-stst

Miðmynd sagna einkennist af endingunni -st sem kemur á eftir öðrum beygingarendingum, þ.e. endingum tíðar, háttar, persónu og tölu. Við segjum ég vonaði-st (til), þau vona-stvið vonuðum-stég hef vona-st, o.s.frv. Eins og sést á síðasta dæminu, lýsingarhættinum vonast, er það samt ekki alltaf þannig að miðmyndarendingin bætist við germyndina óbreytta. Lýsingarháttur þátíðar í germynd af vona er (ég hefvonað, en í miðmyndinni er hann vona-st, ekki *vonað-st – ð fellur sem sagt aftan af germyndarforminu. Og stundum er brottfallið mun meira. Lýsingarháttur þátíðar í miðmynd af mætakyssa og festa er (við höfummæ-st / kys-st / fe-st en ekki *mætt-st / *kysst-st / *fest-st.

Áður fyrr var bókstafurinn z notaður í stað s til að sýna brottfall ðd eða t í myndum af þessu tagi. Þannig var skrifað (ég hefvonazt (vonað+st) / birzt (birt+st) o.s.frv. En z var bara látin tákna brottfall á einu (einföldu) hljóði – ef um brottfall tveggja hljóða (langs hljóðs) var að ræða var það fyrra áfram táknað í stafsetningunni. Lýsingarháttur þátíðar af mæta, sem endar í germynd á -tt, (ég hefmætt, var því skrifaður (við höfummætzt (mætt+st). En bókstafurinn z var felldur brott úr íslensku ritmáli haustið 1973 með auglýsingu menntamálaráðuneytisins þar sem sagði: „Ekki skal rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (dðt) + s, þar sem tannhljóðið er fallið brott í eðlilegum, skýrum framburði.“

Þessi breyting varðaði eingöngu stafsetningu enda átti z sér enga stoð í framburði – myndir eins og vonazt og mætzt voru bornar fram nákvæmlega eins og vonast og mæst. En í miðmynd lýsingarhátta sagna eins og kyssa og festa var aldrei nein z – þeir voru skrifaðir (við höfumkysstst (kysst+st) / festst (fest+st). Þessu var hins vegar breytt líka í sömu auglýsingu – þar segir: „Ef lýsingarháttur þátíðar í germynd endar á -st eða -sst, skal miðmyndarendingu sleppt, t.d. (hefur) leyst (af leysast), (hefur) lýst (af lýsast), (hafa) kysst (af kyssast) o.s.frv.“ Væntanlega hefur nefndin sem lagði breytinguna til talið að -stst væri ekki borið fram og hafi einnig í þessu tilviki viljað færa stafsetninguna í átt til framburðar.

Í umræðu um miðmyndarsetningar eins og (bíllinn hefurfest og (þau hafa) kysst í  hópnum Málspjall á Facebook um daginn kom fram að sumum fannst eðlilegt að nota myndirnar festst og kysstst, og töldu sig gera það. Nú get ég vitanlega ekki fullyrt neitt um framburð tiltekins fólk og hef engan áhuga á því að stjórna málfari eins eða neins. En ég er samt ekki í nokkrum vafa um að venjulegur framburður þessara mynda er fest og kysst, enda eru klasar eins og -stst eru mjög erfiðir í framburði og hljóma oft óeðlilega ef fólk reynir að bera þá fram. Framburður eins og festst og kysstst er ofvöndun. Hins vegar er líklegt að þarna verði oft samlögun og borið sé fram langt s, þ.e. (bíllinn hefurfess og (þau hafakyss.

Sú röksemd var nefnd fyrir framburði eins og festst og kysstst að ef seinna -st væri sleppt glataðist miðmyndarmerkingin. En það er byggt á misskilningi. Mjög oft falla beygingarmyndir saman og merkingin ræðst þá af samhengi fremur en að hún glatist. Við getum tekið dæmi af sögn eins og hitta. Hún ætti að fá endinguna -ti í þátíð, en vegna þess að stofninn endar á -tt kemur þátíðarendingin ekki fram, heldur rennur saman við stofninn – hitt+ti > hitti. Það þýðir að þátíðin fellur saman við nútíðina hitt-i hitti – ég hitti hana í gær (þátíð), en ég hitti þig á morgun (nútíð). Það er samt engin ástæða til að segja að þátíðarmerkingu vanti í sögnina í ég hitti hana í gær – en við verðum að ráða hana af samhengi.

