Category: Málfar

Vo fyrir dyrum

Orð sem höfðu að geyma hljóðasambandið í fornu máli hafa þess í stað yfirleitt fengið vo í nútímamáli, eins og fjölmörg dæmi sýna – vár > vor, svá > svo, þvá > þvo, váði > voði, vándur > vondur o.s.frv. Í greininni „Tungan“ segir Stefán Karlsson: „Þessi breyting var altæk og orð í nútímamáli með vá eru að heita má öll annað hvort áhrifsmyndir (kváðu, sváfu) eða tökumyndir úr fornmáli ( þ.e. tjón, hætta, og samsetningar af því orði).“ Það má þó finna ýmis dæmi frá nítjándu öld og byrjun þeirrar tuttugustu um myndina vo sem hefði mátt búast við út frá venjulegri hljóðþróun – ekki síst í sambandinu vo fyrir dyrum, t.d. í Þjóðólfi 1856, 1857 og 1868, í Skírni 1861, í Norðanfara 1865 og 1885, í Landinu 1918, og víðar.

Þessi mynd kemur líka fyrir í ýmsum samsetningum. Í Norðlingi 1880 segir: „Vér eigum talsvert fé eftir fólkstali, en oss vantar votryggingar.“ Í neðanmálsgrein segir: „Votrygging, votryggja (assurere), af nafninu vo : vá = voði : váði, og tryggja: tryggja við voða […]. Mætti þá og kalla votryggisfélög eðr því um líkt.“ Orðið volegur kemur fyrir í kvæði eftir Benedikt Gröndal í Fjölni 1847: „Vindurinn volega æðir.“ Orðið vogestur kemur fyrir í Norðurfara 1849: „það lítur svo út, sem flestir menn á Íslandi sjeu á það sáttir að leiða ei þann vogest inn í land vort.“ Þessar myndir og fleiri af sama toga tíðkuðust nokkuð og voru sumar algengar á nítjándu öld og fram á annan eða þriðja áratug þeirrar tuttugustu, en hurfu þá með öllu.

Myndin í sambandinu vá fyrir dyrum kemur fyrst fyrir í grein eftir Guðbrand Vigfússon í Skírni 1861 – í sömu grein kemur reyndar einnig fyrir sambandið vo fyrir dyrum eins og áður var nefnt. Þetta er eina dæmið um sambandið frá nítjándu öld á tímarit.is en eftir aldamótin varð það algengt en vo hvarf. Elstu dæmi um sögnina vátryggja og nafnorðið vátrygging eru í Stjórnartíðindum fyrir Ísland frá 1881: „Fangahús (vátryggð fyrir eldi)“ og „Vátrygging fangelsa gegn eldi.“ Elsta dæmi um myndina vágestur er í Norðanfara 1874: „Hafísinn þykir vágestur mikill.“ Orðið válegur kemur fyrst fyrir í kvæði eftir Valdimar Ásmundsson í Þjóðólfi 1874: „Þú veizt, að þér á vinstri hlið / er váleg Heljar slóð.“

Það er því ljóst að orðið og samsetningar af því þróuðust á sama hátt og önnur orð með þetta hljóðasamband og höfðu myndina vo þar til seint á nítjándu öld. Þá er farið að endurvekja og nota það í samsetningum, og á fáeinum áratugum útrýma endurvaktar myndir með hinum hljóðréttu myndum með vo. Þótt ég hafi ekki fundið neitt um ástæðu þessa er ljóst að þarna hlýtur einhver meðvituð ákvörðun að liggja að baki sem væntanlega tengist þeirri málhreinsunarstefnu og fornaldardýrkun sem reis hátt á þessum tíma. Raunar var eingöngu um að ræða endurvakningu í skilningi ritmálsins því að bókstafurinn á stóð fyrir allt annað hljóð í fornu máli en hann gerir í nútímamáli – táknaði áður langt a [aː] en nú tvíhljóðið [au].

Annað dæmi um að orðmynd með hafi verið endurvakin er Arnarhváll, heiti á skrifstofuhúsi ríkisins við Ingólfsstræti í Reykjavík. Þegar áform um byggingu þessa húss eru fyrst nefnd í blöðum sumarið 1929 er það nefnt Arnarhvoll, en þegar húsið er risið árið eftir er talað um það sem Arnarhvál. Það var Jónas Jónsson frá Hriflu sem beitti sér fyrir byggingu hússins og ekki ólíklegt að þessi breyting sé runnin undan rifjum hans, enda var hann mikill fornaldardýrkandi. Þessi endurvakning er þó talsvert annars eðlis en í orðinu því að hún er bundin við þetta eina orð sem sérnafn en tekur ekki til annarra orða með -hvoll. Mannsnafnið Sváfnir er einnig tekið úr fornmáli – kemur þar fyrir sem Óðinsheiti en var endurvakið á þriðja áratug tuttugustu aldar.

