Eigðu góðan dag

Iðulega hefur verið amast við orðalaginu Eigðu góðan dag sem oft er notað í kveðjuskyni, t.d. í verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum. Meginástæðan fyrir því að mörgum er í nöp við þetta orðalag er sögð sú að það sé komið úr ensku þar sem oft er sagt Have a nice day við svipaðar aðstæður. Þótt enska orðasambandið sé trúlega fyrirmyndin er varla hægt að segja að um hráa þýðingu sé að ræða vegna þess að sögnin er önnur. Reyndar hefur verið bent á að kveðjan „Haf góðan dag, herra“ kemur fyrir í Stúfs þætti.

Það má hins vegar finna aðra ástæðu fyrir því að telja sambandið eigðu góðan dag ekki falla vel að íslensku. Myndin eigðu er boðháttur, og sá háttur er yfirleitt notaður til að gefa einhvers konar skipanir, fyrirmæli eða vinsamleg tilmæli. En til að eitthvert vit sé í því að gefa skipun þarf sá sem henni er beint til að hafa einhverja möguleika á að verða við henni. Með öðrum orðum – skipunin þarf að fela í sér eitthvað það sem er eða gæti verið á valdi þess sem hún beinist að. Þannig er það auðvitað með sagnir sem fela í sér einhvern verknað eða athöfn – við getum sagt Réttu mér saltið, Hjálpaðu mömmu þinni, Komdu snemma heim o.s.frv.

En öðru máli gegnir með sagnir sem tákna skynjun eða tilfinningu, vegna þess að þar er um að ræða eitthvað sem við höfum yfirleitt ekki stjórn á. Slíkar sagnir er yfirleitt ekki hægt að nota í boðhætti og í staðinn er oft notaður viðtengingarháttur til að láta í ljósi tilmæli eða ósk. Jónas kvað „Dreymi þig ljósið“, ekki *dreymdu ljósið. Reyndar bætist það við að flestar þessara sagna taka aukafallsfrumlag þannig að -ðu/-du/-tu í boðhættinum sem er komið af nefnifallsmynd annarrar persónufornafnsins þú á ekki við – ef hægt væri að nota dreyma í boðhætti ætti myndin fremur að vera *dreymdig.

Það sama gildir um sögnina eiga. Boðhátturinn eigðu er vissulega notaður, en yfirleitt við sérstakar aðstæður. Við getum t.d. sagt eigðu þetta elskan við barn um leið og við réttum því pening eða einhverja aðra gjöf. Við getum líka sagt eigðu þetta áfram þegar við viljum ráða viðmælanda frá því að losa sig við einhverja eign. En að þeim aðstæðum slepptum er tæpast hægt að gefa manni fyrirmæli um að eiga eitthvað. Þess vegna er eigðu góðan dag ekki í samræmi við íslenska málhefð – eigirðu góðan dag eða megir þú eiga góðan dag væri það hins vegar.

Í eigðu góðan dag er boðhátturinn notaður til að tjá ósk fremur en skipun eða tilmæli, en það er svo sem ekki alltaf langt þar á milli. Þótt ég kunni ekki sérlega vel við þetta samband þjónar það ákveðnum tilgangi og ekki augljóst hvað gæti komið í staðinn. Ég býst við að það sé orðið fast í málinu og það taki því ekki að berjast gegn því héðan af, en það verður hver að eiga við sig.

Smit

Nafnorðið smit hefur heyrst æði oft undanfarna mánuði. Í orðabókum er merking þess sögð vera ‚það þegar sjúkdómur (sýklar) berst frá einum einstaklingi til annars‘. Samkvæmt orðabókum er þetta eintöluorð, og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur enga fleirtölubeygingu. Á tímarit.is má þó finna dæmi um fleirtölu orðsins frá síðustu áratugum, en þau eru örfá.

En í fréttum síðustu mánaða er mjög algengt að smit sé notað í fleirtölu – sagt að smitum hafi fjölgað, tvö smit hafi greinst í gær o.s.frv. Þetta tengist greinilega merkingarbreytingu orðsins. Í stað þess að það vísi til ferlisins, eins og orðabókarskilgreiningarnar gera, vísar það nú til útkomunnar úr ferlinu. Þar með verður ekkert óeðlilegt að nota orðið í fleirtölu.

Þegar fleirtala kemur upp hjá orðum sem áður hafa eingöngu verið notuð í fleirtölu heyrist venjulega hljóð úr horni hjá málvöndunarmönnum, en ég hef ekki séð neinar athugasemdir við þessa breyttu hegðan orðsins smit. Kannski hefur enginn áttað sig á því að orðið var ekki notað í fleirtölu til skamms tíma – en kannski er þetta merki um aukið umburðarlyndi gagnvart eðlilegri málþróun. Það er óskandi.

