Göngum yfir brúnna

Iðulega eru gerðar athugasemdir við breyttan framburð orðmynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á/ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orðmyndir eru oft bornar fram með stuttu sérhljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. Stundum er því haldið fram að þetta sé nýleg breyting en svo er ekki.

Elsta dæmið sem ég hef fundið á tímarit.is og bendir til þessa framburðar er úr Vikunni 1930: „Sérstaklega eru það búðarlokur og aðrir uppskafningar, sem móttækilegastir eru fyrir trúnna á íhaldið“ og í Verkamanninum 1939 segir „Heill hópur kvenna tók trúnna hjá Jesús.“ Slæðingur af dæmum er frá fimmta áratugnum; í Morgunblaðinu 1944 stendur „var ekki hægt að ferja mjólk yfir ánna í gær“, í Þjóðviljanum 1947 segir „En þótt menn hafi yfirleitt verið ánægðir með útvarpsdagskránna 1. maí“, í Morgunblaðinu 1948 „Við brúnna tók á móti honum fyrsti stýrimaður“ o.s.frv. (feitletrun mín).

Eftir þetta fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og sambærilegar myndir af fleiri orðum koma fram. Myndirnar á tímarit.is verða samt aldrei mjög margar, enda eru flestir textar þar væntanlega prófarkalesnir. Í ljósi þess hversu mörg dæmi hafa þó sloppið gegnum síuna má ætla að sá framburður sem þessi ritháttur ber vott um sé a.m.k. hátt í hundrað ára gamall og hafi lengi verið nokkuð útbreiddur. Fjöldi dæma sem Google finnur á netinu um flestar áðurnefndra ritmynda bendir líka til verulegrar útbreiðslu framburðarins.

Þessar framburðarmyndir hafa líka lengi verið til umræðu í málfarsþáttum. Gísli Jónsson víkur t.d. nokkrum sinnum að þeim í þætti sínum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu, m.a. 1985, 1986 og 2001 þegar hann sagði: „Einkennilegt hversu fólk hneigist til að tvöfalda n á milli á, ó, ú annars vegar og a hins vegar.“ Ari Páll Kristinsson fjallaði um þær í Tungutaki 1993 og sagði: „Mig langar að minnast hér á málvillu sem er orðin nokkuð algeng, að hafa stutt sérhljóð í stað langs við tilteknar aðstæður í orðum á borð við brú, á, slá, , kló, spá o.s.frv.“ Það er því ljóst að þessi framburður hefur verið vel þekktur um áratuga skeið.

Þótt ég geti ekki fullyrt neitt um hvað valdi þessari breytingu má nefna tvennt sem gæti skipt máli. Annars vegar eru áhrif frá þágufallinu – í kvenkynsorðunum er þar alltaf stutt sérhljóð (ánni, brúnni, frúnni, klónni, kúnni, slánni, spánni, tánni, þránni). Þótt ólíklegra sé mætti einnig hugsa sér áhrif frá eignarfalli fleirtölu, en þolfallsmyndirnar falla saman við það í framburði ef sérhljóðið styttist. Í þolfallsmyndinni skónna er ekki um að ræða áhrif frá þágufallinu skónum, því að þar er langt sérhljóð, en hugsanlega frá eignarfalli fleirtölu skónna.

Hitt atriðið er hljóðfræðilegs eðlis. Það er þekkt í málsögunni að samhljóð í endingu lengdist á eftir sérhljóðunum á, ó og ú. Venjuleg hvorugkynsending lýsingarorða er -t, eins og í stór-t, væn-t, gul-t, tóm-t; en t-ið tvöfaldast (og verður aðblásið) í há-tt, mjó-tt, trú-tt. Einnig hefur -r lengst við svipaðar aðstæður í beygingu lýsingarorða; við fáum há-rri en ekki hári, mjó-rri en ekki mjóri, trú-rri en ekki trúri. Þetta eru að vísu ævafornar breytingar en þó er freistandi að spyrja hvort framburðarbreytingu þeirra orða sem hér um ræðir megi hugsanlega rekja til hliðstæðra áhrifa þessara sömu hljóða.

Það má vissulega beita ýmsum rökum gegn þessari breytingu. Eitt er það að hún rýfur tengslin milli lauss og viðskeytts greinis. Í þeim lausa er langt sérhljóð og eitt n í þolfalli eintölu kvenkyns og þolfalli fleirtölu karlkyns – myndin er hina í báðum tilvikum. En þótt viðskeyttur greinir sé vissulega kominn af lausum greini sögulega séð eru þau tengsl löngu orðin laus í reipunum og beygingarlegir og setningafræðilegir eiginleikar þessara tveggja tegunda greinis ólíkir á ýmsan hátt. Mér finnst þetta því ekki sterk rök gegn breytingunni.

Annað sem ég hef séð nefnt er hætta á ruglingi vegna þess að umræddar myndir falli í framburði saman við eignarfall fleirtölu sömu orða, eins og hér er áður nefnt. Þetta eru þó ákaflega léttvæg rök. Samfall í beygingarkerfinu er gífurlega mikið án þess að við veitum því athygli hversdagslega eða það trufli okkur á nokkurn hátt. Öll aukaföll veikra karlkynsorða í eintölu eru eins (hani – hana – hana – hana), sama gildir um veik kvenkynsorð (hæna – hænu – hænu – hænu), öll föll veikra hvorugkynsorða í eintölu eru eins (hjarta – hjarta – hjarta – hjarta), o.s.frv. Það samfall sem umrædd breyting myndi valda er því dropi í hafið og veldur engum vandkvæðum.

Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðarmyndir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beygingarmyndir en hér er um að ræða. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að fólk eigi í raun og veru við að því finnist þessar myndir fara illa í öðru samhengi en þeim er ætlað. Flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breytingum sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg tilfinning og ég þykist því vita – og skil vel – að mörgum falli ályktunarorð mín ekki vel í geð.

Hvort fólk vill taka þennan framburð í sátt er að sjálfsögðu mál hvers og eins, en miðað við viðurkennda skilgreiningu, „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“, sé ég ekki hvernig hægt er að telja hann rangan. Í ljósi þess að framburðurinn á sér aldarlanga sögu, er mjög útbreiddur, er hliðstæður breytingum sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viðurkenndar, og veldur engum ruglingi, þá tel ég hann engin alvarleg málspjöll og finnst orku þeirra sem bera hag íslenskunnar fyrir brjósti betur varið í annað en baráttu gegn honum.