Category: Málfar

Að sigra leikinn

Eins og ég ýjaði að í fyrri pistli verður sögnin sigra mörgum að fótakefli. Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki „sigra leik“. Hins vegar er talað um að vinna leik.“ Ástæðan fyrir því að það er tekið sérstaklega fram að ekki eigi að tala um að sigra leik er auðvitað sú að það tíðkast í málinu – annars væri ástæðulaust að vara við því. Okkur hefur samt verið kennt hvernig þetta eigi að vera – eða reynt að kenna, þótt deila megi um árangurinn.

Sambandið sigra í einhverju leik/keppni/baráttu/orustu/kosningum o.s.frv. – virðist ekki vera ýkja gamalt. Ég finn engin dæmi um það í fornu máli, og raunar er elsta dæmið sem ég hef rekist á í Nýjum félagsritum 1872, þar sem segir: „en það er einnig ánægjulegt að vita, að Íslendíngar eru farnir að vinna sigur á stundum, og að heyra, hversu heppilega tókst að sigra í þessari orustu.“ Elsta dæmi um sigra í kosningum er frá 1901, það elsta um sigra í leik frá 1927, og um sigra í keppni frá 1934. Elstu dæmi um að sigra taki andlag í þessari merkingu eru ekki mikið yngri. Það elsta um sigra kosningar er frá 1919, um sigra keppni frá 1945, og sigra leik frá 1946.

Þegar leitað er að þessum samböndum á tímarit.is kemur í ljóst að talsvert er um sigra X þótt dæmin um sigra í X séu vissulega margfalt fleiri. Þannig er hlutfallið milli sigra leikinn og sigra í leiknum u.þ.b. 1:8, milli sigra keppnina og sigra í keppninni rúmlega 1:7, og milli sigra kosningarnar og sigra í kosningunum 1:16. Alls eru um 600 dæmi um sigra með þessum þremur andlögum. Það er athyglisvert vegna þess að textar á tímarit.is eru yfirleitt prófarkalesnir, og þar eð þessi sambönd hafa verið talin rangt mál hefði mátt búast við að þeim hefði verið breytt.

Allt önnur mynd blasir við þegar þessi sambönd eru skoðuð í Risamálheildinni 2019, sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, flestum frá síðustu áratugum. Þar eru 786 dæmi um sigra leikinn en 247 um sigra í leiknum, 500 um sigra keppnina en 697 um sigra í keppninni, og 119 um sigra kosningarnar en 467 um sigra í kosningunum. Samtals eru því nánast nákvæmlega jafnmörg dæmi um þessi sambönd með andlagi (1405) og með forsetningarlið (1411). Munurinn á kosningum og hinum tveimur andlögunum er athyglisverður og sýnir að notkun sigra með andlagi er langalgengust í íþróttamáli.

Þótt ekki sé viðurkennt að tala um að sigra leik tekur sögnin sigra andlag þegar rætt er um að sigra andstæðing og er nánast samheiti við sögnina vinna, sem tekur andlag hvort sem rætt er um að vinna andstæðing eða vinna leik eins og fram kemur í tilvitnuninni í Málfarsbankann hér að framan. Það er auðvitað ekkert undarlegt að fólk hafi tilhneigingu til að yfirfæra hegðun vinna á sigra og nota andlag með sigra í þessum samböndum. En er einhver ástæða til að amast við því?

Eins og áður segir koma sambönd eins og sigra í X ekki fyrir í fornu máli og eru í raun litlu eldri en sigra X og sá aldursmunur dugir varla til að útskúfa þeim síðarnefndu – það var ekki komin löng hefð á sigra í X þegar sigra X kom upp. Það er líka ljóst af dæmafjöldanum af tímarit.is og sérstaklega úr Risamálheildinni að notkun sambandanna sigra X er mjög útbreidd. Rétt er að hafa í huga að hlutfall dæma um afbrigði sem talin eru röng er nánast örugglega mun lægra í prentuðum textum en í daglegu máli.

Það er sem sé enginn vafi á því að sigra leikinn er málvenja verulegs hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á réttu máli og röngu, „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“, er þetta án nokkurs vafa rétt mál. Mér er ómögulegt að sjá rökin fyrir því að bæði vinna andstæðinginn og vinna leikinn sé gott og gilt, en aðeins sigra andstæðinginn, ekki sigra leikinn. Einu rökin sem hægt væri að færa fram gegn sigra leikinn eru þau sem ég nefndi í fyrri pistli: „Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.“

Ég sé samt ekki að það sé í þágu málræktar að berja hausnum við steininn með þetta og held því fram að sigra leikinn sé ótvírætt rétt íslenska.

Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt að það sé rangt

Hér á heimasíðu minni og á Facebook hef ég iðulega haldið fram skoðunum sem ganga í berhögg við það sem talið hefur verið „rétt mál“. Þannig hef ég sagt að brauðrist megi alveg heita ristavél, það sé í góðu lagi að fara erlendis, spá í einhverju og auglýsa nýslátrað lambakjöt, segja mér langar, og ég veit ekki hvað og hvað. Ég tel mig hafa fært góð rök fyrir þessum skoðunum og stend við þær, en auðvitað getur fólk haft aðra sýn á málin – fundist rök mín léttvæg eða villandi, eða talið mig draga rangar ályktanir af þeim. Ég geri ekki athugasemd við það.

Í umfjöllun um þessi atriði hef ég hins vegar litið fram hjá einni röksemd sem mætti beita gegn mér og þeim tilbrigðum sem ég vil samþykkja. Ég hef svo sem hvergi séð þá röksemd orðaða beint, en held að hún sé mjög oft undirliggjandi hjá þeim sem amast við málbreytingum. Hana mætti orða svona:

Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Í fljótu bragði gæti þetta kannski virst léttvæg röksemd – eða rökleysa, eftir því hvernig við lítum á málið. Vitanlega réttlætir það ekki vitleysu að hún hafi lengi verið höfð fyrir satt. Ef það sannast að maður sem hefur verið dæmdur fyrir glæp og setið lengi í fangelsi er saklaus er hann ekki látinn sitja áfram inni – með þeim rökum að hann hafi setið svo lengi inni að ástæðulaust sé að sleppa honum þótt sakleysi hans sé sannað.

En þetta er annars eðlis. Það má vel halda því fram að mikilvægt sé að festa ríki í málsamfélaginu og ekki sé hringlað með viðmið. Ef búið er að kenna áratugum saman að eitthvað sé rangt – þrátt fyrir að það sé eðlilegt málfar fjölda málnotenda – geti skapast óreiða og lausung í málinu ef það er allt í einu viðurkennt sem rétt mál. Þetta valdi vandræðum í kennslu og ýti undir þá hugmynd að það sé alveg sama hvernig fólk tali og skrifi.

Þetta er sjónarmið mjög margra og ég tek það alvarlega og ber virðingu fyrir því. En ég held að það sé rangt. Ég held þvert á móti að einstrengingslegt bann við tilbrigðum sem verulegur hluti – jafnvel meirihluti – málnotenda elst upp við og notar í daglegu lífi sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óreiðu í málnotkun en viðurkenning þessara tilbrigða.

Það er hins vegar annað sem þarf að hafa í huga ef viðmiðum er breytt og farið að viðurkenna eitthvað sem áður hefur verið talið rangt. Við erum nefnilega föst í því, mörg hver (ég ekki undanskilinn), að dæma fólk eftir málfari – eftir því hversu vel það fylgir þeim viðmiðum sem hafa verið notuð um rétt og rangt. Þótt þeim viðmiðum væri breytt leiðir það ekki sjálfkrafa og umsvifalaust til breytingar á viðhorfi okkar til tilbrigðanna – og fólksins sem notar þau.

Við þurfum að þora að breyta stefnunni – viðurkenna tilbrigði sem eiga sér langa sögu og eru útbreidd í málinu. Það er engin uppgjöf. En við þurfum ekki síður að hætta að dæma fólk eftir málfari, hvað þá að tengja málfar við andlegt eða líkamlegt atgervi fólks. Mismunun eftir málfari er engu betri en mismunun eftir kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð o.s.frv.

Ég er á sextugnum

Það var hringt í mig frá Reykjavík síðdegis á Bylgjunni til að ræða um þá íslensku málvenju sem fólk er óánægðast með, að sögn umsjónarmanna þáttarins – sem sé, að fólk milli þrítugs og fertugs er á fertugsaldri o.s.frv. Mörgum finnst að með þessu sé verið að gera fólk eldra en það er og bera þetta saman við t.d. ensku þar sem fólk á þessum aldri er in his/her thirties, eða dönsku þar sem fólk er i trediverne.

