hnjá(a)

Ég var að lesa textalýsingu á landsleik Íslands og Lettlands á vefmiðli. Þar stóð: „hún hnjár boltann í þverslánna“. Látum vera með slánna, það er alvanalegt og ég hef skrifað um það áður. En það sem ég hnaut um var hnjár sem ég man ekki eftir að hafa séð áður – en er augljóslega sögn miðað við setningafræðilega stöðu, og vel skiljanleg af samhenginu.

Nafnháttur sagnarinnar er væntanlega hnjá. Hins vegar fann ég örfá dæmi á netinu um myndina hnjáar sem ætti að vera af nafnhættinum hnjáa. Báðir nafnhættir gætu vel staðist. Sagnir sem eru gamlar í málinu og hafa á í stofni hafa enga sérstaka nafnháttarendingu, sbr. spá, , , sjá o.fl. Það má skýra með hljóðfræðilegum aðstæðum í málinu fyrir mörgum öldum.

En þær hljóðfræðilegu aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi og þess vegna er eðlilegt að nýjar sagnir sem koma inn í málið og hafa á í stofni bæti við sig nafnháttarendingunni -a. Nafnhátturinn hnjá væri því myndaður með hliðsjón af sögnum sem fyrir eru í málinu, en nafnhátturinn hnjáa út frá þeim reglum sem gilda í nútímamáli. Hvort tveggja er í góðu lagi.

Þótt þessi sögn hafi komið mér spánskt fyrir sjónir sé ég í fljótu bragði ekki annað en hún sé gagnleg viðbót við orðaforða málsins og brjóti engar reglur þess. Hvernig ætti annars að orða það þegar leikmaður notar hnéð til að koma boltanum á ferð eða breyta stefnu hans? Er ekki bara fínt að hafa sérstaka sögn til að tjá þá merkingu frekar en nota einhverja langloku?

Gaman að því

Um daginn skrifaði ég um orðin svoleiðis, svona og þannig og benti á að þótt þau hafi til skamms tíma verið flokkuð sem atviksorð standa þau mjög oft í setningafræðilegri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns). En þetta er ekkert einsdæmi. Orðið gaman er flokkað sem nafnorð í öllum orðabókum, og hagar sér auðvitað oftast eins og venjuleg nafnorð gera. Við segjum ég hafði gaman af þessu eins og ég hafði skemmtun af þessu; lesa sér til gamans eins og lesa sér til skemmtunar; gamanið fór að grána eins og skemmtunin fór að súrna; ég sagði þetta í gamni eins og ég sagði þetta í gríni; o.s.frv. En stundum hagar gaman sér öðruvísi en búast má við af nafnorði.

Á eftir það er … getur komið hvort heldur er nafnorð eða lýsingarorð – við getum sagt það er leikur að lesa og það er gaman að lesa, en líka það er skemmtilegt að lesa. Hér er leikur ótvírætt nafnorð en skemmtilegt ótvírætt lýsingarorð. En ef við látum áhersluorð fylgja kemur í ljós að það er hægt að láta atviksorð standa með gaman, rétt eins og með skemmtilegt – en alls ekki með leikur. Við getum sagt það er mjög gaman að lesa og það er mjög skemmtilegt að lesa, en alls ekki *það er mjög leikur að lesa – það er alveg út í hött. Og sama gildir um önnur atviksorð – það er hægt að segja ákaflega gaman, rosalega gaman, ógeðslega gaman o.s.frv.

Atviksorð standa sem ákvæðisorð með lýsingarorðum en yfirleitt ekki með nafnorðum, og því er að sjá sem gaman hagi sér eins og lýsingarorð í setningum á við það er gaman að lesa. Þá er spurningin: Eigum við að segja að gaman sé alltaf nafnorð en hagi sér stundum eins og lýsingarorð – eða eigum við að segja að gaman sé að upplagi nafnorð en geti líka verið lýsingarorð við ákveðnar aðstæður? Það er ekkert einsdæmi að sama orðið sé talið til mismunandi orðflokka eftir setningafræðilegri stöðu. Forsetningar eru greindar sem atviksorð ef þær missa fallorð sitt, lýsingarháttur þátíðar er sagnmynd en verður oft að lýsingarorði, og fleiri dæmi mætti nefna.

Það er auðvitað ljóst að gaman væri mjög ódæmigert lýsingarorð – það hvorki stigbreytist né beygist í kynjum. Við segjum ekki *gamön (eða *gömun) í kvenkyni og *gamant í hvorugkyni, og ekki heldur *gamnari í miðstigi og *gamnastur í efsta stigi. En þetta væri samt ekki einsdæmi um lýsingarorð. Sama gildir um svoleiðis, svona og þannig ef þau eru greind sem lýsingarorð við vissar aðstæður – en líka um ótvíræð lýsingarorð eins og þau sem enda á sérhljóði, oftast -a (andvaka, samferða o.s.frv.) en líka -i (hugsi, þurfi, og lýsingarhætti nútíðar eins og æpandi).

