„Heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra“

Ég að hinn nýkjörni alþingismaður Snorri Másson gerði stöðu íslenskrar tungu að umræðuefni í jómfrúrræðu sinni á Alþingi í dag. Það er góðra gjalda vert, en framsetningin var þó með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að gera athugasemd við hana. Hann sagði nefnilega: „Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra við að læra tungumálið í heimalandi. Aðeins 18% hafa tileinkað sér tungumálið hér á meðan samanburðarlönd státa flest af hátt í 60% árangri í sama flokki.“ Þarna er vísað í skýrslu OECD síðan í haust sem ég hef áður fjallað hér um og um þessar tölur mætti margt segja og ýmsa fyrirvara þarf að hafa á samanburði af þessu tagi eins og ég hef bent á.

Látum samt svo heita að sinni að þessar tölur séu sambærilegar, en það sem vakti helst athygli mína var orðalagið „heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra“. Þarna er allri skuldinni skellt á innflytjendur – það eru þeir sem eru skussar við að læra íslensku. En í raun hefði verið miklu nær að segja „Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í ófullnægjandi frammistöðu stjórnvalda við að kenna aðfluttum tungumál þjóðarinnar.“ Í áðurnefndri skýrslu OECD kemur nefnilega fram að í Noregi og Finnlandi er varið um fjórum sinnum meira opinberu fé í tungumálakennslu hvers innflytjanda og í Danmörku allt að tíu sinnum meira. Þetta eru væntanlega þau samanburðarlönd sem Snorri vísaði til í ræðu sinni.

Þegar tekið er tillit til þessa munar er vitanlega ekki óeðlilegt að hlutfall þeirra innflytjenda sem telja sig hafa sæmilega færni í íslensku (vera „fluent“ eða „advanced“ í sjálfsmati) sé mun lægra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það er ekki ólíklegt að neikvætt viðhorf Íslendinga til erlends hreims og ófullkominna beyginga valdi því að innflytjendur meti eigin kunnáttu lægra en vera myndi ef hér ríkti umburðarlyndi gagnvart þessum atriðum. Við það bætist að samsetning hópsins er með öðrum hætti hér en víða annars staðar – í mörgum Evrópulöndum er verulegur hluti innflytjenda fólk sem á sér skyld mál að móðurmáli og það auðveldar þeim vitaskuld málanámið. Um þetta er samt erfitt að fullyrða nokkuð.

Það er hárrétt hjá Snorra Mássyni að staðan í íslenskukunnáttu innflytjenda er óviðunandi og vitanlega er ekki óeðlilegt að ætlast til að þeir leitist við að læra málið. En það er hins vegar bæði ósanngjarnt og rangt að gera innflytjendurna sjálfa að blórabögglum og kenna þeim einum um „ófullnægjandi árangur“ í íslenskunámi. Slík framsetning þjónar fyrst og fremst pólitískum markmiðum en ekki íslenskunni og er síst til þess fallin að auka áhuga innflytjenda á íslenskunámi. Það er öllum í hag, bæði Íslendingum og innflytjendum – og ekki síst íslenskunni sjálfri – að auka íslenskukunnáttu innflytjenda og við ættum að sameinast um að bæta þar úr, í stað þess að nota íslenskuna til að kynda undir útlendingaandúð eins og þarna var gert.

Eiríkur vandar smellibeitum ekki kveðjurnar

Sumir íslenskir vefmiðlar gera út á smellibeitur – setja fram fyrirsagnir sem eru til þess ætlaðar að fá lesendur til að smella á þær og auka þannig umferð um vefinn svo að hann verði fýsilegri fyrir auglýsendur. Í þessum fyrirsögnum er oft gert mun meira en efni standa til úr smávægilegum ágreiningi eða málefnalegri gagnrýni. Ég þekki það vel því að sjálfur hef ég nokkrum sinnum nýst þessum miðlum, í fyrirsögnum eins og „Eiríkur æfur“, „Eiríkur skammar …“, „Eiríkur hirtir …“, „Eiríkur húðskammar …“, „Frægir hnakkrífast …“ o.fl. Ég man hins vegar ekki eftir því að sagt hafi verið í fyrirsögn að ég vandaði einhverjum ekki kveðjurnar en það er þó einhver algengasti orðaleppurinn í fyrirsögnum af þessu tagi.