Eitt orð sem inniheldur hljóðasambandið , nýyrðið kvár, er svo dálítið sér á báti. Það kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 þegar leitað var að ókyngreindu nafnorð um fullvaxta manneskju, hliðstæðu karl og kona. Þetta orð er ekki tekið úr fornmáli, á sér enga ættingja í málinu og er ekki leitt af neinu – þarna er bara raðað saman hljóðum í samræmi við íslenskar hljóðskipunarreglur. Ég var í dómnefnd samkeppninnar og var fyrst dálítið hugsi yfir þessu orði – það mætti alveg hugsa sér að halda því fram að það ætti frekar að vera *kvor vegna þess að ef það væri erfðaorð hefði átt að breytast í vo. En ég komst að þeirri niðurstöðu að svo mörg orð í nútímamáli hefðu , þrátt fyrir umrædda breytingu, að engin ástæða væri til að hengja sig í hljóðskipunarreglu sem væri greinilega ekki til lengur í huga málnotenda.

Er neikvætt að sýna skilning og umburðarlyndi?

Á Alþingi í dag lagði Snorri Másson þá spurningu fyrir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hvort hann teldi að „það væri eðlilegt skref að lögfesta stöðu ensku og pólsku sem opinberra mála í landinu“. Tilefnið voru orð ráðherra í umræðum á þingi fyrir nokkrum dögum: „Það er rétt að hér eru fleiri en áður sem tala ekki íslensku sem fyrsta mál a.m.k. og þeim veruleika verðum við einfaldlega að mæta af skilningi og umburðarlyndi og búa okkur undir það að þannig muni veröldin breytast.“ Snorri virðist telja ámælisvert að „enska og pólska séu af Stjórnarráðinu, af hálfu skólayfirvalda, í ríkismiðlinum og víða annars staðar hjá hinu opinbera notaðar, ekki til jafns við íslenskuna en til hliðar við íslenskuna í verulegum mæli“.

Við megum ekki gleyma því að langflest þeirra sem koma til landsins eru hingað komin að okkar ósk og frumkvæði – ýmist ferðafólk eða fólk sem kemur til að vinna í greinum þar sem skortur er á innlendu vinnuafli. Það er ekki bara kurteisi við þetta fólk að veita því aðgang að ýmsum upplýsingum á tungumáli sem það skilur – það er líka mikilvægt öryggisatriði í landi þar sem margvísleg náttúruvá getur dunið á. En ekki síður er það mikilvægt til að fólk sem býr hér eigi þess kost að fylgjast með umræðu um hvers kyns þjóðfélagsmál. Innflytjendur borga hér skatta og margir þeirra hafa hér kosningarétt og ótækt að stór hópur fólks sé útilokaður frá allri þátttöku í lýðræðislegri umræðu – það er beinlínis stórhættulegt lýðræðinu.

Vitanlega viljum við að þau sem koma hingað til að setjast að læri málið, og verðum að gera miklu meira til að auðvelda þeim það. En það er alvarlegur misskilningur ef litið er svo á að eðlileg þjónusta við fólk sem ekki kann íslensku grafi undan íslenskunni á einhvern hátt. Þvert á móti – það er mun líklegra að fólk sem er komið til móts við á þann hátt verði jákvæðara gagnvart íslensku og íslensku samfélagi. Það erum ekki síst við sjálf sem gröfum undan íslenskunni með því að nota hana ekki þar sem kostur er. En það er ekki í þágu íslenskunnar að amast við öðrum tungumálum, hvað þá að beina því „til stofnana samfélagsins að forðast alla notkun útlensku í lengstu lög“ eins og Snorri Másson hvatti ráðherra til að gera.

Það er eðlilegt og óhjákvæmilegt að önnur tungumál en íslenska, einkum enska og pólska, séu stundum notuð í íslensku samfélagi, en það er fráleitt að ýja að því að eðlileg afleiðing þess sé að þau verði gerð hér opinber tungumál. Í stað þess að amast við notkun erlendra mála eigum við að leitast við að draga úr þörf fyrir hana, og sjá til þess að íslenska sé alltaf notuð þar sem þess er kostur. En við eigum ekki að nota íslenskuna til að útiloka fólk – við eigum að nota hana til að bjóða fólk velkomið. Við eigum að berjast fyrir íslenskunni eftir mætti, en á jákvæðan hátt. Tungumál eru mikilvæg, en fólkið sem talar þau er mikilvægara, og það er dapurlegt þegar það er orðið neikvætt að vilja sýna fólki skilning og umburðarlyndi.

