Category: Málfar

Að liggja í lausu lofti

Í innleggi hér í morgun, sem ég eyddi vegna neikvæðs orðalags, var vakin athygli á fyrirsögninni „Staðarhald á Hólum liggur í lausu lofti“ á mbl.is í dag og spurt hvort þetta væri „kannski bara eðlileg þróun málsins“. Þótt það hafi ekki komið fram geri ég ráð fyrir að fyrirspyrjandi telji að í stað sagnarinnar liggja ætti fremur að nota svífa eða vera – eins og reyndar er gert í upphafi fréttarinnar: „Staðarhald Hólastaðar er í lausu lofti.“ Vissulega er það rétt að sögnin vera er venjulega notuð í þessu sambandi sem merkir þarna 'hafa enga festu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – í Íslenskri orðabók er sambandið svífa í lausu lofti skýrt 'vantar undirstöðu, er uppi í skýjunum'. Framtíð staðarhalds á Hólum er sem sé í algerri óvissu.

Nokkur dæmi um liggja í lausu lofti í þessari merkingu má finna í Alþingistíðindum, þau elstu meira en hundrað ára gömul. Það elsta er frá 1915, í ræðu Bjarna Jónssonar frá Vogi sem þótti enginn bögubósi: „Vona jeg, að þingmaðurinn breyti nú skoðun og greiði tillögum mínum atkvæði, þegar hann sjer, hversu spádómar hans liggja í lausu lofti.“ Annað dæmi er í ræðu Einars Jónssonar 1918: „En jeg vil hjer fara milliveginn, að alt sje ekki látið liggja í lausu lofti, en ekki heldur alt lögboðið, sem kemur við atvinnuþörfinni og vinnuveitandanum í bága.“ Þriðja dæmið er í ræðu Jakobs Möller 1927: „Ef þetta er ekki sönnun þess, að fyrirætlanir fjelagsins liggi í lausu lofti, þá veit jeg ekki, hvaða sannanir menn vilja fá.“

Á tímarit.is er á þriðja tug dæma um liggja í lausu lofti í þessari merkingu, það elsta í Sjómannablaðinu Víkingi 1948: „Þegar stjórnarsamvinnan rofnaði, var ekki búið að marka nægilega örugga stefnu í afurðasölumálunum. Þau lágu í lausu lofti.“ Í Vísi 1959 segir: „Þetta væru þó meira getgátur er lægju í lausu lofti.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Skýringin liggur í lausu lofti og áhorfandinn fær varla höndlað hana.“ Í Tímanum 1969 segir: „En það hlýtur alltaf að vera sanngirnismál, að ekki sé látið liggja í lausu lofti hverra breytinga sé von vegna framkvæmdanna.“ Ýmis nýleg dæmi eru líka til – í Fréttablaðinu 2023 segir: „Við breytum ekki fortíðinni en það er algjör óþarfi að láta málið liggja í lausu lofti lengur.“

Sambandið liggja í lausu lofti er vissulega fremur sjaldgæft – í Risamálheildinni eru rúm 800 dæmi um sambandið vera í lausu lofti en aðeins um 50 dæmi um liggja í lausu lofti. Hins vegar er sambandið liggja í loftinu í merkingunni 'eitthvað er yfirvofandi, líklegt er að eitthvað gerist' mjög algengt. Merkingin er vissulga ekki sú sama og í vera í lausu lofti en þó er ekki ýkja langt á milli – í báðum samböndum er um að ræða óvissu. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um þetta finnst mér því ekki ósennilegt að sambandið liggja í lausu lofti hafi orðið fyrir áhrifum frá liggja í loftinu. Það er auðvitað smekksatriði hvað fólki finnst um liggja í lausu lofti en þar eð elstu dæmin um það eru meira en hundrað ára gömul er a.m.k. ekki um að ræða splunkunýja „þróun“.

Mannleg mistök

Hér hefur oftar en einu sinni verið rætt um orðasambandið mannleg mistök sem mörgum finnst undarlegt – það er fólk sem gerir mistök og hljóta þá ekki öll mistök að vera mannleg? Orðið mistök er skýrt 'það sem er gert rangt' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'yfirsjón, handvömm, vangá, e-ð rangt, óheppilegt' í Íslenskri orðabók. Þar er sambandið mannleg mistök reyndar skýrt sérstaklega sem 'mistök vegna vangár eða vanrækslu (starfs)manna (en ekki vélarbilunar, náttúruaðstæðna o.s.frv.)' en merkt !? sem þýðir „orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“. Ástæðan fyrir þessari merkingu er væntanlega sú að mannleg þyki ofaukið vegna þess að sjálfgefið sé að mistök séu mannleg.

Oft eru mistök afleiðing ákvörðunar sem hefur verið hugsuð vandlega í langan tíma og það sem var gert var nákvæmlega það sem til stóð – en reynist samt sem áður hafa verið rangt, eftir á að hyggja. Það getur liðið langur tími áður en fólk kemst að þeirri niðurstöðu að þessi ákvörðun hafi verið röng, og það getur iðulega verið umdeilt hvort hún hafi verið það yfirleitt – t.d. þegar um er að ræða ákvarðanir í stjórnmálum. Aftur á móti sýnist mér að sambandið mannleg mistök sé einkum notað þegar um er að ræða athöfn eða aðgerð sem framkvæmd er að lítt hugsuðu máli eða í ógáti – jafnvel þegar annað er gert en til stóð, t.d. ýtt á rangan takka eða eitthvað slíkt. Yfirleitt kemur þá strax í ljós að mistök hafa verið gerð og um það er sjaldnast ágreiningur.