Við gætum e.t.v. reynt að segja að vegna þess að mjög getur staðið með gaman í það er gaman að lesa sé eðlilegt að greina gaman sem lýsingarorð þar, sem og í öðrum setningum þar sem hægt er að setja skemmtilegt (eða eitthvert annað lýsingarorð) í staðinn. En vandinn er sá að það dugir ekki. Það er nefnilega líka hægt að hafa mjög með gaman í setningum þar sem alls ekki er hægt að setja lýsingarorð í staðinn, eins og ég hef mjög gaman af lestri. Það er útilokað að segja *ég hef mjög skemmtilegt af lestri – hins vegar er hægt að setja nafnorð í staðinn og segja ég hef skemmtun af lestri – en ekki *mjög skemmtun, heldur mikla skemmtun.

Ekki nóg með það. Þótt vissulega sé stundum hægt að setja gaman í stað lýsingarorðs eins og sýnt er hér að framan er það einungis við sérstakar kringumstæður. Við getum sagt þetta er mjög skemmtilegt og þetta er mjög gaman, en bara barnið / blaðið er mjög skemmtilegt, alls ekki *barnið/ blaðið er mjög gaman. Það virðist eingöngu vera hægt að nota gaman í slíkum setningum þegar frumlagið er þess eðlis að sagnfyllingin þarf ekki að samræmast því – en hér er fyrir löngu komið út í alltof flókin og tæknileg atriði fyrir þennan vettvang. Ég hallast samt að því að eðlilegt sé að segja að gaman sé alltaf nafnorð en afbrigðilegt að því leyti að það geti tekið með sér atviksorð sem ákvæðisorð – án þess að það geri það að lýsingarorði.

Ég á ekki von á að mörgum endist þolinmæði til að lesa þessa langloku, og það er í góðu lagi. En tilgangurinn er ekki að leysa neitt vandamál eða svara spurningum, heldur vekja athygli á sérviskulegri hegðun þessa algenga og hversdagslega orðs, gaman. Það leynir á sér.

Frelsi og ábyrgð

Þótt ég fjalli hér oft um málbreytingar af ýmsu tagi án þess að fordæma þær eða kalla þær „rangt mál“ legg ég áherslu á að markmið mitt er alls ekki að ýta undir breytingar eða hvetja til þeirra. Þvert á móti – ég tel af ýmsum ástæðum æskilegt að íslenskan breytist sem minnst, umfram það sem nauðsynlegt er til að koma til móts við margvíslegar nýjungar bæði í efnisheiminum og hugmyndaheimi okkar þannig að hún þjóni samfélaginu og samtímanum sem best.

Á hinn bóginn tel ég ástæðulaust og í mörgum tilvikum til bölvunar, bæði fyrir málnotendur og málið sjálft, að berjast gegn tilbrigðum sem eiga sér jafnvel áratuga eða alda sögu og eru útbreidd meðal málnotenda. Þau eru til og verða ekki barin niður – þrátt fyrir langa og ákafa baráttu í mörgum tilvikum. Ég vil auka skilning á þessum tilbrigðum, reyna að átta mig á og útskýra fyrir öðrum hvernig og hvers vegna þau koma upp, í þeirri von að fólk verði umburðarlyndara gagnvart þeim.

En þótt ég vitni oft í Málfarsbankann og sé iðulega á öndverðum meiði við hann um málfarsatriði finnst mér fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt að slíkur upplýsingabanki sé til, og þar sé gerð grein fyrir því hvað hefur verið talið rétt og viðurkennt mál. Ég er að vísu ekki alltaf sáttur við framsetningu ábendinga í bankanum, en meðan sú skoðun er ríkjandi eða a.m.k. útbreidd að ýmis þekkt tilbrigði eigi ekki heima í formlegu máli þurfa málnotendur að hafa aðgang að upplýsingum um það.

Þegar ég hef verið að útskýra eitthvert tilbrigði sem venja hefur verið að telja „rangt“, og benda á að e.t.v. sé þetta í góðu lagi, hef ég stundum fengið viðbrögð á við „Já, það getur verið, en ég ætla nú ekki að fara að breyta mínu máli“. Auðvitað hvarflar ekki að mér að ætlast til eða gera ráð fyrir að fólk breyti máli sínu eða málkennd. Ég ætlast heldur ekki til að fólk hætti að láta tiltekin atriði í málfari annarra fara í taugarnar á sér – við getum oft lítið að því gert.

Ég vonast hins vegar til að hætt verði að flokka fólk eða dæma eftir málfari, að fólk átti sig á og viðurkenni að lifandi mál er fullt af tilbrigðum af ýmsu tagi, og það er í góðu lagi – og raunar bráðnauðsynlegt til að málið lifi áfram, höfði til málnotenda og þjóni þörfum þeirra. Við þurfum að veita öllum málnotendum hlutdeild í íslenskunni, leyfa þeim að finna að þetta er þeirra mál, sem þeim er frjálst að nota á þann hátt sem þeim finnst eðlilegt.

