Aukum íslenskuna í málumhverfinu!

Það sem Freyja Birgisdóttir segir í frétt Morgunblaðsins í dag er hárrétt og samræmist algerlega því sem ég hef oft skrifað um. „Lestr­aráhugi er ekk­ert sér­stak­lega mik­ill á meðal ungs fólks í dag. Þetta er bara sam­keppni um tíma og þau velja lang­flest að gera eitt­hvað annað í frí­tíma sín­um en að lesa [...] Orðaforði ís­lenskra nem­enda er að minnka ein­fald­lega af því að þau lesa minna og það er svo mikið af ensku í um­hverfi þeirra. Þannig að ef við ber­um okk­ur sam­an við önn­ur lönd, þar sem finna má stærri mál­sam­fé­lög, þá er þeirra móður­mál miklu meira í þeirra umhverfi en hjá okk­ar börn­um, þetta er bara staðreynd.“ Vegna smæðar málsamfélagsins hefur utanaðkomandi þrýstingur, aðallega frá ensku, meiri áhrif á íslensku en tungumál stærri málsamfélaga.

En það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er samt ekki of mikil enska í málumhverfi barna og unglinga, heldur of lítil íslenska. Auðvitað má segja að það komi út á eitt hvernig þetta er sett fram – því meiri sem enskan er, þeim mun minna rúm er fyrir íslenskuna. En þetta skiptir máli fyrir það hvernig brugðist er við vandanum. Við eigum ekki að hugsa um hvernig við getum dregið úr enskunni í málumhverfinu, heldur hvernig við getum aukið íslenskuna – og þá minnka áhrif enskunnar sjálfkrafa. Meginatriðið er að átta sig á því að þetta er samkeppni um tíma eins og Freyja segir. Við þurfum að komast að því í hvað börn og unglingar verja tíma sínum, og finna svo uppbyggjandi leiðir til að fylla þann tíma af íslensku. Strax.

Ég er að labba labba labba

Í fyrradag var hér spurt hvenær það hefði verið „þegar Íslendingar hættu að ganga og byrjuðu að labba“. Ég eyddi raunar þeirri færslu vegna þess að hún er ekki í anda hópsins (gefur sér rangar forsendur og er til þess fallin að kalla fram vandlætingu). En vegna þess að athugasemdir hafa iðulega verið gerðar við notkun sagnarinnar labba, bæði hér og þó einkum í Málvöndunarþættinum, fannst mér ástæða til að líta betur á hana. Athugasemdirnar eru einkum af þrennum toga: Í fyrsta lagi að sögnin sé ofnotuð á kostnað ganga og annarra sagna svipaðrar merkingar, í öðru lagi að sögnin sé oft notuð í formlegu máli þar sem hún eigi ekki við, og í þriðja lagi að labba eigi eingöngu að nota um dýr en ekki um fólk. Allt er þetta umdeilanlegt.

Í Íslenskri orðsifjabók er sögnin skýrð 'rölta, ganga', í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð 'ganga' og 'ganga hægt, rölta', og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'ganga rólega'. Hvergi er minnst á að hún eigi frekar við um dýr en fólk og í öllum elstu dæmunum er vísað til fólks en ekki til dýra. Ég held að þetta hljóti að vera misskilningur sem stafar sennilega af því að labba er oft talin frekar óformleg sögn – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin ekki bara 'ganga hægt' heldur einnig 'fara fótgangandi' sem merkt er „(pop.), þ.e. 'alþýðumál' eða 'talmál'“. Fólk virðist tengja sögnina við önnur óformleg orð sem oft eru sögð eiga einkum við um dýr, eins og nafnorðin löpp og haus og sögnin éta.

Elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um sögnina er í Íslenskum fornkvæðum frá seinni hluta 17. aldar. Hún kemur fyrir í kvæðinu „Flösku-kveðjur“ eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld: „Makinn labbar lotinn / landa sína hvetr.“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Þjóðólfi 1849: „það væri miklu skynsamlegra fyrir oss bændur, að drepa hesta vora heima, heldur en að fara með þá suður í Reykjavík […] og eiga svo að labba austur yfir fjall í þokkabót.“ Einnig kemur sögnin fyrir í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen frá 1850: „Sigríður litla varð í fyrsta sinni að labba eptir fjenu fram fjár götur.“ Þrjú dæmi eru um hana í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum frá 1862 og á seinustu áratugum 19. aldar verður hún algeng og er enn að sækja í sig veðrið.