Þegar orðalagið mannleg mistök er gagnrýnt á þeim forsendum að öll mistök séu manngerð og hljóti þar af leiðandi að vera mannleg er litið fram hjá því að lýsingarorðið mannlegur hefur tvær merkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'eins og maður, með þeim ágöllum sem því fylgir' og 'sem varðar manninn, manneskjuna'. Í Íslenskri orðabók eru sömu merkingar gefnar þótt lýsing þeirra sé orðuð eilítið öðruvísi – sú fyrri er 'í samræmi við mannseðlið' og sú seinni 'sem heyrir til mönnum'. Dæmið sem tekið er um þá fyrri er það er mannlegt að skjátlast – sem er einmitt merkingin sem lýsingarorðið hefur í sambandinu mannleg mistök. En fólk virðist oft líta svo á að í þessu sambandi sé um seinni merkinguna að ræða – sem er rangt.

Þetta þýðir að fólk gerir yfirleitt ekki mannleg mistök í þeirri merkingu að um meðvitaða og áformaða aðgerð sé að ræða – mannleg mistök gerast eða verða, oft vegna ytri aðstæðna, þau eru slys, óhöpp. Þessi sérstaða mannlegra mistaka kemur t.d. skýrt fram í því að á tímarit.is er á níunda hundrað dæma um sambandið gerði mistök en aðeins eitt um gerði mannleg mistök, og í Risamálheildinni eru tæp sjö hundruð dæmi um ég gerði mistök en aðeins þrjú um ég gerði mannleg mistök. Vissulega er ekki alltaf skýr munur á mistökum og mannlegum mistökum en það er samt í raun og veru ekki rétt að líta einfaldlega á mannleg mistök sem undirflokk mistaka – þau eru oftast annars eðlis og mér finnst ekkert að því að tala um mannleg mistök.

Hlutverk lýsingarorðsins í sambandinu mannleg mistök er að leggja áherslu á að það sé mannlegt að gera mistök og þar með oft að afsaka það sem gerðist og draga úr ábyrgð gerandans. Það er líka mannlegt – í sömu merkingu – en við þurfum að gæta þess vel að þetta orðalag sé ekki misnotað. Í frásögn Vísis af glæfraakstri rútu á Reykjanesbraut fyrr í vikunni var haft eftir yfirmanni verkstæðis þar sem rútan átti að vera: „Hann segir ljóst að þarna hafi verið um mannleg mistök að ræða.“ En þetta voru alls ekki mannleg mistök í þeirri merkingu sem það samband hefur vanalega. Þessu athæfi verður betur lýst sem alvarlegum dómgreindarskorti og jafnvel „einbeittum brotavilja“ svo að notað sé orðalag úr lögfræði.

Njóttu dagsins

Öðru hverju kemur upp umræða um frasann eigðu góðan dag sem starfsfólk í þjónustustörfum notar oft í kveðjuskyni. Oft er amast við þessu sambandi á þeim forsendum að það sé komið af kveðjunni have a nice day sem oft er notuð í ensku við sömu aðstæður. Engin ástæða er til að efast um að enska kveðjan hafi ýtt undir þá íslensku þótt tæplega sé hægt að segja að um beina þýðingu sé að ræða – bæði have og nice eiga sér beinni samsvaranir í íslensku en eiga og góður. Auk þess kemur sambandið haf góðan dag – sem stendur enskunni öllu nær – fyrir í fornu máli, einkum sem heilsun en einnig sem brottfararkveðja. Um þetta hef ég skrifað áður en eftir það hefur Sigríður Sæunn Sigurðardóttir gert sambandinu ítarleg skil í grein í Íslensku máli.

Sigríður Sæunn nefnir ýmsar kveðjur sem bent hafi verið á að nota megi í staðinn fyrir eigðu góðan dag: „Blessuð, Vertu sæl, Hafðu það gott, Njóttu dagsins og Verði dagurinn þér góður.“ Af þessum kveðjum er njóttu dagsins langoftast nefnd – þannig segir Örn Bárður Jónsson í Vesturbæjarblaðinu 2006: „Nú á tímum enskuskotinnar íslensku segir fólk gjarnan: eigðu góðan dag eða hafðu góðan dag sem er auðvitað hræðilega léleg þýðing á ensku kveðjunni „have a good day.“ Betra þykir mér að segja: njóttu dagsins sem er hljómfögur kveðja og í ætt við glaðlega kveðju skáldsins rómverska“ – þ.e. carpe diem hjá Hórasi. Hið sama kemur t.d. fram í pistli Eiðs Guðnasonar 2012, hjá Helga Snæ Sigurðssyni í Morgunblaðinu 2018, o.v.

En það er ekki víst að njóttu dagsins sé endilega betur ættað en eigðu góðan dag. Elsta dæmið um þetta samband í íslensku er í ljóði í vesturíslensku blöðunum Lögbergi og Heimskringlu 1913: „Njóttu dagsins, ljóss og lista.“ Þarna er hugsanlega um að ræða áhrif frá ensku þótt svo þurfi vitaskuld ekki að vera. Næst kemur sambandið fyrir í grein eftir Sigurð Einarsson í Straumum 1928: „Augu hans segja: „njóttu dagsins vel“, þegar hann mætir mér.“ Í kvæði eftir vesturíslenskt skáld í Lögbergi 1938 er línan „Sigurvinnings njóttu dagsins“ og í kvæði í Nýju kvennablaði 1951 er línan „komdu barn og njóttu dagsins“. Það er athyglisvert að þrjú af þessum fjórum dæmum eru úr kvæðum, þar af tveim eftir vesturíslensk skáld.

