Category: Málfar

Stjórnarráðið auglýsir starf án kröfu um íslenskukunnáttu

Í nýrri starfsauglýsingu frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu er þess krafist að umsækjendur hafi „Gott vald á íslensku og/eða ensku“ (feitletrun mín) og ráðherra segir á Facebook: „Hér er í fyrsta sinn auglýst starf í Stjórnarráðinu þar sem íslenska er ekki krafa.“ Mér finnst fullkomin spurning hvort þetta samræmist lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Þar segir í áttundu grein: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“ Samkvæmt auglýsingu felst m.a. í starfinu:

  • Framsetning, skilgreining og mat á mælikvörðum
  • Árangursmat á þeim verkefnum sem ráðuneytið stýrir
  • Samvinna með hópum um forgangsverkefni ráðuneytis
  • Undirbúningur fjármálaáætlunar og fjárlaga
  • Miðlun upplýsinga hvoru tveggja innan og utan ráðuneytis

Ég get ómögulega séð að hægt sé að sinna þessum verkefnum án góðrar kunnáttu í íslensku. Skilgreining og mat á mælikvörðum felur í sér ritun texta sem hlyti að verða á ensku. Það væri ekki hægt að meta árangur verkefna ráðuneytisins nema skýrslur um þau væru á ensku. Öll samvinna við hópa um forgangsverkefni yrði að fara fram á ensku. Skjöl í tengslum við undirbúning fjárlaga yrðu að vera á ensku. Öll upplýsingamiðlun innan og utan ráðuneytis yrði á ensku. Óhjákvæmilega leiðir skortur á íslenskukunnáttu í þessu starfi til þess að stjórnsýsla ráðuneytisins verður að verulegu leyti á ensku sem er skýrt brot á tilvitnaðri lagagrein.

Ég legg áherslu á, eins og ég hef oft gert, að almennt séð á ekki að nota skort á íslenskukunnáttu til að mismuna fólki við ráðningu í störf eða á öðrum sviðum. En það á aðeins við um ómálefnalega mismunun, þegar fyrir liggur að fólk geti sinnt starfinu fullkomlega án íslenskukunnáttu – þegar beiting tungumáls er óverulegur þáttur í starfinu, eða þörf á samskiptum við Íslendinga takmörkuð. Í sumum tilvikum kann hins vegar að vera málefnalegt og eðlilegt, og jafnvel nauðsynlegt, að gera kröfu um íslenskukunnáttu vegna eðlis starfsins. Ég get ekki betur séð en svo sé í þessu tilviki – starfið grundvallast á mállegum samskiptum í ræðu og riti.

Nú kann vel að vera að mörgum þyki rétt að slaka á þessum kröfum og telji rétt að ráða hæfasta umsækjandann, án tillits til tungumálakunnáttu. Ég sé reyndar ekki að umsækjandi sem ekki hefur vald á íslensku geti nokkurn tíma orðið hæfastur í þetta starf ef marka má starfslýsinguna. En ef við lítum fram hjá því er auðvitað ljóst að þetta er víða gert nú þegar, t.d. í háskólunum. Það má líka alveg færa rök að því að slík tilslökun sé nauðsynleg ef við ætlum að vera samkeppnishæf í tæknivæddu alþjóðlegu umhverfi – þá getum við ekki látið óraunhæfar kröfur um kunnáttu í örtungumáli koma í veg fyrir að við ráðum hæfasta fólkið.

Um þetta má vissulega deila, en aðalatriðið er að þetta þarf að ræða. Eins og ég hef áður sagt er mjög brýnt að við hefjum alvöru umræður um það hvaða stöðu við ætlum enskunni í íslensku málsamfélagi. Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Það hefur ekki borið á miklum umræðum um þetta, og verið farið með enskunotkun á Íslandi svolítið eins og feimnismál. Við tölum íslensku á Íslandi, segjum við. En við vitum samt að enskan er komin til að vera og ekkert bendir til annars en mikilvægi hennar í málsamfélaginu haldi áfram að aukast. Við megum ekki halda áfram að stinga höfðinu í sandinn – við þurfum að ræða þetta. A.m.k. þurfum við að gera upp við okkur hvort það sé í lagi að starfsauglýsingar stjórnarráðsins brjóti í bága við lög.