Naumt tap Hákons

Ég sá á Facebook að vakin var athygli á fyrirsögninni „Naumt tap Hákons og félaga“ á mbl.is, og spurt hvort eignarfallið væri ekki Hákonar. Það er vissulega hin hefðbundna mynd, og sú eina sem gefin er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en myndin Hákons er þó fjarri því að vera einsdæmi og hefur oft verið amast við henni í málfarsþáttum. Jón Aðalsteinn Jónsson nefndi nokkur dæmi um hana í dálkinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1991 og sagði: „Þetta ef. hefur heyrzt oftar í fjölmiðlum.“  Á sama vettvangi tíu árum síðar sagðist Jón Aðalsteinn hafa heyrt talað um „brúðkaup Hákons, en ekki Hákonar, eins og ég ætla, að flestir segi enn í dag samkv. fornri venju“ og sagði: „Því er fljótsvarað, að ef. Hákonar er upphaflega myndin.“

Það er vissulega rétt að eignarfallið var yfirleitt Hákonar áður fyrr en myndin Hákons er þó gömul og kemur m.a.s. fyrir í Heimskringlu Snorra Sturlusonar: „Ólafur Tryggvason hélt utan í fjörðinn með fimm langskipum en þar reri innan í móti Erlendur sonur Hákons jarls með þremur skipum“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um Hákons, það elsta í Norðanfara 1865: „húsfrú Sigríður Jónsdóttir kona prestsins sjera Hákons Espólíns á Kolfreyjustað.“ Einnig eru dæmi um myndina í samsetningum – í Austra 1906 segir: „Bjørgvinarbúar hafa skotið saman allmiklu fé til þess að skreyta gömlu Hákons-höllina þar.“ Töluvert ber svo á myndinni Hákons alla tuttugustu öldina, einkum eftir 1980.

Sú notkun endurspeglast í áðurnefndum athugasemdum Jóns Aðalsteins, sem og í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá 1991 þar sem sagt er að eignarfallið af HákonHákons. Þetta gagnrýndi Baldur Jónsson í Málfregnum 1992 og sagði: „Til dæmis er ótvírætt að eignarfallið af Hákon hefir verið Hákonar síðan land byggðist.“ Undir þetta tók Þórhallur Vilmundarson í gagnrýni á bókina í Lesbók Morgunblaðsins 1992: „Eignarfallið hefur að sjálfsögðu frá öndverðu og fram á þennan dag verið Hákonar […].“ Gísli Jónsson sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2001: „eignarfallið „Hákons“ sést í vönduðum fræðibókum […] Ástæðulaust sýnist mér a.m.k. að nota ekki gamla eignarfallið Hákonar.“

En eignarfallsmyndin Hákons hefur haldið áfram að breiðast út á þessari öld. Í Risamálheildinni eru 1.100 dæmi um hana, en rúm 2.500 um „viðurkenndu“ myndina Hákonar. Öfugt við það sem algengast er um málbreytingar er „nýja“ myndin síst meira áberandi á samfélagsmiðlum en í hefðbundnari miðlum og hefur því greinilega fest sig tryggilega í sessi í formlegu málsniði. Þetta er breyting sem er sauðmeinlaus og á sér fjölda hliðstæðna í málinu þótt breytingar á eignarfalli karlmannsnafna hafi reyndar flestar gengið í hina áttina (Haralds > Haraldar, Höskulds > Höskuldar, Ágústs > Ágústar, Þórhalls > Þórhallar). Engin ástæða er til annars en viðurkenna Hákons sem fullgilda eignarfallsmynd við hlið Hákonar.

Sótt

Nýlega var ég að skrifa um sambandið elna sóttin sem er frekar sjaldgæft í nútímamáli og væntanlega bundið við ritmál. Orðið sótt er líka sagt „gamaldags“ í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem það er annars vegar skýrt 'sjúkdómur, veikindi' og hins vegar 'fæðingarhríðir, jóðsótt' og þetta rímar við það sem fram kom í umræðum um sambandið elna sóttin. Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér að í mínu ungdæmi þekkti ég orðið vel en aðeins í merkingunni 'niðurgangur'. Þessa merkingu heyrði ég eingöngu á heimilinu, enda kannski ekki mikið rætt um niðurgang á opinberum vettvangi eða í almennu spjalli utan heimilis. En ég hef ekki heyrt eða séð orðið notað í þessari merkingu í meira en sextíu ár.

