Category: Málfar

Á vetrin

Í dag var hér spurt hvort það væri staðbundið að segja á vetrin í stað á veturna. Þetta samband er nefnt í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og merkt talmál („pop.“) og myndin vetrin er gefin sem „staðbundin“ í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi sem ég hef fundið um sambandið er í vísitasíubók frá 1575: „[Tveggja] mánaða beit öllu sauðfé á vetrin í Sandfellshlíð.“ Elstu dæmin um sambandið (sem er alloft ritað á vetrinn) í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is eru frá því um miðja 19. öld, en skiptar skoðanir eru um uppruna þess. Í bókinni Hugur og tunga frá 1926 segir Alexander Jóhannesson: „Af samræmisástæðum […] er algengt í nútíðarmáli að segja: […] á vetrin í stað á veturna (til samræmis við á sumrin) […].“

Í ritdómi um bókina í Skírni sama ár segir Jakob Jóh. Smári að Alexander skilji „orðatiltækið á vetrin sem samræmismynd við á sumrin, og getur verið, að málvitund síðari alda manna hafi tekið það svo, en þar hygg ég, að upprunalega sé um að ræða rétt þolfall eintölu með ákv. greini (í fornmáli á vetrinn).“ Sambandið á vetrin(n) virðist reyndar ekki koma fyrir í fornu máli – þar má hins vegar finna dæmi um vetrin(n) með forsetningunum um og of en í þeim er vetrin(n) þolfall eintölu eins og kemur fram hjá Jakobi Smára. Í öllum dæmum úr síðari alda máli um á vetrin(n) er hins vegar um þolfall fleirtölu að ræða – eins og í á sumrin. Ég sé þess vegna ekki alveg hvernig þolfall eintölu gæti legið að baki sambandinu á vetrin.

Í umræðum kom fram að á vetrin væri vel þekkt á Suðurlandi og austur á fjörðum, og ýmsar heimildir tengja orðalagið við Suðurland. Í grein í Degi 1922 segir Jóhann Sveinsson frá Flögu: „Aftur hygg eg, að óvíða á landinu sé málið meir afskræmt en sumstaðar á Suðurlandi. […] Einnig segja menn þar: »á vetrin«, eins og vér segjum á »sumrin.«“ Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1989 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Það er vel þekkt um Suðurland a.m.k. að segja: á vetrin í stað hins upprunalega: á veturna. Dæmi eru samt víðar að.“ Í grein í Íslensku máli 2007 um orðasafn sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili safnaði í Rangárvallasýslu á árunum 1884-1885 segir Guðrún Kvaran: „Þá tók Jónas […] eftir að sagt væri á vetrin í stað á vetrum.“

Þrátt fyrir þetta segir Guðrún að ekki sé „hægt að sjá að notkunin á vetrin sé staðbundin. Dæmi finnast úr öllum landsfjórðungum“. Mér finnst samt allt benda til þess að sambandið hafi verið meira notað á Suðurlandi en annars staðar. En það var ekki bara notað á Íslandi – í bók Birnu Arnbjörnsdóttur, North American Icelandic: the life of a language frá 2006, kemur fram að sambandið á vetrin hafi verið algengt í vesturíslensku og fjöldi dæma um sambandið í vesturíslensku blöðunum á tímarit.is staðfestir það. En þetta samband var langalgengast á fyrstu áratugum tuttugustu aldar en hefur síðan verið á hægri niðurleið og virðist vera að hverfa úr málinu – sárafá dæmi frá þessari öld eru um það á tímarit.is og nær engin í Risamálheildinni.

Að umturna lífi – lífið umturnaðist

Á vef Ríkisútvarpsins stóð um tíma í gær fyrirsögnin „Kona í Kópavogi umturnaði lífi heillar fjölskyldu á Indlandi“. Einhvers staðar rakst ég á þá athugasemd við þessa fyrirsögn að sögnin umturna væri þarna ranglega notuð því að hún táknaði breytingu til hins verra – sem ætti ekki við þarna – og þeirri athugasemd hefur kannski verið komið á framfæri við Ríkisútvarpið ­– a.m.k. var fyrirsögninni fljótlega breytt í „Kona í Kópavogi breytti lífi heillar fjölskyldu á Indlandi“ eins og hún er nú. Í Íslenskri orðabók er sögnin umturna skýrð 'bylta um, róta til, setja á annan endann' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'setja (allt) á hvolf, gjörbreyta (e-u)'. Sum skýringarorðanna eru vissulega neikvæð en önnur eru hlutlaus.