Mikilvægi auðugs málumhverfis

Á fyrstu sex æviárunum eða svo tileinkum við okkur flestar helstu reglur móðurmáls okkar. Máltökunni er þó síður en svo lokið – við höldum áfram að læra undantekningar frá meginreglum, ýmsar reglur sem sjaldan reynir á, og alls konar atriði sem engum reglum verður yfir komið. Síðast en ekki síst aukum við orðaforða okkar smátt og smátt – ekki bara til loka máltökuskeiðsins um kynþroskaaldur, heldur alla ævi. Þessi tileinkun fer að mestu fram ómeðvitað og áreynslulaust – við lærum ekki reglur málsins og undantekningar frá þeim af bókum, heldur áttum okkur á þeim sjálf út frá því máli sem við heyrum í kringum okkur. Stundum er að vísu reynt að berja inn í okkur reglur sem ganga þvert á þær ályktanir sem við höfum dregið af málinu í umhverfi okkar, en árangurinn af því er misjafn eins og alkunna er.

En til að við getum dregið öruggar ályktanir af málinu í umhverfi okkar þarf að vera nóg af því. Þetta skiptir helst máli þegar um er að ræða reglur með takmarkað gildissvið og reglur um áhrif orða á önnur – sjaldgæf beygingarmynstur, sjaldgæfar eða flóknar setningagerðir o.fl. Sem dæmi má taka tvö atriði sem eru nokkuð á reiki í málinu – afturbeygingu og viðtengingarhátt. Þessi atriði eiga það sameiginlegt að þau varða tengsl milli orða innan setningar, þannig að orð á einum stað í setningu ræður því hvaða orð eða hvaða beygingarmynd er notuð á öðrum stað í setningunni, jafnvel töluvert langt frá. Þetta er fjarri því að vera einfalt, atriðin sem hafa áhrif á val orðs eða beygingarmyndar eru mörg og hugsanlegt samspil þeirra margvíslegt.

Til að átta sig á þessu og koma sér upp traustum reglum þurfa börnin því að heyra mikið af dæmum þar sem allir möguleikar koma fram. Það gerist ekki nema mikið sé talað við börnin. Þá duga ekki stutt og einföld samtöl um fábreytt efni með stuttum setningum og takmörkuðum orðaforða, þótt slík samtöl séu vitanlega sjálfsögð og mikilvæg. En það þarf líka lengri og innhaldsríkari samtöl um fjölbreytt efni – samtöl til að fræða börnin um eitt og annað, segja þeim sögur o.fl. Til viðbótar þarf auðvitað að lesa fyrir börnin, og hvetja þau til að lesa sjálf þegar þau eru orðin læs. Í rituðu máli, jafnvel textum sem eru ætlaðir börnum, koma fyrir orð og setningagerðir sem eru sjaldgæf í talmáli en nauðsynleg fyrir börnin til að tileinka sér málkerfið og málhefðina.

Við þurfum ekkert að vera hissa þótt notkun viðtengingarháttar og afturbeygingar, og ýmissa fleiri flókinna eða sjaldgæfra atriða, sé eitthvað á reiki hjá börnum og unglingum, og jafnvel fullorðnu fólki. Það er eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing af breyttu þjóðfélagi, minni bóklestri og minna eða breyttu máláreiti. En viðbrögðin eiga ekki og mega ekki vera þau að hneykslast og tala unglingana og mál þeirra niður. Það hefur þveröfug áhrif. Í staðinn þurfum við að leita leiða til að örva og styrkja málumhverfi þeirra, halda málinu meira að þeim – á jákvæðan hátt, með því að nota það og fá þau til að nota það, en ekki með leiðréttingum og umvöndunum.