Ég fór því að velta fyrir mér hvort þessi merking væri þekkt eða hvort þetta hefðu bara verið einhvers konar skrauthvörf sem aðeins hefðu verið notuð á mínu heimili – slíkt er vel þekkt. En svo reyndist ekki vera, heldur er þessi merking gefin í ýmsum orðabókum. Orðið sótt er t.d. skýrt 'sjúkleiki, veiki, hitaveiki; niðurgangur' í Íslenskri orðsifjabók, og ein skýring orðsins í Íslenskri orðabók er 'þunnur saur, niðurgangur'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er ein skýring orðsins '(niðurgangur) Diarré, tynd Afføring (hos Kreaturer, is. Faar)'. Af þessu er svo að sjá sem orðið sé eingöngu notað um skepnur, einkum sauðfé. Þessi merking kemur glöggt fram í ýmsum gömlum dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

„A vorum er þad tídt, ad magurt saudfje fær svo kallada Sýki eda Sótt, hvar af þad vanmegnast og deyr“ segir í Klausturpóstinum 1819. „sótt kálfa stillir opt krít nidurskafin til muna í mjólk þeirra“ segir í Klausturpóstinum 1820. „Vid þá lengri rófu á spønsku fé vill loda saur, þegar sótt fær“ segir í Klausturpóstinum 1825. „Neðan til í Árnes sýslu, þar sem fé gengur í sölvafjöru og fær jafnaðarlega sótt“ segir í Nýjum félagsritum 1852. „Hin eiginlega „sótt“ er afrás skaðlegra óhreininda þarmanna“ segir í Búnaðarriti 1893. „Niðurgangur sem einnig er nefndur sótt“ segir í Dýralækningabók Magnúsar Einarssonar frá 1931. „Hann hefur fengið svo mikla sótt, að hún rennur niður af honum eins og lækjarvatn“ segir um hest í Grímu hinni nýju.

Engin dæmi eru í Ritmálssafni um að sótt í þessari merkingu sé notað um fólk, og í fljótu bragði finn ég engin örugg dæmi á tímarit.is. Samhengisins vegna gæti þó verið um þessa merkingu að ræða í Heilbrigðisskýrslum 1897: „Veikin yfirleitt mjög væg; byrjaði á sumum með hálsbólgu, á sumum með sótt og uppköstum.“ Þarna gæti merkingin þó einnig verið 'sótthiti'. Í ljósi þess hve húsdýr léku stórt hlutverk í daglegu lífi fólks áður fyrr er þó ekkert óeðlilegt að orðafar um dýr færist yfir á fólk, og hvorki í Íslenskri orðsifjabók Íslenskri orðabók er tekið fram að þessi notkun orðsins sé bundin við skepnur. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að notkun þess um fólk hafi ekki eingöngu tíðkast á æskuheimili mínu heldur verið sæmilega þekkt.

Karlar og kona handteknir

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í morgun segir: „Handtóku konuna í gærkvöld: Alls sjö handteknir.“ Þetta er athyglisverð fyrirsögn í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að vilja útrýma karlkyni í kynhlutlausri merkingu – sem er reyndar della. Þarna er hins vegar notuð karlkynsmyndin handteknir enda þótt fram komi í setningunni á undan að kona sé meðal hinna handteknu. Í hefðbundinni íslensku væri því eðlilegt að nota hvorugkynsmyndina handtekin þarna vegna þess að vitað er að hópurinn er blandaður. Hins vegar er eðlilegt í hefðbundnu máli að nota karlkyn ef kynjasamsetning hópsins er óþekkt, og vitanlega ef eingöngu er um karlmenn að ræða. Hvorugu er til að dreifa í þessu tilviki.

Nú veit ég auðvitað ekki hver skýringin er á því að þarna er notað karlkyn og vel má vera að það sé bara fljótfærnisvilla sem ástæðulaust sé að leggja dýpri merkingu í. Samt læðist að manni sá grunur að margtuggin gagnrýni á kynhlutlausa notkun hvorugkyns spili þarna inn í – fréttafólk sé orðið hvekkt og farið að forðast að nota hvorugkyn jafnvel þar sem það væri eðlilegt í hefðbundnu máli. Það er vel þekkt að leiðréttingar geta leitt til ofvöndunar – ruglað málnotendur í ríminu og leitt til þess að þeir noti rangar myndir í viðleitni til að koma til móts við leiðréttingar og gagnrýni. En hver sem ástæðan er í þessu tilviki er ljóst að það er í raun rangt mál að nota þarna karlkyn, miðað við hefðbundna íslensku.

Henni elnar sóttin

Nýlega skrifaði ég um orðalagið daglegar ónáðir sem var notað í frétt á mbl.is og vakti athygli ýmissa, og komst að þeirri niðurstöðu að þessi notkun myndarinnar ónáðir styddist við gamla hefð og ætti fullan rétt á sér. En þetta er ekki það eina í umræddri frétt sem hefur verið til umræðu í málfarsþáttum. Fyrirsögn fréttarinnar var „Mette-Marit elnar sóttin“ og upphafssetningin „Norsku krónprinsessunni Mette-Marit hefur elnað lungnasóttin sem hana hrjáir“. Sögnin elna er vissulega sjaldgæf en þó gömul í málinu og merkir 'vaxa, aukast'. Sum þeirra sem tóku þátt í umræðu um þetta könnuðust ekkert við sambandið elna sóttin en önnur sögðust eingöngu þekkja það um léttasótt – þegar kona væri að því komin að fæða.

