Að lenda stökk(i)

Það er vel þekkt að ýmsar málfarsnýjungar eiga rætur í íþróttamáli og ein slík vakti athygli mína í gær þegar ég sá setningagerð sem ég kannaðist ekki við í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins – „Lenti erfiðasta stökki sögunnar“. Þessi setningagerð var svo endurtekin inni í fréttinni þar sem sagði: „Hinn 18 ára gamli Bandaríkjamaður Ilia Malinin skráði sig á spjöld sögunnar er hann lenti fyrstur allra fjórföldum „Axel“ á alþjóðlegu móti.“ Í fréttinni kemur fram að þessi skautasnillingur hafi tekið einstaklega erfitt stökk sem nefnt er „Axel“ og lent á réttan hátt (á öðrum fæti) eftir stökkið. Það sem ég kannaðist ekki við var að sögnin lenda væri notuð á þennan hátt, þ.e. með andlagi (stökki) í þessari merkingu. Þarna hefði ég sennilega talað um að takast eða heppnast stökkið.

Elsta dæmi sem ég fann um sambandið lenda stökk(i) er úr umræðu um fjallahjólreiðar á Hugi.is 2006: „það tekur hellvíti mikið á bakið og svo auðvitað höggin við að lenda stökk!“. En sambandið er aðallega notað í fimleikum og í listdansi á skautum í merkingunni 'lenda á réttan hátt eftir stökk'. Elsta dæmi sem ég fann um þá notkun var á Eyjunni 2007: „Kurt Browning frá Kanada var fyrstur allra til að lenda fjórföldu stökki í listdanskeppni á skautum.“ Í Fréttablaðinu 2014 segir: „þetta verður hörkukeppni og mun koma til með að ráðast af því hverjir lenda stökkunum sínum best.“ Í Vísi sama ár segir: „Auðvitað hefðum við viljað lenda fleiri stökkum.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2015 segir: „Við þurfum að lenda 36 stökkum og negla þetta.“ Mörg fleiri dæmi eru frá síðustu árum.

Í dæmunum hér að framan er andlagið stökk í þágufalli nema í dæminu af Huga.is. Þágufallið er vissulega langalgengast en nokkur dæmi má þó finna um þolfallið. Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Það ætlaði allt um koll að keyra innan liðsins eftir að hann lenti stökkið.“ Í sama blaði sama ár segir: „Það trylltist allt í keppnishöllinni þegar Kolbrún lenti stökkið.“ Í Vísi sama ár segir: „þar með varð hann fyrstur í heiminum til þess að framkvæma og lenda þetta stökk í keppni.“ Af þessu mætti e.t.v. draga þá ályktun að þolfallið væri í sókn en dæmin eru of fá til að unnt sé að fullyrða nokkuð um það. Hins vegar er rétt að benda á að í málfarsnýjungum er algengt að fallstjórn sagna flakki milli þolfalls og þágufalls, í dæmum eins og negla boltann/boltanum, rústa leikinn/leiknum o.fl.

Svo má velta fyrir sér hvort eitthvað sé við þessa nýjung að athuga. Það er auðvitað ekki nýjung að sögnin lenda taki andlag – það er talað um að lenda skipi þegar í fornu máli og nú er talað um að lenda flugvélum. Vissulega eru merkingarvensl sagnar og andlags önnur í sambandinu lenda stökk(i), en þá má benda á að sögnin er einnig oft notuð í yfirfærðri merkingu – lenda málinu sem merkir 'leiða málið til lykta, ljúka málinu á viðunandi hátt'. Það má halda því fram að lenda stökk(i) sé ekki ósvipað – merkingu sambandsins má orða sem 'enda stökkið á viðunandi hátt'. Þarna er verið að búa til nýtt orðasamband með skýra og afmarkaða merkingu sem blasir við út frá merkingu orðanna sem mynda sambandið. Ég sé ekki betur en þetta samband auðgi málið en spilli því ekki.

Tölum íslensku frekar en íslenska tungumálið

Eins og alkunna er sker íslenska sig frá flestum skyldum málum í því að hafa aðeins ákveðinn greini en engan óákveðinn. Ákveðinn greinir í íslensku er í stórum dráttum notaður á sama hátt og í t.d. dönsku og ensku, en þar sem þau mál nota óákveðinn greini hefur íslenska nafnorðin ein, án nokkurs fylgiorðs. Við segjum ég las bók í gær, í dönsku er sagt jeg læste en bog i går, og í ensku I read a book yesterday. Þar með er búið að kynna bókina til sögunnar og ef vísað er til hennar fljótlega aftur er hún orðin þekkt, ljóst er til hvers er verið að vísa, og þess vegna fær hún ákveðinn greini í öllum málunum, viðskeyttan í íslensku og dönsku en lausan í ensku – bókin var leiðinlegbogen var kedeligthe book was boring. Þetta vitið þið að sjálfsögðu.