Sögnin umturna er gömul í málinu – kemur fyrst fyrir í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu 1540. Í elstu dæmum merkir hún 'rugla, breyta til hins verra' og jafnvel 'eyðileggja'. Í Nýja testamentinu segir: „Þér hafið þennan mann til mín haft svo sem þann er umturnar lýðinn“; „hefir borgirnar Sódóme og Gómorre að ösku gjört, umturnað og fordæmt“. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 segir: „Hann færði fjöllin úr stað áður en þau verða vör við það, þeim eð hann umturnar í sinni reiði.“ Í texta um Kötlugos frá 1625 segir: „hverja að sandurinn og öskufallið […] með öllu eytt og umturnað hefur“. Stundum merkir sögnin líka ‚skipta um trú‘ eins og í frásögn af Tyrkjaráninu 1627: „fátt er umturnað af því fólki, sem eystra var tekið.“

Í síðari alda máli er sögnin mjög oft notuð um breytingu til hins verra eins og í eldri dæmum, en í ýmsum tilvikum er breytingin þó hlutlaus eða jákvæð. Í Bjarka 1902 segir: „Þekkingin hefur komið í stað bænanna og þetta hefur umturnað öllum fyrri hugmyndum.“ Í Reykjavík 1902 segir: „Þetta er mikil nýbreytni, og mun hún, ef hún kemst á, að öllu leyti umturna kjötverzluninni hér í bænum.“ Í Austra 1903 segir: „Ætla þeir svo að hægt muni að leiða nægilegt rafurmagn ofan af himni á Jörðina. Mundi það umturna kjörum mannkynsins.“ Í Ingólfi 1904 segir: „Bakteríufræðin er ein sú grein vísindanna sem mest beinlínis áhrif hefur á mannlífið; hún hefur alveg umturnað læknisfræðinni og mörgum iðnaðargreinum.“

Í gær mátti líka sjá fyrirsögnina „Lífið umturnaðist þegar hún kynntist manninum sínum“ á vef mbl.is og í fréttinni stendur: „Svo kynnist ég manninum mínum í dag og líf mitt umturnaðist til hins betra.“ Þarna er notuð miðmyndin umturnast sem er skýrð sérstaklega í Íslenskri nútímamálsorðabók sem ‚verða mjög reiður‘ – gerólíkt skýringu germyndarinnar. Vissulega er þetta langalgengasta merking miðmyndarinnar þegar frumlagið er mannlegt, en með öðrum frumlögum sýnist mér merkingartilbrigði miðmyndarinnar vera hin sömu og germyndar – merkingin oftast neikvæð en sundum þó hlutlaus eða jákvæð eins og í Læknanemanum 2004: „Hún umturnaðist hins vegar við öll veikindi, varð ljúfasta lamb og hvers manns hugljúfi.“

Í samböndunum umturna lífi og lífið umturnast er breytingin mjög oft til hins verra, stundum er um túlkunaratriði að ræða, og nokkur dæmi eru um breytingu til batnaðar. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Allt mitt líf umturnaðist eftir að hún kom út.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „viðurkennir að það sé gaman að hafa umturnað lífi sínu svona.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Hannes Jón hefur umturnað lífi sínu eftir veikindin.“ Í Fréttablaðinu 2016 segir: „Og þetta sló svona í gegn að mitt líf umturnaðist við þetta.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „Þannig hefur hann umturnað lífi sínu og bætt heilsu sína til muna.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Lífið umturnaðist á gleðilegan máta.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Fann ástina 35 ára og lífið umturnaðist.“

Það er sem sagt ljóst að merkingin í umturna(st) er alltaf 'umbylta(st), gerbreyta(st)' en í miklum meirihluta tilvika er umbyltingin eða breytingin til hins verra. Oft getur það þó verið túlkunaratriði eins og í dæmi úr Morgunblaðinu 1997: „En hún umturnar lífi fjögurra hversdagslegra stúlkna svo að öll fyrri gildi þeirra hverfa og ný femínískari taka við.“ Sjálfsagt geta verið skiptar skoðanir um hvort þessi breyting á gildismati sem umturnunin leiðir af sér sé jákvæð eða neikvæð. Hvað sem því líður sýnist mér ljóst að áðurnefndar tvær fyrirsagnir síðan í gær, „Kona í Kópavogi umturnaði lífi heillar fjölskyldu á Indlandi“ og „Lífið umturnaðist þegar hún kynntist manninum sínum“ ganga ekki í berhögg við íslenska málhefð.

