan tíma að falla inn í sólina, ef hún staðnæmdist skyndilega á braut sinni. Ég notaði trikk, sem Skarphéðinn hafði minnst á í kennslustund (markgildið af brautarsporbaugi jarðar um sólu, þegar miðskekkjan stefnir á einn, er bein lína milli jarðar og sólar) og beitti síðan þriðja lögmáli Keplers til að finna falltímann (65 daga). Þorsteinn kvað svarið rétt, en vildi ekki samþykkja lausnaraðferðina. Af þessu spunnust nokkrar deilur, þar sem við Skarphéðinn stóðum saman gegn Þorsteini. Hann lét þó undan að lokum, með semingi þó.
Eg tel, að þessi litla dæmisaga lýsi nokkuð vel fyrstu kynnum margra af Þorsteini. Hann átti það til, ekki síst á yngri árum, að vera nokkuð snöggur upp á lagið, enda reglufastur og siðavandur maður með ákveðnar skoðanir og ófrávíkjanleg prinsipp. Á stundum gátu óvænt viðbrögð hans komið viðmælendum úr jafnvægi og jafnvel gert þá honum fráhverfa. Það var ekki fyrr en menn kynntust Þorsteini nánar, sem þeir áttuðu sig á, að þar fór í raun hinn vænsti maður með ríka réttlætiskennd og sterka sannleiksást. Hann var skarpgáfaður, rökvís og einbeittur heiðursmaður, sem vann öll sín verk af mikilli vandvirkni og var jafnframt ráðagóður með afbrigðum. Minnisgóður var hann og nákvæmni var honum í blóð borin. Hann var sannur vinur vina sinna og taldi það ávallt skyldu sína að upplýsa þá, sem og aðra samferðamenn, um vísindi sín, stjörnufræði, háloftafræði og tímatalsfræði. Þrátt fyrir að vera bæði viðkvæmur og hlédrægur að eðlisfari, var hann óhræddur við að tjá sig um margvísleg samfélagsmál, hvort heldur var í ræðu eða riti. Allar ritsmíðar hans, og þær eru margar, eru gagnorðar og fágaðar og bera þess glögg merki, að þar hélt einstaklega ritfær maður á penna.
Ég átti því láni að fagna að vinna í nánasta starfsumhverfi Þorsteins í um það bil fjóra áratugi og mat hann mikils, bæði sem starfsfélaga og vin. Þær svipmyndir, sem brugðið er upp hér á eftir eru þó, rúmsins vegna, lítið annað en stutt og gloppótt upptalning á nokkrum atriðum, sem mér hafa þótt hvað áhugaverðust á ferli hans. Aðrir eiga eflaust eftir að fjalla um fleiri mikilvæga þætti í lífi hans og starfi. Í þessu sambandi má einnig benda á vandaða vefsíðu Þorsteins sjálfs, þar sem meðal annars má finna ritaskrá hans, ferilskrá og minningar.
Háskólanám
Þorsteinn Sæmundsson var afburða námsmaður og margverðlaunaður sem slíkur. Frá átta ára aldri var stjörnufræði hans helsta áhugamál og þegar kom að háskólanámi, valdi hann að stunda hana sem aðalgrein til B.Sc. Honorsprófs við St. Andrews háskóla í Skotlandi, með stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði sem aukagreinar. Hann lauk því námi 1958 með ritgerðinni The Earth and the Sun – Solar-Terrestrial Relations.
Að loknu B.Sc. prófi hóf Þorsteinn doktorsnám við Háskólann í London og fékk vinnuaðstöðu við stjörnuturn skólans í Mill Hill, þar sem leiðbeinandi hans, Clabon W. Allen, starfaði (sjá einnig hér). Doktorsritgerðin fjallaði um áhrif sólar á jörð, nánar tiltekið uppruna svokallaðra raðbundinna segulstorma, sem Þorsteinn varði árið 1962. Sama ár komu út eftir hann tvær vísindagreinar, sem talsvert var vitnað í á sínum tíma:
Norðurljósarannsóknir
Að loknu doktorsprófi kaus Þorsteinn að halda heim til Íslands í stað þess að stunda vísindarannsóknir erlendis. Hann hóf því störf við Eðlisfræðistofnun Háskólans árið 1963 með það fyrir augum að halda áfram rannsóknum á segulstormum og norðurljósum, eins og fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu í janúar 1963. Að beiðni Þorbjörns Sigurgeirssonar eðlisfræðings, tók hann jafnframt að sér rekstur segulmælingastöðvar-innar í Leirvogi, sem Þorbjörn hafði komið upp árið 1957 í tilefni Alþjóða-jarðeðlisfræðiársins.