Sögnin kemur fyrir í fornu máli og þá alltaf í sambandinu elna sótt, ýmist í merkingunni 'verða veikari' eða 'nálgast fæðingu'. „En er sóttist hafið, þá elnaði sótt á hendur Kveld-Úlfi“ segir í Egils sögu Skallagrímssonar og „Nú elnar Lofthænu sótt, og hún varð léttari að sveinbarni“ segir í Örvar-Odds sögu. Sögnin virðist alla tíð einkum hafa verið notuð í þessu sambandi þótt stöku dæmi megi finna um hana í öðru samhengi – „Síldarafli virtist vera að elna“ segir í Þjóðólfi 1885, „skilnaðarhugsunin er þó farin að elna síðasta árið“ segir í Árvakri 1914, „hlýtur siðleysið að elna í óeirðunum“ segir í Snorra Sturlusyni eftir Sigurð Nordal. En í venjulegu nútímamáli eru varla dæmi um sögnina í öðru sambandi en elna sóttin (eða sjúkdómurinn).

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er gerður munur á sótt í merkingunni 'sjúkdómur' (Sygdom) og í sérhæfðu merkingunni 'hitasótt' (Feber) og dæmið honum elnaði sóttin er að finna við seinni merkinguna. Það kemur heim og saman við að sambandið virðist yfirleitt hafa verið notað um frekar bráð og skammvinn veikindi. Í Skírni 1833 segir: „sóttin elnaði, og konúngr lá fleiri dægr í andarslitrunum.“ Í Iðunni 1886 segir: „Um nóttina eptir varð hún veik, og tvo hina næstu daga elnaði sótt hennar, og andaðist hún á þriðja degi.“ Í Ísafold 1891 segir: „Sótt hans elnaði brátt og andaðist hann tveim dögum síðar.“ Í Íslandi 1898 segir: „Á laugardaginn var hann orðinu veikur, og elnaði sóttin því meir sem á daginn leið.“

Vissulega eru þó dæmi um annað, einkum í textum frá síðustu árum. Í hæstaréttardómi frá 2014 segir: „astmasjúkdómur sem hann hefði um langt skeið glímt við hefði elnað meðan hann starfaði við skólann.“ Í Húnahorninu 2020 segir: „En því þyngra hefir honum verið á einverustundum þau árin er honum elnaði sjúkdómurinn hægt og hægt en jafnt og þétt.“ Í grein á Wikipediu segir: „Astmasjúklingum getur elnað sóttin.“ Þetta eru þó undantekningar – yfirleitt hefur sambandið elna sóttin ekki verið notað um langvinna sjúkdóma eins og lungnatrefjun sem hrjáir norsku krónprinsessuna og hefur gert síðan 2018. Notkun sambandsins í umræddri frétt verður kannski ekki talin röng en þó má segja að hún sé ekki í fullu samræmi við málhefð.

Daglegar ónáðir

Í frétt á mbl.is í gær var sagt frá veikindum norsku krónprinsessunnar sem „glími nú við daglegar ónáðir af völdum sjúkdómsins“ eins og það var orðað. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var fólk að velta þessu orðalagi fyrir sér og mörgum fannst fremur eiga að tala um daglegt ónæði, enda er orðið ónáð yfirleitt ekki haft í fleirtölu í nútímamáli og aðeins eintalan gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'það að vera ekki velkominn, vanþóknun' með samböndunum falla í ónáð og vera í ónáð og augljóst að sú merking á ekki við í umræddu dæmi. Það þýðir samt ekki að fleirtalan ónáðir, eins og hún var notuð, hljóti að vera röng eða byggð á misskilningi – svo er ekki þegar betur er að gáð.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 kemur nefnilega fram að fleirtalan ónáðir merki 'órói', 'trafali', 'óþægindi'. Í fornu máli er orðið algengt í þessari merkingu og langoftast notað í fleirtölu. Fjölmörg dæmi eru um þessa merkingu í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, bæði í eintölu og fleirtölu. Á seinni öldum kemur þessi merking oftast fram í sambandinu gera e-m ónáð (ónáðir) sem er gefið í Íslenskri orðabók. Þetta kemur einstöku sinnum fyrir í textum á tímarit.is fram á fjórða áratug síðustu aldar en hverfur þá með öllu nema í textum úr eldra máli. Yngsta dæmi sem ég hef fundið úr samtímamáli er í stjörnuspá í Samvinnunni 1960: „Hætta er á að keppinautur yðar í viðskipta- eða ástamálum reyni að gera yður ónáðir.“