Íslenska í stjórnarskrá

Nýlega skrifaði Haukur Logi Karlsson nýdoktor mjög áhugaverða grein um ákvæði um íslensku sem ríkismál í frumvarpi forsætisráðherra til breytinga á stjórnarskrá. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“

Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá 2011 var ekkert ákvæði um íslenska tungu, en þessi tillaga er nokkurn veginn samhljóða ákvæði sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði til að yrði bætt við nýju stjórnarskrána þegar tillögur Stjórnlagaráðs voru til meðferðar á Alþingi 2013. En í tillögum Stjórnlagaráðs var einnig að finna svohljóðandi ákvæði:

„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Nýja stjórnarskráin hefur ekki verið samþykkt eins og alkunna er, og ákvæði sem bannar mismunun á grundvelli tungumáls er hvorki að finna í gildandi stjórnarskrá né fyrirliggjandi tillögum um stjórnarskrárbreytingar. Greinarhöfundur telur að með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um íslensku sem ríkismál, án þess að jafnframt sé lagt bann við mismunun vegna tungumáls, sé farið út á vafasama braut.

„Til­lagan styrkir, með öðrum orð­um, stöðu hinna valda­miklu og veikir stöðu hinna valda­lausu í íslensku sam­fé­lagi. Frum­varpið er því heilt yfir lík­legt til þess að ná mark­miði sínu um efl­ingu íslenskunnar, en það mun að lík­indum verða á kostnað þeirra Íslendinga og ann­arra íbúa lands­ins sem hafa ekki full­komin tök á íslensku.“

Það er sannarlega mikilvægt að styrkja stöðu íslenskunnar á allan hátt, eins og markmiðið er með þessari tillögu. En það má ekki verða á kostnað fólks sem þegar stendur höllum fæti í samfélaginu. Mér finnst greinarhöfundur færa sterk rök fyrir þeirri afstöðu að „tillaga um að gera íslensku að stjórn­ar­skrár­bundnu rík­is­máli [sé] verri kostur en að halda óbreyttu ástandi og sömu­leiðis verri kostur en að taka upp tungu­mála­á­kvæði Nýju stjórn­ar­skrár­inn­ar.“

„Þágufallssýki“ í máltöku

Máltaka barna er endalaust undrunarefni og gaman að fylgjast með henni með opnum huga því að „villur“ sem börnin gera geta sagt okkur ýmislegt um eðli tungumálsins. Þegar sonur minn var að byrja að mynda setningar tók ég eftir sérkennilegri notkun hans á sögnum eins og langa sem „eiga“ að taka með sér þolfall. Hann notaði vissulega þolfall, en hafði það á eftir sögninni – sagði t.d. langar mig í meira eða eitthvað slíkt. Bæði nefnifall og þágufall hafði hann hins vegar á undan sögninni eins og eðlilegt er – sagði t.d. ég vil meira og mér finnst þetta gott.

Þessi sérstaða þolfallsins verður tæpast skýrð með umhverfisáhrifum - hann var ekki byrjaður í leikskóla og hafði varla umgengist nokkurn sem sagði mér langar. Kenning mín er sú að það málkerfi sem hann var búinn að koma sér upp á þessum tíma hafi ekki viðurkennt þolfall sem frumlag – aðeins nefnifall og þágufall. Þess vegna hafi honum fundist óeðlilegt að hafa þolfallið í frumlagssæti og sett það þess í stað á eftir sögninni. Þetta skeið stóð aðeins í nokkrar vikur – svo fór hann að setja þolfallið í frumlagssæti eins og hin föllin.

Ég hef líka heyrt um börn sem sögðu ég langar mig í meira eða eitthvað slíkt – tvítóku frumlagið, höfðu nefnifall í venjulegu frumlagssæti á undan sögninni en þolfall á eftir sögn. Það má sennilega túlka á svipaðan hátt – barninu finnst óeðlilegt að byrja á þolfallinu og veit að algengast er að í frumlagssætinu sé nefnifall og setur því ég þar. En það áttar sig jafnframt á því að fullorðna fólkið notar þolfall með langa og ályktar sem svo að það hljóti að þurfa að vera með í setningunni – og setur því mig á eftir sögninni.