Það er þó margvíslegur munur á notkun ákveðins greinis í íslensku og skyldum málum eins og fólk sem hefur lært íslensku sem annað mál hefur komist að – ég hef stundum heyrt að greinirinn sé eitt af því sem erfiðast er að ná fullum tökum á. Helsti munurinn felst í því að í íslensku er oft hægt að hafa orð án greinis í stöðu þar sem verður að nota ákveðinn greini í t.d. ensku og dönsku. Þetta á einkum við ef tilvísun orðs er ótvíræð, t.d. vegna þess að aðeins eitt kemur til greina. Þannig getum við sagt forsætisráðherra flutti ræðu á fundinum en í ensku er alls ekki hægt að segja a prime minister gave a speech at the meeting í sömu merkingu, heldur verður að segja the prime minister. Ef greinirinn er óákveðinn merkir það 'einhver ótiltekinn forsætisráðherra'.

Því er oft haldið fram að notkun ákveðins greinis hafi aukist í íslensku og það er sennilega rétt. Þegar það er skoðað er samt mikilvægt að bera saman sambærilega texta því að notkun greinis er töluvert stílbundin – hann er meira notaður í óformlegu málsniði en formlegu. Þetta má sjá ef við berum saman notkun ákveðins greinis með hversdagslega orðinu bíll og formlega orðinu bifreið. Á tímarit.is eru hátt í fjórum sinnum fleiri dæmi um bifreið mín án greinis en bifreiðin mín með greini. Aftur á móti eru meira en ellefu sinnum fleiri dæmi um bíllinn minn með greini en bíll minn án greinis. Það er því dæmigert að nota formlega orðið án greinis en það hversdagslega með greini. Í sambærilegum dæmum væri reyndar enginn greinir í dönsku eða ensku.

En það er samt líklegt að notkun ákveðna greinisins hafi að einhverju leyti aukist fyrir ensk áhrif. Iðulega sést hann notaður þar sem ekki er hefð fyrir honum í íslensku en enska hefur hann. Það er t.d. algengt, einkum í þýðingum, að talað sé um íslenska máliðíslenska tungumálið eða íslensku tunguna, og nokkuð ljóst að the Icelandic language liggur þar á bak við. Í hefðbundnu máli væri ekki notaður greinir þarna, heldur talað um íslenskt mál og íslenska tungu – en tæplega íslenskt tungumál. Eðlilegast væri þó að nota einfaldlega heiti málsins og tala bara um íslensku í stað þess að nota íslenska sem lýsingarorð með nafnorði. Hitt getur svo sem ekki talist rangt, en ég mæli þó eindregið með því að við höldum okkur við málhefð.

Vítahringur íslenskunnar

Ég hef áður nefnt hér að nýnemar í íslensku við Háskóla Íslands voru færri í haust en nokkru sinni undanfarna hálfa öld og vel það – rétt á annan tuginn. Eins og fjármögnun háskólastigsins er háttað þýðir fækkun nemenda minnkaðar fjárveitingar sem leiða til þess að nýliðun í kennarahópnum verður lítil, námskeiðum fækkar og námsframboð verður fábreyttara – með öðrum orðum: Námið verður ekki eins áhugavert og þess vegna fækkar nemendum enn frekar. Þetta er vítahringur sem ekki er séð hvernig má komast úr og það er grafalvarlegt mál á sama tíma og íslenskan þarf á öllu sínu að halda. Við þurfum að efla íslenskukennslu á öllum stigum, og á bak við það þarf að vera öflugt háskólastarf, bæði kennsla og rannsóknir.

En því miður benda orð háskólaráðherrans á Sprengisandi í morgun ekki til þess að til standi að leggja meiri áherslu á íslenskuna innan Háskólans: „Ef við munum geta stjórnað betur í gegnum öðruvísi fjármögnun háskólanna. Að fjármagna betur nemendur í raunvísindum og STEM greinum, þar sem eru vísindi, verkfræði, tölvunarfræði og slíkar greinar. Sem og í heilbrigðisvísindum. Ef við getum stýrt fjármunum aukalega í þessar greinar þá gætum við verið að svara stórum hluta af kalli atvinnulífsins gagnvart háskólamenntuðum sérfræðingum.“ Ekkert bendir til þess að ætlunin sé að setja meira fé í háskólastigið þannig að „stýrt fjármunum aukalega“ merkir örugglega 'fært fjármuni frá óarðbærum greinum'.