Notum ekki íslensku gegn fólki

Ég skrifaði nýlega pistil þar sem ég hvatti fólk til að tala íslensku við útlendinga sem eru að læra málið í stað þess að skipta strax yfir í ensku eins og Íslendingum er gjarnt þegar viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. En ég var svo bláeygur að ég hafði ekki hugsað út í að þetta er ekki endilega bara óþolinmæði og hugsunarleysi, heldur stundum notað á meðvitaðan hátt til að gera lítið úr fólki og gefa því til kynna að það eigi ekki heima hér, eins og kemur fram í viðtali við Miriam Petru Ómarsdóttur Awad í mbl.is í dag:

„„[…] það skipt­ir í raun ekki máli hversu vel þú tal­ar ís­lensku, það er samt fullt af fólki sem mun samt koma fram við þig eins og þú sért ekki Íslend­ing­ur. Birt­ing­ar­mynd­ir for­dóma eru mis­jafn­ar en úti­lok­un og nei­kvæðar at­huga­semd­ir eru hluti þeirra,“ seg­ir Miriam.

„Eitt af því sem ýtir und­ir til­finn­ing­ar um úti­lok­un er til dæm­is þegar fólk er í sí­fellu ávarpað á ensku jafn­vel þó það svari á ís­lensku eða hafi jafn­vel byrjað sam­talið á ís­lensku. Marg­ar höfðu lent í því, og ég hef sjálft mikið lent í því, að fólk tal­ar ensku við mig að fyrra bragði.

Það er samt alltaf verið að segja að út­lend­ing­ar þurfi bara að læra ís­lensku og að við verðum að vera opn­ari fyr­ir því að fólk tali ís­lensku með hreim, sem er al­veg rétt, en það er samt bara þannig að ef þú lít­ur út á ein­hvern hátt þá lít­ur fólk á þig sem út­lend­ing.““

Það er alvarlegt mál þegar íslenskan er notuð á þennan hátt. Við megum aldrei nota íslenskuna eða takmarkaða íslenskukunnáttu til að mismuna fólki. Það er vanvirðing við fólkið sem þetta bitnar á – og ekki síður vanvirðing við íslenskuna.

En þótt það sé sjálfsagt að leitast við að tala íslensku við útlendinga á það ekki alltaf við, eins og Alondra Silva Muñoz bendir á í viðtali í mbl.is í gær þegar hún er spurð hvað sé það erfiðasta við að vera inn­flytj­andi á Íslandi:

„„Ég held að það sé að finna jafn­vægi hvað varðar tungu­málið. Tungu­málið get­ur verið eitt­hvað sem úti­lok­ar þig og læt­ur þér líða eins og þér sé út­hýst en það get­ur líka verið eitt­hvað sem fólk deil­ir með þér til þess að láta þér líða vel og vald­efla þig.“

Hún seg­ir að marg­ir meini mjög vel þegar þeir tala ís­lensku við inn­flytj­end­ur og það geti látið þeim líða vel.

„En í viss­um aðstæðum viltu kannski ekki tala ís­lensku vegna þess að þú vilt ekki að neins kon­ar mis­skiln­ing­ur eigi sér stað. Til dæm­is inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins eða á mik­il­væg­um fundi í vinn­unni.““

Það er skiljanlegt að fólk óttist misskilning við slíkar aðstæður og vilji því forðast að nota tungumál sem það talar ekki reiprennandi. En hin hliðin á málinu er auðvitað sú að viðmælendurnir hugsa eins – vilja nota tungumál þar sem þeir eru á heimavelli við aðstæður þar sem misskilningur má ekki verða. Vandinn er hins vegar sá að tungumálið sem lágmarkar hættu á misskilningi er ekki það sama hjá báðum aðilum.

Það er engin einföld lausn til á þessu. Í heilbrigðiskerfinu er fólk auðvitað að sækja sér nauðsynlega þjónustu og á rétt á að komið sé til móts við það eins og hægt er. Þetta er flóknara í samskiptum á vinnustað – þar er um að ræða hlutverk sem fólk velur sér og það á ekki sömu kröfu á því að geta talað annað tungumál en opinbert mál landsins.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.

Enska í strætó

Ég fer í strætó einu sinni á ári - þegar ég þarf að fara með bílinn minn í tékk upp í óbyggðir. Í hvert skipti ergi ég mig yfir því að í vögnunum er texti á ensku án þess að samsvarandi texti sé líka á íslensku. Ekki bara einhver texti, heldur texti sem varðar öryggisatriði og mikilvægt er því að allir skilji.


Ég hef a.m.k. tvisvar skrifað upplýsingafulltrúa Strætó um þetta og hann hefur lofað bót og betrun en það virðist ekki hafa gengið eftir. Ég sé líka ekki betur en þetta sé andstætt málstefnu Reykjavíkurborgar (ég veit að Strætó er ekki borgarfyrirtæki en borgin er langstærsti eigandinn og það væri eðlilegt að málstefnan gilti þar).