Við erum að búa til lágstétt

Ég var að fylgjast með ræðu mennta- og barnamálaráðherra á Menntaþingi í morgun. Þar kom ýmislegt fram sem varðar viðfangsefni þessa hóps og ástæða er til að staldra við. Meðal þess var að hlutfall leikskólastarfsfólks af erlendum uppruna fer hækkandi og dæmi eru um leikskóla þar sem 88% starfsfólks er af fyrstu kynslóð innflytjenda. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál og ástæða til að leggja áherslu á að vitanlega getur þetta verið frábært starfsfólk sem sinnir börnunum vel og sýnir þeim ástúð og umhyggju. En þótt gera megi ráð fyrir að eitthvað af þessu starfsfólki kunni íslensku, og sumt jafnvel nokkuð vel, er augljóst að á leikskólum þar sem svona háttar til er málumhverfið ekki íslenskt nema að hluta. Það er mjög alvarlegt mál.

Og það er þeim mun alvarlegra sem búast má við að í leikskólum þar sem hlutfall starfsfólks af erlendum uppruna er mjög hátt gegni sama máli um börnin. Þau búa því oft við erlent málumhverfi á heimilinu og mjög skert íslenskt málumhverfi í leikskólanum. Það er engin leið að ætlast til að þessi börn nái góðu valdi á íslensku á leikskólaaldri. Staðan batnar væntanlega eitthvað þegar þau koma í grunnskóla en hættan er samt sú að þau nái aldrei að vinna upp það forskot sem börn íslenskra foreldra hafa. Málumhverfið á heimilinu er áfram erlent, og við það bætist að fjöldi starfsfólks á frístundaheimilum er einnig af erlendum uppruna. Að auki má búast við að börnin verji löngum stundum í enskum menningarheimi nets og samfélagsmiðla.

Eins og við er að búast skilar þetta sér bæði í mun verri frammistöðu nemenda með erlendan bakgrunn á PISA-prófi og í brottfalli þeirra úr framhaldsskólanámi. 46%, nærri helmingur innflytjenda af fyrstu kynslóð sem hófu nám 2018 höfðu horfið frá námi án þess að ljúka því fjórum árum seinna en hlutfallið er 18% hjá nemendum sem ekki hafa erlendan bakgrunn. Þetta sýnir glöggt að við erum að búa til málfarslega, menntunarlega, menningarlega og efnahagslega lágstétt í landinu – fólk sem ekki hefur fullt vald á íslensku, fellur brott úr skólum og er þess vegna fast í láglaunastörfum. Það verður ekki of mikil áhersla lögð á hvað þetta er vont – auðvitað fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir samfélagið og lýðræðið í landinu. Og íslenskuna.

Lausnin á þessu er vitanlega ekki sú að loka landinu, eða hætta að ráða fólk af erlendum uppruna til starfa í leikskólum – hvort tveggja er fullkomlega óraunhæft. Við þurfum á þessu fólki að halda – það heldur þjóðfélaginu gangandi. En þess vegna þurfum við að sinna því miklu betur og leggja margfalt meiri áherslu á íslenskukennslu – bæði barna og fullorðinna. Það þarf að stórbæta kjör leikskólastarfsfólks og gera því kleift að stunda íslenskunám með vinnu. Það þarf að stórauka stuðning við börn af erlendum uppruna í grunn- og framhaldsskólum. Ekki síst þarf að krefja stjórnmálafólk um aðgerðir í stað innantómra orða. Ef þetta verður ekki gert vöknum við fyrr en okkur grunar upp við vondan draum í tvískiptu samfélagi. Það verður ekki gaman.