Sannarlega þarf að efla þær greinar sem ráðherra nefndi. En færsla fjárveitinga til þeirra frá öðrum greinum mun leiða til þess að staða hug-, félags- og menntavísinda, þar á meðal íslenskunnar, versnar enn frá því sem nú er, þvert á fyrirheit í stjórnarsáttmála þar sem sagt er „mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu“. Á sama tíma situr háskólaráðherrann í sérstakri ráðherranefnd um íslenska tungu sem á m.a. að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd, eins og nú er sagt. Ef stjórnvöld vilja efla íslenskuna verða þau að sýna þann vilja í verki. Áframhaldandi veiking íslenskunnar í Háskóla Íslands er grafalvarleg og hana verður að stöðva.

Aðgerða er þörf!

Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Linu Hallberg sem hefur verið óþreytandi að skrifa ýmsum ráðuneytum og opinberum stofnunum og krefja þau um svör við því hvað verið sé að gera og hvað standi til að gera í málefnum íslensku sem annars máls. „Vandinn er hversu erfitt það er að læra íslensku á Íslandi og þá er það ekki tungumálið sjálft sem er vandamálið“ segir Lina og leggur áherslu á að það er kerfið sem er vandamálið. Það er bráðnauðsynlegt að stjórnvöld átti sig á þessu og grípi til aðgerða nú þegar, og í því sambandi er rétt að vekja athygli á að samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ lögð fram á mánudaginn, 27. mars.

Í þessari tillögu á að birta „aðgerðir sem menningar- og viðskiptaráðherra, forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra standa að og varða málefni íslenskrar tungu vítt og breitt í samfélaginu í þágu íslenskrar tungu (aðgerðaáætlun)“. Ég vona sannarlega að þessi tillaga verði samþykkt og skili sér m.a. í auknum og bættum stuðningi við kennslu íslensku sem annars máls. Að öðrum kosti eigum við á hættu „að hér komi til að með að búa stór hópur borgara sem ekki kann tungumálið.“ Það er alvarlegt mál sem verður að bregðast við hið fyrsta því að það er nefnilega hárrétt sem Lina segir: „Eft­ir tíu ár verður orðið of seint að grípa inn í.“

Íslenskum tölvuleiki!

Það er vitað að ungt fólk, sérstaklega strákar, spilar mikið tölvuleiki og þeir eru flestir á ensku. Þegar þessir leikir eru til umræðu verður mál spilaranna mjög enskuskotið. Ég hef lengi talað fyrir því að við fáum fleiri tölvuleiki á íslensku – það er ekki síður mikilvægt en þýðingar á hvers kyns sjónvarpsefni. Kannski heldur fólk að það skipti ekki máli að tölvuleikir séu á ensku, eða það sé eitthvert náttúrulögmál að svo sé, eða spilarar hafi engan áhuga á að fá þá á íslensku – en í könnun sem sagt er frá á mbl.is segjast 45,6% svarenda vera til í að spila tölvuleiki á íslensku. Kannski vanmetum við áhuga ungs fólks á því að nota íslensku? Það væri þá ekki í fyrsta skipti – þetta gæti nefnilega verið svipað og með GSM-símana fyrir 20-25 árum.

Þegar GSM-símar komu fram skömmu fyrir aldamótin var viðmót þeirra í upphafi eingöngu á ensku. Þá voru þetta auðvitað fyrst og fremst símar en ekki margmiðlunartölvur með hringimöguleika eins og nú, og texti viðmótsins ekki ýkja mikill. Flestum þótti eðlilegt að þetta væri bara á ensku, eins og viðmótið var yfirleitt á tölvum á þessum tíma – þetta var áður en Windows var þýtt á íslensku. En svo ákvað Síminn, sem þá var nánast eini söluaðili símanna, að prófa að láta þýða viðmót einnar tegundar GSM-síma á íslensku. Þá brá svo við að sala þeirrar tegundar jókst hlutfallslega miklu meira en annarra síma. Í framhaldinu var svo farið að þýða fleiri tegundir. Er nú ekki um að gera að prófa þetta með leikina?

Er þingkona „orðskrípi“, „málspjöll“ og „latmæli“?