Ekki segja að þetta sé ástæðulaust nöldur því að allir skilji ensku. Í fyrsta lagi er það ekki rétt - það skilja ekki allir ensku. En í öðru lagi snýst málið ekki um það, heldur um stöðu málsins í samfélaginu. „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi“ auglýsti bæjarfógetinn árið 1848.

Léleg í íslensku

Ég heyrði skemmtilegt viðtal við unga og mjög efnilega tónlistarkonu í Menningunni í Sjónvarpinu. Þegar hún var spurð út í textagerð sína sagði hún að sér fyndist erfitt að semja texta og hún væri ekkert góð í því. „Ég er rosa léleg í íslensku“ sagði hún og þess vegna semdi hún frekar á ensku.

Þetta sló mig dálítið. Ég gat nefnilega ekki betur heyrt en þessi unga stúlka talaði alveg ágætis íslensku – sletti mjög lítið og ég tók ekki eftir neinum algengum frávikum (öðru nafni „málvillum“) í máli hennar. Mér finnst afskaplega ólíklegt að hún sé betri í ensku en íslensku (nema hugsanlega hún sé tvítyngd sem ég veit ekkert um).

En þetta er ekki einsdæmi. Unglingar segjast iðulega vera lélegir í íslensku, tala vitlaust, ekki kunna íslensku, o.s.frv., og halda því fram að þeir séu betri í ensku. Hvaðan fá þeir þessar hugmyndir? Þær hljóta að koma frá okkur, hinum fullorðnu, sem erum alltaf að hnýta í málfar unglinganna, hneykslast á því, og leiðrétta það.

En það er einmitt vísasti vegurinn til að unglingarnir flýi íslenskuna og snúi sér að ensku í staðinn – sem er væntanlega ekki það sem við stefnum að með umvöndunum okkar. Þurfum við ekki aðeins að hugsa ráð okkar, hætta neikvæðni og leita leiða til að gera unga fólkið jákvætt í garð íslenskunnar?

Enskuslettur í Söngvakeppni

Ég hef í dag séð fjölda fólks gera athugasemdir við málfar kynna í Söngvakeppni sjónvarpsins í gærkvöldi og kvarta undan ótalmörgum enskuslettum. Þessar athugasemdir eiga fullan rétt á sér – enskusletturnar keyrðu úr hófi. Ég hef yfirleitt ekki haft miklar áhyggjur af tökuorðum og enskuslettum í íslensku – sletturnar koma og fara, en tökuorð sem þörf er á og haldast í málinu laga sig yfirleitt að málkerfinu að meira eða minna leyti. En það eru takmörk fyrir öllu, og það sem mér fannst verst í málnotkun kynnanna var mikill fjöldi enskuslettna sem voru algerlega óþarfar – orða sem eiga sér ágætar samsvaranir í íslensku sem legið hefði beint við að nota.

Málið er samskiptatæki og notkun þessa tækis verður að vera samkomulagsatriði. Til að málið geti gegnt hlutverki sínu þurfum við að geta treyst því að viðmælendur okkar noti það á nokkurn veginn sama hátt og við – annars er hætt við að úr verði misskilningur eða hreinlega skilningsleysi. Í venjulegu samtali er þetta yfirleitt ekki vandamál – ef við erum ekki viss um merkingu einhvers sem viðmælandinn segir getum við alltaf beðið um skýringu. En þessu er vitanlega öðruvísi farið þegar fólk talar í fjölmiðlum. Áheyrendur hafa enga möguleika á að óska skýringar og sitja uppi með sinn misskilning eða enda jafnvel alveg úti á túni og hafa engin ráð – önnur en kvarta á Facebook sem ólíklegt er að skili miklum árangri.

Fólk sem hefur það að atvinnu að koma fram í fjölmiðlum ber því allt aðra og mun meiri ábyrgð á málnotkun sinni en almenningur. Í þáttum um sérhæfð efni sem hafa afmarkaðan markhóp er kannski ekkert óeðlilegt að sletta stundum og nota erlend orð sem búast má við að áheyrendur þekki, enda er þá oft um að ræða orð sem ekki eiga sér íslenskar samsvaranir. En öðru máli gegnir um dagskrárliði eins og Söngvakeppnina þar sem vitað er að áhorfendur eru mjög margir, af öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum. Þar er í raun engin afsökun fyrir að nota slettur sem þar að auki eru alveg óþarfar – eins og mér heyrðist oftast vera í þessu tilviki. Vegna stöðu sinnar og hlutverks ber Ríkisútvarpið vitaskuld alveg sérstaka ábyrgð í þessu sambandi.