Gögn fyrir stjórnsýslu eiga að vera á íslensku

Athygli mín var vakin á efnisatriði í umsögn Orkustofnunar um umhverfismatsskýrslu fyrir áform Coda Terminal hf. um uppbyggingu móttöku- og geymslustöðvar fyrir koldíoxíð í Straumsvík. Það mál er ekki á verksviði þessa hóps en þessi efnisgrein á hins vegar fullt erindi hingað: „Gera verður að lokum athugasemd við að skýrsla í viðauka sem skrifuð er af íslenskri verkfræðistofu fyrir íslenskt fyrirtæki til notkunar fyrir íslenska stjórnsýslu og almenning sé höfð á ensku. Í skýrslunni eru ýmis tækniorð sem geta flækst fyrir þeim sem ekki eru inni í viðkomandi fræðigreinum. Um er að ræða helstu umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á grunnvatn og mikilvægt að slík gögn séu aðgengileg almenningi sem og sérfræðingum.“

Það er vitanlega grundvallaratriði að mikilvæg gögn sem eiga erindi við almenning séu á íslensku og við eigum ekki að láta bjóða okkur að slík gögn séu eingöngu á ensku. Í þessu tilviki er um að ræða mál sem hefur verið mikið í umræðunni, er umdeilt, og búast má við að mörgum þyki mikilvægt að geta myndað sér rökstudda skoðun á. Í skýrslunni eru vissulega efnisútdrættir á íslensku en það er fjarri því að vera fullnægjandi. Hér skiptir líka máli eins og nefnt er í umsögninni að skýrslan er skrifuð fyrir íslenska stjórnsýslu og „Íslenska er mál […] stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu“ samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu. Orkustofnun á skilið hrós fyrir að halda merki íslenskunnar á lofti.

Þérun og þéringar

Hér var spurt í dag hvort orðið þérun væri ekki til – sem það er vissulega.  Hins vegar vandist ég því að kalla þetta fyrirbæri þéringar – í fleirtölu eins og algengast er. Eintölunni þéring bregður að vísu fyrir en er sárasjaldgæf. Elsta dæmi um þéringar í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 1854, en elsta dæmið á tímarit.is er frá 1886. Orðið þérun er yngra – elsta (og raunar eina) dæmi um það í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá Ólafi Davíðssyni og væntanlega síðan kringum 1900, en elsta dæmi á tímarit.is er frá 1919. Fyrrnefnda orðið var lengst af mun algengara, en í Risamálheildinni eru dæmi um orðin álíka mörg. Öfugt við þéringar er þérun langoftast höfð í eintölu þótt fleirtalan sé einnig stundum notuð.

Viðskeytin -ing og -un eru bæði virk til nýmyndunar í málinu og hafa u.þ.b. sama hlutverk – að búa til verknaðarnafnorð af sögn. X+ing og X+un merkir hvort tveggja 'það að gera X', þannig að bæði þéring(ar) og þérun merkir 'það að þéra'. Það er nokkuð um slíkar tvímyndir í málinu – stundum í sömu merkingu en stundum hefur merking -ing-orðsins breyst. Bæði þéring(ar) og þérun eru því eðlileg og rétt mynduð orð. Ein ástæða þess að síðarnefnda orðið er hlutfallslega meira notað á síðustu áratugum gæti verið sú að oft er talað um þérun og þúun í sömu andrá og fólki finnist því eðlilegt að nota sama viðskeytið, frekar en tala um þéringar og þúun – myndin þúing er varla til, þótt eitt dæmi um hana megi finna á tímarit.is.

En ýmis vandi gat fylgt þéringum. Í Málfarsbankanum segir: „Sögn, sem með fornafninu stendur, er ávallt í fleirtölu. Þér verðið að koma seinna, Jón. Hins vegar er sagnfylling (lýsingarorð eða lýsingarháttur) ýmist höfð í eintölu eða fleirtölu þegar einn er ávarpaður. Þér eruð krafinn eða krafnir um svar, Guðmundur. Þér eruð dónaleg eða dónalegar, stúlka mín.“ Hins vegar segir Björn Sigfússon í Samtíðinni 1943: „Við þérun á einum manni skal hafa lo. og lh. í eintölu: Verið þér velkominn, þér eruð ferðlúinn, – þér eruð, frú, sjaldséð hér, sjaldséður gestur. Undantekning sakir málvenju um sinn: Komið þér sælar, – verið þér sælir og blessaðir eða verið þér sæll og blessaður, – og mega menn velja þar um et. og ft. í ávarpinu eftir smekk.“