En jafnframt þurfum við að gera þeim ljóst að frelsinu fylgir ábyrgð, og þeirra er ábyrgðin á að skila málinu áfram.

Síga upp

Í umræðu í Málspjalli á Facebook nýlega var minnst á sögnina síga og athugasemdir sem stundum eru gerðar við við notkun hennar. Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er hægt að tala um að eitthvað „sígi upp á við“, t.d. vextir. Sögnin síga á annaðhvort við hreyfingu niður á við eða áfram.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar sagnarinnar: 'mjakast niður, fara hægt og hægt niður' og 'hafa hæga framvindu'. Samkvæmt þessu ætti hvorki að vera hægt að nota sögnina um hreyfingu upp á við né aftur á bak. Um hvort tveggja eru þó gömul dæmi.

Í grein um Feneyjar í Þjóðólfi 1890 er því lýst „þegar hinir daggvotu turnar, kúlur og turnspírur hægt og hægt koma í ljós fram úr morgunmóðunni, eins og menn sæju þau síga upp úr djúpi sævarins“. Í blaðinu Austra birtist árið 1900 kvæði eftir Matthías Jochumsson, „Ferð upp í Fljótsdalshérað, 1900“. Þar segir: „Þokunni þegar svo brá / að þyrlaðist austur og vestur, / sum bak við fellin, en sum / seig upp í loptið og hvarf.“ Í Morgunblaðinu 1936 segir: „Þá hefur neyzla sjávarafurða einnig sigið upp á við.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Úrvalsvísitalan hefur sigið upp á við eftir mikla niðursveiflu um miðjan október.“

Í Nýja dagblaðinu 1937 segir: „Hann seig aftur á bak, tók síðasta andvarpið og kollsteyptist niður fyrir.“ Í Fróða 1912 segir: „loks fóru þeir að síga aftur úr, þangað til þeir voru orðnir ein 50-60 fet á eftir.“ Í Íslandi 1927 segir: „þeir, sem farið hafa mentabrautina eru alt af meira og meira að síga aftur úr á stjórnmálabrautinni“. Í DV 1994 segir: „33 varpa öndinni léttar þegar Drangey sígur aftur á bak og naumlega er komist hjá slysi.“ Eins og þessi dæmi sýna hefur sögnin síga sannanlega verið notuð um hreyfingu bæði upp á við og aftur á bak, þótt dæmin séu vissulega ekki mörg. Athyglisverðast er dæmið frá séra Matthíasi.

Þegar að er gáð er það reyndar dálítið sérkennilegt ef hægt er að nota síga um hreyfingu niður og áfram, en ekki um hreyfingu upp og til baka. Einhvern veginn fyndist manni eðlilegt að niður og til baka ætti saman, og svo upp og áfram. Ég ímynda mér að þessi sérkennilega pörun geti valdið því að málnotendur hafi tilhneigingu til að líta fram hjá allri stefnumerkingu í sögninni en horfi eingöngu á það að hún vísar ævinlega til hægrar hreyfingar – og noti hana um hæga hreyfingu í hvaða átt sem er. Þannig get ég a.m.k. notað hana – mér finnst ekkert óeðlilegt að segja að gengi eða vextir sígi upp á við.

Eftir sem áður er hreyfing niður á við þó í einhverjum skilningi innbyggð í sögnina – ef hún er notuð ein og sér, án nokkurrar áttatáknunar, vísar hún ævinlega til hægrar hreyfingar niður á við. Gengið hefur sigið getur ekki merkt 'gengið hefur hækkað hægt', og gengissig er ævinlega niður á við. Að þessu leyti má kannski líkja sögninni við haga sér sem ég talaði um nýlega. Ef hún er notuð ein og sér, hagaðu þér, merkir hún 'hagaðu þér vel', en svo er hægt að bæta við atviksorði til að ná fram öfugri merkingu, ég hagaði mér illa. Sama má segja um líka, eins og kom fram í umræðu um haga sérmér líkar þetta merkir 'mér líka þetta vel' en hægt er að ná fram öfugri merkingu með illa.

Húðlitað

Í gær var í Fréttablaðinu fyrirsögnin „Húðlitað vinsælt núna“. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum sem eðlilegt er. Vitanlega gæti húðlitað vísað til hvaða hörundslitar sem væri, eins og það er t.d. skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'með lit sem líkist mannshörundi, ljósu eða dökku eftir atvikum'. En það var ekki merkingin þarna, því að í fréttinni stóð: „Um þessar mundir eru húð- og beislitaðir kjólar vinsælir“. Þar er augljóslega vísað til þess hörundslitar sem er algengastur á Íslandi.

