Að fljúga farþegum

Nýlega sá ég á Facebook heilmikla umræðu um setninguna „Tveim konum var flogið til Íslands“ sem hafði komið fyrir í fréttum. Hliðstæðar setningar hafa margoft verið ræddar áður í ýmsum málfarshópum. Mörgum finnst setningar af þessu tagi ótækar og segja að aðeins flugvélum (eða annars konar loftförum) sé flogið, ekki fólki. Í anda hefðbundinnar íslenskrar málfarsumræðu er tækifærið svo notað til að snúa út úr setningunni og segja fimmaurabrandara.

Það er vel þekkt víða um land að fólki sé flogið, og á sér langa hefð. Elsta dæmi sem ég fann um það í fljótu bragði var í Morgunblaðinu 1954: „Um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi kom önnur flugvél til Keflavíkurflugvallar, sótti farþegana og flaug þeim heim til sín, til Vestmannaeyja.“ Í Frjálsri þjóð 1960 segir „Þeim var flogið til Washington í sérlegri flugvél“. Í Morgunblaðinu 1972 segir „Var fuglunum þar skipað um borð í vöruflutningaflugvél, sem flaug þeim síðan til Englands ásamt nær 300 öðrum gæludýrum“ – og svo mætti lengi telja.

Vitanlega er það rétt að talað er um að fljúga flugvél. En það táknar ekki að rangt sé að tala um að fljúga farþegum. Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að sama sögnin taki andlög sem hafa mismunandi merkingarvensl við sögnina. Í þessu tilviki er nærtækt að bera fljúga saman við aka. Það er talað um að aka bíl, en líka aka farþegum án þess að fólki þyki það athugavert. Sama er að segja um keyra nema hún tekur þolfall – talað er um að keyra bíl og keyra farþega. Í máli sumra, þ. á m. mínu, tekur keyra reyndar þágufall í seinna tilvikinu – ég tala um að keyra bílinn en keyra farþegunum.

En það er athyglisvert að fólk sem hnýtir í setningar eins og fljúga farþegum minnist aldrei á það – og hugsar sennilega ekki út í það eða áttar sig ekki á því – að til skamms tíma var sögnin fljúga áhrifslaus og tók ekki með sér neitt andlag, aðeins frumlag. Fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn flaug fuglum eða örvum eða neinu öðru. Það var ekki fyrr en eftir tilkomu flugvéla í byrjun 20. aldar að þörf skapaðist á að láta fljúga fá andlag. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dagsbrún 1917: „Vélinni var flogið í 1500 til 2000 metra hæð.“ Þessa merkingu sagnarinnar er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Það er því ljóst að báðar setningagerðirnar, fljúga flugvél og fljúga farþegum, eru nýjungar í málinu, báðar frá 20. öld, þótt sú fyrrnefnda eigi sér vissulega eitthvað lengri sögu, sé kannski 30 eða í mesta lagi 40 árum eldri. En þótt seinni gerðin sé sjaldgæfari en hin er hún samt málvenja margra og á sér áratuga sögu, þannig að það væri fráleitt að gera upp á milli þessara setningagerða. Báðar hljóta að teljast rétt mál.

Skildi

Nýlega rakst ég á texta frá 1925 þar sem talað er um „skildin utan á búðirnar“. Ég hélt fyrst að skildin væri prentvilla fyrir skiltin en fór samt að skoða málið nánar. Þá kom í ljós að skildi er flettiorð í Íslenskri orðsifjabók í merkingunni 'skilti, nafnspjald' og sagt vera nýyrði í nútímamáli, tengt skjöldur. Orðið er einnig að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og meira að segja í Íslenskri orðabók sem tekur mikið af orðum frá Blöndal þótt þau hafi ekki verið notuð í marga áratugi.

Á tímarit.is er að finna örfá dæmi um skildi, það elsta sem ég fann er frá 1899 og það yngsta frá 1945. Þetta nýyrði virðist því aldrei hafa náð neinu flugi, heldur hefur skilti verið notað í staðinn. Það er tökuorð úr dönsku frá 19. öld, skylt skjöldur. Bæði orðin, skildi og skilti, eru því af sömu rót þótt leið þeirra inn í íslenskuna sé ólík - annað tökuorð en hitt íslensk nýmyndun. Mér finnst skildi fallegra orð en úr þessu verður það varla tekið upp í staðinn fyrir skilti.