Hugsanlega hefur verið einhver mállýskumunur á þessu ef marka má það sem haft er eftir Baldri Jónssyni prófessor í Morgunblaðinu 1999. Baldur „greindi eftir að hann kom suður mun á þérun í MA og Menntaskólanum í Reykjavík. „Það var ekki þérað á sama hátt í þessum skólum. Kennari fyrir norðan gat sagt við nemanda: „Eruð þér eitthvað lasin.“ „Eruð þér þreytt“. „Þér eruð dugleg.“ En í MR var fleirtalan notuð til enda og kennarinn sagði: „Eruð þér eitthvað lasnar?“ „Eruð þér þreyttar?“ Bæði norðan- og sunnan sögðu hins vegar: „Komið þér sælir/sælar“ og „Verið þér sælar/sælir“.“ En nú er fólk nokkurn veginn alveg hætt að þéra og þetta vandamál því væntanlega úr sögunni að mestu leyti.

Fólkið talar vel um hvert annað

Orðið fólk er að því leyti sérkennilegt að það hefur eintöluform en fleirtölumerkingu. Þetta veldur stundum vandkvæðum, t.d. þegar orðið er notað með gagnverkandi fornafninu hvert/hvort annað. Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er hægt að nota hvorugkynsmyndirnar hvert og hvort um hvorugkynsorð sem eru eintölubundin, t.d. fólk. Fólkið er hvað öðru vitlausara, fólkið lemur hvað annað […].“ Þetta rímar við það sem segir í kverinu Gætum tungunnar frá 1984: „Sagt var: Fólkið í dalnum talaði vel hvert um annað. RÉTT VÆRI: Fólkið … talaði vel hvað um annað.“ En ef málstaðlinum er fylgt út í æsar er í raun og veru alls ekki hægt að nota gagnverkandi fornafn með orðinu fólk – hvorki hvert annað hvað annað.

Ástæðan er sú að þetta samband krefst þess að hægt sé að brjóta frumlagið upp í einstaklinga sem hver um sig gerir það sem í sögninni felst við hina einstaklingana sem vísað er til. Þannig merkir börnin stríddu hvert öðru 'sérhvert barn stríddi hinum börnunum' (t.d. Jón stríddi Gunnu og Siggu og Gunna stríddi Jóni og Siggu og Sigga stríddi Jóni og Gunnu). Eintalan hvert vísar þá til hvers einstaks barns. En þetta er augljóslega ekki hægt að gera við fólkið stríddi hvað öðru – það er ekki hægt að brjóta orðið fólkið á sama hátt upp í einstaklinga sem eintalan hvað geti vísað til. Þess vegna hlýtur hvað að vísa til alls þess mengis sem felst í orðinu fólkið og þar með merkir þetta að fólk hafi líka strítt sjálfu sér – sem er augljóslega ekki það sem átt er við.

Það er því merkingarlega óeðlilegt að hvað vísi til fólkið í setningu eins og fólkið stríddi hvað öðru og það þýðir að málfræðileg vísun er útilokuð þarna vegna þess að hvað hefur ekkert annað hvorugkynsorð að vísa til. En vísun fornafna er ekki alltaf málfræðileg, til tiltekinna orða í setningarlegu umhverfi þeirra – hún getur líka verið merkingarleg, út fyrir málið og beint til þeirra sem verið er að tala um. Í þessu tilviki er eðlilegt að líta svo á að vísunin í hvað sé merkingarleg – vísað sé til hvers einstaklings í hópi fólksins en ekki til orðsins fólk. En vegna þess að hvað vísar yfirleitt ekki til fólks heldur til hluta, hugmynda og annarra óhlutstæðra fyrirbæra liggur beinast við að nota myndina hvert og segja fólkið stríddi hvert öðru.

