Hvað gerðist í mars 1997?
Það er alkunna að forsetningarnar í og á eru mjög oft notaðar með staðaheitum eða orðum sem tákna einhvers konar staðsetningu – örnefnum, heitum eða númerum húsa, stofnanaheitum o.s.frv. Oft er erfitt að átta sig á hvers vegna önnur forsetningin er notuð fremur en hin og iðulega eru mismunandi forsetningar notaðar með orðum sem virðast hliðstæð – þekkt dæmi eru í Reykjavík en á Húsavík, í Borgarnesi en á Akranesi, í Kópavogi en á Djúpavogi, o.m.fl. Stundum eru báðar forsetningar notaðar með sama orði en í mismunandi merkingu – í Siglufirði vísar fremur til fjarðarins en á Siglufirði til kaupstaðarins. Stundum eru báðar forsetningar notaðar án þess að merkingarmunur sé á, en hugsanlega mállýskumunur af einhverju tagi.
Það er þó hægt að finna ýmsar þumalfingursreglur um notkun forsetninganna en flestar eiga þær sér fjölmargar undantekningar. En svo eru líka dæmi um að notkunin hafi breyst. Mjög áhugavert dæmi um það var nefnt í innleggi í „Málspjalli“ í gær. Þar var bent á að áður hefði forsetningin í oft verið notuð með heitum eins og Landspítalinn og Borgarspítalinn, t.d. lést í Landspítalanum. Nú er hins vegar nær alltaf notuð forsetningin á með þessum heitum – og sama virðist gilda um önnur hliðstæð eins og Fjórðungssjúkrahúsið (á Akureyri / á Ísafirði / í Neskaupstað). Höfundur innleggsins sagði að í stuttri og óformlegri könnun á þessu á tímarit.is hefði komið í ljós að í virtist að mestu hafa vikið fyrir á stuttu eftir 1990.
Ég skoðaði þetta nánar og varð steinhissa á niðurstöðunum. Dæmi um í með Land(s)spítalanum, Borgarspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu voru töluvert fleiri en dæmin um á með sömu orðum fram um 1990, þótt heldur drægi saman með forsetningunum og árið 1996 væru dæmin um í komin niður í rúmlega 40% af heildarfjölda dæma. En árið eftir, 1997, hrapar dæmafjöldinn um í gífurlega – niður í sjö og hálft prósent. Þessi breyting verður ekki smátt og smátt yfir árið – fjöldi dæma um í er svipaður og áður fyrstu tvo mánuðina, en í byrjun mars hverfa dæmin nær alveg og eru sárafá það sem eftir er ársins 1997, og fer svo enn fækkandi næstu ár og eru komin niður í eitt prósent af heildinni upp úr aldamótum.
Ég held að ég hafi aldrei séð svona snögga breytingu á nokkru málfarsatriði – breytingu sem þó virðist hafa gengið yfir þegjandi og hljóðalaust, án þess að nokkur tæki eftir henni, og án þess að nokkur skýring sé sjáanleg. Nú er þetta auðvitað breyting á ritmáli, nánar tiltekið máli blaða og tímarita, og við höfum enga möguleika á að kanna hvort talmál breyttist á sama hátt á svipuðum tíma. Engar líkur eru samt á öðru en bæði í og á hafi verið algengt í talmáli áður fyrr og það er ljóst að á er nú einhaft í máli flestra, en ólíklegt er að breyting á talmálinu hafi orðið jafn snögglega og á ritmálinu. Ég held að einhverjar ytri aðstæður hljóti að liggja að baki svo snöggri breytingu en veit ekki hverjar þær gætu verið – varla tilmæli frá Íslenskri málnefnd.
Í umræðum í „Málspjalli“ var þess getið til að skipt hefði verið um prófarkalesara, en það getur ekki verið skýringin því breytingin varð ekki bara í einu blaði heldur öllum að því er best verður séð – þótt aðeins í Morgunblaðinu og DV séu dæmi svo mörg að eitthvað sé á þeim byggjandi. Einnig var nefnt í umræðum að sumir kennarar um og upp úr miðri öldinni hefðu talið í spítala rétt en á spítala málvillu, og því kann að vera að í spítala hafi lengi verið mun tíðara í ritmáli en talmáli. En jafnframt kom þar fram að Morgunblaðið hefði leiðrétt í í á undir lok síðustu aldar. Ótrúlegt er samt að leiðréttingar eða breytingar á þeim hafi valdið svo snöggri breytingu. Ef einhverjum dettur einhver skýring í hug, eða veit um skýringu, væri gaman að heyra af því.