Orðið húðlitaður er ekki mjög gamalt í málinu – elsta dæmið á tímarit.is er frá 1961. Á þeim tíma var merking þess ótvíræð – þá höfðu næstum allir Íslendingar þennan sama hörundslit. En það kemur á óvart að notkun orðsins hefur aukist mjög mikið síðan um aldamót ef marka má tímarit.is – einmitt á sömu árum og fólki með annan hörundslit hefur fjölgað mjög á landinu. (Færri dæmi á öðrum áratug aldarinnar en þeim fyrsta skýrist væntanlega aðallega af því að minna efni er komið inn frá síðustu árum.)

Það er eðlilegt að fólki með annan húðlit sárni að sjá þetta orð notað en vitanlega liggur enginn illur hugur þar að baki, heldur hugsunarleysi. Það getur komið fyrir okkur öll að nota tungumálið á þann hátt að það særi viðmælendur eða lesendur – nota fordómafullt eða útilokandi orðalag sem við höfum alist upp við en er ekki lengur gjaldgengt. Þótt húðlitaður væri ekkert óeðlilegt orð í mínu ungdæmi fyrir 50-60 árum er það í sama flokki og negri, kynvillingur, vangefinn og önnur slík – það er óboðlegt. Frelsi okkar til að nota tungumálið að vild nær ekki til þess að nota það til að meiða annað fólk.

Settust!

Um daginn var ég að spyrja út í boðháttarmyndir eins og settust og fylgdust í stað sestu og fylgstu ­– myndir sem ég þekkti frá Sauðárkróki fyrir hálfri öld. Fleiri hliðstæð dæmi bættust við í umræðunni, svo sem gerðust í stað gerstu. Af þeim svörum sem bárust mátti ráða að slíkar myndir væru helst þekktar á Norðurlandi, en vitanlega þyrfti miklu víðtækari og nákvæmari könnun til að fullyrða eitthvað um útbreiðsluna. Ég ætla þess vegna ekki að segja meira um hana, heldur líta aðeins á gerð og eðli þessara mynda.

Stofn boðháttar er eins og nafnháttur sagna að frádregnu -a (eða -ja, ef nafnhátturinn endar þannig). Boðháttur setja er því set, boðháttur fylgja er fylg, og boðháttur gera er ger. En stofninn er sjaldan eða aldrei notaður einn sér nema í formlegu máli. Þess í stað er bætt við hann -ðu, eins og í gerðu, -du, eins og í fylgdu, eða -tu, eins og í settu. Þetta -ðu/-du/-tu er komið úr annarrar persónu fornafninu þú, og það er gerð (hljóðafar) sagnstofnsins sem ræður því hvert afbrigðið er notað en ástæðulaust að fara út í það hér.

Sagnirnar gera, fylgja og setja eru í miðmynd gerast, fylgjast og setjast. Miðmyndarendingin –st sem bætist við nafnháttinn var áður –sk og er orðin til úr afturbeygða fornafninu sig sem áður var sik. Það er ástæðulaust að rekja þá þróun hér. En þetta þýðir að í boðháttarmyndum eins og gerstu, fylgstu og sestu bætast við stofninn tvær endingar sem báðar eru í raun eins konar leifar sjálfstæðra orða. Samsetning orðanna er því ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu. Þarna „ættu að“ koma saman tvö t en slík sambönd eru óhugsandi í íslensku hljóðkerfi og styttast ævinlega. Útkoman er því gerstu, fylgstu, sestu (ekki *gersttu, fylgsttu, sesttu).

Í myndum eins og gerðust, fylgdust, settust er endingunum tveimur, miðmyndarendingunni og annarrar persónufornafninu, er bætt við stofninn í öfugri röð við það sem venja er. Í stað ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu er röðin ger+ðu+st, fylg+du+st, set+tu+stgerðust, fylgdust, settust. Hvers vegna þessi víxl verða er svo annað mál. Ein ástæða gæti verið sú að miðmyndarendingin er venjulega aftast í orðum, á eftir öðrum endingum – við segjum þetta gerðist (ger+ði+st, ekki *gerstði, ger+st+ði), þau fórust (fór+u+st, ekki *fór+st+u). E.t.v. finnst málnotendum að miðmyndarendingin sé ekki á réttum stað í gerstu, fylgstu og sestu.

Vissulega er boðháttarendingin, leifar annarrar persónufornafnsins, venjulega líka aftast. En ekki geta tvær endingar verið aftast – önnur verður að víkja. Það gæti haft hér áhrif að í venjulegu boðháttarmyndunum gerstu, fylgstu og sestu er ekkert eftir af annarrar persónu fornafninu nema -ut-ið fellur brott vegna þess að það fer á eftir öðru t. Hugsanlega veldur þessi skerðing því að málnotendum finnst boðháttarendingin ekki nógu áberandi og finna leið til að leyfa henni að njóta sín – með því að færa hana fram fyrir miðmyndarendinguna og segja gerðust, fylgdust og settust.

