Category: Málfar

Hvaða orð nota konur um sig sjálfar?

Meðal þess sem þarf að huga að í umræðu um mál og kyn er hvernig fólk talar um sig sjálft. Tala karlmenn um sig sem menn eða karla? Tala konur um sig sem menn eða konur – eða manneskjur? Ég skoðaði þetta svolítið í Risamálheildinni sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, nær öllum frá þessari öld.

Ég leitaði að samböndunum Ég er mikill ___maður og Ég er mikil ___manneskja þar sem ___ stendur fyrir hvaða fyrripart sem er, og skoðaði kyn mælandans – langoftast er hægt að komast að því með því að skoða textana sem dæmin eru úr. Til samanburðar skoðaði ég líka dæmi um Ég er mikill ___karl og Ég er mikil ___kona.

Setningar af þessu tagi eru heppilegar vegna þess að lýsingarorðið mikil(l) tryggir að í þeim felst oftast sjálfslýsing. Þarna er ekki um að ræða fastmótað starfs- eða hlutverksheiti eins og alþingismaður, sjómaður, formaður eða eitthvað slíkt, heldur mat fólks á dæmigerðum eiginleika sínum. Því eru þessi orð oft frekar sjaldgæf og jafnvel einnota.

Það reyndust vera 213 dæmi um Ég er mikill ___maður í safninu. Þar af var kona mælandi í 25 dæmum og af þeim voru 15 úr Alþingisræðum sem þó eru aðeins 13,5% af heildartextamagninu. Um sambandið Ég er mikil ___manneskja var 51 dæmi og kona mælandi í öllum tilvikum. Um Ég er mikil ___kona voru svo 24 dæmi en aðeins fjögur um Ég er mikill ___karl.

Það er athyglisvert að af þeim 25 dæmum um samsetningar með -maður sem konurnar notuðu voru 12 um orðið talsmaður og 7 um orðið stuðningsmaður. Þessi orð eru einmitt ódæmigerð fyrir orð í þessari setningagerð, a.m.k. talsmaður – tákna hlutverk fremur en vera sjálfslýsing. Að auki er ekki hægt að vera bara talsmaður eða stuðningsmaður, heldur verður eitthvað meira að fylgja.

Þetta sýnir glöggt að konur nota sjaldnast samsetningar með -maður þegar þær lýsa sjálfum sér. Ef við sleppum talsmaður og stuðningsmaður eru sex dæmi um að konur noti samsetningar með -maður, 51 dæmi um að konur noti samsetningar með -manneskja, og 21 dæmi um að konur noti samsetningar með -kona.

Samkvæmt þessu er maður ekki heppilegt sem kynhlutlaust orð – og manneskja ekki heldur.

Stjak, ýt og hrind

Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður er vel máli farinn og orðheppinn. Í handknattleikslýsingu í gær lýsti hann aðförum leikmanns þannig að þær væru „stjak meira en ýt og alls ekki hrind“. Þarna eru þrjú orð sem ég geri ráð fyrir að flestum þyki ókunnugleg – stjak, ýt og hrind. Þetta eru nafnorð, væntanlega hvorugkynsorð, og augljóslega leidd af sögnunum stjaka, ýta og hrinda.

Orðmyndun af þessu tagi, þar sem sögn er gerð að nafnorði með því að sleppa -a aftan af henni, er algeng í málinu þótt ekki sé alltaf augljóst hvort um slíka orðmyndun er að ræða eða hvort verið er að mynda sögn af nafnorði með því að bæta við -a. En nafnorð eins og grenj og klifr eru augljóslega leidd af sögnum. Þessi orðmyndun er líka algeng í óformlegu máli, t.d. í myndasögum – orð eins og hugs, roðn, grát, hneyksl o.m.fl.

Algengast er þó að nota viðskeyti í þessum tilgangi, t.d. -un eða -ing – orðin stjökun, ýting og hrinding eru öll til í málinu. Tvö þau fyrrnefndu eru vissulega sjaldgæf en öll eru þau í Íslenskri orðabók og skýrð hvert með öðru. Í DV 1981 segir t.d. „Þeir féllu um hvern annan þveran, ýmist með krampa af þreytu eða við minnstu stjökun“ og í Alþýðublaðinu 1973 segir „Eftir miklar ýfingar og ýtingar og tvær fundafrestanir brá ríkisstjórnin svo á það ráð að fresta afgreiðslu málsins“. Orðið hrinding er svo algengt að ástæðulaust er að taka dæmi um það.