Glöggt er gests augað

Þótt ég hafi fengist við lítið annað en að kenna og rannsaka íslenskt mál og málfræði allt frá 1980, og þar af haft af því atvinnu í 36 ár, eru hér alltaf að koma spurningar um eitthvað í málinu sem ég hef aldrei leitt hugann að. Stundum tekst mér að svara þessum spurningum en stundum stend ég alveg á gati. Sem dæmi um atriði af þessu tagi sem nýlega hefur verið spurt um má nefna hvorugkyn lýsingarorðsins nógur – af hverju er það oftast bara nóg í stað þess að bæta við sig -t eins og hvorugkyn lýsingarorða gerir venjulega? Og af hverju segjum við hundrað krónum dýrari en ekki hundraði krónum dýrari?

Ég held að þau sem eiga íslensku að móðurmáli séu yfirleitt ekki í vafa um að eðlilegt er að segja það er nóg bensín á bílnum en ekki *það er nógt bensín á bílnum, og þetta er þjú hundruð árum eldra en ekki *þetta er þremur hundruðum árum eldra. Stjörnumerktu setningarnar eru þó þær sem við væri að búast út frá almennum reglum málsins – lýsingarorð fá venjulega -t-endingu í hvorugkyni og beygjanleg töluorð (eins og hundrað) sambeygjast venjulega nafnorðinu sem þau standa með, sbr. fjórum krónum dýrari. Þetta eru því undantekningar frá almennum reglum – undantekningar sem við verðum að læra sérstaklega.

Við lærum þetta áreynslulaust og ómeðvitað, að því tilskildu að nógu mikil íslenska sé í málumhverfi okkar til að við heyrum dæmi um þessa notkun nógu oft til að átta okkur á henni. En vegna þess að við lærum þetta ómeðvitað og beitum kunnáttunni sjálfkrafa áttum við okkur ekki á því að neitt afbrigðilegt eða óvænt sé við þessar setningar. Öðru máli gegnir um fólk sem er að læra íslensku sem annað mál. Það lærir málið, að minnsta kosti framan af, að miklu leyti af bókum og með beinni kennslu. Þess vegna rekst það á atriði af þessu tagi og furðar sig á þeim – og spyr fólk sem á íslensku að móðurmáli og kemur því af fjöllum.

Spurningar um bæði atriðin sem ég nefndi hér að framan komu einmitt frá erlendri konu sem er að læra íslensku og hafði rekist á þetta og skildi ekki af hverju það væri svona. Þetta er gott dæmi um það hvernig útlendingar geta veitt okkur nýja sýn á íslenskuna – vakið athygli okkar á fjölbreytni hennar og sérviskum, sem eru einmitt eitt af því sem gerir hana svona skemmtilega og áhugaverða.

Íslenska er alls konar

Gleðilega þjóðhátíð! Það var gaman að hlusta á ávarp fjallkonunnar á Austurvelli í morgun. Ávarpið var sérlega fallegt og áhrifamikið ljóð eftir Brynju Hjálmsdóttur og fjallkonan var Sylwia Zajkowska, pólsk að uppruna. Hún flutti ljóðið mjög vel – vissulega með sterkum erlendum hreim og einn Facebook-vinur minn (sem ekki er lengur á vinalistanum mínum) skrifaði „Fyrir okkur sem eldri eru hefði mátt þýða ávarp fjallkonunnar á íslensku.“ Þetta er auðvitað ekki annað en rakinn dónaskapur og rasismi sem ekki á að líðast.

„Þeir skilja sem vilja“ sagði þýski veðurfræðingurinn þegar kvartað var undan lestri hans á veðurfregnum fyrir nokkrum árum. Það er ótrúlega mikilvægt að við venjum okkur á að hlusta á íslensku með erlendum hreim og komum til móts við fólk sem vill tala íslensku þótt það hafi hana ekki fullkomlega á valdi sínu. Kvartanir um erlendan hreim gera ekki annað en fæla fólk frá því að læra íslensku og stuðla að því að hér komi upp hópar fólks sem ekki kann málið og einangrast í samfélaginu. Viljum við það?

