Category: „Málvillur“

sitthvor

Fornöfnin hvor og sinn tengjast oft nánum böndum, eru eiginlega eitt tvíyrt fornafn þar sem hvor sambeygist orðinu sem það vísar til en sinn sambeygist orðinu sem það stendur með. Stundum er greint á milli tvenns konar merkingar sambandsins eftir því í hvaða röð orðin standa. Þegar hvor er á undan er talað um eignarmerkingu – „Fóru þá hvorir til skipa sinna“ segir í Heimskringlu. Sé sinn á undan er talað um dreifimerkingu eða deilimerkingu – „Gestur Oddleifsson fór vestan af Barðaströnd og Þorkell Súrsson á sínu skipi hvor þeirra“ segir í Gísla sögu. Í fyrra tilvikinu eiga menn þau skip sem um er að ræða, en í seinna tilvikinu er ekki vísað til eignarhalds, heldur aðeins átt við að þeir fóru ekki á sama skipi.

Þessi greinarmunur er oftast gerður í fornu máli. Í nútímamáli er munurinn líklega flestum málnotendum framandi og báðar raðirnar notaðar í báðum merkingum. Einnig kemur fyrir að hlutverkum sé víxlað þannig að sinn sambeygist orðinu sem það vísar til en hvor orðinu sem það stendur með. Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Ekki mun talið rangt að segja: Þeir fóru sinn í hvora áttina. En best færi: Þeir fóru í sína áttina hvor.“ Í Málfarsbankanum segir: „Orðin hvor og sinn eiga ekki að beygjast saman. Bræðurnir komu hvor á sínum bílnum (ekki: „bræðurnir komu á sitthvorum bílnum“). Börnin hlupu sitt í hvora áttina (ekki: „börnin hlupu í sitthvora áttina“).“

Eins og þessi dæmi benda til renna fornöfnin iðulega saman í eitt – sitthvor. Þessi samruni er mjög algengur – hátt í fimm þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1914. Dæmum fer þó ekki að fjölga að ráði fyrr en eftir 1980, og í Risamálheildinni eru rúm fimm þúsund dæmi. Þegar fornöfnin renna saman í eitt orð er algengast að aðeins seinni hlutinn beygist og hvorugkynsmyndin sitt sé notuð í fyrri hlutanum – þeir / þær / þau eiga sitthvorn bílinn. En einnig er til að fyrri hlutinn taki kynbeygingu – þeir eiga sinnhvorn bílinn / þær eiga sínhvorn bílinn. Þetta er þó mjög sjaldgæft, og dæmum um sinnhvor og sínhvor virðist fara fækkandi – eru tæp 5% af heildinni á tímarit.is en innan við 1% í Risamálheildinni.

En fleiri tilbrigði má finna af þessu sambandi eins og sjá má af næstelsta dæminu um sitthvor sem er úr Iðunni 1919, í grein eftir Ágúst H. Bjarnason prófessor: „En persónugervingar þessir voru svo ólíkir af því, að sitthvort heilakerfið starfaði í sitt hvort sinnið og sitt með hverjum hætti.“ Þarna eru báðir hlutar sambandsins tvíteknir og annar stendur þar sem sinn ætti að vera en hinn þar sem hvor ætti að vera  – hefðbundið mál væri sitt heilakerfið stafaði í hvort sinnið. Nokkur dæmi eru um þetta í Risamálheildinni, t.d. „Halldór segir það vera sérstakt að sitthvor ráðherrann sé með sitthvora stefnuna en þó í sömu ríkisstjórninni“.

Þótt myndin sitthvor njóti ekki fullrar viðurkenningar hefur hún komist inn í orðabækur og kennslubækur – fyrst í bók Jóns Hilmars Jónssonar, Islandsk grammatikk for utlendinger, árið 1984 þar sem hún er nefnd án nokkurra athugasemda. Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 eru myndirnar sinnhvor, sínhvor og sitthvor þrjár sjálfstæðar flettur – sú fyrstnefnda merkt sem óformlegt mál en hinar sem mál sem nýtur ekki fullrar viðurkenningar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er aðeins sitthvor gefið og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. En í ljósi aldurs og tíðni orðsins sitthvor er kominn tími til að viðurkenna það að fullu sem eðlilegt og rétt mál.

Að fara eitthvert

Óákveðin fornöfn með -hver sem seinni lið, einhver og sérhver, hafa tvær mismunandi myndir í nefnifalli og þolfalli hvorugkyns eintölu – eitthvert, sérhvert og eitthvað, sérhvað. Yfirleitt er gert ráð fyrir að þessar myndir hafi með sér verkaskiptingu, eins og segir í Málfarsbankanum: „Hvorugkyn eintölu eitthvað stendur sjálfstætt en eitthvert stendur með nafnorði.“ Sama gildir um verkaskiptingu sérhvað og sérhvert. Það er að vísu algengt að myndin eitthvað sé notuð með nafnorði, eins og varað er sérstaklega við í Málfarsbankanum: „Hún vann eitthvert verk (ekki: „hún vann eitthvað verk“).“ Þetta er ekki nýtt – í Ritmálssafni Árnastofnunar eru nokkur dæmi um eitthvað með nafnorði allt frá 17. öld.