En orðið stjak er þó ekki nýsmíði Einars Arnar. Það kemur t.d. fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og einhver dæmi má finna um það á tímarit.is, t.d. úr Þjóðólfi 1895: „Hélt hann sér mest innanborðs, því hann er orðinn maður háaldraður og vill sem mest leiða hjá sér stjak og óró.“ Einnig kemur orðið fyrir í Tölvuorðasafni.

Orðið ýt er líka til þótt það sé enn sjaldgæfara. Eina dæmi Ritmálssafns Orðabókar Háskólans er úr Sögu Reykjavíkurskóla eftir Heimi Þorleifsson þar sem vitnað er í fundabók íþróttafélagsins Kára í Menntaskólanum í Reykjavík 1908 um orðasmíð skólapilta í nýjum íþróttagreinum: „Í lyftingum er t.d. talað um „ýt, rykk og hnykk“ í staðinn fyrir snörun og pressu.“

Aftur á móti hef ég ekki fundið dæmi um orðið hrind, enda er hrinding miklu algengara og þekktara en bæði stjökun og ýting. Það er samt ekkert að orðinu hrind og þótt yfirleitt lægi vissulega beinna við að nota hið vel þekkta orð hrinding er hrind ekki óeðlilegt í framhaldi af stjak og ýt vegna þess að það er myndað á sama hátt.

Þótt gömul dæmi séu um orðin stjak og ýt í málinu veit ég ekki hvort Einar Örn þekkti þau – og finnst það raunar ólíklegt, miðað við hversu sjaldgæf þau eru. Mér finnst langlíklegast að hann hafi búið orðin stjak, ýt og hrind til á staðnum enda áttu þau miklu betur við í þessu samhengi en stjökun, ýting og hrinding. Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig frjó orðmyndun og leikur með málið getur lífgað upp á frásögn. Við megum ekki amast við rétt mynduðum orðum á þeim forsendum að þau séu „ekki til“.

Út í Hróa og hef ekki guðmund

Orðasambandið út í hött sem merkir 'fráleitt, út í bláinn' tíðkast a.m.k. síðan á 18. öld. Í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir: „Líkingin er óljós en hugsanlega merkir höttur hér 'fjallstindur' og bein merking væri þá 'svara út í fjallið' […]. Önnur og trúlegri er sú skýring að höttur merki hér 'himinn, loft' og samsvarar orðatiltækið þá hinu samræða orðatiltæki svara út í bláinn/loftið […].“ En fyrir nokkrum áratugum var farið að snúa út úr þessu orðasambandi og segja út í Hróa hött. Væntanlega hefur þetta verið gert bæði í gríni og til áhersluauka – það sem er út í Hróa hött er enn fráleitara en það sem er bara út í hött.

Elsta dæmið sem ég hef fundið um út í Hróa hött er í Helgarpóstinum 1982 og þar er meira að segja bætt enn í: „Þetta er allt út í Hróa hött og Marian, eins og Gulli myndi segja.“ Þetta er í kvikmyndagagnrýni eftir Árna Þórarinsson og má geta sér þess til að sá Gulli sem þarna er vitnað til sé Guðlaugur Bergmundsson sem einnig skrifaði kvikmyndagagnrýni í blaðið á þessum tíma, hvort sem hann er upphafsmaður sambandsins út í Hróa hött eða ekki. Þetta samband fór allavega á flug upp úr þessu en fljótlega kom einnig fram styttingin út í Hróa. Bæði þessi sambönd hafa verið notuð jöfnum höndum undanfarin 40 ár.

Í út í Hróa er hötturinn alveg dottinn út úr sambandinu og uppruni sambandsins í raun óskiljanlegur nema þeim sem þekkja söguna. Þarna er orðið til nýtt orðtak. Vegna þess að ég man eftir því þegar farið var að nota út í Hróa hött og út í Hróa tengi ég þetta alltaf við út í hött – en hvað með fólk sem er yngra og hefur alist upp við þessi sambönd? Lítur það á þau sem útúrsnúning eða sem fullgild orðtök, án þess að tengja þau nokkuð við upprunann? Ég veit það ekki, en það væri gaman að fá álit lesenda á því.