Það er langt síðan fyrst var bent á að „þágufallssýkin“ ætti sér merkingarlega skýringu. Flestar sagnir sem tákna tilfinningu, skynjun o.þ.h. taka með sér frumlag í þágufalli – sagnir eins og þykja, finnast, líka (við), leiðast, kólna, hlýna, vera kalt / heitt / illt / flökurt / óglatt / bumbult og margar fleiri. Börn á máltökuskeiði átta sig væntanlega á þessari meginreglu og beita henni á aðrar sagnir af sama merkingarsviði – sagnir eins og hlakkadreymalangavanta og fleiri. Þetta er því tilraun barnanna til að koma reglu á kerfið – gefa þágufallinu ákveðið merkingarlegt hlutverk. Það má jafnvel færa rök að því, eins og ég gerði í grein í Skímu 1983, að „þágufallssýkin“ styrki fallakerfið í sessi.

Það er því margt sem bendir til að hin svokallaða „þágufallssýki“ sé eða geti verið „sjálfsprottin“ ef svo má segja – hún þarf ekki að stafa af ytri áhrifum, heldur getur verið tilkomin vegna þess að þolfallsfrumlög samræmast málkerfinu ekki vel. Ég hef líka heyrt sögu af íslenskri fjölskyldu sem bjó erlendis fyrir nokkrum áratugum og umgekkst aðra Íslendinga lítið sem ekkert. Það kom foreldrunum mjög á óvart að börnin fóru að nota þágufall í stað þolfalls með sumum sögnum án þess að nokkur möguleiki væri á að þau hefðu heyrt það hjá öðrum

Hýryrði

Um daginn héldu Samtökin 78 aðra hýryrðakeppni sína. Að þessu sinni var verið að leita að kynhlutlausu orði sem samsvaraði karl og kona, og auk þess orðum um skyldleika og tengsl. Þar sem ég var í dómnefnd keppninnar finnst mér ástæða til að skýra nokkur atriði í sambandi við orðin og leiðrétta ýmsan misskilning sem hefur komið fram.

1. Orðin eru kvár, sem er hliðstætt við karl og konamágkvár, sem er hliðstætt við mágur og mágkonasvilkvár, sem er hliðstætt við svili og svilkona, og stálp, sem er hliðstætt við strákur og stelpa. Orðið kvár er ekki skylt eða dregið af neinu öðru orði í málinu – þetta eru bara hljóð sem er raðað saman í samræmi við íslenskar reglur. Orðið stálp er myndað með hliðsjón af lýsingarorðinu stálpaður.

2. Þetta eru hvorugkynsorð og beygjast í samræmi við það. Beyging kvár er kvár – kvár – kvári – kvárs, í fleirtölu kvár – kvár – kvárum – kvára – með greini kvárið o.s.frv. Orðið beygist eins og t.d. hár og ár. Samsettu orðin mágkvár og svilkvár beygjast eins, og stálp beygist stálp – stálp – stálpi – stálps, í fleirtölu stálp – stálp – stálpum – stálpa, með greini stálpið o.s.frv.

3. Mörgum finnst þessi orð hljóma undarlega og jafnvel vera kjánaleg. Það er alveg eðlilegt – ný orð verka yfirleitt framandi á okkur. Það þarf að venjast þeim, og það tekur tíma. Mörg orð sem við notum athugasemdalaust og umhugsunarlaust á hverjum degi þóttu undarleg þegar þau komu fyrst fram. Einn helsti nýyrðasmiður landsins á síðustu öld, Halldór Halldórsson prófessor, sagði að það þyrfti að segja nýtt orð 60 sinnum til að venjast því. Prófið það!

4. Orðunum er ekki ætlað að koma í stað einhverra annarra orða eða útrýma þeim. Hér er um að ræða orð yfir kynsegin fólk – fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns. Tungumálið átti ekki orð yfir þetta fólk. Það stendur vitanlega ekki til að skylda fólk til að nota þessi orð en það er mikilvægt fyrir þau sem um ræðir, vini þeirra og fjölskyldur, að hægt sé að tala um þau á íslensku.