Hvað sem þessu líður er ljóst að það er löng hefð fyrir því að nota hvert annað með fólk. Í Fálkanum 1941 segir: „kvenfólkið sagði kanske meira um hvert annað en það vissi.“ Í Vísi 1941 segir: „fólkið datt eins og hráviði um hvert annað.“ Í Heimilisritinu 1943 segir: „fólk sem talar ólík tungumál, trúir fljótlega hinu versta hvert um annað.“ Í Bæjarblaðinu 1953 segir: „Samstarfsfólki fer ekki vel að bera út sögur hvert um annað.“ Í Morgunblaðinu 1956 segir: „Ruddist fólk hvert um annað með ópum og látum.“ Það er ljóst að hvert annað er margfalt algengara með fólk en hvað annað, einkum á þessari öld – og með forsetningum eins og um og við er röðin <forsetning> hvert annað algengari en hvert <forsetning> annað.

Í Gætum tungunnar er líka að finna annað dæmi um gagnverkandi fornafn með fólk: „Sagt var: Fólkinu þykir vænt hvert um annað. RÉTT VÆRI: Fólkinu þykir vænt hverju um annað.“ Þarna er vitanlega verið að leiðrétta fallið en ekki verður betur séð en þetta sé alveg hliðstætt við fólkið talaði vel hvert um annað sem er talið rangt. Vissulega eru til tvær myndir, hvað og hvert, í nefnifalli og þolfalli en í þágufalli aðeins ein, hverju – en ef hægt er að vísa til fólkinu með myndinni hverju sé ég ekki hvers vegna ekki ætti að vera hægt að vísa til fólkið með myndinni hvert. Vegna langrar hefðar er auðvitað rétt mál að nota hvað annað með fólk þótt það sé í raun ekki „rökrétt“, en það er ekki síður rétt – og í raun mun eðlilegra – að nota hvert annað.

Klikka og klíka

Orðið klíka er vel þekkt í málinu í merkingunni 'óopinber lokaður félagsskapur í kringum hagsmuni eða áhugamál' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í innleggi í hópnum Skemmtileg íslensk orð var nefnt að kona fædd á nítjándu öld sem innleggshöfundur þekkti hefði notað orðmyndina klikka í staðinn fyrir klíka. Báðar myndirnar eru reyndar gefnar í Íslenskri orðsifjabók: „klíka, klikka kv. (19. öld) 'þröngur, lokaður hópur'. To. úr d. klik(e), klikke (s.m.) < fr. clique (s.m.)“ („s.m.“ þýðir hér „sama merking“). Myndirnar klikka og klíka virðast hafa komið inn í málið á svipuðum tíma og hafa verið notaðar nokkuð jöfnum höndum í upphafi en eftir aldamótin 1900 sótti klíka í sig veðrið og hefur verið mikið notuð síðan.

Elsta dæmi um klíka í Ritmálssafni Árnastofnunar er í bréfi frá 1882: „að klíkan muni vera biksvört af ergelsi.“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Þjóðólfi 1884: „sá, sem væri illa þokkaðr hjá fógeta eða assessórum eða einhverri »klíku«, sem þeir væru í.“ Elsta dæmi sem ég finn um klikka á tímarit.is er í Þjóðólfi 1882: „konungurinn […] sé ekki orðinn annað en leikbrúða í höndunum á býrókratisku klikku-félagi.“ Í bréfi til Tryggva Gunnarssonar frá Finni Jónssyni í Þjóðólfi 1884 segir: „Á fundi í klikkufélagi yðar sögðuð þér, að yðr væri persónulega ekkert um sameining“ og „þér og yðar klikka hefir sýnt deginum ljósara óvæga drottnunargirni.“ Upp úr 1900 fór klikka að láta undan síga – sést lítið eftir 1930 og er nær horfin um miðja öldina.

Í dönsku er orðið ýmist borið fram [ˈkligə] með stuttu sérhljóði eða [ˈkliːgə] með löngu. Eðlilegt er að Íslendingar skynji stutta sérhljóðið sem i og lengi lokhljóðið (og geri það aðblásið) á eftir því. Aftur á móti er eðlilegt að langa sérhljóðið sé skynjað sem í. Tvímyndirnar klikka og klíka virðist því mega rekja beinlínis til mismunandi framburðar orðsins í dönsku en mismunandi ritmyndir gætu einnig hafa haft áhrif – í Ordbog over det danske Sprog er myndin klike gefin sem aðalmynd en sagt „ogs. skrevet Klikke“. Það er því skiljanlegt að tvær myndir orðsins hafi komist inn í íslensku, en aftur á móti er óljóst hvers vegna klíka varð ofan á en klikka hvarf. Hugsanlega hefur það haft einhver áhrif að sögnin klikka var til í málinu í óskyldri merkingu.