Glöggvi

Ég var spurður um það hvort til væri eitthvert nafnorð um þann eiginleika að vera glöggur. Fyrirspyrjandi sagðist hafa heyrt orðið talnaglöggvi nýlega og kom það spánskt fyrir sjónir. Ég hef aldrei heyrt orðið glöggvi eða samsetningar af því og það finnst hvorki í orðabókum né Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Hins vegar fann ég tvö dæmi um það á tímarit.is, bæði frá 1913.

Í tímaritinu Birkibeinum stendur: „Þessar síðasttöldu bækur eru hver annari ágætari, og bera allar vott um óþreytandi elju höf., [...] og um frábæra glöggvi, að vinna svo glögg og áreiðanleg verk úr svo varhugaverðu verkefni.“ Í upptalningu á „mállýtum“ í blaðinu Reykjavík eru m.a. nefndir: „Rangmyndaðir nýgervingar (myndaðir móti eðlislögum málsins) t. d. gleggni (í st. f.: glöggleiki, glöggvi).“

Einnig fann ég dæmi um samsetningarnar mannglöggvi í Prestafélagsritinu 1921, fjárglöggvi í Prentaranum 1936 og Morgunblaðinu 1972, og veðurglöggvi í Vikunni 1940 og Heimskringlu 1941. Þessi orð eru ekki heldur í orðabókum, en Ritmálssafn Orðabókar Háskólans hefur eitt dæmi um síðastnefnda orðið, úr bókinni Frá Suðurnesjum frá 1960. Örfá dæmi um þessi orð, sem og talnaglöggvi, er að finna á netinu.

Það eru nokkur dæmi í málinu um að nafnorð séu mynduð af lýsingarorðum með viðskeytinu -vi. Meðal þeirra eru myrkvi, af myrkur, klökkvi, af klökkur, fölvi, af fölur, dökkvi, af dökkur, þröngvi, af þröngur, og vökvi, af vökur sem er reyndar varla notað í nútímamáli. Orðið glöggvi er sem sé alveg eðlileg orðmyndun og ekkert við það að athuga að nota það sem nafnorð um það að vera glöggur.

Það þarf þó að huga að kyni orðsins. Orð sem enda á -i geta formsins vegna verið hvaða kyns sem er, en -vi-orðin sem nefnd eru hér að framan (myrkvi o.s.frv.) eru öll karlkyns. Orðið glöggvi og samsetningar af því virðist hins vegar vera haft í kvenkyni í öllum heimildum og sjálfsagt að halda því, enda ýmis hliðstæð orð í kvenkyni, t.d. göfgihöfgi o.fl.

Eftir að lesa

Um daginn var ég spurður að því hvort notkun á samtengingunni eftir að væri að breytast. Nú sjást oft og heyrast setningar eins og ég fór í skólann eftir að borða morgunmat, hann fékk rauða spjaldið eftir að brjóta á sóknarmanni, ég öskraði eftir að stíga á nagla, o.s.frv. Fyrirspyrjandi taldi að þetta væri nýjung – í stað nafnháttar af aðalsögninni hefði hjálparsögnin hafa í nafnhætti og lýsingarháttur þátíðar af aðalsögninni áður komið á eftir eftir að, þannig að sagt hefði verið ég fór í skólann eftir að hafa borðað morgunmat, hann fékk rauða spjaldið eftir að hafa brotið á sóknarmanni, ég öskraði eftir að hafa stigið á nagla, o.s.frv.