5. Í umræðunni hefur því verið haldið fram að það séu bara til tvö kyn, og þess vegna sé fráleitt að vera að búa til einhver orð til að vísa til einhvers sem er ekki til. Þetta er rangt. Í íslenskum lögum segir: „Sérhver einstaklingur nýtur […] óskoraðs réttar til að skilgreina kyn sitt.“ Það er til fjöldi fólks sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns og er í fullum rétti með það. Við þurfum að geta talað um og við það fólk – á íslensku.

6. Ýmsum hefur þótt ástæða til að nota tækifærið til að hnýta í kynsegin fólk og orð um það, og viðhafa ýmis óviðurkvæmileg ummæli. Ég held að þau sem það gera ættu aðeins að hugsa sinn gang. Kannski kemur kvár eða stálp í fjölskylduna einn daginn og þá viljið þið örugglega geta talað um og við hán af væntumþykju og virðingu.

Málfarslegir fordómar

Ef við værum að skoða heimasíðu einhvers þjónustufyrirtækis og þar kæmi fram að einn starfsmaðurinn glímdi við geðsjúkdóm, eða væri dökkur á hörund, eða samkynhneigður, eða múslimi, eða hreyfihamlaður, eða frá Austur-Evrópu, eða með þroskaskerðingu – myndi það draga úr trausti okkar á þessu fyrirtæki og jafnvel koma í veg fyrir að við skiptum við það? Vonandi ekki. Ég er a.m.k. nokkuð viss um að við myndum ekki segja frá því ef svo væri – við vitum flest að slíkt væru fordómar og viljum ekki sýnast fordómafull.

Það samt ein undantekning frá því að fólk forðist að bera fordóma sína á torg. Mörgum þykja nefnilega málfarslegir fordómar sjálfsagðir og eðlilegir og ekkert að því að viðra þá við ýmis tækifæri. Nýlega sá ég færslu í málfarshópi á Facebook þar sem höfundur sagðist hafa rekist á setninguna „Mig hlakkar til að vinna með þér“ á heimasíðu snyrtistofu og bætti við: „ekki mjög traustvekjandi, fannst mér allavega“. Eins og við var að búast spratt af þessu töluverð hneykslun – ekki á fordómunum, heldur á málfarinu á vefsíðunni.

Það sem mér fannst athyglisverðast – og dapurlegast – var umsögnin „ekki mjög traustvekjandi“. Hvað merkir hún eiginlega í þessu samhengi? Tengir fólk virkilega saman málfar og vinnubrögð og vill ekki skipta við snyrtistofuna vegna þess að það búist við óvandaðri vinnubrögðum hjá þeim sem nota ekki „rétt“ fall á frumlagi? Eða hefur fólk skömm á þeim sem tala ekki „rétt“ og vill ekki skipta við stofuna þess vegna? Hvort sem heldur er sýnir fordóma sem eru algerlega óviðunandi.

Því miður er þetta ekki einsdæmi. Ég hef iðulega séð svipaða fordóma, og miklu verri, á Facebook og í athugasemdadálkum vefmiðla – fordóma þar sem meintir hnökrar á málfari fólks eru taldir bera vott um að því sé ekki treystandi, andlegu atgervi þess sé ábótavant, það sé latt og hirðulaust, og svo mætti lengi telja. Auðvitað eru þetta fordómar – engu betri en mismunun vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, litarháttar, trúarskoðana, stjórnmálaskoðana o.fl. sem er bönnuð í stjórnarskrá.

Þetta er rangt. Þetta er ljótt. Þetta er óþolandi. Hættum þessu!

Hvað merkir gamall?

Einu sinni var ég kallaður „gamall íslenskuprófessor“ í frétt á mbl.is. Ég móðgaðist svo sem ekkert yfir því – fannst það bara fyndið. En í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér merkingu og notkun lýsingarorðsins gamall – af því að mér finnst ég ekkert svo gamall og þykist vita að það hafi ekki verið það sem blaðamaðurinn meinti. Í orðabókum er gamall skýrt 'með háan aldur að baki, sem hefur lifað/verið til í mörg ár' eða 'aldurhniginn, aldraður', auk þess sem tekið er fram að það hafi líka það hlutverk að standa með mælieiningu aldurs – barn sem er tveggja ára gamalt er vitanlega ekki 'aldrað'.