Ég benti á að það væri meira en að segja það að breyta svona málvenjum. Ef við hugsuðum okkur að þetta breyttist, þannig að á fertugsaldri færi að merkja aldurinn milli fertugs og fimmtugs, þá gæti það vissulega gengið þegar breytingin væri afstaðin, en meðan hún væri að ganga yfir (og það gæti tekið langan tíma) yrði þetta endalaus ruglingur – við myndum aldrei vita hvort verið væri að nota orðin í "gömlu" eða "nýju" merkingunni.

Eina leiðin út úr þessu væri því að taka upp ný orð sem kæmu í stað þeirra sem við notum nú. Ég nefndi að hugsanlegt væri að nota lýsingarorðin tvítugurþrítugur o.s.frv. sem nafnorð – segja Ég er á tvítugnum/þrítugnum o.s.frv. Það getur vel verið að það hafi verið stungið upp á þessu áður þótt ég muni ekki eftir því. Samkvæmt þessu væri ég núna á sextugnum í stað þess að vera á sjötugsaldri – ég gæti alveg fellt mig við það.

Að fagna sigri og tryggja sér sigur

Sumarið 1984 sá ég um þáttinn Daglegt mál í útvarpinu um tveggja mánaða skeið. Meðal þess sem ég tók þar fyrir var sambandið tryggja sér sigur. Ég sagði:

„Í staðinn fyrir að segja Akurnesingar unnu leikinn eða mótið er sagt Akurnesingar tryggðu sér sigur; þessi og þessi tryggir sér annað sætið í keppninni í stað þess að ná öðru sætihreppa annað sæti, eða jafnvel hafna í öðru sæti. Þetta orðaval getur vissulega átt rétt á sér, en í flestum tilvikum er það óþarfa málalengingar, og verður leiðigjarnt þegar það er jafnmikið notað og raun ber vitni.

Þar að auki er notkun sagnarinnar tryggja í þessum samböndum stundum nokkuð á skjön við þá merkingu sem gefin er upp í orðabókum. Tryggja einhverjum eitthvað er skýrt svo: 'ganga örugglega frá því að einhver fái eitthvað'. Það er hæpið að mark skorað löngu áður en leik lýkur tryggi liðinu sem skorar sigur, því að alltaf er a.m.k. fræðilegur möguleiki að hitt liðið jafni eða komist yfir. Sigurinn er ekki tryggur fyrr en leiknum er lokið.“

Elstu dæmi sem ég finn um tryggja sér sigur eru rúmlega aldargömul en orðalagið virðist ekki verða algengt fyrr en undir miðja síðustu öld. Í flestum eða öllum eldri dæmunum virðist merking sambandsins falla að orðabókarskilgreiningunni. Þannig segir t.d. í Morgunblaðinu 1953: „Friðrik Ólafsson hefir tryggt sér sigur í landsliðsflokki á norræna skákmeistaramótinu.“ Í fréttinni kemur fram að ein umferð er eftir af mótinu, þannig að ekki er enn eðlilegt að segja að Friðrik hafi sigrað í því – en hann hefur tryggt sér sigurinn.

Sambandið tryggja sér sigur er vissulega oft – og kannski – oftast – notað í þessari merkingu enn, en töluvert er þó um þá notkun sem ég gerði athugasemdir við fyrir hátt í 40 árum. Þannig segir í Morgunblaðinu 2013: „Þessar fjórar þjóðir tryggðu sér sigur í sínum riðlum“ – þótt riðlakeppninni sé lokið og eins hefði verið hægt að segja Þessar fjórar þjóðir sigruðu í sínum riðlum.

Í þessu sambandi má nefna annað svipað samband – fagna sigri. Í síðustu viku heyrði ég í útvarpsfréttum umfjöllun um Íslandsmótið í golfi, þar sem m.a. var sagt frá sigurvegurum síðasta árs. Þar var hvað eftir annað sagt að þessi og þessi hefði fagnað sigri. Nú er ekki ástæða til að efast um að sigurvegararnir hafi fagnað titlum sínum, en þarna var samt augljóslega verið að vísa til sigursins, ekki fagnaðarins.

Þegar dæmi um þetta samband eru skoðuð á tímarit.is er augljóst að lengi framan af er verið að tala um fagnaðinn. En um 1980 er notkun sambandsins til að vísa til sigursins greinilega komin upp, eins og sést á þessu dæmi úr Dagblaðinu frá því ári: „það sýna undarfarnir leikir ótvírætt og einnig leikurinn við ÍR, þótt UMFN tækist ekki að fagna sigri“. Hér er varla vafi á því að fagna sigri merkir einfaldlega 'sigra'. Þessi notkun eykst verulega eftir 1990 ásamt því að fjöldi dæma um sambandið margfaldast.