Til að safna sem mestum upplýsingum um norðurljósin og hvetja Íslendinga til að fylgjast vel með þeim, gaf Þorsteinn út gagnlegan bækling um norðurljósaathuganir. Jafnframt sá hann lengi um rekstur norðurljósamyndavéla á Rjúpnahæð og við Egilsstaði.
Í þessu sambandi langar mig til að minnast á, að árið 1968 var ég í sumarvinnu hjá Þorsteini við talningar á mismunandi gerðum norðurljósa á myndskeiðum frá kvikmyndavélinni á Rjúpnahæð. Ég skrifaði forrit til að vinna úr mælingunum og skilaði niðurstöðunum til Þorsteins. Löngu seinna, árið 2012, birti hann eitt af línuritunum, sem ég hafði lagt drög að sumarið 1968, mér til mikilar ánægju:
Þorsteinn átti samvinnu við ýmsa erlenda rannsóknarhópa um háloftarannsóknir, þar á meðal á norðurljósum. Þeirra viðamest var rannsóknarsamvinna við japanska vísindamenn, sem komu hingað til lands af þeirri ástæðu, að Ísland var við endann á segulsviðslínu, sem náði alla leið til mælistöðva Japana á Suðurskautslandinu. Þorsteinn aðstoðaði Japanina meðal annars við að koma upp þremur mælistöðvum hér á landi og túlka með þeim mælingarnar. Úr þessu samstarfi kom fjöldi vísindagreina, sem taldar eru upp í ritaskrá Þorsteins.
Leirvogsstöðin
Stór hluti af vinnutíma Þorsteins fór í að sinna segulmælingastöðinni í Leirvogi. Stöðin gekk í gegnum miklar breytingar eftir að Þorsteinn tók að sér umsjón hennar árið 1963, eins og sjá má í annál, sem hann tók saman árið 2022. Þegar hann fór á eftirlaun 2005 tók Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur við rekstrinum.
Íslandsalmanakið
Útreikningur og umsjón Almanaksins var veigamikill hluti af starfi Þorsteins, allt frá árinu 1963, fyrst í samvinnu við Trausta Einarsson stjörnufræðing, síðan einn og óstuddur í fjörutíu ár og undir lokin í samvinnu við Gunnlaug Björnsson stjarneðlisfræðing. Í ritstjórnartíð Þorsteins óx Almanakið og dafnaði, eins og sjá má með samanburði á fyrstu og síðustu útgáfunni, sem hann kom að.
Tímatalsfræði
Eitt helsta viðfangsefni Þorsteins var tímatalsfræði, ekki síst sá hluti, sem snýr að íslensku tímatali, bæði fyrr og síðar. Skýrasta dæmið um störf hans á því sviði var umsjón hans með Íslandsalmanakinu, sem áður var minnst á. Árið 1972 gaf hann einnig út merkt uppsláttarrit, Stjörnufræði – Rímfræði, sem á sínum tíma kom eins og sending af himnum ofan til allra þeirra, sem þá kenndu stjörnufræði (og rímfræði) í íslenskum framhaldsskólum.
Í ritaskrá Þorsteins er talinn upp fjöldi annarra ritsmíða um tímatalsfræði. Sem dæmi má nefna eftirtaldar greinar:
Klukkan á Íslandi
Árið 1968 hafði Þorsteinn forgöngu um breyttan tímareikning á Íslandi í þá veru, að hér eftir ættu klukkur á landinu að vera stilltar eftir miðtíma Greenwich allt árið. Þetta var samþykkt á Alþingi og fyrirkomulagið hefur haldist óbreytt síðan. Óhætt mun þó að fullyrða, að aldrei hafi ríkt fullt sátt um málið meðal landsmanna. Það hefur því gerst oftar en einu sinni, að komið hafa fram lagafrumvörp og þingsályktunartillögur ásamt meðfylgjandi greinargerðum um breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Eins og flestum mun kunnugt, hafa forsvarsmenn slíkra breytinga ekki enn haft erindi sem erfiði. Yfirlit um þessa sögu má finna hér.
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
Vorið 1976 var Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stofnað og með því fengu íslenskir áhugamenn um stjörnufræði loksins vettvang til þess að koma saman og ræða hugðarefni sín. Frumkvæðið að þessu átaki átti þúsundþjalasmiðurinn Sigurður Kr. Árnason og naut hann þar mikilvægrar aðstoðar Þorsteins, sem sá um að velja bæði sjónauka og hvolfþak fyrir félagið. Jafnframt tók Þorsteinn að sér formensku í félaginu fyrsu árin (sjá meira um þau ár hér og hér). Hann sagði einnig frá stofnun félagsins í Raunvísi, skammlífu fréttabréfi Raunvísindastofnunar Háskólans, sem hann ritstýrði.