En einnig er því oft haldið fram að myndin eitthvert sé stundum ranglega notuð, eins og Málfarsbankinn tekur dæmi um: „Hann fór eitthvað annað (ekki: „hann fór eitthvert annað“).“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 kemur einnig fram að rétt sé að segja „Hann er að fara eitthvað út í buskann“ en ekki „Hann er að fara eitthvert út í buskann“. Þetta er ekki heldur nýtt. Elsta dæmi sem ég fann í fljótu bragði um notkun eitthvert með fara er í Bjarka 1899 – „Hún fór eitthvert suðreftir með lestinni“. Í þessum dæmum er myndin eitthvert vissulega notuð sjálfstæð, án þess að standa með nafnorði, sem í fljótu bragði gæti virst vera í andstöðu við þær reglur sem venjulega eru kenndar um verkaskiptingu þessara mynda.

Þarna er þó ekki allt sem sýnist. Eins og fram kemur í orðabókum er orðið hvert ekki bara hvorugkyn af spurnarfornafninu og óákveðna fornafninu hver, heldur líka spurnaratviksorð í merkingunni 'til hvaða staðar', í setningum eins og hvert ertu að fara?. Þegar spurt er með atviksorði er venjulega svarað með atviksorði eða forsetningarlið – ég er að fara heim / niður í bæ / til Akureyrar o.s.frv. Slíkum spurningum er ekki svarað með nafnorði, enda er sögnin fara áhrifslaus og tekur ekki með sér nafnorð. Reyndar er líka hægt að segja hvað ertu að fara? en það er yfirleitt notað í óeiginlegri merkingu, 'hvað meinarðu?' eða eitthvað slíkt.

En þótt spurningunni hvert ertu að fara? sé oft svarað með ég er að fara eitthvert er aldrei hægt að svara spurningum eins og hvað ertu að gera? með *ég er að gera eitthvert – þess í stað verður að segja ég er að gera eitthvað. Öfugt við fara verður gera nefnilega að hafa með sér andlag, og þess vegna er ekki spurt með spurnaratviksorði heldur spurnarfornafni, og þess vegna er líka svarað með fornafni, ekki atviksorði. Þótt eitthvað geti verið andlag getur eitthvert sem stendur eitt og sér ekki verið það, heldur þarf að hafa nafnorð með sér, t.d. ég er að gera eitthvert skammarstrik.

Þetta sýnir glöggt að enda þótt orðabækur gefi eitthvert eingöngu upp sem hvorugkyn af einhver leikur enginn vafi á því að í samböndum eins og ég er að fara eitthvert er það atviksorð en ekki fornafn. Það segir sig eiginlega sjálft að spurningum með spurnaratviksorði er svarað með atviksorði, ekki fornafni. Reglan um að eitthvað standi sjálfstætt en eitthvert standi með nafnorði á því einfaldlega ekki við í dæmum eins og ég er að fara eitthvert – hún tekur til fornafna, en eitthvert er atviksorð þarna og staðaratviksorð geta vitanlega staðið sjálfstæð. Það er athyglisvert að í Íslenskri stafsetningarorðabók er eitthvað gefið upp sem atviksorð, með notkunardæminu fara eitthvað.

Það er vandséð annað en eðlilegt sé að greina eitthvert sem atviksorð í þessari notkun fyrst eitthvað er greint þannig. Vilji fólk amast við setningum eins og fara eitthvert með þeim rökum að atviksorðið eitthvert sé „ekki til“ verður ekki séð á hverju það byggist. En það er líka hægt að segja ég er að fara eitthvað, í u.þ.b. sömu merkingu – þótt fornöfnin eitthvað og eitthvert hafi með sér verkaskiptingu gildir það ekki um samhljóða atviksorð. Öfugt við það sem Málfarsbankinn og Gætum tungunnar segja er því ekkert athugavert við setningar eins og ég er að fara eitthvert – þær eru fullkomlega í samræmi við reglur og hefðir málsins.

Hvorki Kasper né Jesper né Jónatan

Í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar segir: „Sumar fleiryrtar samtengingar eru stundum fleygaðar af öðrum orðum, einu eða mörgum. Þær nefnast fleygaðar samtengingar.“ Björn gerir ráð fyrir fimm fleyguðum aðaltengingum – það eru bæði – og, hvorki – né, annaðhvort – eða, hvort – eða, ýmist – eða. Í Málfarsbankanum segir að bæði – og „aðeins hægt að nota þegar um tvo liði er að ræða“ og annaðhvort – eða „aðeins hægt að nota þegar um tvo möguleika er að ræða“.

Það liggur þó fyrir að flestar þessar tengingar eru iðulega notaðar til að tengja fleiri en tvo liði. Þegar um bæði – og er að ræða eru tveir fyrri liðirnir þá stundum ótengdir hvor á eftir öðrum, með kommu á milli í rituðu máli, en og kemur á undan síðasta liðnum – ég keypti bæði appelsínur, epli og banana. En einnig er hægt að tvítaka og, hafa það bæði á undan öðrum og þriðja lið. Um það eru fjölmörg dæmi þegar í fornu máli – í Heimskringlu segir t.d. „Jómsvíkingar börðust bæði hraustlega og djarflega og snarplega“.