Í dæmum frá 19. öld virðist merkingin yfirleitt vera 'ganga hægt, rölta' en ekki vera sérstaklega óformleg. E.t.v. hefur hægur gangur þó þótt eitthvað kæruleysislegur og það leitt til þess að sögnin fékk á sig óformlegan blæ, sbr. „pop.“ í Íslensk-danskri orðabók. En önnur ástæða fyrir þeirri tilfinningu margra að sögnin sé óformleg gæti verið hljóðafarið. Orð með löngu bb eru mörg hver gælunöfn, gæluorð eða annars konar styttingar og því í eðli sínu óformleg – Sibba, Tobba, Kobbi, Stebbi; pabbi, nebbi, rebbi; abbó, vibbi; o.s.frv. Önnur hafa á sér einhvers konar neikvæðan eða kæruleysislegan blæ – gubba, rubba, gabba, skrúbba, subba, gribba, lubbi, nabbi o.s.frv. Líklegt er að þessi orð og önnur slík hafi áhrif á tilfinningu margra fyrir labba.

Kringum 1890 fór sögnin að koma fram í afturbeygðri notkun – labba sig. Ekki er alltaf að sjá skýran merkingarmun á labba og labba sig, en því síðarnefnda virðist alltaf fylgja einhver staðar- eða stefnuákvörðun – labba sig burt, labba sig til hennar, labba sig norður, labba sig ofan í bæinn o.s.frv. Ekki er hægt að segja t.d. *ég fór út að labba mig eða *ég labbaði mig lengi. Um 1930 fara svo að sjást dæmi um þágufall í stað þolfallsins – labba sér. Enginn merkingarmunur virðist vera á þolfalli og þágufalli í þessu sambandi. Afturbeygð notkun sambandsins virðist hafa náð hámarki kringum 1970 og farið smátt og smátt minnkandi síðan. Þolfallið hefur alla tíð verið mun algengara en þágufallið hefur þó mjög sótt á í seinni tíð.

Því er stundum haldið fram að labba sé að teygja sig inn á svið annarra sagna, einkum ganga, og vel má vera að labba sé nú notuð í samböndum þar sem sumum fyndist eðlilegra að nota ganga. Ég hef t.d. séð vísað til þess að nú sé meira að segja talað um að labba á fjöll. Það er alveg rétt – en það merkir ekki alveg sama og ganga á fjöll, heldur er frekar notað um tómstundagaman: „margir í þessari stétt gera það sér til gamans að setja saman lausavísur, líta í bók, labba á fjöll og renna fyrir fisk“ segir t.d. í DV 1987. Tæpast er talað umlabba á Everest. En dæmum um labba á tímarit.is hefur vissulega fjölgað verulega á þessari öld og það er auðvitað smekksatriði hvort hún sé ofnotuð. Notkun hennar truflar mig a.m.k. ekki.

Frosið typpi

Ein helsta hættan sem þýðendur þurfa að varast eru svokallaðir falsvinir (false friends á ensku, faux amis á frönsku) – falsvinur er „orð sem hefur aðra merkingu í erlendu máli en búast má við miðað við merkingu sams konar orðs í öðru máli“ eins og segir í Íslenskri orðabók. Þýðingarvillur sem rekja má til falsvina sjást stundum í erlendum fréttum fjölmiðla – þar er fólk sem er ekki endilega vanir þýðendur að vinna undir tímapressu og þá er hætta á að gripið sé til orða sem svipar til orðanna í frumtextanum án þess að hugað sé að því að merkingin gæti verið önnur. Eitt slíkt dæmi sá ég á vefmiðli í dag: „Typpið á mér er frosið […]. Ég þurfti að liggja inni í hitakompunni í tíu mínútur til þess að hita það. Þetta er ótrúlega vont.“

Í fréttinni er vitnað í sænska blaðið Expressen þar sem segir: „Den svenske skidstjärnan förfrös sitt könsorgan.“ Þetta dæmi er ekki það fyrsta af þessu tagi – í fyrra sá ég fyrirsögnina „Typpi skíðagarps fraus í annað sinn á einu ári“. Þar er vitnað í færslu á Twitter þar sem segir: „Finnish skier's penis froze in the middle of the competition.“ En í báðum tilvikum eru það falsvinir sem hafa leitt þýðendur fréttanna á villigötur. Orðið frosið er hvorugkyn lýsingarháttar þátíðar af sögninni frjósa sem merkir 'kólna niður fyrir frostmark' – 'harðna af völdum frosts og kulda, breytast í ís' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Ef einhver líkamshluti frýs dugir ekki að hita hann upp – honum verður ekki bjargað, hann er kalinn og stórskemmdur eða dauður.

