Kennsluefni

Þegar ég hóf kennslu í íslensku var tilfinnanlegur skortur á kennsluefni í flestum greinum málfræðinnar. Því samdi ég strax fyrsta kennsluvetur minn (vorið 1983) ritið Íslenska orðhlutafræði, sem er kennsluefni í beygingarfræði; og haustið eftir samdi ég kverið Íslenska hljóðkerfisfræði. Í byrjun næsta árs (1984) endurskoðaði ég svo þessi rit, jók það síðarnefnda verulega, og gaf þau út í einu lagi undir nafninu Íslensk málfræði. Hljóðkerfisfræði og beygingafræði. Í næstu útgáfu var ritinu aftur skipt upp, og beygingarfræðin gefin út ásamt viðbótarkafla um orðmyndun árið 1986, og enn lítillega endurskoðuð 1990. Hljóðkerfisfræðin var gefin út lítillega endurskoðuð 1986, og var fjölrituð óbreytt nokkrum sinnum næstu árin. Að lokum kom hún út í endanlegri gerð, talsvert breytt, árið 1993. Í ársbyrjun 1989 samdi ég svo kverið Íslenska hljóðfræði, sem Málvísindastofnun Háskólans gaf út. Þessi þrjú rit voru í rúma tvo áratugi helsta námsefni byrjenda í viðkomandi greinum, bæði í Háskólanum og Kennaraháskólanum. Þau voru síðan uppseld og ekki á markaði í 7-8 ár, en voru síðan endurskoðuð og steypt saman í ritið Hljóðkerfi og orðhlutakerfi íslensku (2013), sem er aðeins til í rafrænni útgáfu.

Árið 1990 umskrifaði ég hljóðfræðikverið mitt, felldi margt brott og jók miklu við, og það var síðan gefið út hjá Máli og menningu undir nafninu Íslensk hljóðfræði handa framhaldsskólum. Ég hef einnig samið svör við verkefnum í því riti. Auk þessa útbjó ég leiðbeiningarpésa um notkun hljóðrófsrita og sveiflusjár Málvísindastofnunar.

Ég hef einnig samið kennsluefni í ritun fyrir námskeiðið Aðferðir og vinnubrögð á B.A.-stigi í íslensku. Þetta efni hefur aldrei verið gefið út á prenti en birst á vefnum í nokkrum útgáfum, síðast árið 2013. Auk þess er síðasta námskeið mitt, Málkerfið - hljóð og orð, vorið 2017, opið öllum á vefnum.

Ég hef lagt áherslu á að nota íslensk íðorð eftir því sem kostur er. Í bókinni Íslensk málfræði frá 1984 eru ýmis orð sem ég bjó til. Þá fékk ég einu sinni styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða nemanda til að taka saman drög að íðorðasafni í máltækni.

Kennsluefni - rit, bæklingar, glærusöfn og upptökur