En svo er líka hægt að nota orðið hliðstætt með nafnorði án þess að um nokkra vísun til hás aldurs sé að ræða, í samböndum eins og gömul skólasystir míngamli vinurgamli bíllinn minn, o.s.frv. Í fyrsta dæminu er vísað til konu sem var skólasystir mín fyrir löngu, í því næsta er vísað til þess að vináttan hafi staðið lengi, og í því síðasta er vísað til bíls sem ég átti á undan þeim sem ég á núna. Vissulega gæti gamall vísað til aldurs í þessum dæmum en aðalatriðið er að það þarf ekki að gera það. Það sem skiptir máli er að í þessum dæmum koma fram tengsl nafnorðsins sem gamall stendur með við mælandann, eða þann sem rætt er við eða um.

Þótt gamall standi þarna með nafnorði vísar það í raun ekki til eiginleika nafnorðsins sjálfs, heldur til þessara tengsla – aldurs þeirra eða afstöðu í tíma. Komi engin slík tengsl fram, eins og í dæminu gamall íslenskuprófessor í fréttinni á mbl.is, er ekki hægt að skilja orðið öðruvísi en svo að það merki 'aldraður'. Öðru máli gegnir ef þarna hefði staðið gamli íslenskuprófessorinn minn, eins og einu sinni var vísað til mín á prenti – þar sýnir eignarfornafnið minn tengslin, enda er höfundur þess pistils gamall (!) nemandi minn sem ég hef enga ástæðu til að ætla að hafi talið mig sérstaklega gamlan.

Þetta hafði ég aldrei hugsað út í áður, og þessi merking orðsins gamall er ekki nefnd í orðabókum svo að ég sjái. Svona er maður alltaf að átta sig á einhverju nýju í íslenskunni, jafnvel í algengustu orðum.

Jón

Jón er algengasta karlmannsnafn málsins að fornu og nýju. Þetta er biblíunafn, komið af Jóhannes – eitt fjölmargra nafna sem komu inn í málið með kristninni. Fyrsti Íslendingurinn sem bar þetta nafn svo að vitað sé var Jón Ögmundsson Hólabiskup sem var fæddur um miðja 11. öld, þannig að nafnið hefur verið í málinu í þúsund ár. Samt sem áður hefur það ekki lagað sig að fullu að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Það hefur sem sé enga nefnifallsendingu, eins og karlkynsorð með þessa stofngerð hafa annars, eins og sjá má á orðunum prjónn, spónn, þjónn, sónn, tónn. Tvö þau síðastnefndu eru tökuorð sem koma fyrir án nefnifallsendingar í elstu heimildum, í myndunum són og tón, en bættu fljótlega við sig endingu.

Það hefði því mátt búast við að Jón yrði *Jónn, en svo varð ekki, þrátt fyrir tíðni nafnsins – eða kannski einmitt vegna hennar. Það er alþekkt að algengustu orð málsins komast miklu frekar en önnur upp með ýmiss konar óregluleik í beygingu. Þetta má t.d. sjá á persónufornöfnum og ábendingarfornöfnum, á orðinu maður, á lýsingarorðum eins og margur, mikill, lítill, á sterkum sögnum, o.fl. Ástæðan er væntanlega sú að við lærum þessi orð svo snemma og heyrum þau svo oft að hinar óreglulegu myndir greypast í minnið – við þurfum aldrei að beita almennum reglum til að reikna beyginguna út. Óregluleg beyging á hins vegar í vök að verjast í sjaldgæfari orðum eins og ær og kýr – þar höfum við tilhneigingu til að beita almennum reglum.

En þótt Jón hafi ekki aðlagast málkerfinu þrátt fyrir langa sögu í málinu gegnir öðru máli um nýrri orð með sömu stofngerð. Árið 1879 birti Þjóðólfur grein um hugvitsmanninn Edison og helstu uppfinningar hans. „Meðal þeirra eru merkastar: telefóninn, fónografinn og míkrofóninn.“ Þarna eru orðin telefón og míkrófón án nefnifallsendingar, og sama gildir um þau örfáu dæmi um telefón sem sáust á prenti næstu 20 árin. En árið 1900 birtist fyrsta dæmi um nefnifallsmyndina telefónn, og sú mynd festist fljótt í sessi – míkrófónn er miklu sjaldgæfara orð og sú mynd sést ekki fyrr en 1927. Nefnifallsmyndin grammófón sést fyrst 1906, en myndin grammófónn birtist 10 árum síðar. Öll þessi orð, telefónn, grammófónn og míkrófónn, laga sig því að íslensku málkerfi á mjög stuttum tíma – öfugt við Jón.