Áskorun

Orðið áskorun er mikið notað í seinni tíð í merkingunni 'krefjandi verkefni', og látið samsvara enska orðinu challenge. Þetta er ekki nýtt – í þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1999 birtist bréf frá lesanda sem sagði: „Mikið leiðist mér að heyra sí og æ að hitt og þetta sé mikil áskorun.“ Þessi notkun orðsins virðist koma upp í kringum 1980. Í Vísi það ár segir t.d.: „Fjáröflun flokksins er byggð á frjálsum framlögum og happdrættum og þetta er mikil áskorun á flokksmenn um land allt að herða nú mjög róðurinn til fjársöfnunar.“ Þessi notkun fer svo að breiðast út um miðjan tíunda áratuginn og einkum eftir aldamót.

Í áðurnefndum þætti Gísla Jónssonar sagði hann sér leiðast þegar challenge væri þýtt með áskorun og benti á að í Ensk-íslenskri orðabók væri það þýtt sem „spennandi, storkandi eða ögrandi viðfangsefni“ sem væru góðir kostir (reyndar segir þar líka „viðfangsefni sem kallar á framtak eða aðgerðir“), en síðar sagði Gísli reyndar: „Mjög oft á við að segja að eitthvað sé skemmtilegt viðfangsefni, þar sem menn hafa þrástagast á orðinu ögrun.“ Oft er þó sagt að ögrun sé betra orð en áskorun í þessu samhengi, en um það er deilt og ýmislegt hnígur í þá átt að ekki sé heppilegt að nota ögrun í staðinn fyrir áskorun.

Í Vikunni 1964 segir: „Stundum var áskorun í þessum augum, stundum ögrun, en stundum sakleysi ungrar og ákafrar konu.“ Í Frjálsri verslun 1986 segir: „Maður á aldrei að líta á nýjungar sem ögrun heldur áskorun.“ Í Víðförla 1999 segir: „Birgitte Tufte lektor flutti fyrirlestur er bar heitið „Rafrænir miðlar – ögrun eða áskorun?““ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Henni virtist ekkert ofvaxið og tók hverri áskorun sem ögrun um að gera það sem hún best gat hverju sinni.“ Þessi dæmi sýna að a.m.k. sumir málnotendur nota orðin ögrun og áskorun í mismunandi merkingu.

Fyrir öðrum virðist merking orðanna vera svipuð en kannski ekki alveg sú sama. Í Norðurljósinu 1956 segir: „Háfjallablærinn andar frá þeim ögrun og áskorun til hvers þess manns, sem vill „koma á kaldan stað, á karlmennsku sinni „að halda próf.“ Í Vísi 1970 segir: „EFTA er okkur sams konar áskorun og ögrun og viðskiptafrelsið var fyrir einum áratug. Þá bárum við sigur úr býtum.“ Í Vísi 1972 segir: „Þetta stórkostlega verk er áskorun og ögrun til þroskaðra og langreyndra listamanna.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Útsvarslækkunin á Seltjarnarnesi er ögrun og áskorun í garð annarra sveitarstjórna.“

Í þætti árið 2001 birti Gísli Jónsson bréf frá Þórði Erni Sigurðssyni sem sagði m.a.: „Orðið […] ögrun […] er í tísku hjá fjölda fólks sem hugsar á ensku og brúkar það sem þýðingu (ranga þó!) á orðinu challenge. Challenging task heitir ögrandi viðfangsefni nú þegar duga mundi að kalla það verðugt, heillandi eða bara forvitnilegt verkefni. Í mínum huga þýðir sögnin að ögra að storka, mana, egna; jafnvel að stríða, þ.e.a.s. að misbjóða að þessu leyti. Aldrei eitthvað jákvætt svo sem að brýna eða hvetja til dáða. […] Enska sögnin to challenge þýðir ekki að ögra, storka, mana né egna eins og fjöldinn virðist þó halda […].“

Orðið áskorun er í Íslenskri orðabók skýrt 'það að skora á e-n, eggjunarorð, hvatning' og í þriðju útgáfu frá 2002 var bætt við skýringunni 'erfitt verkefni sem freistandi er að ráðast í'. Sögnin ögra er aftur á móti skýrð 'espa, stríða, egna, eggja, hvetja; storka, mana'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er áskorun skýrð 'hvatning, áeggjan' en ögrun aftur á móti 'það að ögra, reita til reiði'. Vissulega getur eggjun eða hvatning falist í ögrun en mín tilfinning er samt sú að neikvæða merkingin sé yfirgnæfandi í nútímamáli. Sjálfum finnst mér áskorun yfirleitt jákvætt orð en ögrun fremur neikvætt.