En ekki eru öll kurl komin til grafar. Í umræðu um daginn kom líka fram að til væru boðháttarmyndir eins og settustu. Þar lítur út fyrir að annarrar persónufornafninu sé bætt tvisvar við stofninn – set+tu+st+tu. Ég kann ekki að skýra þetta. Annað sem er vert að nefna eru myndir eins og við hittustum/sáustum í stað hittumst/sáumst o.s.frv. sem áður voru algengar og heyrast oft enn. Þar verða líka víxl á endingum – í stað hitt+um+st kemur hitt+u+st+um (látum liggja á milli hluta af hverju u kemur þarna tvisvar fram).

Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að gera ítarlega úttekt á þessum sérstöku boðháttarmyndum eða skýra þær til fulls, enda er þetta ekki fræðilegur vettvangur. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu og benda enn einu sinni á að það eru ekki endilega rétt viðbrögð að afgreiða frávik frá „réttu“ máli einfaldlega sem „villur“ – skynsamlegra og skemmtilegra er að velta þessum frávikum fyrir sér og skoða hvað þau geta sagt okkur um tungumálið og notendur þess.

Málvillur hinna

Ég hef oft sagt 40 ára gamla sögu af því þegar ég hitti afa heitinn einhvern tíma á námsárum mínum. Hann vissi auðvitað að ég væri í íslenskunámi og fór að ræða við mig um málfar og býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt – t.d. segðu þeir nú mér langarmér vantar og annað eftir því. Ekki mótmælti ég því en spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor „villan“ þætti verri í setningunni Mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni því að hún væri norðlenska en hin sunnlenska. (Hvorug er reyndar landshlutabundin, en það er annað mál.)

Ég er ekki að segja þessa sögu til að gera grín að afa eða gera lítið úr honum á nokkurn hátt – síður en svo. Viðbrögð hans voru fullkomlega eðlileg og dæmigerð fyrir okkur mörg. Okkur finnst ósjálfrátt að sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, hljóti að vera betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust – eða okkur hefur verið kennt – sé rangt. Afi var fæddur rétt fyrir 1900 og þekkti örugglega ekki annað úr uppeldi sínu en hitta læknirinn – á þeim tíma hafði baráttan gegn þessari beygingu ekki náð til almennings. Ég hef lesið fjölda sendibréfa frá afa og úr umhverfi hans frá þessum tíma og undantekningarlaust er þessi beyging notuð þar.

En í þessum bréfum er notað blæbrigðaríkt mál – góð og eðlileg íslenska, eins og ég tel mig vera alinn upp við hjá þessu fólki og afkomendum þess. Aldrei hefði það fólk sagt mér langar eða ég vill, enda ekki alið upp við það. Hins vegar fór það að hitta læknirinn og finna systir sína – enda alið upp við það. Það er fráleitt og raunar móðgun að segja að þetta fólk hafi talað „rangt mál“ þótt það viki frá hinum viðurkennda staðli að þessu leyti – það talaði bara þá íslensku sem það hafði lært af foreldrum sínum, öfum og ömmum. Það er engin skynsemi í að kalla þessa beygingu „ranga“ í máli þeirra sem hafa alist upp við hana. En á sama hátt er fráleitt að segja að það fólk sem elst upp við mér langar og ég vill tali rangt mál.

Sú íslenska sem við ölumst upp við og tileinkum okkur á máltökuskeiði getur ekki verið röng. Hún er okkar mál og annað fólk er ekki þess umkomið að segja okkur að það sé rangt. Það þýðir ekki að maður eigi ekki að leitast við að vanda mál sitt, og það þýðir ekki heldur að leiðbeiningar um málfar eigi ekki rétt á sér. Við eigum að hvetja fólk til að virða málhefð og halda íslensku að börnum og unglingum. En við eigum ekki að berja niður það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt.

Þjóðarsátt um „þágufallssýki“

Árið 1983 skrifaði ég grein sem heitir „Þágufallssýkin og fallakerfi íslensku“ í Skímu, tímarit Samtaka móðurmálskennara. Þar færði ég rök að því að hin svokallaða „þágufallssýki“ (eða „þágufallshneigð“) styrkti fallakerfi málsins fremur en veikti. Vegna þess að varðveisla fallakerfisins væri meginforsenda varðveislu íslenskunnar væri „sýkin“ þess vegna af hinu góða. Skömmu eftir að greinin birtist hitti ég hinn mikla og alþekkta málvöndunarmann Helga Hálfdanarson sem var að vonum lítt hrifinn af greininni og taldi að ég myndi fá heldur bágt fyrir hana á efsta degi. Örlög mín eru því ráðin og engu að tapa þótt ég vegi enn í sama knérunn.