Hér hefur margsinnis verið fjallað um orð sem áður voru aðallega eða eingöngu notuð í eintölu en nú er farið að nota í fleirtölu, ýmsum til ama. Undantekningarlítið stafar þessi breyting þá af því að merkingin hefur víkkað eða hliðrast eitthvað til, og í nýju merkingunni er eðlilegt að nota orðið í fleirtölu sem ekki var áður. Þetta dæmi er í raun alveg sama eðlis, nema hvað fleirtalan og fleirtölumerkingin er ekki ný, heldur er verið að endurvekja gamla notkun sem var alveg horfin úr málinu og kemur flestum nútíma málnotendum ókunnuglega fyrir sjónir. Það er vitaskuld lofsvert að endurvekja orð og málnotkun sem hefur fallið í gleymsku, þótt vissulega þurfi að gæta þess að textinn verði ekki óskiljanlegur við það. Það varð hann ekki í þessu tilviki.

Hvað er kennitalan? Hvað er síminn? Hvað er málið?

Nýlega var spurningin hvað er kennitalan? hér til umræðu. Mörgum fannst að frekar ætti að segja hver er kennitalan? og það er í sjálfu sér eðlilegt – nafnorðið kennitala er kvenkyns og því mætti búast við að um kennitöluna væri spurt með kvenkynsmyndinni hver frekar en spurnarmyndinni hvað sem er hvorugkyns. Samt sem áður er ljóst að spurningar á við hvað er kennitalan? eru ekki einsdæmi í seinni tíð. Aðeins eitt dæmi er þó að finna á tímarit.is, úr Morgunblaðinu 2015, en dæmin um hver er kennitalan? eru svo sem ekki nema sjö. Í Risamálheildinni eru hlutföllin önnur – þar eru tíu dæmi um hvað er kennitalan? en 21 um hver er kennitalan?. Í báðum tilvikum eru nær öll dæmin af samfélagsmiðlum.

En ýmis fleiri dæmi, jafnvel gömul, má finna um að spurnarmyndin hvað sé notuð þar sem búast mætti við annarri mynd spurnarfornafnsins. Í Fálkanum 1933 segir: „Hvað er númerið hennar?“. Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Hvað er símanúmerið.“ Í Vikunni 1956 segir: „Hvað er heimilisfangið?“ Í Helgarpóstinum 1986 segir: „Hvað er málið?“ Allt er þetta þó frekar sjaldgæft nema það síðastnefnda sem hefur orðið gífurlega algengt á þessari öld. Vissulega eru orðin númer, símanúmer, heimilisfang og mál öll hvorugkyns eins og spurnarmyndin hvað, en hins vegar er venjulega kennt að sú mynd sé aðeins notuð sérstæð en þegar spurnarorðið á við nafnorð sé notuð myndin hverthvert er númerið?, hvert er heimilisfangið?, hvert er málið?.

Þótt kynið sé hið sama eru setningar þar sem hvað stendur með hvorugkynsorði því í raun frávik frá hefðbundinni notkun spurnarorðsins, rétt eins og hvað er kennitalan?. En málnotendur virðast ekki kippa sér eins upp við slíkar setningar þótt stundum séu gerðar athugasemdir við þær – „Rétt er að segja hvert er málið“ segir t.d. á Bland.is 2005, og „Þótt enginn segi það er málfræðilega réttara að segja „hvert er málið?““ segir á Hugi.is 2010. En fleiri dæmi eru um að hvað sé notað með nafnorði af öðru kyni en hvorugkyni, t.d. karlkynsorðinu sími – „Hvað er síminn?“ segir í Alþýðublaðinu 1959. Í Vísi 1979 segir: „Hvað er síminn á afgreiðslu Vísis?“ Alls eru um 150 dæmi um hvað er síminn? í Risamálheildinni en aðeins 13 um hver er síminn?.

Það má færa rök að því að myndin hvað sé að þróast í þá átt að verða hlutlaust og óbeygjanlegt spurnarorð, eins konar ígildi spurningarmerkis eða spurnarhreims. Þetta er rétt eins og við segjum Kennitala? Heimilisfang? Sími? – við erum ekki að spyrja um eðli þessara fyrirbæra, heldur biðja um tilteknar upplýsingar. Svipuð þróun er ekki einsdæmi. Spurnarfornafnið hvaða er eingöngu notað hliðstætt með nafnorði og er eins í öllum kynjum og föllum og báðum tölum – hvaða kennitölu / heimilisfang / síma hefur þú?. Orðið er ekki til í fornu máli en kemur fyrst fyrir á 16. öld og er talið hafa orðið til úr hvað að (áður hvat at) – hvað að manni > hvaða maður. Mér finnst eðlilegt að segja hvað er kennitalan? og sé ekkert að þessari þróun.