Í Hugvekjum séra Vigfúsar Erlendssonar frá seinni hluta 18. aldar kemur fyrir sambandið að hún vandi þér betri kveðjurnar en elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is um sambandið vanda ekki kveðjurnar er í Gjallarhorni 1905: „Einar ritstj. Hjörleifsson velti sér yfir Ólafsvíkur læknirinn í 20. tbl. »Fj.konunnar« og vandar honum ekki kveðjurnar.“ Næsta dæmi er í Nýjum kvöldvökum 1918: „Og því var það engin furða, í okkar augum, þó við vönduðum henni ekki kveðjurnar, þegar hún rak okkur úr þessum sælustað.“ Annars er sambandið frekar sjaldgæft fram um 1950, en þó er það einkum þegar nálgast aldamótin að tíðni þess fer að aukast, og á árunum 2000-2009 er það meira en fjórum sinnum algengara á tímarit.is en tveimur áratugum áður.

Sambandið vanda <honum> ekki kveðjurnar er skýrt 'láta illa af honum, tala illa um hann' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'tala ómjúkum orðum til e-s, skamma e-n' í Íslenskri orðabók. Þetta rímar við skilning minn á sambandinu – mér finnst það vera nokkuð sterkt og fela í sér harkalega árás á þá sem um er rætt. Ég sé ekki betur en það stemmi líka við notkun sambandsins í eldri dæmum, og mér finnst mjög óeðlilegt að nota það um málefnalega gagnrýni sem beinist að málflutningi fólks en ekki persónu þess – sem er þó iðulega gert í fyrirsögnum vefmiðla. Það er óheppilegt þegar orð og orðasambönd eru gengisfelld á þennan hátt og fólki gerð upp afstaða sem það hefur ekki. Smellibeitur eru hvorki málefnalegri umræðu né íslenskunni til hagsbóta.

Hátt verð – há verð

Það hefur lengi verið boðað að nafnorðið verð sé „ekki til“ í fleirtölu og því eigi ekki að tala um mörg verð, há verð, lág verð o.s.frv. Í dálknum „Móðurmálið“ í Degi 1993 segir: „Fram til þessa hefur það verið vond íslenska að tala um mörg verð. […]. Við getum talað um margs konar verð, breytilegt verð, ýmiss konar verð en ekki mörg verð.“ Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1996 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson að verð væri „upphaflega eintöluorð“ og í annarri grein í blaðinu litlu síðar sagði hann að fleirtalan væri „vissulega […] ung í málinu.“ Í bókinni Íslenskt málfar amast Árni Böðvarsson einnig við fleirtölunni en segir: „Eðli þess er eintala, þótt formið banni ekki fleirtölumynd, enda kemur það fyrir þegar í fornu máli […].“

Fleirtöluna er m.a. að finna í Laxdælu: „þessi hross færð þú aldrei, þótt þú bjóðir við þrenn verð.“ Í Ólafs sögu helga segir: „ég skyldi margföldum verðum þjónustu yðra kaupa.“ Í Rómverja sögu segir: „Mun hann það og mörgum verðum kaupa.“ Í Biskupasögum Jóns Halldórssonar frá fyrri hluta 18. aldar segir: „hvað hann falaði af öðrum og fékk, borgaði hann jafnvel tvennum verðum.“ Í Tímanum 1857 segir: „í sumar munu þau flest hafa verið svo borguð, að meiri matvæli hefði mátt fá fyrir verðin jafnvel af innlendum matvælum.“ Í Ægi 1908 segir: „Hversu mjög framleiðsla félagsins skaraði fram úr allri norskri vöru samskonar að gæðum, sést á samanburði á verðunum.“ Í Morgni 1923 segir: „Káputau mörg verð og litir.“