Þetta er óvirðing við íslenskuna. En þetta er líka óvirðing við hlustendur. Það skilja nefnilega ekki allir ensku þótt svo sé oft látið í veðri vaka. Með því að sletta ensku ótæpilega í þætti sem er ætlaður allri þjóðinni er stuðlað að málfarslegri stéttaskiptingu – skiptingu í fólk sem er „hipp og kúl“ (svo að notuð sé enskusletta sem mér er töm en ég veit ekki hvort allir þekkja), unga fólkið sem skilur enskusletturnar og hlær á réttum stöðum, og svo öll hin – eldra fólk og aðra hópa sem af ýmsum ástæðum hafa ekki tileinkað sér tískuslettur samtímans. Við eigum á hættu að þetta fólk fyllist minnimáttarkennd eða skömm yfir því að skilja ekki flotta fólkið. Látum það ekki gerast.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um mannanöfn

Ég er sammála þeirri meginstefnu frumvarpsins að leggja sem minnstar hömlur á form og eðli mannanafna. Ég tel að aukið frelsi í þeim efnum sé nauðsynlegt vegna jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða, og skaði ekki íslenska tungu. Nánari rök fyrir þeirri afstöðu eru færð hér á eftir.

Samkvæmt frumvarpinu falla brott ákvæði sem eru í núgildandi lögum um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við al­menn­ar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Framangreind ákvæði eru sett til verndar íslenskri tungu og eru þannig út af fyrir sig góðra gjalda verð. En þau eru öll vandmeðfarin og háð túlkun. Nöfn eru tilfinningamál og nafnréttur manna ríkur, eins og staðfest er með ýmsum dómum, bæði frá Mannréttindadómstól Evrópu, Héraðs­dómi Reykja­víkur o.fl., og með vísun til t.d. mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár Íslands. Réttur manns til nafns, og réttur foreldra til að ráða nafni barns síns, verður ekki takmarkaður nema hagsmunir samfélagsins krefjist.

Við beitingu hefðarákvæðisins hefur mannanafnanefnd komið sér upp ákveðnum vinnulags­reglum. Það er vitaskuld lofsvert og dregur úr hættu á því að sambærileg mál séu afgreidd á mismunandi hátt. En viðmiðin í þessum reglum eru umdeilanleg og eiga sér ekki beina stoð í lögum, þótt þau séu vissulega nefnd í athugasemdum með frumvarpi til núgildandi laga. Ekki er það síður túlkunaratriði hvort nöfn brjóti í bága við íslenskt málkerfi. Þegar þessu ákvæði hefur verið beitt er oft vísað til þess að í nöfnum komi fyrir hljóð eða hljóðasambönd sem ekki eru í íslensku, en einnig til orðmyndunarfræðilegra, beygingarlegra og merkingarlegra atriða. Oftast er um að ræða mjög matskennda þætti þar sem erfitt er að gæta samræmis og jafnræðis.

Því er oft haldið fram að óheftur straumur erlendra nafna geti haft óæskileg áhrif á málið. Það er í sjálfu sér ekki óhugsandi að mikill fjöldi orða sem koma inn í málið og greina sig frá íslenskum erfðaorðum á einhvern hátt, t.d. í hljóðafari eða beygingum, hafi einhver áhrif á tilfinningu málnotenda fyrir reglum og einkennum íslenskunnar. En til þess þurfa orðin að vera mjög mörg og mikið notuð. Erlend mannanöfn eiga nú þegar tiltölulega greiða leið inn í málið, eins og auðséð er þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir. Það skiptir vart sköpum fyrir framtíð tung­unnar hvort haldið er í þær hömlur sem eru á upptöku nýrra erlendra (og innlendra) nafna. Mannanöfn eru svo sérstakur og afmarkaður hluti tungumálsins að ekki er líklegt að þau hafi veruleg áhrif á aðra þætti þess, enda eru nýleg nöfn sem reyna á ákvæði mannanafnalaga flest eða öll mjög sjaldgæf.

Þá er að hafa í huga að erlend nöfn hafa streymt inn í málið frá fyrstu tíð, og mörg þeirra hafa að geyma hljóðasambönd sem ekki finnast í erfðaorðum. Þar má nefna nöfn eins og Andrea, Lea, Magnea, Leó, Theódóra, William, Sebastian, Patricia, Sophus, Zophonías, Arthúr, Zoe, Nikolai, Laila, og ótalmörg fleiri. Öll þessi nöfn er hægt að gefa íslenskum ríkisborgurum óhindrað því að þau eru á mannanafnaskrá – sum hafa verið notuð lengi en önnur hafa verið heimiluð á starfstíma mannanafnanefndar. Ekki verður þess samt vart að þetta hafi haft neikvæð áhrif á tungumálið.