Þetta eru einu dæmin um sambandið fram á seinni hluta sjöunda áratugarins, en þá fer það að blómstra. Í stjörnuspá í Vísi 1967 segir: „Láttu allar starfsáhyggjur lönd og leið og njóttu dagsins.“ Ekki kemur fram hvort spáin er þýdd en það verður að teljast líklegt. A.m.k. leikur enginn vafi á því í dæminu „Ýttu áhyggjum til hliðar og njóttu dagsins“ í Morgunblaðinu 1968, því að það er úr stjörnuspá Jeane Dixon. Á næstu árum þar á eftir og fram undir þetta eru fjölmörg dæmi um sambandið úr stjörnuspám – framan af flest úr spám Jeane Dixon en síðar einnig úr spám Frances Drake í Morgunblaðinu, spám Athenu Lee í Degi og spám í öðrum blöðum þar sem höfundar er ekki getið en líklegt má telja að séu oft þýddar úr ensku.

Fram til 1997 kemur sambandið njóttu dagsins nánast eingöngu fyrir í stjörnuspám, fyrir utan nokkur dæmi um „Njóttu dagsins með Dentokej“ í auglýsingu frá 1978 um Wrigley‘s tyggjó, sennilega þýddri. En árið 1997 fer sambandið svo að sjást í íslenskum auglýsingum – „Gríptu ostinn og njóttu dagsins!“ frá Osta- og smjörsölunni, „Njóttu dagsins og komdu í Kringluna“, „Njóttu dagsins – taktu flugið“ frá Flugfélagi Íslands, o.fl. Strax upp úr aldamótum nær sambandið svo töluverðu flugi í auglýsingum en þó miklu fremur á samfélagsmiðlum. Á tímarit.is eru tæp 300 dæmi um sambandið, þar af 200 frá þessari öld, og á sjötta hundrað dæma er um sambandið í Risamálheildinni, þar af hátt í fimm hundruð af samfélagsmiðlum.

Án þess að ég geti fullyrt það finnst mér langtrúlegast að bæði í stjörnuspánum og tyggjóauglýsingunni – sem sé í nær öllum dæmum fram til 1997 – sé yfirleitt verið að þýða enjoy the day eða enjoy your day sem hvort tveggja eru algeng sambönd í ensku og oft notuð á sama hátt og have a nice day. Þessi sambönd samsvara njóttu dagsins nákvæmlega – raunar mun nákvæmar en eigðu góðan dag samsvarar have a nice day. Sé uppruni sambandsins eigðu góðan dag talinn enskur, þrátt fyrir að orðin séu íslensk, gildir hið sama ekki síður um sambandið njóttu dagsins. Vilji fólk forðast ensk áhrif er njóttu dagsins því ekki leiðin til þess. En vitanlega eru bæði eigðu góðan dag og njóttu dagsins góð og gild íslenska.

Letigarður, vinnuhæli og önnur „lokuð búsetuúrræði“

Áform dómsmálaráðherra um „lokað búsetuúrræði“ hælisleitenda, sem augljóslega er ekkert annað en fangelsi, er einstaklega gróft dæmi um hagræðingu stjórnvalda á tungumálinu í blekkingarskyni – „nýlensku“ (newspeak) eins og það hét hjá George Orwell í 1984. En þetta er þetta ekki í fyrsta skipti sem umdeilt heiti er áformað á „lokuðu búsetuúrræði“ fyrir fólk sem stjórnvöldum þykir af ýmsum ástæðum ekki heppilegt að leiki lausum hala. Fyrir tæpri öld, árið 1928, lagði þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, fram á Alþingi frumvarp „til laga um heimild fyrir landsstjórnina til að reisa betrunarhús og letigarð“ – „til að fangar, og slæpingar, sem ekki vilja vinna fyrir sjer eða sínum, geti stundað holla og gagnlega vinnu“.

Í greinargerð segir: „Með vaxandi þjettbýli við sjávarsíðuna, og einkum vegna hins öra vaxtar höfuðstaðarins, hefir myndast talsverð stjett slæpinga, er ekki vilja sinna gagnlegri vinnu, og verða sjálfir, og þá ekki síður börn þeirra, þjóðfjelaginu til byrði.“ Óneitanlega er orðræðan þarna óþægilega lík ýmsu sem nú er sagt um hælisleitendur, en frumvarpið er með lausn á vandanum: „Úr þessu þarf að bæta og er álitið að vel megi sameina nýtísku betrunarhús og letigarð, þar sem heilsuhraustir letingjar væru þvingaðir til að vinna.“ Einnig segir að „landeyður […] myndu mjög oft fremur vilja vinna eins og frjálsir menn, heldur en komast á slíkt vinnuheimili, þar sem aðbúðin væri að vísu góð, en þeir þó sviftir frelsi […]“.

Þarna var ekki verið að fela neitt með orðskrúði eða merkingarbreytingum orða – þetta „lokaða búsetuúrræði“ var ætlað fyrir slæpingja, landeyður og letingja, og því réttnefnt letigarður. Eitthvað hefur þó bersögli orðsins letigarður farið fyrir brjóstið á sumum – séra Sigurbjörn Á. Gíslason skrifaði t.d. í Vísi að það væri „miklu betra að kalla þá deild vinnustofnun, vinnuhæli, eða eitthvað þvílíkt, svo að nafnið sjálft sé ekki hnefahögg á tilfinningar heimilismanna og ættingja þeirra“. Við meðferð málsins á þingi lagði Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands, fram tillögu um að í stað orðsins letigarður kæmi vinnuhæli. Þetta var samþykkt og upp úr því var stofnað Vinnuhælið á Litla-Hrauni eins og fangelsið þar hét lengi vel, fram undir 1990.