Í vangaveltum um þetta fór ég að hugsa um annan útúrsnúning – eða afbökun, ef fólk vill heldur nota það orð – á orðasambandi. Það er þegar sagt er ég hef ekki Guðmund um þetta í merkingunni 'ég veit ekkert um þetta'. Þetta hefur örugglega einnig orðið til í gríni og nokkuð augljóst að sambandið ég hef ekki hugmynd um þetta liggur að baki – þótt hljóðfræðilegur munur á hugmynd og Guðmund sé nokkur eru orðin samt nógu lík til að fólk áttar sig sennilega á merkingunni út frá aðstæðum, enda þótt það þekki ekki sambandið ég hef ekki Guðmund sem ég átta mig ekki á hversu útbreitt er.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta er í umræðu um tónlistarstefnur í Morgunblaðinu árið 2000: „Ég hef ekki Guðmund um hvort þetta er „house“ eða „garage“.“ Slæðingur af dæmum er um þetta á netinu, mörg skrifuð hef ekki guðmund sem gæti e.t.v. bent til þess að fólk væri hætt að tengja þetta við nafnið Guðmundur – og hugsanlega við hugmynd líka. Það er sem sé möguleiki að hef ekki guðmund sé orðið að orðtaki sem hefur merkingu sem heild í stað þess að merking þess sé samsett úr merkingu einstakra orða. Ég nota þetta oft sjálfur – áður fyrr sem meðvitað grín en nú held ég að ég noti það sem venjulegt mál við ýmsar aðstæður.

Þarna eru sem sé að verða til eða orðin til tvö ný orðtök – út í Hróa og hef ekki guðmund. Í umræðu um það fyrrnefnda sagði Jón G. Friðjónsson einu sinni: „Ég hef lengi látið útúrsnúninga af þessum toga fara í taugarnar á mér, tel að slík iðja sé til þess fallin að rugla málkennd ungu kynslóðarinnar.“ Ég skil þetta sjónarmið en er því algerlega ósammála. Ég held þvert á móti að nýsköpun af þessu tagi, leikur með tungumálið, sé til þess fallin að auka áhuga á íslenskunni meðal ungs fólks. Það er einmitt það sem hún þarf allra mest á að halda.

„Garðstígasetningar“

Mjög fjörug umræða skapaðist um setninguna Aðeins þeir sem þykja vænt um þig heyra þegar þú ert þögul sem var sett inn í Facebook-hópinn Málspjall og spurt hvort væri rétt. Ég svaraði því til (sem og fleiri) að þarna þyrfti að breyta þykja í þykir en að öðru leyti væri setningin málfræðilega rétt þótt vissulega megi deila um hversu lipur hún sé. En mörgum fannst að þarna ætti að vera Aðeins þeim sem þykir vænt um … vegna þess að þykja vænt um tekur þágufallsfrumlag – mér þykir vænt um þig.

En það sem þarna skiptir máli er að þykja vænt um er í tilvísunarsetningu og sögn tilvísunarsetningar getur ekki stjórnað falli á frumlagi aðalsetningarinnar. Hér er tilvísunarsetningin afmörkuð með hornklofum: Aðeins þeir [sem þykir vænt um þig] heyra þegar þú ert þögul. Ef tilvísunarsetningunni er sleppt stendur eftir Aðeins þeir heyra þegar þú ert þögul og þá kemur vel fram að það er sögnin heyra sem ræður fallinu á þeir.

Þetta er auðvelt að skýra með málfræðilegum rökum. En það táknar ekki að tilfinning þeirra sem vilja hafa Aðeins þeim … og láta þykja vænt um stýra fallinu sé röng. Hún er fullkomlega eðlileg og skiljanleg út frá því hvernig við túlkum setningar. Við bíðum ekki með túlkun setningar þangað til henni er lokið, heldur túlkum við hana smátt og smátt. Fyrsta sagnasambandið sem kemur á eftir nefnifallinu þeir er þykja vænt um sem við vitum að á að taka þágufallsfrumlag, og þess vegna flaggar málskynjun okkar á ósamræmi.

Þegar lengra er haldið kemur svo í ljós að þeir er ekki frumlag þykja vænt um heldur heyra sem tekur nefnifallsfrumlag. Það krefst þess að málskynjun okkar bakki og endurskoði upphaflega túlkun á setningunni – og það er ekki alltaf einfalt. Dæmi af þessu tagi eru mjög þekkt og kölluð „garden-path sentences“ á ensku eða „garðstígasetningar“ vegna þess að málskynjunin fer inn á einhvern „stíg“ sem leiðir okkur á villigötur. Þekktasta enska dæmið um þetta, sem er nefnt í ótal bókum, er The horse raced past the barn fell, en fleiri dæmi eru hér.