Í DV 1986 skrifar Eiríkur Brynjólfsson um orð eins og flug og verð og segir: „Það er ekkert sem mælir á móti því að nota þessi orð í fleirtölu og segja mörg flug, mörg verð. Engu að síður er oft amast við fleirtölu þessara orða. Ástæðan er auðvitað sú að menn eru óvanir því.“ Í andsvari við áðurnefndum skrifum Jóns Aðalsteins Jónssonar sagði Jakob Björnsson í Morgunblaðinu 1996: „Ef svar þitt er að ástæðan sé sú, að fyrstnefndu þrjú orðin [bragð, verð, vín] hafi til þessa ekki tíðkast að hafa í fleirtölu, þá get ég ekki tekið það sem gilda ástæðu. Það jafngilti því í raun að málið geti aldrei tekið breytingum nema til hins verra og að skilyrðislaust eigi því að berjast gegn öllum breytingum á því. En einungis dauð tungumál taka engum breytingum.“

Eins og í mörgum orðum sem fremur hafa verið notuð í eintölu en fleirtölu er skýringarinnar á deilum um þetta að leita í merkingartilbrigðum orðsins verð. Það merkir annars vegar 'verðmæti, verðgildi, verðlag' og í þeirri merkingu er það aðeins notað í eintölu. En það merkir líka 'upphæð sem greiða þarf fyrir vöru og þjónustu, það sem eitthvað kostar' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók og í þeirri merkingu er eðlilegt að nota það í fleirtölu. Það er misskilningur að síðarnefnda merkingin sé nýjung – orðið hafði þessar mismunandi merkingar þegar í fornu máli eins og sjá má af því að í Ordbog over det norrøne prosasprog er það skýrt annars vegar 'værdi, pris, udbytte, ydelse' og hins vegar 'betaling, købesum, kompensation'.

Í Málfarsbankanum er fleirtölunni ekki hafnað með öllu þótt hún sé talin óæskileg: „Gott verð, lágt verð, hátt verð. Síður „góð verð“, „lág verð“, „há verð“, þó virðist ekki alltaf hægt að komast hjá því að nota verð í fleirtölu. Til að mynda í setningunni: öll verð eru án virðisaukaskatts.“ Afsökunartónninn í þessu er athyglisverður – „þó virðist ekki alltaf hægt að komast hjá því“. En hvers vegna í ósköpunum ætti að leitast við að komast hjá því? Eins og hér hefur komið fram hefur orðið alla tíð haft tvö merkingartilbrigði og fleirtala alltaf verið notuð af öðru þeirra. Eina ástæðan fyrir því að vilja „komast hjá“ henni er sú skoðun sem einhvern veginn hefur komist á flot að fleirtalan sé „röng“. En það er sem sé misskilningur.

Bóndar

Bæði hér og í Málvöndunarþættinum hef ég séð athugasemdir um að beyging orðsins bóndi sé að breytast og m.a. vísað til þess að viðmælandi Ríkissjónvarpsins í fréttum í fyrradag hafi sagt „Allir bóndar í dag eru bestu bóndar í heimi“. Þarna er vissulega notuð óhefðbundin fleirtala orðsins bóndi – venjuleg fleirtölubeyging þess er bændur bændur bændum bænda. Í fornu máli voru þágufall og eignarfall fleirtölu reyndar bóndum og bónda en hafa breyst fyrir áhrif frá nefnifalli og þolfalli eins og ég hef áður skrifað um. Fleirtalan bóndar sem vitnað var til víkur því frá hefðbundinni beygingu á tvo vegu. Annars vegar er endingin -ar í stað -ur, og hins vegar verður ekki hljóðvarp í stofninum – stofnsérhljóðið ó helst í stað þess að breytast í æ.

Hefðbundin beyging orðsins bóndi er reyndar mjög óvenjuleg. Langflest veik karlkynsorð, þ.e. orð sem enda á -i í nefnifalli eintölu, fá endinguna -ar í nefnifalli fleirtölu, og -a í þolfalli – orð eins og hani hanar, viti vitar, risi risar, hali halar, angi angar, dóni dónar, biti bitar, gumi gumar o.s.frv. Undantekningar frá því eru einkum orð sem enda á -andi og upphaflega eru lýsingarháttur nútíðar af sögn, svo sem eigandi eigendur, nemandi nemendur, lesandi lesendur o.s.frv. – þau orð fá -ur bæði í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Við það bætast þrjú orð sem hafa -nd- í stofni og eru í raun styttar lýsingarháttarmyndir – fjandi (fíandi, af sögninni fjá), frændi (fríandi, af sögninni fría) og bóndi (búandi, af sögninni búa).