Eins og þið vitið hefur lengi verið barist hatrammlega gegn þessari „sýki“ sem felst í því að notað er þágufall á frumlag nokkurra sagna sem áður tóku alltaf með sér þolfalls- eða nefnifallsfrumlag. Þetta eru einkum sagnirnar langavanta og hlakka, en einnig dreymakvíða og nokkrar fleiri – sumar sjaldgæfar. En andstætt því sem ætla mætti af harðri andstöðu við þessa breytingu er það engin ný bóla að sagnir breyti um frumlagsfall. Sögnin vænta, sem nú hefur alltaf nefnifallsfrumlag, tók til skamms tíma iðulega með sér þolfall – mig væntir. Sama máli gegnir um vona – á tímarit.is eru eldri dæmi um mig vonar en um ég vona.

Í frægum ritdómi um „Rímur af Tistrani og Indíönu“ í Fjölni 1835 skrifar Jónas Hallgrímsson: „Það eru farnar að rísa upp raddir móti þessum ósóma; og ein af þessum röddum, sem talar og lætur til sín heira á eiðimörku, hún er ekkji ónít, og hefir — að mig vonar — komið einhvurju til leiðar.“ Í „Ágrip af ræðu áhrærandi íslenzkuna“ í Fjölni 1838 skrifar Konráð Gíslason: „Mig væntir, að allir, sem það hugleiða, muni hljóta að verða okkur samdóma.“ Hvorki Jónas né Konráð hefur þótt sérstakur bögubósi í meðferð móðurmálsins – eftir Sigurði Nordal prófessor er haft: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Á 19. öld tóku sagnirnar fækka og fjölga yfirleitt nefnifallsfrumlag. Dæmi um það má sjá í Fjölni 1839, þar sem segir „fólkið hafi ekki gjetað aukist, síðan það fór að fækka á 14. öld“ og „hjáleigur eru lagðar í eiði, til þess að ríma um heimajarðir, so að heimabændur fjölga“. Þessar sagnir taka nú ævinlega þágufallsfrumlag – við segjum fólkinu fækkarbændum fjölgar. Samt dettur engum í hug að kalla þetta „þágufallssýki“ eða reyna að snúa þessum breytingum við. Þarna eru fjórar sagnir – fjölgafækkavona og vænta – þar sem frumlagsfall hefur breyst síðan á 19. öld. Tvær þær fyrrnefndu taka nú þágufall í stað nefnifalls áður, en tvær þær síðarnefndu taka nú ævinlega nefnifall í stað þolfallsins sem þær tóku iðulega með sér áður.

Þetta eru algengar sagnir, rétt eins og þær sem tengdar eru við „þágufallssýki“. Samt dettur engum í hug að halda því fram að breytingar á frumlagsfalli þessara sagna hafi spillt málinu á einhvern hátt. Vitaskuld gerir „þágufallssýkin“ það ekki heldur. Það eru engin rök fyrir því að breyting á frumlagsfalli fáeinna sagna af þeim þúsundum sem eru í málinu stefni íslenskunni í hættu. En þessi „sýki“ hefur þó verið talin hin verstu málspjöll og einhvern veginn orðið „móðir allra málvillna“ ef svo má segja. Í myndinni sem hér fylgir má sjá úrklippur úr dagblöðum frá seinni hluta 20. aldar þar sem „sýkinni“ er hallmælt og hinum „sýktu“ valin hin verstu orð.

En þrátt fyrir áratuga hatramma baráttu gegn „þágufallssýki“ sýna fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á tíðni og útbreiðslu hennar undanfarin 40 ár allar það sama: Hún er útbreidd um land allt (þrátt fyrir að hún hafi hér áður oft verið tengd við Reykjavík), hún er algengari meðal yngra fólks en eldra, og hún nær til sífellt stærri hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem hér hefur áður verið vitnað til – „Rétt mál er það sem samræmist málvenju, rangt mál samræmist engri málvenju“ – er alveg ljóst að ekki er hægt að kalla „þágufallssýki“ rangt mál, því að hún er ótvírætt málvenja umtalsverðs hluta málnotenda.

En vandinn er sá að það er búið að gera hana að slíkri grýlu í marga áratugi að fyrir mörgum er hún – ósjálfrátt og ómeðvitað – ímynd lélegs málfars, vankunnáttu og hirðuleysis, að ekki sé sagt fáfræði og jafnvel heimsku. Þar að auki finnst mörgum hún hryllilega ljót. Þetta er tilfinning sem ekki má gera lítið úr, heldur ber að taka alvarlega. Ég skil hana vel – sjálfur kippist ég við þegar ég heyri þágufall með langavanta og hlakka. Ég veit að ég á ekki að dæma mælandann fyrir það, og geri það ekki – vona ég – en ég þarf virkilega að passa mig.