Það er auðvitað engin ástæða til að amast við orðasamböndunum tryggja sér sigur og fagna sigri. En það er samt rétt að íhuga hvort ekki sé betra að binda notkun þeirra við upphaflega merkingu og nota einfaldlega sögnina sigra þar sem hún á við. En kannski eru það einmitt ákveðin atriði í meðferð þeirrar sagnar sem ýta undir það að margumrædd sambönd séu notuð í hennar stað.

Evrópska meginlandið

Í hádegisfréttum útvarpsins var sagt að von væri á hitabylgju á vesturhluta evrópska meginlandsins. Þetta er auðvitað íslenska og fráleitt væri að kalla þetta rangt mál. En þetta er ekki hefðbundið íslenskt orðalag. Venja er að tala um meginland Evrópu en ekki evrópska meginlandið. Á tímarit.is eru hátt í 15 þúsund dæmi um fyrrnefnda orðalagið, þau elstu frá miðri 19. öld, en aðeins 42 dæmi um það síðarnefnda.

Á ensku er talað um the European continent og trúlegt að það sé (ómeðvituð) fyrirmynd þess að tala um evrópska meginlandið. Ensk áhrif á íslensku koma ekki síst fram á þennan hátt og fólk tekur oft ekki eftir þessu vegna þess að orðin eru íslensk og ekki brotið gegn neinum reglum eða hefðum í beygingum eða setningagerð. Það er bara ekki venja að orða þetta svona á íslensku.

Það væri vissulega ekkert stórslys þótt þetta orðalag ryddi sér til rúms. En almennt séð finnst mér æskilegt að virða íslenska málhefð um þau atriði sem hún nær til. Þarna höfum við orðalag sem löng hefð er fyrir og eðlilegt að nota það áfram.

Óboðleg umræða

Oft hefur mér ofboðið umræðan í Málvöndunarþættinum á Facebook – hneykslunin, hrokinn, umvöndunin, yfirlætið, orðfærið, dónaskapurinn, meinfýsnin, illgirnin – en aldrei sem nú. Tilefnið var viðtal við menntamálaráðherra í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hún sagði „skólanir“ – án „r“. Þetta er reyndar ekkert einsdæmi – þótt lítið hafi verið skrifað um þennan framburð hefur lengi verið vitað að hann er til og hefur helst verið tengdur við Suðurland, einkum Árnessýslu.

Þetta er sem sé engin nýjung og engar líkur á að menntamálaráðherra hafi tekið þennan framburð upp hjá sjálfri sér. En það er vissulega rétt að fáir virðast þekkja þennan framburð og því ekkert undarlegt að fólk taki eftir honum og spyrjist fyrir um hann. Það er ekki heldur neitt undarlegt að fólk sem ekki þekkir framburðinn telji hann rangan. Við erum ansi föst í því að íslenskan sé og eigi að vera eins og við ólumst upp við hana – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera.

En það sem gekk fram af mér að þessu sinni var orðfærið í umræðunni. Þar komu meðal annars fyrir eftirfarandi setningar og setningabrot:

 • „ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“
 • „linmælgi“
 • „skrítið að heyra þetta latmæli“
 • „hefur ekki þótt til fyrirmyndar“
 • „mjög sorglegt að menntamálaráðherra skuli ekki tala betri íslensku“
 • „snilld að hafa menntamálaráðherra sem er ekki talandi á eigin tungu“
 • „kann ekki að bera fram réttilega“
 • „svona mannvitsbrekkur eru við stjórnvölinn í menntamálum þjóðarinnar“
 • „lágmarks krafa til menntamálaráðherra að […] hún […] sé þokkalega talandi á íslenska tungu“
 • „bull og getuleysi“
 • „talkennarar og skólar […] hafa lausnir við svona málhelti“
 • „frammistaða nefnds menntamálaráðherra […] öfugþróun en ekki þróun“
 • „ambögur og málhelti“
 • „ekkert til sóma“
 • „ofreyni sig við að reyna að vanda sig“
 • „mögulegt að tunguhaft valdi þessum framburði hjá ráðherranum“
 • „menntamálaráðherra þjóðarinnar er ótalandi á eigin tungu“
 • „afleitt að vera svona linmælt“
 • „klúðra svona feitt“
 • „linmælið er ekkert nýtt vandamál“
 • „ráðherramállýska“
 • „of ung til að valda embættinu“
 • „stressast svona og gengur í barndóm þegar hún talar“
 • „þennan sérstæða menntamálaráðherraframburð“
 • „hræðilegt að heyra“