Ekki nóg með það, heldur er hægt er að bæta fleiri liðum við með því að hafa og á undan hverjum þeirra. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir t.d. „hann var bæði sterkur og stórvirkur og umskiptasamur og illskiptinn“ og í Heimskringlu segir „Var skipið bæði langt og breitt og borðmikið og stórviðað“. Ég veit ekki hvaða efri mörk eru á fjölda liða sem hægt er að tengja saman á þennan hátt, en í grein eftir Pétur Gunnarsson rithöfund í Morgunblaðinu 2007 segir: „En vonandi verður þá bæði skrifað og spilað og leikið og málað og ort.“ Þetta er fullkomlega eðlileg setning þótt þarna séu fimm liðir tengdir saman og og fjórtekið.

Sama gildir um annaðhvort – eða. Það er enginn vandi að nota þá tengingu til að tengja fleiri en tvo liði með því að endurtaka eða á undan hverjum lið. Eitt slíkt dæmi er að finna í Grettis sögu: „Leitaði hann allra bragða nú að stíga yfir Gretti, annaðhvort með harðfengi eða brögðum eða á hvern hátt er hann gæti það gert.“ Í Risamálheildinni eru yfir 300 dæmi um tvítekningu eða, þ. á m. úr formlegum yfirlesnum textum eins og Alþingisræðum, lagatextum og Hæstaréttardómum.

Fáein dæmi eru um að eða sé þrítekið, eins og í ræðu á Alþingi 2004: „þá var bent á nokkrar leiðir sem væru hyggilegar fyrir þessar stofnanir, annaðhvort aukin samvinna eða sameiginleg yfirstjórn eða óbreytt ástand eða allsherjarsameining í eina stofnun“. Ég hef hins vegar ekki fundið nein dæmi um fjórtekið eða með annaðhvort, en slík dæmi finnast um ýmist – eða, t.d. í Morgunblaðinu árið 2000: „þeir gera mig ýmist leiðan eða áhyggjufullan eða reiðan eða graðan eða einmana“.

Ekki nóg með það. Sama gildir um hvorki – né – það er hægt að tengja fleiri en tvo liði saman með því að endurtaka . Í Heimskringlu segir t.d. „hann vill hvorki korn né malt né mjöl þaðan í brott láta“. Í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk á söng ræningjanna í Kardimommubænum segir: „Þó tökum við aldregi of eða van, hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.“ Það eru líka dæmi um þrítekningu : Í Prédikaranum í Biblíunni segir „í dánarheimum, þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska“.

Það er því ljóst að á öllum tímum hafa fleyguðu aðaltengingarnar verið notaðar til að tengja fleiri en tvo liði. Í nútímamáli má finna dæmi um að þetta sé gert í formlegum textum og í verkum virtra rithöfunda. Þetta er fullkomlega eðlilegt mál sem engin ástæða er til að amast við.

Að versla sér mat

Sögnin versla er með algengari sögnum málsins. Í orða­bókum um nútímamál er hún skýrð 'kaupa og selja; eiga í viðskiptum', en í Íslenskri orðabók er reyndar bætt við merkingunni 'gera innkaup' og dæminu „versla ‹sér› e-ð“ en það er merkt með !? sem merkir að það njóti ekki fullrar viðurkenningar. Það fellur vel að því sem segir í Mál­farsbankanum: „Mælt er með því að segja: kaupa inn, kaupa vörur, kaupa sér vörur. Síður: „versla inn“, „versla vörur“, versla sér vörur“. Hins vegar: versla með vörur, versla við einhvern." En ýmsar forvitnilegar breytingar hafa orðið á hegðun sagnarinnar á síðustu 100-150 árum.

Á 19. öld tók sögnin oft andlag, en það var í þágufalli en ekki þolfalli. Í Íslenzkum sagnablöðum 1817 segir: „Einn­ig skal þad leifiligt skipum þeim er med leidibréfi koma tilbaka frá Stórbretalandi ad verzla vörum þeim er þau hafa medferdis.“ Í Austra 1886 segir: „Í bænum Caen í Normandíi er stórt torg sem ungar stúlkur sækja til, er þær vilja verzla hárinu í peninga.“ Yngstu dæmi sem ég hef fundið um versla með þágufallsandlagi eru frá fyrstu áratugum 20. aldar, þ. á m. „Mamma! heldur þú að þú vildir versla ullinni minni fyrir mig?“ í Hlín 1927.

Svolítið annars eðlis eru dæmi úr Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta: „Ég átti að láta versla mér burt fyrir silfur og gull og nokkur hundruð í jörðum!“, og úr Upp við fossa eftir Þorgils gjallanda: „Keypti ær fyrir hey­verð­ið frá Brandi og verslaði öllu, sem hann komst yfir, til fjárkaupa. “ Í þessum dæmum merkir sögnin ekki 'kaupa og selja', heldur ein­ungis 'selja'. Þetta samræmist skýr­ingum sagnarinnar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem bæði er gefin merkingin 'handle, drive Handel' og „v[ersla] e-u, handle med n-t, sælge n-t“. Þó er alltaf miklu algengara að sögnin taki með sér for­setningarlið – versla með (eitt­hvað) eða versla við (ein­hvern).