Vissulega má segja að orðið áskorun sé notað hér í nýrri merkingu en hún er þó ekki svo fjarri hinni eldri – í báðum merkingum felst hvatning og eitthvað sem reynir á. Það er komin 40 ára hefð á að nota áskorun í umræddri merkingu og sú notkun er mjög útbreidd og komin inn í orðabók, og orðið hentar betur en ögrun og önnur orð sem hafa verið lögð til. En vissulega má halda því fram að orðið sé ofnotað í nútímamáli og oft væri hægt að nota annað orðalag, t.d. viðfangsefni, krefjandi verkefni o.fl., en það nær þó ekki alltaf þeirri merkingu sem lögð er í 'áskorun'. Ég sé enga ástæðu til annars en halda áfram að nota það – í hófi, eins og annað.

Henni var brunað upp á svið

Í frásögn af ferð söngkonunnar Bríetar til Vestmannaeyja rakst ég á setninguna „Henni var brunað af flugvellinum og beint upp á svið.“ Mér fannst þetta athyglisvert því að þetta er ekki venjuleg notkun sagnarinnar bruna. Sambandið henni var brunað lítur út eins og þolmynd af germyndinni (einhver) brunaði henni, þar sem henni er andlag í þágufalli. En bruna er venjulega áhrifslaus, tekur ekki með sér andlag – við segjum bíllinn brunar en yfirleitt ekki hún brunaði bílnum eða ég brunaði henni í bæinn. Einstöku slík dæmi eru þó til.

Í Víðförla 1982 segir „Hann tók bílinn og brunaði honum eftir borðinu“ og í DV 1985 segir „Hún tók því orðalaust í handföngin á stólnum og brunaði honum út á gang“. Á netinu má finna germyndardæmi eins og „mamman út á nærfötunum og með verkjapillurnar í hendinni og brunaði henni í laugina“, og þolmyndardæmi eins og „við fengum ofboðslega stuttan tíma með henni áður en henni var brunað upp á Vökudeild“, „Honum var brunað á aðgerðarborðið hið snarasta og reynt að laga vandamálið“ og „Bílnum var brunað út að Sögade þar sem hann beygði til hægri eða í austur“.

Það eru sem sé til bæði dæmi um að bruna bíl og bruna fólki, þ.e. 'bruna með fólk í bíl'. Þetta er hliðstætt við að bæði er hægt að tala um að aka bíl og aka fólki, keyra bíl og keyra fólk(i) – og líka fljúga flugvél og fljúga farþegum. Þarna er áhrifslausa sögnin bruna gerð að áhrifssögn. Slíkt er ekki einsdæmi. Sögnin streyma var t.d. áhrifslaus til skamms tíma – áin streymir, en það er enginn sem streymir ánni. En á síðustu árum hefur merking sagnarinnar víkkað út og hún fengið andlag – nú er talað um að streyma kvikmyndum, streyma fundum o.s.frv., án þess að gerðar séu athugasemdir við það.

Enn nærtækara er að taka dæmi af sögninni fljúga sem til skamms tíma var áhrifslaus og tók ekki með sér neitt andlag, aðeins frumlag. Fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn flaug fuglum eða örvum eða neinu öðru. Það var ekki fyrr en eftir tilkomu flugvéla í byrjun 20. aldar að þörf skapaðist á að láta fljúga fá andlag. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dagsbrún 1917: „Vélinni var flogið í 1500 til 2000 metra hæð.“ Þessa merkingu sagnarinnar er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Nú dettur auðvitað engum í hug að nokkuð sé athugavert við að fljúga flugvélum þótt stundum séu reyndar gerðar athugasemdir við að fljúga farþegum.