Orðin með -andi- eru allstór hópur sem sker sig úr og hafa enga tilhneigingu til að breyta um beygingu svo að ég viti. Öðru máli gegnir um bóndi, fjandi og frændi. Vegna þess að þau hafa styst og innihalda ekki lengur -and- tengja málnotendur þau ekki lengur við þann hóp heldur hafa tilhneigingu til að meðhöndla þau eins og hver önnur veik karlkynsorð – láta þau hafa -ar í nefnifalli fleirtölu, og -a í þolfalli. Þetta á einkum við um orðið fjandi – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er bæði gefin fleirtalan fjendur um fjendur og fjandar um fjanda, og í athugasemd segir: „Fleirtalan fjendur er notuð í merkingunni 'óvinur' en fjandar fremur um púka eða drýsla.“ Myndin fjandar var þó einnig oft notuð í merkingunni 'óvinir' áður fyrr.

En orðin bóndi og frændi hafa einnig tilhneigingu til að laga sig að venjulegu beygingarmynstri veikra karlkynsorða og verða bóndar og frændar í nefnifalli fleirtölu – bónda og frænda í þolfalli. Fáein dæmi eru um hvort tveggja á tímarit.is en nokkru fleiri í Risamálheildinni, einkum af samfélagsmiðlum. Ég held samt að það sé oft einhver merkingarmunur á þessum myndum og þeim venjulegu. Fleirtalan bóndar er aðallega notuð í tengslum við bóndadaginn, þ.e. í merkingunni 'eiginmenn' frekar en í vísun til atvinnu. Fleirtalan frændar virðist helst koma fyrir í sambandinu frænkur og frændar og er e.t.v. fremur notuð þar sem áherslan er á einstaklingana fremur en skyldleikann þótt erfitt sé að átta sig almennilega á notkuninni.

Það er sem sé einföld og eðlileg skýring á því hvers vegna myndir eins og fjandar, bóndar og frændar koma upp sem aðlögun að almennu beygingarmynstri veikra karlkynsorða. Varðandi orðið bóndi sérstaklega skiptir máli að í tengslum við bóndadaginn hefur það sérstaka merkingu sem skiljanlegt er að málnotendur tengi ekki endilega við aðalmerkingu orðsins heldur meðhöndli sem sérstakt orð með sína eigin beygingu. Svo er annað mál hvaða skoðun við höfum á þessari breytingu – er þetta eitthvað verra en þegar bóndum og bónda varð bændum og bænda? Okkur finnst öllum að orð eigi að halda áfram að beygjast eins og þau beygðust þegar við lærðum þau, og það er eðlilegt – en þessi breyting er smávægileg og sárasaklaus.

Tengdasystir

Í frétt á vefmiðli í dag sagði: „Fyrrverandi tengdasystir Hegseths steig fram á mánudaginn.“ Þarna er orðið tengdasystir notað sem samsvörun við sister-in-law á ensku, en í íslensku er venja að nota orðið mágkona í þessari merkingu. Eins og ég geri stundum skrifaði ég viðkomandi blaðamanni og benti á þetta – fékk þakkir fyrir eins og nær undantekningarlaust, og þessu hefur nú verið breytt. En þótt mágkona sé vissulega hefðbundna orðið og gamalt í málinu er tengdasystir ekki einsdæmi. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Norðanfara 1866: „tengdasystir mín, ekkju-húsfrú Hólmfríður Sæmundsdóttir á Þernumýri.“ Í Þjóðólfi 1869 segir: „Enn fremur komu inn á skipinu […] og fröken Bertelsen, tengdasystir Krügers lyfsala.“

Alls eru tæp 360 dæmi um tengdasystir á tímarit.is, meginhlutinn úr vesturíslensku blöðunum sem bendir til þess að notkun orðsins megi oft rekja til enskra áhrifa. Orðið tengdabróðir er einnig til. Í Þjóðólfi 1866 segir: „Tengdabróðir minn elskulegr herra prófastr Th. E. Hjálmarsen í Hítardal.“ Dæmin um það orð á tímarit.is eru alls 560 og eins og með tengdasystir er meginhluti þeirra úr vesturíslensku blöðunum. Bæði orðin eru gefin athugasemdalaust í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Risamálheildinni er slæðingur af dæmum um bæði tengdasystir og tengdabróðir, meginhluti þeirra af samfélagsmiðlum sem bendir til þess að notkun þeirra fari vaxandi í óformlegu máli, líklega vegna aukinna enskra áhrifa á orðafar.