Á dögunum var þess minnst að hundrað ár voru síðan fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason, tók sæti á Alþingi og varð þar með alþingismaður – eða var hún kannski alþingiskona? Fram til 1923 sátu eingöngu karlar á Alþingi og því skipti ekki máli hvort -maður í alþingismaður var talið kynhlutlaust eða skilið sem 'karlmaður'. Í tilefni af áðurnefndum tímamótum fannst mér fróðlegt að athuga hvernig Ingibjörg hefði verið titluð í blöðum á þessum tíma. Haustið 1922 stóð í Alþýðublaðinu: „Var bréfið sent stjórnarformanninum, alþingiskonu Ingibj. Bjarnason.“ En í sama blaði 1923 stendur líka: „Var málshefjandi Ingibjörg H. Bjarnason alþingismaður.“ Í Morgunblaðinu 1924 segir: „Á fundinum verður meðal annars alþingiskona I.H. Bjarnason.“

Þegar Ingibjargar er getið í blöðum á kjörtímabili hennar, 1922-1930, sýnist mér hún heldur oftar nefnd alþingiskona en alþingismaður. Þær örfáu konur sem sátu á þingi næstu fimmtíu árin – Guðrún Lárusdóttir, Katrín Thoroddsen, Kristín L. Sigurðardóttir, Rannveig Þorsteinsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Auður Auðuns, Svava Jakobsdóttir, Sigurlaug Bjarnadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir – voru líka allar iðulega nefndar alþingiskonur þótt alþingismaður væri vissulega hið venjulega starfsheiti þeirra eins og annarra sem sátu á þingi. Ekki verður séð að amast hafi verið við þessu orði, né heldur orðinu þingkona sem fyrst kemur fyrir í Kvennablaðinu 1907 í grein um kosningarétt kvenna í Finnlandi sem þá var nýfenginn.

En þegar Kvennalistinn kom til sögunnar 1983 og fékk þrjár konur kjörnar á þing, sem vildu kalla sig þingkonur, var fjandinn laus. Þá var orðið þingkona, sem hafði verið til í þrjá aldarfjórðunga og var vel þekkt og algengt í málinu, orðið „skrípi“. Eiður Guðnason sagði t.d. á Alþingi: „Sem betur fer hefur dottið upp fyrir það orðskrípi sem menn voru með tilburði til að koma inn í íslenska tungu á haustdögum, orðið „þingkona“. Sem betur fer hefur það ekki heyrst nefnt, enda á það ekki að vera til.“ Hann talaði líka um „þetta leiðinlega latmæli, þessi málspjöll“ og sagði „nokkurt alvörumál þegar þm. á Alþingi Íslendinga gera sér sérstakt far um að spilla íslenskri tungu eins og ég tel tvímælalaust að verið sé að gera með ónefninu þingkona“.

Eiður var alls ekki eini þingmaðurinn á þessari línu og gagnrýnin var ekki síður áberandi utan veggja þinghússins. Það myndi æra óstöðugan að tína til öll hrakyrði sem sögð voru um orðið þingkona – og um þingkonurnar sem vildu nota það. Í myndatexta í DV 1983 var talað um „„Þingkonur“ Kvennalistans“ – „þingkonur“ innan gæsalappa. Í pistli í sama blaði sama ár vitnaði blaðakona í Árna Böðvarsson sem vildi „meina réttilega að persóna sem gegnir nefndu starfi sé þingmaður, burtséð frá kyni. Starfið heiti þingmennska og þar af leiðandi þingmaður sá sem því gegnir“ – og blaðakonan bætti við: „Svo bregður svo við að kvenmaður sem orðinn er þingmaður heimtar að vera kallaður þingkona! Er þetta ekki orðin einhver hringavitleysa?“

Þannig gekk kona undir manns hönd að fordæma orðið þingkona. Á bak við það var annars vegar venjuleg málfarsleg íhaldssemi blandin karlrembu, en saman við það blönduðust líka áhrif frá kjörorði Rauðsokkahreyfingarinnar, „Konur eru líka menn“ – sem Kvennalistinn hvarf eiginlega frá og lagði þess í stað áherslu á að konur skilgreindu sig á eigin forsendum. Þannig sagði vinstrisinnuð kona í Þjóðviljanum 1986 um eina af þingkonum Kvennalistans: „ekkert lifandi kvikindi fær mig til að titla hana alþingiskonu“. Jafnréttissinnaður rithöfundur sagði líka í 19. júní 1986: „Ég legg ákaflega mikla áherslu á að orðið maður táknar í íslensku bæði karl og kona, og finnst leiðinlegt þegar þingmenn Kvennalistans kalla sig þingkonur.“