Vissulega má benda á að langt fram eftir 19. öld var nánast eingöngu um vöruskiptaverslun að ræða – fólk lét af hendi einhverjar vörur en fékk aðrar í staðinn. Þannig má segja að þegar talað er um að versla vörum sé hvor aðili um sig bæði kaupandi og seljandi, og því mætti halda fram að sögnin merki þarna 'kaupa og selja', ekki bara 'selja'. En það er samt greinilegt að í dæmunum hér að framan er alltaf horft á viðskiptin frá sjónarhóli selj­and­ans, og stundum kemur líka fram að ekki er um vöruskipti að ræða, eins og þegar talað er um að „verzla hárinu í peninga“. Það er því eðlilegt að líta svo á að í um­ræddum dæmum hafi versla merkinguna 'selja'.

Setningagerðirnar sem Málfarsbankinn telur óæskilegar, versla inn, versla vörur, versla sér vörur, og einnig t.d. versla í matinn, virðast vera frekar nýtilkomnar, og elstu dæmi sem ég finn um þær allar eru frá svipuðum tíma, kringum 1980, en dæmum fjölgar mjög ört. Í Lyst­ræningjanum 1977 segir „Konan elskar semsé að versla sér tuskur.“ Í Vikunni 1978 segir „Við ferðumst mjög mikið, verslum inn frá Frakklandi, Ítalíu, Finnlandi, Dan­mörku, Englandi, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Hol­landi.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir „Hann er t.d. [...] að verzla í matinn.“ Í Morgunblaðinu 1981 segir „Nú getur fólk komið í Sýningahöllina og verslað vörur á hlægilega lágu verði.“

Þarna koma fram bæði setningafræðilegar og merk­ingar­legar nýjungar. Sögnin er aftur farin að taka með sér and­lag, nú í þolfalli – versla vörur. Hún getur meira að segja tekið tvö andlög, þágufall og þolfall – versla sér vörur. Þar að auki getur hún nú tekið með sér atviksorðið (ögn­ina) inn. Merkingarlega nýjungin er sú að í þessum dæm­um merkir versla ekki 'selja', og ekki heldur 'kaupa og selja', heldur bara 'kaupa'. Það er samt ekki svo að amast sé við öllum dæmum um að versla merki 'kaupa'. Þegar ég segist versla við einhvern eða versla hjá einhverjum er ég að kaupa eitthvað, ekki selja, og sama gildir þegar ég segist vera að fara að versla.

Það er því ljóst að ýmis tilbrigði hafa verið í notkun sagn­ar­innar versla, bæði setningagerð og merkingu – á 19. öld tekur hún stundum með sér þágufallsandlag og merkir 'selja', á 21. öld tekur hún stundum með sér þolfallsandlag og merkir 'kaupa'. Fólk verður svo sjálft að gera upp við sig hvaða skoðun það hefur á versla (sér) vörur, versla inn og versla í matinn. Það er komin a.m.k. 40 ára hefð á þessa notkun sagnarinnar, hún er mjög al­geng, og veldur varla misskilningi. Vilji fólk frysta íslenskuna eins og hún var um miðja 20. öld eða fyrr er svo sem hægt að ergja sig á þessu, en þetta eru engin málspjöll.

Á fyrsta maí

Þegar talað er um að eitthvað hafi gerst tiltekinn hátíðis- eða merkisdag er oftast notuð forsetningin á þetta gerðist á aðfangadag / á nýársdag / á skírdag / á annan í hvítasunnu / á þjóðhátíðardaginn o.s.frv. Þegar vísað er til tiltekinnar dagsetningar er aftur á móti ekki notuð forsetning, heldur er dagsetningin höfð í þolfalli (svokölluðu tímaþolfalli) – þetta gerðist tuttugasta desember / þrettánda mars / þriðjudaginn fyrir páska o.s.frv. Það hljómar undarlega að segja þetta gerðist á tuttugasta desember / á þrettánda mars / á þriðjudaginn fyrir páska o.s.frv.

Sama gildir yfirleitt ef við vísum til hátíða og merkisdaga með dagsetningu – við segjum þetta gerðist tuttugasta og fjórða desember / fyrsta janúar en ekki á tuttugasta og fjórða desember / á fyrsta janúar. En þetta er þó ekki algilt. Í Vísi 1957 segir „Á morgun munu kommúnistar vafalaust þruma yfir landslýðnum eins og venjulega á 1. maí“, í Þjóðviljanum 1948 segir „Kunnugur segir mér, að í fyrra (á 17. júní) hafi gróður þarna verið eyðilagður svo nemur tugum þúsunda að vinnuverðmæti“, og í Speglinum 1952 segir „Fyrst var landhelgissérfræðingur vor, dr. Gunnlaugur Þórðarson, fenginn til að tala á 1. des. um sérgrein sína, en svo hvarf hann af dagskrá“.

Það virðist þó ekki hafa orðið algengt fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að segja á fyrsta maí, á sautjánda júní og á fyrsta desember, og þá var farið að amast við þessu og segja að dagsetningar ættu ekki að taka með sér forsetninguna á. Gísli Jónsson tók þetta oft fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og sagði t.d. í þætti 1990: „Við skulum reyna að halda tímaþolfallinu sautjánda júní, fyrsta desember og fyrsta maí forsetningarlausu. Það er sígilt, gott og sómasamlegt mál.“ Því hefur jafnvel verið haldið fram að þetta séu ensk áhrif. En þetta er misskilningur – þarna er ekki um að ræða venjulegar dagsetningar.