En þótt þessa auknu notkun orðanna megi sennilega rekja til ensku er samt engin ástæða til að fordæma þau. Bæði eru gömul í málinu, frá því áður en enskra áhrifa fór að gæta hér að marki. Þau falla fullkomlega inn í kerfi annarra venslaorða – tengdafaðir, tengdamóðir, tengdasonur, tengdadóttir, tengdafeðgar, tengdamæðgur, tengdafjölskylda o.fl. Ef þarf að tala um mága og mágkonur í einu lagi er oft notað orðið tengdasystkini – sem reyndar er ekki í orðabókum. Parið mágur og mágkona er ekki að öllu leyti heppilegt vegna þess að þar er konan skilgreind út frá karlinum ef svo má segja ('mágur sem er kona' var skilgreiningin á mágkona í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar). Þótt mágkona sé hefðbundna orðið eru engin málspjöll að tengdasystir.

Hrafnadís

Í nýjum úrskurði Mannanafnanefndar er nafninu Hrafnadís hafnað á tvennum forsendum – annars vegar sé það „afbökun á eiginnafninu Hrafndís“ og hins vegar fari það „í bág við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna“, þ.e. „þeirri meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns“. Þetta er mjög sérkennilegur úrskurður sem ég get ekki kallað annað en rugl. Í samsettum orðum getur fyrri liður ýmist verið stofn, eins og í Hrafndís, eða eignarfall – annaðhvort eintölu eða fleirtölu. Þetta eru jafngildar orðmyndunaraðferðir og fjölmörg dæmi eru um hliðstæðar tvímyndir þar sem fráleitt er að kalla aðra „afbökun“ af hinni. Fjöldi margs kyns tvímynda af mannanöfnum er líka til.

Ég kannast ekki heldur við að einhverjar sérstakar reglur gildi um mannanöfn sem banni að fyrri liður þeirra sé í eignarfalli fleirtölu. Sú „regla“ er bara tilbúningur nefndarinnar og mér finnst hún fara langt út fyrir öll eðlileg mörk í túlkun sinni á því hvað „brjóti í bág við íslenskt málkerfi“ enda eru vissulega til nöfn á mannanafnaskrá þar sem fyrri liður er í eignarfalli fleirtölu, svo sem Eyjalín, Rósalind, Alparós og Reykjalín og til dæmis. Tvö síðarnefndu nöfnin hafa m.a.s. verið samþykkt sérstaklega af Mannanafnanefnd án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar við myndun þeirra. Það er löngu kominn tími á að breyta lögum um mannanöfn og verður að vona að nýr dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp að nýjum lögum hið fyrsta.

Að fatta upp á kókómjólkinni

Hér hefur áður verið skrifað um tökusögnina fatta sem hefur verið notuð í óformlegu máli síðan snemma á tuttugustu öld. En sambandið fatta upp á er miklu yngra og ekki komið í orðabækur – elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er fyrirsögn í NT 1984: „Hann hét Kolli sem fattaði upp á þessu.“ Í DV 1984 segir: „Einu sinni hélt ég nefnilega að ég hefði fyrstur fattað upp á því að pissa standandi.“ Í Degi 1987 segir: „Það voru eiginlega Jakob, Sara og nokkrir í viðbót sem föttuðu upp á þessu.“ Í Degi 1988 segir: „Svo einfalt raunar að maður furðar sig á því að maður hafi ekki sjálfur fattað upp á þessu.“ Um 90 dæmi eru um sambandið á tímarit.is en í Risamálheildinni eru tæp 400 dæmi um það, öll nema 50 af samfélagsmiðlum.