Vegna þess hversu útbreidd tilfinningin er og sterk hjá mörgum er ekki einfalt að snúa við blaðinu í einu vetfangi og viðurkenna þágufall sem jafnrétta og eðlilega íslensku og þolfall með umræddum sögnum. En við verðum samt að stefna í þá átt – það er hvorki í þágu málnotenda né íslenskunnar að líta niður á mál sem umtalsverður hluti þjóðarinnar er alinn upp við. Við þurfum að hætta að prófa nemendur í fallnotkun með umræddum sögnum, og svo þurfum við öll að reyna að breyta hugarfari okkar og taka „þágufallssýkina“ í sátt. Þjóðarsátt.

Þannig mönnum er ekki treystandi

Ég tók landspróf fyrir tæpri hálfri öld, vorið 1971. Á þeim tíma fór aðeins lítill hluti hvers árgangs í framhaldsskóla og landsprófið var notað sem sía til að skilja sauðina frá höfrunum – auk þess sem a.m.k. sumir gagnfræðaskólar gengu enn lengra og leyfðu ekki öllum sem það vildu að spreyta sig á landsprófinu sem var níðþungt. Fyrir nokkrum árum var ég eitthvað að vafra á tímarit.is og rakst þar á íslenskuprófið sem ég tók þetta vor, 14. maí 1971 – það var birt í Vísi daginn eftir, hvers vegna veit ég ekki. Mér gekk svo sem ágætlega í þessu prófi á sínum tíma en þegar ég sá það þarna áratugum síðar mundi ég ekki eftir neinu úr því nema einni spurningu: „Hvers vegna er rangt mál að segja: Þannig mönnum er ekki treystandi?“

Það var auðvitað ekki að ástæðulausu sem ég mundi eftir þessari spurningu. Ég gataði nefnilega á henni. Þar sem ég þóttist á þessum tíma nokkuð góður í málfræði, og var mikill málvöndunarmaður, var það nokkurt áfall – svo mikið að þessi spurning greyptist í minnið og hefur setið þar síðan. Eiginlega sættist ég ekki við sjálfan mig út af þessu fyrr en ég fann grein eftir sjálfan Skúla Ben, höfund málfræðikennslubókarinnar sem ég lærði í landsprófinu, þar sem hann hélt því fram og rökstuddi að þetta væri í raun alls ekkert rangt mál. Þessi grein var frá sumrinu 1971 en þar sem hún birtist í Þjóðviljanum sem ekki var keyptur á mínu heimili vissi ég ekki af henni fyrr en fyrir 8 árum. En hún létti af mér 40 ára hugarvíli.

Ég hafði sem sé ekki hugmynd um það á þessum tíma að Þannig mönnum er ekki treystandi væri rangt mál, hvað þá að ég gæti útskýrt hvers vegna. En síðar, væntanlega þegar ég var kominn í menntaskóla, fékk ég útskýringu á því. Orðið þannig er nefnilega atviksorð, og atviksorð standa ekki með nafnorðum á þennan hátt – það er hlutverk lýsingarorða og fornafna. Það má sem sé segja vafasömum mönnum er ekki treystandi, og slíkum mönnum er ekki treystandi – en ekki þannig mönnum, og ekki heldur svona mönnum eða svoleiðis mönnum, því að svona og svoleiðis eru líka atviksorð. Þetta hafði ég aldrei heyrt en fannst það svo sem augljóst þegar búið var að benda mér á það og gekk út frá þessu sem heilögum sannleik áratugum saman. En svo fór ég að efast.

Það er auðvitað rétt að dæmigerð atviksorð standa ekki með nafnorðum – við segjum ekki *mjög mönnum, *vel mönnum, *ákaflega mönnum, en hins vegar mjög vafasömum mönnum, vel gerðum mönnum, ákaflega stórum mönnum, o.s.frv., þar sem atviksorðið stendur með lýsingarorðinu og ákvarðar það. En orðin þannig, svona og svoleiðis hafa samt staðið með nafnorðum um langan aldur – elstu dæmi sem ég fann eru frá síðasta fjórðungi 19. aldar. Í Suðra 1884 segir t.d.: „þó „ofviti“ í sumum héröðum landsins sé einnig haft um svona menn, þó þeir ekki yrki“; í Lögbergi 1895 segir: „Þeir eru ekki svoleiðis menn, að þeir nenni að lesa pólitík eða neitt nýtilegt“; og í Lögbergi 1896 segir: „Hann er skynsamur og hygginn, vel að sjer í öllu tilliti og þannig maður, sem allir mundu óska að hafa fyrir starfsmann“.

Við stöndum því frammi fyrir þremur kostum. Einn er sá að halda okkur við þá afstöðu sem kom fram í landsprófinu 1971, sem sé að þannig – og svona og svoleiðis – séu atviksorð, og atviksorð eigi ekki að standa með nafnorðum, og þar með sé þannig mönnum rangt. Annar möguleiki er að segja að þótt meginreglan sé sú að atviksorð standi ekki með nafnorðum séu undantekningar frá henni, einkum atviksorðin þannig, svona og svoleiðis. Þriðji möguleikinn er að segja að þannig, svona og svoleiðis séu alls ekki alltaf atviksorð, heldur geti líka verið lýsingarorð (eða fornöfn) og þar með staðið með nafnorðum eins og önnur orð af þeim flokkum. Samkvæmt bæði öðrum og þriðja kosti væri þannig mönnum er ekki treystandi í lagi, en á ólíkum forsendum.