Spurt hef ég tíu miljón manns

Hér var í gær vakin athygli á fyrirsögninni „Eftirvænting vegna 300 milljón króna yfirhalningar gamla félagsheimilisins“ á vef Ríkisútvarpsins og spurt hvort milljón væri „að frjósa í hel af beygingarleysi og afkynjun“. Í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á auglýsingu þar sem segir: „Markmið verkefnisins er að setja niður eina milljón plöntur á næstu árum.“ Þarna kæmi vissulega til greina að láta milljón stýra eignarfalli og segja „eina milljón plantna“ og það væri í samræmi við það sem mælt er með í Málfarsbankanum: „Orðið milljón ætti fremur að beygja en láta óbeygt. Ft. milljónir. Tíu milljónir króna (ekki: „tíu milljón krónur“). Um er að ræða þriggja milljóna króna tap. Innflutningurinn nemur fjórum milljónum. […]

Þetta er samt ekki alveg einfalt. Eins og orðin hundrað og þúsund er milljón flokkað bæði sem töluorð og nafnorð í orðabókum. Þegar nafnorð tekur með sér annað nafnorð er það síðarnefnda venjulega í eignarfalli, en ef töluorð tekur með sér nafnorð stendur það venjulega í sama falli og töluorðið. Við segjum tíu menn en ekki *tíu manna af því að tíu er eingöngu töluorð, ekki nafnorð; en hins vegar tugur manna (eða tugur manns), ekki *tugur menn af því að tugur er eingöngu nafnorð, ekki töluorð. Vegna þess að hundrað og þúsund geta verið bæði töluorð og nafnorð má því búast við að bæði sé hægt að segja eitt hundrað (to.) menn og eitt hundrað (no.) manna, eitt þúsund (to.) menn og eitt þúsund (no.) manna – og það er einmitt hægt.

Þess vegna ætti líka að vera hægt að segja bæði setja niður eina milljón (to.) plöntur og setja niður eina milljón (no.) plantna – og það er hægt. Þótt Málfarsbankinn mæli með því síðarnefnda er það ekki spurning um rétt og rangt, enda sagt „ætti fremur að beygja en láta óbeygt“ (feitletrun mín). Þarna er í raun og veru verið að segja að fremur eigi að nota milljón sem nafnorð en sem töluorð og það er vitanlega spurning um smekk og venju. En ef töluorðinu á undan milljón er sleppt er óeðlilegt að nota orðið sem nafnorð – setja niður milljón plantna hljómar mun óeðlilegar en setja niður milljón plöntur. Sé milljón hins vegar fall- og tölubeygt er það nafnorð og verður að taka eignarfall – milljónir plantna, ekki *milljónir plöntur.

Því fer fjarri að það sé einhver nýjung að nota milljón sem töluorð og sleppa því að beygja það í föllum og tölum. Í Lögfræðingi 1899 segir: „Ríkið veitir stofnuninni 5 miljón krónur sem stofnfje.“ Í Eldingu 1900 segir: „200 miljón franka ríkislán þykjast Frakkar þurfa að taka nú.“ Í Þjóðviljanum 1910 er talað um „tveggja milljón franka skuld konungs“. Í Gjallarhorni 1912 segir: „Mundu þá sparast ríflega 300 miljón krónur.“ Í Dagsbrún 1915 segir: „Umsetningin óx frá 1903 úr 157 milljón krónur í 450 milljón krónur 1911.“ Í Lögréttu 1924 segir: „En þar vill stjórnin spara 7 milljón pund.“ Og árið 1935 orti Halldór Laxness í orðastað Bjarts í Sumarhúsum: „Spurt hef ég tíu miljón manns / sé myrtir í spaugi utanlands.“

Það er líka fráleitt að tengja beygingarleysi orðsins milljón eitthvað við „afkynjun“ sem er gildishlaðið orð og notað til að lýsa breytingum í átt til kynhlutleysis þar sem hvorugkyn er notað sem hlutlaust (ómarkað) kyn í stað karlkyns – reyndar er afkynjun rangnefni því að hvorugkyn er vitanlega fullgilt kyn. Hér verður að gera skýran mun á kynbeygingu annars vegar og beygingu í tölum og föllum hins vegar – orðið milljón tekur með sér ákvæðisorð (töluorð eða fornafn) í kvenkyni hvort sem það beygist í tölum og föllum eða ekki. Ekkert bendir til þess að nokkur breyting sé að verða á kyni orðsins – það er ævinlega kvenkyns eins og það hefur verið. Engin dæmi eru um að sagt sé *eitt milljón króna, *tvö milljón(ir) króna eða neitt slíkt.