Að varsla skotvopn

Í gær vitnuðu bæði mbl.is og Vísir í tilkynningu á vef Lögreglunnar í gær þar sem segir: „Sömuleiðis eru nokkur brögð að því að í fórum manna finnist gömul skotvopn sem í flestum tilfellum reynast hafa komið „frá afa“ en eru ekki skráð á þann sem varslar þau. Afar mikilvægt er að skotvopnaleyfishafar séu meðvitaðir um að óheimilt er að varsla skotvopn án tilskilinna leyfa.“ Þarna er sögnin varsla notuð tvisvar og í  hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt hvort fólk kannaðist við hana. Sögnina er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en eitt dæmi um lýsingarháttinn varslaður er í Ritmálssafni Árnastofnunar: „Umhyggjusamlega var hann varslaður þessi blettur“ segir í Andvara 1962.

Í þessu dæmi er verið að tala um afgirtan blett og varslaður merkir greinilega 'varinn' en sú merking kemur ekki fram í öðrum dæmum. Næstelsta dæmi sem ég finn um orðið er úr ræðu á Alþingi 1987: „Ef menn fara yfir þann lista um alla þá sjóði sem varslaðir hafa verið í Seðlabankanum.“ Hér merkir varslaðir augljóslega 'varðveittir' og sama máli gegnir um öll yngri dæmi að því er virðist. Í Austra 1997 segir: „verður leitað tilboða frá til þess bærum aðilum, að varsla þessa peninga og ráðstafa þeim.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Átekin myndbönd skulu vörsluð í læstri hirslu og geymd í 30 daga.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „menn sem séð hafi um að taka á móti fíkniefnunum, varsla þau og koma þeim í verð.“

Undanfarin tuttugu ár hefur sögnin varsla verið nokkuð notuð, einkum í dómum og lagafrumvörpum þar sem talað er um að varsla fíkniefni, varsla barnaklám, varsla skotvopn o.fl. En sögnin er einnig nokkuð notuð í fréttum fjölmiðla af dóms- og lögreglumálum, sem og fjármálafréttum – talað er um að varsla fé, varsla lífeyrissparnað, varsla skuldabréf o.fl. Í öllum tilvikum er verið að tala um varðveislu og því má spyrja hvort einhver þörf sé á sérstakri sögn – hvort ekki mætti einfaldlega nota sögnina varðveita. En varsla merkir ekki alveg það sama – í henni felst að varðveislan sé tímabundin og oftast í einhverjum sérstökum tilgangi öðrum en bara varðveita það sem um er að ræða. Þetta er gagnsæ og lipur sögn sem sjálfsagt er að nota.

1138

Í yfirliti á heimasíðu minni um þá pistla sem ég hef skrifað hér má sjá að þessi er sá 1138. í röðinni. Það er í sjálfu sér ekkert merkileg tala en þó takmark sem ég hef lengi stefnt að. Þetta er nefnilega sama tala og fjöldi þáttanna um „Íslenskt mál“ sem Gísli heitinn Jónsson skrifaði í Morgunblaðið á árunum 1979-2001. Pistlum mínum svipar um margt til þátta Gísla – hann skrifaði fróðleiksmola um ótal málfarsatriði og svaraði fyrirspurnum lesenda. Ég hef margoft fjallað um sömu eða svipuð atriði og Gísli og vitna oftar í hann en nokkurn annan, enda veit ég ekki til að meira liggi eftir nokkurn á prenti um daglegt mál og málnotkun – Árni Bövarsson fjallaði mjög mikið um þetta en þættir hans um daglegt mál eru ekki aðgengilegir á prenti.

