Líf og starf

Uppruni og fjölskylda

Ég er fæddur 1. júní 1955 á Sauðárkróki, sonur hjónanna Rögnvaldar Gíslasonar frá Eyhildarholti í Hegranesi og Sigríðar Jónsdóttur frá Djúpadal í Blönduhlíð. Ég er kvæntur Guðrúnu Ingólfsdóttur, doktor í íslenskum bókmenntum, og við eigum einn son, Ingólf, f. 1994.

Námsferill

Ég lauk landsprófi miðskóla frá Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki vorið 1971. Að því loknu fór ég í Menntaskólann á Akureyri, og lauk stúdentsprófi úr máladeild vorið 1975.

Haustið 1976 hóf ég nám við heimspekideild Háskóla Íslands, og lauk B.A.-prófi í íslensku sem aðalgrein og almennri bókmenntafræði sem aukagrein vorið 1979.

Að loknu B.A.-prófi settist ég á kandídatsstig í íslenskri málfræði, og tók einnig nokkur námskeið í almennum málvísindum til B.A.-prófs. Kandídatsprófi lauk ég haustið 1982.

Aðalstarf

Frá námslokum hef ég haft kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Ég var stundakennari (í almennum málvísindum og íslensku) við Háskóla Íslands 1981- 85. Skipaður lektor í íslenskri málfræði frá 1. janúar 1986, dósent frá 1. maí 1988, prófessor frá 1. maí 1993 til 30. júní 2018.

Önnur störf

Frá hausti 1975 til jafnlengdar næsta ár gegndi ég starfi bókavarðar Héraðsbókasafns Skagfirðinga og forstöðumanns Safnahúss Skagfirðinga. Sumrin 1977-1979 gegndi ég þessu sama starfi, u.þ.b. þrjá mánuði hvert sumar.

Sumarið 1980 vann ég um mánaðarskeið á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga við röðun og skráningu ýmissa opinberra skjala.

Sumrin 1980 og 1981 vann ég við framburðarathuganir (upptökur) í Skagafirði á vegum prófessoranna Höskuldar Þráinssonar og Kristjáns Árnasonar, u.þ.b. viku hvort sumar.

Veturinn 1980-1981 vann ég um tíma við prófarkalestur skýringartexta hjá Sjónvarpinu.

Sumrin 1981 og 1982 vann ég einkum að kandídatsritgerð minni.

Sumrin 1983-1985 vann ég að athugunum á íslenskri setningafræði, einkum orðaröð, fyrir styrki úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og norrænan styrk sem Málvísindastofnun var veittur.

Árin 1983-1987 var ég ritstjóri tímaritsins Íslensks máls, sem Íslenska málfræðifélagið gefur út.

Sumarið 1984 sá ég um þáttinn Daglegt mál í Ríkisútvarpinu um tveggja mánaða skeið (júlí-september), og flutti alls 17 þætti.

Á árunum 1985-1989 rak ég ásamt Vilhjálmi Sigurjónssyni fyrirtækið Ritmál, sem tók að sér ýmis verkefni á sviði textavinnslu. Við þýddum m.a. ritvinnslukerfið WordPerfect á íslensku og gerðum íslenskt orðasafn með kerfinu.