Það er þekkt að nöfn lúta oft sérstökum lögmálum og haga sér ekki endilega eins og önnur orð í málinu. Það birtist greinilega í því að Jón hefur ekki lagað sig fullkomlega að málkerfinu á þúsund árum, þótt tíðni nafnsins geti einnig spilað þar inn í eins og áður segir. En vegna þess að nöfn eru þannig afmarkaður hluti orðaforðans þarf hegðun þeirra ekki endilega að hafa áhrif á hegðun annarra orða. Þótt algengasta karlmannsnafn málsins væri óaðlagað öldum saman kom það ekki í veg fyrir að ný orð með sömu stofngerð löguðu sig að málkerfinu á fáum árum. Þetta bendir til þess að ótti margra við óheft innstreymi erlendra mannanafna sé ástæðulaus – það sé engin ástæða til að ætla að erlend nöfn, jafnvel þótt þau lagi sig ekki að íslensku málkerfi, hafi áhrif út fyrir nafnaforðann, út í almennan orðaforða.

-ingur

Viðskeytið -ingur, sem oft er notað til að mynda íbúaheiti sem leidd eru af staðanöfnum, er dálítið skemmtilegt. Oft er því nefnilega ekki bætt beint við stofn staðaheitisins sem um er að ræða, heldur heimtar það að heitinu sé breytt á ákveðinn hátt. Þetta þekkjum við auðvitað vel. Þannig verður Reykjavík + ingur ekki *Reykjavíkingur, heldur Reykvíkingur; Hafnarfjörður + ingur verður ekki *Hafnarfrðingur, heldur Hafnfirðingur; Bolungarvík + ingur verður ekki *Bolungarvíkingur, heldur Bolvíkingur; Sauðárkrókur + ingur verður ekki *Sauðárkrókingur, heldur Sauðkrækingur; Selfoss + ingur verður ekki *Selfossingur, heldur Selfyssingur; og svo mætti lengi telja.

Í þessum dæmum koma fram tveir helstu fylgifiskar viðskeytisins -ingur. Annars vegar er það krafan um styttingu grunnorðsins – það má yfirleitt ekki vera meira en tvö atkvæði. Ef það er lengra er það oftast stytt. Það sem er klippt brott er oftast beygingarending, eins og -ja- í Reykjavík, -ar- í Hafnarfjörð-; en stundum eitthvað meira, eins og -ár- í Sauðárkrókur og -ung-ar- í Bolungarvík. Stundum fær þó grunnorðið að vera meira en tvö atkvæði, eins og t.d. Ólafsfirðingur, Þistilfirðingur, Jökuldælingur – þessi orð verða ekki *Ólfirðingur, *Þistfirðingur, *Jökdælingur. Hugsanlega er það vegna þess að aðeins sé hægt að klippa burt ákveðna orðhluta og málnotendur skynji ekki -afs-, -il- og -ul- sem afmarkaða hluta orðanna.

Þurfi að stytta grunnorðið er það venjulega gert með því að klippa innan úr því – upphaf þess og endir haldast yfirleitt eins og dæmin hér að framan sýna. Það er þó ekki algilt. Þannig verður Snæfellsnes + ingur ekki *Snænesingur, heldur SnæfellingurÞingeyjarsýsla + ingur verður ekki *Þingsýslingur, heldur ÞingeyingurRangárvallasýsla + ingur verður ekki *Rangsýslingur, heldur Rangæingur. Hins vegar er til Rangvellingur, en það er af Rangárvellir. En svo verður að gæta þess að -ingur-orðin geta verið leidd af öðrum grunnorðum en lítur út fyrir í fljótu bragði. Þótt Mosfellingur merki núna ‘íbúi í/frá Mosfellsbæ’ er orðið upphaflega leitt af Mosfelli í Grímsnesi.