Auðvitað má hugsa sér nöfn sem innihalda meira framandi hljóðasambönd en þau sem hér hafa verið nefnd, s.s. Szczepan úr pólsku, Nguyen úr víetnömsku o.s.frv. En hljóðskipunarreglur tungumála breytast ekki svo glatt, og líkurnar á að slík nöfn hefðu einhver áhrif á íslenskt hljóðkerfi og hljóðskipunarreglur eru nákvæmlega engar. Og vegna þess að hljóðasambönd í þessum orðum eru nánast óframberanleg fyrir Íslendinga er ekki ólíklegt að nöfnin tækju fljótlega breytingum í átt að íslenskum hljóðskipunarreglum.

Því hefur einnig verið haldið fram að óheft innstreymi erlendra nafna gæti veikt beygingarkerfið. Eitt þeirra skilyrða sem nöfn þurfa að uppfylla samkvæmt gildandi lögum lýtur að þessu – nöfn þurfa að geta tekið eignarfallsendingu. Þó er fjöldi íslenskra erfðaorða eins í öllum föllum eintölu og hefur þar með enga sérstaka eignarfallsendingu. Þetta eru t.d. veik hvorugkynsorð (hjarta, nýra o.s.frv.), mörg kvenkynsorð sem enda á -i (gleði, keppni, lygi, reiði o.m.fl.), karlkyns- og hvorugkynsorð sem enda á löngu s (foss, koss, sess, hross, pláss o.fl.) eða samhljóði + s (háls, þurs, glans, gips o.fl.) – og sitthvað fleira mætti nefna. Þessi orð eru margfalt fleiri og algengari en þau mannanöfn sem ekki taka eignarfallsendingu – jafnvel þótt meðtalin væru öll nöfn sem hafnað hefur verið á þeirri forsendu. Samt hvarflar ekki að neinum að þessi orð stuðli að niðurbroti beygingarkerfisins eða hafi einhver óæskileg áhrif á málið.

En reyndar geta langflest nöfn tekið eignarfallsendingu og því er beygingarleysi sjaldan forsenda synjunar nafns. Það eru helst kvenmannsnöfn sem enda á -e sem erfitt getur verið að setja eignarfallsendingu á og nokkrum slíkum nöfnum hefur verið hafnað, s.s. Maxine, Aveline og Jette, þótt nöfnin Charlotte, Christine, Elsie, Irene, Kristine, Louise, Marie og Salome/Salóme hafi komist á mannanafnaskrá vegna hefðar. Af þessum nöfnum er aðeins það síðastnefnda notað eitthvað að ráði og hefur tæplega spillt beygingarkerfinu. Þótt örfáum öðrum nöfnum hafi verið hafnað á þeirri forsendu að þau taki ekki eignarfallsendingu tel ég það hæpna túlkun.

Annar hópur nafna sem ekki taka eignarfallsendingu eru karlmannsnöfn sem enda á samhljóði + sGils, Hans, Jens o.fl. Aldrei er þó amast við slíkum nöfnum, væntanlega vegna þess að það er engin sérviska þeirra að taka ekki eignarfallsendingu heldur er það einfaldlega útilokað af hljóðafarslegum ástæðum – samhljóð getur ekki verið langt á eftir öðru samhljóði og þess vegna er ekki hægt að bæta eignarfalls-s við þessi nöfn. (Reyndar væri hægt að nota eignarfallsendinguna -ar í staðinn, en það er ekki gert.) En þegar að er gáð gegnir í raun og veru alveg sama máli um kvenmannsnöfnin sem enda á -e – það eru hljóðafarslegar ástæður fyrir því að þau geta ekki tekið eignarfallsendinguna -ar (sem er sú eina sem kemur til greina). Tvö grönn sérhljóð eins og e og a geta ekki með góðu móti staðið saman í íslensku. Það er því í raun fráleitt að hafna áðurnefndum kvenmannsnöfnum á þessari forsendu.

Meira að segja Jón, algengasta karlmannsnafn á Íslandi fyrr og síðar, fellur ekki fullkomlega að málkerfinu – til þess þyrfti það að vera Jónn, eins og prjónn, sónn og tónn – sem reyndar eru allt gömul tökuorð sem hafa aðlagast kerfinu. Þegar Jón hafði verið í málinu í margar aldir kom tökuorðið telefón inn í málið seint á 19. öld, en það tók ekki langan tíma að lagað það að málinu þannig að það varð (tele)fónn í nefnifalli. Þrátt fyrir tíðni og útbreiðslu nafnsins Jón hafði endingarleysi þess í nefnifalli sem sé ekki áhrif á þetta nýja tökuorð.

