Líf og starf

Uppruni og fjölskylda

Ég er fæddur 1. júní 1955 á Sauðárkróki, sonur hjónanna Rögnvaldar Gíslasonar frá Eyhildarholti í Hegranesi og Sigríðar Jónsdóttur frá Djúpadal í Blönduhlíð. Ég er kvæntur Guðrúnu Ingólfsdóttur, cand.mag., doktorsnema í íslenskum bókmenntum, og við eigum einn son, Ingólf, f. 1994.

Námsferill

Ég lauk landsprófi miðskóla frá Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki vorið 1971. Að því loknu fór ég í Menntaskólann á Akureyri, og lauk stúdentsprófi úr máladeild vorið 1975.

Haustið 1976 hóf ég nám við heimspekideild Háskóla Íslands, og lauk B.A.-prófi í íslensku sem aðalgrein og almennri bókmenntafræði sem aukagrein vorið 1979.

Að loknu B.A.-prófi settist ég á kandídatsstig í íslenskri málfræði, og tók einnig nokkur námskeið í almennum málvísindum til B.A.-prófs. Kandídatsprófi lauk ég haustið 1982.

Aðalstarf

Frá námslokum hef ég haft kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Ég var stundakennari (í almennum málvísindum og íslensku) við Háskóla Íslands 1981- 85. Skipaður lektor í íslenskri málfræði frá 1. janúar 1986, dósent frá 1. maí 1988, prófessor frá 1. maí 1993 til 30. júní 2018 þegar ég fór á eftirlaun.

Frá ársbyrjun 2019 til septemberloka 2021 var ég í 40 og síðar 20% starfi sem landsfulltrúi (national coordinator) CLARIN á Íslandi, með aðstöðu á CLARIN-miðstöðinni á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Önnur störf

Frá hausti 1975 til jafnlengdar næsta ár gegndi ég starfi bókavarðar Héraðsbókasafns Skagfirðinga og forstöðumanns Safnahúss Skagfirðinga. Sumrin 1977-1979 gegndi ég þessu sama starfi, u.þ.b. þrjá mánuði hvert sumar.

Sumarið 1980 vann ég um mánaðarskeið á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga við röðun og skráningu ýmissa opinberra skjala.

Sumrin 1980 og 1981 vann ég við framburðarathuganir (upptökur) í Skagafirði á vegum prófessoranna Höskuldar Þráinssonar og Kristjáns Árnasonar, u.þ.b. viku hvort sumar.

Veturinn 1980-1981 vann ég um tíma við prófarkalestur skýringartexta hjá Sjónvarpinu.

Sumrin 1981 og 1982 vann ég einkum að kandídatsritgerð minni.

Sumrin 1983-1985 vann ég að athugunum á íslenskri setningafræði, einkum orðaröð, fyrir styrki úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og norrænan styrk sem Málvísindastofnun var veittur.

Árin 1983-1987 var ég ritstjóri tímaritsins Íslensks máls, sem Íslenska málfræðifélagið gefur út.

Sumarið 1984 sá ég um þáttinn Daglegt mál í Ríkisútvarpinu um tveggja mánaða skeið (júlí-september), og flutti alls 17 þætti.

Á árunum 1985-1989 rak ég ásamt Vilhjálmi Sigurjónssyni fyrirtækið Ritmál, sem tók að sér ýmis verkefni á sviði textavinnslu. Við þýddum m.a. ritvinnslukerfið WordPerfect á íslensku og gerðum íslenskt orðasafn með kerfinu.