Þótt þessir merkisdagar hafi opinbert heiti eins og baráttudagur verkalýðsins, þjóðhátíðardagurinn og fullveldisdagurinn er dagsetningin samt helsta einkenni þeirra. Hún verður því ígildi heitis og þess vegna er eðlilegt að hún taki með sér forsetninguna á eins og heiti annarra hátíðis- og merkisdaga. Þegar umræddar dagsetningar eru notaðar eins og hverjar aðrar, án sérstakrar tilvísunar til þess sem gerir þær sérstakar, taka þær ekki með sér á. Þótt hægt sé að segja ég fór í kröfugöngu á fyrsta maí yrði síður sagt ég á afmæli á fyrsta maí. Í fyrra tilvikinu tengist athöfnin því sem gerir fyrsta maí að sérstökum degi, en í seinna tilvikinu ekki og þess vegna er mun óeðlilegra að hafa á þar.

Stundum er líka talað um þjóðhátíðardaginn sem sautjándann – Gísli Jónsson kallaði það „lágkúrulegt málfar“ í Morgunblaðinu 1991. Það er þó löng hefð fyrir því að tala um þrettánda dag jóla sem þrettándann, með greini – í Fjölni 1838 segir t.d. „Að vísu gjörði um þrettándann fádæma hörkur og harðviðri“. Það var því viðbúið og eðlilegt að fljótlega eftir að 17. júní varð þjóðhátíðardagur Íslendinga væri farið að tala um sautjándinn – elsta dæmi sem ég finn um það er fyrirsögnin „Sautjándinn í Eyjum“ í Alþýðublaðinu 1962. Mér finnst það miklu fremur kumpánalegt en lágkúrulegt og sýna að þjóðhátíðardagurinn er ekki fyrir einhverja útvalda heldur eign okkar allra.

Það er því ekkert athugavert við að segja að eitthvað hafi gerst á fyrsta maí eða á sautjándanum – bæði notkun forsetningarinnar á með áðurnefndum merkisdögum og heitið sautjándinn á þjóðhátíðardeginum á sér skýrar hliðstæður í málinu.

Keyptu þetta

Flestum hefur væntanlega verið kennt að boðháttur sagnarinnar kaupa kauptu, ekki keyptu. Á þessu hefur verið hnykkt í ótal málfarsþáttum áratugum saman – elsta dæmi sem ég hef séð um það er frá 1940 í ritdómi um þýdda bók, þar sem segir „Óviðfelldið er þó að sjá boðhátt sagharinnar að kaupa „keyptu“ [...] fyrir kauptu“. Í Málfarsbankanum segir: „Bh. et. kauptu (ekki „keyptu“).“ Þetta er líka í fullu samræmi við það að boðháttur er venjulega myndaður af nafnhætti – far-ðu, kom-du, les-tu, kalla-ðu o.s.frv., og nafnháttur sagnarinnar er kaupa, ekki *keypa. Þarf þá frekari vitnanna við? Er málið ekki útrætt?

Ekki alveg. Sá mikli málvöndunarmaður Gísli Jónsson taldikauptu og keyptu væri jafnrétt. Það byggði hann á þeirri skoðun annars ekki síðri málvöndunarmanns, Halldórs Halldórssonar prófessors, að til hefðu verið tvær sagnir sömu eða svipaðrar merkingar, kaupa, þátíð kaupaði, og keypa, þátíð keypti. Þær hefðu síðan runnið saman og eftir stæði nútíðin af kaupa en þátíðin af keypa – og boðháttur beggja. Það mælir reyndar gegn þessari skýringu að myndin keyptu virðist ekki koma fyrir á tímarit.is fyrr en um 1900 en kauptu er algeng á 19. öld. Því hefði keyptu orðið að varðveitast lengi í málinu, jafnvel öldum saman, án þess að komast á prent. Það er ekki útilokað, en ekki mjög líklegt.

Þótt elstu dæmi sem ég fann um boðháttinn keyptu á tímarit.is séu frá upphafi 20. aldar er elsta þekkta dæmi um hann frá seinni hluta 17. aldar. Í Heimskringlu 1901 segir „Komdu og keyptu blóm handa henni“ og í Kvennablaðinu sama ár segir „Ó, keyptu eitt handa mér“. Örfá dæmi sjást á prenti næstu áratugina en upp úr 1940 fara að birtast í blöðum athugasemdir við myndina keyptu sem benda til þess að hún sé þá orðin nokkuð útbreidd. Í Þjóðviljanum 1960 segir Árni Böðvarsson: „Algengasta boðháttarmyndin sunnanlands - og sjálfsagt víðar – er „keyptu þetta eða hitt“.“ Í textum frá 2001-2020 á tímarit.is og í Risamálheildinni er hlutfall keyptu þér á móti kauptu þér u.þ.b. 2:3. Þar er aðallega um að ræða prófarkalesna texta þannig að hlutfallið í talmáli er væntanlega talsvert hærra.