Mér finnst yfirgengilegt að fólk skuli viðhafa svona tal um tilgreinda manneskju – jafnvel þótt menntamálaráðherra sé opinber persóna og þurfi vitanlega að þola gagnrýni. En þetta á ekkert skylt við málefnalega gagnrýni. Þetta er dónaskapur og persónuníð sem ekki á að líðast í opinberri umræðu. Og þetta á ekki heldur neitt skylt við málvöndun. Dettur virkilega einhverjum í hug að umræða af þessu tagi sé íslenskri tungu til framdráttar?

Móðurmál okkar getur ekki verið rangt

Í mínum fórum er afmæliskort sem Sverrir ömmubróðir minn sendi systur sinni á 15 ára afmæli hennar 1. júní 1921. Það er reyndar ljóst af rithöndinni að Sverrir skrifar þetta ekki sjálfur (hann var þarna tæpra 13 ára) heldur móðir þeirra systkina.


Takið eftir því að þarna stendur „frá Sverrir bróðir“ en ekki „Sverri bróður"eins og nú er kennt. Það kemur ekki á óvart – þetta var almennt mál á þessum tíma og flest eða allt fullorðið fólk sem ég ólst upp með talaði þannig. Því fór þó fjarri að það fólk væri einhverjir málsóðar. Valgerður langamma mín, sem skrifaði á kortið, var einstaklega ritfær og vel máli farin ef dæma má af þeim fáu bréfum hennar sem hafa varðveist.

Þetta fólk talaði ekki rangt mál. Það var alið upp við þessa beygingu. Hún var eðlilegt mál þess. Það er gersamlega fráleitt að kalla þessa beygingu ranga í máli þeirra sem hafa alist upp við hana. Og sama gildir um önnur tilbrigði í máli. Sú íslenska sem við ölumst upp við er okkar mál og aðrir eru ekki þess umkomnir að segja okkur að það sé rangt.

Fjörug umræða um hljóðmyndun

Fyrir tæpum hálfum mánuði var sett inn áhugaverð fyrirspurn í hópinn Skemmtileg íslensk orð á Facebook þar sem forvitnast var um hvoru megin loftstraumurinn kæmi hjá fólki við myndun [l]-hljóðsins í orði eins og fjall. [l] er hliðarhljóð sem er myndað þannig að tungan lokar fyrir loftstrauminn við tannbergið (aftan við framtennurnar að ofan) en loftinu er hleypt út meðfram hlið tungunnar. Talið er algengast að loftstraumurinn fari hægra megin (sjá ör á mynd), en þó fer hann vinstra megin hjá sumum og jafnvel er til að hann fari báðum megin, einkum í órödduðu [l]-hljóði (eins og t.d. í piltur). Þetta hefur þó aldrei verið rannsakað í íslensku.


Þegar ég sá hversu mikil viðbrögð þessi fyrirspurn fékk þótt hún ætti svo sem ekki beinlínis heima í þessum hópi datt mér í hug að setja þar inn aðra hliðstæða – hvernig fólk myndaði [s]-hljóðið í orði eins og lesa. Það er nefnilega hægt að mynda það á tvo vegu – annaðhvort með tungubroddinn upp við tannbergið bak við framtennur að ofan (sjá mynd vinstra megin) eða sveigðan niður bak við framtennur að neðan (sjá mynd hægra megin). Hlutföllin milli aðferðanna hafa ekki verið rannsökuð en óformlegar athuganir benda til þess að u.þ.b. 3/5 málnotenda noti fyrrnefndu aðferðina.


Alls komu 236 andsvör við fyrri fyrirspurninni en 162 við þeirri seinni. Það er alls ekki einfalt að átta sig á eigin hljóðmyndun og því er í raun stórmerkilegt að fá svo mörg svör við fyrirspurnum um slík efni – og það á vettvangi sem er ætlaður fyrir umræður um orð en ekki hljóðfræði. En þetta sýnir hvað fólk er áhugasamt um tungumálið og til í að velta því fyrir sér og taka þátt í umræðum um það.

