Ég var í tveimur kosningaköffum
Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt um setninguna „Ég treysti á að við fáum kökuafgangana frá einhverju af þessum kosningaköffum“ sem fyrirspyrjandi taldi að væri „augljóslega rangt“ en spurði hvaða mynd væri rétt að nota þarna. Þarna er greinilega verið að nota orðið kosningakaffi í þágufalli fleirtölu sem einhverjum kann að þykja vafasamt, enda engin fleirtala orðsins gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það má þó finna dæmi um fleirtöluna á netinu – „Vinstri græn og Samfylking eru með sín kosningakaffi í Edinborgarhúsi frá 14-17“ segir í Bæjarins besta 2017, „Þar sem ég veit að við hjónin kjósum líklega ekki það sama finnst mér líklegt að við mætum í tvö kosningakaffi“ segir á mbl.is 2024.
Ýmis fleiri dæmi má finna um fleirtölu annarra samsettra orða þar sem -kaffi er seinni liður. Í bókinni Fyrir daga farsímans eftir Böðvar Guðmundsson segir: „Hún dró Siggu með sér í nokkur sunnudagakaffi en Sigga sagði að lokum þvert nei.“ Í Húna 2015 segir: „Fleiri prjónakaffi verða í Kvennaskólanum í vetur.“ Í Vísi 2020 segir: „Svo eru kannski foreldrakaffi.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Bókakaffi með ákveðin þemu eru t.d. haldin tvisvar á ári.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Haldin verða Vísindakaffi á kaffihúsum Reykjavíkurborgar.“ Í Vísi 2004 segir: „Þegar við komum aftur voru internetkaffi á hverju götuhorni og allir með gemsa.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Netkaffi eru ekki á hverju strái í Sýrlandi.“
Orðið kaffi eitt og sér er vissulega ekki til í fleirtölu frekar en önnur orð um vökva og drykki – ef það er notað í grunnmerkingu sinni. En í þessum orðum vísar það ekki til drykkjarins kaffi, heldur ýmist til viðburða (kosningakaffi, sunnudagakaffi, prjónakaffi, foreldrakaffi, bókakaffi, vísindakaffi) eða fyrirtækja (internetkaffi, netkaffi). Í fyrri merkingunni mætti t.d. setja kaffisamsæti eða kaffiboð í staðinn, en í þeirri seinni kaffihús. Öll þau orð eru til í fleirtölu þannig að það er augljóslega ekkert á móti því frá merkingarlegu sjónarmiði að nota samsetningar með -kaffi í fleirtölu – ef þær vísa til teljanlegra fyrirbæra. Þess eru ýmis dæmi að orð sé aðeins til í eintölu í einni merkingu en bæði í eintölu og fleirtölu í annarri merkingu.
Eins og í öðrum hvorugkynsorðum (nema einkvæðum orðum með a í stofni) er nefnifall og þolfall fleirtölu af samsetningum með -kaffi eins og eintalan. Í þágufalli fleirtölu bætist endingin -um við eins og er nánast algilt í nafnorðum, og þá fellur -i brott úr stofninum sem er líka nánast algild regla þegar tvö áherslulaus sérhljóð koma saman – kaffi+um > kaffum. En þá er u komið í næsta atkvæði á eftir a-inu í stofni og til kemur enn ein nánast algild regla sem setur ö í stað a við slíkar aðstæður – kaffi+um > kaffum > köffum. Þótt kosningaköffum kunni að hljóma framandi er það því ekki bara rétt mynd, heldur eina hugsanlega myndin í þágufalli fleirtölu ef orðið kosningakaffi er notað í fleirtölu á annað borð – sem er sem sé fullkomlega eðlilegt.