Ekki hugnast öllum þetta samband, og í Málvöndunarþættinum var í gær verið að amast við því að þáttastjórnandi á Bylgjunni hefði sagt „Hann fattaði upp á kókómjólkinni“. Þátttakendum í umræðunni fannst þetta óboðlegt og töldu það „barnamál“, og sama athugasemd er oft gerð í dæmum úr formlegu máli: „Allavega var það einhver frægur maður sem nú er löngu dauður sem „fattaði upp á þessu,“ eins og börnin segja“ segir í Skessuhorni 2008; „Efnahagslegu fyrirvararnir sem við þingmenn sem hér störfuðum í sumar vorum svo stolt af að hafa „fattað upp á“, eins og börnin segja“ var t.d. sagt í ræðu á Alþingi 2009; „Sniðugt hjá þeim að hafa fattað upp á þessu, eins og krakkarnir segja“ segir á vef Ríkisútvarpsins 2020.

Sögnin fatta er merkt „óformlegt“ í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'skilja (e-ð)', en 'skilja, botna í' í Íslenskri orðabók. Þótt þessar skýringar séu ekki rangar eru þær ófullnægjandi – oft væri 'átta sig á' heppilegri skýring. Í fatta felst nefnilega oft að skilningurinn komi skyndilega frekar en smátt og smátt. Þetta kemur skýrast fram í sambandinu vera að fatta. „Ég var að fatta að mig vantar alveg trampólín“ segir t.d. í Fréttablaðinu 2007 – hér væri hægt að segja ég var að átta mig á að mig vantar alveg trampólín en alls ekki *ég var að skilja að mig vantar alveg trampólín. Sama máli gegnir með „Fólk er að fatta hvað við erum að segja“ í Vísi 2013, „Ég er að fatta að ég er bara þó nokkur listamaður í mér“ í DV 2019, og ótal fleiri dæmi.

Sambandið fatta upp á má reyna að skýra sem 'finna upp' en það samband nær þó ekki merkingunni alveg. Það virðist nefnilega oftast vísa til útkomu úr einhverju ferli eins og kemur fram í skýringunni 'upphugsa e-ð' í Íslenskri orðabók. Þar að auki vísar það fremur til einhvers áþreifanlegs hlutar eða tækis – 'búa e-ð til sem ekki hefur verið til áður' segir í Íslenskri orðabók. Aftur á móti vísar fatta upp á ekki síður til einhvers óáþreifanlegs, eins og dæmin hér að framan sýna, og mér finnst það líka vísa fremur til skyndilegrar hugdettu eða hugljómunar en til útkomu úr löngu ferli. Það stemmir einmitt við þá merkingu í sögninni fatta sem lýst er hér að framan – eitthvað sem gerist skyndilega frekar en eitthvað sem kemur smátt og smátt.

Þótt sögnin fatta sé óumdeilanlega komin úr dönsku virðist sambandið fatta upp á vera íslensk nýsmíði – í dönsku er sagt hitte på eða finde på í sömu merkingu en ekki *fatte på. Það er vel trúlegt að sambandið sé upprunnið í máli barna eins og oft er haldið fram, en það er a.m.k. fjörutíu ára gamalt og fyrstu notendurnir því komnir á miðjan aldur eða eldri og nota það sumir hverjir enn – varla eru það eintóm börn sem nota það athugasemdalaust á samfélagsmiðlum. Vissulega sýnir hlutfallslega mikil notkun þess þar að það er að verulegu leyti bundið við óformlegt mál enn sem komið er, en dæmum í formlegu máli virðist þó fara smátt og smátt fjölgandi. Mér finnst þetta gagnlegt samband sem engin ástæða er til að amast við.

Græna gímaldið

Fátt ber hærra í samfélagsumræðunni þessa dagana en risastórt vöruhús sem verið er að byggja við Álfabakka. Þetta hús hefur í fréttum iðulega verið nefnt græna gímaldið en hér var áðan bent á að gímald væri ekki rétta orðið þarna. Upphaflega merkir það 'vítt gap, stórt ílát eða vistarvera' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók og er skylt orðunum geimur og gína, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'mjög stórt (hátt og vítt) rými, t.d. salur e.þ.h.'. Það er ljóst af þessu að orðið vísar til innri gerðar rýmisins. Við myndum t.d. tæplega tala um Hörpu eða Kringluna sem gímöld þótt þau hús séu mjög stór, vegna þess að þau skiptast í fjölda minni rýma. Hins vegar væri hugsanlegt að tala um einhver þeirra rýma, t.d. Eldborg, sem gímöld.