En þótt vinnuhæli sé kannski ekki eins mikið „hnefahögg á tilfinningar“ fólks og letigarður fer ekki hjá því að það sé neikvætt orð. Þótt hæli út af fyrir sig sé skýrt 'skjól, athvarf' og 'sjúkrastofnun, ýmist til lækninga, heilsubótar eða hressingar' í Íslenskri nútímamálsorðabók, og til séu jákvæðar samsetningar eins og heilsuhæli og hressingarhæli, þá eru langflestar samsetningar með -hæli neikvæðar – vísa til staðar þar sem fólk er vistað meira og minna nauðugt. Þetta eru orð eins og berklahæli, drykkjumannahæli, fávitahæli, geðveikrahæli, holdsveikrahæli, munaðarleysingjahæli, þurfamannahæli o.fl. – sem betur fer eru þau flest fallin úr notkun að mestu, eins og vinnuhæli. Fangelsi er fangelsi, hvaða nafni sem það er kallað.

Íslenska í almannarými er öryggismál

Einhver ykkar muna kannski eftir því að fyrir hálfum mánuði setti ég hér inn mynd af miða í strætó sem var einungis á ensku þrátt fyrir að þar væri m.a. að finna mikilvægar öryggisupplýsingar. Ég setti samdægurs ábendingu um þetta inn í þartilgert kerfi hjá Strætó og fékk umsvifalaust sjálfvirkt svar: „Ábendingin hefur verið móttekin og verður send áfram til úrvinnslu við fyrsta tækifæri. Þakka þér fyrir að upplýsa okkur um málsatvik.“ Daginn eftir fékk ég annan póst: „Ábendingin hefur verið send áfram til úrvinnslu. Við leggjum okkur fram um að ljúka úrvinnslu ábendinga eins fljótt og kostur er og upplýsa viðskiptavini þegar úrvinnslu er lokið.“ Þetta vakti vonir um skjóta málsmeðferð en síðan hefur ekkert heyrst.

Nú er sem sé liðinn hálfur mánuður og ég var orðinn úrkula vonar um að fá nokkur svör. Það kom svo sem ekki sérlega á óvart – ég hef áður sent Strætó ábendingar um sama efni án þess að fá svör. En í þetta skipti ákvað ég að skrifa forstjóranum beint með von um einhver viðbrögð. Mér finnst að opinber fyrirtæki eigi ekki að komast upp með svona hegðun – hvorki að hafa öryggisleiðbeiningar eingöngu á ensku né að svara ekki athugasemdum. Forstjórinn má eiga það að hann svaraði mér um hæl og sagði: „Takk fyrir þetta, okkar stefna er að allar leiðbeiningar séu á íslensku. Þetta er nokkuð nýr vagn hjá akstursaðila sem ekur fyrir okkur og munum við skipta þessu út þegar við erum búin að fá úr prentun miða á íslensku.“

Ég svaraði aftur: „Takk fyrir skjót viðbrögð. Mér finnst reyndar dálítið slappt að hafa ekki fengið svona einfalt svar fyrr – þurfið þið ekki að endurskoða skilvirkni ábendingakerfisins? Það er gott að þetta stendur til bóta. En auðvitað ætti vagninn ekki að fara í umferð fyrr en öryggisupplýsingar eru komnar á íslensku – það getur ekki verið mikið mál að prenta svona miða.“ Þótt sjálfsagt sé að þakka að það standi til að bæta úr þessu er samt nauðsynlegt að vekja athygli á því að þarna virðist stjórnendum Strætó hafa verið ljóst að miðinn væri eingöngu á ensku – en vagninn fór samt sem áður í umferð. Það þykir sem sé allt í lagi að vagninn fari í akstur án þess að mikilvægar öryggisleiðbeiningar í honum séu á íslensku.

Þetta hugarfar er því miður alltof algengt. Væntanlega hefði gegnt allt öðru máli ef t.d. þurrkublöð vagnsins hefðu verið slitin – þá hefði vagninn verið tekinn úr akstri meðan þessu væri kippt í lag í stað þess að aka áfram og vona að það ylli ekki slysi þótt útsýni vagnstjórans væri ekki upp á það besta. Í þessu tilviki var um að ræða upplýsingar um það hvernig koma skuli hjólastól fyrir og það getur augljóslega haft alvarlegar afleiðingar ef fólk skilur ekki leiðbeiningarnar og t.d. snýr stólnum öfugt við það sem til er ætlast. Við þurfum að koma stjórnendum fyrirtækja og stofnana í skilning um að íslenska er ekkert aukaatriði sem má bíða – hún er stundum mikilvægt öryggismál, ekki síður en hvers kyns búnaður.