Falsvinirnir sem um ræðir eru sænska sögnin förfrysa og enski lýsingarhátturinn frozen sem vissulega eru af sama uppruna og frjósa og frosinn á íslensku. En sögnin förfrysa merkir þó ekki 'frjósa' í þessu samhengi, heldur „om person l. djur (äv. om kroppsdel): i högre grad förlora kroppsvärmen på grund av kyla, bliva fördärvad l. skadad av köld“ – þ.e. 'um fólk eða dýr (einnig um líkamshluta): að glata líkamshitanum að verulegu leyti vegna kælingar, eyðileggjast eða skaðast af kulda'. Enski lýsingarhátturinn frozen merkir ekki heldur sama og frosinn þegar hann er notaður um fólk: „If a person, or a part of their body is frozen, they are, or it is, very cold“ – þ.e., ‚'ef mannvera eða hluti líkama hennar er frozen er hún eða hann mjög köld'.

Ég hef talað hér eins og það séu ótvíræðar villur að þýða förfrysa sem frjósa og frozen sem frosinn – mistök sem þýðendur fréttanna hafi gert vegna þess að þeir hafi ekki kynnt sér merkingu erlendu orðanna heldur gefið sér að þau merktu það sama og samsvarandi íslensk orð. En annar möguleiki er reyndar sá að merking orðanna í íslensku sé að breytast (væntanlega þá fyrir áhrif frá ensku) – að frjósa og frosinn hafi ekki endilega þá merkingu núorðið að 'kólna niður fyrir frostmark', heldur geti merkt 'verða mjög kalt' í máli sumra. Í því tilviki gætu þýðendurnir hafa verið að nota orðin í samræmi við eigin skilning á þeim. Það er annars konar frávik frá hefðbundnu máli en beinar þýðingarvillur – en kannski ekki endilega betra.

Munuð atriði og vitaðir hlutir

Í gær var hér spurt hvernig ætti að nota sögnina muna í þolmynd – „ef munað er eftir einhverjum atriðum, eru þau þá munuð atriði, mund atriði … eða hvað eru þau?“. Þetta er ágæt spurning og skiljanleg – í þolmynd er notaður lýsingarháttur þátíðar en sú beygingarmynd er ekki gefin upp fyrir muna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Stundum er því haldið fram að ekki sé hægt að mynda þolmynd af núþálegum sögnum, en muna er ein af þeim ásamt eiga, mega, unna, kunna, munu, skulu, vilja, vita og þurfa, og Beygingarlýsingin gefur ekki upp lýsingarhátt þátíðar af neinni þessara sagna en viljaður og vitaður eru þar sem lýsingarorð. Samt er ljóst að sumar þeirra eru notaðar í lýsingarhætti þátíðar og geta staðið í þolmynd, a.m.k. muna og vita.

Dæmið sem spurt var um, munuð atriði, kemur einmitt fyrir í Menntamálum 1955, og slæðingur er af öðrum dæmum um lýsingarháttinn í ýmsum myndum. „Þau verk hans verða lengi munuð og verða metin honum til lofs“ sagði Bjarni Benediktsson og „Þessi málflutningur verður munaður“ sagði Gylfi Þ. Gíslason, báðir í ræðum á Alþingi 1949. Í Alþýðublaðinu 1949 segir: „Sú gjöf mun lengi munuð verða.“ Í Verkamanninum 1960 segir: „Sögurnar í Góðu fólki og fleiri sögur Einars Kristjánssonar verða lengi munaðar og lesnar.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Hann er einn þeirra manna, sem verða munaðir.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „Á grundvelli þessa, skiptir Freud hverjum draumi í tvo þætti: í fyrsta lagi er um að ræða hinn munaða draum.“