Nýjungar eins og henni var brunað upp á svið og hann brunaði bílnum eftir borðinu eiga sér því skýr fordæmi í hegðun annarra sagna á svipuðu merkingarsviði og þróun sem hefur orðið í notkun annarra sagna. Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með þessum nýjungum eða leggja til að fólk taki þær upp, og á svo sem ekki von á að þær breiðist út, en mér finnst þetta vera skemmtileg dæmi um skapandi málnotkun. Merking setninganna liggur í augum uppi og ég sé ekki að þessi víkkun á notkunarsviði sagnarinnar bruna spilli málinu á nokkurn hátt.

Festar, Festis, eða Festi?

Eignarhaldsfélagið Festi hefur töluvert verið í fréttunum undanfarið í tengslum við starfslok forstjóra þess. Í þessum fréttum hefur komið fram töluverð ringulreið á beygingu nafnsins – ýmist er talað um forstjóra Festi, forstjóra Festar eða forstjóra Festis. Enginn vafi er á því að nefnifallið er Festi – en hvernig getur eignarfall nafnorða sem enda á -i verið? Þetta gæti vissulega verið karlkynsorð, eins og neisti, og beygst þá Festi – Festa – Festa – Festa. Ég hef samt hvergi séð þá beygingu notaða og óhætt að afskrifa þann möguleika að hér sé um karlkynsorð að ræða.

Þetta gæti líka verið hvorugkynsorð, eins og nesti, og þá ætti beygingin að vera Festi – Festi – Festi – Festis. Hvorugkynsorðið festi er vissulega til, og skýrt í Íslenskri orðabók sem 'e-ð sem festir e-n, er óbreytanlegt-. En mörgum finnst liggja beinast við að um sé að ræða kvenkynsorðið festi, eins og í hálsfesti, og þá ætti eignarfallið að vera Festar. En á heimasíðu fyrirtækisins virðist eignarfallið yfirleitt vera haft án endingar, Festi – talað er um hlutverk Festi, hluthafa Festi, ársskýrslu Festi, stjórn Festi, forstjóra Festi o.s.frv. Getur það staðist? Geta íslensk orð sem enda á -i í nefnifalli verið óbreytt í eignarfalli?

Reyndar. Kvenkynsorð sem enda á -i fá ýmist –ar-endingu í eignarfalli, eins og festi í merkingunni 'hálsfesti', eða eru eins í öllum föllum eintölu, eins og gleði, reiði og ýmis fleiri orð. Orðið heimilisfesti er til bæði í hvorugkyni og kvenkyni. Í hvorugkyni endar það á -s í eignarfalli eins og við er að búast, en hvað með kvenkynsmyndina? Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hún sögð vera heimilisfestar en ég held að það sé ekki rétt – samkvæmt minni máltilfinningu er hún heimilisfesti og þannig er hún í nær öllum dæmum á tímarit.is til heimilisfesti, vegna heimilisfesti, ekki til heimilisfestar, vegna heimilisfestar.

Niðurstaðan er því sú að eðlilegt sé að líta á heitið Festi sem kvenkynsorð sem sé eins í öllum föllum eintölu, og tala því um forstjóra Festi. Það rímar við meðferð orðsins á heimasíðu fyrirtækisins, eins og áður segir, þótt ég skuli ekki fullyrða að sama gildi um allar fréttir sem fyrirtækið sendir frá sér. En ég mæli sem sé með því að eignarfallið Festi sé notað.

Ætlun sendenda og upplifun viðtakenda

Í umræðum um kynjað og kynhlutlaust málfar er iðulega bent á að hefðbundin málnotkun, þar sem karlkyn fornafna og lýsingarorða er notað í almennri merkingu, sé málhefð sem eigi sér langa sögu og karlkyn vísi í þessari hlutlausu merkingu til allra kynja en ekki sérstaklega til karlmanna. Þetta er hárrétt. En í framhaldinu er oft fullyrt að þessi notkun karlkyns sé ekki útilokandi á nokkurn hátt og þess vegna sé misskilningur, misráðið og með öllu óþarft að reyna að breyta málnotkun hvað þetta varðar og nota hvorugkyn í stað karlkyns.