Það er farið að auðnast

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt hvort fólk kannaðist við þá merkingu sagnarinnar auðnast sem hún hefur greinilega í setningunni „Þetta er eini skaflinn sem ekki náði að auðnast í hlákunni.“ Nokkrir þátttakendur í umræðunni sögðust kannast við þetta, einkum úr Skaftafellssýslum en einnig úr Dölunum. Notkun lýsingarorðsins auður í þessari merkingu er vitanlega vel þekkt, auð jörð, og nafnorðið auðna er líka til í merkingunni 'ís- eða snjólaus blettur', 'auð jörð'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og í Íslenskri orðabók er einnig nefnt að germyndarsögnin auðna komi fyrir í ópersónulegri notkun, það auðnar, í merkingunni 'snjó (ís) leysir'. Hins vegar er þessa merkingu miðmyndarinnar ekki að finna í orðabókum.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar er þó að finna fjögur dæmi um þessa merkingu, það elsta úr Þjóðólfi 1890: „nú aptur blíða og jörð að auðnast.“ Það dæmi er úr fréttum sem blaðinu höfðu verið sendar úr Norður-Múlasýslu, og tvö önnur dæmi frá því upp úr 1970 eru tengd Múlasýslum. Yngsta dæmið er svo frá 1979, úr bókinni Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson: „Það er að byrja að auðnast sagði fólk, er auðir blettir tóku að rjúfa fönnina vegna sólbráðar eða hláka.“ Þetta bendir til þess að orðið hafi verið sjaldgæft og því þótt ástæða til að skýra það. Vegna samfalls við sögnina auðnast í merkingunni 'takast' sem er mjög algeng er erfitt að leita að dæmum í rafrænum textum, en þó hef ég fundið nokkur dæmi á tímarit.is.

Í Heimskringlu 1904 segir: „Ef jörð auðnast, þá væri það mikill munur.“ Í Hlín 1949 segir: „Hreindýr hafa verið gestir okkar í kringum túnin í langan tíma, en eru nú held jeg horfin, síðan fór að auðnast.“ Í Tímanum 1951 segir: „Var í gærkveldi farið að auðnast í Blönduhlíð og Lýtingsstaðahreppi, og víða farnir að koma upp rindar.“ Í Veðrinu 1961 segir: „Síðan var éljagangur og snjókoma í þrjá daga með nokkru frosti, en þ. 30. hlýnaði og fór að rigna, svo jörð auðnaðist á ný.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Veðráttan hefur verið ákaflega góð upp á síðkastið og það er mikið farið að auðnast.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Í baksýn sést inn Jökuldalinn þar sem sést í kolsvartan sandbakkann sem er fylgifiskur þess þegar jörð auðnast.“

Ég hef fundið fáein dæmi í viðbót, en það síðastnefnda er yngsta dæmi sem ég hef fundið. Nær öll dæmin er hægt að tengja við Múlasýslur þannig að það er ljóst að þessi notkun hefur einkum tíðkast þar og í Skaftafellssýslu. Hún virðist þó alltaf hafa verið sjaldgæf í ritmáli eins og marka má bæði af fæð dæma og af því að hún er ekki gefin í orðabókum. Hins vegar benda undirtektir í umræðu í Málvöndunarþættinum til þess að hún sé enn bærilega lifandi í töluðu máli. Þetta sýnir okkur enn og aftur að orð geta geymst í máli almennings áratugum og öldum saman án þess að komast á prent að ráði. En þetta ætti líka að hvetja okkur til fordómaleysis því að það sýnir vel að ástæðulaust er að afgreiða allt sem við þekkjum ekki sem bull og vitleysu.

Mannmergi

Áðan var bent hér á að í Ríkisútvarpinu hefði verið sagt „búist er við mannmergi“ á kappleik sem er að hefjast, og spurt hvort þarna væri um nýyrði að ræða. Orðið mannmergi er ekki að finna í neinum orðabókum nútímamáls og engin dæmi eru um það á tímarit.is eða í Risamálheildinni – og ekki heldur um seinni hlutann mergi. Í fljótu bragði taldi ég líklegast að þetta væri mismæli og hefði átt að vera margmenni – samhljóðaklasarnir rg og nn hefðu skipt um sæti innan orðsins þannig að í stað margmenni hefði komið mannmergi. En þótt þetta kunni að vera mismæli leiðir það til eðlilegs íslensks orðs – mann- er auðvitað alþekktur fyrri liður samsetninga og þótt mergi sé ekki til höfum við orðið mergð og samsetninguna mannmergð.

Mismæli af þessu tagi þar sem hljóð eða hljóðasambönd færast milli orðhluta eru vel þekkt. Sigurður Jónsson skrifaði fyrir nokkrum árum meistararitgerð sem heitir Mismæli og íslensk málfræði og þar er ýmis svipuð dæmi að finna. Meðal þeirra eru reingraunum í stað raungreinum, kltripping í stað trklipping, andlúmsroft í stað andrúmsloft, Polakortið í stað Kolaportið, dallettbansmær í stað ballettdansmær, pleyjublast í stað bleyjuplast og frámarkshádrátt í stað hámarksfrádrátt. Þetta eru allt saman samsett orð þar sem eitt eða fleiri hljóð, sérhljóð eða samhljóð, víxlast milli orðhluta. Í öllum tilvikum er útkoman orðleysa eins og algengast er um mismæli, öfugt við mannmergi sem gæti verið íslenskt orð sem fyrr segir.

En þegar að var gáð kom í ljós að kvenkynsorðið mannmergi er flettiorð í safni Ordbog over det norrøne prosasprog – fjögur dæmi má finna um það í fornum handritum. Það er þó athyglisvert að í öllum tilvikum er annað orð haft í staðinn í öðrum varðveittum handritum sama texta – í þremur dæmum margmenni en í einu mannmergð, en bæði orðin eru margfalt algengari í fornu máli en mannmergi. Ég átta mig ekki alveg á aldri og skyldleika þeirra handrita sem um er að ræða en sýnist þó að handritin með mannmergi séu yfirleitt eldri og því er ekki ótrúlegt að sjaldgæfara orði hafi verið skipt út fyrir algengara í uppskriftum – hugsanlega hafa skrifarar talið um villu að ræða, svipað því að okkur dettur helst í hug að mannmergi sé mismæli nú.