Lýsingarhátturinn vitaður er gefinn í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók í merkingunni 'kunnur'. Um hann er töluvert af dæmum frá ýmsum tímum. Í Vísi 1912 segir: „Það er vitaður hlutur, að þeir menn, sem nefndir eru í 11. gr., hafa eigi fjármagn til að reka slíkt fyrirtæki.“ Í Alþýðumanninum 1934 segir: „Sé verklýðsfélagið ekki í Alþýðusambandinu, er ósigur þess vitaður fyrirfram.“ Í NT 1984 segir: „Þegar maður deyr fer forgörðum brot vísdóms sem var aldrei áður vitaður og verður aldrei vitaður aftur.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Nánari upplýsingar um tildrög slyssins eru ekki vitaðar.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Hún segir uppruna svetts ekki vitaðan með vissu.“

Í mörgum dæmanna hefur lýsingarhátturinn líklega setningarhlutverk lýsingarorðs en þó eru nokkur dæmi um ótvíræða þolmynd með af-lið. Í Fálkanum 1932 segir: „Lögin, sem mest ber á í myndinni eru einkar skemtileg og verða sjálfsagt munuð af þeim, sem heyra hana.“ Í Austurlandi 1967 segir: „Afstaða Jónasar Péturssonar til þessa máls verður ábyggilega munuð af Norðfirðingum og fleiri Austfirðingum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1970 segir: „En þessi hrottaskapur var vitaður af mörgum sjófarendum.“ Í Skírni 1955 segir: „Hlutveruleikinn er […] veruleiki, sem á sér tilvist einnig þar, sem hann er ekki „vitaður“ af neinum.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Þessi þáttur æfingarinnar var ekki vitaður af björgunarsveitarmönnum.“

Það er því enginn vafi á að sagnirnar muna og vita eru til í lýsingarhætti þátíðar og af setningum með þeim er stundum hægt að mynda þolmynd. Öðru máli gegnir um aðrar núþálegar sagnir – þær er yfirleitt ekki hægt að nota í þolmynd og Höskuldur Þráinsson hefur t.d. bent á að ekki sé hægt að segja *Bíllinn var áttur af forstjóra ríkisfyrirtækis. Þótt einstöku gömul dæmi um lýsingarhætti megi reyndar finna eins og „í hrepp hverjum voru áttar 3 lögsamkomur“ í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1861, „Hinn fyrsti safnaðarfundur í höfuðstað landsins var áttur 31. júlí um hádegi“ í Norðanfara 1880 og „viljaður hverjum manni betur til að verða þjóð sinni til nytsemdar“ í Ísafold 1894 má fullyrða að þau séu fjarri málkennd fólks nú á tímum.

Rýing, rúning og rúningur

Á föstudagskvöld birtist á vef mbl.is frétt undir fyrirsögninni „Ráðherra rúði íslenska rollu“. Þessi frétt var sett inn í Málvöndunarþáttinn sama kvöld með umsögninni „Rýingin. Vonandi eru rollurnar vel rúnar.“ Út frá þessu má ætla að orðið rýing hafi komið fyrir í fréttinni en það er þar ekki núna, heldur stendur „Ráðherrann birti myndskeið af rúningunni“ og  „þrátt fyrir það gekk rúningin vel“. Vissulega er kvenkynsorðið rúning hið venjulega verknaðarheiti af sögninni rýja – reyndar er orðið einnig notað í karlkyni, rúningur. Fréttinni var breytt morguninn eftir og gera má ráð fyrir að þá hafi verið skipt um orð, e.t.v. vegna athugasemda. En þótt orðið rýing sé vissulega sjaldgæft er það þó til í málinu og á sér langa sögu.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar eru nokkur dæmi um orðið rýing, það elsta frá 1840: „Geldfjársafn til rýingar í 4. og 5. viku sumars.“ Orðið kemur fyrir í Íslenzkum rjettritunarreglum þess mikla málhreinsunarmanns Halldórs Kr. Friðrikssonar frá 1859. Á tímarit.is eru um 30 dæmi um orðið, það elsta í Fjallkonunni 1888: „Það var 5. júní, að fé á Sjöundá var rekið heim til rýingar.“ Í Norðurljósinu 1891 segir: „Vorverk (túnvinna, hirðing eldiviðar, rýing o. fl.) voru búin víðast hvar fyrri hluta þessa mánaðar.“ Í Náttúrufræðingnum 1935 segir: „Undanfarin ár hafa rússneskir vísindamenn gert tilraunir með nýjar aðferðir með rýingu á sauðfé.“ Í Tímanum 1968 segir: „En þessi rýing var og mun vera lögvernduð, og jafn árvís og rýing sauðfjár.“