Það er mikilvægt að hafa í huga að í hvorugu tilvikinu er til einhver „rétt“ eða „viðurkennd“ leið við hljóðmyndunina. Fólki hefur aldrei verið sagt að það eigi að láta loftstrauminn koma hægra megin í [l] eða hafa tunguna uppi við tannbergið í [s]. Þess vegna er hægt að ræða þetta frjálst án þess að fólk sé fast í einhverjum boðum eða fordómum. Það er miklu skemmtilegra að ræða hvernig tungumálið er en hvernig það ætti að vera.

Hugbúnaður á íslensku

Eftir að einkatölvuvæðingin hófst upp úr 1980 voru nokkur frumstæð ritvinnslukerfi notuð fyrstu árin. Þau voru flest eða öll á íslensku – það þótti sjálfsagt og eðlilegt á þeim tíma. Árið 1986 tók ég þátt í að þýða ritvinnslukerfið WordPerfect (útgáfu 4.1). Það var mun fullkomnara en önnur kerfi sem þá voru í boði og náði um tíma yfirburðastöðu á markaðnum, ekki síst í krafti þess að vera á íslensku. Stýrikerfi Macintosh-tölva var líka á íslensku á þessum tíma og lengi eftir það.

Upp úr 1990 kom svo Windows-stýrikerfið og hugbúnaður tengdur því – Word, Excel o.fl. Þessi kerfi voru ekki þýdd framan af og á fáum árum virtist fólk gleyma því að hugbúnaður hefði haft íslenskt viðmót – eða gæti verið á íslensku yfirleitt. Windows var reyndar þýtt undir aldamótin fyrir atbeina Björns Bjarnasonar þáverandi menntamálaráðherra en sú þýðing þótti misheppnuð – fólk sætti sig ekki við ýmsa orðanotkun í henni og auk þess var hún gölluð tæknilega þannig að tölvur sem hún var sett upp á voru alltaf að frjósa.

Þótt nýrri gerð Windows væri þýdd fáum árum síðar, og væri laus við þessa hnökra, var komið óorð á Windows á íslensku þannig að þýðingin fékk litla útbreiðslu, a.m.k. lengi framan af. Ég þekki fjölmargt áhugafólk um íslensku sem enn notar Word og önnur Windows-forrit á ensku. Sjálfur skipti ég yfir í íslensku þýðinguna fyrir mörgum árum og það hefur aldrei valdið nokkrum minnstu vandkvæðum. Vissulega þarf maður að venjast orðum og orðanotkun í byrjun, en það tekur skamman tíma. Og fyrir börnum sem nota þýðinguna frá upphafi tölvunotkunar er þetta fullkomlega eðlilegt.

Nú er ýmis hugbúnaður sem almenningur notar fáanlegur með íslensku viðmóti. Stundum hafa framleiðendur eða umboðsmenn búnaðarins látið þýða hann en í öðrum tilvikum, eins og með Facebook, eru það sjálfboðaliðar úr hópi notenda sem sjá um þýðinguna. Vitanlega eru þessar þýðingar misjafnar og auðvelt að láta ýmislegt pirra sig í þeim. En þetta er íslenska. Ekki enska. Það skiptir máli – eða ætti a.m.k. að skipta máli fyrir áhugafólk um velferð íslenskunnar.

Ef þið eruð með enskt viðmót á Facebook, Word, Google, Chrome, Firefox o.s.frv. hvet ég ykkur þess vegna eindregið til að skipta yfir í það íslenska. Með því móti leggið þið miklu meira af mörkum til íslensks máls og málvöndunar en með nöldri yfir „þágufallssýki“, röngum beygingum, „fréttabörnum“ o.s.frv. Framtíð íslenskunnar veltur ekki á því hvort börnin okkar segja mig langar eða mér langar, heldur á því hvort þau geta notað íslensku á öllum sviðum – og vilja gera það.

Misnotkun á íslenskunni

Íslenska er opinbert mál á Íslandi og fólk á að geta notað hana alls staðar, við allar aðstæður. Það er mikilvægt að auðvelda fólki sem býr og starfar hér en á ekki íslensku að móðurmáli að læra málið, og hvetja það til að nota íslensku þótt það hafi hana ekki fullkomlega á valdi sínu. En það nær vitanlega engri átt að skortur á íslenskukunnáttu bitni á fólki í samskiptum við stjórnvöld. Það er misnotkun á íslenskunni – sem hún á ekki skilið.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er svohljóðandi ákvæði: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þetta segir: „Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“

Því miður hafa þessar tillögur ekki verið samþykktar eins og kunnugt er, en samþykkt þeirra myndi útiloka þessa óhæfu.