Ég verð að játa að ég stóð á gati – hafði aldrei leitt hugann að þessu og aldrei tekið sérstaklega eftir þessari setningagerð. Þegar ég hugsa út í það finnst mér setningarnar með hafa eðlilegri, en hinar finnst mér samt alveg í lagi og myndi ekki gera athugasemdir við þær í yfirlestri eða kennslu. Það er erfitt að athuga hvort setningagerðin án hafa er nýleg í málinu – ef leitað er að eftir að t.d. á tímarit.is eða í Risamálheildinni kemur mikill fjöldi dæma af öðrum toga. Fyrirspyrjandi velti því fyrir sér hvort þarna kynni að vera um ensk áhrif að ræða (after eating breakfast o.s.frv.) en þar er þó ekki notaður nafnháttur þannig að mér finnst það ekki endilega trúlegt.

Lenging sérhljóða til áherslu

Ég fór að velta fyrir mér því stílbragði, eða hvað á að kalla það, að lengja sérhljóð í atviksorðum og lýsingarorðum til áherslu – og endurtaka viðkomandi bókstaf í riti, eins og í þessum dæmum af netinu (feitletrun mín):

 • Við eigum svooo margt fallegt fyrir öll tilefni, hátíðleg sem og hversdags.
 • Mér finnst það alveg feeerlega ósanngjarnt að við sveitafólkið skulum ekki sitja við sama borð og borgarbúar.
 • Gaaasalega finnst mér ósmart að búa til kjötbollur með ritzkexi og pakkasúpu.
 • Til sölu á mjööög góðu verði!
 • Hádegisverður og góður félagsskapur, dagurinn verður bara svo miiiklu betri.
 • Ekkert smááá gaman!
 • Naglalökkin frá Artdeco eru svo fííín!
 • Auðvitað missti ég svo einn stærri! Án djóks, hann var stóóór!
 • hmm, ohh fúúúlt, vitið þið við hvern maður getur talað útaf svona.
 • Fuuullur glervasi af jólakúlum!
 • Mikið er sonur ykkar annars sææætur.
 • mér finnst hann of hreistraður til að borða roðið, venjulega, en það er svo leiiiðinlegt að hreinsa!

Þetta er bundið við óformlegt mál og þess vegna erfitt að kanna það í prentuðum heimildum. Því er erfitt að segja hvort þessi sérhljóðslenging er nýleg aðferð til áherslu eða hefur verið tíðkuð lengi. Fyrir tilviljun rakst ég þó á dæmi frá 1958 í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans: „ekki er hann svo sææætur, blessað barnið. eins og fuglahræða móts við hina“, úr Ástarsögu eftir Steinar Sigurjónsson.

Ég fann dæmi um öll sérhljóðin nema au, en kannski var það bara vegna þess að ég mundi ekki eftir neinu algengu atviks- eða lýsingarorði með au auk þess sem það er ekki endilega eðlilegt að tákna lenginguna með því að rita mörg u. En það mætti búast við því að það væri eingöngu hægt að lengja þau sérhljóð sem eru löng í venjulegu tali, eins og í svo, mjög, smá, sætur o.fl., en svo er ekki – stuttu sérhljóðin lengjast líka, eins og í ferlega, miklu, fúlt og fullur.

Annað er að stundum gerbreytir lengingin merkingu orðsins. Ef sagt er um konu hún er svolítið lík mömmu sinni merkir það að hún hafi einhvern svip af móðurinni. En ef sagt er hún er svooolítið lík mömmu sinni merkir það að hún er nákvæm eftirmynd móður sinnar. Ef sagt er hann er rosalega skemmtilegur merkir það að hann sé mjög skemmtilegur, en ef sagt er hann er rooosalega skemmtilegur getur það (með ákveðnum málrómi og líkamstjáningu) merkt að hann sé hundleiðinlegur.

Ferli

Það er mikið tekið þessa dagana að segja að mál sé í ferli. Þetta getur hvort heldur verið þágufall af hvorugkynsorðinu ferli og karlkynsorðinu ferill en um þau segir Málfarsbankinn:

„Ekki er að jafnaði átt við það sama með orðunum ferill og ferli.