Orðið rýing er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, merkt „ASkaft“. Nokkur dæmi frá fyrsta hluta 20. aldar eru um orðið í Íslenzkum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar en hann var Austfirðingur. Þetta bendir hvort tveggja til þess að orðið hafi einkum tíðkast austanlands, og meðal yngstu dæma um það á tímarit.is eru tvö dæmi úr austfirska ritinu Múlaþingi frá 2008 og 2011. Orðið er einnig talið upp með orðum mynduðum með viðskeytinu -ing í Die Suffixe im Isländischen eftir Alexander Jóhannesson frá 1927, og það er flettiorð í Íslenskri orðabók og nefnt undir rýja í Íslenskri orðsifjabók. Það er því enginn vafi á að þótt orðið rýing sé sjaldgæft er það fullgilt íslenskt orð sem vel hefði mátt standa áfram í frétt mbl.is.

Þjálfarinn hvíldi þær – þær hvíldu

Á vef Ríkisútvarpsins rakst ég áðan á fyrirsögnina „Sunna og Hildigunnur hvíla gegn Angóla“. Þetta orðalag er alþekkt í íþróttamáli en merking og notkun sagnarinnar hvíla víkur þarna nokkuð frá því sem venja er í almennu máli. Sögnin hefur reyndar tvær meginmerkingar – annars vegar merkir hún 'liggja', annaðhvort í rúmi eða í gröf, og tekur þá venjulega með sér forsetningarlið eða atvikslið – þau hvíldu saman, þau hvíla í Hólavallagarði. En sú merking sem okkur varðar hér er 'láta þreytu líða úr sér/e-m' þar sem sögnin tekur með sér andlag í þolfalli, hvíla sig, hvíla hestinn. Í dæminu sem vitnað var til í upphafi er sögnin hins vegar áhrifslaus – tekur ekki með sér neitt andlag, og ekki heldur forsetningarlið eða atvikslið.

Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun hvíla er í Alþýðublaðinu 1970: „Jón Hjaltalín og Sigurður Einarsson, sem báðir hvíldu í leiknum á móti Japönum voru báðir sendir til að njósna í leik Rússa og Frakka.“ Annars fer þetta ekki að sjást á prenti fyrr en undir 1980: „Fjórir leikmenn hvíla gegn Ísrael“ segir í Dagblaðinu 1979. Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Þeir sem hvíldu í leiknum voru Þorbjörn Guðmundsson og Þorbjörn Jensson, Erlendur Hermannsson og Jens Einarsson“ og í sama blaði sama ár segir: „Kom það nokkuð á óvart að þeir skyldu látnir hvíla í leiknum.“ Á níunda áratugnum verður þessi notkun svo algeng eins og hún er enn – hundruð dæma frá þessari öld eru um hana í Risamálheildinni.

Þessi notkun er ekki nefnd í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók segir að hún sé óformleg og merki 'bíða á varamannabekk' (í knattleikjum) eða 'sitja hjá eina umferð' (um lið á íþróttamóti). En 'bíða á varamannabekk' er ófullnægjandi skýring þótt hún geti stundum átt við, eins og í „Ólafur Stefánsson fær einnig að hvíla síðustu þrettán mínútur leiksins“ í Vísi 2008 og „Ingimundur hvíldi í seinni hálfleik en segist vera algerlega heill heilsu“ í Vísi 2012. Langoftast vísar hvíla nefnilega til þeirra sem taka engan þátt í leiknum, eru ekki á leikskýrslu. Ef hvíla er notuð um lið vísar hún oftast til þess að liðið fái hlé frá keppni frekar en það sitji hjá – „Íslenska liðið hvílir í dag en mætir Dönum á morgun“ segir í Þjóðviljanum 1985.