Þegar þetta er skoðað nú, fjörutíu árum síðar, er augljóst að málið snerist ekki um málfræði eða málsmekk, ekki frekar en deilur um fiskara, starfsfólksfund, leghafa o.fl. Það snerist um vald. Valdið yfir tungumálinu – skilgreiningarvaldið. Orðin þingkona og alþingiskona sem höfðu verið notuð í málinu áratugum saman án þess að amast væri við þeim urðu auðvitað ekki allt í einu „orðskrípi“, „latmæli“ og „málspjöll“ árið 1983. En þegar karlveldinu fannst sér ógnað með tilkomu Kvennalistans greip það til allra tiltækra ráða til að halda í völdin, og þá var nærtækt að nota tungumálið vegna þeirrar stöðu sem það hafði í huga fólks. Orðið þingkona var árás á tungumálið, og þar með árás á íslenskt þjóðerni – athæfi þingkvennanna var óþjóðlegt.

Væl eða krakkasöngur?

Ég sé iðulega athugasemdir um það – stundum á Málspjalli en aðallega í Málvöndunarþættinum – að það sé lítið að marka mig vegna þess að ég leggi mig fram um að réttlæta allar ambögur og telji ekkert rangt, a.m.k. ekki ef það finnst á tímarit.is. Eftir erindi sem ég flutti í ónefndum Rótarýklúbbi í haust kom einn fundarmanna til mín og sagðist hafa haldið að ég væri anarkisti. Það er ég ekki, en ég skil samt vel að fólk sem er alið upp við hefðbundna íslenska málvöndunarstefnu – eins og við erum flest, a.m.k. þau sem eru komin yfir miðjan aldur – skuli fá þessa tilfinningu. Við ólumst upp við að eitt væri rétt en allt annað rangt og aldrei þurfti að velkjast í vafa um, hvað þá réttlæta eða útskýra, hvaða málbrigði það væri sem teldist rétt.

Ég hef vissulega snúist gegn ýmsum þeim málfarskreddum sem ég lærði í æsku og taldi heilagan sannleik. En það er ekki vegna þess að ég sé anarkisti, heldur vegna þess að ég hef skoðað grundvöllinn undir þessum kreddum og iðulega komist að þeirri niðurstöðu að hann sé valtur eða hreint ekki til. En tilgangur minn með því að skrifa um þetta er samt ekki sá að brjóta niður barnatrú og barnalærdóm lesenda, heldur að auka umburðalyndi, benda á að heimurinn er ekki svarthvítur í þessum efnum frekar en öðrum, og málfarstilbrigði sem hafa verið fordæmd eiga sér oftar en ekki einhverja skýringu og jafnvel réttlætingu – tíðkast annars staðar á landinu, eru leifar úr eldra máli, eiga sér skýra hliðstæðu í viðurkenndu máli, eru frjó nýsköpun, o.s.frv.

Okkur finnst flestum að íslenskan eigi að vera eins og hún var þegar við tileinkuðum okkur hana á máltökuskeiði – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera. Ég er ekkert öðruvísi en annað fólk í því að ef ég heyri eða sé orð eða málnotkun sem ég kannast ekki við finnst mér það oftast skrítið og það pirrar mig stundum, og ég á það til að hnussa yfir því – og jafnvel kenna hroðvirkni eða fákunnáttu um. Vissulega þurfum við öll að fá útrás fyrir pirring stöku sinnum en það er samt oftast nær miklu skemmtilegra og frjórra að velta málinu fyrir sér – skoða hvort ókunnuglegt orð eða orðalag eigi sér einhverja réttmæta skýringu. Þá er ekki að vita nema okkur fari eins og jólasveininum sem áttaði sig á að „þetta sem mér virtist væl, var þá krakkasöngur“.

Að spóla til baka og hraðspóla

Í gær sá ég fyrirsögnina „Guterres biður ríki heims um að hraðspóla í átt að kolefnisjöfnun“ á vef Ríkisútvarpsins. Þótt sögnin hraðspóla sé kunnugleg er hana ekki að finna í þessari merkingu í orðabókum – hún er hvorki flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók Íslenskri orðabók, en í Orðabók Aldamóta Snöru) er hún flettiorð og skýrð 'snúa hratt bandi á mynd- eða hljóðsnældu', þýðing á „fast-forward“ á ensku. Ólíklegt er samt að merking þessarar fyrirsagnar vefjist fyrir lesendum, enda kemur skýringin strax á eftir: „Útlitið í loftslagsmálum er ansi svart að mati aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Auðugustu ríki heims verða að taka af skarið og flýta sínum áformum svo hægt verði að ná settum markmiðum.“