Sé ekki gert ráð fyrir að til hafi verið sögnin keypa er líklegast að boðhátturinn keyptu sé leiddur af þátíð sagnarinnar. Það eru til fleiri dæmi um að boðháttur virðist leiddur af þátíð fremur en nafnhætti – dæmi finnast um ork-tu í stað yrk-tu af yrkja, sót-tu í stað sæk-tu af sækja, stud-du í stað styd-du af styðja, o.fl. En þótt boðhátturinn sé vissulega yfirleitt leiddur af nafnhætti er það alls ekki svo að sú myndun sé alltaf regluleg. Boðháttur af ganga er t.d. gakk-tu, ekki *gang-du eða *gang-tu, boðháttur af standa er stat-tu, ekki *stan(d)-tu, o.s.frv. Það er því ekki hægt að halda því fram að vegna þess að nafnhátturinn er kaupa komi ekki annar boðháttur til greina en kauptu – venslin milli nafnháttar og boðháttar eru flóknari en svo.

Boðhátturinn keyptu er meira en 300 ára gamall og mjög útbreiddur á seinni árum, jafnvel álíka útbreiddur og kauptu. Meira en 80 ára barátta gegn honum hefur engu skilað – hann verður sífellt algengari. Hér er rétt að minna á viðurkennda skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem var sett fram í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Það er enginn vafi á því að boðhátturinn keyptu er málvenja stórs hóps málnotenda, jafnvel helmings þeirra. Því er algerlega fráleitt að kalla hann „rangt mál“ – eins og Gísli Jónsson sagði fyrir 36 árum er kauptu og keyptu jafnrétt.

Gæði

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun orðsins gæði. Gísli Jóns­son sagði t.d. eitt sinn í þætti sínum um íslenskt mál í Morg­un­blaðinu: „Gæði eru gæði og geta, eðli sínu samkvæmt, ekki verið léleg, vond eða ill. Hins vegar getur varan, af­urð­irnar verið lélegar. Gæði geta verið mikil eða lítil eftir atvikum, en aldrei vond.“ Í Mál­farsbankanum segir: „Athuga muninn á merkingu ís­lenska orðsins gæði (skylt góður) og erlendu orðanna kvalitet, quality o.s.frv. sem borið geta fremur hlutlausa merkingu: eiginleikar. Í íslensku er unnt að tala um góða eiginleika en illa er talið fara á orðalaginu „góð gæði“ og „léleg gæði“. Fremur: mikil gæði, lítil gæði.“

Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 er ein skýring orðsins gæði einmitt 'Kvalitet'. En það er dálítið varasamt að leggja of mikla áherslu á hvað sé „rökrétt“ merking í orðinu gæði út frá lýsingarorðinu góður – líta svo á að gæði hljóti alltaf að fela í sér eitthvað „gott“. Er t.d. rétt að lýsa mikilli svifryksmengun sem litlum loftgæðum? Felst ekki í því að þar séu samt sem áður einhver loftgæði, þótt þau séu vissulega lítil? En er ekki málið að þarna eru engin gæði?

Það er vissulega hægt að tala um góða eiginleika eins og Málfarsbankinn segir, en því fer fjarri að orðið eigin­leikar geti alltaf komið í staðinn fyrir gæði. Það er t.d. ekki hægt að lýsa litlum loftgæðum með því að tala um *litla / *lélega / *vonda eiginleika loftsins. En greinilegt er að mjög mörgum finnst eðlilegt að nota orðið gæði á hlut­lausan hátt í merkingunni 'eigin­leikar'. Þannig eru 307 dæmi um léleg gæði á tímarit.is, það elsta frá 1943, og 152 í Risamálheildinni. Tengingin við góður virðist þó skipta máli í huga málnotenda – jákvæð lýsingarorð eru margfalt oftar notuð með því en neikvæð.

Þannig eru meira en 10 sinnum fleiri dæmi um mikil gæði en lítil gæði í Risamálheildinni, og sárafá dæmi eru um vond gæði, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Fjöldi dæma er aftur á móti um góð gæði, en það er athyglisvert að þær myndir þar sem stofninn er annar, miðstigið betri og efsta stigið bestur, virðast mun frekar standa með gæði en frum­stigið góður, sem bendir til þess að nástaðan góð- gæð- trufli málnotendur eitthvað. Þó má minna á að Jónas Hall­grímsson orti um „gæðakonuna góðu“ þann­ig að sú teng­ing hindrar ekki alltaf nástöðu þessara til­brigða. Elsta dæmi um bestu gæði er í Iðunni 1860 – „Þeir sem koma frá Mekka og hafinu rauða flytja með sjer ind­versk­ar vör­ur og beztu gæði Arabalands“.