Það virðist ljóst af fréttum að margs konar starfsemi á að fara fram í vöruhúsinu við Álfabakka og því líklegt að því verði skipt í nokkur rými. Ég veit ekki hvort það hefur þegar verið gert, enda skiptir það ekki máli vegna þess að greinilegt er að í allri umfjöllun er verið að vísa til ytra umfangs hússins en ekki innri gerðar. Ein ástæðan fyrir því að gímald hefur verið notað um húsið er e.t.v. sú að orðið hefur á sér frekar neikvæðan blæ og hæfir því viðhorfinu til hússins. En hægt væri að finna önnur neikvæð orð sem vísa til ytra umfangs og ættu því betur við, t.d. ferlíki. Líklega er samt komin hefð á að tala um græna gímaldið enda stuðlar það og festist því vel í minni. Það eru svo sem lítil málspjöll en samt rétt að hafa hefðbundna merkingu í huga.

Hvers kyns er ökumaður?

Töluverð umræða hefur spunnist hér af pistli mínum um íþróttamann ársins eins og oft vill verða þegar kynjað orðfæri ber á góma. Einn þátttakenda í umræðunni benti á fyrr í dag að ökumaður bifreiðar „þarf ekki að vera karl“ og „afar fáir myndu taka þannig til orða að „ökukona Toyotunnar virti ekki biðskyldu á gatnamótunum““. Það er alveg rétt að lítil hefð er fyrir orðinu ökukona þótt það sé sannarlega til í málinu – á tímarit.is eru tæp fjörutíu dæmi um það, hið elsta frá 1913. En þótt ökumaður sé vissulega orðið sem er venjulega notað í vísun til allra kynja táknar það ekki að orðið sé fullkomlega kynhlutlaust – a.m.k. sé ég yfirleitt fyrir mér karlmann þegar það er nefnt. Og notkun orðsins í textum sýnir að ég er ekki einn um það.

Á tímarit.is eru samtals 43 dæmi um orðasamböndin ökumaður(inn) (sem) var kona / kvenmaður og í Risamálheildinni eru samtals 22 dæmi um þessi sambönd. Aftur á móti eru aðeins sex dæmi um ökumaður(inn) (sem) var karl(maður) á tímarit.is og jafnmörg í Risamálheildinni. Það er sem sé margfalt algengara að tilgreina kyn ökumanns ef um konu er að ræða en ef karlmaður ekur. Líklegasta skýringin sem ég sé á því er sú að í huga margra málnotenda sé það sjálfgefið að ökumaður sé karlkyns og þess vegna þurfi venjulega ekki að taka það fram. Þegar kona er ökumaður er það frávik frá norminu og þess vegna frekar tekið fram. Þetta bendir til þess að orðið ökumaður sé fjarri því að vera kynhlutlaust í huga fólks.

Einhverjum gæti reyndar dottið í hug að þessi munur hefði ekkert með orðið ökumaður að gera, heldur stafaði einfaldlega af því að karlar ækju bílum mun meira en konur. Frávikið frá norminu sem ylli því að kynið væri tekið fram fælist þá í því að kona væri að aka, ekki í því að orðið ökumaður vísaði til konu. Þetta er vissulega hugsanlegt, en þá ætti sami munur að koma fram í öðrum orðum sömu merkingar, eins og bílstjóri. Um samböndin bílstjóri(nn) (sem) var kona / kvenmaður eru samtals tíu dæmi á tímarit.is og í Risamálheildinni – um bílstjóri(nn) (sem) var karl(maður) eru þrjú dæmi á tímarit.is en ekkert í Risamálheildinni. Tölurnar eru vissulega lágar en munurinn er miklu minni, og einnig rétt að hafa í huga að -stjóri er karlkynsorð.