Elsta dæmi um hraðspóla á tímarit.is er í auglýsingu um myndbandstæki í DV 1983: „Hægt er að hraðspóla fram og til baka á níföldum hraða.“ Nafnorðið hraðspólun sem væntanlega er leitt af sögninni kemur þó fyrir nokkru fyrr, í smáauglýsingum Vísis 1975: „Langbylgja, miðbylgja, hraðspólun á báða vegu.“ Í ljósi þess að segulbandstæki urðu algeng á sjötta áratugnum er þó trúlegt að sögnin hraðspóla sé eldri en þetta. Framan af var hún eingöngu notuð í bókstaflegri merkingu, en elsta skýra dæmi sem ég hef fundið um yfirfærða merkingu sagnarinnar er í grein eftir Björk Guðmundsdóttur í Morgunblaðinu 1999: „Mörg Asíulönd misstu mikið til af iðnbyltingunni og þungaiðnaði og mengun og fengu að hraðspóla beint inn í hátæknina.“

En fleiri dæmi eru um líkingar af þessum uppruna. Ein merking sagnarinnar spóla í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'flytja segulband eða myndband fram eða aftur' og við hana eru gefin dæmin „spóla áfram“ og „spóla til baka“. Elsta dæmi um spóla til baka er í Alþýðublaðinu 1966: „Þetta er einkar þægilegt, þar eð bandinu má spóla til baka og sýna upptökuna strax á eftir á sjónvarpsskermi í upptökusal.“ Rétt eins og hraðspóla var spóla til baka framan af notað í bókstaflegri merkingu, en í Helgarpóstinum 1982 er merkingin greinlega yfirfærð: „Átta mig svo, spóla til baka og reyni eitthvað nýtt.“ Einnig er stundum talað um að spóla fram, t.d. í Morgunblaðinu 2012: „Spólum fram um fleiri ár en Víkverji kærir sig um að viðurkenna.“

Eftir aldamót fer dæmum um yfirfærða merkingu smátt og smátt fjölgandi, bæði í hraðspóla og spóla til baka, og flest dæmi frá síðustu árum eru þess eðlis, enda tilheyra segulbandstæki og myndbandstæki horfnum heimi. Meðal nýlegra dæma má nefna „Þjóðin gerir áætlanir, framkvæmir og hraðspólar“ í Morgunblaðinu 2018 og „Þá henti ég því sem ég hafði skrifað og spólaði til baka“ í Fréttablaðinu 2020. Þetta er komið inn í formlegt mál – spóla til baka er t.d. algengt í ræðum á Alþingi og hraðspóla hefur brugðið þar fyrir. Mér finnst þetta skemmtileg dæmi um hvernig ný tækni elur af sér líkingar sem lifa áfram í málinu þótt viðkomandi tækni verði úrelt. Annað dæmi um þetta er sambandið strauja kortið sem ég hef áður skrifað um.

Hvað er helmingi meira?

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun sambandanna helmingi meira og helmingi minna og annarra hliðstæðra. Grétar Eiríksson skrifaði t.d. í Morgunblaðinu 2003: „Mér finnst leiðinlegar villur sem menn gera við notkun á einföldustu stærðfræðihugtökum. T.d. þegar menn segja helmingi meira þegar það á að segja tvöfalt meira. Helmingi meira þýðir heildin að viðbættum helmingi hennar eða 150% af upprunalegu tölunni. Þar með er 3 helmingi meira en tveir, og 4 tvöfalt meira en tveir. Enska orðið double þýðir tvöfalt en ekki helmingi meira eins og sumir virðast halda. Það er ansi leiðinlegt að heyra fréttamenn tala um helmingi meiri hagnað fyrirtækja og svo veit maður ekki hvort þeir séu að meina helmingi meira eða tvöfalt meira.“

Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 segir undir helmingur: „naar der er Tale om Forøgelse el. Formindskelse bet[yder] h[elmingi] henholdsv[is] 100% og 50%: helmingi meira, det dobbelte; helmingi minna, det halve; helmingi stærri, dobbelt saa stor.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „helmingi miðast ávallt við hærri upphæðina; talan tuttugu er helmingi sínum hærri en tíu.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er helmingur skýrt 'annar hluti af tveimur jafnstórum' og einnig í Íslenskri orðabók en þar er bætt við: „helmingi stærri ýmist tvöfalt eða hálfu stærri, 100% (50%) stærri; helmingi minni 50% minni.“ Þarna er því komin inn tvíræðni sem Gísli Sigurðsson skrifaði um í Tímariti Máls og menningar 2006:

„Mörgum þykir höfuðnauðsyn að málfar sé rökrétt og gangi upp í reikningsformúlu. Að sumu leyti er þetta krafa okkar vísindalega sinnuðu tíma því að í flestum fögum er nákvæm orða- og hugtakanotkun mikilsverð. Gallinn er sá að hefðbundið málfar er ekki alltaf jafn rökrétt og vísindi vorra tíma vilja helst vera. Þannig háttar til um þá málvenju að eitthvað sé helmingi meira en annað, Jói borðaði helmingi meira en Gunna, Bjössi er helmingi feitari en Gummi og svo framvegis. Það er hægt að efna í ágætt kaffitímaþras með því að spyrja hvað átt sé við með þessum orðum. Í nefndum dæmum eru nákvæmir útreikningar að vísu óviðeigandi því eiginleg merking er bara miklu meira og miklu feitari.“

En Gísli heldur áfram og bendir á vandamál við notkun þessara sambanda: „Alvara málsins eykst þó ef fjármálafyrirtæki auglýsir helmingi meiri ávöxtun hjá sér en öðrum. Þá viljum við vita hvort átt er við 100% meiri ávöxtun eða bara 50%. Samkvæmt rökréttri orðanna hljóðan er hægt að halda því fram að það sem er helmingi meira en eitthvað annað sé bara 50% meira. Í almennri málnotkun háttar samt þannig til að þetta orðasamband þýðir oftast nær að eitthvað sé 100% meira. Þessi óvissa hefur orðið til þess að í kennslubókum í stærðfræði er ekki hægt að nota hið hefðbundna málfar heldur verður að tala um tvöfalt meira. Má því segja að tilraunir til að leiðrétta málfar með rökvísina að vopni hafi hér gert málið fátækara.“

Í greinargerð Baldurs Jónssonar prófessors um þetta mál sem Gísli Jónsson birti í þætti sínum í Morgunblaðinu 1996 segir: „Ef til vill má orða það svo að þarna ljósti saman gömlum tíma og nýjum. Sá sem lærir reikning í skóla nútímans er ekki í vafa um að það sé rökrétt sem honum er kennt. Því ályktar hann sem svo að gamla orðalagið geti ekki staðist úr því að það brýtur í bága við hið nýja. Þetta viðhorf hefi ég orðið var við, jafnvel hjá glöggum reikningsmönnum, en á það get ég ekki fallist. Frá mínum bæjardyrum séð mætast hér ekki andstæðurnar rökrétt: órökrétt. Í gamla orðalaginu er ekkert órökrétt, en viðhorfið er allt annað en í prósentumáli og hefir líka mótast við allt aðrar aðstæður, löngu áður en prósentureikningur gerði vart við sig.“

Á Vísindavefnum er bent á að málvenja sé að helmingi meira merki 'tvöfalt meira', en: „Þessi hefðbundna merking orðasambandsins „helmingi meira en“ virðist hins vegar vera á undanhaldi um þessar mundir og gamla og nýja merkingin ruglast saman. Þar sem tilgangur tungumálsins er öðru fremur sá að tjá hugsun okkar er slíkur ruglingur óheppilegur, ekki síður fyrir það að mörgum reynist nógu erfitt að ná tökum á annarri hvorri merkingunni. Ruglingurinn verður þá meðal annars til þess að menn veigra sér við að taka svona til orða og leita annarra leiða til að orða hugsun sína. Jafnframt bendir þó flest til þess að nýja merkingin, sem er í samræmi við hliðstætt orðalag í almennum hlutfallareikningi að öðru leyti, muni verða ofan á innan tíðar.“

Þetta er allavega í lagi

Í Málfarsbankanum segir: „Orðin alla vega og alla vegana merkja það sama og alls konar. Einnig eru þau notuð í merkingunni: að minnsta kosti, alltént (alltjent), hvað sem öðru líður. Sú merking hæfir ekki í vönduðu máli.“ Þetta er dálítið villandi. Vissulega getur allavega merkt sama og alls konar, í dæmum eins og „En það eru líka allavega menn sem veljast í þetta“ í Helgarpóstinum 1986. En þá er það lýsingarorð, stendur hliðstætt með nafnorði – eða sem sagnfylling, eins og „Liturinn á hestunum er alla vega“ í Búnaðarritinu 1916. Lýsingarorðið allavega hefur því alltaf merkinguna 'alls konar' en aldrei þá merkingu sem ekki er sögð hæfa í vönduðu máli. Það á einungis við um atviksorðið allavega (eða alla vega), ekki lýsingarorðið.

Orðið allavega er upphaflega forsetningarliður, á alla vega, og er algengt í fornu máli í merkingunni 'allar áttir' eða 'allar hliðar' – vega er eldri mynd nafnorðsins vegur í þolfalli fleirtölu (þar sem nú er vegi). Forsetningin á fellur oft brott og eftir stendur alla vega sem hefur þá stöðu atviksorðs. Í Heimskringlu segir: „En varðmenn voru á hestum og héldu hestvörð alla vega frá bænum“ (þ.e. 'í allar áttir'). Í Sturlungu segir: „En er hestarnir komu að þá sendi Þórður alla vega menn frá sér til mannsafnaðar“ ('í allar áttir'). Í Gísla sögu Súrssonar segir: „Hann verður nú var við menn á alla vega frá sér“ ('allar hliðar'). En merkingin 'á allan hátt' kemur líka fyrir í fornu máli: „Alla vega þykir mér þér fara sem lítilmannlegast“ segir í Sturlungu.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er atviksorðið allavega sagt hafa tvær merkingar – 'á allar hliðar' og 'á allan hátt'. Í Íslenskri orðabók (þriðju útgáfu frá 2002) er allavega(na) sagt hafa þrjár merkingar: 'á allar hliðar, allan hátt'; 'hvað sem öðru líður, hvort sem er'; og 'að minnsta kosti'. Síðastnefnda merkingin er sögð óformleg eins og í Málfarsbankanum, en merkingin 'hvað sem öðru líður' sem Málfarsbankinn amast líka við er gefin athugasemdalaust. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er merkingin 'að minnsta kosti' gefin án athugasemda. Í kverinu Gætum tungunnar er „Ég syndi allavega einu sinni í viku“ leiðrétt í „Ég syndi að minnsta kosti einu sinni í viku“ og bætt við: „Ath.: allavega merkir: á allan hátt, með ýmsu móti.“

Í fjölmörgum tilvikum er hægt að skilja atviksorðið allavega á fleiri en einn hátt. Í Alþýðublaðinu 1941 segir: „Það er alla vega ávinningur að fara snyrtilega með peninga.“ Í Þjóðviljanum 1945 segir: „Sigur A-listans er allavega tryggður í þessum kosningum.“ Í Tímariti Máls og menningar 1961 segir: „En það er allavega notalegt að hvíla sig eftir matinn.“ Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Jæja, ég er alla vega háður yðar skipunum á meðan ég er hér.“ Í öllum þessum dæmum er hægt að setja á allan hátt í stað allavega – en einnig hvað sem öðru líður og að minnsta kosti. Vegna þess hve munurinn milli þessara merkinga er oft lítill er mjög erfitt að sjá hvenær seinni merkingarnar – þessar sem amast hefur verið við – komu upp.

En fyrir 1960 eru allavega farin að koma fram dæmi þar sem merkingin 'á allan hátt' getur tæpast átt við. Í Þjóðviljanum 1958 segir: „Hún er allavega eitthvað meiri en 100 tonn.“ Í Þjóðviljanum 1958 segir: „Skákin er allavega töpuð.“ Í Heimilisblaðinu 1959 segir: „Það gat líka verið prentvilla, myndin var alla vega af Martinu.“ Í Vikunni 1960 segir: „Vonandi kæmu börnin ekki framar til Þýzkalands, og þá var alla vega tíu þúsund Júðum færra.“ Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Hún er allavega ástfangin af þér nú.“ Í Vikunni 1963 segir: „Það var allavega engin tilviljun, að þér stunguð honum í líkama Ralphs á fyrrverandi baklóð Ronalds Jaimet.“ Í þessum dæmum hlýtur merkingin að vera annaðhvort 'hvað sem öðru líður' eða 'að minnsta kosti'.

Eins og hér hefur komið fram er merking orðsins allavega önnur en í upphafi, þegar vega hafði bókstaflega merkingu. En viðhorfið til merkingartilbrigða orðsins í nútímamáli er mismunandi – yfirfærða merkingin 'á allan hátt' er viðurkennd en aðrar merkingar taldar óæskilegar. Gísli Jónsson sagði þó um allavega(na) í þætti sínum í Morgunblaðinu 1987: „Ég reyni að halda dauðahaldi í „að minnsta kosti“, en ég er sannfærður um að hinu verður ekki auðrýmt burtu í sömu merkingu, enda komið inn á bækur góðra höfunda.“ Það er ljóst að notkun allavega í merkingunni 'hvað sem öðru líður' eða 'að minnsta kosti' á sér langa hefð og er gífurlega algeng í nútímamáli. Ég sé ekki forsendurnar fyrir því að amast við henni.