Þarna er bæði verið að hliðra til merkingu og setningafræðilegum eiginleikum sagnarinnar. Tilgangurinn með því að hvíla leikmenn er ekki fyrst og fremst að 'láta þreytu líða úr' þeim, heldur að gefa þeim hlé og hleypa öðrum að. En sú merking getur líka komið fram þótt sögnin taki andlag, eins og í „Vegna meiðsla hafi hins vegar verið ákveðið að hvíla hann gegn Noregi“ í Fréttablaðinu 2018. Við höfum því pör eins og þjálfarinn hvíldi leikmanninn leikmaðurinn hvíldi. Sögnin hvíla hagar sér þarna eins og t.d. stækka og minnka, í dæmum eins og hún stækkaði íbúðina íbúðin stækkaði, hann minnkaði drykkjuna drykkjan minnkaði. Þetta er skemmtileg nýjung í málinu sem engin ástæða er til annars en viðurkenna í formlegu máli.

Tilhæfulaus árás

Í sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá „tilhæfulausri árás“ á fólk í Dublin. Þetta var tekið upp í Málvöndunarþættinum og sagt: „Meiningin átti sjálfsagt að vera að árásin hefði verið tilefnislaus.“ Það er alveg rétt að venja er að nota lýsingarorðið tilefnislaus fremur en tilhæfulaus í þessu samhengi. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrrnefnda orðið skýrt 'án tilefnis' en það síðarnefnda 'sem byggir ekki á staðreyndum, á ekki við rök að styðjast'. Í raun og veru má því segja að merkingarkjarni beggja orðanna sé sá sami, þ.e. það eru ekki forsendur fyrir því sem um er rætt. Munurinn er sá að tilhæfulaus vísar einungis til mállegra forsendna – orðróms, frásagna, fullyrðinga o.s.frv. – en merkingin í tilefnislaus er mun víðari.

Það er ekki nýtt að þessum orðum sé blandað saman, einkum þannig að tilhæfulaus sé notað í stað tilefnislaus. Elsta dæmi sem ég finn um tilhæfulausa árás er í Austra árið 1900: „þá er mér skylt að benda þér á, að slík tilhæfulaus árás á trúarbrögð manna er algjör óhæfa.“ Alls eru um 60 dæmi um tilhæfulausa árás á tímarit.is, flest frá því eftir 1970 og einkum eftir 1990. Í Risamálheildinni eru dæmin um 70, bæði úr formlegu og óformlegu málsniði. Þessi notkun orðsins fer því greinilega í vöxt. Aftur á móti er sjaldgæft að tilefnislaus sé notað þar sem hefð er fyrir tilhæfulaus þótt finna megi fáein dæmi eins og „Við skiljum ekki hvað liggur að baki svona fréttamennsku, þar sem um algerlega tilefnislausa sögu er að ræða“ í Mjölni 1983.

Auk merkingarlíkindanna sem áður eru nefnd eru vitaskuld mikil orðfræðileg og hljóðfræðileg líkindi með orðunum tilhæfulaus og tilefnislaus og því þarf þessi blöndun ekki að koma á óvart, enda hefur þótt ástæða til að vara við henni í Málfarsbankanum þar sem segir: „Orðið tilhæfulaus merkir: alveg loginn, sem enginn sannleikskjarni er í (Íslensk orðabók). Athuga að rugla ekki saman við orðið tilefnislaus sem merkir: ástæðulaus.“ Eins og hér hefur komið fram er notkun tilhæfulaus í stað tilefnislaus gömul í málinu þótt hún hafi aldrei verið algeng. Hún virðist þó fara vaxandi en er varla orðin svo algeng að rétt sé að líta á hana sem málvenju. Þess vegna er rétt að mæla með því að málnotendur haldi sig við hefðbundinn greinarmun orðanna.

Aukum talsetningu barnaefnis!