En þarna er litið fram hjá því að málnotkun felur í sér boðskipti, og þátttakendur í þeim eru bæði þau sem senda boðin – mælendur eða höfundar ritaðs texta, og viðtakendur boðanna – áheyrendur eða lesendur. Þótt sendendur ætli sér ekki að útiloka nein með málnotkun sinni kunna viðtakendur að upplifa útilokun. Þess vegna er ekki nóg að segja bara að karlkyn sé hlutlaust kyn í máli sendenda boðanna ef viðtakendurnir upplifa það sem útilokandi. Upplifun viðtakenda boðanna er alveg jafngild og ætlun sendendanna.

Þarna geta vissulega skapast árekstrar milli mismunandi viðhorfa, en meginatriðið er að fólk sýni ólíkum sjónarmiðum skilning og virðingu. Það er ekki líklegt til að leiða til frjórrar umræðu og gagnkvæms skilnings ef einungis er horft á málin frá öðru sjónarhorninu – annaðhvort sendenda eða viðtakenda. Það er engin ástæða til að gera þeim sem nota karlkynið í hlutlausri merkingu upp einhverja ætlun til útilokunar, en þau sem nota karlkynið þannig þurfa hins vegar að átta sig á – og virða – þá upplifun ýmissa að um útilokun sé að ræða.

Kynjahalli í vélþýðingum

Nýlega var mikið skrifað um ágæta grein sem Agnes Sólmundsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir, Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason birtu í Ritinu í lok síðasta árs. Þar er sagt frá kynjahalla í þýðingum Google Translate, sem kemur fram á þann hátt að ensk lýsingarorð sem ekki beygjast í kynjum eru ýmist þýdd með karlkyns- eða kvenkynsformi á íslensku þegar ekki er hægt að ráða kynið af samhengi. Það virðist þó ekki vera tilviljanakennt hvort kynið er notað, heldur fer eftir því hvert lýsingarorðið er – sum lýsingarorð virðast vera karllæg en önnur kvenlæg. Þannig er t.d. I am clever þýtt sem Ég er snjall en I am stupid sem Ég er heimsk.

Það er auðvelt að lesa karlrembu og kvenfyrirlitningu úr þessu, en ástæðan fyrir þessu er sú að þýðingaforrit eins og Google Translate nota mállíkön sem byggjast á raunverulegum textum. Að baki þessum líkönum liggur gífurlegt textamagn og líkönin endurspegla málnotkun í þessum textum. Ef tiltekin lýsingarorð eru fremur notuð í kvenkyni í þýðingunum stafar það ekki af því að forritarar hjá Google séu karlrembur og hafi ákveðið að hafa það þannig, heldur af því að þannig eru textarnir sem mállíkönin grundvallast á. Í fljótu bragði gæti það virst eðlilegt – og raunar það eina rétta – að láta þýðingarnar endurspegla raunverulega málnotkun.

En þegar að er gáð er þetta kannski ekki æskilegt. Ef kynjahalli er í málinu, eins og mállíkönin virðast sýna, þá stuðlar notkun þeirra í þýðingum að því að viðhalda honum. Er það æskilegt? Kannski viljum við reyna að rétta þennan kynjahalla af með því að hræra eitthvað í mállíkönunum þannig að meira jafnvægi sé í þýðingunum og þær endurspegli ekki þann halla sem er í raunverulegum textum. En þá erum við komin út á hálan ís. Ef farið er að fikta í líkönunum á annað borð er þeirri hættu boðið heim að ýmsu öðru sé breytt í þeim, t.d. varðandi orðfæri og málnotkun um viðkvæma hópa o.fl. Einnig getur það leitt til þess að þýðingarnar hljómi ekki nógu eðlilega, vegna þess að þær stingi í stúf við venjulega málnotkun.

Þetta er sem sagt ekki einfalt mál og ég hef ekkert svar við því hvað eigi að gera í slíkum tilvikum. Hins vegar skiptir máli að við séum meðvituð um það að með síaukinni notkun gervigreindar verða tölvur sífellt virkari málnotendur, og að sama skapi fjölgar siðferðilegum álitamálum sem koma upp í sambandi við málnotkun þeirra. Það þýðir auðvitað ekki að við eigum að hætta að nota gervigreind í máltækni – hún skapar gífurlega möguleika sem gagnast okkur öllum á margvíslegan hátt. Það sem skiptir máli í þessu eins og í svo mörgu er gagnrýnin hugsun.