Hitt megineinkenni þessarar orðmyndunar er sérhljóðabreyting í grunnorðinu – > i í Hafnfirðingur, o > y (i) í Selfyssingur, ó > æ í Sauðkrækingur o.fl. Þessi hljóðbreyting er ættuð frá svonefndu i-hljóðvarpi sem var virk hljóðregla á samgermönskum tíma og hefur skilið eftir sig ýmsar menjar í beygingum og orðmyndun. Það er þó ekki alltaf augljóst hvernig eigi að beita i-hljóðvarpi í orðmyndun, t.d. í orðum sem enda á -vogurKópavogur, Djúpivogur o.fl. Ein leið er að hafa sérhljóðið óbreytt – segja Kópvogingur og Djúpvogingur. Þetta virðist þó ekki vera algengt. Hins vegar bregður myndunum Kópvægingur og Djúpvægingur einnig fyrir. Það byggist á því að -vo- er komið af -vá- í fornu máli, og æ er i-hljóðvarpshljóð af á.

Orðið Akurnesingur hefur oft valdið fólki heilabrotum. Það brýtur regluna um að grunnorðið sé ekki meira en tvö atkvæði, og þar að auki lítur það út fyrir að vera myndað af Akurnes, ekki Akranes. Á þessu er málsöguleg skýring. Í fornu máli voru ýmsir samhljóðaklasar sem enda á r leyfilegir – orð eins og maður, hestur, akur o.m.fl. voru maðr, hestr, akr. Þegar -ingur var bætt við Akranes kom þá ekki út *Akranesingr heldur Akrnesingra-ið var fellt brott vegna kröfunnar um styttingu grunnorðs í tvö atkvæði. En seinna breyttust hljóðskipunarreglur málsins þannig að margir samhljóðaklasar með r gengu ekki lengur, heldur var skotið inn u til að brjóta þá upp – maðr varð maður, hestr varð hestur, akr varð akur – og Akrnesingr varð Akurnesingur.

Tungumál á Íslandi

Það á aldrei að vera sjálfgefið að nota annað tungumál en íslensku á Íslandi – og íslenskt táknmál, ef því er að skipta. Ef okkur finnst sjálfsagt að geta ekki notað íslensku við einhverjar aðstæður er hætt við að við verðum andvaralaus gagnvart því að umdæmi málsins minnki smátt og smátt þangað til ekki verður aftur snúið. Þess vegna eigum við að ætlast til og gera ráð fyrir að hægt sé að nota íslenskuna alls staðar, en jafnframt verðum við að vera raunsæ og átta okkur á því að vegna smæðar málsamfélagsins og ýmissa ytri aðstæðna verður stundum að gefa afslátt af þeirri kröfu. En meginatriðið er að vinna að því með öllu móti að gera íslenskuna gjaldgenga á öllum sviðum.

Það er ekkert óeðlilegt að vænta þess að fólk sem flyst hingað til að búa hér um ófyrirsjáanlega framtíð læri íslensku – og ég held að það vilji það flest. Það er ekki síst mikilvægt fyrir fólkið sjálft til að það geti tekið fullan þátt í þjóðfélaginu, eigi auðveldara með að fá vinnu og verði hluti af samfélaginu. En við megum ekki gera óraunhæfar kröfur til fólksins um fullkomna íslensku, og t.d. ekki dæma fólk sem hefur búið hér um árabil þótt það tali ekki íslensku þegar það kemur fram í fjölmiðlum. Litháísk kona sem býr hér og talar alveg ágæta íslensku (ég hef talað við hana) hefur lýst því að nokkrum sinnum hafi verið tekin viðtöl við hana en ekki birt af því að hún þótti ekki tala nógu góða íslensku.

Það getur verið málefnalegt og eðlilegt að gera kröfu um íslenskukunnáttu við ráðningu í ýmis störf, t.d. þjónustustörf. Íslenska er opinbert mál á Íslandi og fólk á að geta notað hana í samskiptum við starfsfólk í verslunum, á veitingahúsum og víðar. En það þýðir alls ekki íslenskan þurfi að vera fullkomin. Það er allt í lagi að starfsfólkið tali með erlendum hreim, beygi skakkt og orðaforðinn sé takmarkaður, svo framarlega sem kunnáttan dugir því til að gera sig skiljanlegt við dæmigerðar aðstæður í starfinu. Og vitanlega á að meta kunnáttu fólksins í hvert skipti en ekki hafna sjálfkrafa og fyrir fram öllum sem heita framandi nafni eða líta ekki út eins og dæmigerður Íslendingur.