Gísli kenndi mér íslensku á öðrum vetri mínum í Menntaskólanum á Akureyri fyrir rúmri hálfri öld, 1972-1973. Hann fór yfir Íslenzka málfræði handa æðri skólum eftir Halldór Halldórsson þar sem fjallað er um hljóðfræði og beygingafræði fornmálsins. Mörgum fannst þetta óheyrilega leiðinlegt og strembið en ég hafði býsna gaman af því enda löngum verið nörd. Einnig fór hann yfir Gylfaginningu og gerði það á mjög málfræðilegan hátt – rakti orðsifjar þannig að ég varð á tímabili mikill áhugamaður um orðsifjafræði. Ég á einhvers staðar í skúffu glósur mínar úr tímum Gísla og man jafnvel einstök atriði úr því sem hann sagði, svo sem að orðin spjald og fjöl séu skyld (þótt ég geti ekki rakið smáatriðin í skýringu á þeim skyldleika).

Þegar ég var að endurskrifa pistla sem ég hafði birt á Facebook til birtingar í bók minni Alls konar íslenska fór ég yfir alla þætti Gísla og fann þá margt sem ég gat bætt inn í umfjöllun mína. Gísli var vitanlega málvöndunarmaður af gamla skólanum og ég er oft á öndverðum meiði við hann, en í ýmsum tilvikum vék hann líka frá einstrengingslegum hugmyndum um eitt rétt afbrigði. Þegar hann var að skrifa sína þætti var aðgangur að heimildum mjög takmarkaður miðað við það sem nú er – engin rafræn gagnasöfn komin til og hann á Akureyri fjarri söfnum Orðabókar Háskólans, og blöð og tímarit eingöngu á prentuðu formi en ekki leitarbær í gullkistunni tímarit.is. Þess vegna er aðdáanlegt hversu fjölbreytt og ítarleg skrif hans voru.

Misupplýsingar, rangupplýsingar, meinupplýsingar

Í Málvöndunarþættinum sá ég að vakin var athygli á ókunnuglegum orðum í frétt á Vísi nýlega: „Í yfirlýsingu segir hann að ummælin séu byggð á misupplýsingum og að hún beri í raun mikla virðingu fyrir Harris. Rangupplýsinga um fjölskyldusögu Harris hefur gætt á samfélagsmiðlum vestanhafs.“ Þarna koma fyrir tvö nýleg íðorð sem ekki eru í almennum orðabókum en er hins vegar að finna í orðasafninu Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði í Íðorðabankanum. Skilgreining á misupplýsingar er 'rangar upplýsingar sem deilt er án ásetnings um að valda skaða', rangupplýsingar eru 'rangar upplýsingar sem deilt er til að valda skaða', og við bætast þriðja orðið, meinupplýsingar, sem eru 'réttar upplýsingar sem deilt er til að valda skaða'.

Þessi orð vísa til grundvallarhugtaka á sviði upplýsingaóreiðu (information disorder) og eru þýðingar á ensku orðunum misinformation, disinformation og malinformation. Forskeytið mis- hefur ýmsar merkingar en þarna er merkingin sambærileg við merkingu þess í misskilningur sem má orða sem 'rangur skilningur sem skapast án þess að blekkingum sé beitt'. Orðið rangupplýsingar á sér líka hliðstæðu í rangskilningur sem er mjög sjaldgæft en þó að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri samheitaorðabók er það einnig gefið sem samheiti við misskilningur en rangur tengist þó miklu fremur ætlun en mis- eins og sjá má af samheitunum falsaður, falskur, loginn. Merkingin í mein- er svo augljós út frá nafnorðinu mein.

Upplýsingaóreiða og falsfréttir eru mjög til umræðu þessi misseri og nauðsynlegt að hafa íslensk orð yfir helstu hugtök á því sviði, og umrædd orð eru þegar komin í nokkra notkun. Vitanlega má deila um hversu vel heppnuð þau séu – það fer oft ekki sérlega vel að bæta einkvæðu forskeyti eða forlið framan við orð sem er með einkvætt forskeyti eða forlið fyrir. En það er varla völ á öðru grunnorði en upplýsingar þarna og val forliðanna er eðlilegt eins og hér hefur verið rakið. Svo er rétt að hafa í huga að ekki eiga öll íðorð erindi inn í almenna umræðu og eftir er að koma í ljós hversu víðtæk notkun orðanna misupplýsingar, rangupplýsingar og meinupplýsingar verður. En verði þau notuð eitthvað að ráði venjumst við þeim örugglega fljótt.