Ég er nokkuð viss um að svipaðar niðurstöður fengjust við athugun á ýmsum samsetningum af -maður. En ég legg samt áherslu á að ég er ekki að leggja til að orðinu ökumaður verði ýtt til hliðar og kynhlutlaust orð fundið í stað þess, og ég er ekki heldur að leggja til að ökumaður verði framvegis eingöngu notað um karlmenn en lífi verði blásið í orðið ökukona og það notað í stað ökumaður um konur sem aka bílum. Ég er bara að benda á að sú tilfinning margra að orðið maður og samsetningar af því hafi sérstök tengsl við karla í huga málnotenda er ekki ímyndun eða uppspuni heldur birtist hún áþreifanlega í málnotkun fólks. Andstaða við notkun þessara orða í almennri vísun er því skiljanleg, en engin einföld leið til breytinga er í augsýn.

Fámennur kúastofn

Um daginn var hér spurt hvort til væri lýsingarorð sambærilegt við fámennur „sem nær yfir aðrar tegundir en mannskepnuna?“. Fyrirspyrjanda fannst til dæmis fámennur kúastofn ekki hljóma gáfulega, enda er rótin -menn- í seinni hluta orðsins sú sama og í orðinu maður og fámennur er skýrt 'með fáu fólki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það má samt finna dæmi um að fámennur stofn sé notað um annað en fólk. Í Þjóðviljanum 1965 segir t.d.: „þó þykir það alltaf nokkrum tíðindum sæta ef ernir sjást utan varpstöðvanna sökum þess hve fámennur stofninn er orðinn.“ Í Degi 1994 segir: „Ríkið veitir geitaeigendum styrk til að halda um 200 geitur í landinu en skyldleikaræktun skapar vandamál í svo fámennum stofni.“

Þótt þessi dæmi hljómi kannski óeðlilega í eyrum flestra eru þau í raun hliðstæð þeirri þróun sem hefur orðið í fjölda samsettra orða sem hafa slitnað að meira eða minna leyti frá uppruna sínum. Hér hefur oft verið tekið dæmi af orðinu eldhús sem er ekki lengur sérstakt hús (og oft ekki einu sinni sérstakt herbergi) og þar sem yfirleitt brennur ekki lengur eldur – orðið merkir bara 'staður þar sem matseld fer fram'. Það má alveg hugsa sér og er ekki ólíklegt að fámennur fari smátt og smátt að merkja 'með fáum einstaklingum' í stað 'með fáu fólki' og þessir einstaklingar geti verið bæði fólk og dýr, og jafnvel hlutir. Slík þróun væri hvorki einsdæmi né óeðlileg á nokkurn hátt, heldur dæmigerð fyrir það hvernig merking orða breytist iðulega.

Í umræðum var nefnt að hugsanlegt væri að tala um fáliðaðan kúastofn og þótt fáliðaður sé vissulega skýrt 'sem hefur fáa menn‘' í Íslenskri nútímamálsorðabók eru þess mörg dæmi að talað sé um fáliðaðan stofn ýmissa dýrategunda. Í umræðu um rjúpuna í Samvinnunni 1948 segir t.d. „sjálfsagt að vernda þann fáliðaða stofn, sem eftir var“. Í Tímanum 1950 segir um sama efni: „við vildum stuðla að því, að sá fáliðaði stofn, sem eftir var, fengi að vaxa upp sem fyrst.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Lífið í þýzku skógunum varð þessum fáliðaða stofni þvottabjarna sannkölluð paradís.“ Í Náttúrufræðingnum 2013 segir: „Skýringin á því er líklega nátengd fátæklegri fánu og tiltölulega fáliðuðum stofnum villtra spendýra.“

Í fornu máli eru orðin fámennur og fáliðaður ekki notuð um hópa, heldur um konunga eða aðra höfðingja og vísa til herafla þeirra – „Hergeir konungur var fáliðaður“ segir t.d. í einu handriti Hálfdanar sögu Eysteinssonar en í öðru handriti segir „Hergeir konungur var fámennur“. Það er ljóst að fáliðaður er komið lengra frá uppruna sínum en fámennur en síðarnefnda orðið er þó farið að fjarlægjast upprunann nokkuð ef vel er að gáð. Það er t.d. mjög algengt að tala um fámennan hóp fólks eða fámennan hóp manna en í raun og veru ætti fámennan hóp að vera nóg ef merkingin 'maður' er innifalin í fámennur. Tíðni sambandanna fámennur hópur fólks / manna bendir til þess að tengslin við maður séu eitthvað farin að dofna í huga málnotenda.