Orð hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim, óháð uppruna. Það er enginn vafi á því að í máli mjög margra hefur orðið gæði hlutlausa merkingu, óháð lýs­ing­arorðinu góður, og fyrir slíku eru fjölmörg fordæmi. Fólk sem notar orðið þannig getur talað um léleg gæði, vond gæði, frábær gæði o.s.frv. Það er málvenja mjög margra, og fráleitt að kalla það rangt mál. Það getur ekki held­ur misskilist. Hins vegar getur sumum vitanlega fund­ist fara illa á því að tala um góð gæði og léleg gæði eins og segir í Málfarsbankanum. Það er smekksatriði sem hver málnotandi verður að meta fyrir sig.

afþíða

Sögnin afþíða (afþýða) er einkum notuð um ísskápa og merkir sama og affrysta, þ.e. slökkva á frystingunni til að losa klaka og hrím í skápnum; og svo um frosin matvæli, í merkingunni 'láta þiðna'. Elstu dæmi sem ég finn um sögnina eru frá 1965. Það liggur beint við að álykta að hún hafi orðið til við samslátt sagnanna þíða og affrysta – sú síðarnefnda virðist vera um áratug eldri og hafði því ekki fest sig mjög í sessi þegar afþíða kom til.

Stundum hefur verið amast við þessari sögn í málfarspistlum og hún kölluð „ómynd“. Sumum finnst sögnin órökrétt, því að hún „ætti að“ merkja andstæðuna við þíða í stað þess að vera sömu merkingar. Vissulega eru dæmi um að af virki þannig – afferma er andstæða við ferma. Þess eru þó dæmi að orð hafi sömu merkingu með og án af, eins og læsa og aflæsa. En eins og margoft hefur verið lögð áhersla á er málið ekki alltaf „rökrétt“.

Á tímarit.is er að finna um 350 dæmi um afþíða (eða afþýða). Í öllum nema fimm hefur sögnin merkinguna 'affrysta, láta þiðna' – og þessi fimm eru úr málfarsþáttum þar sem verið er að amast við sögninni. Það er því augljóst að sögnin afþíða merkir 'affrysta, láta þiðna' og hefur aldrei merkt neitt annað hvað sem einhverjum kann að þykja „rökrétt“. Það væri fráleitt að nota þessa sögn í þveröfugri merkingu.

En það er athyglisvert að dæmin um afþýða á tímarit.is eru álíka mörg og um afþíða. Nú er vissulega algengt að sögnunum þíða og þýða sé ruglað saman í riti, en ég er samt nokkuð viss um að hlutfall afþýða á móti afþíða er margfalt hærra en hlufall þýða á móti þíða í merkingunni 'láta þiðna'. Það gæti bent til þess að málnotendur tengi afþíða/afþýða ekki sérstaklega við þíða, heldur skynji hana sem sérstaka sögn sem sé þá ekki bundin af þíða um það hvort hún sé rituð með í eða ý.

Samtengingar með og án að

Smáorðið er hluti ýmissa íslenskra samtenginga, en það er þó misvel séð. Í Málfarsbankanum segir: „Mælt er með eftirfarandi samtengingum, a.m.k. í rituðu máli (og formlegu tali): ef, hvort, sem. Síður: „ef að“, „hvort að“, „sem að“. Aftur á móti eiga tengingarnar: því að, þó að, svo að ávallt vel við og hafa verið taldar vandaðra mál en „því“, „þó“, „svo“.“ En á hverju byggist það að líta með velþóknun á í sumum tengingum en hafa horn í síðu þess í öðrum? Þær myndir tenginganna sem taldar eru óæskilegri eru sannarlega ekki nýjar.

Lítum fyrst á dæmi þar sem er sleppt. Í Fjölni 1835 segir: „Hundurinn bar sig illa og íldi, af því hann var óvanur þessari meðferð.“ Í Skírni 1830 segir: Nikulás Rússakeisari lét ekki lengi frýa sér hugar, því hann þóktist hafa nóg efni til stríðs fyrir laungu.“ Í Skírni 1832 segir: „Konúngr er jafnan lítt við heilsu, þó hann sé úngr að aldri.“ Í Skírni 1837 segir: Forseti Þjóðveldanna, Jakkson, er nú orðinn gamall, og hefir verið lengi veikur af blóðspýu, svo hann hefir stundum naumast getað sinnt stjórnarefnum.“

Sama er að segja um tengingar þar sem er bætt við. Í Fjölni 1830 segir: „Honum fannst, eínsog sér mundi verða glatt og létt í huga, ef að þessi eíni maður væri frá.“ Í Fjölni 1835 segir: „Það eru eptirleífar mikillar dýraættar, sem að er áþekk skorkvikindum og miklu fremri að sköpulagi enn lindýrin.“ Í Fjölni 1847 segir: „jeg ... veit ekki, að kalla má, enn sem komið er, hvort að jeg fyrir nokkurn hlut megi teljast dugandi bónda-efni.“ Í Þjóðólfi 1850 segir: „Ef menn spyrja nú að því, hvernig kjósendurnir eigi að fá vissu sína um það, hvort að þeir menn, sem þeim leikur helzt hugur á að kjósa …“

En er oft bætt við fleiri tengingar en þær sem eru taldar í upphafi. Í Skírni 1868 segir: „Ráðherrann ... kvaðst eigi vilja standa fyrir hermálunum, nema að hann ljeti prússneska manninn fara úr þeirri þjónustu.“ Í Fjölni 1835 segir: „Jafnvel þótt að margar góðar og nytsamar bækur séu til á íslenzku, þá er samt hitt miklu fleira, sem enn er óskrifað um.“ Í Þjóðólfi 1853 segir: „Fyrst að hann nú játar sjálfur, að hann hlaupi yfir á því vaðinu, sem kennt er við hunda …“ Í Ísafold 1898 segir: „Sissener var ekki heima, þegar að ég kom, en hann kom heim nokkru áður en ég fór.“ Sjálfsagt mætti bæta einhverjum tengingum við þessa upptalningu.