 1. Orðið ferill merkir venjulega: slóð, braut, leið, rás, skeið, sbr. starfsferill, æviferill o.fl. Orðið getur líka átt við um línu sem dregin er á milli punkta.
 2. Orðið ferli merkir venjulega: atburðarás, framvinda, röð viðburða.“

Trúlega er um síðarnefnda orðið að ræða þegar talað er um að eitthvað sé í ferli. Hvorugkynsorðið er ekki gamalt – það er t.d. ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og elstu dæmi um það í síðarnefndu merkingunni eru frá seinni hluta síðustu aldar.

En það er miklu yngra að tala um að mál séu í ferli. Elsta dæmi sem ég finn um það er frá 2002, en dæmum fjölgar mjög fljótt. Á tímarit.is má finna mikinn fjölda dæma frá síðustu 15 árum um mál sem eru í ferli, fara í ferli, sett í ferli o.s.frv. Mun sjaldnar er þess getið að ferlinu sé lokið.

Óneitanlega virðist þetta samband stundum notað til að drepa málum á dreif. Í pistli í Morgunblaðinu 2008, þegar sambandið var að fara á flug, segir t.d.: „Málið er í ferli. Fyrir mig er ferli yfirleitt hringur. Er málið þá komið í hring?“

Það er spurning.

Byrðing

Frá upphafi yfirstandandi heimsfaraldurs hafa fjölmörg ný orð bæst í málið, flest tengd sóttvarnarráðstöfunum. Önnur voru til í málinu fyrir en aðeins notuð af afmörkuðum hópum, en ber nú fyrir augu og eyru almennings. Eitt þeirra er orðið byrðing sem kemur fyrir í reglum og umræðum um sóttvarnaraðgerðir á flugvöllum. Þetta er íslensk samsvörun enska orðsins boarding og vísar til þess þegar farþegar ganga um borð í flugvél. Þótt orðið sé almenningi framandi hefur það verið notað í þessari merkingu í a.m.k. 20 ár.

Þetta er alveg eðlileg orðmyndun af sögninni byrða sem að vísu er sjaldan notuð nema í samsetningunni innbyrða en kemur þó fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 í merkingunni 'fara upp á skip'. (sbr. líka atviksorðið innbyrðis). Sögnin byrða er mynduð af borð með i-hljóðvarpi og byrðing síðan af sögninni með kvenkynsviðskeytinu -ing sem hefur upphaflega verknaðarmerkingu, 'það að gera' (þótt merkingin hafi iðulega færst yfir á afurð eða útkomu verknaðarins) – teikning merkir 'það að teikna', bylting merkir 'það að bylta' og byrðing merkir 'það að byrða'.

Mér finnst þetta mjög fínt orð – eðlileg og gagnsæ orðmyndun en þarf auðvitað að venjast eins og aðrar nýjungar. En í gær var mikil umræða um orðið í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ og þar var því fundið ýmislegt til foráttu. Sú umræða var mjög lærdómsrík vegna þess að hún sýnir í hnotskurn hvernig margt fólk er pikkfast í sinni málfarsbúblu og finnst allar nýjungar af hinu illa. Rökin sem voru færð gegn þessu orði voru af ýmsum toga, einkum eftirfarandi:

 • Orðið merkir annað.

Það er vissulega rétt að byrðing hefur líka merkinguna 'klæða skipshlið (með borðum)'. En ástæðan fyrir því að byrðing hefur fleiri en eina merkingu er sú að orðið sem það er leitt af, borð, hefur fleiri en eina merkingu. Það væri fráleitt að segja að það megi mynda orð með -ing af einni merkingu orðsins borð en ekki annarri.

 • Orðið er hrá þýðing eða eftiröpun úr ensku.

Vissulega minnir byrðing á boarding. En það er vegna þess að íslenska og enska eru skyld mál. Orðin borð í íslensku og board í ensku eiga sér sameiginlegan uppruna og hafa að hluta til sömu merkingu, þ. á m. í þessu tilviki. Enginn gerir athugasemdir við að sagt sé um borð í vélina þótt það heiti on board á ensku.

 • Orðið er óþarft – það má nota samband með sögn í staðinn.