Ljósbrot í lofthjúpi jarðar
Ein af þekktustu greinum Þorsteins á alþjóðavettvangi var birt í tímaritinu Sky and Telescope árið 1986. Þar setti Þorsteinn fram einfalda og nákvæma nálgunarformúlu fyrir ljósbrotið í andrúmsloftinu. Formúlan er talsvert notuð og er við hann kennd.
Sólmyrkvar
Frá fyrstu tíð lagði Þorsteinn mikla áherslu á að fylgjast með áhugaverðum fyrirbærum á himni, bæði að nóttu sem degi. Þar má meðal annars nefna fyrirbæri eins og norðurljós, vígahnetti og loftsteinadrífur, en ekki síður stjörnumyrkva og tunglmykva, svo ekki sé talað um hina tilkomumiklu sólmyrkva.
Stjarnvísindafélag Íslands
Þorsteinn var einn af stofnfélögum Stjarnvísindafélags Íslands og sótti hvern einasta fund þess, allt þar til hann fór á eftirlaun. Hann tók að sér ýmis mikilvæg verkefni fyrir félagið og var formaður þess um tíma.
Norræni stjörnusjónaukinn
Segja má, að straumhvörf hafi orðið í stjarnvísindarannsóknum Íslendinga í júlí árið 1997, en þá gerðist Háskóli Íslands aðili að norrænu samstarfi um stjörnusjónauka á La Palma, einni af Kanaríeyjunum. Stjarnvísindafélag Íslands hafði frumkvæði að aðildarumsókninni og meðal þeirra, sem áttu hvað mestan þátt í að koma málinu farsællega í höfn, var Þorsteinn Sæmundsson. Hann var jafnframt fullrúi Íslands í stjórn sjónaukans í nokkur ár.
Nýyrðasmíð og orðanefndarstörf
Þorsteinn hafði alla tíð mikinn áhuga á íslensku máli og eftir hann liggur fjöldi nýyrða, einkum í stjörnufræði og tölvunarfræði. Þá smíðaði hann ýmis nýyrði í eðlisfræði og efnafræði. Hann var mikilvirkur meðlimur í orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands á árunum 1978 til 2013 og einn af höfundum Tölvuorðasafns félagsins. Hann sat og í Íslenskri málnefnd árin 2002-2005.
Mörg nýyrða hans í stjarnvísindum komu fyrst á prenti í bókinni Stjörnufræði – Rímfræði árið 1972. Hann var formaður orðanefndar Stjarnvísindafélags Íslands frá upphafi (1990) til dauðadags, og sá um prentútgáfu Orðaskrár úr stjörnufræði árið 1996.
Frá því hún fyrst kom út, hefur orðaskráin verið uppfærð reglulega, og nú má ávallt finna nýjustu útgáfuna á vef almanaksins: Orðaskrár úr stjörnufræði: Ensk-íslensk & Íslensk-ensk.
Alþýðufræðsla
Þorsteinn Sæmundsson var tvímælalaust fremsti alþýðufræðari Íslands í stjörnufræði, háloftafræði og tímatalsfræði á seinni hluta tuttugustu aldar. Afköst hans á því sviði voru sannast sagt ótrúleg, eins og sjá má með því að renna í gegnum ritaskrá hans á vefnum. Þótt ýmsar ritsmíðarnar séu stuttar og fyrst og fremst ætlaðar lesendum almanaksins til fróðleiks, þá eru þær, eins og hinar lengri, einstaklega vel unnar, hnitmiðaðar og auðlesnar.
Fyrir mína parta held ég mest upp á tvö af alþýðuritum Þorsteins. Annað er stjörnufræðihlutinn í Stjörnufræði – Rímfræði frá 1972, hitt er ritgerðin Drög að heimsmynd nútímans, sem kom út árið 1966, rétt um það leyti, sem byltingin mikla í vísindalegri heimsfræði var að hefjast fyrir alvöru. Aldur verkanna dregur þó ekki úr gildi þeirra í mínum huga. Bæði gefa þau einstaklega gott yfirlit yfir stöðu stjörnufræði og heimsfræði á þeim mikilvægu árum í lok sjöunda áratugs síðustu aldar, þegar ég var að hefja háskólanám mitt í raunvísindum.
Að lokum tek ég mér það bessaleyfi, að birta afrit af skemmtilegri ljósmynd, sem Ragnar Axelsson ljósmyndari tók af Þorsteini og Morgunblaðið birti með greininni Undur og ógnir himingeimsins í nóvember 1992.