Fram yfir miðjan níunda áratug síðustu aldar heyrði það til undantekninga ef leikið erlent efni var sýnt með íslenskri talsetningu í sjónvarpi eða kvikmyndahúsum, hvort sem það var ætlað börnum eða fullorðnum. Erlent barnaefni var yfirleitt sýnt með íslenskum neðanmálstexta sem gagnast ungum börnum vitaskuld lítið. En strax á fyrsta starfsári sínu sumarið 1987 fór Stöð tvö talsetja íslenskt barnaefni. Vorið 1989 var í tengslum við málræktarátak Svavars Gestssonar menntamálaráðherra „gerð áætlun um talsetningu alls barnaefnis í sjónvarpi og stefnt að því að allt barnaefni verði á íslensku“ og um svipað leyti ákvað Ríkisútvarpið að allt efni fyrir börn yngri en tíu ára skyldi talsett, og í lok ársins voru 95% barnaefnis á RÚV orðin talsett.

Kvikmyndahúsin fylgdu svo á eftir. „Enn sem komið er er ekki algengt að sett sé íslenskt tal við bamamyndir en það á örugglega eftir að breytast“ segir í DV 1991 og sú varð raunin – upp úr þessu var farið að talsetja flestar barnamyndir sem sýndar voru í kvikmyndahúsum, svo sem Disney-myndir, og fólk innan við fertugt sem er uppalið á Íslandi hefur því alist upp við talsett barnaefni frá blautu barnsbeini. Lítill vafi er á að þetta hefur haft veruleg jákvæð áhrif á málþroska, málkunnáttu og íslenskan orðaforða þessa fólks, enda hefur talsetningin oftast verið vönduð, á góðu og lipru máli. Flestir foreldrar kannast væntanlega við að börn þeirra grípi upp orð og orðatiltæki úr barnaefni í sjónvarpi og bregði fyrir sig í tíma og ótíma.

En nú eru blikur á lofti. Mér skilst að það hafi dregið mjög mikið úr framboði talsettra teiknimynda í íslensku sjónvarpi undanfarin ár og líkur séu á að sú óheillaþróun haldi áfram. Jafnvel sé hugsanlegt að vinsælar þáttaraðir sem hafa verið talsettar verði það ekki áfram þannig að börn sem vilja halda áfram að horfa á þær verið að sætta sig við að horfa á þær á ensku. Þetta er grafalvarlegt mál. Hafi talsetning barnaefnis þótt mikilvæg fyrir 30-35 árum er hún margfalt mikilvægari nú. Ástæðan er sú að efni á ensku, þar á meðal barnaefni, flæðir yfir okkur sem aldrei fyrr, frá erlendum sjónvarpsstöðvum og einkum á netinu. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að til mótvægis sé einnig til vandað efni á íslensku sem hægt er að bjóða börnunum.

Það er hætta á að við verðum sífellt ónæmari fyrir enskunni í umhverfi okkar og hættum að gera kröfur um talsett íslenskt barnaefni – hugsum sem svo að börnin skilji hvort eð er efni á ensku. Íslensk talsetning er líka dýr og í sjálfu sér ekkert undarlegt að þegar harðnar á dalnum hjá fjölmiðlum komi það niður á talsetningunni. Þess vegna verða stjórnvöld að koma hér til og tryggja að metnaðarfullri talsetningu barnaefnis verði haldið áfram og hún aukin. Úr því að hægt er að verja milljörðum króna úr ríkissjóði til að endurgreiða erlendum aðilum kostnað vegna kvikmyndagerðar hlýtur að vera hægt að setja myndarlegar upphæðir í greiðslur til íslenskra sjónvarpsstöðva vegna íslenskrar talsetningar á barnaefni. Íslenskan er í húfi.

Meinlaust?

Það er ástæða til að vekja hér athygli á vitundarvakningunni „Meinlaust?“ sem Jafnréttisstofa hefur staðið fyrir á samfélagsmiðlum síðan í fyrrahaust og er rekin undir merkjunum #meinlaust og @meinlaust. Í fyrsta hluta hennar var sjónum beint að kynbundinni og kynferðislegri áreitni, annar hluti var í samvinnu við Samtökin 78, þriðji hluti var í samvinnu við Þroskahjálp og fjórði og síðasti hluti í samvinnu við félagsskapinn Hennar rödd. Markmið átaksins er að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni sem fólk úr ýmsum jaðarsettum hópum verður fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum hennar. „Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna.“