Hvað á þá að segja um það þegar mannmergi heyrist í Ríkisútvarpinu árið 2024 – orð sem engar heimildir eru til um undanfarin mörg hundruð ár? Er trúlegt að orðið hafi varðveist í málinu allan þennan tíma án þess að komast nokkru sinni á prent? Þótt það virðist kannski ekki líklegt er rétt að hafa í huga að meðan starfsfólk Orðabókar Háskólans hélt uppi fyrirspurnum um orð í útvarpsþættinum Íslenskt mál voru stundum að dúkka upp meðal almennings orð sem fá eða engin dæmi voru um á prenti en hlutu þó að vera gömul í málinu. Mér finnst ekki óhugsandi að sama máli gegni um mannmergi þótt óneitanlega séu meiri líkur á að um mismæli hafi verið að ræða. En hvað sem því líður er mannmergi orð sem myndi sóma sér vel í málinu.

Hann er eitt af mönnunum

Í gær spannst hér áhugaverð umræða út frá innleggi Hjálmars Gíslasonar sem hafði tekið eftir því að sonur hans notaði oft sambandið eitt af í hvorugkyni í vísun til kynjablandaðs hóps, jafnvel þótt nafnorðið sem notað væri um hópinn væri í karlkyni – eitt af jútjúberunum, eitt af gaurunum o.s.frv. Fleiri þátttakendur í umræðunni könnuðust við sambærileg dæmi frá sínum börnum en Haukur Þorgeirsson benti á að hugsanlega væri ekki um virkt hvorugkyn að ræða í slíkum dæmum heldur væri sambandið eitt af skynjað sem heild, án tengsla við töluorðið / fornafnið einn. Þetta er erfitt að rannsaka vegna þess að heimildir um mál barna og unglinga eru af skornum skammti. Helst er þó að leita í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar.

Þar má finna mikinn fjölda dæma um að eitt af sé notað í vísun til karlkyns- eða kvenkynsorðs í stað einn af eða ein af. Á Bland.is 2004 segir: „hann vann í bingói um jólin og eitt af vinningunum sem hann fékk var hákarl.“ Á Bland.is 2004 segir: „svimi er eitt af aukaverkununum sem ég finn á doktor.is.“ Á Bland.is 2005 segir: „Hún er eitt af leyndardómum minnar fyrrverandi tengdamóður.“ Á Bland.is 2005 segir: „nú er mín komin í 7 ára bekk og þar er kristinfræði eitt af námsgreinunum.“ Á Bland.is 2007 segir: „og er það eitt af uppáhaldsmatnum hennar.“ Á Hugi.is 2010 segir: „Þú ert eitt af mönnunum sem kom með ráð við því sem ég bað um.“ Á twitter 2016 segir: „Er það eitt af kennslugreinum grunnskólans?“

Ef eitt af er orðið frosið samband í máli sumra mætti búast við að finna það í þágufalli og eignarfalli þar sem annars væri von á einu af eða eins af, eins og Haukur benti á. Slík dæmi má finna – á twitter 2012 segir: „Þarf eitt RT frá eitt af stjörnum íslands!“ Á Bland.is 2013 segir: „hann var svo stuttur hjá eitt af börnunum mínum að ég náði varla að halda á barninu mínu.“ Á Bland.is 2011 segir: „Er með útrunnið vegabréf en er að fara til eitt af norðurlöndunum.“ Á Bland.is 2014 segir: „Ég þekki nú til eitt af þessum börnum.“ Á Hugi.is 2009 segir: „þekkti ekki neinn þar til eitt af gömlu félugum mínum kenndi mér að reykja.“ Á twitter 2016 segir: „Þú þarft eiginlega að vera pínu skrítinn að þekkja ekki til eitt af mestu tröllum austfjarða.“

Það má líka finna nokkuð af dæmum um eitt af með sögn í fleirtölu og í vísun til nafnorðs í karlkyni eða kvenkyni eintölu eða fleirtölu. Á Bland.is 2011 segir: „Úff þetta eru eitt af erfiðustu sjúklingunum held ég.“ Á Hugi.is 2002 segir: „Friends eru eitt af uppáhalds þáttunum mínum.“ Á Hugi.is 2003 segir: „þessar rímur eru eitt af fyrstu rímunum sem ég er búinn að semja.“ Á Hugi.is 2004 segir: „Það eru eitt af bestu gíturum sem ég hef prófað.“ Á Bland.is 2013 segir: „Fimleikar eru eitt af dýrustu íþróttunum því miður.“ Á Bland.is 2013 segir: „Þetta eru eitt af bestu barnahundum sem eru til.““ Á twitter 2021 segir: „Sjallar eru eitt af meginástæðum af hverju ungt fólk getur ekki keypt sína fyrstu eign lengur.“

Einnig má finna fáein dæmi um að sambandið sé skrifað í einu lagi, eittaf – „er þetta ekki bara eittaf sigrum okkar sem alheimur?“ segir t.d. á twitter 2016. En þótt sambandið sé oftast skrifað eitt af er ljóst að í öllum framangreindum dæmum hagar það sér eins og ein óbeygjanleg heild – beygist ekki í kyni, tölu eða falli. Dæmin eru svo mörg að útilokað er að afgreiða þau sem einhvers konar fljótfærnisvillu, heldur hljóta þau að sýna málbreytingu í gangi – og sú breyting á sér a.m.k. tuttugu ára sögu. Þar sem svo mörg og svo gömul dæmi koma fram á samfélagsmiðlum þar sem höfundar eru væntanlega a.m.k. komnir á unglingsár er trúlegt að þessi breyting sé orðin mjög útbreidd í máli barna, og umræðan hér í gær bendir líka til þess.