Menn og manneskjur

Af því að stundum er gagnrýnt að orðið manneskja sé notað þar sem sumum finnst að ætti fremur að nota maður er rétt að minna á að þetta er hvorki uppfinning femínista né Ríkisútvarpsins heldur var alsiða á 19. öld. Í Safni af íslenzkum orðskviðum, fornmælum, heilræðum, snilliyrðum, sannmælum og málsgreinum sem Guðmundur Jónsson prófastur tók saman og Bókmenntafélagið gaf út 1830 er m.a. að finna eftirfarandi (dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans):

 • Manneskjan er það stærsta furðuverk í heiminum.
 • Manneskjunnar vilji er hennar himnaríki, en verðr opt hennar helvíti.
 • Það er herligt að heita manneskja.
 • Þrællinn og herrann, þeir eru báðir manneskjur.

Hitt er annað mál að manneskja merkir ekki alltaf alveg það sama og maður. Þannig segir t.d. í Skuld 1878: „Og það er einmitt þetta, sem varðveitir manneskjuna í manninum, ef vér mættum svo segja.“ Lýsingarorðin mannlegur og manneskjulegur merkja ekki heldur það sama – í Skuld 1877 segir: „Mentunin […] er þroski og blómi ins manneskjulega í manninum.“ E.t.v. má segja að maður vísi til tegundarinnar, eða einstaklings af tegundinni, sem fyrirbæris en manneskja fremur til einstaklings sem er gæddur skynsemi og tilfinningum – mennsku. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvenær hvor merkingin eigi við, og hvort alltaf sé hægt að nota annað orðið í stað hins.

Gluggakistur og sólbekkir

Í Íslenskri orðabók er orðið gluggakista skýrt 'lárétt (tré)sylla innan við og undir glugga (í torfhúsi líkl. þiljað gluggagat innan glerglugga (á 19. öld))'. Seinni hluti skýringarinnar gefur vísbendingu um upprunann. Væntanlega hefur gluggakista upphaflega merkt allan rammann kringum gluggann. Ef hann er smíðaður á gólfi og liggur þar láréttur minnir hann á kistu. Þetta sést vel í gömlum dæmum um orðið. Í Atla eftir Björn Halldórsson, frá 1780, segir: „Þegar Menn eru nu komner 2 Al. haatt yfir Jardvegenn, med alla Bygginguna, þa eru Glugga-Kisturnar innsettar.“ Í Ísafold 1885 segir: „Slíkur vermireitur er þannig tilbúinn, að rekin er saman úr 8-10 þuml. breiðum borðum nokkurskonar gluggakista, sett í hana gler og síðan hvolft ofan yfir moldina.“

Svo er farið að tala um að eitthvað sé í gluggakistunni – „Tjald var dregið fyrir gluggann að innan, og blóm stóðu í gluggakistunni“ segir í Ísafold 1876. Þá er farið að skilja orðið svo að það vísi aðeins til lárétta hlutans, ekki rammans í heild. Einhver dæmi eru þó um annað langt fram á 20. öld. Í grein um gluggaþrif í Samvinnunni 1963 segir: „Þegar sú er viðhöfð, sem hér um ræðir, er gluggakistan þvegin fyrst, opnanleg fög og svo sólbekkurinn.“ Þarna er sem sé farið að tala um lárétta hlutann sem sólbekk. En það orð er eldra og var áður notað í annarri merkingu. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'Solbænk'. En solbænk í dönsku hefur ekkert með sól að gera heldur er ummyndun úr sålbænk sem merkir 'fremspring af mursten, cement, skiffer el.lign., anbragt udvendig under et vindues underkarm for at lede regnvand væk fra muren' og er komið af Sohlbank í þýsku en Sohl merkir 'grunnur, undirlag'. Þetta er sem sé það sem heitir nú vatnsbretti og er utan við gluggann en ekki inni.