Ég gef mér að fyrsti kosturinn sé úr sögunni – með hliðsjón af aldri og tíðni finnst mér fráleitt að halda sig við að þannig mönnum sé rangt mál, enda hef ég ekki séð því haldið fram nýlega. Valið milli annars og þriðja kosts fer þá eftir því hvernig við lítum á orðflokkagreiningu. Er hlutverk orðflokkagreiningar það að hengja á orðin merkimiða sem þau halda síðan hvar sem þau koma fyrir, óháð því hvernig þau eru notuð – eða er hlutverkið þess í stað að skoða hvernig orðin eru notuð, hvar í setningu þau standa, og ákvarða orðflokkinn út frá því? Samkvæmt fyrri skilgreiningunni væru þannig, svona og svoleiðis alltaf atviksorð, þótt þau stæðu stundum með nafnorði; samkvæmt þeirri seinni væru þau lýsingarorð (eða hugsanlega fornöfn) ef þau stæðu í dæmigerðri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns) í setningu.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að seinni kosturinn er vænlegri, og ég tek eftir því að hann hefur orðið fyrir valinu í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar eru þannig, svona og svoleiðis skráð sem lýsingarorð (og vitanlega atviksorð líka). Einhverjum gæti dottið í hug að hafa það á móti þeirri greiningu að orðin stigbreytast ekki – en þótt stigbreyting sé vissulega eitt megineinkenni lýsingarorða fer því fjarri að öll lýsingaorð stigbreytist (sbr. hugsi, þurfi, andvaka, samferða og fjöldi annarra sem enda á -a). Það kæmi líka til greina að líta á orðin sem fornöfn, enda standa þau að merkingu og notkun mjög nálægt orðinu slíkur sem stundum er kallað „óákveðið ábendingarfornafn“ en greint sem lýsingarorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þau eru ekki atviksorð í þessari notkun.

Á nóinu

Orðasambandið á nóinu merkir 'þegar í stað, umsvifalaust' og er komið af enska sambandinu in no time sem hefur sömu merkingu. Á tímarit.is má finna samtals 60 dæmi um á no time og á nó tæm, þar sem „no time/nó tæm“ er oftast innan gæsalappa. Elsta dæmið er frá 1963 og fram til 1980 eru dæmin samtals 21, en fækkar þá snögglega. Elsta dæmið um íslensku útgáfuna á nóinu er frá 1968 – úr sögunni „einsog kirkja“ eftir Megas, hvort sem hann er upphafsmaður þessa eða ekki. Dæmin fram til 1980 eru samtals sex, en fjölgar þá snögglega. Umskiptin úr á no time / nó tæm í á nóinu eru því mjög skýr.

Megas sá vitaskuld enga ástæðu til að biðjast afsökunar á þessu orðfæri með gæsalöppum en það var þó iðulega gert framan af, og einnig fylgdu sambandinu oft afsakanir í orðum – „eins og nú er sagt“, „eins og það heitir á nútímaíslensku“ o.fl. En bæði gæsalappir og slíkar afsakanir sjást mjög sjaldan á síðari árum sem bendir til þess að sambandið sé orðið viðurkennt í málinu. Það komst líka snemma inn í bókmenntirnar – áðurnefnd saga Megasar er reyndar nánast óþekkt en þeim mun þekktari er texti Bjartmars Guðlaugssonar, „Týnda kynslóðin“, frá 1987 – „Barnapían er með blásið hár / og pabbi yngist upp um átján ár á nóinu“.

Þarna er enska neitunin, no, tekin og gerð að íslensku nafnorði sem yfirtekur merkingu sambandsins í heild – enska nafnorðið, time, dettur alveg út. En neitunin er ekki tekin óbreytt inn, heldur látin hafa ákveðinn greini og beygingarendingu sem sýnir að orðið er meðhöndlað sem hvorugkynsorð. Það er ekkert athugavert við sem hvorugkynsorð – það rímar t.d. við frjó, gró, hró o.fl. Orðið kemur að vísu bara fyrir í þessu sambandi og þar af leiðandi aðeins í myndinni nóinu, en það er ekki einsdæmi – sama er að segja um taktein í sambandinu á takteinum, boðstól í sambandinu á boðstólum, o.fl.

Þegar að er gáð er þetta því í raun afskaplega skemmtileg orðmyndun sem sýnir vel sköpunarmátt málsins. Þarna er hráefnið að vísu erlent en málið vinnur úr því á mjög frumlegan hátt. Það væri mikil skammsýni að amast við þessari nýjung – þess í stað eigum við að nota hana sem dæmi um að íslenska er lifandi mál – ef hún bara fær að sprikla.