Það er vissulega oft hægt, en í sumum tilvikum getur verið gagnlegt að hafa nafnorð í þessari merkingu, svo sem þegar auglýst er „Í starfinu felst m.a. innritun, byrðing og ýmis þjónusta við farþega“. Það er líka gott að hafa nafnorð til að þýða boarding completed og geta sagt byrðingu lokið.

 • Orðið útrýmir íslenskum samböndum eins og gangið um borð.

Engin ástæða er til að ætla að svo verði og t.d. verði farið að segja flugvélin er í byrðingu í staðinn. Þar sem hefð er fyrir íslenskum orðasamböndum er sjálfsagt að halda þeim. Orðið byrðing getur hins vegar gagnast vel til að komast hjá margyrtum og klúðurslegum orðasamböndum.

 • Orðið er ljótt – orðskrípi.

Orðið byrðing er flestum framandi í þessari merkingu og það er alkunna að það tekur tíma að venjast nýjum orðum. En það er erfitt að sjá á hvaða forsendum ætti að kalla það „orðskrípi“ í ljósi þess að það er myndað í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur, og löng hefð er fyrir því að tala um byrðingu (og byrðing) skips.

Tímar sólarhringsins

Þótt ég hafi haft atvinnu af því að kenna íslensku og skrifa um hana í fjörutíu ár er ég alltaf að uppgötva eitthvað nýtt í málinu. Í vor var hér til dæmis dálítil umræða um það hvernig við tölum um tíma sólarhringsins — í því er undarlegt ósamræmi sem ég hafði aldrei hugsað út í eða veitt athygli.

Við segjum að eitthvað gerist á daginn og daginn er þolfall eintölu. Hins vegar segjum við að eitthvað gerist á morgnana og á kvöldin, og þar er morgnana og kvöldin þolfall fleirtölu. Það er útilokað að fara eins með daginn og segja að eitthvað gerist *á dagana, og jafnfráleitt væri að segja að eitthvað gerist *á morguninn eða *á kvöldið.

Þá er nóttin eftir, og hún er í eintölu eins og dagurinn — við segjum að eitthvað gerist á nóttunni. En nóttunni er hins vegar ekki þolfall eins og í hinum orðunum, heldur þágufall - það er ekki hægt að segja *á nóttina. Reyndar er hægt að hafa nóttina í fleirtölu, eins og morgunninn og kvöldið, og segjast gera eitthvað á næturnar — og þá er ekki notað þágufall eins og í eintölunni á nóttunni, heldur þolfall eins og í hinum orðunum.

Ekki er allt búið enn. Við segjum líka að eitthvað gerist kvölds og morgna þar sem kvölds er eintala en morgna fleirtala. Það er útilokað að segja *kvölds og morguns eða *kvölda og morgna. Svo segjum við ýmist í gærkvöld eða í gærkvöldi þótt útilokað sé að segja *í kvöldi, eða *í gærmorgni; og við tölum um gærmorgun, gærdag og gærkvöld en sjaldan um gærnótt.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig stendur á þessum mun. Auðvitað er ekkert „rökrétt“ í því að þessi fjögur orð sem virðast vera alveg hliðstæð hagi sér á mismunandi hátt, bæði hvað varðar tölu og fall. En eins og ég hef oft nefnt er tungumálið ekki fullkomlega rökrétt, og á ekki að vera það. Svona óskiljanlegt ósamræmi er einmitt eitt af því sem gerir málið svo skemmtilegt.

Fimm sjónarmið um kynjahalla í tungumálinu

Í framhaldi af umræðu í gær um merkingu og notkun orðsins maður og samsetninga af því fór ég enn einu sinni að velta fyrir mér (meintri) karllægni íslenskunnar. Umræða um þetta fer því miður oft fljótt í einhverjar skotgrafir þannig að svo virðist sem þarna séu tvær andstæðar fylkingar – önnur telji engan kynjahalla í málinu en hin telji nauðsynlegt að gerbylta málkerfinu. En í raun og veru er þetta miklu flóknara og í fljótu bragði sýnist mér mega greina einar fimm mismunandi afstöður (já, mér finnst allt í lagi að hafa það í fleirtölu) til þessa máls.