Það er ljóst að framan af var orðið sólbekkur notað í þessari merkingu. Í Tímariti iðnaðarmanna 1928 segir t.d.: „Þegar steypt er upp að gluggunum, mun best að láta vanta til sem nemur breidd járnvinkilsins, en fylla það síðar, um leið og múrbríkin er steypt að utanverðu (sólbekkurinn).“ Orðið var þó aldrei algengt í þessari merkingu og um eða upp úr miðri öldinni virðist merkingin breytast eins og sést glöggt á dæmi úr Sunnudagsblaðinu 1960: „Máninn var kominn upp og lýsti upp hallandi sólbekkinn innan við gluggann.“ Stundum virðist hafa verið gerður sá greinarmunur að gluggakista sé lárétti hluti gluggarammans að neðan, en sólbekkur plata eða bretti sem lagt er þar ofan á. Þetta sést á dæmi úr Tímanum 1961 þar sem steinsmiður er spurður hvað hann smíði helst og svarar: „Til dæmis sólbekki í gluggakistur og alls konar plötur innanhúss.“ En í Tímanum 1967 er trésmiður spurður um helstu verkefni sín og svarar: „Það eru aðallega eldhúsinnréttingar, en svo einnig skápar og sólbekkir, eða gluggakistur.“ Þarna er talin ástæða til að útskýra hvað sólbekkir séu.

Sprenging verður svo í notkun orðsins um miðjan sjöunda áratuginn. Í gamansamri grein í Vikunni 1968 segir: „Gluggakisturnar – fyrirgefið mér, að ég skuli óvart nota svona sveitalegt orð, sólbekkirnir, vildi ég sagt hafa.“ En um svipað leyti er líka farið að nota sólbekkur í merkingunni 'bekkur til að liggja á í sólbaði' eins og sá sem auglýstur er í Morgunblaðinu 1966 og sagður „Mjög léttur og þægilegur með hæðarstillingu.“ Enn seinna var farið að nota orðið í merkingunni 'ljósabekkur' – „Þú verður fallega brún(n) á 10 tímum í Super-Sun sólbekknum“ var auglýst í Dagblaðinu 1980. Það er því ljóst að þótt gluggakista og sólbekkur séu iðulega samheiti í nútímamáli væri það mikil einföldun að líta svo á að þar með væri málið afgreitt.

Breytt fallstjórn er engin málspjöll

Meðal þeirra tilbrigða í máli sem fólk ergir sig stundum yfir er breytt fallstjórn sagna. Þetta er ekki nýtt – ég rakst á ýmis forvitnileg dæmi í grein frá 1942:

„Þá tala menn um að pakka einhverju inn, í stað þess að pakka eitthvað inn. […] Þá er sagt, að nú þurfi að vökva blómunum, vökva görðunum, í stað þess að segja: að vökva blómin, vökva garðana [...]. Menn tala og um að [...] framlengja víxlinum, í stað þess að framlengja víxillinn. […] Í einu Reykjavíkurblaðanna var […] komizt svo að orði: „Fleiri mörkum var ekki skorað“, í stað: Fleiri mörk voru ekki skoruð. (Skora það, markið, ekki að skora því, markinu).“

„Ýmsir munu ef til vill ætla, að það séu aðeins fáeinir svonefndir almúgamenn, sem haga svo málfari sínu, er hér hefur verið frá skýrt, en svo er ekki. Menntamenn vorir eru margir á sömu braut. [...] Ágætur íslenzkumaður skrifar í grein einni að flokka þeim saman m. ö. orðum hann lætur sögnina flokka taka með sér þágufall í stað þolfalls, talar um að flokka einhverju, í stað þess að flokka eitthvað. [...] Fyrir svo sem tug ára mundi engum íslenzkumanni hafa dottið þetta í hug.“

Þarna kennir ýmissa grasa. Ég hef aldrei heyrt þolfall með pakka inn og Sigfús Blöndal gefur sögnina upp með þágufalli í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þannig að það hefur a.m.k. ekki verið nýjung þegar greinin var skrifuð. Aftur á móti kannast ég ekki við þágufall í dæmum eins og skora mörkum og finn ekki önnur dæmi um það en það sem greinarhöfundur vísar til. En í fornu máli og fram á 20. öld var notað þágufall í sambandinu skora einhverjum á hólm og gæti það hugsanlega haft áhrif þarna. Nú er alltaf notað þolfall í því sambandi og aldrei kallað málspjöll.