Það er ekki endilega sanngjarnt að vísa til þess að í ýmsum tilteknum löndum fái fólk ekki vinnu nema tala tungumál landsins og ætlast til að sama gildi hér. Fæstir þeirra útlendinga sem hingað koma hafa lært eitthvað í íslensku, og margir þeirra tala mál sem eru fjarskyld íslenskunni og ólík henni. Þótt íslenska sé ekki erfiðara mál en gengur og gerist, öfugt við það sem oft er haldið fram, skipta skyldleiki og líkindi við tungumál málnemans miklu máli í tungumálanámi. Það er miklu auðveldara að gera áðurnefnda kröfu um tungumálakunnáttu í fjölmennari löndum vegna þess að fólk sem þangað kemur er margfalt líklegra til að hafa lært eitthvað í tungumáli þeirra landa – eða tala mál sem er skylt málinu sem þar er talað.

Þetta er mjög viðkvæmt mál sem hefur margar hliðar. Við þurfum að gæta tungumálsins – staða málsins veikist ef aðstæður þar sem íslenska er ekki nothæf verða fjölbreyttari, og ef þeim fjölgar sem finnst eðlilegt að geta ekki notað íslensku við ýmsar aðstæður. Við þurfum að gæta réttinda málhafanna – það eru til margir Íslendingar af eldri kynslóðinni sem treysta sér ekki til að hafa samskipti við aðra á ensku og það þarf að taka tillit til þeirra. Við þurfum að gæta réttinda starfsfólks sem ekki talar íslensku – það hefur verið ráðið í vinnu án þess að gerð hafi verið krafa um íslenskukunnáttu og pirringur viðskiptavina yfir að geta ekki notað íslensku má ekki bitna á því.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.

Börn og samtöl

Seinnipartinn í dag röltum við hjónin niður í bæ og litum inn á listsýningu. Á heimleiðinni stungum við okkur inn á veitingahús og fengum okkur léttvínsglas. Á næsta borði voru hjón með barn, á að giska þriggja eða fjögurra ára gamalt. Allan tímann sem við sátum þarna og sötruðum úr glösunum okkar var barnið með síma í höndunum og horfði sem dáleitt á skjáinn án þess að segja orð – og ég varð ekki heldur var við að foreldrarnir yrtu á það.a

Ég get alveg skilið fólk sem fer með ung börn út í búð á annatíma, þreytt að loknum vinnudegi, og réttir börnunum síma til að hafa frið meðan það verslar. En öðru máli gegnir ef maður fer á kaffihús síðdegis á laugardegi. Þá ætti að vera hægt að slappa af og einmitt upplagt að nota tækifærið til að spjalla við barnið. Ég held að ung börn kunni yfirleitt að meta að þeim sé sýndur áhugi og séu til í að tala við foreldra sína.

Ég er ekki að amast við símanotkun ungra barna út af fyrir sig. Það eru skiptar skoðanir um hana og áhrif hennar og ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu að svo stöddu. Ég er ekki að halda því fram að allt hefði verið miklu betra áður og foreldrar sífellt verið að tala við börn sín. Það var auðvitað upp og ofan eins og nú. Ég er eingöngu að minna á mikilvægi samtalsins fyrir máltöku og málþroska – að talað sé við börn og þeim gefinn kostur á að hlusta á samtöl og taka þátt í þeim.

Ýmsar rannsóknir sýna að ekkert skiptir meira máli fyrir málþroska barna en samtöl við fullorðið fólk. Jafnframt er alltaf að koma betur og betur í ljós að góður málþroski skiptir máli fyrir allan annan þroska – félagsþroska, tilfinningagreind, og jafnvel verkgreind. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar noti allan þann tíma sem mögulegt er til að tala við börnin sín og freistist ekki til að nota síma eða tölvu til að kaupa sér frið nema það sé alveg nauðsynlegt.