 • Það er enginn kynjahalli í tungumálinu – það gerir ekki upp á milli karla og kvenna á nokkurn hátt. Allt tal um slíkt er misskilningur á eðli tungumálsins, sprottinn af misskildum kvenréttindahugmyndum.
 • Það er kynjahalli í málinu í þeim skilningi að karlkyn er hlutlaust (ómarkað) kyn, meginhluti starfsheita er karlkyns, og nafnorðið maður er notað í merkingunni 'karlmaður' auk þess að vera tegundarheiti. En þessi kynjahalli er eingöngu málfræðilegur og á sér sögulegar skýringar, og því eðlilegur.
 • Það er kynjahalli í málinu og hann er ekki eingöngu málfræðilegs eðlis. Í huga margra tengjast karlkyns starfsheiti, orðið -maður og samsetningar af því, og karlkynsform óákveðinna fornafna og lýsingarorða frekar karlmönnum. Þetta er óheppilegt en við því er ekkert að gera.
 • Það er kynjahalli í málinu og það er hægt og mikilvægt að bregðast við því innan ramma málkerfisins, t.d. með því að segja Verið öll velkomin í stað Allir velkomnir, nota fólk og tiltækar samsetningar af því frekar en menn, segja bandaríska konan Valarie frekar en Bandaríkjamaðurinn Valarie, o.s.frv.
 • Það er kynjahalli í málinu og það er nauðsynlegt að bregðast við því, þótt það kosti breytingar á málkerfinu, málfræðilegt ósamræmi, óhefðbundna orðanotkun og smíði nýrra kynhlutlausra orða, t.d. þannig að sagt sé eitt var handtekið, mörg vita þetta, læknarnir eru þreytt, forstöðuman o.s.frv.

Ég er ekki að setja þetta fram til að koma einhverjum deilum af stað, heldur til að glöggva mig – og hugsanlega fleiri – á því um hvað málið snýst. Ég held að það megi færa málefnaleg rök fyrir flestum þessara afstaðna og það er mikilvægt að fólk átti sig á því og reyni að skilja afstöðu þeirra sem eru á öðru máli en það sjálft.

Maður enn og aftur

Ég hef stundum rætt um merkingu orðsins maður og samsetninga af því. Nýlega var ég að lesa íþróttafréttir á mbl.is og staldraði við eftirfarandi málsgrein: „Banda­ríkja­kon­an Val­arie Allm­an reynd­ist hlut­skörp­ust í úr­slit­um kvenna í kringlukasti á Ólymp­íu­leik­un­um í Tókýó í dag.“ Ég áttaði mig á því að mér væri lífsins ómögulegt að segja „Banda­ríkja­maðurinn Val­arie Allm­an . . .“. Það stafar ekki af einhverri kynjapólitískri rétthugsun – svona er bara raunveruleg málkennd mín.

Aftur á móti gæti ég alveg sagt „Val­arie Allm­an er Bandaríkjamaður sem sigraði í kringlukasti kvenna á Ólympíuleikunum í dag“. Það skiptir sem sé máli fyrir mig hvort Bandaríkjamaður stendur hliðstætt nafninu – á undan því – eða sem sagnfylling með sögninni vera. Í fljótu bragði sýnist mér á Risamálheildinni að ég sé ekki einn um þessa tilfinningu þar eru nánast engin dæmi um að kvenmannsnafn komi á eftir Bandaríkjamaðurinn.

Sama máli gegnir um önnur þjóðaheiti sem enda á -maður – ég get ekki haft þau á undan kvenmannsnafni. Aftur á móti er ég ekki í neinum vandræðum með að nota önnur karlkyns þjóðaheiti á undan kvenmannsnöfnum - Englendingurinn Theresa May, Þjóðverjinn Angela Merkel, Frakkinn Marine le Pen, o.s.frv. Það er sem sé ekki kynið sem skiptir máli, heldur orðhlutinn -maður. Þetta er enn eitt dæmi um það hvernig orðið maður hefur sterk tengsl við karlmenn í huga málnotenda – a.m.k. mínum huga.