Ég kannast ekki heldur við þágufall með flokka, en þrátt fyrir það sem greinarhöfundur segir er það engin nýjung. Ég finn nokkur dæmi um það frá 19. öld, það elsta frá 1877, og vel fram á 20. öld. Ég hef ekki heldur heyrt þágufall með vökva en það virðist þó hafa tíðkast fyrir hundrað árum – Sigfús Blöndal gefur sögnina upp með bæði þolfalli og þágufalli og tekur dæmið vökva blóm(um). Aftur á móti er þágufall með framlengja vel þekkt og iðulega amast við því. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er frá 1928.

En þótt þágufall sé ekki notað nú með flokka og vökva, svo að ég viti, ætti sú fallnotkun ekki að koma á óvart. Eðlilegt er að tengja vökva við sagnir eins og brynna og vatna sem báðar taka þágufall. Það er kannski svolítið langsóttara með flokka en þó væri hægt að tengja hana við raða eða skipa (í flokka) sem báðar taka þágufall, eða eitthvað slíkt. Sambærileg skýring á þágufallinu með framlengja liggur ekki eins í augum uppi en hún er samt örugglega til.

Það er nefnilega ekki þannig að slíkar breytingar á fallstjórn stafi af því að um „almúgamenn“ sé að ræða, eða þær megi rekja til fávisku, menntunarskorts, greindarskorts, lítillar námsgetu, eða hreinlega leti. Þvert á móti. Breytingarnar sýna að málnotendur eru að leita – leita að samræmi, leita að fyrirmyndum, leita að kerfi. Við eigum ekki að amast við því þótt sú leit leiði stundum til annarrar niðurstöðu en hjá okkur – fjöldi sagna hefur breytt um fallstjórn frá fornu máli. Við eigum að gleðjast yfir því að þetta sýnir að tungumálið er lifandi og málkerfi fólks virkar. Ef það er ekki fagnaðarefni veit ég ekki hvað það er.

kórrétt - kórvilla

Lýsingarorðið kórrétt er ekki gamalt í íslensku og tvær heimildir eigna það Þórbergi Þórðarsyni; Matthías Johannessen í Morgunblaðinu 1965: „Man ég í svipinn eftir orðinu kórrétt sem Þórbergur bjó til úr ensku: correct“, og Halldór Laxness, skv. Peter Hallberg í Tímariti Máls og menningar 1968: „lýsingarorðið mun vera dálítið spaugileg heimatilbúin íslenzk mynd af correct, gerð af Þórbergi Þórðarsyni (skv. bréfi H.K.L. til P.H. dags. 2/10 1966)“. Málfarsbankinn segir reyndar „Líklega er orðið kórréttur komið úr dönsku, korrekt“ en Þórbergur gæti auðvitað eins hafa haft dönskuna sem fyrirmynd. Elstu dæmi um orðið, bæði á tímarit.is og í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru frá 1960.

En út frá þessu fór ég að hugsa um nafnorðið kórvilla. Það er töluvert eldra – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1888 og allnokkur dæmi eru um það frá síðasta áratug 19. aldar. Það kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og er þar skýrt 'Hovedfejl, stor Fejl, Grundfejl' sem er sú merking sem það virðist alltaf hafa haft. En orðabækur virðast vera þögular um uppruna orðsins – það kemur ekki fyrir í Íslenskri orðsifjabók. Mér finnst freistandi að ímynda sér að það séu einhver tengsl milli kórrétt og kórvilla en sé ekki hver þau gætu verið – nema Þórbergur hafi haft kórvilla í huga þegar hann tók correct/korrekt inn í íslensku í myndinni kórrétt.

Íslenska og útlendingar - einu sinni enn

Í dag sá ég einu sinni sem oftar umræðu á Facebook um framkomu Íslendinga við erlent afgreiðslufólk. Og eins og vanalega voru skiptar skoðanir - sumum fannst óþolandi að þessu fólki væri sýndur dónaskapur fyrir að tala ekki íslensku en öðrum fannst óþolandi að fólkið skyldi ekki tala íslensku. Ég skil bæði sjónarmiðin en á þessu máli eru auðvitað tvær hliðar.

Ég get alveg tekið undir það að það er eðlilegt að ætlast til þess að geta fengið afgreiðslu á íslensku á Íslandi. Íslenska er opinbert tungumál landsins og alls ekki allir sem treysta sér til að tala ensku. Það er líka sjálfsagt að byrja alltaf að tala íslensku við afgreiðslufólk og halda því áfram ef fólkið vill greinilega reyna að skilja okkur - og aðstoða við skilninginn eftir mætti. Það er forsenda fyrir því að fólk læri málið.