Orðið öráreitni er þýðing á microaggression í ensku og er komið í nokkra notkun þótt það sé ekki gamalt í málinu. Það er ekki komið inn í almennar orðabækur en var skráð á Nýyrðavef Árnastofnunar 2018. Það virðist fyrst hafa verið skilgreint í BA-ritgerð Emblu Guðrúnardóttur Ágústsdóttur frá 2016 þar sem segir: „Öráreitni er dulin og lúmsk mismunun eða fordómar sem beinast einna helst að jaðarsettum hópum. Með öráreitni er átt við atvik, í samneyti fólks, sem eitt og sér virðast smávægileg (e. micro) en þegar fólk í jaðarsettri stöðu upplifir slík atvik jafnvel oft á dag verða áhrif og afleiðingar þeirra mikil […]. Öráreitni getur birst í orðum, raddblæ, hunsun og viðmóti sem oft reynist erfitt að útskýra og greina nákvæmlega […].“

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að tungumálið er iðulega notað til að beita öráreitni, m.a. orð og raddblær eins og áður segir. Þetta er alls ekki alltaf illa meint – „er jafnvel stundum ætlað sem hrós og eru þau sem láta slíkt út úr sér jafnvel ómeðvituð um afleiðingarnar“. Tungumálið er öflugt valdatæki sem hægt er að beita bæði til góðs og ills og mikilvægt að við séum meðvituð um það hvernig við beitum þessu tæki, ekki síst í samskiptum við fólk úr jaðarsettum hópum. Á heimasíðu átaksins er að finna skýringar á ýmsum orðum og hugtökum sem gagnlegt er að kynna sér og geta forðað okkur frá því að misbeita tungumálinu óafvitandi gagnvart jaðarsettu fólki. Íslenskan á það nefnilega ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.

Seiglíft orð

Í gær var hér spurt hvort fólk kannaðist við lýsingarorðið seiglífur sem kom fyrir í frétt í DV – „Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að sú mýta sé seiglíf að klassísk hönnun kosti mikið“. Fyrirspyrjandi taldi að þarna ætti fremur að standa lífseig, og það er vitaskuld venjulega orðið í þessari merkingu. Í umræðum um orðið var þess getið til að um væri að ræða (lélega) þýðingu úr dönsku, og vissulega er samsvarandi orð þar sejlivet. Þetta gæti virst líkleg tilgáta í ljósi þess að fréttatilkynningin sem DV vitnaði í var frá IKEA í Danmörku og því upphaflega á dönsku. En orðið sejlivet er ekki notað þar í setningu sem samsvarar dæminu úr DV heldur segir: „Der hersker en myte om, at langtidsholdbart design koster rigtig mange penge.“

Þetta útilokar auðvitað ekki að orðið geti hafa komið í íslensku úr dönsku, en það er þá langt síðan. Í umræðum kom nefnilega fram að seiglífur er gamalt orð í málinu – elsta dæmið er í Ísafold 1883: „Röng hugmynd um eigin dugnað er svo seiglíft djöflakyn, að það verður ekki einu sinni út rekið með föstum og bænahaldi.“ Þótt hið venjulega orð lífseigur sé vitanlega gott og gilt, er seiglífur einnig rétt myndað og á sér ýmsar hliðstæður þar sem lýsingarorð er fyrri hluti með -lífur – algeng orð eins og langlífur, skammlífur, skírlífur, hreinlífur og sællífur, en einnig sjaldgæfari orð eins og léttlífur og þunglífur. Auk þess eru til ýmsar samsetningar með -lífur sem hafa fyrri lið úr öðrum orðflokkum – eilífur, gjálífur, hóglífur, saurlífur o.fl.

Það er því ástæðulaust að leita erlendra fyrirmynda að orðinu seiglífur, en vissulega er það sjaldgæft – það er hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók og aðeins 36 dæmi eru um það á tímarit.is og tíu í Risamálheildinni. Það er athyglisvert að dæmin um orðið á tímarit.is dreifast á alla áratugi frá 1883 nema tvo, oftast tvö eða þrjú dæmi á hverjum áratug. Þótt ekki sé hægt að útiloka að orðið hafi upphaflega komið úr dönsku eru litlar líkur á að það gildi um notkun þess síðustu hundrað árin. Hugsanlegt er að orðið hafi verið smíðað aftur og aftur, með orð eins og langlífur að fyrirmynd, en sennilega er þetta fremur dæmi um að sjaldgæf orð geta lifað áratugum og öldum saman í málinu án þess að miklar heimildir geymist um þau.