Það er svo sem ekkert einsdæmi að sambönd sem innihalda beygjanleg orð „frjósi“ á þennan hátt – hætti að taka mið af öðrum orðum í setningunni en komi alltaf fram í sömu mynd. Eitt þekktasta dæmið er verða var við þar sem var er lýsingarorð og sambandið ætti því að vera verða vör við í kvenkyni en stundum bregður þó út af því eins og Gísli Jónsson skrifaði t.d. um í Morgunblaðinu 1992: „Slík notkun þekkist nú vart. Fólk virðist aðeins þekkja orðalagið „var við“.“ Annað hugsanlegt dæmi er verða valdur að sem ég skrifaði um nýlega en það má þó einnig skýra á annan hátt. Mér sýnist ljóst að eitt af stefni í sömu átt en verið alveg róleg – þetta á sennilega ekkert skylt við kynhlutlaust mál þótt það gæti reyndar lagt sitt af mörkum til þess.

Nærrum því

Í Málvöndunarþættinum sá ég vitnað í auglýsingu á Facebook-síðu útvarpsstöðvarinnar X977 þar sem stóð „mugison og 10 hlutir sem að skipta honum nærrum því öllu máli!“. Væntanlega hefur það verið m.a. orðið nærrum sem vakti athygli þess sem benti á þetta og vissulega mætti búast við að þarna stæði frekar nærri því – og það segir Mugison greinilega í myndbandi sem fylgir Facebook-færslunni. Orðið nærrum finnst hvergi í orðabókum eða mállýsingum, hvorki sem uppflettiorð né beygingarmynd – aðeins nærri og næstum. Ég hélt fyrst að þarna væri um tilviljanakennda villu af einhverju tagi að ræða en við nánari athugun kom í ljós að nærrum hefur tíðkast að einhverju leyti undanfarin tuttugu ár eða meira og verður sífellt algengara.

Elsta dæmi um nærrum á tímarit.is er í Fréttablaðinu 2003: „Lance Bass, söngvari *Nsync sem komst nærrum því upp í geim.“ Í Orðlaus 2004 segir: „Þú þarft að hlaupa á milli og kemst ekki á nærrum því alla staðina sem þú ert beðin um að fara á.“ Í DV 2009 segir: „Gengið á síðasta tímabili var hins vegar ekki nærrum því jafn gott.“ Í DV 2014 segir: „Hann tefldi sjálfur með landsliðs Íslands í nærrum því tuttugu ár.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Fyrir því hefur frelsi þjóðarinnar og sú barátta sem háð var til að ná því marki verið nærrum því áþreifanlegt.“ Alls eru 16 dæmi um nærrum á tímarit.is, öll nema eitt í sambandinu nærrum því – í Bæjarins besta 2007 segir: „Tófan er orðin svo skæð að hún er nærrum búin að útrýma mófuglinum.“

Eins og oftast er með nýjungar eru dæmin í Risamálheildinni margfalt fleiri. Elsta dæmið þar um nærrum er á Hugi.is 2001: „ég er að fara að fá mér Parasound pre- og poweramplifier […] sem er ekki einu sinni í nærrum því öllum bíóum! Á samfélagsmiðlunum Hugi.is, Bland.is og Málefnin.com hefur orðmyndin nærrum verið notuð alveg frá upphafi miðlanna á árunum upp úr aldamótum, og fjöldi dæma á þessum fyrstu árum bendir til þess að þessi orðmynd hafi þegar verið komin í verulega notkun um aldamót. Alls eru um 1250 dæmi um nærrum í Risamálheildinni, langflest á samfélagsmiðlum eins og við er að búast en þó eru tæp 100 dæmi úr öðrum textum. Ásamt dæmum af tímarit.is sýnir það að orðið er komin inn í formlegra mál.

Atviksorðin nærri og næstum merkja það sama, 'nánast alveg' (þótt nærri geti einnig haft aðrar merkingar) og sama máli gegnir um samböndin nærri því og næstum því sem eru sjálfstæðar flettur í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð hvort með öðru. Það liggur beint við að telja að þessum tveim orðum eða samböndum hafi slegið saman í nærrum (því) – seinna atkvæðið í nærri í sambandinu nærri því er líka oft ógreinilegt í framburði og hugsanlegt að skynja orðið sem nærrum. Í sjálfu sér er nærrum ekkert óeðlilegra en næstum sem komið er úr næst um, og þar sem það er orðið a.m.k. aldarfjórðungs gamalt í málinu og komið í töluverða notkun sé ég enga sérstaka ástæðu til að amast við því – þetta eru engin alvarleg málspjöll.