En það er algerlega óþolandi dónaskapur að skamma fólk eða hreyta ónotum í það fyrir að tala ekki íslensku. Það er ekki á ábyrgð fólksins sjálfs, heldur atvinnurekenda. Fólkið hefur verið ráðið í vinnu án þess að krafa væri gerð um íslenskukunnáttu. Það er á ábyrgð atvinnurekenda að kenna starfsfólki sínu það sem þarf til að það geti sinnt því starfi sem það er ráðið til á sómasamlegan hátt, hvort sem er að kenna því á kassann, ísvélina, lattegerð, eða grunnorðaforða í íslensku.

Stundum er sagt að erlent starfsfólk hafi ekki áhuga á að læra íslensku jafnvel þótt það standi til boða. Ég skal ekki fullyrða neitt um það, en sé það rétt þarf svo sem ekkert að furða sig á því. Þótt íslenska sé ekki með erfiðustu málum eins og oft er haldið fram er íslenskunám erfitt og tímafrekt, ekki síst fyrir fólk sem á gerólíkt tungumál að móðurmáli. Það er varla við því að búast að fólk bæti því ofan á langan vinnudag.

Það er oft bent á að víða annars staðar dytti engum í hug að ráða fólk til afgreiðslustarfa án þess að það kynni tungumál heimafólks, og óskiljanlegt sé hvers vegna sama regla geti ekki gilt hér. En þetta er ekki sanngjarn samanburður. Enska er lykill að heiminum, og mörg önnur tungumál - í raun flest önnur Evrópumál en íslenska - eru lykill að menningu og vinnumarkaði tugmilljóna samfélaga. En íslenska er gagnslaus nema í 370 þúsund manna samfélagi.

Það er eðlilegt að fólk sem kemur hingað til að vinna og er ekki ákveðið í því að ílendast hiki við að verja miklum tíma og orku í að læra mál sem nýtist því hvergi annars staðar - vitandi að í næstu kreppu verður það kannski óþarft á Íslandi og vísað á dyr. Það er eðlilegt að það vilji frekar læra og nota ensku sem gagnast því víðast hvar, sérstaklega þar sem við höfum ekki metnað til að hafa íslenskuna alls staðar í öndvegi á Íslandi.

Grundvallaratriðið er að við verðum að gera betur. Við verðum að bæta aðgengi að íslenskukennslu og gera fólki kleift að læra íslensku í vinnutímanum, og hvetja það til þess. Við þurfum líka að þróa starfstengd stutt íslenskunámskeið þar sem fólk lærir grundvallarorðaforða á starfssviði sínu en er ekki endilega að beygja nafnorð í öllum föllum eða læra viðtengingarhátt þátíðar.

En fyrst og fremst þurfum við að breyta viðhorfi okkar. Við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslensku, hversu ófullkomin sem okkur kann að finnast hún, og alls ekki láta skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki á nokkurn hátt. Það stuðlar bara að því að fæla fólk frá íslenskunámi og leiðir til þess að hér verða til stórir hópar fólks sem kunna ekki íslensku og einangrast. Það er stórhættulegt, bæði fyrir íslenskuna og fyrir lýðræði í landinu.

Íslenska í stjórnarsáttmála

Ég var að skoða stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Hér er ekki vettvangur til að segja skoðun á honum í heild en ég staldraði við það sem ég fann um íslensku, íslenskt táknmál og máltækni:

 • Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar. Sérstök áhersla verður lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði af nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu.
 • Huga þarf að eflingu íslenskukennslu fyrir alla kennaranema í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu.
 • Þá verður áfram unnið að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
 • Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.
 • Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.
 • Mörkuð verður stefna um íslenskt táknmál með sérstakri áherslu á málumhverfi táknmálstalandi barna og námsefni á leik- og grunnskólastigi.
 • Markáætlun um samfélagslegar áskoranir á sviði máltækni, umhverfismála og sjálfbærni, tæknibreytinga á vinnumarkaði og heilbrigðisvísinda verður framhaldið allt kjörtímabilið.
 • Áfram verður markvisst unnið að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Það er ástæða til að fagna þessum áformum. Nú er bara að vona að við þetta verði staðið.