Vörum okkur á órökstuddum kreddum

Á langri ævi hefur síast inn í mig mikill fjöldi boðorða og reglna um hvað sé talið rétt og vandað mál. Sumt af þessu lærði ég í skóla, annað hef ég lesið, og enn annað hef ég heyrt frá einhverjum sem töldu sig þess umkomin að hafa vit fyrir öðrum. Lengi vel fór ég umhugsunar- og athugasemdalaust eftir þessum boðum, jafnvel löngu eftir að ég hvarf frá strangri málvöndunarstefnu. En í seinni tíð hef ég farið að skoða margt af þessu með gagnrýnum augum og þá kemst ég að því að margt af því er löngu úrelt, annað byggt á hæpnum forsendum, og enn annað átti sér aldrei neina stoð og virðist vera byggt á einhverjum misskilningi eða kreddum einstakra málvanda. Um margt af þessu hef ég skrifað á þessum vettvangi.

Um helgina var ég að lesa bók þar sem mikið var vitnað í blöð frá fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þar sá ég talað um „fjölda þjóðerna“ og kipptist aðeins við vegna þess að mig rámaði í að þjóðerni væri eitt þeirra orða sem ég hefði einhvern tíma lært að ætti ekki að nota í fleirtölu. Þetta staðfestist þegar ég fletti upp í Málfarsbankanum þar sem segir: „Mælt er með því að að nota orðið þjóðerni sem sjaldnast í fleirtölu. Stundum verður þó ekki komist hjá því eins og í setningunni: 55 manns af 15 þjóðernum.“ Þetta er nokkuð sérkennileg framsetning og slegið úr og í – ekkert kemur fram um ástæður þess að æskilegt sé að forðast fleirtöluna af þjóðerni, en svo tekið fram að stundum sé óhjákvæmilegt að nota hana – og þá væntanlega ekki rangt.

Líklega má rekja þetta til molanna „Gætum tungunnar“ sem svonefnd „Áhugasamtök um íslenskt mál“, sem Helgi Hálfdanarson stóð á bak við, birtu í dagblöðum á árunum 1982-1983. Í einum slíkum mola sem birtist í Morgunblaðinu 1983 segir: „Sagt var: Þar búa menn af ýmsum þjóðernum. Rétt væri: … menn af ýmsu þjóðerni.“ Engin rök eru færð fyrir þessu, fremur en flestu öðru í umræddum molum. En þegar molunum var safnað saman í kverið Gætum tungunnar árið 1984 hafði orðalaginu verið breytt – þar segir ekki lengur „Rétt væri“ heldur „Sumir segja fremur“. Það er vitanlega grundvallarbreyting – þar með er þetta ekki lengur spurning um „rétt“ eða „rangt“, heldur um smekk og ekkert við það að athuga.

Elstu dæmi um orðið þjóðerni á tímarit.is og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá því á fyrri hluta 19. aldar og elstu dæmi um fleirtölumyndir þess litlu yngri. Í Skírni 1842 segir: „En er Noregur aptur komst undan Dönum 1814 og varð ríki útaf fyrir sig, hlutu þjóðernin aptur að taka til að aðskiljast“. Í Skírni 1865 segir: „Þar sem eitt fylki deilist milli þjóðerna, bryddir jafnan á áskilnaði í flestum málum.“ Í Gefn 1871 segir: „lög og landsdeiling raska ekki þjóðernunum.“ Í Tímariti hins íslenzka bókmentafélags 1880 segir: „þar er áþekkur munur og á þjóðernum sömu kynkvíslar.“ Í Skírni 1885 segir: „Hinir vilja efla sjerveldið, eð[a] sjálfsforræði landanna og með því löghelga jafnrjetti allra þjóðernanna.“

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er þjóðerni gefið athugasemdalaust bæði í eintölu og fleirtölu, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er fleirtalan einnig gefin athugasemdalaust. Í Íslenskri orðabók er orðið aftur á móti eingöngu gefið í eintölu. Það er því að sjá að einhvern tíma um miðja tuttugustu öld hafi orðið til sú kredda að þetta orð væri „ekki til í fleirtölu“. Ég hef hvergi fundið neinn rökstuðning fyrir þeirri kreddu og átta mig ekki á því á hverju hún byggist. En þetta er eitt af mörgum dæmum um það sem ég nefndi í upphafi – kredda sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kemst á flot og hver éta síðan upp eftir öðrum, og verður að boðorði um hvað sé „rétt“ og hvað „rangt“.