Búsetuúrræði – og lokuð búsetuúrræði

Nafnorðið úrræði er gamalt í málinu – kemur fyrir í fornu máli bæði í myndinni órræði og órráð. Yfirleitt vísar það til lausnar einhvers vanda, útleiðar – 'möguleiki til úrlausnar, kostur' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Oft er þó frekar verið að velja milli vondra kosta en góðra eins og tíðni samsetningarinnar neyðarúrræði gefur vísbendingu um. Fyrir rúmum 30 árum var farið að nota samsetninguna búsetuúrræði – elsta dæmi sem ég finn um það orð er í Morgunblaðinu 1992: „Nú eru miklir fjármunir settir í uppbyggingu á endurhæfingarþjónustu, sem gæti verið á Kópavogshæli með litlum tilkostnaði, og þá fjármuni, sem við það spöruðust, mætti nota til að byggja upp sambýli og kosta önnur búsetuúrræði fyrir íbúa hælisins.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er búsetuúrræði skýrt 'úrræði til að útvega ákveðnum hópi húsnæði' og sú skýring gæti átt við þetta dæmi og tvö þau næstu sem einnig eru úr  Morgunblaðinu sama ár: „Stórar stofnanir eru að leggjast af og lítil heimili og íbúðir taka við sem búsetuúrræði“ og „Engin búsetuúrræði eru til fyrir þennan hóp“. En síðla ársins 1992 segir í Degi: „Verndað búsetuúrræði mundi minnka þörf fólksins fyrir sjúkrahússvist.“ Hér er ljóst að orðið vísar beinlínis til ákveðins staðar eða húsnæðis fremur en til möguleika eða kosts og þannig hefur orðið oftast verið notað síðan eins og t.d. er skýrt í Sveitarstjórnarmálum 1999: „Það þýðir m.a. að biðlisti eftir búsetuúrræðum muni tvöfaldast á næstu fimm árum.“

Orðið búsetuúrræði merkir því í raun yfirleitt 'heimili', eiginlega 'heimili fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu' – fatlað, aldrað, háð fíkniefnum o.fl. Þetta sést á dæmum eins og „Hann fluttist svo á Njálsgötu 74 sem er búsetuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar“ í Morgunblaðinu 2020 og „Stundum nægja upplýsingar og fræðsla um málaflokkinn til að róa þá sem bera kvíðboga fyrir að fá þetta nýja búsetuúrræði í hverfið sitt“ í Fréttablaðinu sama ár. Oft er þarna samt um að ræða húsnæði eða aðstöðu sem stjórnvöld – en þetta er yfirleitt á vegum þeirra – virðast veigra sér við að kalla heimili vegna þess að þar skortir oft ýmislegt sem einkennir dæmigerð heimili svo sem einkarými, auk þess sem mörg búsetuúrræði eru í bágbornu ástandi.

Nýlega hefur svo bæst við sambandið lokað búsetuúrræði. Það virðist fyrst hafa komið fram í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi vorið 2022: „Annars staðar á Norðurlöndum eru einnig rekin svokölluð lokuð búsetuúrræði (e. detention center) sem ætluð eru til vistunar fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem eru í ólögmætri dvöl […].“ Í Merriam-Webster orðabókinni er detention center vissulega skýrt 'a place where people who have entered a country illegally are kept for a period of time' eða 'staður þar sem fólk sem hefur komið ólöglega inn í land er vistað um tíma'. En enska orðið detention vísar ótvírætt til frelsisskerðingar – eðlilegasta þýðing þess á íslensku er varðhald.

Það er því mjög sérkennilegt að þýða detention center sem lokað búsetuúrræði sem skilgreint er sem „Úrræði um lokaða búsetu útlendings sem sætir frelsisskerðingu […]“ í nýju frumvarpi  dómsmálaráðherra sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda – lokuð búseta er svo skilgreind sem „Lokuð búseta útlendings sem sætir frelsisskerðingu […]“. Vissulega á að vista þarna fólk sem er í viðkvæmri stöðu eins og í öðrum búsetuúrræðum en þetta er þó vitanlega ekki ʻheimiliʼ í neinum skilningi eins og sést m.a. á því að mörgum greinum frumvarpsins svipar til ákvæða um fangelsi í Lögum um fullnustu refsinga  – t.d. eru ákvæði um heimsóknir, agabrot, líkamsleit, heimild til valdbeitingar, vistun í öryggisklefa o.fl., og meðal starfsfólks eru fangaverðir.

Hvað sem segja má um notkun orðsins búsetuúrræði hingað til er þetta algerlega á skjön við hana. „Lokuð búseta“ þar sem fangaverðir gæta fólks er auðvitað ekkert annað en fangelsi. Það er alþekkt að í viðkvæmum ágreiningsmálum leitast stjórnvöld oft við að föndra við tungumálið til að slá ryki í augu almennings og breiða yfir það um hvað málið snýst í raun. Um þetta höfum við mörg nýleg dæmi, íslensk og erlend. Fyrir rúmu ári tók þáverandi dómsmálaráðherra upp orðið  rafvarnarvopn yfir það sem lengi hafði heitið rafbyssa á íslensku, og í frumvarpi  til laga um breytingu á lögreglulögum sem lagt var fram á Alþingi í fyrra og aftur  núna er orðið afbrotavarnir notað um það sem áður  var kallað forvirkar rannsóknarheimildir.

En lokað búsetuúrræði er samt grófasta dæmið – eins og það orðasamband er notað í áðurnefndu frumvarpi gæti það eins átt við um fangelsin á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. Fólk getur vitskuld haft mismunandi skoðanir á efni frumvarpsins en þegar stjórnvöld telja sig þurfa að hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum er það yfirleitt til marks um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Stjórnvöld verða að hafa kjark til að gera það sem þau telja nauðsynlegt og kalla það sínum réttu nöfnum en reyna ekki að fela það með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða – það er merki um hugleysi. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.