Það er því ljóst að a.m.k. 200 ára hefð er fyrir flestum þeim afbrigðum sem þykja síðri en hin. Ég verð að játa að ég átta mig ekki á því hvers vegna á stundum að vera hluti samtengingar en stundum ekki. Mér þykir líklegt að æskilegri afbrigðin séu talin eldri, en í fornu máli standa þó því, þó og svo stundum án – hitt er mjög sjaldgæft að sé bætt við. En það er ljóst að mjög langt er síðan þetta fór að riðlast, eins og sést á dæmunum hér að framan sem öll eru síðan á 19. öld og mörg hver úr Fjölni sem venjulega hefur fremur þótt til fyrirmyndar um málfar en hitt.

Ég veit ekki hvort áðurnefndar reglur eru enn kenndar í skólum, en sé svo finnst mér það ástæðulaust – þær eiga sér enga stoð í málkerfinu. Að því marki sem nútíma málnotendur hafa tilfinningu fyrir því hvenær á að vera með og hvenær ekki held ég að sú tilfinning sé tillærð en ekki komin til á máltökuskeiði – a.m.k. er það þannig hjá mér. Ég lærði reglurnar í skóla á sínum tíma og þær festust svo í mér að ég skrifa alltaf sjálfkrafa á eftir því, þó og svo, en aldrei á eftir ef, hvort og sem – en í töluðu máli sleppi ég -inu hins vegar oftast á eftir fyrrnefndu tengingunum, en nota það iðulega á eftir þeim síðarnefndu, einkum sem.

Fyrir löngu síðan

Atviksorðið síðan er iðulega notað með forsetningunni fyrir í ýmsum samböndum sem vísa til tíma – fyrir löngu síðan, fyrir mörgum árum síðan, fyrir tveimur dögum síðan o.s.frv. Þessi sambönd eru gömul í málinu – hafa tíðkast a.m.k. síðan á 18. öld. Þrátt fyrir það er oft amast við þeim og Málfarsbankinn segir t.d.: „Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.“ Ástæðan fyrir andstöðu við við síðan í þessum samböndum er sögð sú að það sé komið úr dönsku, t.d. for mange år siden, og „óíslenzkulegt“ og því „ekki nothæft orðalag í vönduðu íslenzku máli“.

Langt er síðan farið var að amast við þessu. Jón Þórarinsson segir í Skólablaðinu 1909: „Fyrir skömmu, fyrir löngu, fyrir öndverðu o.s.frv. – er íslenska, góð og gild. En nú er farið að segja: fyrir skömmu síðan, fyrir löngu síðan; og þá að líkindum: fyrir öndverðu síðan. Þetta er Danska eða Dönsku-sletta. Kennararnir eru að basla við að þvo hana af móðurmálinu okkar og í heimahúsum er varað við þessu mállýti; en hinn lærði Doktor, Jón Þorkelsson segir í ræðu á þjóðminningardegi Reykvíkinga: »Fyrir frekum mannsaldri síðan var allur þorri húsa hjer svartur fyrir tjöru, og bærinn yfrleitt ófagur.« Þetta Danska »síðan« skartar illa innan um fornyrðin og þá ómenguðu íslensku, sem Doktornum annars er svo töm.“

Þessi notkun síðan kemur ekki fyrir í fornu máli og það er örugglega rétt að hún er komin úr dönsku, en hún er samt skiljanleg og eðlileg út frá öðrum íslenskum orðasamböndum. Við segjum það er langt síðan, það eru mörg ár síðan o.s.frv., og þar er ekki hægt að sleppa síðan. Aldrei er amast við slíkum samböndum svo að ég viti, þrátt fyrir að þau komi ekki heldur fyrir í fornu máli, og þrátt fyrir að þau eigi sér einnig hliðstæður í dönsku – det er længe siden, det er mange år siden o.s.frv. Vissulega má til sanns vegar færa að síðan sé „óþarft“ í samböndum með fyrir, en það er óskaplega varasamt að tala um „óþörf“ orð. Orðið síðan er auðvitað rammíslenskt, og áðurnefnd sambönd með því hafa fyrir löngu síðan unnið sér hefð.

Hvorki danskur uppruni né meint „þarfleysi“ orðsins breytir neinu um það. Á tímarit.is er á áttunda þúsund dæma um fyrir löngu síðan og 32 þúsund dæmi um fyrir x árum síðan. Það væri fráleitt að ætla sér að útrýma þessum samböndum úr málinu. Vitanlega er líka hægt að sleppa síðan, og oft gert, og vitanlega getur sumum fundist fara betur á því (hvort sem það er upprunaleg máltilfinning eða runnið frá því sem fólki hefur verið kennt). En aðalatriðið er að það eru engin rök fyrir því að fyrir löngu, fyrir fjórum árum o.s.frv. sé á einhvern hátt réttara eða vandaðra mál en fyrir löngu síðan, fyrir fjórum árum síðan o.s.frv. Hvort tveggja er góð og gild íslenska og hefur verið það lengi.