En gefum okkur nú þrátt fyrir það að nöfn sem falla ekki að íslensku hljóð- og beygingarkerfi gætu „smitað út frá sér“ ef svo má segja – komið af stað eða hraðað breytingum á íslensku málkerfi. Þá hlýtur það að eiga við um öll nöfn sem eru notuð í málsamfélaginu, nöfn sem við heyrum og notum í daglegu lífi – ekki bara nöfn íslenskra ríkisborgara, sem eru þeir einu sem falla undir íslensk mannanafnalög. Hér búa nú og starfa tugir þúsunda útlendinga – fólk sem við tölum um og tölum við, og notum því í daglegu tali fjölda nafna sem ekki yrðu samþykkt. Ef íslensku málkerfi stafar hætta af erlendum nöfnum hlýtur sú hætta aðallega að stafa frá nöfnum þessa fólks en ekki þeim tiltölulega fáu nöfnum sem íslenskir ríkisborgarar sækja um að bera.

Einnig má benda á að mannanöfn eru ekki stór hluti af orðaforða málsins. Á mannanafnaskrá eru rúmlega 4100 nöfn, mörg þeirra mjög sjaldgæf og í mörgum tilvikum er örugglega bara einn nafnberi. Nú má auðvitað nota ýmsa mælikvarða á stærð íslensks orðaforða en í ritmálssafni Árnastofnunar eru t.d. dæmi um u.þ.b. 700 þúsund orð. Mörg þeirra eru líka sjaldgæf og jafnvel aðeins eitt dæmi um þau, þannig að það er ekki fráleitt að bera þetta saman. Samkvæmt því væru nöfn langt innan við 1% af heildarorðaforðanum.Vissulega má reikna þetta á annan hátt en sama hvernig það er gert verða nöfnin alltaf bara brot af orðaforðanum. Og um önnur orð – allt að 99% orðaforðans – gilda engin lög.

Enda eru erlend orð af ýmsu tagi sífellt að koma inn í málið, án þess að við höfum nokkra stjórn á því. Mörg þeirra falla ekki fullkomlega að íslensku málkerfi – eru óbeygð, brjóta hljóðskipunarreglur, eða hvort tveggja. Sum þessara orða eru lítið notuð eða um stuttan tíma, önnur haldast í málinu og laga sig þá iðulega að þeim orðum sem fyrir eru – breyta um framburð, fara að beygjast, o.s.frv. Önnur haldast í málinu án þess að laga sig að því – en án þess að „smita út frá sér“, þ.e. án þess að valda nokkrum breytingum á íslenskum orðum. Mér er ómögulegt að sjá tilganginn í því að koma lögum yfir lítið brot orðaforðans en líta fram hjá hugsanlegum áhrifum allra hinna orðanna.

Í þessu sambandi má nefna að það er alsiða að nefna börn í höfuð skyldmenna, ekki síst afa og ömmu. Þetta þykir bera vott um ræktarsemi við ætt og uppruna og er mörgum mikið tilfinningamál. En stundum er foreldrum beinlínis bannað að nefna börn sín í höfuðið á afa og ömmu þótt vilji standi til þess. Fólk sem fær íslenskan ríkisborgararétt er vissulega ekki lengur þvingað til að breyta nafni sínu, en því er meinað að fá nafna eða nöfnur þegar barnabörnin koma, ef nöfnin sem um er að ræða eru ekki á mannanafnaskrá og fullnægja ekki skilyrðum til að komast á hana. Þetta getur valdið miklum sárindum og hugarangri þeirra sem í hlut eiga, enda augljós mismunun sem stenst ekki nútímahugmyndir um jafnræði.

Annar þáttur í mannanafnalögum sem varðar íslenska málstefnu eru ættarnöfnin. Oft er bent á að Íslendingar hafi einir germanskra þjóða varðveitt þann sið að kenna sig til föður eða móður, og mikilvægt sé að halda þeim sið áfram. Iðulega er látið að því liggja að bann við upptöku ættarnafna sé liður í vernd íslenskrar tungu. Engin leið er þó að halda því fram. Þessi siður er hluti af íslenskri menningu, en ekki sérstaklega af íslenskri tungu auðvitað sé stutt þar á milli í þessu. Ættarnöfn eru í eðli sínu hvorki íslenskulegri né óíslenskulegri en föður- og móður­nöfn. Fjöldi ættarnafna er af alíslenskum rótum og óþarft að taka dæmi um það, og ef upptaka ættarnafna yrði gefin frjáls má búast við að slíkum nöfnum myndi fjölga. Mörg ættar­nöfn eiga sér vissulega erlendan uppruna en sama má segja um eiginnöfn. Erfitt er að sjá að notkun ættarnafna valdi einhverjum sérstökum málspjöllum.

Ég er ekki sannfærður um að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn, þótt slíkt yrði leyft. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins. Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa einir haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Einnig má vísa til þess að í Færeyjum mun hafa færst í vöxt á seinustu árum að kenna sig til föður.

Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung. Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp.

Niðurstaða mín er þessi: Engin ástæða er til að ætla að íslenskri tungu stafi hætta af þeim breytingum sem felast í fyrirliggjandi frumvarpi. Erlend mannanöfn eiga nú þegar greiða leið inn í málið og ekki hefur verið sýnt fram á að þau hafi valdið málspjöllum. Kenning til föður og móður er vissulega hluti íslensks menningararfs en ættarnöfn eru samt ekkert síður hluti íslenskrar tungu en föður- og móðurnöfn. Ekkert liggur fyrir um það að kenning til föður og móður hverfi á stuttum tíma þótt ættarnöfn verði almennt leyfð. Fyrirliggjandi frumvarp er veruleg réttarbót og afnemur þá mismunun sem felst í gildandi lögum og er í raun mannréttindabrot. Stífar reglur sem vísa í íslenska málstefnu en samræmast ekki jafnréttishugmyndum og stríða gegn réttlætiskennd fólks geta orðið til þess að ala á neikvæðum viðhorfum fólks til íslenskunnar. Því þarf hún síst af öllu á að halda um þessar mundir.

Að líða kynþokkafullum

Í ársbyrjun hnaut ég um fyrirsögnina „Held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri“ á vef RÚV. Mér fannst þetta athyglisvert því að þarna er notað lýsingarorð í þágufalli (kynþokkafullri) í stöðu þar sem venjulegt er að hafa atviksorð, t.d. vel eða illa. Fyrir nokkrum dögum rakst ég svo á fyrirsögnina „Mér hefur aldrei liðið svona hjálparvana“ í Fréttablaðinu. Þetta virðist vera sams konar setning, þótt fall lýsingarorðsins sjáist reyndar ekki hér. Þetta vakti forvitni mína og ég fór að skoða málið nánar og leita að fleiri sambærilegum setningum.

Við nokkra leit, einkum í Risamálheildinni, fann ég rúm 40 dæmi af þessu tagi. Þetta eru setningar eins og Mér leið öruggri hjá honum,  Mér hefur sjaldan liðið jafn gamalli, Þess vegna líður okkur oft þrútnum og þungum, Mér líður flottri og kvenlegri, Þjálfaraliðið vildi fá mig inn í landsliðið því mér líður enskum, Hnetusmjör lætur mér líða svalri, Mér líður ungum á ný, Hann lætur mér líða heilbrigðri og sterkri, Hann lætur mér líða óöruggum, Allir hafa látið okkur líða velkomnum o.s.frv.

Allar þessar setningar innihalda sögnina líða ásamt lýsingarorði í þágufalli. Í þeirri merkingu sem hér um ræðir tekur líða þágufallsfrumlag og það liggur beint við að álykta að einhver tengsl séu milli þess og þágufallsins á lýsingarorðinu. Það þarf því að spyrja hvernig lýsingarorð geti komið þarna í stað atviksorðs, og hvernig þágufallið geti borist þarna á milli. Ég ímynda mér að afleiðslan hljóti að vera einhvern veginn svona:

  1. [ ___ líður [ég öruggur]]      (grunngerð) >
  2. [ ___ líður [mér öruggum]]  (fallstjórn) >
  3. [mér líður [ ___ öruggum]]  (færsla andlags í frumlagssæti)

Sögnin líða er þá frumlagslaus í grunngerð en tekur með sér smásetninguna (e. small clause) [ég öruggur]. Sögnin setur síðan smásetninguna í heild í þágufall, [mér öruggum]. Að lokum er persónufornafnið mér fært inn í tómt frumlagssætið en lýsingarorðið öruggum skilið eftir, og útkoman verður Mér líður öruggum. Afleiðslan er þá hliðstæð við þolmyndarsetningar eins og Honum var bjargað ómeiddum:

  1. [ ___ var bjargað [hann ómeiddur] >
  2. [ ___ var bjargað [honum ómeiddum] >
  3. [honum var bjargað [ ___ ómeiddum]

Hér er þá um það að ræða að setningafræðilegt ferli sem til er í málinu er víkkað út og látið taka til formgerðar sem það hefur ekki áður verkað á. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé mjög nýleg breyting. Elsta dæmið sem ég hef fundið er frá 2007, en langflest dæmin eru frá síðustu 3-4 árum. Það er ekki ólíklegt að um sé að ræða áhrif frá ensku þar sem setningar eins og I feel safe/ insecure/ sexy/ young/ welcome o.s.frv. eru mjög algengar. Talsverður hluti dæmanna er líka úr textum með óformlegu málsniði þar sem enskra áhrifa er e.t.v. fremur að vænta.