Illa ættuð orð

Það er alþekkt í íslenskri málfarsumræðu að orð séu látin gjalda uppruna síns. Orð sem falla vel að málinu eru iðulega úthrópuð á þeim forsendum að þau séu komin úr öðru tungumáli. Áður var það aðallega danska, en nú finnur fólk hliðstæður í ensku. Stundum er orðum reyndar gert rangt til að þessu leyti. Fyrir mörgum áratugum heyrði ég söguna um menntaskólakennarann sem hamaðist gegn orðinu handklæði og vildi ekki sjá það í ritgerðum nemenda, enda væri það augljóslega hrá danska – håndklæde. Það slumaði þó í honum þegar honum var bent á að orðið kæmi fyrir í Njálu – „Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans“.

Íslenska og danska eru auðvitað náskyld mál, komin af sömu rót, og engin furða að fjöldi íslenskra orða eigi sér hliðstæðu í dönsku. Íslenska og enska eru líka skyld mál þótt fjarlægðin þar á milli sé talsvert meiri, og íslensk orð sem líkjast enskum orðum þurfa því ekki að vera komin úr ensku heldur geta þau átt sér óslitna sögu í báðum málunum, allt frá sameiginlegri formóður þeirra. Þannig er um jafnalgengt orð og salt sem er skrifað eins í báðum málum þótt framburður sé ekki alveg sá sami. Annað algengt orð sem er eins í báðum málum er egg en það er upphaflega tökuorð í ensku úr norrænu. Orð geta nefnilega líka farið í þá átt þótt það sé vissulega sjaldgæfara, en annað þekkt dæmi er geyser.

En svo eru auðvitað fjölmörg orð og orðasambönd komin úr ensku eða gerð að enskri fyrirmynd. Eitt þessara orða er snjóstormur. Það er lítill vafi á því að fyrirmyndin er enska orðið snowstorm – elstu dæmi um orðið eru úr íslensku blöðunum í Vesturheimi og í fyrsta dæminu er það m.a.s. snjóstorm, án endingar, í nefnifalli, en lagaði sig mjög fljótt að beygingakerfinu. Því er oft haldið fram að þetta orð sé „hrá enska“ en það er auðvitað fráleitt. Þetta er rétt myndað orð úr tveimur íslenskum orðstofnum, notað í íslensku máli, og getur þar af leiðandi ekki verið annað en íslenska. Svo getur fólk haldið því fram að orðið sé rangt notað og betra sé að nota önnur orð, en það er bara annað mál. Orðið er íslenskt eftir sem áður.

Annað dæmi er orðið byrðing sem farið er að nota um það sem heitir boarding á ensku – þegar farþegar ganga um borð í flugvél. Auðvitað er enginn vafi á því að þetta er myndað með hliðsjón af boarding. En er eitthvað að því? Það er talað um að ganga um borð, -ing er eðlilegt verknaðarviðskeyti í íslensku, og það veldur i-hljóðvarpi, borð- > byrð-, í stofninum sem það tengist. Orðhlutarnir eru íslenskir og orðmyndunin íslensk. Samt hef ég séð talað um þetta sem „hráa þýðingu“ eða „eftiröpun“ úr ensku. Í þessu tilviki er þó ekki um það að ræða að verið sé að ýta neinu íslensku orði til hliðar vegna þess að orð um þessa athöfn var ekki til áður svo að ég viti.

Við berjum okkur iðulega á brjóst yfir því „að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu“. Það er samt ofmælt – okkur vantar stundum orð og þess vegna eigum við að taka vel á móti nýjum orðum sem falla að málinu en ekki útskúfa þeim vegna uppruna síns eða vegna þess að þau eigi sér erlendar fyrirmyndir. En jafnvel þótt fyrir séu í málinu orð sömu eða svipaðrar merkingar og nýju orðin getur erlend hliðstæða aldrei verið gild ástæða fyrir höfnun. Orð úr íslensku hráefni, mynduð samkvæmt íslenskum orðmyndunarreglum, eru og verða ekkert annað en íslenska.