Í ensku beygjast lýsingarorð ekki og þess vegna hefði e.t.v. mátt búast við því að lýsingarorðið kæmi fram í ómarkaðri (hlutlausri) mynd í þessari setningagerð – nefnifalli eintölu, annaðhvort karlkyni eða hvorugkyni. En þótt ég hafi vissulega fundið dæmi um að lýsingarorðið standi í nefnifalli (Hann vildi láta þeim líða velkomnirFalleg sundföt sem létu stúlkum líða sjálfsöruggar, og fáein önnur) er þágufallið yfirgnæfandi sem sýnir enn og aftur styrk beygingakerfisins. Það er engin ástæða til að hafa neitt á móti þessari nýjung.

Söfnuð ævintýri

Ég skrifaði í haust pistil um lýsingarhættina hafnaður, náður og lagður, í setningum eins og Ég var hafnaður af stelpu, Þjófurinn var náður og Bílarnir voru illa lagðir. Mörgum finnst þessar setningar rangar af því að sagnirnar hafna, og leggja stjórna þágufalli á andlagi sínu.

Þegar setningum með þessum sögnum er snúið í þolmynd mætti því búast við að andlagið – sem þá er gert að frumlagi – héldi falli sínu. Sögn og lýsingarháttur samræmist ekki aukafallsfrumlagi í persónu og tölu, heldur kemur sögnin fram í 3. persónu eintölu og lýsingarhátturinn í hvorugkyni eintölu. Því hefði mátt búast við að setningarnar yrðu Mér var hafnað af stelpu, Þjófnum var náð og Bílunum var illa lagt.

Um daginn rakst ég svo á þetta dæmi – vissulega hafði ég oft séð þetta kver áður en aldrei veitt orðalagi á titilsíðu athygli. En þarna stendur sem sé „Söfnuð af M[agnúsi] Grímssyni og J[óni] Árnasyni“. Sögnin safna stjórnar þágufalli eins og þær sem áður voru nefndar og því hefði maður búist hér við Safnað af M. Grímssyni og J. Árnasyni. En þarna er lýsingarhátturinn sem sé í fleirtölu og samræmist Íslenzk æfintýri, um miðja 19. öld – og það ekki hjá neinum bögubósum.

 

Til Selfossar

Í Málvöndunarhópnum á Facebook hefur iðulega verið gerð athugasemd við að talað sé um að fara „til Selfossar“. Það er engin furða – orðið foss hefur fram undir þetta verið endingarlaust í eignarfalli, foss, og sama gildir um samsetningar af því, þar á meðal Selfoss. Okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að orð beygist á þann hátt sem við höfum vanist, og kippumst því við þegar við heyrum brugðið út af hefðbundinni beygingu.

Það er vissulega æskilegt að viðhalda málhefð um beygingu orða. Þó er rétt að hafa í huga að þessi breyting er fjarri því að vera einsdæmi. Beyging fjölmargra orða hefur breyst frá fornu máli til nútímans, án þess að það hafi raskað málkerfinu eða valdið alvarlegu rofi á málhefð. Aðalatriðið er að orðin haldi áfram að beygjast, þótt þau færist milli beygingaflokka. Þannig er það í þessu tilviki.

En þessi breyting er reyndar áhugaverðari en margar aðrar. Orðið foss er nefnilega nokkuð sérstakt vegna þess að það er endingarlaust í eignarfalli eins og áður segir. Þetta er vissulega ekki einsdæmi en meginreglan er þó að nafnorð hafi sérstaka eignarfallsendingu – karlkynsorð annaðhvort –s eða –ar. Í karlkynsorðum eru það bara orð sem enda á löngu (tvöföldu) ss eins og foss, sess, rass o.fl., svo og orð sem enda á samhljóði + s eins og dans, háls, þurs, snafs o.fl. sem eru án endingar í eignarfalli eintölu.

Þetta endingarleysi á sér langa sögu og má skýra með ævagamalli hljóðþróun. En það getur leitt til þess að málnotendum finnist vanta þarna einhverja endingu – þeir fái það á tilfinninguna að orðin séu ekki beygð, og hyllist þess vegna til þess að bæta eignarfallsendingu við þau, þótt ekki sé hefð fyrir henni. Það er það sem gerist þegar fólk segir til Selfossar í stað til Selfoss.

Það er vissulega hægt að hafna þessari beygingu á þeirri forsendu að engin hefð sé fyrir henni. En það er líka hægt að taka henni fagnandi vegna þess að hún sýnir að málnotendur hafa sterka tilfinningu fyrir því að eignarfall eigi að fá endingu, og setja þess vegna endingu þar sem þeim finnst hana vanta. Breyting af þessu tagi sýnir því styrk beygingarkerfisins – meðan breytingar af þessu tagi koma upp er kerfinu óhætt, og það er meginatriðið. Ef eignarfallið hefði verið Selfossar en væri að breytast í Selfoss væri hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur.